Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 17:53:31 (2375)

1999-12-06 17:53:31# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[17:53]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Þó að ég vitnaði í stjórnsýsluendurskoðun Ríkisendurskoðunar á Byggðastofnun þá var ég alls ekki að halda því fram að Ríkisendurskoðun ætti að stjórna eða ráða þessum málum. Ég er alveg sammála hv. þm. í því að það er auðvitað tekin pólitísk ákvörðun um það. En það þarf að koma fram við þessa umræðu að þetta var ein af ábendingum Ríkisendurskoðunar og ein af þeim athugasemdum sem hún gerði við starfsemi og störf Byggðastofnunar.

Varðandi stjórnsýslulega stöðu þá hef ég aldrei skilið þessa miklu áherslu sem menn vilja leggja á sjálfstæði Byggðastofnunar. Ég hef ekki orðið var við það í þessi fjögur, fimm ár sem ég hef verið þar í stjórn að neitt reyndi á það eða það hefði neitt að segja. Þetta er bara orð í núverandi lögum sem skiptir ekki nokkru einasta máli því að Byggðastofnun verður aldrei neitt ríki í ríkinu og getur ekki neitt nema að vera í öflugu og góðu sambandi við stjórnvöldin í landinu. Ég held að það sjái allir að þetta er eitt af þeim verkfærum sem stjórnvöld hafa í þessum málaflokki. Hvort það stendur í lagatexta að þetta sé sjálfstæð stofnun eða sérstök stofnun skiptir ekki nokkru einasta máli.

Ég er svo að sjálfsögðu gjörsamlega ósammála því að frv. sé nokkur bastarður. Ég held að þetta sé bara hið ágætasta frv. og ég er sannfærður um að verið er að efla Byggðastofnun en ekki veikja hana með þessari breytingu.