Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 15:55:00 (2347)

1999-12-06 15:55:00# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[15:55]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki náttúrlega ekki hvað hæstv. ráðherra félagsmála eða aðrir hv. þingmenn hafa haldið að héngi á spýtunni. Menn eiga að lesa frv. og sjá hvað verið er að gera. Ég fullyrði að það er alls ekki verið að veikja þessa stofnun. Það er misskilningur.

Varðandi þá gagnrýni sem hér hefur komið fram á að stofnunin sé ekki lengur sjálfstæð og að hún eigi að vera á forræði einhvers ráðuneytis, þá er einfaldlega verið að vinna eftir þeim tillögum eða ábendingum sem komu frá ríkisendurskoðanda fyrir þremur árum þegar hann gerði stjórnsýsluúttekt á þessari stofnun. Þá lagði ríkisendurskoðandi til að stjórnsýslulegri stöðu Byggðastofnunar yrði breytt þannig að stjórnsýslusambandi yrði komið á milli ráðherra og stofnunarinnar. Það er einfaldlega verið að gera það og þetta tal um sjálfstæði Byggðastofnunar er bara út í hött að mínu viti því að Byggðastofnun getur ekki verið neitt sjálfstætt apparat, eitthvert ríki í ríkinu. Hún verður auðvitað að vinna í nánu sambandi við stjórnvöld. Öðruvísi nær hún engum árangri.

Hér var aðeins rætt um staðsetningu Byggðastofnunar. Það er tekið fram í frv. að ráðherra geti ákveðið það. Það er vegna þess að uppi hefur verið ágreiningur þegar ríkisstofnanir hafa verið fluttar út á land, hvort það væri heimilt. Þegar við fluttum t.d. þróunarsvið Byggðastofnunar til Sauðárkróks, þá var það gagnrýnt og sagt að það stæðist ekki lög. Hér er einfaldlega verið að setja í lög að það megi.

Ég vil svo fagna þessum áhuga nýs þingmanns Samfylkingarinnar á byggðamálunum. Samfylkingin hefur skilað auðu í byggðamálum frá því að hún varð til á síðasta vetri. Ég minni á að þegar þál. um byggðamál var samþykkt í vor, sem flestir telja að sé einhver merkilegasta tilraun sem gerð hefur verið á þingi í háa herrans tíð til að snúa þróuninni við, þá skilaði Samfylkingin auðu. Ekki einn einasti þingmaður hennar samþykkti þessa tillögu heldur sátu þeir hjá. Sama virðist vera að gerast núna varðandi Fljótsdalsvirkjun sem flestir telja að sé stærsta hagsmunamál landsbyggðarinnar eða einstaks landshluta í háa herrans tíð og verði til þess að lyfta Austurlandi upp úr þeim lágu launum sem þar eru og fólksflóttanum. Hvað er að gerast þar? Þingmenn Samfylkingarinnar tala út og suður og maður áttar sig ekkert á því hvað þeir ætla að gera. Helst skilst mér að þeir ætli að sitja hjá. Að vísu hefur þessi ágæti hv. þm. sagt annað og ég sé bara ekki að hann eigi heima í Samfylkingunni með þær áherslur sem hann hefur í byggðamálum.