Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 18:33:48 (2385)

1999-12-06 18:33:48# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[18:33]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Nei, það vissi ég ekki vegna þess að ég sá að formaður sendinefndar Íslands hjá EFTA, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, er kominn heim. (Forsrh.: Hann er kominn heim að ósk minni út af ...) Að sjálfsögðu gerði hann það, þ.e. að ósk hæstv. forsrh. vegna mikilvægs máls sem er til afgreiðslu hér í þinginu og ég hélt að það sama gæti kannski gilt um formann þingflokks Framsfl., að hann mundi mæta til leiks þegar mikilvægt mál er hann varðaði væri til meðferðar í þinginu.

Annars verð ég að segja að ég hef oft heyrt það frá hv. þm. áður að hann vísar þeim mönnum sem ekki hafa heyrt hvað hann sagði eða ekki náð því sem hann ætlaði að segja á að lesa ræður sínar. Ég hef oft gert það en ég hef aldrei orðið neins vísari.

Að lokum tók ég eftir því að hann gerði mín orð að sínum því að hann beindi spurningunni um rökin fyrir því að flytja þessa stofnun til iðnrh. frá forsrh., til hæstv. forsrh. Hann benti á að hann væri flutningsmaður málsins og því eðlilegt að hann svaraði þeirri spurningu þannig að það eru ekki bara við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem höfum lagt þessa spurningu fyrir hæstv. forsrh. heldur hv. þm. Hjálmar Árnason líka.