Ferill 115. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 125  —  115. mál.
Tillaga til þingsályktunarum aukinn rétt foreldra vegna veikinda barna.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Ögmundur Jónasson,


Margrét Frímannsdóttir, Össur Skarphéðinsson.    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd sem hafi það verkefni að tryggja betur rétt foreldra til launa í fjarveru úr vinnu vegna veikinda barna. Nefndin verði skipuð fulltrúum félagsmálaráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, aðila vinnumarkaðarins og samtaka um málefni sjúkra barna. Í starfi sínu hafi nefndin hliðsjón af fjármögnun, fyrirkomulagi og réttindum sem gilda um bætur fyrir launatap aðstandenda sjúkra barna annars staðar á Norðurlöndum.
    Niðurstaða nefndarinnar verði lögð fyrir Alþingi á haustþingi árið 2000.

Greinargerð.


    Þegar gerður er samanburður á rétti foreldra vegna veikinda barna þeirra á Norðurlöndum kemur í ljós að Ísland sker sig mjög úr. Þannig hafa foreldrar íslenskra barna nánast engan rétt samanborið við rétt foreldra annars staðar á Norðurlöndum. Eftirfarandi er yfirlit frá Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna yfir bætur vegna launataps aðstandenda sjúkra barna á Norðurlöndum (sbr. fylgiskjal II):

    Ísland:            Sjö veikindadagar eru að hámarki greiddir á ári fyrir börn undir 13 ára aldri, án tillits til hver sjúkdómurinn er, fjölda barna eða hjúskaparstöðu foreldra.
    Svíþjóð:        90% launa eru greidd í 120 daga á ári fyrir hvert barn 0–16 ára.
    Finnland:        Greidd eru 66% af launum í 60–90 daga á ári og lengur vegna langsjúkra barna. Heimilt er að greiða báðum foreldrum laun ef nauðsyn krefur.
    Noregur:        Allt að 780 veikindadagar. Þar af 100% laun í 260 daga og síðan 65% laun í 520 daga fyrir hvert barn 0–16 ára, auk 10,2% orlofs af greiddum sjúkrabótum í allt að 12 vikur á ári.
    Danmörk:    Greidd er launauppbót (90% launa) til annars foreldris á meðan meðferð stendur. Launauppbót má síðan greiða í þrjá mánuði til aðlögunar fyrir barnið og foreldra eftir að meðferð lýkur. Endurgreiðsla nauðsynlegs kostnaðarauka vegna umönnunar barna 0–18 ára. Sérstök uppbót er til atvinnulausra. Orlofsstyrkur.

    Í kjarasamningum hér á landi hefur verið samið um að starfsmaður geti ráðstafað allt að sjö dögum á ári á launum vegna veikinda barna sinna. Auk þess er í reglum einstakra sjúkrasjóða að þeir greiði styrki og jafnvel dagpeninga í fjarveru foreldra frá vinnu í veikindum barna. Hið opinbera veitir enga fjárstyrki eða bætur vegna launataps aðstandenda sjúkra barna. Umönnunarbótum sem Tryggingastofnun ríkisins greiðir er ætlað að koma til móts við kostnaðarauka og aðrar byrðar sem hljótast af aukinni umönnun barns þegar það veikist alvarlega en eru ekki bætur vegna launataps aðstandenda langsjúkra barna. Umönnunarbætur eru nú greiddar foreldrum 2.000 barna, þar af eru um 500 langveik börn.
    Benda má á að þegar meðferð barns, t.d. með krabbamein, lýkur lækka umönnunarbætur verulega án tillits til þess hvort foreldrið sem hætti að vinna þegar barnið veiktist geti hafið störf að nýju. Umrædd börn þurfa oft langa aðlögun áður en þau geta lifað því sem kallað er eðlilegt líf eftir meðferðina og sum þeirra búa við varanlegar afleiðingar sjúkdómsins. Hjá Tryggingastofnun ríkisins er litið á þetta tímabil sem létta umönnun og því eru greiðslur lágar. Við þessar aðstæður verður hvað mest þörf á bótum vegna tekjutaps.
    Í kjarasamningi ASÍ/VSÍ og VMS er svohljóðandi ákvæði: „Foreldri skal eftir fyrsta starfsmánuð heimilt að verja samtals sjö vinnudögum á hverju 12 mánaða tímabili til aðhlynningar sjúkum börnum sínum undir 13 ára aldri, verði annarri umönnun ekki komið við, og halda dagvinnulaunum sínum, svo og vaktaálagi þar sem það á við. Réttur samkvæmt þessari grein tekur til greiðslu launa vegna veikinda barna, þar með talið fósturbarna.“ Hér á landi er rétturinn bundinn við launamanninn og er sá sami hvort sem hann á eitt, fimm eða tíu börn og hvort sem hann er einstætt foreldri eða í hjúskap.
    Þennan rétt er ekki hægt að flytja milli ára, t.d. ef barn hefur ekki verið veikt í tvö ár en er svo veikt í 14 daga í einu. Rétturinn tekur einungis til barna undir 13 ára aldri og rétturinn til sjö daga á ári tekur til allra barna foreldranna. Annars staðar á Norðurlöndum nær hann ýmist til 16 eða 18 ára aldurs og heimilaður dagafjöldi nær til hvers barns um sig innan fjölskyldunnar, t.d. 120 dagar á ári fyrir hvert barn í Svíþjóð.
    Skilyrði hér á landi fyrir veikindagreiðslum frá atvinnurekendum vegna veikinda barna er að annarri umönnun verði ekki komið við, þannig að báðir foreldrar geti ekki verið heima yfir barni á sama tíma.
    Í reglugerðum sumra sjúkrasjóða stéttarfélaganna hér á landi er að finna ákvæði um dagpeningagreiðslur eða greiðslur styrkja vegna langvarandi veikinda barna sjóðfélaga. Reglurnar geta verið breytilegar frá einum sjóði til annars. Einnig má benda á að opinberir starfsmenn eða bankamenn eiga ekki sjúkrasjóði og hafa því ekki möguleika á stuðningi umfram þá sjö daga sem kjarasamningar heimila.
    Annars staðar á Norðurlöndum greiðir hið opinbera að mestu bætur vegna launataps aðstandenda sjúkra barna. Ljóst er að hér er slíkur stuðningur enginn, ef undan eru skildar umönnunarbætur til að mæta útgjöldum og kostnaði vegna fatlaðra og langsjúkra barna. Kjarasamningar veita líka óverulegan rétt borið saman við kjarasamninga annars staðar á Norðurlöndum. Munurinn á rétti til fráveru vegna veikinda barna hér á landi og þar er svo sláandi að nauðsynlegt er að kryfja þetta mál til mergjar og leita leiða til að tryggja betur réttindi barna í veikindum til að njóta umönnunar foreldra sinna.
    Í lokin er rétt að benda á að tilskipun Evrópusambandsins frá 3. júní 1996, um rammasamning um foreldraorlof, hlýtur einnig að koma til skoðunar í þessu sambandi.Tilskipunin er gerð með hliðsjón af samningnum um félagsmálastefnu EB. Í stofnskrá bandalagsins um félagsleg grundvallarréttindi launþega, sem fjallar um jafnan rétt karla og kvenna, er meðal annars kveðið á um að „jafnframt þurfi að gera ráðstafanir sem gera körlum og konum kleift að samræma þær skyldur sem þeim eru lagðar á herðar í starfi og í einkalífi“. Þannig hefur framkvæmdastjórnin með vísan til samningsins um félagsmálastefnuna haft samráð við aðila vinnumarkaðarins um hvert skuli stefnt með aðgerðum sem miða að því að samræma atvinnuþátttöku og heimilislíf. Niðurstaðan er sú að gerðar verða lágmarkskröfur um foreldraorlof og tímabundið leyfi frá starfi af óviðráðanlegum ástæðum. Gert er ráð fyrir að aðildarríkin og/eða aðilar vinnumarkaðarins kveði nánar á um skilyrði fyrir framkvæmd slíks foreldraorlofs þannig að unnt verði að taka mið af aðstæðum, þar með talið fjölskyldustefnu, í hverju aðildarríki um sig, einkum að því er varðar skilyrði fyrir því að veita foreldraorlof og að neyta réttar til foreldraorlofs. Um er að ræða rammasamning þar sem settar eru fram lágmarkskröfur og ákvæði um foreldraorlof, óháð mæðraorlofi, og um leyfi frá störfum af óviðráðanlegum ástæðum.
    Tilskipunin lýtur í meginatriðum að rétti foreldra til foreldraorlofs en samkvæmt rammasamningum er tímabundið leyfi frá starfi af óviðráðanlegum ástæðum skýrt þannig: „Aðildarríkin og/eða aðilar vinnumarkaðarins skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir sem tryggja launþegum leyfi frá störfum, í samræmi við landslög, kjarasamninga og/eða réttarvenjur, þegar um óviðráðanlegar fjölskylduástæður er að ræða, svo sem þegar sjúkdóma eða slys ber að höndum, og launþegi verður að hverfa tafarlaust af vettvangi.“ Þannig tekur þetta ákvæði tilskipunarinnar til fjölskylduábyrgðar á öllum sviðum, t.d. veikinda barna, og á að tryggja að börn geti í veikindum notið umönnunnar foreldra sinna. Tilskipunin felur í sér sjálfstæðan rétt foreldris til töku orlofs/foreldraorlofs í þrjá mánuði vegna hvers barns, til átta ára aldurs barnsins. Enn fremur kemur fram að aðildarríkin skuli samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli eigi síðar en 3. júní 1998 eða fullvissa sig um að aðilar vinnumarkaðarins hafi í síðasta lagi þann dag lögfest þessi ákvæði með samningi, enda ber aðildarríkjunum að gera nauðsynlegar ráðstafanir þannig að þau geti ætíð tryggt framkvæmd ákvæða þessarar tilskipunar. Aðildarríkin geta fengið að hámarki eitt ár til viðbótar ef á þarf að halda vegna sérstakra örðugleika eða vegna framkvæmdar kjarasamninga.
    Á þessa tilskipun er bent vegna þess að hún hlýtur að koma sérstaklega til skoðunar hér á landi, bæði í tengslum við fyrirkomulag foreldraorlofs, við rétt barna til umönnunar foreldra sinna í veikindum og rétt foreldra til leyfis frá vinnu vegna veikinda barna sinna.
    Hér er ekki tekin afstaða til þess hvort útgjöld vegna aukins réttar foreldra í veikindum barna lendi á ríkissjóði eða atvinnurekendum en annars staðar á Norðurlöndum greiðir hið opinbera kostnaðinn.
    Í því sambandi er þó rétt að fram komi að útgjöld hins opinbera til fjölskyldna og barna þeirra eru miklu lægri hér á landi en annars staðar á Norðurlöndunum. Þetta kemur fram í samantekt sem Kristinn Karlsson hjá Hagstofu Íslands hefur gert að beiðni fyrsta flutningsmanns tillögunnar (sjá fylgiskjal I).


Fylgiskjal I.


Hagstofa Íslands,
Kristinn Karlsson:


Útgjöld til félags- og heilbrigðismála á Íslandi. Fjölskyldur og börn.


Stutt samantekt og samanburður milli Norðurlandanna.


(Tekið saman að beiðni Jóhönnu Sigurðardóttur, október 1999.)I. Inngangur.
    Í þessari stuttu greinagerð er í upphafi gerð grein fyrir flokkunarkerfi NOSOSKO/Esspros (Nordisk Socialstatistisk Komité og European System of Intergrated Social Protection Stastistics). Síðan eru dregnar fram upplýsingar á grundvelli þess um útgjöld til fjölskyldna og barna og loks gerður samanburður á útgjöldum Norðurlandanna.

II. Flokkunarkerfi NOSOSKO/Esspros.
    Flokkunarkerfi NOSOSKO/Esspros á útgjöldum og þjónustu til félags- og heilbrigðismála byggist á eftirfarandi grunnreglum. Flokkað er í verkefnasvið („funksjónir“/verkefni) og innan hvers þeirra er skipt í tegund útgjalda og loks eru útgjöldin rakin til hverjir fjármagna þau.
    Verkefnasviðin eru átta:
     I.      Fjölskyldur og börn.
     II.      Atvinnuleysi.
     III.      Heilbrigðismál.
     IV.      Aldraðir.
     V.      Öryrkjar.
     VI.      Eftirlifendur.
     VII.      Húsnæði.
     VIII.      Félagshjálp.
    Útgjöld hvers verkefnasviðs skiptast í peningagreiðslur (bætur, lífeyrir o.s.frv.) annars vegar og þjónustu hins vegar.
    Fjármögnun skiptist á:
     1.      Ríki.
     2.      Sveitarfélög.
     3.      Vinnuveitendur.
     4.      Hina tryggðu.
    Reynt er eins og kostur er að greina útgjöld fyrir hvert verkefnasvið, en af sjálfu leiðir að skörun hlýtur að verða og er þá fylgt nákvæmum reglum um „hvorum megin hryggjar“ útgjöld falla. Tafla 1 sýnir skiptingu útgjalda á Íslandi 1993–97 eftir verksviðum, tegundum útgjalda og undirflokkum innan þeirra.
    Norðurlöndin hafa í fimm áratugi þróað þetta útgjaldakerfi á vettvangi NOSOSKO-nefndarinnar og gefið út niðurstöður í ritinu „Social tryghed i de nordiske lande“. Nefndin hefur að auki safnað upplýsingum um fjölda þeirra sem njóta þjónustu og greiðslna á mörgum sviðum og birt í útgáfu sinni. Frá og með árinu 1995 gerði nefndin nokkrar óverulegar breytingar á kerfinu til að samræma það til fulls hliðstæðu kerfi hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat), sem kallast Esspros. Öfugt við NOSOSKO safnar Eurostat ekki upplýsingum enn sem komið er um þá sem njóta þjónustu.
    Útgjaldakerfi þessi eru frábrugðin uppgjöri þjóðhagsreikninga á útgjöldum til velferðarmála í því að þau taka til allra útgjalda af þessu tagi (öll almenn lög- og/eða samningsbundin réttindakerfi) en ekki aðeins til útgjalda hins opinbera til velferðarmála.

III. Útgjöld til félags- og heilbrigðismála á Norðurlöndum.
    Í töflum 2 og 3 er samanburður á útgjöldum til félags- og heilbrigðismála á Norðurlöndum 1997, skipt eftir meginverkefnasviðunum átta. Í töflu 2 er borið saman á grundvelli jafnvirðisgilda (PPP) í eku á íbúa og í töflu 3 eru útgjöld sýnd í hlutfalli við landsframleiðslu. Samanburður beggja taflna sýnir að á Íslandi eru útgjöldin lægri en í grannlöndunum. Athyglisvert er að það á ekki við um verkefnasviðið heilbrigðismál. Lægri útgjöld á Íslandi skýrast að einhverju leyti af minna atvinnuleysi og af annarri aldurssamsetningu þjóðarinnar, þ.e. hlutfall aldraðra af íbúafjölda er lægra en í hinum löndunum. Það síðarnefnda ætti þó að hafa öfug áhrif á verkefnasviðinu fjölskyldur og börn (fleiri börn eru á Íslandi) en þar gætir þess að fæðingarorlof er takmarkaðra á Íslandi en í hinum löndunum.
    Auk þessa hefur ekki enn tekist að leggja mat á útgjöld hér á landi vegna greiðslna launa í fæðingarorlofi hjá hinum fjölmennu starfstéttum kvenna hjá ríki, sveitarfélögum og bönkum. Þótt tækist að leggja mat á þessi útgjöld eins og stefnt er að er þess ekki að vænta að þau útgjöld nægi til að jafna út muninn milli Íslands og hinna landanna.

IV. Félags- og heilbrigðismálaútgjöld til fjölskyldna og barna á Íslandi.
    Í töflu 4 eru útgjöld til fjölskyldna og barna á Íslandi sýnd frá ýmsum hliðum árin 1991–97. Þar kemur m.a. fram þróun þessara útgjalda á tímabilinu á föstu verðlagi, skipting eftir því hverjir fjármagna o.fl.

V. Útgjöld til fjölsyldna og barna á Norðurlöndum.
    Í töflu 5 kemur fram fjöldi barna á Norðurlöndum 1997 og hlutfall þeirra af heildaríbúafjölda. Þar er sýndur fjöldi 0–6 ára, 7–17 ára. Vegna þeirrar sérstöðu Íslands á þessu tímabili að sjálfræðisaldur var 16 ára, er fjöldi 7–15 ára sýndur á Íslandi. Taflan sýnir vel að Ísland sker sig úr með hlutfallslega fleiri íbúa á unga aldri en frændþjóðirnar.
    Tafla 6 er samsett úr þremur töflum. Fyrsti hluti töflunnar (A) sýnir útgjöld til fjölskyldna og barna 1997 í milljónum í mynt hvers lands. Annar hlutinn (B) sýnir útgjöldin á íbúa í jafnvirðisgildum í eku. Loks sýnir síðasti hlutinn (C) útgjöldin á íbúa 17 ára og yngri (15 ára og yngri á Íslandi) í jafnvirðisgildum í eku.
Tafla 1. Útgjöld til félags- og heilbrigðismála á Íslandi 1993–97.
Miljónir króna. 1993 1994 1995 1996 1997
ALLS I.–VII. 77.616 80.954 85.984 90.345 96.094
Bein útgjöld alls I.–VI. 75.879 79.184 84.078 88.399 94.390
þar af :1
Peningagreiðslur 39.973 41.486 44.078 45.454 48.174
Þjónusta 35.906 37.698 40.000 42.946 46.216
I. Fjölskyldur og börn 9.959 10.349 10.876 11.415 11.841
Peningagreiðslur 6.610 6.586 6.665 6.709 6.644
Greiðslur við fæðingu og ættleiðingu2 1.232 1.175 1.172 1.224 1.285
Barnabætur 4.719 4.850 5.015 5.006 4.813
Meðlög3 659 562 478 479 547
Þjónusta 3.348 3.763 4.211 4.706 5.197
Dagvistarstofnanir barna 2.449 2.715 3.034 3.419 3.730
Sumarbúðir og önnur æskulýðsstarfsemi 473 538 606 603 650
Barnavernd 383 470 526 633 784
Heimilishjálp við barnafjölskyldur 43 40 45 50 32
II. Atvinnuleysistryggingar og vinnumiðlun 2.915 3.349 3.655 3.228 3.053
Atvinnuleysistryggingar 2.807 3.245 3.572 3.127 2.911
Atvinnuleysisbætur 2.645 2.806 3.243 2.923 2.773
Framlög til atvinnuátaksverkefna, námskeiða o.fl. 162 439 330 204 138
Vinnumiðlun 108 103 83 101 142
III. Heilbrigðismál 29.725 30.234 31.899 33.443 35.801
Peningagreiðslur 6.435 6.145 6.297 6.255 7.173
Almennar sjúkratryggingar (dagpeningar) 424 434 451 386 418
Launagreiðslur í veikindum 5.806 5.511 5.631 5.664 6.547
Skammtímaslysatryggingar 205 200 215 205 207
Sjukrahús og heilsugæsla 22.499 23.381 24.886 26.371 27.838
Sjúkrahús 13.338 13.619 14.715 15.432 17.296
Læknisþjónusta utan sjúkrahúsa 8.204 8.777 9.131 9.925 9.436
Önnur útgjöld 957 986 1.039 1.014 1.106
Tannlækningar 791 708 716 817 791
IV. Aldraðir 20.411 21.722 22.827 24.534 26.683
Ellilífeyrir 15.022 15.837 16.755 17.836 19.483
Almannatryggingar 9.945 10.283 10.670 10.983 11.662
Lífeyrissjóðir 5.077 5.555 6.085 6.853 7.820
Þjónusta 5.389 5.885 6.072 6.698 7.200
Elliheimili, sjúkradeildir og íbúðir aldraðra 4.629 4.970 5.110 5.617 6.048
Heimilishjálp aldraðra 478 487 496 587 592
Dagvistir aldraðra 281 428 467 495 561
V. Öryrkjar 8.201 8.938 9.765 10.383 11.285
Örorkulífeyrir 5.289 6.018 6.698 7.137 7.781
Almannatryggingar 3.942 4.266 4.717 4.989 5.445
Lífeyrissjóðir 1.347 1.752 1.981 2.148 2.336
Langtímaslysatryggingar og eingreiðslur 223 156 180 151 138
Þjónusta 2.688 2.764 2.887 3.095 3.366
Endurhæfing og atvinna fyrir öryrkja 1.702 1.719 1.778 1.961 2.033
Sambýli, vistheimili og íbúðir fatlaðra 913 951 1.024 1.033 1.228
Heimilishjálp við öryrkja 74 94 86 102 106
VI. Eftirlifendur 2.448 2.238 2.383 2.590 2.774
Ekkju- og ekkilsbætur 2.448 2.238 2.383 2.590 2.774
Almannatryggingar 301 225 239 226 235
Lífeyrissjóðir 2.147 2.013 2.144 2.364 2.539
VII. Húsnæði 87 96 286 435 534
Stuðningur við leigjendur 87 96 286 435 534
Niðurgreiðslur sveitarfélaga á leiguhúsnæði 87 96 70 121 201
Húsaleigubætur - - 215 314 333
VIII. Félagshjálp 2.134 2.258 2.387 2.371 2.420
Peningagreiðslur 1.051 1.165 1.242 1.214 1.271
Fjárhagsaðstoð 711 891 985 1.030 1.084
Ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot 340 274 257 183 186
Þjónusta 1.083 1.093 1.145 1.157 1.150
Meðferð og endurhæfing áfengis- og fíkniefnasjúklinga 659 661 659 618 539
Önnur aðstoð 424 432 486 539 611
Stjórnunarkostnaður 1.737 1.770 1.906 1.946 1.704
Heildarútgjöld sem hlutfall af landsframleiðslu (%) 18,9 18,6 19,0 18,6 18,1
1 Eins og fram kemur í töflunni skiptast útgjöld innan málaflokka í beinar peningagreiðslur og þjónustu.
2 Ekki liggja fyrir upplýsingar um útgjöld vegna launa í fæðingarorlofi sem starfsmenn ríkis, sveitarfélaga, banka og fleiri njóta.
3 Nettó tölur, þ.e. útgjöld að frádregnum greiðslum meðlagsskyldra.
Heimild: Landshagir 1999, tafla 16.1 .

Tafla 2. Útgjöld á íbúa til félags- og heilbrigðismála á Norðurlöndum 1997, jafnvirðisgild (PPP) í eku.
Danmörk Finnland Ísland Noregur Svíþjóð
I. Fjölskyldur og börn 866 687 506 861 732
II. Atvinnuleysistryggingar og vinnumiðlun 865 727 130 272 618
III. Heilbrigðismál 1.295 1.196 1.530 1.833 1.473
IV. Aldraðir, öryrkjar ofl. 3.389 2.645 1.741 3.117 3.375
    IV.a Aldraðir 2.622 1.629 1.140 1.944 2.452
    IV.b Öryrkjar 763 800 482 1.081 770
    IV.c Eftirlifendur 4 216 119 91 153
VII. Húsnæði 168 65 23 42 174
VIII. Félagshjálp 275 134 103 170 208
Alls 6.858 5.454 4.033 6.296 6.579
Stjórnunarkostnaður 188 149 73 132 130
Heildarútgjöld 7.046 5.604 4.106 6.427 6.710
Íbúafjöldi 5.284.000 5.140.000 270.915 4.405.000 8.846.000
PPP-stuðull 9,11 6,459 86,39 9,86 10,36

Tafla 3. Útgjöld til félags- og heilbrigðismála á Norðurlöndum 1997 sem hlutfall af landsframleiðslu.
Danmörk Finnland Ísland Noregur Svíþjóð
I. Fjölskyldur og börn 3,7 3,6 2,2 3,4 3,7
II. Atvinnuleysistryggingar og vinnumiðlun 3,7 3,8 0,6 1,1 3,2
III. Heilbrigðismál 5,6 6,3 6,7 7,3 7,5
IV. Aldraðir, öryrkjar o.fl. 14,6 13,9 7,7 12,4 17,3
    IVa Aldraðir 11,3 8,6 5,0 7,7 12,5
    IVb Öryrkjar, lífeyrir 3,3 4,2 2,1 4,3 3,9
    IVd Eftirlifendur 0,0 1,1 0,5 0,4 0,8
VII. Húsnæði 0,7 0,3 0,1 0,2 0,9
VIII. Félagshjálp 1,2 0,7 0,5 0,7 1,1
Alls 29,5 28,7 17,8 25,1 33,6
Stjórnunarkostnaður 0,8 0,8 0,3 0,5 0,7
Heildarútgjöld 30,3 29,5 18,1 25,6 34,3
Landsframleiðsla 1997 í millj. kr./FIM 1.119.459 630.624 530.906 1.090.426 1.792.770
Heimild: Social tryghed i de nordiske lande 1997. Omfang, udgifter og finansiering. (Kaupmannahöfn 1999.)

Tafla 4. Útgjöld til og fjármögnun peningagreiðslna og þjónustu við fjölskyldur og börn á Íslandi 1991–97.
1991 1992 1993 1994 1995 1996 1997
Peningagreiðslur, millj. kr.
Greiðslur við fæðingu og ættleiðingu 1.165 1.205 1.232 1.175 1.172 1.224 1.285
    Fæðingarstyrkur 558 576 595 568 565 582 612
    Fæðingardagpeningar 608 629 637 607 607 642 673
Barnabætur 5.571 5.202 4.719 4.850 5.015 5.006 4.813
    Mæðra- og feðralaun TR 752 803 261 262 284 153 168
    Barnabætur 3.622 2.525 2.555 2.602 2.673 2.684 2.693
    Barnabótaauki 1.197 1.874 1.903 1.986 2.058 2.169 1.952
Meðlög 224 315 659 562 478 479 547
Peningagreiðslur alls 6.960 6.722 6.610 6.586 6.665 6.709 6.644
Þjónusta, millj. kr.
Dagvistarstofnanir barna 2.298 2.499 2.449 2.715 3.034 3.419 3.730
Sumarbúðir og önnur æskulýðsstarfsemi 354 396 473 538 606 603 650
Barnavernd 343 375 383 470 526 633 784
Heimilishjálp barnafjölskyldna 30 39 43 40 45 50 32
Þjónusta alls 3.025 3.309 3.348 3.763 4.211 4.706 5.197
Útgjöld alls, millj.kr. 9.985 10.032 9.959 10.349 10.876 11.415 11.841
    Útgjöld á verðlagi ársins 1997 11.741 11.329 10.722 10.958 11.347 11.602 11.841
    Breyting frá fyrra ári á föstu
    verðlagi, %
- -3,5 -5,4 2,2 3,6 2,3 2,1
    Útgjöld í kr. á íbúa á verðlagi ársins
    1997
45.515 43.388 40.647 41.194 42.437 43.144 43.707
    Útgjöld, breyting frá fyrra ári á föstu
    verðlagi, %
- -4,7 -6,3 1,3 3,0 1,7 1,3
    Útgjöld sem hlutfall af vergri lands-
    framleiðslu
2,5 2,5 2,4 2,4 2,4 2,3 2,2
Fjármögnun, hlutfallsleg skipting
    Ríkissjóður 58,8 54,8 53,8 52,5 51,3 50,7 47,3
    Sveitarfélög 30,8 34,5 38,5 40,1 41,1 43,0 45,7
    Atvinnurekendur 10,4 10,6 7,8 7,4 7,6 6,2 7,0
    Hinir tryggðu - - - - - - -

Tafla 5. Hlutfall barna af íbúum Norðurlanda 1997.
Danmörk Finnland Ísland Noregur Svíþjóð
Fjöldi barna 0–6 ára 480.000 449.000 31.068 426.000 786.000
    Hlutfall íbúa, % 9,1 8,7 11,5 9,7 8,9
Fjöldi barna 7–17 ára 637.000 712.000 46.830 600.000 1.175.000
    Hlutfall íbúa, % 12,1 13,9 17,3 13,6 13,3
    þar af 7–15 ára 37.923
        Hlutfall íbúa, % 14,0
Fjöldi barna 0–17 ára 1.117.000 1.161.000 77.898 1.026.000 1.961.000
    Hlutfall íbúa, % 21,1 22,6 28,8 23,3 22,2
    þar af 0–15 ára 68.991
        Hlutfall íbúa, % 25,5
Tafla 6. Útgjöld til fjölskyldna og barna á Norðurlöndum 1997.
Danmörk Finnland Ísland Noregur Svíþjóð
A. Í millj. kr./FIM (mynt hvers lands)
ALLS 41.669 22.808 11.841 37.401 67.096
Peningagreiðslur 17.667 13.874 6.644 23.057 30.781
    Greiðslur við fæðingu og ættleiðingu 4.623 2.930 1.285 6.667 10.662
    Foreldragreiðslur fyrir gæslu barna 1.867 2.076 - 480 2.640
    Barnabætur 11.162 8.384 4.813 12.835 14.456
    Meðlög 15 484 547 3.075 3.023
Þjónusta 24.002 8.934 5.197 14.344 36.315
    Dagvistarstofnanir barna 17.678 6.929 3.730 9.092 26.842
    Barnavernd 4.868 729 784 1.095 5.117
    Heimilishjálp við barnafjölskyldur 197 185 32 0 0
    Annað 1.259 1.091 650 4.157 4.356
B. Í jafnvirðisgildum (PPP) í eku á íbúa
ALLS 866 687 506 861 732
Peningagreiðslur 367 418 284 531 336
    Greiðslur við fæðingu og ættleiðingu 96 88 55 153 116
    Foreldragreiðslur fyrir gæslu barna 39 63 - 11 29
    Barnabætur 232 253 206 296 158
    Meðlög 0 15 23 71 33
Þjónusta 499 269 222 330 396
    Dagvistarstofnanir barna 367 209 159 209 293
    Barnavernd 101 22 33 25 56
    Heimilishjálp við barnafjölskyldur 4 6 1 0 0
    Annað 26 33 28 96 48
C. Í jafnvirðisgildum (PPP) í eku á íbúa 17 ára og yngri (15 ára og yngri á Íslandi)
ALLS 4.095 3.042 1.987 3.697 3.303
Peningagreiðslur 1.736 1.850 1.115 2.279 1.515
    Greiðslur við fæðingu og ættleiðingu 454 391 216 659 525
    Foreldragreiðslur fyrir gæslu barna 183 277 - 47 130
    Barnabætur 1.097 1.118 807 1.269 712
    Meðlög 1 65 92 304 149
Þjónusta 2.359 1.191 872 1.418 1.788
    Dagvistarstofnanir barna 1.737 924 626 899 1.321
    Barnavernd 478 97 132 108 252
    Heimilishjálp við barnafjölskyldur 19 25 5 0 0
    Annað 124 145 109 411 214

Fylgiskjal II.


Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna:

Bætur vegna launataps aðstandenda sjúkra barna á Norðurlöndum.


    Upplýsingar eru samkvæmt erlendum gögnum og niðurstöðu nefndar á vegum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis sem kannaði réttindi langsjúkra barna og skilaði áliti í mars 1995.
    Nefndin var skipuð samkvæmt þingsályktun um réttarstöðu barna með krabbamein og annarra sjúkra barna sem samþykkt var á Alþingi 7. maí 1993.

Svíþjóð Noregur Danmörk Finnland Ísland
Veikindadagar foreldra.
Sjúkrabætur.
Launauppbót.
90% laun í 120 daga á ári fyrir hvert barn, 0–16 ára. Allt að 780 dagar (100% laun í 260 daga og síðan 65% laun í 520 daga) fyrir hvert barn 0–16 ára,
+10,2% orlof af greiddum sjúkrabótum í allt að 12 vikur á ári.
Endurgreiðsla nauðsynlegs kostnaðarauka vegna umönnunar barna 0–18 ára. Greidd er launauppbót (90% laun) til annars foreldris á meðan meðferð stendur yfir. Launauppbót má greiða í þrjá mánuði eftir að forsendur bresta. Sérstök uppbót til atvinnulausra. Orlofsstyrkur. Greidd eru 66% af launum í 60–90 daga, lengur ef nauðsyn krefur, t.d. vegna barna með krabbamein. Heimilt er að greiða báðum foreldrum ef nauðsyn krefur. Útivinnandi foreldri á rétt á sjö veikindadögum að hámarki á ári til að sinna sjúkum börnum sínum án tillits til fjölda þeirra og alvarleika sjúkdómsins.