Ferill 70. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 70  —  70. mál.
Frumvarp til lagaum lagaskil á sviði samningaréttar.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)I. KAFLI
Gildissvið laganna.
1. gr.
Gildissvið.

    1. Ákvæði laga þessara eiga við um allar einkaréttarlegar samningsskuldbindingar sem tengjast fleiri en einu landi þegar taka þarf afstöðu til þess lögum hvaða lands skuli beitt.
    2. Lögin gilda ekki um:
     a.      álitaefni sem varða persónulega réttarstöðu manna og gerhæfi nema annað leiði af ákvæðum 11. gr.,
     b.      skuldbindingar sem varða erfðir, þ.m.t. erfðaskrár, og samninga milli hjóna um fjármál þeirra, þ.m.t. skilnaðarsamninga, svo og samninga um réttindi og skyldur sifjaréttarlegs eðlis, t.d. varðandi faðerni, mægðir, skyldleika og hjúskap, þ.m.t. samninga um framfærslu barna,
     c.      skuldbindingar sem byggjast á víxlum, tékkum og skuldabréfum og öðrum viðskiptabréfum, að svo miklu leyti sem skuldbindingar sem af þeim leiðir er að rekja til eðlis þeirra sem viðskiptabréfa,
     d.      samninga um gerðardóma og val á dómstóli,
     e.      álitaefni sem lúta löggjöf um fyrirtæki, félög eða aðrar lögpersónur, svo sem um stofnun þeirra, með skráningu eða á annan hátt, löghæfi, innra skipulag eða slit og um persónulega ábyrgð stjórnenda og meðlima á skuldbindingum fyrirtækis, félags eða lögpersónu,
     f.      álitaefni sem varða umboð eða heimild einstaklinga eða stjórnenda til að skuldbinda fyrirtæki, félag eða aðrar lögpersónur í samningum við þriðja aðila,
     g.      samninga um stofnun fjárvörslusjóðs eða mál sem varða lögskipti stofnanda, vörslumanns og rétthafa,
     h.      sönnun og málsmeðferð nema að því leyti sem slíkt leiðir af 14. gr.
    3. Ákvæði laganna gilda ekki um vátryggingarsamninga sem varða vátryggingaratburði sem verða á yfirráðasvæði ríkis sem tilheyrir Evrópska efnahagssvæðinu. Við ákvörðun um það hvort atburður gerist innan þess svæðis skal dómstóll beita íslenskum lögum.
    4. Ákvæði 3. mgr. gilda ekki um samninga sem varða endurtryggingar.
                        

2. gr.
Beiting laga ríkis utan Evrópska efnahagssvæðisins.

    Lög þessi eiga við þótt þau leiði til þess að beita beri löggjöf ríkis sem er utan Evrópska efnahagssvæðisins.

II. KAFLI
Meginreglur um lagaskil.
3. gr.
Samningur um lagaval.

    1. Um samninga skal beita þeim lögum sem samningsaðilar hafa valið berum orðum eða þeim lögum sem með vissu verða talin leiða af samningnum sjálfum eða öðrum atvikum. Samningsaðilar geta samið svo um að þau lög sem vísað er til skuli gilda um samninginn í heild eða aðeins um tiltekinn hluta hans.
    2. Samningsaðilar geta hvenær sem er samið svo um að um samninginn skuli gilda önnur lög en áður giltu um hann, hvort sem þau er upphaflega að rekja til samkomulags aðila þar um eða leiðir af öðrum reglum laga þessara. Breytingar af þessu tagi, sem koma til eftir að samningur var upphaflega gerður, skulu hvorki hafa áhrif á formlegt gildi samningsins skv. 9. gr. né hafa áhrif á réttarstöðu þriðja manns án samþykkis hans.
    3. Hafi aðilar samið um beitingu erlendra laga, hvort sem ágreining á að leggja undir erlendan dómstól eða ekki, en efni samningsins tengist í reynd aðeins einu landi, kemur slíkur samningur ekki í veg fyrir, séu skilyrði að öðru leyti fyrir hendi, að unnt sé að beita ófrávíkjanlegum reglum þess lands sem við kunna að eiga.
    4. Úrlausn um það hvort samþykki um lagaval er til staðar og um gildi þess fer skv. 8., 9. og 11. gr.


4. gr.
Lög sem gilda þegar ekki hefur verið samið um lagaval.

    1. Hafi samningur ekki að geyma ákvæði um það hvers lands lögum skuli beita, sbr. 3. gr., skal beita lögum þess lands sem samningur hefur sterkust tengsl við. Ef afmarkaður hluti samnings hefur nánari tengsl við annað land en það sem leiða mundi af 1. málsl. þessarar málsgreinar er heimilt að beita lögum þess lands að því er varðar þann hluta samningsins.
    2. Með fyrirvara um ákvæði 5. mgr. skal að jafnaði litið svo á að samningur hafi sterkust tengsl við það land þar sem sá aðili sem efna á aðalskyldu samningsins býr við samningsgerðina. Þegar um er að ræða fyrirtæki, félag eða aðra lögpersónu skal að jafnaði litið svo á að samningur hafi sterkust tengsl við það land þar sem aðili hefur aðalstöðvar sínar. Ef samningurinn er gerður í tengslum við framkvæmd atvinnu eða í tengslum við atvinnurekstur viðkomandi aðila skal litið svo á að samningur hafi sterkust tengsl við það land þar sem sá sem aðalskylduna ber hefur aðalstarfsstöð sína. Ef efna á samning samkvæmt ákvæðum hans á annarri starfsstöð en þeirri þar sem aðili hefur aðalstarfsstöð sína skal beita lögum þess lands þar sem sú starfsstöð er.
    3. Að því marki sem samningur varðar réttindi yfir fasteign, þ.m.t. afnotarétt, skal, þrátt fyrir ákvæði 2. mgr., að jafnaði litið svo á að samningur hafi sterkust tengsl við það land þar sem fasteignin er.
    4. Ákvæði 2. mgr. eiga ekki við þegar um er að ræða samninga um vöruflutninga. Þegar um slíkan samning er að ræða og flytjandi hefur, þegar samningur er gerður, aðalstöðvar í sama landi og farmurinn er lestaður eða hann affermdur eða í sama landi og aðalbækistöðvar sendanda eru skal litið svo á að samningur hafi sterkust tengsl við það land. Við beitingu þessa ákvæðis skal litið á farmsamning um einstaka ferð og aðra samninga sem hafa vöruflutninga sem meginmarkmið sem samninga um vöruflutninga.
    5. Ákvæði 2. mgr. eiga ekki við ef ekki er unnt að afmarka aðalskyldu samnings. Á sama hátt eiga ákvæði 2., 3. og 4. mgr. ekki við ef af öllum aðstæðum verður ráðið að samningurinn í heild hafi ríkari tengsl við annað land en það sem leiða mundi af þeim ákvæðum.

5. gr.
Neytendasamningar.

    1. Grein þessi á við um samninga sem maður (neytandi) gerir um afhendingu vöru eða þjónustu í tilgangi sem telja verður að varði ekki atvinnu hans eða samning um lán til að fjármagna kaupin.
    2. Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. getur ákvæði um lagaval í samningi aldrei takmarkað þá vernd sem neytandi nýtur samkvæmt ófrávíkjanlegum reglum í lögum þess ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem hann býr:
     a.      ef undanfari samningsins var sérstakt tilboð til neytandans eða almenn auglýsing og allar nauðsynlegar ráðstafanir til samningsgerðarinnar af hans hálfu fóru fram í því landi eða
     b.      ef gagnaðilinn, eða umboðsmaður hans, tók við pöntun neytandans í því landi eða
     c.      ef samningur er um sölu vöru og neytandinn ferðaðist frá því landi til annars lands og gerði pöntun sína þar, að því tilskildu að ferðin hafi verið skipulögð af seljandanum í þeim tilgangi að hvetja neytandann til kaupanna.
    3. Ef um er að ræða samninga sem falla undir ákvæði þessarar greinar og aðilar hafa ekki samið um lagaval skv. 3. gr. gilda, þrátt fyrir ákvæði 4. gr., ákvæði þessarar greinar, enda séu samningarnir gerðir við þær aðstæður sem lýst er í 2. mgr.
    4. Ákvæði þessarar greinar eiga ekki við um:
     a.      flutningasamninga,
     b.      samninga um kaup á þjónustu þegar þjónustuna á að láta í té að öllu leyti í öðru landi en því þar sem neytandinn á heima.

6. gr.
Vinnusamningar.

    1. Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. skulu vinnusamningar sem hafa að geyma ákvæði um lagaval ekki leiða til lakari réttarstöðu launþega en þeir mundu njóta samkvæmt þeim ófrávíkjanlegum reglum sem leiða mundi af 2. mgr.
    2. Þrátt fyrir ákvæði 4. gr. skulu eftirfarandi lög gilda um vinnusamninga sem ekki hafa að geyma ákvæði um lagaval:
     a.      lög þess lands þar sem launþegi starfar að jafnaði, enda þótt honum hafi tímabundið verið falin störf í öðru landi eða
     b.      ef launþegi starfar að jafnaði ekki í neinu tilteknu landi gilda lög þess lands þar sem sú starfsstöð sem réð hann til starfa er nema það leiði af aðstæðum í heild að samningurinn hafi meiri tengsl við annað land, og gilda þá lög þess lands.

7. gr.
Ófrávíkjanlegar reglur.

    1. Þegar beitt er lögum tiltekins lands samkvæmt lögum þessum er einnig heimilt að beita ófrávíkjanlegum reglum í lögum annars lands sem atvik málsins hafa náin tengsl við, ef og að því marki sem skylt er að beita þeim samkvæmt lögum þess lands, óháð því hvaða lög eiga annars við um samninginn. Þegar metið er hvaða ófrávíkjanlegu reglur eiga við skal litið til eðlis þeirra og tilgangs og afleiðinga þess að beita þeim eða beita þeim ekki.
    2. Ekkert í lögum þessum takmarkar beitingu ófrávíkjanlegra reglna íslensks réttar, ef mál er rekið hér á landi, óháð því hvers lands lögum á annars að beita um samninginn.

8. gr.
Efnislegt gildi samnings.

    1. Tilvist og gildi samnings, eða einstakra ákvæða samnings, skal ákvarða samkvæmt þeim lögum sem eiga mundu við um samninginn samkvæmt lögum þessum ef samningurinn eða einstök ákvæði hans væru gild.
    2. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur aðili byggt á lögum þess lands þar sem hann býr til að sýna fram á að hann hafi ekki veitt samþykki sitt ef atvik eru með þeim hætti að ósanngjarnt þykir að dæma um réttaráhrif athafna hans eftir þeim reglum sem leiða mundi af 1. mgr.

9. gr.
Formlegt gildi samnings.

    1. Samningur sem gerður er milli einstaklinga sem eru í sama landinu er formlega gildur ef hann fullnægir formkröfum laga þess lands sem um hann gilda samkvæmt lögum þessum eða lögum þess lands þar sem hann var gerður.
    2. Samningur sem gerður er milli tveggja einstaklinga sem ekki eru í sama landinu er formlega gildur ef hann fullnægir formkröfum laga þess lands sem gilda um hann samkvæmt lögum þessum eða lögum annars hvors landsins þar sem aðilar eru.
    3. Þegar samningur er gerður fyrir tilstilli umboðsmanns koma lög þess lands þar sem umboðsmaður framkvæmir ráðstafanir sínar í stað laga þess lands þar sem aðili samnings er skv. 1. og 2. mgr.
    4. Ráðstöfun sem ætlað er að hafa réttaráhrif í tengslum við gerðan samning eða fyrirhugaðan samning er gild ef hún fullnægir formkröfum þeirra laga sem gilda samkvæmt lögum þessum eða ættu við um samninginn ef hann væri gildur eða þess lands þar sem ráðstöfun var gerð.
    5. Ákvæði 1.–4. mgr. eiga ekki við um neytendasamninga sem gerðir eru við þær aðstæður sem lýst er í 2. mgr. 5. gr. Um formlegt gildi slíkra samninga fer eftir lögum þess lands þar sem neytandinn býr.
    6. Þegar um er að ræða samninga um réttindi yfir fasteign, þ.m.t. afnotaréttindi, skulu, þrátt fyrir ákvæði 1.–4. mgr., gilda um slíka samninga ófrávíkjanlegar formreglur laga þess lands þar sem fasteignin er ef þær reglur samkvæmt þeim lögum gilda óháð því í hvaða landi samningurinn er gerður og óháð þeim lögum sem annars gilda um samninginn.

10. gr.
Gildissvið laga þeirra sem við eiga.

    1. Þau lög sem gilda um samning skv. 3.–6. gr. og 12. gr. skulu einkum gilda um:
     a.      túlkun,
     b.      efndir,
     c.      afleiðingar vanefnda, þ.m.t. ákvörðun bóta að svo miklu leyti sem þær eru ákvarðaðar lögum samkvæmt, með þeim takmörkunum sem leiðir af réttarfarslögum um heimildir dómstóla,
     d.      mismunandi lyktir samningsskuldbindinga, tómlæti og fyrningu,
     e.      afleiðingar þess að samningur telst ógildur.
    2. Þegar ákvarðað er hvort samningur hafi verið réttilega efndur eða ráðstafanir þær sem gripið er til vegna vanefnda samnings séu lögmætar skal taka tillit til laga þess lands þar sem efndir samnings fara fram.

11. gr.
Gerhæfisskortur.

    Þegar um er að ræða samning milli tveggja einstaklinga sem eru í sama landinu getur einstaklingur sem hefur gerhæfi samkvæmt lögum þess lands því aðeins borið fyrir sig gerhæfisskort sem leiða mundi af lögum annars lands að hinn samningsaðilinn hafi, þegar samningurinn var gerður, vitað eða hafi mátt vita um gerhæfisskortinn samkvæmt þeim lögum.

12. gr.
Framsal réttinda.

    1. Um gagnkvæmar skyldur framseljanda og framsalshafa í samningi sem felur í sér framsal réttinda gagnvart þriðja manni gilda lög þess lands sem samkvæmt lögum þessum eiga við um samning milli framseljanda og framsalshafa.
    2. Um heimild til framsals, samband framsalshafa og þriðja manns, skilyrði þess að á framsali verði byggt gagnvart þriðja manni og um öll álitaefni um það hvort skyldur skuldara séu enn til staðar gilda lög þess lands sem eiga við um réttindi þau sem framseld eru.

13. gr.
Innlausn réttinda.

    1. Nú á kröfuhafi samningskröfu á hendur skuldara og þriðja aðila er skylt að efna kröfuna gagnvart kröfuhafa, eða hann hefur í reynd efnt kröfuna vegna þeirrar skyldu og þannig leyst hana til sín. Þá skulu lög þau sem gilda um skyldu þriðja manns til efnda gagnvart kröfuhafa einnig vera ákvarðandi um hvort og að hve miklu leyti þriðji maður getur endurkrafið skuldara á grundvelli þeirra laga sem gilda um samningssamband kröfuhafa og skuldara.
    2. Sama regla og fram kemur í 1. mgr. á einnig við þegar sama samningsskyldan hvílir á mörgum aðilum og einn þeirra hefur efnt skylduna gagnvart kröfuhafa.

III. KAFLI
Um sönnunarbyrði, gildistöku o.fl.
14. gr.
Sönnunarbyrði o.fl.

    1. Hafi lög þess lands sem gilda um samninga samkvæmt lögum þessum að geyma löglíkindareglur eða reglur um sönnunarbyrði skal beita þeim.
    2. Samninga eða ráðstafanir sem ætlað er að hafa réttaráhrif má sanna á hvern þann hátt sem heimill er samkvæmt íslenskum lögum þegar mál er rekið fyrir íslenskum dómstóli eða
í lögum þeim sem 9. gr. vísar til, enda sé samningur eða ráðstöfun gild samkvæmt þeirri grein, að því tilskildu að hægt sé að koma slíkri sönnunarfærslu við hér á landi.


15. gr.
Bann við heimvísun og framvísun.

    Með lögum lands sem lög þessi vísa til er átt við önnur lög en lagaskilareglur.

16. gr.
Allsherjarregla.

    Því aðeins er heimilt að láta hjá líða að beita lögum tiltekins lands sem lög þessi vísa til að þau teljist augljóslega andstæð góðum siðum og allsherjarreglu hér á landi.

17. gr.
Bann við afturvirkni.

    Ákvæðum laga þessara verður aðeins beitt um samninga sem gerðir hafa verið eftir gildistöku þeirra.

18. gr.
Staða laga þessara gagnvart öðrum reglum.

    1. Sérreglur um lagaskil í öðrum lögum og reglum sem rekja má til Evrópska efnahagssvæðisins skulu ganga framar ákvæðum laga þessara að svo miklu leyti sem þær fá ekki samrýmst þeim.
    2. Lög þessi hafa ekki áhrif á beitingu alþjóðlegra samninga sem hafa að geyma lagaskilareglur og öðlast hafa lagagildi hér á landi.

19. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


     I.

    Á undanförnum árum hefur viðskiptafrelsi aukist stórlega á Íslandi. Frjálsari löggjöf á sviði gjaldeyrismála og aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) hafa fært innlendum aðilum fleiri tækifæri til þátttöku í alþjóðlegum viðskiptum. Íslensk fyrirtæki hafa í sífellt auknum mæli nýtt sér slíkar heimildir til beinna viðskipta yfir landamærin við kaup og sölu á vörum og þjónustu. Útrás íslenskra fyrirtækja og alþjóðavæðing íslensks athafnalífs er því orðin staðreynd og hefur átt ríkan þátt í meiri hagvexti og stöðugleika sem hefur einkennt íslenskt efnahagslíf undanfarin ár. Eftir því sem viðskipti einstaklinga og fyrirtækja verða algengari yfir landamærin eykst nauðsyn þess að í lögum sé að finna skýrar reglur um hvaða lög eigi að leggja til grundvallar í viðskiptum tveggja aðila sem ekki eru búsettir innan sama ríkis. Nokkrir alþjóðlegir samningar hafa verið gerðir um lagaskil á sviði samningaréttar og m.a. undirrituðu aðildarríki Evrópubandalagsins slíkan samning 19. júní 1980, svonefndan Rómarsamning (The Rome Convention). Aðildarríkjum Evrópubandalagsins er skylt að vera aðilar að samningnum og eru því þrjú norræn ríki, þ.e. Finnland, Danmörk og Svíþjóð, nú aðilar að honum. Í kjölfar þátttöku Íslands í EES og þar með í innri markaði EB hafa viðskipti íslenskra aðila við aðila í öðrum ríkjum EES aukist og reikna má með að þau eigi eftir að verða enn meiri í framtíðinni. Ráðuneytið taldi af þessum sökum mjög brýnt að íslenskar lagaskilareglur um samningsskuldbindingar yrðu samræmdar þeim reglum sem um þetta gilda í aðildarríkjum EB. Ljóst var að of þungt yrði í vöfum fyrir Íslendinga að gerast aðilar að framangreindum samningi en hins vegar væri unnt að tryggja með sérstakri lagasetningu hér á landi að í innlendan rétt væru settar reglur sem væru samhliða ákvæðum Rómarsamningsins. Fordæmi þess er að finna á Norðurlöndum en árið 1988 voru lögfestar reglur um lagaskil á sviði samningaréttar í Finnlandi sem byggðust á áðurnefndum Rómarsamningi, sex árum áður en Finnar gerðust formlega aðilar að EB. Ráðuneytið fól því Davíð Þór Björgvinssyni og Þorgeiri Örlygssyni, prófessorum við lagadeild Háskóla Íslands, að semja frumvarp til laga um lagaskil á sviði samningaréttar.
    Frumvarp þetta er grundvallað á áðurnefndum Rómarsamningi (The Rome Convention) sem undirritaður var 19. júní 1980. Rómarsamningurinn er öðrum þræði byggður á 220. gr. Rómarsáttmálans (The Rome Treaty), stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu (EBE). Í tilvitnuðu ákvæði Rómarsáttmálans skuldbinda aðildarríki hans sig til þess að ganga til samninga hvert við annað til að tryggja vernd manna og að þeir njóti réttar og réttarverndar með sömu skilmálum og hvert ríki veitir ríkisborgurum sínum, þar á meðal með einföldun formsatriða sem gilda um gagnkvæma viðurkenningu og fullnustu dóma dómstóla og gerðardóma.
    Í kjölfar þessa undirrituðu aðildarríki EBE Brussel-samninginn 1968 um dómsvald og fullnustu dóma í einkamálum (Convention on Jurisdiction and the Enforcement of Judgments in Civil and Commercial Matters). Upphaflega áttu aðild að honum stofnríki Efnahagsbandalags Evrópu, þ.e. Belgía, Frakkland, Holland, Ítalía, Lúxemborg og Þýskaland. Árið 1971 var bætt bókun við samninginn þar sem EB-dómstólnum var fengið vald til að túlka samninginn á bindandi hátt. Við inngöngu Danmerkur, Írlands og Stóra- Bretlands í EBE árið 1978 var samningi þessum breytt í nokkrum atriðum, aftur árið 1982 þegar Grikkland varð aðili og enn á ný árið 1989 við inngöngu Portúgals og Spánar. Árið 1994 urðu Austurríki, Finnland og Svíþjóð aðilar að samningnum þegar þessi ríki gengu í EB. Hliðstæður samningur (Lúganósamningurinn) um dómsvald og fullnustu dóma í einkamálum var undirritaður milli EB-ríkjanna annars vegar og EFTA-ríkjanna hins vegar 16. september 1988. Samningur þessi hefur verið lögfestur á Íslandi, sbr. lög nr. 68/1995, um Lúganósamninginn um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum. Lúganósamningurinn felur í aðalatriðum í sér tvennt: Í fyrsta lagi samræmingu á alþjóðlegum varnarþingsreglum aðildarríkjanna og öðru lagi gagnkvæma viðurkenningu dóma í einkamálum. Tilgangur hans er að tryggja greiðan aðgang að dómstólum og fullnustu úrlausna.
    Undirritun Rómarsamningsins, sem er fyrirmynd þessa frumvarps, árið 1980 er eðlilegt framhald af Brusselsamningnum frá 1968, þótt Rómarsamningurinn sé ekki beinlínis byggður á 220. gr. Rómarsáttmálans. Upphaflega áttu aðild að Rómarsamningnum þau ríki sem þá áttu aðild að Rómarsáttmálanum, en ný aðildarríki ESB hafa einnig gerst aðilar að samningnum eftir því sem þeim hefur fjölgað. Í inngangi Rómarsamningsins er ekki berum orðum vísað til 220. gr. Rómarsáttmálans, en litið er á hann sem þátt í viðleitni aðildarríkja EB til að stuðla að samræmdri réttarframkvæmd á sviðum sem hafa mesta þýðingu fyrir framkvæmd sameiginlegs innri markaðar. Sameiginlegar lagaskilareglur á sviði samningaréttar hljóta að teljast mikilvægar í því sambandi.
    Rómarsamningurinn hefur að geyma lagaskilareglur varðandi samningsskuldbindingar sem tengjast fleiri en einu landi þegar á það reynir hvers lands lögum skuli beita við úrlausn álitaefna sem af honum kunna að rísa. Hann gildir um flestar tegundir samninga og einhliða skuldbindingar af samningaréttarlegum toga. Þá er þar að finna reglur um það hvers lands lögum skuli beita við úrlausn álitaefna sem tengjast samningsgerð.
    Rómarsamningurinn hefur að geyma inngang og 33 greinar, sem skiptast í þrjá kafla. Þá fylgja honum stutt bókun og tvær sameiginlegar yfirlýsingar. Árið 1989 var bætt við tveimur bókunum sem varða heimild EB-dómstólsins til að túlka ákvæði samningsins. Enskur texti samningsins ásamt bókunum og yfirlýsingum fylgir með frumvarpi þessu.
    Í I. kafla Rómarsamningsins eru tvær greinar (1. og 2. gr.) sem hafa að geyma ákvæði um gildissvið hans. Í II. kafla samningsins (3.–22. gr.) eru sameiginlegar lagaskilareglur og eru þær í reynd kjarni samningsins. Auk þeirra er að finna ákvæði sem varða t.d. skýringar einstakra ákvæða samningsins og tengsl þeirra við aðrar sérreglur á sviði lagaskilaréttar. Í III. kafla er að finna ákvæði um gildistöku samkomulagsins o.fl. Þá fylgja samningnum bókanir sem m.a. varða hlutverk EB-dómstólsins við túlkun samningsins.

II.

    Þegar ágreiningsefni koma til úrlausnar íslenskra dómstóla er algengast að dómstólarnir (eða aðrir úrlausnaraðilar) beiti íslenskum lögum og réttarreglum (lex fori) í úrlausnum sínum. Sakaraðild og sakarefni kann að vera svo háttað að í vissum tilvikum sé beiting erlends réttar við úrlausn ágreinings eðlilegri en beiting íslensks réttar. Lagaskilaréttur (alþjóðlegur einkamálaréttur) er sú grein lögfræðinnar sem segir til um það hvers lands lögum beita beri við úrlausn ágreiningsefnis sem tengist fleiri en einu réttarkerfi. Lagaskilareglur hvers lands eru hluti landsréttar. Frumvarp þetta hefur að markmiði að lögfesta lagaskilareglur á sviði samningaréttar sem verði hluti íslensks réttar.
    Rétt þykir að fara nokkrum orðum um íslenskan lagaskilarétt almennt og þá sérstaklega á því sviði sem frumvarpið tekur til. Íslenskur lagaskilaréttur er að mestu leyti ólögfestur. Hann byggist á dómafordæmum, réttarvenjum, fræðiskoðunum og eðli máls. Þar sem dómaframkvæmd er fáskrúðug hér á landi er einnig horft til dómaframkvæmdar annars staðar á Norðurlöndunum, auk þess sem sótt hefur verið í smiðjur norrænna fræðimanna í ríkum mæli.
    Á sumum sviðum íslensks réttar eru þó til nokkuð ítarlegar skráðar lagaskilareglur. Má þar helst nefna sérstakar lagaskilareglur í 14. kafla víxillaga, nr. 93/1933 (79.–87. gr.), og í 12. kafla laga um tékka, nr. 94/1933 (58.–65. gr.). Af öðrum ákvæðum má nefna 119. gr. siglingalaga, nr. 34/1985, um flutninga samkvæmt farmskírteini, ákvæði um erlend hlutafélög í 16. kafla laga um hlutafélög, nr. 2/1995 (137.–146. gr.), og 2. mgr. 62. gr. laga nr. 39/1922, um lausafjárkaup. Enn fremur má nefna nokkra Norðurlandasamninga um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði, sem Ísland er aðili að og veitt hefur verið lagagildi á Íslandi. Þeir eru:
     a.      um hjúskap, ættleiðingu og lögráð, sbr. lög nr. 29/1931,
     b.      um viðurkenningu dóma og fullnægju þeirra, sbr. lög nr. 30/1932. Með 5. gr. laga nr. 68/1995 er gildissvið laganna frá 1932 takmarkað þannig að þau gilda ekki um dóma og ákvarðanir sem hljóta viðurkenningu og fullnustu hér á landi samkvæmt ákvæðum Lúganósamningsins.
     c.      um gjaldþrotaskipti, sbr. lög nr. 21/1934,
     d.      um erfðir og skipti á dánarbúum, sbr. lög nr. 108/1935 og
     e.      um innheimtu meðlaga, sbr. lög nr. 93/1962.
    Gildissvið samninga þessara er bundið við Norðurlönd og taka þeir því aðeins til aðila sem annaðhvort eru ríkisfastir eða heimilisfastir í einhverju Norðurlandanna. Að síðustu er svo rétt að nefna Lúganósamninginn, sem áður er getið.
         Þegar reglum víxil-, tékka-, siglinga- og hlutafélagalaga sleppir er ekki fyrir að fara lögfestum lagaskilareglum hér á landi á sviði fjármunaréttar. Greinargerð um þær verður því að byggja á dómaframkvæmd hér á landi og kenningum fræðimanna á þessu sviði.
    Meginreglan sem byggt er á í íslenskum lagaskilarétti á sviði fjármunaréttar er sú að aðilum sé frjálst að semja um það hvers lands lögum skuli beita um lögskipti þeirra. Þetta er lagaskilaregla sem viðurkennd er í flestum ríkjum heims og á henni er byggt í samningi Sameinuðu þjóðanna frá 1980 um alþjóðleg lausafjárkaup, sem síðar verður frá greint, sbr. 1. mgr. 3. gr. þess samnings. Ef slíkum samningi er ekki til að dreifa er reglan sú að beita beri lögum þess lands sem samningur hefur sterkust tengsl við. Við mat á því við hvaða land samningur hefur sterkust tengsl er ýmist litið til þess lands þar sem mál vegna samningsins er rekið (lex fori), lands þar sem samningur er gerður (lex loci contractus), lands þar sem samninginn á að efna (lex loci solutionis), lands þar sem skuldari er heimilisfastur (lex loci domicilii) eða þar sem hann á ríkisfang (ríkisfangsregla).
    Að því er íslenskan lagaskilarétt varðar koma allar þessar reglur til greina, eftir því hvað best á við hverju sinni. Ákvörðun um þetta getur í einstökum tilfellum verið nokkuð vandasöm. Má sem dæmi nefna að þegar samningur er gerður með fjarskiptum milli aðila getur verið ógerlegt að skera úr um hvar samningur er í reynd gerður. Þá eru samningar oftast tvíhliða og hver aðili á að efna hann fyrir sitt leyti í sínu heimalandi, auk þess sem þeir eru heimilisfastir hvor í sínu landinu. Við þær aðstæður er erfitt að skera úr um hvar samning á að efna, eða eftir atvikum við hvaða heimilisfesti á að miða. Þá er oft næsta fjarlægt að beita ríkisfangsreglu, þegar samningur hefur e.t.v. engin tengsl við tiltekið land nema þau að annar aðili hans á þar ríkisfang, þótt hann búi þar ekki. Við bætist að íslensk dómaframkvæmd er það fáskrúðug að litlar leiðbeiningar er þar að finna um beitingu þessara reglna. Af þessu leiðir að nokkurrar óvissu hlýtur einatt að gæta um efni þessara reglna og hversu þeim verður beitt. Þótt sumar þeirra meginreglna sem raktar voru sé að finna í Rómarsamningnum er ljóst að hann hefur að geyma um margt ítarlegri reglur um þessi efni og leiðbeiningar um það hversu þeim verði beitt. Af þessum sökum leikur tæpast vafi á að telja verður æskilegt að lögfesta þessar reglur hér á landi.
    Lengi vel var það skoðun manna á Norðurlöndum að reglur norrænu kaupalaganna væru í góðu samræmi við þær reglur sem almennt giltu í alþjóðlegum kaupum þótt frá því væru undantekningar að því er varðar þau lönd sem byggja á engilsaxneskum lagahefðum (common law). Eigi að síður fylgdust norrænu ríkin vel með því alþjóðlega samstarfi, sem hófst um miðbiki þessarar aldar og miðað hefur að því að koma á réttareiningu á sviði kauparéttarins í alþjóðlegum samskiptum, ýmist með samræmdum lagskilareglum á þessu réttarsviði eða samræmdum efnisreglum.
    Árið 1955 var gerður alþjóðlegur samningur sem kenndur er við Haag í Hollandi og ber heitið Convention on the Law Applicable to International Sales of Goods. Þessi samningur fjallar um það hvaða efnisreglum skuli beita við úrlausn deilumála sem upp kunna að koma í milliríkjakaupum sem aðilar ríkja samningsins standa að. Samningurinn inniheldur lagaskilareglur á þessu sviði. Meginregla samnings þessa er sú að aðilar kaupsamnings geta samið um hvers lands lögum beita ber um kaup þeirra. Ef slíku samningsákvæði er ekki til að dreifa skal leggja til grundvallar lög í því landi þar sem seljandinn hafði aðsetur þegar hann tók við pöntun varðandi kaupin. Ef útibú frá aðalstöðvum seljanda tók við pöntun skal miða við lög í því landi þar sem útibúið er. Þá er einnig í samningnum að finna ákvæði um hvers lands lög skuli gilda varðandi skoðun á söluhlut og mörg fleiri atriði sem ekki er ástæða til að rekja frekar hér. Danir, Svíar, Finnar og Norðmenn hafa fullgilt þennan samning og sett samhljóða lög um efni hans. Af öðrum þjóðum sem fullgilt hafa samning þennan má nefna Ítali, Frakka, Svisslendinga og Belga.
    Á ráðstefnu sendierindreka í Haag í Hollandi var 30. október 1985 gengið frá nýjum samningi um milliríkjakaup. Gildissvið hans er rýmra en samningsins frá 1955 og jafnframt er kaupanda og seljanda veittur rýmri réttur til að semja um lagaval. Óvíst er hins vegar hverja þýðingu sá samningur kemur til með að hafa í framtíðinni, m.a. með tilkomu samnings Sameinuðu þjóðanna.
    Árið 1964 voru gerðir tveir alþjóðlegir samningar, sem einnig eru kenndir við Haag í Hollandi. Annar þeirra ber heitið Convention Relating to a Uniform Law on the Formation of Contracts for the International Sale of Goods (ULFIS) og hinn nefnist Convention Relating to a Uniform Law on the International Sale of Goods (ULIS). Samningarnir voru gerðir að frumkvæði stofnunar þeirrar í Róm, sem starfar að samræmingu reglna á sviði einkaréttarins, The International Institute for Unification of Private Law (UNIDROIT). Með þeim er þess freistað að samræma efnisreglur aðildarríkjanna um milliríkjakaup og innihalda þeir því ekki beinlínis lagaskilareglur. Samningarnir gengu formlega í gildi árið 1972, en tiltölulega fá ríki hafa fullgilt þá og hafa markmiðin sem að var stefnt að því leyti ekki náðst þar sem ljóst virðist að þeim muni ekki fjölga. Samningarnir frá 1964 gengu formlega í gildi árið 1972, en fá ríki fullgiltu þá. Aðild fimm ríkja var skilyrði fyrir gildistöku samninga þessara og þær þjóðir, sem fullgilt hafa samningana, lögfestu efnisreglur þeirra.
    Ísland hefur ekki gerst aðili að framangreindum samningum frá 1964, þ.e. þeir hafa hvorki verið undirritaðir né fullgiltir fyrir Íslands hönd, og löggjöf hér á landi hefur ekki verið færð til samræmis við efni þeirra.
    Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti í desember 1966 ályktun þess efnis að sett skyldi á laggirnar sérstök fastanefnd eða undirstofnun samtakanna, sem hafa skyldi það hlutverk að efla og styrkja samræmingu alþjóðlegrar viðskiptalöggjafar. Stofnunin, sem tók til starfa skömmu síðar, var nefnd UNCITRAL, sem er skammstöfun á The United Nations Commission on International Trade, og hefur hún skrifstofur í Vínarborg í Austurríki. Hún fékk það verkefni að undirbúa gerð áðurnefnds alþjóðasamnings um kaup, þ.e. samning Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1980 (CISG). Gerð hans tók um tvo áratugi og hafði sú vinna það m.a. að markmiði að koma fram með nýjan samning á þessu réttarsviði, sem leyst gæti af hólmi Haag-samningana frá 1964.
    Fyrstu drög hins nýja samnings voru kynnt árið 1974 og eftir það endurskoðaðar gerðir árin 1975, 1976, 1977 og 1978. Að gerð samningsdraganna vann starfshópur skipaður fulltrúum 14 ríkja, sem tilheyrðu mismunandi réttarkerfum. Drögin voru rædd á þingum UNCITRAL og voru þau samþykkt þar árið 1978. Vorið 1980 kvaddi allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna til alþjóðlegrar ráðstefnu í Vínarborg í Austurríki þar sem saman komu fulltrúar 62 ríkja og átta alþjóðastofnana. Á ráðstefnunni var gengið frá nýjum sáttmála, CISG. Ráðstefnan hófst 10. mars 1980 og lauk 11. apríl sama ár. Undirbúningur hennar fór að mestu fram í tveimur starfsnefndum. Hafði önnur það hlutverk að semja drög að efnisreglum, en hin samdi drög að lokaákvæðum samningsins. Við lok ráðstefnunnar voru drögin sameinuð og fram fór atkvæðagreiðsla um hverja grein fyrir sig og að því loknu atkvæðagreiðsla um samninginn í heild. Var hann samþykktur á ráðstefnunni án verulegra athugasemda og efnisbreytinga.
    Í 99. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna eru ákvæði um gildistöku hans. Þar kemur fram að hann tekur gildi fyrsta dag þess mánaðar þegar liðnir eru tólf mánuðir frá því að tíu ríki hafa fært framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna gögn um fullgildingu, móttöku eða samþykki hans. Þessu marki var náð 1. janúar 1988, en þá höfðu m.a. Bandaríkin, Argentína, Egyptaland, Frakkland, Ítalía, Júgóslavía, Kína, Lesótó, Sýrland, Ungverjaland og Sambía fullgilt sáttmálann. Finnland og Svíþjóð gerðust aðilar að samningnum 15. desember 1987, Noregur 20. júlí 1988 og Danmörk 14. febrúar 1989. Árið 1994 voru aðildarríkin orðin 34 og nú eru þau 48 talsins.
    Þótt samningur Sameinuðu þjóðanna (CISG) hafi formlega ekki verið endurskoðun á Haag-samningunum frá 1964 er honum eigi að síður ætlað það hlutverk að vera í framtíðinni eina réttarheimildin við úrlausn ágreiningsefna á sviði alþjóðlegra kaupa. Sést þetta m.a. á því að í 99. gr. hans er gert ráð fyrir því að þjóðir sem fullgilda samninginn og eru jafnframt aðilar að Haag-samningunum skuli fella niður fullgildingar sínar á síðarnefndu samningunum. Einnig birtist þetta í því að í samningi Sameinuðu þjóðanna er að finna efnisreglur sem ætlað er að leysa af hólmi efnisákvæði beggja Haag-samninganna frá 1964, bæði ULFIS og ULIS. Í heild má segja að reglur samnings Sameinuðu þjóðanna séu bæði skýrari og afmarkaðri en reglur Haag-saminganna frá 1964, þótt á þeim hafi vissulega verið byggt í mörgum atriðum.
    Eins og fyrr segir var samningur Sameinuðu þjóðanna samþykktur á Vínarráðstefnunni 11. apríl 1980 og frá þeim tíma opinn til undirritunar. Danmörk, Noregur, Svíþjóð og Finnland undirrituðu samninginn 26. maí 1981, en Íslendingar hafa ekki gerst aðilar að honum. Samningurinn gildir um alþjóðleg lausafjárkaup, þ.e. kaup á lausafjármunum þar sem aðilar hafa atvinnustöð sína í mismunandi ríkjum. Hann gildir í þeim tilvikum þegar bæði ríkin eru aðilar samningsins eða þegar reglur alþjóðlegs einkamálaréttar leiða til þess að kauparéttarreglum eins samningsríkjanna ber að beita.
    Neytendakaup og ákveðnar tegundir kaupa aðrar, t.d. kaup á skipum og loftförum, falla utan gildissviðs samnings Sameinuðu þjóðanna (2. gr.). Utan gildissviðs hans falla einnig álitaefni er varða gildi kaupsamnings og afstöðuna gagnvart þriðja manni, t.d. afstöðuna gagnvart fyrri söluaðila og þrotabúi aðila. Ákvæði samningsins eru þar að auki frávíkjanleg, þ.e. aðilar geta samið um aðrar reglur en þær sem leiðir af samningnum (6. gr.).
    Samningur Sameinuðu þjóðanna er í fjórum hlutum. Í I. hluta eru reglur um gildissvið og almenn ákvæði. Þar eru reglur um túlkun samningsins, yfirlýsingar aðila og athafnir þeirra. Einnig er þar fjallað um þýðingu verslunarvenju og við hverja af fleiri atvinnustöðum skuli miða við beitingu samningsins. Meginregla samningsins er sú að kaupsamningar eru óformbundnir, en um það má gera fyrirvara (12. og 96. gr.). Í II. hluta eru nánari reglur um samningsgerðina, m.a. um gerð og afturköllun tilboðs og samþykkis.
    Efnisreglur um kaup er að finna í III. hluta samningsins, en hann skiptist í fimm kafla sem hér verður nánari grein gerð fyrir. Í fyrsta kafla í III. hluta eru almennar reglur um kaup. Þar er m.a. að finna almenna skilgreiningu á því hvað telja beri verulega vanefnd og einnig eru þar reglur um hver skuli bera áhættuna af sendingu tilkynninga til gagnaðila. Í öðrum kafla III. hluta eru reglur um skyldur seljanda, bæði að því er varðar afhendingu á réttum tíma og galla, og kafli þessi skiptist í þrjá undirkafla (sections). Í undirkafla eitt eru reglur um afhendingu söluhlutar og afhendingu skjala. Í undirkafla tvö eru nánari reglur um ástand söluhlutar og um rannsóknar- og tilkynningarskyldu kaupanda, auk reglna um hvað teljast skuli réttarágallar (42. gr.). Í undirkafla þrjú eru ákvæði um úrræði vegna vanefnda seljanda. Hér er að finna sameiginleg ákvæði um bæði greiðsludrátt og galla. Einnig eru hér reglur um það m.a. að kaupandi getur krafist úrbóta og um heimildir kaupanda til að setja viðbótarfrest (nachfrist). Einnig eru hér reglur um riftun og afslátt af kaupverði.
    Ákvæðin í þriðja kafla III. hluta fjalla um skyldur kaupanda. Þar eru ákvæði um greiðslu kaupverðs (undirkafli eitt) og um skyldu kaupanda til að veita sendingu viðtöku (undirkafli tvö). Í skyldu kaupanda til þess að veita hlut viðtöku felst bæði það að taka á móti hlut og gera allar þær ráðstafanir, sem með sanngirni má krefjast af honum, til að gera seljanda kleift að afhenda hann (60. gr.). Í undirkafla þrjú eru reglur um úrræði seljanda í tilefni vanefnda af hálfu kaupanda. Þeim úrræðum má beita þegar kaupandi hvorki greiðir kaupverð né veitir söluhlut viðtöku og þegar hann vanefnir aðrar skyldur sínar (aukaskyldur). Ákvæðin veita seljanda rétt til að krefjast efnda, riftunar og skaðabóta. Einnig eru reglur um heimild seljanda til að setja kaupanda viðbótarfrest til að efna skyldur sínar.
    Í fjórða kafla í III. hluta eru reglur um áhættuskipti og í fimmta kafla eru sameiginleg ákvæði um skyldur seljanda og kaupanda. Í undirkafla eitt eru ákvæði um fyrirsjáanlegar vanefndir og um samninga þar sem afhenda á hið selda smátt og smátt. Í undirkafla tvö eru reglur um útreikning skaðabóta og í undirkafla fjögur reglur um ástæður sem leysa undan skaðabótaábyrgð. Aðalreglan er sú að aðili ber ekki ábyrgð á vanefndum á skyldum sínum ef hann sannar að þær má rekja til hindrunar sem hann réði ekki við. Í kaflanum eru auk þess reglur um vexti (undirkafli þrjú), um áhrif riftunar (undirkafli fimm) og um umönnun hlutarins (undirkafli fjögur).
    Í IV. hluta samningsins er að finna lokaákvæði hans. Þar eru m.a. reglur um heimildir til að gera fyrirvara varðandi tiltekin ákvæði samningsins. Þannig getur ríki t.d. skv. 92. gr. gert fyrirvara varðandi II. hluta samningsins um samningsgerð eða varðandi III. hluta um kaup. Sérstaka þýðingu fyrir norrænu löndin hefur sá kostur að gera fyrirvara samkvæmt ákvæðum 94. gr. (nágrannalandaákvæðið). Samkvæmt þessu ákvæði geta eitt eða fleiri ríki sem hafa sömu eða svipaðar réttarreglur á því sviði, sem samningurinn tekur til, samþykkt að samningurinn skuli ekki gilda milli aðila sem hafa atvinnustöð sína í þessum löndum. Enn fremur getur ríki samkvæmt ákvæðum 95. gr. samningsins gert fyrirvara um að samningurinn skuli aðeins gilda milli aðila sem hafa atvinnustöð í ríkjum sem hafa samþykkt samninginn. Ef ekki er gerður slíkur fyrirvari gildir samningurinn, jafnvel þótt aðeins annað ríkjanna hafi gerst aðili að honum, þegar reglur alþjóðlegs einkamálaréttar leiða til þess að leggja ber lög þess lands til grundvallar. Samningur Sameinuðu þjóðanna öðlaðist gildi tólf mánuðum eftir að tíunda ríkið staðfesti hann, 1. janúar 1988.

III.

    Frumvarpið er eins og fyrr segir byggt á Rómarsamningnum. Sú leið hefur verið valin að fylgja ákvæðum hans í öllum helstu atriðum, að öðru leyti en því að sleppt er ákvæðum 23. gr. sem varða heimildir einstakra samningsríkja til að gera fyrirvara við ákvæði 1. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 10. gr., svo og ákvæðum í III. kafla (lokaákvæði) sem varða endurskoðun samningsins, undirritun, o.fl. Sérstaklega er bent á að sleppt er ákvæði 18. gr. Rómarsamningsins sem varðar túlkun ákvæða hans. Hefur verið látið nægja að rekja í greinargerðinni þau sjónarmið sem telja má eðlilegt að lögð verði til grundvallar túlkun lagaákvæða frumvarpsins, ef að lögum verður, sbr. nánar kafla IV. hér á eftir. Þá hafa einstök ákvæði verið staðfærð og löguð að íslenskum aðstæðum með hliðsjón af því að Ísland er ekki aðili að samningnum. Má þar nefna að þar sem Rómarsamningurinn vísar til aðildarríkja sinna er í frumvarpi þessu vísað til aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Að öðru leyti eru allar efnisreglur samningsins sem taldar verða skipta máli óbreyttar. Nánar verður fjallað um þessi atriði í athugasemdum við einstakar greinar eftir því sem tilefni er til.
    Hinn 19. desember 1988 voru gerðar tvær bókanir við samninginn sem varða heimildir EB-dómstólsins til að túlka ákvæði hans. Ekki hefur verið tekið tillit til þeirra bókana í frumvarpinu.
    Þess má geta að frumvarpið er í aðalatriðum í samræmi við þá leið sem valin var í Finnlandi þegar reglur samningsins voru lögfestar þar í landi árið 1988. Unnið er að lögfestingu ákvæða hans í Noregi á svipuðum nótum. Auk þess gilda þessar reglur í Danmörku og Svíþjóð á grundvelli aðildar þeirra að ESB og samningnum.

IV.

    Í 18. gr. Rómarsamningsins er að finna ákvæði sem varða túlkun ákvæða hans. Þar kemur fram að við túlkun og beitingu ákvæðanna skuli taka tillit til alþjóðlegs eðlis þeirra og þarfarinnar fyrir einsleita túlkun og beitingu í öllum þeim ríkjum þar sem sömu reglur gilda. Þá hafa verið gerðar tvær bókanir við samninginn, eins og fyrr segir, þar sem gert er ráð fyrir því að EB-dómstóllinn skuli hafa vald til að túlka ákvæði hans. Er það liður í að ná fram þeirri samræmingu sem 18. gr. gerir ráð fyrir.
    Með lögfestingu þessa frumvarps verða efnisreglur Rómarsamningsins, þær sem teknar eru upp í frumvarpið, hluti af íslenskum rétti og hafa þar stöðu sem almenn lög. Um túlkun þeirra og beitingu fer því samkvæmt þeim aðferðum og sjónarmiðum sem tíðkast í íslenskum rétti almennt. Á hitt ber þó að líta að lögfesting þessara reglna er liður í því að samræma íslenska löggjöf á þessu sviði löggjöf og lagaframkvæmd í ríkjum EB. Af þessum sökum verður að telja heppilegt að túlkun þeirra og framkvæmd sé einnig samræmd Rómarsamningnum. Nauðsynlegt er að hafa þetta í huga við túlkun ákvæða frumvarpsins og framkvæmd hér á landi. Að öðrum kosti er hætta á að markmiðin með lögfestingu þessara reglna náist ekki.
    Af framangreindu leiðir að heppilegt verður að telja að tillit verði tekið til dómaframkvæmdar EB-dómstólsins sem varðar túlkun og beitingu samningsins, auk dómaframkvæmdar í einstökum ríkjum EB. Eiga því hér við svipuð sjónarmið og gilda um EES-samninginn yfirleitt, sbr. einkum 6. gr. hans, og þau sjónarmið sem gilda um túlkun og beitingu Lúganósamningsins, sbr. bókun 2 við þann samning. Sömu sjónarmið eiga einnig við um túlkun og beitingu mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og raunar alla alþjóðasamninga sem lögfestir hafa verið hér á landi. Að sjálfsögðu eru íslenskir dómstólar ekki á neinn hátt bundnir af þeim dómsúrlausnum EB-dómstólsins eða úrlausnum dómstóla aðildarríkja sem varða Rómarsamninginn. Engu síður er eðlilegt að tillit verði tekið til þeirra eigi markmiðin með lögfestingu frumvarpsins að nást.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í 1. gr. er gildissvið laganna skilgreint. Þar kemur fram að lögin eiga við um alla samninga sem tengjast fleiri en einu landi þar sem reynt getur á það álitaefni hvers lands lögum eigi að beita við úrlausn réttarágreinings sem kann að leiða af samningum. Þetta ber að skilja svo að lögin eiga ávallt við álitaefni þau sem rísa vegna samninga ef sakarefni tengist erlendum rétti, þ.e. þegar til greina kemur að önnur lög en íslensk (lög dómstólsríkisins) eigi við um úrlausn ágreinings. Aðilar kunna t.d. að hafa samið um að lög annars lands skuli gilda, þeir eru ríkisborgarar eða búsettir hver í sínu landi, samningur var gerður í öðru landi eða hann á að efna að öllu eða einhverju leyti í öðru landi. Þetta þýðir, svo dæmi sé tekið, að ákvæði laganna eiga við ef tveir íslenskir aðilar semja svo sín í milli að um úrlausn ágreinings sem kann að rísa vegna samnings skuli farið að dönskum lögum og skiptir þá ekki máli þótt samninginn eigi að efna að öllu leyti á Íslandi og aðilar séu báðir íslenskir ríkisborgarar og eigi þar heima. Samningsfrelsi aðila að þessu leyti kunna þó að vera takmörk sett, eins og fram kemur í ýmsum ákvæðum frumvarpsins, sbr. t.d. 5. gr. um neytendasamninga og 6. gr. um vinnusamninga, sem nánar er fjallað um í athugasemdum við þær greinar.
    Bent er á að í ákvæðum frumvarpsins og í athugasemdum hér að framan er notað orðalagið „lög annars ríkis“. Þrátt fyrir þetta orðalag eiga ákvæði frumvarpsins við þótt ágreiningur sé um hvaða lögum eigi að beita þegar um er að ræða fleiri en eitt réttarkerfi innan sama ríkis, sbr. t.d. ef ágreiningur væri um hvort beita skuli lögum Englands eða Skotlands, eða eftir atvikum lögum Texas eða Flórída þegar samningur hefur tengsl við Bandaríkin.
    Álitamál kunna að koma upp varðandi það hvað hugtakið „samningsskuldbinding“ (contractual obligation) merkir. Þannig má varpa fram þeirri spurningu eftir hvers lands lögum það fari hvort skuldbinding teljist samningsskuldbinding í skilningi laganna. Ef tekið er mið af viðhorfum fræðimanna sem fjallað hafa um skýringar á Rómarsamningnum er meginviðhorfið það að hugtakið „samningsskuldbinding“ í honum sé Evrópuréttarlegs eðlis. Þetta merkir að inntak hugtaksins ákvarðast af Evrópuréttinum sjálfum, en ekki af lögum einstakra aðildarríkja samningsins. Þetta er rökstutt með því að erfitt sé að öðrum kosti að tryggja einsleita og samræmda skýringu og framkvæmd samningsins í einstökum aðildarríkjum hans. Þótt Ísland sé ekki aðili að samningnum leiða þau rök sem búa að baki flutningi þessa frumvarps til þess að við þetta verði einnig að miða við framkvæmd og túlkun laganna hér á landi. Við skýringu á gildissviði laganna er því eðlilegt og heppilegt að gildissvið væntanlegra laga verði markað með sama hætti og gert hefur verið og mun verða gert að því er varðar Rómarsamninginn.
    Almenn skilgreining Evrópuréttarins er sú að með samningsskuldbindingum sé átt við skuldbindingar sem aðili hefur bakað sér af fúsum og frjálsum vilja. Þannig getur samningsskuldbinding sem stofnast með einhliða yfirlýsingu annars aðila, t.d. þegar um gjafagerninga er að ræða, átt undir ákvæði frumvarpsins. Með því að takmarka gildissvið laganna við skuldbindingar sem rísa af samningum milli aðila eða skuldbindingar sem leiðir af einhliða yfirlýsingum eins aðila, sem baka honum skuldbindingar gagnvart öðrum, falla mál sem varða eignarréttindi og hugverkaréttindi (intellectual property) utan gildissviðs ákvæða frumvarpsins.
    Í 2. mgr. eru taldar upp nokkrar tegundir samninga og samningsskuldbindinga sem falla utan gildissviðs laganna:
    Í a-lið kemur fram að lögin eigi ekki við um álitaefni sem varða persónulega réttarstöðu manna eða gerhæfi. Af þessu leiðir að álitaefni sem varða gerhæfi ber að leysa á grundvelli þeirra lagaskilareglna á sviði persónuréttar sem gilda í dómstólsríkinu. Þetta er þó sagt með fyrirvara um 11. gr., en þar kemur fram að einstaklingur, sem er aðili samningssambands þar sem báðir aðilar eru í sama landinu, geti því aðeins borið fyrir sig gerhæfisskort sinn samkvæmt lögum annars lands að hinum aðilanum hafi verið kunnugt um gerhæfisskortinn eða mátt vera um hann kunnugt.
    Í b-lið kemur fram að samningsskuldbindingar sem varða erfðir, þ.m.t. erfðaskrár, fjármálatengsl hjóna, eða réttindi og skyldur af sifjaréttarlegum toga, svo sem um samband foreldra og barna, mægðir, skyldleika og hjúskap, þ.m.t. samningar um framfærslu barna, falla utan gildissviðs laganna. Tilgangur þess ákvæðis er í reynd að fella undan gildissviði laganna alla samninga sem varða erfða- og sifjaréttarleg málefni.
    Í c-lið kemur fram að samningsskuldbindingar sem reistar eru á víxlum, tékkum, skuldabréfum og öðrum viðskiptabréfum, að svo miklu leyti sem álitaefni sem til úrlausnar eru snerta eðli þeirra sem viðskiptabréfa, falla utan gildissviðs laganna. Við gerð Rómarsamningsins voru þau rök færð fyrir þessu að hinar sveigjanlegu meginreglur laganna, einkum þær sem fram koma í 3. og 4. gr., voru taldar eiga illa við um viðskiptabréf. Þá skal bent á að flest ríki Evrópska efnahagssvæðisins eru aðilar að Genfarsamþykktinni um víxillög frá 1930 og annarri samþykkt um tékkalög sem skuldbundu aðila til að taka upp í lög hjá sér reglur sem væru samhljóða texta að slíkum lögum sem fylgdu samþykktunum. Samþykktirnar voru ekki undirritaðar af Íslands hálfu, en þrátt fyrir það þótti rétt að breyta íslenskum lögum um víxla og tékka til samræmis við þær. Sérstakar lagaskilareglur er þannig að finna víxil- og tékkalögum.
    Í d-lið kemur fram að gerðardómssamningar og samningar um val á dómstóli falla utan gildissviðs laganna. Þegar um er að ræða samninga sem innihalda m.a. ákvæði um gerðardómsmeðferð eða val á dómstóli leiðir af þessari undantekningu að aðeins þau ákvæði falla utan gildissviðs laganna, en ekki samningurinn að öðru leyti.
    Í e-lið er tekið fram að utan gildissviðs laganna falli álitaefni sem eiga undir löggjöf um fyrirtæki, félög eða aðrar lögpersónur. Hér undir falla t.d. mál sem varða stofnun (með skráningu eða öðrum hætti), löghæfi, innra skipulag eða slit og persónulega ábyrgð stjórnenda eða meðlima. Með þessu er stefnt að því að fella utan gildissviðs laganna allt sem fellur undir löggjöf um félög og fyrirtæki, annað en hreina samninga milli stofnenda þeirra. Þetta byggist á því að talið hefur verið að sérstakar lagaskilareglur þurfi á því sviði sem um ræðir í e-lið og hefur talsvert starf farið fram innan Evrópusambandsins í því skyni að samræma þær.
    Í f-lið er tekið fram að lögin eigi ekki við um álitamál sem upp kunna að koma um heimildir umboðsmanns til að binda skjólstæðing sinn og um heimild stjórnenda til binda fyrirtæki, félög eða aðrar lögpersónur. Mál sem rísa kunna um heimildir umboðsmanna eða fyrirsvarsmanna að þessu leyti ber því að leysa á grundvelli laga þess lands þar sem til slíks umboðssambands er stofnað, þ.m.t. lagaskilareglna þeirra sem kunna að eiga við.
    Í g-lið eru felld undan gildissviði laganna álitaefni sem varða stofnun fjárvörslusjóða (trust) og mál sem varða lögskipti stofnanda (settlor), vörslumanns (trustee) og réttahafa (beneficiaries). Skilgreining á fjárvörslusjóði miðast fyrst og fremst við enskan rétt þar sem slík stofnun er vel þekkt fyrirbæri og hefur skýrt afmarkaða merkingu. Hliðstæðir fjárvörslusjóðir þekkjast í öðrum löndum Evrópu og mundu þeir á sama hátt falla utan þessa ákvæðis, enda beri þeir öll einkenni slíkra sjóða. Það kemur í hlut dómstóla að meta það hverju sinni hvort sjóður fellur undir hugtakið fjárvörslusjóður samkvæmt lögum þessum, m.a. með samanburði við enskan rétt.
    Í h-lið er fjallað um undantekningar sem varða reglur um sönnun og málsmeðferð. Ákvæðið er takmarkað við tvo þætti sönnunar, þ.e. sönnunarbyrði og um aðferðir við að sanna athafnir sem hafa þýðingu um ráðstöfun sakarefnis.
    Í 3. mgr. er fjallað um vátryggingarsamninga sem varða vátryggingaratburði sem verða innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þar er tekið fram að lögin eigi ekki við um slíka vátryggingarsamninga. Undantekning er þó gerð varðandi samninga um endurtryggingu. Hún á þó aðeins við um vátryggingaratburði sem verða innan Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. 4. mgr. Varði vátryggingarsamningur atburði sem verða utan þess eiga lögin við, enda sé öðrum skilyrðum fyrir því fullnægt. Við ákvörðun um hvort atburður hafi gerst innan Evrópska efnahagssvæðisins ber að beita lögum dómstólsríkis.

Um 2. gr.

    Með ákvæðinu er lögð áhersla á víðfeðmt gildissvið frumvarpsins. Það er ekki bundið við að ákvæði þess leiði til að beita beri lögum lands sem er innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þannig gilda þau einnig fullum fetum þótt þau leiði til þess að beitt verði reglum lands utan svæðisins. Ástæða er til að taka þetta fram þar sem reglur laganna geta auðveldlega leitt til þess að beita beri lögum ríkis utan Evrópska efnahagssvæðisins, t.d. vegna þess að aðilar hafa samið um það, sbr. 3. gr. Aðrar reglur laganna geta einnig leitt til hins sama, sbr. t.d. 4. gr. þegar samningur er talinn hafa sterkust tengsl við það land.


Um 3. gr.

    Meginregla frumvarpsins kemur fram í 1. mgr., en samkvæmt því ákvæði eiga við þau lög sem samningsaðilar hafa komið sér saman um. Slíkt samkomulag getur ýmist komið fram í samningnum berum orðum, eða verður með vissu talið felast í honum eða öðrum atvikum sem tengjast samningsgerðinni.
    Þessi regla er þegar viðurkennd í íslenskum lagaskilarétti og er raunar viðurkennd sem grundvallarregla í lagaskilarétti á sviði samningaréttar um allan heim. Svipaða eða sömu reglu er að finna í fjölmörgum alþjóðasamningum á sviði lagaskilaréttar. Reglan sækir stoð sína í grundvallarregluna um samningsfrelsið og styðst við augljós rök, sem ekki er þörf á að rekja hér. Þrátt fyrir það sætir hún vissum takmörkunum sem síðar verða raktar.
    Aðilar geta ýmist samið um lagaval berum orðum í samningi eða það verður eftir atvikum talið felast í samningnum með vissu eða öðrum atvikum sem samningsgerðinni tengjast. Hið fyrra gefur ekki tilefni til mikilla athugasemda. Helst kemur til greina að víkja frá því sem berum orðum segir í samningi ef gild rök eru til þess að ætla að um hrein mistök eða pennaglöp hafi verið að ræða. Síðara atriðið veitir aftur á móti svigrúm til túlkunar. Samkvæmt því er í sjálfu sér ekki nauðsynlegt að aðilar taki afstöðu til lagavals berum orðum í samningi sínum heldur nægir að það verði af honum ráðið án skynsamlegs vafa eða af öðrum atvikum. Dæmi um þetta gæti verið þegar samningur gerir ráð fyrir að mál skuli reka fyrir íslenskum dómstólum. Þetta ætti að veita nokkuð örugga vísbendingu um að farið skuli að íslenskum lögum, þótt það sé ekki tekið fram, nema atvik bendi sterklega til annars. Þá er hugsanlegt að aðilar hafi áður gert samninga svipaðs efnis þar sem afstaða hefur verið tekin til lagavals og gæti það gefið sterka vísbendingu um hug aðila að þessu leyti, nema annað verði ráðið af sjálfum samningnum. Þá er hugsanlegt að til staðar séu rammasamningar eða heildarsamningar um viðskipti aðila þar sem finna má ákvæði sem lúta að lagavali, þótt þau sé ekki að finna í þeim tiltekna samningi sem ágreiningur hefur risið út af.
    Í niðurlagi 1. mgr. er tekið sérstaklega fram að samningsaðilar geti samið um að tiltekin lög skuli gilda um samninginn í heild eða að hluta. Þannig er vel hugsanlegt að reglur eins lands eigi við um tiltekinn hluta samningsins, en reglur annars lands um aðra hluta hans (depeçage). Þessi möguleiki undirstrikar frelsi samningsaðila til að semja um slíkt og er í fullu samræmi við regluna í 1. mgr.
    Reglan sem fram kemur í 2. mgr. er í fullu samræmi við 1. mgr. Í henni felst að aðilar geta á síðari stigum, eftir að samningur hefur verið gerður, breytt samkomulagi sínu um lagaval eða því lagavali sem leiðir af reglum laganna. Þetta er þó háð því skilyrði að slíkt samkomulag hafi ekki áhrif til hins verra á réttarstöðu þriðja manns sem kann að hafa lögmætra hagsmuna að gæta af því að fyrri ákvörðun sé ekki breytt án samþykkis hans.
    Í 3. mgr. eru settar vissar skorður við fullu frelsi aðila til að semja um lagaval. Í henni felst að hafi samningsaðilar samið um að beitt skuli erlendum lögum, hvort sem ágreining á að leggja undir erlendan dómstól eða ekki, en málefni samningsins tengjast að öðru leyti aðeins einu landi, komi slíkur samningur ekki í veg fyrir, séu skilyrði til þess að öðru leyti fyrir hendi, að unnt sé að beita ófrávíkjanlegum reglum þess lands sem samningurinn tengist.
    Regla 3. mgr. hefur það hlutverk að stemma stigu við því að þegar samningur hefur í reynd aðeins tengsl við eitt land (a fully domestic situation) geti aðilar farið í kringum ófrávíkjanlegar reglur þess lands með því að vísa til laga eða reglna annars lands sem ekki innihalda slíkar ófrávíkjanlegar reglur. Vitaskuld getur þessi regla valdið túlkunarerfiðleikum í framkvæmd. Í fyrsta lagi þarf að meta hvort samningur tengist í reynd að öllu leyti aðeins einu landi og í öðru lagi hverjar eru hinar ófrávíkjanlegu reglur sem við eiga. Dæmi um hið fyrrnefnda væri t.d. þegar aðilar eru báðir eða allir búsettir í sama landi, samningurinn er gerður þar og hann á að efna þar að fullu. Með hinum ófrávíkjanlegum reglum er átt við reglur sem aðilar gætu ekki samið sig undan við hreinar innanlandsaðstæður (domestic situation). Enn fremur er rétt að benda á að samningsfrelsi aðila er einnig nokkuð takmarkað í 5. og 6. gr., svo sem nánar er vikið að í athugasemdum við þær greinar.
    Í 4. mgr. kemur fram að ákvörðun um það hvort samþykki um lagaval er til staðar og um gildi þess fari skv. 8., 9. og 11. gr. laga þessara. Í þessu ákvæði er tekið af skarið um það að rísi upp álitamál um efnislegt eða formlegt gildi ákvæðis í samningi um lagaval skuli tilvitnuð ákvæði eiga við, rétt eins og um önnur atriði sem lúta að efnislegu eða formlegu gildi samnings.

Um 4. gr.

    Í 1. mgr. kemur fram sú regla að þegar aðilar hafa ekki samið um lagaskil og ekki verður með neinni vissu ráðið af samningum að öðru leyti hvers lands lögum aðilar ætlast til að verði beitt skuli beita lögum þess lands sem samningurinn hefur sterkust tengsl við. Áþekk regla var fyrir gildistöku Rómarsamningsins viðurkennd í flestum ríkjum Efnahagsbandalags Evrópu og sama regla hefur verið talin eiga við hér á landi. Í ákvæðinu er enn fremur tekið fram að hafi afmarkaður hluti samningsins nánari tengsl við annað land en það sem leiða mundi af 1. málsl. ákvæðisins, sé unnt að beita lögum þess lands að því er þann hluta samnings varðar. Mælikvarði sá sem notaður er í 1. mgr. er vissulega matskenndur. Af þeim sökum er að finna í 2.–5. mgr. nánari leiðbeiningarreglur um það hvernig ákvarða ber hvaða land samningur hefur sterkust tengsl við.
    Í 2. mgr. kemur fram að litið skuli svo á að jafnaði að samningurinn hafi sterkust tengsl við það land þar sem sá aðili býr við samningsgerðina sem á að efna aðalskyldu samningsins. Þegar fyrirtæki, félag eða önnur lögpersóna ber aðalskylduna skal að jafnaði litið svo á að samningur hafi sterkust tengsl við það land þar sem viðkomandi aðili hefur aðalstöðvar sínar. Rétt er að benda á að orðalagið „að jafnaði“ merkir að hugsanlegt er að líta fram hjá reglunni ef atvik að öðru leyti mæla sterklega með því, sbr. einnig 5. mgr. þessarar greinar.
    Tilgangur 2. mgr. er í fyrsta lagi sá að setja fram leiðbeiningarreglu um það hvernig beri að ákvarða við hvaða land samningur hefur sterkust tengsl. Reglan er hins vegar háð því skilyrði að unnt sé að ákvarða það sem kallað er aðalskylda samnings, enda á hún ekki við að öðrum kosti, sbr. nánar 5. mgr. greinarinnar. Enn fremur takmarkast gildissvið reglunnar af 3. og 4. mgr. greinarinnar þegar um er að ræða tilteknar tegundir samninga. Í öðru lagi þjónar regla 2. mgr. því hlutverki að ákvarða nánar hvers lands lögum skuli beitt þegar um er að ræða gagnkvæma samninga, sem aðilum ber að efna hvorum innan sinnar lögsögu. Með því að vísa til aðalskyldu samningsins er gert upp á milli þeirra. Sem dæmi má nefna samning um kaup á tiltekinni vöru þar sem peningagreiðsla kemur gegn afhendingu vöru og aðilar efna samningsskuldbindingar sínar hvor í sínu landi. Í þessu tilfelli er rétt að gera ráð fyrir að afhending vörunnar sé aðalskylda samningsins, enda er skyldan til að afhenda vöru sértækari en almenn skylda til að inna peningagreiðslu af hendi, og fyrir fram mun líklegri til að hafa í för með sér lögfræðileg álitaefni. Sama á að sjálfsögðu við ef látin er í té þjónusta gegn peningagreiðslu eða önnur réttindi látin af hendi.
    Meginreglan sem fram kemur í fyrri hluta 2. mgr. er nánar útfærð í seinni hlutanum. Þar kemur fram að hafi samningurinn verið gerður í tengslum við atvinnurekstur og samning ber að framkvæma á öðrum stað skal litið svo á að samningur hafi sterkust tengsl við það land þar sem sá sem skylduna ber hefur sína aðalstarfsstöð. Í þessu ákvæði kemur aðalstarfsstöð í staðinn fyrir búsetu og aðalstöðvar.
    Í 3. mgr. er fjallað sérstaklega um samninga sem varða fasteignir og réttindi yfir fasteignum, þ.m.t. afnotarétt. Ákvæðið gildir einnig þótt aðeins hluti samningsins varði fasteignir, en þá aðeins að því er varðar þann hluta. Í ákvæðinu felst að jafnan skuli litið svo á að samningur hafi mest tengsl við það land þar sem fasteignin er. Þetta er regla sem var talin gilda í lagaskilarétti margra ríkja EBE áður en Rómarsamningurinn tók gildi. Bent skal á að notað er orðalagið „jafnan litið svo á“ sem bendir til þess að unnt er að hnekkja þessari forsendu ef atvik að öðru leyti benda sterklega til þess að samningur hafi eftir sem áður mest tengsl við annað land. Dæmi um þetta gæti verið ef tveir íslenskir aðilar, sem báðir eru búsettir á Íslandi, gerðu samkomulag sín á milli um leigu á sumarhúsi á Ítalíu. Við þessar aðstæður væri unnt að halda því fram að samningurinn hefði mest tengsl við Ísland og því ætti að beita íslenskum lögum, en ekki ítölskum, eins og annars mundi leiða af 3. mgr.
    Ákvæði 3. mgr. hefur verið skýrt svo að utan gildissviðs þess falli samningar um byggingu húsa og annarra mannvirkja og viðgerðarsamningar, enda er þar frekar um að ræða viðskipti um þjónustu en samninga sem varða fasteignina sem slíka og réttindi yfir henni. Ákvæði þetta er hliðstætt 1. mgr. 16. gr. Lúganósamningsins, sbr. lög nr. 68/1995. Þar kemur fram að í málum sem varða réttindi yfir fasteign eða leigu fasteignar hafi dómstólar í því landi þar sem fasteignin er einir dómsvald. Að því er varðar samninga sem varða hlutdeild í afnotarétti orlofshúnæðis vísast til laga nr. 23/1997. Þar kemur fram í 2. mgr. 1. gr. að kaupandi að hlutdeild í afnotarétti af fasteign sem staðsett er á Evrópska efnahagssvæðinu nýtur verndar samkvæmt ákvæðum þeirra laga, þótt um samninginn fari eftir löggjöf lands utan svæðisins.
    Í 4. mgr. er að finna sérákvæði um samninga um vöruflutninga, sem taka mið af sérstöku eðli slíkra samninga. Þar kemur fram að meginregla 2. mgr. gildir ekki þegar um er að ræða slíka samninga. Þegar um þá er að ræða og flytjandi hefur aðalbækistöðvar í sama landi og farmurinn er lestaður eða hann affermdur eða í sama landi og aðalbækistöðvar sendanda eru skal jafnan litið svo á að samningur hafi sterkust tengsl við það land. Sem dæmi um beitingu þessa ákvæðis mætti nefna að A gerir samning við Eimskip, sem hefur aðalstöðvar sínar á Íslandi, um flutning á vörum. Þá nægir að samningur uppfylli eitt af þeim skilyrðum sem fram koma í ákvæðinu til þess að íslenskum lögum verði beitt, þ.e. farmurinn sé lestaður á Íslandi eða hann affermdur þar eða sendandi hafi þar sína aðalstarfsstöð. Við beitingu þessa ákvæðis skal litið á farmsamninga um einstaka ferð (single voyage charter-parties) og aðra samninga sem hafa vöruflutninga sem meginmarkmið sem samninga um vöruflutninga. Samningar um flutninga á fólki eiga undir 2. mgr. 3. gr.
    Samkvæmt 5. mgr. á 2. mgr. ekki við þegar ekki er unnt að afmarka aðalskyldu samnings. Þetta merkir að beiting leiðbeiningarreglunnar í 2. mgr. á því aðeins við að þetta sé unnt. Að öðrum kosti verður að meta það eftir atvikum hverju sinni á grundvelli 1. mgr. hvaða land það er sem samningur telst hafa sterkust tengsl við.

Um 5. gr.

    Ákvæði greinarinnar hefur að geyma sérstakar lagaskilareglur varðandi neytendasamninga.
    Í 1. mgr. er gildissvið ákvæðisins afmarkað. Hugtakið neytendasamningur á sér samsvörun í 13. gr. Lúganósamningsins. Samkvæmt því er um neytendasamning að ræða þegar maður (neytandi) gerir samning um kaup á vöru eða þjónustu í tilgangi sem telja verður að varði ekki atvinnu hans. Tilgangur ákvæðisins er að vernda neytendur og ber að skýra ákvæðið í samræmi við þann tilgang. Samkvæmt því á ákvæðið aðeins við þegar annar aðili samnings selur vöru eða þjónustu til neytanda sem lið í atvinnu sinni.
    Ef viðskiptin fara fram þannig að þau eru hvorki liður í atvinnu seljanda né kaupanda á greinin ekki við, t.d. þegar maður kaupir notaða lausafjármuni (eða fornmuni) af öðrum einstaklingi án þess að það sé liður í atvinnustarfsemi. Þá á hún í samræmi við þetta heldur ekki við þegar báðir aðilar samnings gera hann sem lið í atvinnu sinni. Dæmi um það eru kaup tannlæknis á tækjum til nota í rekstri sínum frá framleiðanda eða söluaðila. Ákvæðið á jafnt við um staðgreiðsluviðskipti og samning um lánsviðskipti sem er gerður í tengslum við kaupin. Hugsanlegt er að aðeins hluti samnings sé neytendasamningur í skilningi þessa ákvæðis og fellur þá sá hluti hans undir ákvæði greinarinnar. Dæmi um íslenskar reglur sem ekki er hægt að víkja frá með samningi neytanda í óhag eru ákvæði laga um neytendalán, nr. 121/1994, sbr. 24. gr. þeirra laga.
    Í 2. mgr. er að finna ákvæði sem felur í sér að neytandinn skuli aldrei vera verr settur en lög þess lands þar sem hann á heima gera ráð fyrir, jafnvel þótt samningurinn hafi að geyma ákvæði sem gerir ráð fyrir að lög annars lands skuli lögð til grundvallar. Fyrir þessu eru þó sett ákveðin skilyrði sem fram koma í málsgreininni. Nægilegt er að samningur uppfylli eitt þessara skilyrða.
    Hið fyrsta tekur til þess þegar undanfari samningsins er sérstakt tilboð til neytandans eða almenn auglýsing og allur nauðsynlegur undirbúningur fyrir samningsgerðina af hans hálfu hafi farið fram í því landi þar sem neytandi býr. Í þessu felst skilyrði um að seljandinn hafi boðið fram vöru sína, svo sem með sérstöku tilboði eða auglýsingu í blöðum, útvarpi eða sjónvarpi, eða á annan hátt í því landi þar sem neytandinn á heima. Hér undir falla einstök tilboð sem seljandi kann að hafa gert viðkomandi neytanda, annaðhvort fyrir tilstilli umboðsmanns eða sérstakra sölumanna, eða sérstök tilboð sem berast honum í pósti, gegnum síma eða á annan hátt. Til nánari skýringar má taka sem dæmi að seljandinn birtir auglýsingu í íslensku blaði eða tímariti. Samningar sem gerðir yrðu í framhaldi af því falla undir sérreglu greinarinnar. Ef slík auglýsing birtist í dönsku blaði, sem ætlað er fyrir danskan markað, gæti Íslendingur búsettur hér á landi ekki borið ákvæðið fyrir sig. Skilyrði er að kaupandinn hafi gert allar nauðsynlegar ráðstafanir til undirbúnings samningsgerðinni í því landi þar sem hann býr. Þetta skilyrði er orðað á þennan sérstaka hátt til að aðgreina það frá þeim stað þar sem samningur er gerður, þar sem algengt er að slíkir samningar séu gerðir með bréfaskiptum eða fjarskiptum og því oft erfitt að skera úr um það hver samningsstaðurinn í reynd er.
    Annað skilyrði er að seljandinn, eða umboðsmaður hans, hafi tekið við pöntun í því landi þar sem neytandinn býr. Þetta skilyrði skarast nokkuð við það sem nefnt er hér að framan, en getur þó haft sjálfstæða þýðingu. Sem dæmi um það er tilvik þegar seljandinn, sem hefur aðsetur í öðru landi, hefur kynnt vöru sína á sýningu í því landi þar sem neytandinn býr, án þess að um auglýsingu eða tilboð sé að ræða, og neytandinn pantar á sýningarstað.
    Þriðja skilyrðið tekur til þess þegar samning um sölu vöru er að rekja til þess að neytandinn ferðaðist frá heimalandi sínu til annars lands og gerði samning þar og ferðin var skipulögð að undirlagi seljandans í þeim tilgangi að hvetja neytandann til kaupanna. Þetta eru viðskiptahættir sem eru að nokkru kunnir á meginlandi Evrópu þar sem eigendur stórra verslana eða verslanasamstæðna skipuleggja ferðir, t.d. með langferðabifreiðum, frá nágrannabyggðum í öðru landi í því skyni að auka sölu.
    Í 3. mgr. felst að neytandinn nýtur ávallt verndar ófrávíkjanlegra reglna í því landi þar sem hann býr hvort sem samningur hefur að geyma ákvæði um lagaval, sbr. 3. gr., eða þau ákvarðast skv. 4. gr.
    Í 4. mgr. kemur fram að ákvæði greinarinnar eigi ekki við um flutningasamninga. Þá eiga þau heldur ekki við þegar neytandi kaupir þjónustu sem á að öllu leyti að láta í té í öðru landi en því þar sem hann á heima. Undantekningin um flutningasamninga byggist á því að reglur 5. gr. eigi illa við um slíka samninga og að þær reglur sem er að finna í 4. mgr. 4. gr. veiti nægilega vernd í þessu efni. Síðari undantekningin byggist á því að við þær aðstæður sem þar er lýst hafi samningur í reynd lítil eða engin tengsl við heimaríki neytandans. Sem dæmi mætti nefna þegar neytandi pantar gistingu á hóteli í öðru landi. Við þessar aðstæður væri óeðlilegt ef neytandi gæti beitt fyrir sig lögum heimaríkis síns.
    Ákvæði þessarar greinar tryggja neytanda vernd samkvæmt ófrávíkjanlegum reglum í því landi þar sem hann á heima. Í enskri útgáfu Rómarsamningsins er notað hugtakið „habitual residence“. Með því er átt við dvöl um nokkurn tíma á tilteknum stað, án þess þó að skilyrðum um heimilisfesti (domicil) þurfi að vera fullnægt.

Um 6. gr.

    Ákvæði greinarinnar fela í sér vissar takmarkanir á frelsi til að semja um lagaskil þegar um er að ræða vinnusamninga og miða þær að vernd launþega. Greinin útilokar að sjálfsögðu ekki að aðilar vinnusamnings geti samið um lagaval, enda eiga ákvæði 2. mgr., þegar samkomulag er til staðar, aðeins við að svo miklu leyti sem þær leiða til betri réttarstöðu launþegans en leiða mundi af lögum þess lands sem samið hefur verið um að beita skuli. Sem dæmi má nefna að lög þau sem 2. mgr. vísar til hafi að geyma ákvæði um lengri uppsagnarfrest en leiða mundi af þeim reglum sem vinnusamningurinn vísar til. Við þessar aðstæður gilda um uppsagnarfrestinn lög þau sem málsgreinin vísar til.
    Þær ófrávíkjanlegu reglur sem 1. mgr. vísar til eru ekki aðeins reglur sem varða vinnusamninginn sem slíkan heldur einnig t.d. reglur sem leiðir af heildarkjarasamningum og almennum lögum, svo sem um öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum, enda þótt þær séu hér á landi taldar á sviði opinbers réttar. Þótt orðið vinnusamningur sé notað í ákvæðinu á það í reynd við allar aðstæður þar sem vinnusamband er til staðar, óháð því hvort skriflegur vinnusamningur hefur verið gerður eða ekki, enda eiga ófrávíkjanlegar reglur um vinnusamninga við eftir sem áður. Þá vísar ákvæðið einnig til reglna sem kunna að gilda um ógilda vinnusamninga.
    Í 2. mgr. er að finna ákvæði um það hvernig skuli fara með vinnusamninga ef ekki er samið um lagaskil. Þá eiga við sérstakar reglur sem raktar eru í a- og b-lið. Skv. a-lið skal við þessar aðstæður beita lögum þess lands þar sem launþegi að jafnaði starfar, enda þótt honum hafi tímabundið verið falin störf í öðru landi. Í b-lið er að finna ákvæði sem tekur til þess þegar launþegi vinnur störf sín að jafnaði ekki í neinu tilteknu landi. Við þær aðstæður eiga við lög þess lands þar sem er starfsstöð sú sem réð hann til starfa. Ef aðstæður eru þannig að samningurinn hefur meiri tengsl við annað land ber að beita lögum þess lands.

Um 7. gr.

    Skýra má inntak 1. mgr. með dæmi. Mál er rekið fyrir íslenskum dómstóli. Ef lög þessi leiða til þess að beita á norskum lögum en atvik málsins hafa einnig rík tengsl við Þýskaland og í Þýskalandi gilda ófrávíkjanlegar reglur, sem skylt er að beita um samninginn, er heimilt að beita hinum þýsku ófrávíkjanlegu reglum, þótt norsk lög eigi við samninginn að öðru leyti. Við mat á því hvort svo skuli gert ber að taka tillit til eðlis og tilgangs hinna ófrávíkjanlegu reglna og afleiðinga þess að beita þeim eða eftir atvikum beita þeim ekki. Skv. 2. mgr. er aftur á móti ávallt heimilt að beita ófrávíkjanlegum reglum þess lands þar sem málið er rekið (dómstólsríkis). Við þær aðstæður eiga ekki við þær takmarkanir sem fram koma í niðurlagi 1. mgr.
    Í 1. mgr. er að finna nokkur matskennd atriði sem ástæða er til að fara nokkrum orðum um. Hið fyrsta er að atvik málsins verða að hafa „náin tengsl“ við viðkomandi land. Lausleg tengsl eru ekki nægileg. Sem dæmi um slík náin tengsl er það þegar samning ber að efna í því landi, annar aðili er búsettur þar eða höfuðstöðvar hans eru þar, ef því er að skipta. Í ákvæðinu er notað orðalagið „atvik málsins“ sem á að útiloka að reglunni verði beitt þegar aðeins hluti samnings hefur tengsl við viðkomandi land. Þá er niðurlag málsgreinarinnar nokkuð matskennt þar sem mælt er svo fyrir að taka beri tillit til eðlis og tilgangs hinna ófrávíkjanlegu reglna og afleiðinga þess að beita þeim eða, eftir atvikum, láta hjá líða að beita þeim. Hér er dómaranum eftirlátið talsvert svigrúm til mats og m.a. haft í huga að hann þurfi að velja á milli ófrávíkjanlegra reglna fleiri en eins lands.
    Með 2. mgr. er ófrávíkjanlegum reglum þess lands þar sem málið er rekið (dómstólsríkis) gefið sérstakt vægi. Þeim reglum getur dómari ávallt beitt án þess að hinum matskenndu skilyrðum 1. mgr. sé fullnægt. Hér eru einkum hafðar í huga reglur um hringamyndun, neytendavernd, samkeppni og reglur um flutninga, sem eru ófrávíkjanlegar, óháð því hvers lands lögum á annars að beita um ágreininginn.
    Við gerð Rómarsamningsins komu þær röksemdir fram fyrir þessari reglu að samningsaðilar gætu ekki farið í kringum ófrávíkjanlegar reglur í landi sem samningur og önnur atvik sem honum tengjast hafa augljós og náin tengsl við.

Um 8. gr.

    Í greininni eru ákvæði um það hvers lands lögum skuli beita ef ágreiningur er um efnislegt gildi samnings eða einstakra ráðstafana í tengslum við gerð hans. Þar er gert ráð fyrir að sé ágreiningur um tilvist eða efnislegt gildi samnings eða einstakra ákvæða hans, þ.m.t. ákvæði hans um lagaval, skuli leysa úr slíkum ágreiningi samkvæmt þeim lögum sem eiga mundu við um samninginn ef hann eða einstök ákvæði hans væru gild.
    Megintilgangur samsvarandi ákvæðis Rómarsamningsins er að taka afstöðu til þess hvers lands lögum skuli beita við ákvörðun um það hvort og að hvaða marki þögn eða athafnaleysi (tómlæti) aðila getur bakað honum samningsskuldbindingar. Þó er bent á að samkvæmt orðalaginu sé gildissvið greinarinnar ekki bundið við það. Ákvæðið tekur til allra atriða sem varða tilurð og gerð samningsins, þ.e. hvort til staðar eru ógildingarástæður sem valda mundu efnislegu ógildi samningsins. Hér má t.d. nefna fölsun, réttaráhrif tómlætis, réttaráhrif eftirfarandi samþykkis, afbökun, samningur aflagast, þýðingu tilkynninga, hvort um er að ræða málamyndagerning, nauðung, svik, misneytingu, viljaskort, forsendubrest, að óheiðarlegt væri að bera samning fyrir sig og hvort t.d. almenn ógildingarregla 36. gr. samningalaga, nr. 7/1936, geti átt við.
    Sem dæmi til frekari skýringar á reglunni í 1. mgr. má nefna það þegar norsk lög eiga við samning samkvæmt lögum þessum. Ef því væri haldið fram að samningurinn hefði ekki komist á, t.d. vegna samþykkisskorts, nauðungar eða annarra atvika, leiðir regla 1. mgr. til þess að beita ætti norskum lögum við úrlausn þess álitaefnis.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um frávik frá ákvæði 1. mgr. Þar er gert ráð fyrir að aðili geti byggt á lögum þess lands þar sem hann býr til að sýna fram á að hann hafi ekki veitt samþykki sitt, ef atvik máls eru þannig að ósanngjarnt þykir að dæma um réttaráhrif athafna hans eða athafnaleysis eftir þeim reglum sem leiða mundi af 1. mgr. Við mat á því hvort 2. mgr. á við ber dómara að taka tillit til atvika málsins í heild sem tengjast samningsgerðinni og jafnvel fyrri samskipta aðila. Afleiðing 2. mgr. gæti orðið sú að losa aðila undan samningi, sem hann annars væri bundinn af skv. 1. mgr. Hins vegar verður 2. mgr. ekki beitt til að sýna fram á að samningur hafi stofnast sem ekki er gildur skv. 1. mgr.
    Ákvæði greinarinnar eiga ekki almennt við um það þegar ágreiningur er um hvort um samningsskuldbindingar er að ræða eða annars konar skyldur. Vísast til athugasemda við 1. gr. um þetta efni.

Um 9. gr.

    Í greininni er að finna ákvæði sem fjalla um það hvers lands lögum skuli beita þegar ágreiningur er um formlegt gildi samnings. Hér er átt við reglur um form samninga, eða hvernig staðið skuli formlega að þeim, sem fullnægja verður til þess að litið sé svo á að samningur sé til staðar.
    Í 1. mgr. kemur fram að samningur sem gerður er milli einstaklinga sem eru í sama landinu sé gildur að formi til ef hann fullnægir formkröfum laga þess lands sem eiga við hann samkvæmt lögum þessum eða lögum þess lands þar sem hann var gerður.
    Í 2. mgr. er vikið að þeirri aðstöðu þegar samningsaðilar eru hvor í sínu landinu þegar samningur er gerður. Á sama hátt og í 1. mgr. er gert ráð fyrir að ákvarða skuli formlegt gildi samnings eftir þeim lögum sem lög þessi mundu vísa til, en jafnframt er tekið fram að nægilegt sé að samningur uppfylli formkröfur í öðru þeirra ríkja sem samningsaðilar eru í við samningsgerðina. Dæmi um þetta gæti verið þegar annar samningsaðila er á Íslandi en hinn í Danmörku og samið er um að um ágreining skuli dæma eftir frönskum lögum. Af 2. mgr. leiðir að nægilegt er að samningur teljist formlega gildur samkvæmt lögum eins þessara þriggja ríkja.
    Í 3. mgr. er ákvæði um það hvernig með skuli fara ef umboðsmaður gerir samning fyrir hönd skjólstæðings síns. Samkvæmt ákvæðinu kemur land það þar sem umboðsmaður framkvæmir ráðstafanir sínar í stað þess lands þar sem aðili er skv. 1. og 2. mgr.
    Í 4. mgr. kemur fram að ráðstöfun sem ætlað er að hafa réttaráhrif í tengslum við gerðan samning eða fyrirhugaðan samning sé gild ef hún fullnægir formkröfum þeirra laga sem við eiga samkvæmt frumvarpinu eða ættu við um samninginn ef hann væri gildur, eða þess lands þar sem ráðstöfun var gerð.
    Framangreind regla á við um samninga og einhliða ráðstafanir sem ætlað er að hafa réttaráhrif. Hér er ekki síst átt við einhliða ráðstafanir sem tengjast gerð samninga sem gerðir hafa verið eða fyrirhugaðir eru. Slíkar ráðstafanir geta verið af ýmsum toga, svo sem yfirlýsing um uppsögn, eftirgjöf skuldar, riftun eða höfnun efnda. Þessar ráðstafanir verða að standa í tengslum við samning. Einhliða ráðstafanir sem ekki tengjast samningi, t.d. einhliða skuldaviðurkenning, einhliða viðurkenning bótaábyrgðar utan samninga eða einhliða yfirlýsing um yfirfærslu réttinda í hlut eða verðmæti tengist ekki samningi, falla utan gildissviðs greinarinnar og raunar frumvarpsins í heild. Til að skýra tengsl 4. mgr. og ákvæðis 8. gr. frumvarpsins má taka sem dæmi að aðili samnings lýsir samning ógildan. Ágreiningur um það hvort staðið hafi verið að yfirlýsingunni með réttum formlegum hætti á þá undir 9. gr., sbr. einkum 4. mgr., en ágreiningur um það hvort efnislegum skilyrðum ógildingar sé fullnægt á undir 8. gr.
    Reglur 1.–4. mgr. byggjast á því sjónarmiði að líkur séu til að samningur eða ráðstafanir sem gerðar eru í tengslum við samning séu formlega gildar þar sem miðað er við að það sé nægilegt að samningur eða ráðstafanir fullnægi formreglum í einhverju þeirra ríkja sem koma til greina. Sem dæmi um þetta er samningur sem gerður er á Íslandi, en í honum er gert ráð fyrir að um ágreining skuli fara að frönskum lögum. Samningurinn telst formlega gildur þótt hann fullnægi ekki formkröfum franskra laga ef hann telst fullnægja kröfum íslenskra laga.
    Í 5. og 6. mgr. er að finna sérákvæði um ákveðnar tegundir samninga, þ.e. neytendasamninga annars vegar og samninga sem varða réttindi yfir fasteignum hins vegar.
    Samkvæmt 5. mgr. eiga ákvæði 1.–4. mgr. við um neytendasamninga skv. 5. gr. frumvarpsins, enda séu þeir gerðir við þær aðstæður sem lýst er í 2. mgr. 5. gr. Í ákvæðinu er tekið af skarið um að gildi slíkra samninga skuli ávallt ákvarðast eftir lögum þess lands þar sem neytandinn býr. Að baki þessu búa sömu sjónarmið um neytendavernd og búa að baki 5. gr.
    Ákvæði 6. mgr. eiga við um samninga um réttindi yfir fasteignum, þ.m.t. afnotarétt. Þar er gert ráð fyrir að þrátt fyrir ákvæði 1.–4. mgr. eigi við um slíka samninga ófrávíkjanlegar formreglur laga þess lands þar sem fasteignin er, ef reglur samkvæmt þeim lögum eiga við óháð því í hvaða landi samningurinn er gerður og óháð þeim lögum sem annars eiga við um samninginn. Með þessu er reglum þess lands þar sem fasteign er gert hærra undir höfði en annarra ríkja, enda geri þær reglur ekki sjálfar ráð fyrir öðru.
    Í greininni er ekki skilgreint hvað er átt við með formlegu gildi samnings. Þetta getur verið erfitt að afmarka nákvæmlega, sérstaklega gagnvart því sem í 8. gr. er nefnt efnislegt gildi. Þó er miðað við að undir formkröfur um gildi samnings falli sérhver ráðstöfun sem nauðsynleg er af hálfu aðila til að gefa til kynna vilja til að vera bundinn og sem mundi leiða til þess að skuldbinding stofnaðist ekki ef hún væri ekki til staðar. Þetta má skýra frekar með hliðsjón af íslenskum samningarétti. Almennt eru samningar ekki formbundnir að íslenskum rétti, þótt frá því séu vissar undantekningar. Sem dæmi um þetta eru ákvæði í lögum um húsaleigusamninga þar sem gert er ráð fyrir að húsaleigusamningar skuli vera skriflegir. Slíkar undantekningar eru fleiri þótt þær verði ekki raktar hér.

Um 10. gr.

    Í þessari grein er að finna ákvæði sem varðar gildissvið laga þess lands sem samningur vísar til skv. 3.–6. gr. og 12. gr. Þar kemur fram að lögin skuli einkum taka til nánar tilgreindra atriða. Vakin er athygli á að notað er orðalagið „einkum“, sem merkir að upptalningin í greininni er ekki tæmandi. Þau atriði sem talin eru upp eru þessi: a) túlkun samnings, b) efndir, c) afleiðingar vanefnda, þ.m.t. ákvörðun bóta að svo miklu leyti sem þær eru ákvarðaðar samkvæmt lagareglum, með þeim takmörkunum sem leiðir af réttarfarslögum um heimildir dómstóla, d) mismunandi lyktir samninga, tómlæti og fyrningu og e) afleiðingar þess að samningur telst ógildur. Samkvæmt þessu falla undir 1. mgr. álitaefni um það hvort samningur hefur verið réttilega efndur, að hve miklu leyti annar en sá sem er skuldbundinn getur uppfyllt samninginn og önnur atriði sem varða efndir hans, um sönnun fyrir greiðslu, um afleiðingar vanefnda o.s.frv.
    Í 2. mgr. kemur fram að þegar ákvarðað er hvort samningur hefur verið réttilega efndur eða hvort þær ráðstafanir sem gripið er til í tilefni vanefnda samnings skuli taka tillit til laga þess lands þar sem efndir samnings eiga að fara fram. Ákvæðið felur aðeins í sér ráðagerð um að til laga þessara verði tekið tillit, jafnvel þótt af samningnum og lögum þessum leiði að önnur lög annars lands eigi að öðru leyti við um samninginn. Með þessu orðalagi er dómara fengið svigrúm til að meta það eftir aðstæðum hverju sinni með hliðsjón af því sem sanngjarnt þykir hvort hann lætur þær reglur hafa áhrif á niðurstöðu sína.


Um 11. gr.

    Í þessari grein felst að þegar um er að ræða samning milli tveggja aðila sem eru í sama landinu geti einstaklingur sem hefur gerhæfi samkvæmt lögum þess lands því aðeins borið fyrir sig gerhæfisskort sem leiða mundi af lögum annars lands að gagnaðili hans hafi, þegar samningurinn var gerður, vitað eða hafi mátt vita um gerhæfisskortinn samkvæmt þeim lögum.
    Rifja má upp að skv. a-lið 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að álitamál sem varða gerhæfi aðila falli utan gildissviðs laganna. Samkvæmt því ber að dæma álitmál af því tagi eftir því sem almennar lagaskilareglur einstakra ríkja gera ráð fyrir. Þær reglur eru með öðrum orðum ekki samræmdar í Rómarsamningnum. Ákvæði greinarinnar hafa þann tilgang að vernda samningsaðila sem er í góðri trú um heimildir viðsemjanda síns til samningsgerðar. Hann á ekki að þurfa að sæta því að viðsemjandi hans beri fyrir sig gerhæfisskort með vísan til reglna sem reglur lagaskilaréttar um það efni mundu leiða til, nema hann hafi vitað um gerhæfisskortinn samkvæmt þessum reglum eða hann hefði mátt vita um hann. Skilyrði er að samningurinn hafi verið gerður milli aðila í sama landinu, en það er augljóslega helst við þær aðstæður sem gagnaðili hefur ástæðu til að kynna sér sérstaklega reglur um gerhæfi í öðrum ríkjum sem samningurinn hefur tengsl við.


Um 12. gr.

    Hér er fjallað um þær lagaskilareglur sem gilda þegar um framsal (kröfu)réttinda er að ræða. Í 1. mgr. er fjallað um réttarsamband framseljanda og framsalshafa en í þeirri síðari um samband framsalshafa og skuldara.
    Í 1. mgr. kemur fram sú regla að um gagnkvæmar skyldur framseljanda og framsalshafa samkvæmt samningi um framsal réttinda á hendur þriðja manni (skuldara) fer eftir lögum þess lands sem samkvæmt lögum þessum gilda um samninginn milli framseljanda og framsalshafa. Túlkun þessa ákvæðis veldur yfirleitt ekki vafa. Samkvæmt þessari málsgrein er augljóst að um samband framseljanda og framsalshafa tiltekinna réttinda fari samkvæmt þeim lögum sem gilda um framsalssamninginn. Frumvarpsgreinin á við þegar framsal kröfuréttinda verður með samningi. Á hinn bóginn er það ekki skilyrði að hin framselda krafa eigi rót sína að rekja til samnings. Það sem ræður úrslitum er fyrst og fremst hvort framsalið sem slíkt varð með samningi eða ekki. Hin framselda krafa getur á hinn bóginn átt rót sína að rekja til atvika utan samningssambands, t.d. getur þar verið um að ræða kröfu um skaðabætur utan samninga.
    Af ákvæðum 1. mgr. leiðir að um réttarsamband (réttindi og skyldur) framseljanda og framsalshafa fer eftir þeim lögum sem gilda um framsalssamninginn sem slíkan. Um það atriði hver lög ráða í þeim efnum fer eftir almennum lagaskilareglum í 3. og 4. gr. Um samning framseljanda og framsalshafa er samkvæmt þessu dæmt sjálfstætt og án tengsla við þær reglur sem gilda um réttarsamband framseljanda og skuldara. Af þessu leiðir að þau lög, sem gilda um réttarsamband framseljanda og framsalshafa, þurfa engan veginn að vera sömu lögin og gilda um réttarsamband framseljanda og skuldara.
    Í 2. mgr. þessarar greinar kemur á hinn bóginn fram sú regla að lögum sem gilda um framseld réttindi ber einnig að beita varðandi heimildir til framsals; um sambandið milli framsalshafa og skuldara; um skilyrði þess að framsalinu verði beitt gagnvart skuldara og um sérhvert álitaefni varðandi það hvort skuldari hafi verið leystur undan skuldbindingu sinni. Orðalagið „skilyrði þess að framsalinu verði beitt gagnvart skuldara“ nær jafnt til skilyrða sem kunna að vera sett fyrir því að réttindin verði yfirleitt framseld, sem og þeirra formreglna sem nauðsynlegt er að fylgja til að gera framsalið gildandi gagnvart skuldara.
    Samkvæmt 2. mgr. ber að dæma álitaefni sem varða samband framsalshafa og skuldara samkvæmt þeim lögum sem gilda um upprunalegt (ursprungliga) skuldarsamband framseljanda og skuldara. Í þessu felst að réttarstaða skuldara varðandi lagaskil breytist ekki þótt krafan sé framseld.
    Skuldbindingar samkvæmt viðskiptabréfum, t.d. víxlum og skuldabréfum, falla utan gildissviðs laganna, sbr. c-lið 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Það á þó aðeins við að svo miklu leyti sem skuldbindingarnar, sem af þeim leiðir, er að rekja til eðlis þeirra sem viðskiptabréfs.

Um 13. gr.

    Ákvæði þessarar greinar fjalla um svokallaða „subrogation“, þ.e. það tilvik þegar tiltekinn aðili, t.d. ábyrgðarmaður, hefur fullnægt skyldu skuldara gagnvart kröfuhafa og þar með tekið yfir réttindi kröfuhafa gagnvart skuldara.
    Samkvæmt frumvarpsgreininni er það skilyrði að krafa kröfuhafa á hendur skuldara byggist á samningi og að þriðji maður sé samkvæmt lögum eða samningi skyldur til að efna skuldbindinguna gagnvart kröfuhafa. Greiðsla þriðja manns til kröfuhafa, án þess að þriðji maður sé skyldur til slíks, fellur á hinn bóginn utan gildissviðs ákvæðisins.
    Í 1. mgr. er fjallað um það tilvik þegar tiltekinn aðili (kröfuhafi) á samningskröfu á hendur öðrum aðila, skuldara, og þriðji aðili er skyldur til að efna kröfuna eða hann hefur í reynd efnt hana. Þegar svo hagar til eru það þau lög sem mæla fyrir um framangreinda skyldu þriðja manns sem einnig skulu ráða því hvort og þá að hvaða marki þriðji maður getur krafið skuldarann um þau réttindi sem kröfuhafi átti á hendur skuldara.
    Af framangreindu leiðir að álitaefni um hvort og þá að hvaða marki sá sem greitt hefur kröfu getur tekið yfir réttindi kröfuhafans ber að leysa samkvæmt þeim lögum sem ráða því hvort þriðji maður er skyldur til að greiða í stað skuldara. Ef t.d. er um ábyrgðarskuldbindingu að ræða eru það þau lög sem um ábyrgðarskuldbindinguna gilda sem einnig gilda um endurkröfuna og umfang hennar.
    Réttindi kröfuhafa og skyldur skuldara standa óhaggaðar hvort sem innlausn eða yfirtaka réttar á sér stað eða ekki. Um réttindi og skyldur fer samkvæmt þeim lögum sem gilda um hið upphaflega skuldarsamband. Þannig geta verið mismunandi lög sem gilda um aðalskuldbindinguna annars vegar og hins vegar um skyldu þriðja manns til þess að greiða og heimildir hans til þess að ganga inn í rétt kröfuhafa.
    Samkvæmt 2. mgr. gildir regla 1. mgr. einnig þegar fleiri aðilar eru solidariskt ábyrgir til að greiða kröfu á grundvelli sama samnings og einn þeirra hefur greitt kröfuhafanum.


Um 14. gr.

    Hér er að finna ákvæði sem varða sönnunarbyrði og önnur atriði sem varða sönnun um samninga eða ráðstafanir sem kunna að hafa réttaráhrif. Þar kemur fram að hafi samningalög þess lands sem reglur frumvarps þessa vísa til að geyma löglíkindareglur eða reglur um sönnunarbyrði skuli beita þeim reglum. Þá kemur fram í 2. mgr. að samninga eða ráðstafanir sem ætlað er að hafa réttaráhrif megi sanna á hvern þann hátt sem mælt er fyrir um í lögum dómstólsríkis eða lögum þeim sem 9. gr. vísar til, enda sé samningurinn eða ráðstöfunin gild samkvæmt þeirri grein. Fyrir því er þó sett það skilyrði að hægt sé að koma slíkri sönnunarfærslu við í dómstólsríkinu.
    Lagaskilareglur flestra ríkja ganga út frá því að varðandi sönnun eða aðrar aðferðir til að leiða í ljós atvik máls og staðreyndir sem eiga að hafa réttaráhrif gildi reglur dómstólsríkis. Enn fremur er bent á að greinin tekur ekki til slíkra reglna almennt, sbr. h-lið 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Samkvæmt því falla réttarfarsreglur um sönnun og málsmeðferð almennt utan gildissviðs frumvarps þessa. Ákvæði 14. gr. er aftur á móti bundið við að slíkar reglur sé að finna í samningalögum viðkomandi lands, með öðrum orðum sérreglur um aðferðir við sönnun tiltekinna atvika sem hafa réttaráhrif á samningssambandið eða reglur um sönnunarbyrði. Sé slíkum reglum til að dreifa í lögum þess lands sem eiga við um samninginn samkvæmt frumvarpinu ber að beita þeim reglum. Þetta er eðlileg skipan þar sem reglur af þessu tagi eru í nánum tengslum við samninginn sjálfan og geta ráðið úrslitum um það hvaða skuldbindingar verða taldar felast í honum.
    Sem dæmi um löglíkindreglur varðandi samninga í íslenskum rétti má nefna 68. gr. siglingalaga, nr. 34/1985.
    

Um 15. gr.

    Orðin „heimvísun“ og „framvísun“ eru notuð hér sem þýðing á franska orðið renvoi, en það er í lagaskilarétti notað um þær aðstæður þegar lagaskilareglur eins lands (A) leiða til þess að beita beri reglum landsins B við úrlausn máls, en lagaskilareglur þess lands (B) vísa aftur til reglna landsins A (heimvísun) eða jafnvel annars lands C (framvísun). Ákvæði greinarinnar hefur þann tilgang að koma í veg fyrir þetta og taka af skarið um það að ákvæði frumvarpsins vísa ekki til lagaskilareglna annars lands. Af því leiðir að þegar ákvæði þessa frumvarps leiða til þeirrar niðurstöðu að beita eigi lögum landsins B geta lagaskilareglur þess lands aldrei leitt til þess að lögum einhvers annars lands verði beitt. Þetta er eðlileg regla þegar hafður er í huga sá megintilgangur Rómarsamningsins að skapa sameiginlegar og einsleitar lagaskilareglur á því sviði sem hann tekur til. Ákvörðun um það hvers lands lögum skuli beitt ræðst af ákvæðum samningsins sjálfs en ekki lagaskilarétti einstakra ríkja. Af augljósum ástæðum skiptir ákvæði 15. gr. Rómarsamningsins fyrst og fremst máli þegar reglur frumvarps þessa leiða til þess að beita eigi reglum lands sem ekki er aðili að honum.


Um 16. gr.

    Í lagaskilarétti flestra ríkja er beiting erlendra réttarreglna ávallt bundin því skilyrði að reglan sem til greina kemur að beita sé ekki andstæð ordre public. Þetta má orða svo að regla megi ekki stríða gegn réttarvitund, góðum siðum og allsherjarreglu. Regla þessi er talin gilda sem almenn lagaskilaregla hér á landi á öllum sviðum lagaskilaréttar, auk þess sem hún hefur verið beinlínis lögfest í nokkrum tilfellum. Reglan er almenn undantekningarregla og henni verður að sjálfsögðu að beita með varúð og eingöngu í þeim tilfellum að veigamikil rök komi til.

Um 17.–19. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal I.


Rómarsamningurinn ásamt
bókunum og yfirlýsingum:


CONVENTION
ON THE LAW APPLICABLE TO CONTRACTUAL
OBLIGATIONS

opened for signature in Rome on 19 June 1980
(80/934/EEC)

PREAMBLE


    THE HIGH CONTRACTING PARTIES to the Treaty establishing the European Economic Community,
    ANXIOUS to continue in the field of private international law the work of unification of law which has already been done within the Community, in particular in the field of jurisdiction and enforcement of judgments,
    WISHING to establish uniform rules concerning the law applicable to contractual obligations,
    HAVE AGREED AS FOLLOWS:


TITLE I
SCOPE OF THE CONVENTION
Article 1
Scope of the Convention

    1. The rules of this Convention shall apply to contractual obligations in any situation involving a choice between the laws of different countries.
    2. They shall not apply to:
     (a)      questions involving the status or legal capacity of natural persons, without prejudice to Article 11;
     (b)      contractual obligations relating to:
          wills and succession,
          rights in property arising out of a matrimonial relationship,
          rights and duties arising out of a family relationship, parentage, marriage or affinity, including maintenance obligations in respect of children who are not legitimate;
     (c)      obligations arising under bills of exchange, cheques and promissory notes and other negotiable instruments to the extent that the obligations under such other negotiable instruments arise out of their negotiable character;
     (d)      arbitration agreements and agreements on the choice of court;
     (e)      questions governed by the law of companies and other bodies corporate or unincorporate such as the creation, by registration or otherwise, legal capacity, internal organization or winding up of companies and other bodies corporate or unincorporate and the personal liability of officers and members as such for the obligations of the company or body;
     (f)      the question whether an agent is able to bind a principal, or an organ to bind a company or body corporate or unincorporate, to a third party;
     (g)      the constitution of trusts and the relationship between settlors, trustees and beneficiaries;
     (h)      evidence and procedure, without prejudice to Article 14.
    3. The rules of this Convention do not apply to contracts of insurance which cover risks situated in the territories of the Member States of the European Economic Community. In order to determine whether a risk is situated in these territories the court shall apply its internal law.
    4. The preceding paragraph does not apply to contracts of re-insurance.

Article 2


Application of law of non-contracting States


    Any law specified by this Convention shall be applied whether or not it is the law of a Contracting State.

TITLE II
UNIFORM RULES
Article 3
Freedom of choice

    1. A contract shall be governed by the law chosen by the parties. The choice must be expressed or demonstrated with reasonable certainty by the terms of the contract or the circumstances of the case. By their choice the parties can select the law applicable to the whole or a part only of the contract.
    2. The parties may at any time agree to subject the contract to a law other than that which previously governed it, whether as a result of an earlier choice under this Article or of other provisions of this Convention. Any variation by the parties of the law to be applied made after the conclusion of the contract shall not prejudice its formal validity under Article 9 or adversely affect the rights of third parties.
    3. The fact that the parties have chosen a foreign law, whether or not accompanied by the choice of a foreign tribunal, shall not, where all the other elements relevant to the situation at the time of the choice are connected with one country only, prejudice the application of rules of the law of that country which cannot be derogated from by contract, hereinafter called “mandatory rules”.
    4. The existence and validity of the consent of the parties as to the choice of the applicable law shall be determined in accordance with the provisions of Articles 8, 9 and 11.

Article 4
Applicable law in the absence of choice

    1. To the extent that the law applicable to the contract has not been chosen in accordance with Article 3, the contract shall be governed by the law of the country with which it is most closely connected. Nevertheless, a severable part of the contract which has a closer connection with another country may by way of exception be governed by the law of that other country.
    2. Subject to the provisions of paragraph 5 of this Article, it shall be presumed that the contract is most closely connected with the country where the party who is to effect the performance which is characteristic of the contract has, at the time of conclusion of the contract, his habitual residence, or, in the case of a body corporate or unincorporate, its central administration. However, if the contract is entered into in the course of that party's trade or profession, that country shall be the country in which the principal place of business is situated or, where under the terms of the contract the performance is to be effected through a place of business other than the principal place of business, the country in which that other place of business is situated.
    3. Notwithstanding the provisions of paragraph 2 of this Article, to the extent that the subject matter of the contract is a right in immovable property or a right to use immovable property it shall be presumed that the contract is most closely connected with the country where the immovable property is situated.
    4. A contract for the carriage of goods shall not be subject to the presumption in paragraph 2. In such a contract if the country in which, at the time the contract is concluded, the carrier has his principal place of business is also the country in which the place of loading or the place of discharge or the principal place of business of the consignor is situated, it shall be presumed that the contract is most closely connected with that country. In applying this paragraph single voyage charter-parties and other contracts the main purpose of which is the carriage of goods shall be treated as contracts for the carriage of goods.
    5. Paragraph 2 shall not apply if the characteristic performance cannot be determined, and the presumptions in paragraphs 2, 3 and 4 shall be disregarded if it appears from the circumstances as a whole that the contract is more closely connected with another country.

Article 5
Certain consumer contracts

    1. This Article applies to a contract the object of which is the supply of goods or services to a person (“the consumer”) for a purpose which can be regarded as being outside his trade or profession, or a contract for the provision of credit for that object.
    2. Notwithstanding the provisions of Article 3, a choice of law made by the parties shall not have the result of depriving the consumer of the protection afforded to him by the mandatory rules of the law of the country in which he has his habitual residence:
          if in that country the conclusion of the contract was preceded by a specific invitation addressed to him or by advertising, and he had taken in that country all the steps necessary on his part for the conclusion of the contract, or
          if the other party or his agent received the consumer's order in that country, or
          if the contract is for the sale of goods and the consumer travelled from that country to another country and there gave his order, provided that the consumer's journey was arranged by the seller for the purpose of inducing the consumer to buy.
    3. Notwithstanding the provisions of Article 4, a contract to which this Article applies shall, in the absence of choice in accordance with Article 3, be governed by the law of the country in which the consumer has his habitual residence if it is entered into in the circumstances described in paragraph 2 of this Article.
    4. This Article shall not apply to:
     (a)      a contract of carriage;
     (b)      a contract for the supply of services where the services are to be supplied to the consumer exclusively in a country other than that in which he has his habitual residence.
    5. Notwithstanding the provisions of paragraph 4, this Article shall apply to a contract which, for an inclusive price, provides for a combination of travel and accommodation.

Article 6
Individual employment contracts

    1. Notwithstanding the provisions of Article 3, in a contract of employment a choice of law made by the parties shall not have the result of depriving the employee of the protection afforded to him by the mandatory rules of the law which would be applicable under paragraph 2 in the absence of choice.
    2. Notwithstanding the provisions of Article 4, a contract of employment shall, in the absence of choice in accordance with Article 3, be governed:
     (a)      by the law of the country in which the employee habitually carries out his work in performance of the contract, even if he is temporarily employed in another country; or
     (b)      if the employee does not habitually carry out his work in any one country, by the law of the country in which the place of business through which he was engaged is situated;
unless it appears from the circumstances as a whole that the contract is more closely connected with another country, in which case the contract shall be governed by the law of that country.

Article 7
Mandatory rules

    1. When applying under this Convention the law of a country, effect may be given to the mandatory rules of the law of another country with which the situation has a close connection, if and in so far as, under the law of the latter country, those rules must be applied whatever the law applicable to the contract. In considering whether to give effect to these mandatory rules, regard shall be had to their nature and purpose and to the consequences of their application or non-application.
    2. Nothing in this Convention shall restrict the application of the rules of the law of the forum in a situation where they are mandatory irrespective of the law otherwise applicable to the contract.

Article 8
Material validity

    1. The existence and validity of a contract, or of any term of a contract, shall be determined by the law which would govern it under this Convention if the contract or term were valid.
    2. Nevertheless a party may rely upon the law of the country in which he has his habitual residence to establish that he did not consent if it appears from the circumstances that it would not be reasonable to determine the effect of his conduct in accordance with the law specified in the preceding paragraph.

Article 9


Formal validity


    1. A contract concluded between persons who are in the same country is formally valid if it satisfies the formal requirements of the law which governs it under this Convention or of the law of the country where it is concluded.
    2. A contract concluded between persons who are in different countries is formally valid if it satisfies the formal requirements of the law which governs it under this Convention or of the law of one of those countries.
    3. Where a contract is concluded by an agent, the country in which the agent acts is the relevant country for the purposes of paragraphs 1 and 2.
    4. An act intended to have legal effect relating to an existing or contemplated contract is formally valid if it satisfies the formal requirements of the law which under this Convention governs or would govern the contract or of the law of the country where the act was done.
    5. The provisions of the preceding paragraphs shall not apply to a contract to which Article 5 applies, concluded in the circumstances described in paragraph 2 of Article 5. The formal validity of such a contract is governed by the law of the country in which the consumer has his habitual residence.
    6. Notwithstanding paragraphs 1 to 4 of this Article, a contract the subject matter of which is a right in immovable property or a right to use immovable property shall be subject to the mandatory requirements of form of the law of the country where the property is situated if by that law those requirements are imposed irrespective of the country where the contract is concluded and irrespective of the law governing the contract.

Article 10
Scope of the applicable law

    1. The law applicable to a contract by virtue of Articles 3 to 6 and 12 of this Convention shall govern in particular:
     (a)      interpretation;
     (b)      performance;
     (c)      within the limits of the powers conferred on the court by its procedural law, the consequences of breach, including the assessment of damages in so far as it is governed by rules of law;
     (d)      the various ways of extinguishing obligations, and prescription and limitation of actions;
     (e)      the consequences of nullity of the contract.
    2. In relation to the manner of performance and the steps to be taken in the event of defective performance regard shall be had to the law of the country in which performance takes place.

Article 11


Incapacity


    In a contract concluded between persons who are in the same country, a natural person who would have capacity under the law of that country may invoke his incapacity resulting from another law only if the other party to the contract was aware of this incapacity at the time of the conclusion of the contract or was not aware thereof as a result of negligence.

Article 12
Voluntary assignment

    1. The mutual obligations of assignor and assignee under a voluntary assignment of a right against another person (“the debtor”) shall be governed by the law which under this Convention applies to the contract between the assignor and assignee.
    2. The law governing the right to which the assignment relates shall determine its assignability, the relationship between the assignee and the debtor, the conditions under which the assignment can be invoked against the debtor and any question whether the debtor's obligations have been discharged.

Article 13
Subrogation

    1. Where a person (“the creditor”) has a contractual claim upon another (“the debtor”), and a third person has a duty to satisfy the creditor, or has in fact satisfied the creditor in discharge of that duty, the law which governs the third person's duty to satisfy the creditor shall determine whether the third person is entitled to exercise against the debtor the rights which the creditor had against the debtor under the law governing their relationship and, if so, whether he may do so in full or only to a limited extent.
    2. The same rule applies where several persons are subject to the same contractual claim and one of them has satisfied the creditor.

Article 14
Burden of proof, etc.

    1. The law governing the contract under this Convention applies to the extent that it contains, in the law of contract, rules which raise presumptions of law or determine the burden of proof.
    2. A contract or an act intended to have legal effect may be proved by any mode of proof recognized by the law of the forum or by any of the laws referred to in Article 9 under which that contract or act is formally valid, provided that such mode of proof can be administered by the forum.

Article 15
Exclusion of renvoi

    The application of the law of any country specified by this Convention means the application of the rules of law in force in that country other than its rules of private international law.

Article 16
“Ordre public”

    The application of a rule of the law of any country specified by this Convention may be refused only if such application is manifestly incompatible with the public policy (“ordre public”) of the forum.

Article 17
No retrospective effect

    This Convention shall apply in a Contracting State to contracts made after the date on which this Convention has entered into force with respect to that State.

Article 18
Uniform interpretation

    In the interpretation and application of the preceding uniform rules, regard shall be had to their international character and to the desirability of achieving uniformity in their interpretation and application.

Article 19
States with more than one legal system

    1. Where a State comprises several territorial units each of which has its own rules of law in respect of contractual obligations, each territorial unit shall be considered as a country for the purposes of identifying the law applicable under this Convention.
    2. A State within which different territorial units have their own rules of law in respect of contractual obligations shall not be bound to apply this Convention to conflicts solely between the laws of such units.

Article 20
Precedence of Community law

    This Convention shall not affect the application of provisions which, in relation to particular matters, lay down choice of law rules relating to contractual obligations and which are or will be contained in acts of the institutions of the European Communities or in national laws harmonized in implementation of such acts.

Article 21
Relationship with other conventions

    This Convention shall not prejudice the application of international conventions to which a Contracting State is, or becomes, a party.

Article 22
Reservations

    1. Any Contracting State may, at the time of signature, ratification, acceptance or approval, reserve the right not to apply:
     (a)      the provisions of Article 7 (1);
     (b)      the provisions of Article 10 (1) (e).
    2. Any Contracting State may also, when notifying an extension of the Convention in accordance with Article 27 (2), make one or more of these reservations, with its effect limited to all or some of the territories mentioned in the extension.
    3. Any Contracting State may at any time withdraw a reservation which it has made; the reservation shall cease to have effect on the first day of the third calendar month after notification of the withdrawal.

TITLE III


FINAL PROVISIONS


Article 23


    1. If, after the date on which this Convention has entered into force for a Contracting State, that State wishes to adopt any new choice of law rule in regard to any particular category of contract within the scope of this Convention, it shall communicate its intention to the other signatory States through the Secretary-Geneal of the Council of the European Communities.
    2. Any signatory State may, within six months from the date of the communication made to the Secretary-General, request him to arrange consultations between signatory States in order to reach agreement.
    3. If no signatory State has requested consultations within this period or if within two years following the communication made to the Secretary-General no agreement is reached in the course of consultations, the Contracting State concerned may amend its law in the manner indicated. The measures taken by that State shall be brought to the knowledge of the other signatory States through the Secretary-General of the Council of the European Communities.

Article 24

    1. If, after the date on which this Convention has entered into force with respect to a Contracting State, that State wishes to become a party to a multilateral convention whose principal aim or one of whose principal aims is to lay down rules of private international law concerning any of the matters governed by this Convention, the procedure set out in Article 23 shall apply. However, the period of two years, referred to in paragraph 3 of that Article, shall be reduced to one year.
    2. The procedure referred to in the preceding paragraph need not be followed if a Contracting State or one of the European Communities is already a party to the multilateral convention, or if its object is to revise a convention to which the State concerned is already a party, or if it is a convention concluded within the framework of the Treaties establishing the European Communities.

Article 25

    If a Contracting State considers that the unification achieved by this Convention is prejudiced by the conclusion of agreements not covered by Article 24 (1), that State may request the Secretary-General of the Council of the European Communities to arrange consultations between the signatory States of this Convention.

Article 26

    Any Contracting State may request the revision of this Convention. In this event a revision conference shall be convened by the President of the Council of the European Communities.

Article 27

    1. This Convention shall apply to the European territories of the Contracting States, including Greenland, and to the entire territory of the French Republic.
    2. Nothwithstanding paragraph 1:
     (a)      this Convention shall not apply to the Faroe Islands, unless the Kingdom of Denmark makes a declaration to the contrary;
     (b)      this Convention shall not apply to any European territory situated outside the United Kingdom for the international relations of which the United Kingdom is responsible, unless the United Kingdom makes a declaration to the contrary in respect of any such territory;
     (c)      this Convention shall apply to the Netherlands Antilles, if the Kingdom of the Netherlands makes a declaration to that effect.
    3. Such declarations may be made at any time by notifying the Secretary-General of the Council of the European Communities.
    4. Proceedings brought in the United Kingdom on appeal from courts in one of the territories referred to in paragraph 2 (b) shall be deemed to be proceedings taking place in those courts.

Article 28

    1. This Convention shall be open from 19 June 1980 for signature by the States party to the Treaty establishing the European Economic Community.
    2. This Convention shall be subject to ratification, acceptance or approval by the signatory States. The instruments of ratification, acceptance or approval shall be deposited with the Secretary-General of the Council of the European Communities.

Article 29


    1. This Convention shall enter into force on the first day of the third month following the deposit of the seventh instrument of ratification, acceptance or approval.
    2. This Convention shall enter into force for each signatory State ratifying, accepting or approving at a later date on the first day of the third month following the deposit of its instrument of ratification, acceptance or approval.

Article 30

    1. This Convention shall remain in force for 10 years from the date of its entry into force in accordance with Article 29 (1), even for States for which it enters into force at a later date.
    2. If there has been no denunciation it shall be renewed tacitly every five years.
    3. A Contracting State which wishes to denounce shall, not less than six months before the expiration of the period of 10 or five years, as the case may be, give notice to the Secretary-General of the Council of the European Communities. Denunciation may be limited to any territory to which the Convention has been extended by a declaration under Article 27 (2).
    4. The denunciation shall have effect only in relation to the State which has notified it. The Convention will remain in force as between all other Contracting States.

Article 31

    The Secretary-General of the Council of the European Communities shall notify the States party to the Treaty establishing the European Economic Community of:
     (a)      the signatures;
     (b)      the deposit of each instrument of ratification, acceptance or approval;
     (c)      the date of entry into force of this Convention;
     (d)      communications made in pursuance of Articles 23, 24, 25, 26, 27 and 30;
     (e)      the reservations and withdrawals of reservations referred to in Article 22.

Article 32

    The Protocol annexed to this Convention shall form an integral part thereof.

Article 33

    This Convention, drawn up in a single original in the Danish, Dutch, English, French, German, Irish and Italian languages, these texts being equally authentic, shall be deposited in the archives of the Secretariat of the Council of the European Communities. The Secretary-General shall transmit a certified copy thereof to the Government of each signatory State.

PROTOCOL

    The High Contracting Parties have agreed upon the following provision which shall be annexed to the Convention.
    Notwithstanding the provisions of the Convention, Denmark may retain the rules contained in Søloven (Statute on Maritime Law) paragraph 169 concerning the applicable law in matters relating to carriage of goods by sea and may revise these rules without following the procedure prescribed in Article 23 of the Convention.

JOINT DECLARATION

    At the time of the signature of the Convention on the law applicable to contractual obligations, the Governments of the Kingdom of Belgium, the Kingdom of Denmark, the Federal Republic of Germany, the French Republic, Ireland, the Italian Republic, the Grand Duchy of Luxembourg, the Kingdom of the Netherlands and the United Kingdom of Great Britain and Northern Ireland,
    I. anxious to avoid, as far as possible, dispersion of choice of law rules among several instruments and differences between these rules,
    express the wish that the institutions of the European Communities, in the exercise of their powers under the Treaties by which they were established, will, where the need arises, endeavour to adopt choice of law rules which are as far as possible consistent with those of this Convention;
    II. declare their intention as from the date of signature of this Convention until becoming bound by Article 24, to consult with each other if any one of the signatory States wishes to become a party to any convention to which the procedure referred to in Article 24 would apply;
    III. having regard to the contribution of the Convention on the law applicable to contractual obligations to the unification of choice of law rules within the European Communities, express the view that any State which becomes a member of the European Communities should accede to this Convention.

JOINT DECLARATION

    The Governments of the Kingdom of Belgium, the Kingdom of Denmark, the Federal Republic of Germany, the French Republic, Ireland, the Italian Republic, the Grand Duchy of Luxembourg, the Kingdom of the Netherlands, and the United Kingdom of Great Britain and Northern Ireland,
    On signing the Convention on the law applicable to contractual obligations;
    Desiring to ensure that the Convention is applied as effectively as possible;
    Anxious to prevent differences of interpretation of the Convention from impairing its unifying effect;
    Declare themselves ready:
    1. to examine the possibility of conferring jurisdicition in certain matters on the Court of Justice of the European Communities and, if necessary, to negotiate an agreement to this effect;
    2. to arrange meetings at regular intervals between their representatives.Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um


lagaskil á sviði samningaréttar.


    Í frumvarpi þessu er kveðið á um hvaða landslög skuli gilda um einkaréttarlegar samningsskuldbindingar sem tengjast fleiri en einu landi. Þar eð í frumvarpinu er eingöngu fjallað um einkaréttarleg álitaefni verður ekki séð að samþykkt þess hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.