Ferill 186. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 216  —  186. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun.

(Lögð fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



    Á grundvelli fyrirliggjandi skýrslu um umhverfisáhrif Fljótsdalsvirkjunar, greinargerðar um orkuöflun fyrir álver í Reyðarfirði, skýrslu um þjóðhagsleg áhrif álversins og athugunar á samfélagslegum áhrifum þess lýsir Alþingi yfir stuðningi við að haldið verði áfram framkvæmdum við Fljótsdalsvirkjun, sbr. lög um raforkuver, nr. 60/1981, samning ríkisstjórnar Íslands og Landsvirkjunar, dags. 11. ágúst 1982, og lög um Landsvirkjun, nr. 42/1983.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.



1. Ástæður þingsályktunartillögu þessarar og tilgangur hennar.
    Það er alkunna að bæði hérlendis og erlendis greinir menn á um ágæti vatnsaflsvirkjana. Fylgismenn slíkra virkjana benda á að æskilegt sé að framleiða rafmagn úr vatnsafli þar sem slík framleiðsla hafi ekki í för með sér losun gróðurhúsalofttegunda og að verið sé að nýta endurnýjanlegar orkulindir. Andstæðingar vatnsaflsvirkjana leggja hins vegar á það áherslu að slíkum virkjunum geti fylgt neikvæð umhverfisáhrif, einkum vegna uppistöðulóna. Báðum þessum sjónarmiðum hefur verið hreyft upp á síðkastið í tengslum við umræður um framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun. Þá hefur því og verið haldið fram í umræðunni að eðlilegt sé og jafnvel lögskylt að framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun sæti mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum. Einnig hefur því verið hreyft að stjórnvöldum og Alþingi sé heimilt að afturkalla eða breyta þeim heimildum til virkjunarinnar sem þegar hafa verið veittar.
    Af ástæðum sem nánar verða skýrðar síðar í athugasemdum þessum brestur framkvæmdarvaldshafa að óbreyttum lögum heimildir til þess að ákveða einhliða að beita um Fljótsdalsvirkjun ákvæðum laga nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum. Leiða hvorki ákvæði íslenskra laga né þjóðréttarskuldbindingar, sem Ísland hefur undirgengist, til þeirrar niðurstöðu að slík ákvörðun verði tekin. Fyrir lagabreytingu í þeim efnum er ríkisstjórnin ekki reiðubúin til að beita sér, enda kynni slík lagasetning að hafa í för með sér bótaskyldu ríkissjóðs gagnvart virkjunaraðilanum.
    Þá skortir framkvæmdarvaldshafa lagaheimildir til þess að breyta eða afturkalla einhliða og í andstöðu við vilja virkjunaraðila þær heimildir sem veittar hafa verið til virkjunar Jökulsár í Fljótsdal. Það verður einungis gert með lögum frá Alþingi . Fyrir slíkri lagasetningu er ríkisstjórnin ekki heldur reiðubúin að beita sér, enda næsta víst að lagasetning í þeim efnum færi í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og hefði í för með sér bótaskyldu ríkissjóðs gagnvart Landsvirkjun eins og síðar verður rakið.
    Til þess er hins vegar að líta að nokkuð er um liðið síðan heimildir voru veittar til þess að reisa og reka Fljótsdalsvirkjun. Með hliðsjón af því og þeirri miklu umræðu sem fram hefur farið að undanförnu á Alþingi og utan þess um umhverfisáhrif Fljótsdalsvirkjunar er það mat ríkisstjórnarinnar að eðlilegt sé, m.a. í ljósi breyttrar skipunar Alþingis frá því að lagaákvæði um virkjunina komu síðast til kasta þingsins, að Alþingi taki í formi þingsályktunar afstöðu til framhalds virkjunarframkvæmdanna. Mikilvægt framlag til þeirrar umræðu er umfangsmikil skýrsla sem Landsvirkjun hefur sem framkvæmdaraðili látið vinna um umhverfisáhrif Fljótsdalsvirkjunar og dagsett er 5 . nóvember 1999, en skýrslan er fylgiskjal með þingsályktunartillögu þessari og grundvöllur umfjöllunar og ályktunar Alþingis. Þá fylgir greinargerð Orkustofnunar um orkuöflun fyrir álver í Reyðarfirði, dags. 4. nóvember 1999, skýrsla Þjóðhagsstofnunar um þjóðhagsleg áhrif álvers í Reyðarfirði, frá október 1999, og skýrsla Nýsis hf. um athugun á samfélagslegum áhrifum álvers í Reyðarfirði, frá nóvember 1999.
    Í tillögu þessari, sem iðnaðarráðherra flytur f.h. ríkisstjórnarinnar, er lagt til að Alþingi lýsi á grundvelli fyrrgreindra skýrslna og greinargerða yfir stuðningi við að haldið verði áfram framkvæmdum við Fljótsdalsvirkjun, sbr. lög um raforkuver, nr. 60/1981, samning ríkisstjórnar Íslands og Landsvirkjunar sem dagsettur er 11. ágúst 1982 og lög um Landsvirkjun, nr. 42/1983. Gefst Alþingi þannig færi á að taka afstöðu til framhalds virkjunarframkvæmdanna. Er við það miðað að þingsályktunartillagan fari í samræmi við ákvæði 23. gr. þingskapalaga, nr. 55/1991, til umfjöllunar iðnaðarnefndar Alþingis, en iðnaðarnefnd getur kallað eftir umsögnum annarra nefnda þingsins og umsögnum frá aðilum utan Alþingis. Þá er og á þennan hátt tryggð aðkoma almennings að málinu því að almenningi gefst nú kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við þingnefndina við hina þinglegu meðferð málsins.
    Auk þeirra atriða sem að framan greinir liggur það til grundvallar tillöguflutningnum að skýrsla Landsvirkjunar ber það ekki með sér að Fljótsdalsvirkjun komi til með að hafa svo neikvæð áhrif á hið náttúrulega umhverfi sitt að sá mikli þjóðhagslegi ávinningur, sem hlýst af virkjuninni, yfirvinni þau ekki. Einnig vegur það þungt í tillöguflutningnum að ljóst er að verulegar líkur eru á að það matsferli, sem lögin um mat á umhverfisáhrifum kveða á um, kollvarpi þeirri tímaáætlun sem unnið er eftir í tengslum við álver við Reyðarfjörð og fram kemur í yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands, Landsvirkjunar og Hydro Aluminium A/S frá 29. júní 1999. Gætu við það glatast mikilvægir samningshagsmunir íslensku þjóðarinnar. Ber í því sambandi að hafa í huga að aðrir virkjunarkostir en Fljótsdalsvirkjun eru ekki fyrir hendi til að mæta orkuþörf fyrirhugaðs álvers við Reyðarfjörð þannig að það geti hafið rekstur árið 2003. Er nánar vikið að þessu atriði síðar í athugasemdunum.

2. Almenn sjónarmið við lagasetningu um vatnsaflsvirkjanir.
    Við undirbúning að setningu laga um vatnsaflsvirkjanir er eðli málsins samkvæmt til margra sjónarmiða að líta.
    Fyrst er þess að geta að undirbúningur bæði vatnsafls- og jarðvarmavirkjana tekur að jafnaði langan tíma, og oft líða áratugir frá því að undirbúningsathuganir hefjast þar til rekstur virkjunar getur hafist. Helgast það m.a. af því að virkjunarrannsóknir eru margslungnar, tímafrekar og kostnaðarsamar. Þarf því við lagasetningu um málefni virkjana að gæta langtímasjónarmiða, hafa löggjöfina nægilega sveigjanlega og tryggja heimildir virkjunaraðila, enda er ekki hægt að ætlast til að fyrirtæki ráðist í og ljúki undirbúningi slíkra framkvæmda sem kostað geta milljarða króna nema hafa fyrir þeim öruggar heimildir. Helstu reglur um undirbúning og framkvæmd vatnsaflsvirkjana samkvæmt íslenskum rétti er að finna í orkulögum, nr. 58/1967, og lögum um raforkuver, nr. 60/1981. Byggist sú lagasetning m.a. á þeim grundvallarsjónarmiðum sem hér voru nefnd. Vikið er að framangreindum atriðum í almennum athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 60/1981, um raforkuver, en þar segir m.a. svo:
     Rökin fyrir því, að hafa slíkt svigrúm í stefnunni í virkjunarmálum til næstu ára eru fyrst og fremst þau, að virkjanir eru tímafrekar framkvæmdir, sem þurfa langan undirbúningstíma. Þannig er mjög erfitt, eða jafnvel ógerlegt, að mæta með stuttum fyrirvara þörfum, sem ekki voru séðar löngu fyrir, ef virkjað er naumt eftir orkuspá. Aftur á móti er tiltölulega auðvelt að hægja á, ef þarfirnar ætla að reynast minni en spáð var.
    Í annan stað þarf að tryggja eftir því sem kostur er eðlilega dreifingu virkjana um landið þannig að virkjað sé utan eldvirkra svæða og nýttir séu mismunandi rennsliseiginleikar fallvatna eftir landshlutum. Þessi sjónarmið voru mjög höfð í huga við setningu laga nr. 60/1981, um raforkuver, og höfðu þau áhrif á þá lagasetningu eins og glöggt má sjá af eftirfarandi ummælum þáverandi iðnaðarráðherra, Hjörleifs Guttormssonar, er hann fylgdi úr hlaði frumvarpi til laganna:
     Frumvarp þetta ásamt greinargerð felur í sér stefnumótun um byggingu raforkuvera í landinu á næstu 10–15 árum, allt að 820 MW að afli, þar af 720 MW í vatnsaflsvirkjunum, 50 MW í jarðvarmavirkjunum og 50 MW í varastöðvum, auk heimildar til að reisa og reka orkuveitur til að tengja þessi orkuver við núverandi landskerfi og styrkja landskerfið að því marki sem nauðsynlegt er talið til að flytja orkuna til afhendingarstaða út frá því … Þessi aukning á orkuvinnslu getur komið í gagnið á 10–15 árum eða lengri tíma samkvæmt hugmyndum sem settar eru fram í greinargerð með frumvarpinu, en þar eru eðlilega settir fram ýmsir fyrirvarar varðandi framkvæmdahraða og nýtingu þeirra heimilda sem hér er leitað eftir.
    Þá rakti ráðherra í framsöguræðu sinni athugasemdir við 1. gr. frumvarpsins. Í þeirri grein er mörkuð meginstefna um framkvæmdaröð varðandi þær virkjanir og veitur sem leitað var heimilda fyrir samkvæmt frumvarpinu, en þar segir meðal annars:
    …
3)    Undirbúningi vegna Fljótsdalsvirkjunar og Blönduvirkjunar verði lokið sem fyrst og framkvæmdir við fyrri áfanga Fljótsdalsvirkjunar og við Blönduvirkjun skarist nokkuð. Verði við það miðað að önnur þessara virkjana geti hafið rekstur á árunum 1986–87, en hin um 1990 eftir því sem markaðsaðstæður leyfa.
4)    Framkvæmdir við síðari áfanga Fljótsdalsvirkjunar, við Sultartangavirkjun og Villinganesvirkjun hafa ekki verið tímasettar, en orkuvinnslugeta þeirra til viðbótar gæti rúmast innan efri marka orkuspár á næstu 15 árum. Ákvarðanir um framkvæmdir hljóta hins vegar að ráðast af aðstæðum í landskerfinu og markaði er þar að kemur.
    Um þetta sagði iðnaðarráðherra í framsöguræðu sinni er hann fylgdi frumvarpinu úr hlaði:
     Með þessu er mörkuð um það stefna að í framhaldi af byggingu Hrauneyjafossvirkjunar og annarra aðgerða á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu og jafnhliða þeim verði ráðist í tvær stórvirkjanir utan Suðurlands og að því stefnt að þær komist í gagnið innan 10 ára. Með frumvarpinu er þannig í fyrsta sinn leitað heimilda fyrir meiri háttar virkjunum utan Suðvesturlands og mörkuð sú stefna að dreifa virkjunum um landið og virkja utan eldvirkra svæða í samræmi við stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar. Slík dreifing virkjana býður upp á aukið öryggi fyrir hina ýmsu landshluta og traustari rekstur kerfisins en ríkir við núverandi aðstæður þar sem allar helstu virkjanir landsins eru á tiltölulega litlu svæði sunnanlands. Með slíkri dreifingu virkjana gefst einnig færi á að nýta mismunandi rennsliseiginleika íslenskra fallvatna eftir landshlutum þar eð lágrennslistímabil fylgjast yfirleitt ekki að um allt land vegna mismunandi veðráttu. Hin samtengdu raforkuver, sem dreifð eru um landið, geta einnig samanlagt unnið meiri raforku en væru þau einangruð eða öll í sama landshluta, vegna þess að rennslissveiflur jafnast nokkuð út yfir landið í heild.
    Enn sagði iðnaðarráðherra í framsöguræðu sinni er hann fylgdi úr hlaði frumvarpi því sem varð að lögum nr. 60/1981:
    Til viðbótar þessu mun fylgja byggingu umræddra virkjana og veitumannvirkja um tvöföld[un] á miðlunarforða eða miðlunarstigi að baki raforkuvera landsins, en það er að sjálfsögðu stórfellt öryggisatriði. Þar munar mestu um fyrirhugaða Fljótsdalsvirkjun með allt að 745 gígalítra miðlun, sem felur í sér yfir 1000 gwst. orkuforða á ári, og til samanburðar má nefna að í núverandi Þórisvatnsmiðlun er fólgin um 700 gwst. orkuforði yfir árið, – orkuforði í heild reiknað, ekki tímabundið út af fyrir sig.
    Þá sagði ráðherra m.a. í framsöguræðunni að ríkisstjórnin mundi með hliðsjón af því sem að framan greindi beita sér fyrir því að ljúka rannsóknum vegna Fljótsdalsvirkjunar og hefja verkhönnun hennar og að hraða verkhönnun Blönduvirkjunar. Því næst sagði ráðherrann að eftir að frumvarpið yrði að lögum yrðu þegar hafnir samningar við Landsvirkjun sem væntanlegan virkjunaraðila skv. 1. gr. og reynt að koma því máli í höfn sem fyrst. Að þeim samningum er nánar vikið hér á eftir.

3. Lagagrundvöllur Fljótsdalsvirkjunar.
    Eins og áður segir tekur undirbúningur vatnsafls- og jarðvarmavirkjana að jafnaði langan tíma, og oft líða margir áratugir frá því að undirbúningsathuganir byrja þar til rekstur virkjunar getur hafist. Virkjun Jökulsár í Fljótsdal hefur lengi verið talin einn af álitlegri virkjunarkostum hér á landi, og allt frá árinu 1954 hafa verið uppi hugmyndir um virkjun árinnar. Forathuganir á aðstæðum til virkjunar árinnar og hagkvæmni framkvæmda hófust um 1970, og árið 1975 fóru af stað viðamiklar umhverfisathuganir á vegum Orkustofnunar og síðar Rafmagnsveitna ríkisins (RARIK) í tengslum við fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir.
    Í 7. gr. orkulaga, nr. 58/1967, var kveðið á um leyfisveitingar vegna raforkuvinnslu. Þar kom m.a. fram að til þess að reisa og reka raforkuver stærra en 2 MW þyrfti leyfi Alþingis. Sambærilegt ákvæði er nú í 10. gr. laganna. Með lögum um raforkuver, nr. 60/1981, veitti Alþingi ríkisstjórn Íslands heimild til að semja svo við Landsvirkjun að fyrirtækið tæki að sér að reisa og reka tilteknar vatnsaflsvirkjarnir sem upp voru taldar í lögunum, sbr. 1. gr. Þeirra á meðal var virkjun Jökulsár í Fljótsdal (Fljótsdalsvirkjun) með allt að 330 MW afli. Í 2. gr. laganna sagði að tillögur um framkvæmdir við nýjar vatnsaflsvirkjanir og virkjunaráfanga, þar á meðal um framkvæmdaröð, skyldu lagðar fyrir Alþingi til samþykktar.
    Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 60/1981 eru raktar forsendur þær sem lágu til grundvallar virkjuninni og öðrum virkjunum sem heimild var veitt til, sbr. Alþingistíðindi 1980–81, þskj. 784, bls. 2409–2572. Frumvarpinu fylgdi einnig skýrsla um Fljótsdalsvirkjun þar sem fram kemur að gert var ráð fyrir 745 Gl heildarmiðlun vegna virkjunarinnar, þar af 615 Gl miðlun við Eyjabakka. (Sjá mynd nr. 1.)
    Rafmagnsveitur ríkisins, sem á þessum tíma fóru með undirbúning virkjunarframkvæmda, leituðu með bréfi, dags. 24. febrúar 1981, umsagnar Náttúruverndarráðs um virkjun Jökulsár í Fljótsdal. Í bréfi ráðsins, dags. 31. mars sama ár, en bréfið ásamt umsögn Náttúruverndarráðs var í fylgiskjali 2.2.2 með frumvarpinu, segir svo:
     Ráðið hefur nú fjallað um mál þetta með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum og könnun ráðsmanna á áhrifasvæði virkjunarinnar. Á fundi ráðsins 26. mars sl. var meðfylgjandi umsögn samþykkt og kemur þar fram að þótt mikill sjónarsviptir yrði að hinu víðfema gróðurlendi Eyjabakkasvæðisins, færi það undir vatn, og þrátt fyrir að forðast beri að eyða þannig grónu landi, sé þess nokkur kostur, þá vill Náttúruverndarráð fyrir sitt leyti ekki leggjast gegn Fljótsdalsvirkjun telji orkuyfirvöld hana nauðsynlega.
    Á grundvelli fyrrnefndrar heimildar í lögum nr. 60/1981 gerðu ríkisstjórn Íslands og Landsvirkjun með sér samning um virkjanamál, yfirtöku byggðalína o.fl., sem dagsettur er 11. ágúst 1982. Samningurinn var gerður með vísan til heimildar í 1. gr. laga nr. 60/1981, um raforkuver, og 3. gr. laga nr. 59/1965, um Landsvirkjun, en í þeirri lagagrein var kveðið á um að Landsvirkjun væri heimilt með samningum að kaupa orkuver og aðalorkuveitur frá öðrum aðilum og starfrækja þessi mannvirki. Skv. 1. gr. samningsins tók Landsvirkjun að sér að reisa og reka sem sína eign frá og með 1. október 1982 Blönduvirkjun með allt að 180 MW afli, virkjun Jökulsár í Fljótsdal (Fljótsdalsvirkjun) með allt að 330 MW afli og Villinganesvirkjun með allt að 40 MW afli. Frá sama tíma tók Landsvirkjun samkvæmt samningnum við rannsóknum, hönnun og undirbúningsframkvæmdum þeim við framangreindar virkjanir sem fram til þess tíma höfðu verið í höndum RARIK og Orkustofnunar.
    Alþingi setti vorið 1983 ný lög um Landsvirkjun, þ.e. lög nr. 42/1983. Með þeim lögum varð sú breyting að orkusvæði Landsvirkjunar er nú skilgreint sem landið allt. Í 4. mgr. 6. gr. laganna segir að Landsvirkjun beri að hafa forgöngu um virkjanir á orkusvæði sínu svo að tryggt verði að afl- og orkuþörf viðskiptavina fyrirtækisins verði ávallt fullnægt. Í 1. mgr. 6. gr. laganna segir m.a. að Landsvirkjun reisi og reki samkvæmt lögum nr. 60/1981, um raforkuver, og samkvæmt fyrrgreindum samningi við ríkisstjórn Íslands frá 11. ágúst 1982, að fengnu leyfi ráðherra orkumála skv. 7. gr. laganna, Blönduvirkjun með allt að 180 MW afli og Fljótsdalsvirkjun með allt að 330 MW afli. Áðurgreindur samningur frá 11. ágúst 1982 var staðfestur af þáverandi iðnaðarráðherra, Hjörleifi Guttormssyni, 21. september sama ár. Með samningi þessum og 6. gr. laga nr. 42/1983 lá fyrir leyfi Landsvirkjunar til Fljótsdalsvirkjunar í skilningi áður tilvitnaðrar 7. gr. orkulaga, nr. 58/1967.

4. Ákvörðun um röð virkjanaframkvæmda.
    Í gegnum tíðina hefur Alþingi átt stóran þátt í ákvörðunum um virkjanir og raforkuframleiðslu, og er áður vikið að efni 10. gr. orkulaga, nr. 58/1967, í því sambandi. Á árinu 1981 voru eins og áður segir sett sérstök lög um raforkuver, nr. 60/1981, en í 2. mgr. 2. gr. þeirra laga sagði meðal annars:
     Tillögur um framkvæmdir við nýjar vatnsaflsvirkjanir og virkjunaráfanga, þar á meðal um framkvæmdaröð, skulu lagðar fyrir Alþingi til samþykktar. Skal áður liggja fyrir greinargerð frá Landsvirkjun, Orkustofnun, Rafmagnsveitum ríkisins og öðrum þeim aðilum, sem ríkisstjórnin kveður til, um þjóðhagslega hagkvæmni virkjunarleiða og þýðingu þeirra fyrir raforkukerfi landsins. Jafnframt leggi ríkisstjórnin fram greinargerð um þá möguleika sem fyrir liggja um nýtingu orkunnar til orkufreks iðnaðar og sparnaðar á innfluttu eldsneyti.
    Á grundvelli þessa fyrirkomulags skv. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 60/1981 samþykkti Alþingi 6. maí 1982 þingsályktun um virkjunarframkvæmdir og orkunýtingu. Í 2. tölul. þeirrar þingsályktunar segir:
     Fljótsdalsvirkjun og síðar Sultartangavirkjun verði næstu meiri háttar vatnsaflsvirkjanir á eftir Blönduvirkjun. Eftir því sem orkuþörf gefur tilefni til skarist annars vegar Blönduvirkjun og Fljótsdalsvirkjun og hins vegar Fljótsdalsvirkjun og Sultartangavirkjun.
    Áðurgreindu fyrirkomulagi við ákvörðun um virkjanaröð var breytt með lögum nr. 74/1990, um breytingu á lögum nr. 60/1981, og er það fyrirkomulag enn í gildi. Í 2. gr. laga nr. 60/1981 (nú 3. gr., sbr. lög nr. 48/1999) segir svo eftir þá lagabreytingu:
     Röð framkvæmda við virkjanir og aðrar stórframkvæmdir í raforkumálum skal ráðast af væntanlegri nýtingu orkunnar og skal þess gætt að orkuöflunin verði með sem hagkvæmustum hætti fyrir þjóðarbúið. Við val á virkjunarkostum skal einnig leitast við að auka öryggi í vinnslu og flutningi á raforku um landið. Áður en iðnaðarráðherra ákveður röð framkvæmda skulu liggja fyrir greinargerðir frá Landsvirkjun, Orkustofnun og öðrum aðilum sem hann kveður til.
    Í ákvæði til bráðabirgða I með lögunum sagði svo:
     Takist samningar um að reisa nýtt álver á grundvelli yfirlýsingar, dags. 13. mars 1990, milli ríkisstjórnarinnar og ATLANTAL-aðilanna um ásetning að ljúka samningum um nýtt álver með 200 þús. tonna framleiðslu á ári skal mæta orkuþörf þess með því að ráðast auk Blönduvirkjunar í eftirtaldar framkvæmdir, sbr. 1. og 2. gr. þessara laga og 6. gr. laga nr. 42/1983, um Landsvirkjun:
     1.      Fljótsdalsvirkjun.
     2.      Stækkun Búrfellsvirkjunar, 5. áfanga Kvíslaveitu og stækkun miðlunar í Þórisvatni.
     3.      Stækkun Kröfluvirkjunar og 1. áfanga Nesjavallavirkjunar takist samningar við Hitaveitu Reykjavíkur um samrekstur virkjunarinnar við raforkukerfi landsins.
    Í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi til laganna sagði m.a. um þessa breytingu að í stað þess að Alþingi ákveði röð einstakra framkvæmda með þingsályktun sé lagt til að framkvæmdarvaldinu verði settar almennar reglur um röðun framkvæmda sem ráðist af væntanlegri orkunýtingu. Jafnframt verði leitast við að styrkja raforkukerfið og auka öryggi orkuöflunar og orkudreifingar. Í sérstöku ákvæði til bráðabirgða sé þó lagt til að lögfest verði tiltekin röð virkjanaframkvæmda takist samningar um nýtt álver á grundvelli yfirlýsingar frá 13. mars 1990. Sú röð virkjanaframkvæmda sé í öllum meginatriðum sú sama og Alþingi hafi samþykkt með þingsályktun um virkjunarframkvæmdir og orkunýtingu 6. maí 1992. Í athugasemdum greinargerðarinnar segir m.a. svo:
    Í verkhönnunarskýrslu um virkjun Jökulsár í Fljótsdal, sem kom út í maí 1982, er gert ráð fyrir að frá Eyjabakkamiðlun verði vatni veitt um skurð og lón á Fljótsdalsheiði að inntaki virkjunarinnar á Teigsbjargi, en síðan um hallandi þrýstipípu að þremur vatnsvélum í stöðvarhúsi neðan jarðar. Þaðan færi vatnið um frárennslisgöng aftur út í farveg árinnar milli bæjanna Hóls og Valþjófsstaðar. Umsögn Náttúruverndarráðs frá 31. mars 1981 miðaðist við þessa útfærslu.
    Árið 1989 var hönnun Fljótsdalsvirkjunar tekin til endurskoðunar, og nú er áætlað að í stað skurðar og lóna á Fljótsdalsheiði komi jarðgöng (heilboruð) frá Eyjabakkamiðlun að fallpípu stöðvarhúss, sem er á sama stað og í eldri áætlun. Umsögn Náttúruverndarráðs um þessa útfærslu liggur ekki fyrir, en augljóst er að nýja tilhögunin hefur mun minni áhrif á umhverfið. Minna land fer undir vatn og lítil röskun verður á Fljótsdalsheiði.
    Árið 1982 var gert samkomulag við Fljótsdalshrepp um virkjunina.
    Af framangreindu leiðir að það var ekki Landsvirkjun sem í upphafi tók ákvörðun um að ráðist skyldi í Fljótsdalsvirkjun heldur Alþingi sem jafnframt fól ríkisstjórninni að semja um virkjunarframkvæmdina við fyrirtækið. Þetta verður að hafa í huga þegar rætt er um heimildir og samningsskyldur Landsvirkjunar vegna virkjunarframkvæmdanna og undirbúning fyrirtækisins, bæði rannsóknir og undirbúningsframkvæmdir vegna Fljótsdalsvirkjunar.

5. Kostnaður Landsvirkjunar vegna Fljótsdalsvirkjunar.
    Rannsóknar- og undirbúningskostnaður Landsvirkjunar á árunum 1983–98, í milljónum króna á verðlagi í júlí 1999, hefur verið sem hér segir:

         Yfirtekinn kostnaður greiddur samkvæmt samningi til ríkisins          1.200
         Kostnaður við grunnrannsóknir Orkustofnunar          350
                                       Samtals greitt ríkissjóði          1.550

    Framkvæmdir og undirbúningur Landsvirkjunar:
         Rannsóknir          270
         Hönnun                    370
         Aðstöðusköpun og eftirlit          95
         Framkvæmdir          480
         Bókfærðir vextir og lántökukostnaður á framkvæmdatíma          315
                                        Samtals           1.530
                                        Heildarkostnaður          3.080

    Í þessum tölum er annar fjármagnskostnaður ekki meðtalinn, né stjórnunarkostnaður Landsvirkjunar.

6. Stjórnvaldsleyfi til Fljótsdalsvirkjunar.
    Fyrir gildistöku laga um mat á umhverfisáhrifum giltu ákvæði vatnalaga, nr. 15/1923, um rétt þeirra sem hagsmuna áttu að gæta til að koma að athugasemdum vegna virkjunaráforma o.fl., sbr. 144. gr. þeirra laga. Ákvæði þessi gilda enn og taka m.a. til framkvæmda vegna Fljótsdalsvirkjunar. Þegar iðnaðarráðherra hafði gefið út leyfi til framkvæmda vegna virkjunar Jökulsár í Fljótsdal í apríl árið 1991 var framkvæmdin auglýst þrisvar í Lögbirtingablaðinu og auk þess í vikublöðum útgefnum á Austurlandi, og bárust athugasemdir frá átta aðilum. Tekið var tillit til ýmissa þeirra athugasemda sem fram komu, en rétt er að hafa í huga að í engri þeirra var gerð athugasemd við þá fyrirætlan að gera lón á Eyjabökkum.
    Þá er einnig rétt að fram komi að meðal gagna, sem lágu fyrir þegar framkvæmdaleyfi iðnaðarráðherra vegna Fljótsdalsvirkjunar var gefið út, var ný umsögn Náttúruverndarráðs (nú Náttúrvernd ríkisins), dags. 7. febrúar 1991. Í umsögninni segir meðal annars:
     Það er skilningur Náttúruverndarráðs að jákvæð umsögn ráðsins (bréf dagsett 31. mars 1981) varðandi eldri hugmyndir um virkjun standi enn, þar með talið samþykki við því að leggja Eyjabakka undir vatn. Sú breytta verkhönnun sem hér er verið að óska umsagnar um dregur verulega úr umhverfisáhrifum á heiðinni. Þeir skurðir og stíflur sem eldri hugmyndir gerðu ráð fyrir hefðu efalítið verið til lýta í landslagi og hindrað för manna og skepna um heiðina. Loks er það mikils virði að tjarnir og votlendi á Fljótsdalsheiðinni fái að halda sér.
    Í 7. gr. laga nr. 42/1983, um Landsvirkjun, segir að áður en byrjað er á nýjum mannvirkjum, hvort heldur eru raforkuver eða meginstofnlínur, skuli Landsvirkjun senda ráðherra þeim, sem fer með orkumál, uppdrætti af hinum fyrirhuguðu mannvirkjum ásamt lýsingu á þeim, og getur ráðherra krafist þeirra breytinga á fyrirhugaðri tilhögun mannvirkja sem nauðsynlegar kunna að þykja vegna almenningshagsmuna. Í samræmi við ákvæði þetta óskaði Landsvirkjun, með bréfi, dags. 19. apríl 1991, eftir leyfi iðnaðarráðherra til að hefja framkvæmdir við byggingu Fljótsdalsvirkjunar, og veitti þáverandi iðnaðarráðherra, Jón Sigurðsson, Landsvirkjun umbeðið leyfi með bréfi, dags. 24. apríl 1991.
    Samkvæmt fyrrgreindu bréfi ráðuneytisins var leyfisveitingin byggð á 7. gr., sbr. 6. gr. laga nr. 42/1983. Í virkjunarleyfinu er vakin athygli á skilyrði sem felist í bráðabirgðaákvæði I í lögum nr. 60/1981, um raforkuver, varðandi röð framkvæmda. Þá kemur í bréfi iðnaðarráðherra fram að ráðherra muni í samræmi við ákvæði vatnalaga birta auglýsingu í Lögbirtingablaðinu varðandi hina ráðgerðu virkjun þar sem þeim er hagsmuna eiga að gæta verði gefinn kostur á að koma fram með athugasemdir við virkjunaráformin. Er tekið fram að leyfið sé bundið því skilyrði að Landsvirkjun ábyrgist úrlausn þeirra vandamála sem kunni að rísa vegna slíkra athugasemda að höfðu samráði við ráðuneytið.
    Umrædd auglýsing var birt í Lögbirtingablaði og bárust eins og áður segir athugasemdir frá átta aðilum. Iðnaðarráðuneytið fól Orkustofnun að láta í té umsögn um fram komnar athugasemdir, og er umsögn Orkustofnunar dagsett 2. desember 1991. Landsvirkjun sendi iðnaðarráðuneytinu greinargerð 18. febrúar 1992 um þær athugasemdir sem höfðu borist og um það hvernig við yrði brugðist. Segir í greinargerð Landsvirkjunar að ýmist hafi verið hætt við flest þau mannvirki sem athugasemdir hefðu beinst að eða þau verulega einfölduð miðað við forsendur í auglýsingu.
    Því hefur verið haldið fram að framangreint leyfi ráðherra frá 24. apríl 1991 sé fallið niður sökum brostinna forsendna þar sem útgáfa þess hafi verið bundin samningaviðræðum íslenskra stjórnvalda við Atlantal og staðsetningu álvers á Keilisnesi. Fer því fjarri að unnt sé að telja forsendur brostnar fyrir leyfinu þótt leyfishafi hyggist nú selja raforku sem framleidd verður í Fljótsdalsvirkjun öðrum aðila en hann taldi líkur á að mundi kaupa hana þegar sótt var um leyfið. Því síður getur slíkur forsendubrestur falist í því að kaupandi orkunnar af leyfishafa hyggist nota hana á öðrum stað en leyfishafi bjóst við að hún yrði notuð á þegar sótt var um leyfið.
    Í leyfi því sem iðnaðarráðherra gaf út 24. apríl 1991 var annars vegar vakin athygli Landsvirkjunar á skilyrði bráðabirgðaákvæðis laga um raforkuver, nr. 60/1981, varðandi röð virkjunarframkvæmda sem Alþingi hafði tekið afstöðu til eins og áður er rakið. Hins vegar var leyfið bundið því skilyrði að Landsvirkjun ábyrgðist úrlausn þeirra vandamála sem kynnu að rísa vegna hugsanlegra athugasemda sem þeir kynnu að gera er hagsmuna hefðu að gæta. Ekki liggur annað fyrir en að Landsvirkjun hafi farið eftir ákvæðum leyfis ráðherra, en við útgáfu þess var í einu og öllu farið eftir gildandi ákvæðum laga um kynningu, aðkomu náttúruverndaryfirvalda og önnur atriði sem máli skipta. Var útgáfa leyfisins því fyllilega lögmæt og hafa engin þau atriði gerst síðar sem hnekkt geta gildi þess. Er leyfið því í fullu gildi.
    Í grófum dráttum má segja að tilhögun þeirra virkjunarframkvæmda sem iðnaðarráðherra, á grundvelli laga nr. 60/1981 og 42/1983, heimilaði Landsvirkjun að ráðast í árið 1991 sé eftirfarandi:
    Jökulsá í Fljótsdal verður stífluð við Eyjabakka austan Snæfells og myndast við það miðlunarlón, Eyjabakkalón, sem verður 44 km 2 að flatarmáli, miðað við vatnsborð í yfirfallshæð og miðlunarrými um 500 Gl. Úr lóninu verður vatninu veitt um 31 km leið eftir því sem næst láréttum aðrennslisgöngum norður Fljótsdalsheiði að lóðréttum fallgöngum og aflvélum í stöðvarhúsi neðanjarðar. Þaðan verður vatninu veitt um göng og skurð út í farveg Jökulsár um 3 km innan við Valþjófsstað. Uppsett afl virkjunarinnar verður 210 MW, hönnunarrennsli 42 m 3/sek og fallhæð 576 m. Orkuaukning í raforkukerfi landsins við gangsetningu virkjunarinnar er talin verða um 1.400 GWst. á ári, sem er u.þ.b. 18% aukning. 1 (Sjá mynd nr. 2.)

7. Fljótsdalsvirkjun og skipulags- og byggingarlög.
    Í 4. gr. eldri skipulagslaga, nr. 19/1964, sagði að öll sveitarfélög væru skipulagsskyld og að allar byggingar ofan jarðar og neðan og önnur mannvirki sem áhrif hefðu á útlit umhverfisins, aðrar en byggingar á lögbýlum, skyldu byggð í samræmi við áður gerðan skipulagsuppdrátt sem samþykktur hefði verið af hlutaðeigandi sveitarstjórn og skipulagsstjórn ríkisins. Í 1. mgr. 5. gr. sagði að á skipulagsskyldu svæði skyldu allar byggingar og önnur mannvirki gerð í samræmi við gildandi skipulagsuppdrátt. Ef skipulagsuppdráttur af sveitarfélaginu eða hluta þess eða af skipulagsskyldum stað var ekki fyrir hendi gat sveitarstjórn að fengnum meðmælum skipulagsstjórnar leyft einstaka byggingarframkvæmdir, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna.
    Í 1. gr. eldri byggingarlaga, nr. 54/1978, sagði að lögin tækju til hvers konar bygginga ofan jarðar og neðan og annarra mannvirkja sem áhrif hefðu á útlit umhverfisins. Undanþegin ákvæðum laganna væru þó götur og vegir, framræsluskurðir, girðingar á lögbýlum, flugbrautir, holræsi og dreifikerfi rafmagns, síma, hitaveitna og vatns, svo og hafnarmannvirki og virkjunarmannvirki að undanskildum húsbyggingum tilheyrandi þessum mannvirkjum. Mannvirki sem undanþegin væru ákvæðum laganna skyldu byggð í samræmi við ákvæði skipulagslaga og laga um náttúruvernd, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Skv. 1. mgr. 9. gr. laganna var óheimilt að grafa grunn, reisa hús, rífa hús eða breyta því eða notkun þess eða gera önnur þau mannvirki sem áhrif hefðu á útlit umhverfisins nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarnefndar. Skyldu framkvæmdir vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deildarskipulag, sbr. 1. mgr. 4. gr. þágildandi skipulagslaga, nr. 19/1964, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 54/1978.
    Hinn 14. nóvember 1990 ritaði Landsvirkjun bréf til hreppsnefndar Fljótsdalshrepps og fór þess á leit í samráði við Skipulag ríksins að hreppsnefndin leyfði byggingu Fljótsdalsvirkjunar í samræmi við 2. mgr. 5. gr. skipulagslaga, nr. 19 21. maí 1964, með áorðnum breytingum. Sveitarstjórn Fljótsdalshrepps svaraði með bréfi, dags. 20. nóvember 1990, á þá leið að ákveðið hefði verið að fresta því að taka afstöðu til þessarar beiðni og vinna að því að útvega gögn og upplýsingar um rétt og stöðu hreppsnefndar í samningsmálum. 23. nóvember 1990 ritaði Landsvirkjun að nýju bréf til hreppsnefndar Fljótsdalshrepps og óskaði eftir að fá að ráðast í gerð aðkomuganga fyrir Fljótsdalsvirkjun. Hreppurinn heimilaði gerð aðkomuganga með bréfi, dags. 30. nóvember 1990. 17. desember 1990 ritaði Skipulag ríkisins Fljótsdalshreppi bréf þar sem tilkynnt er að skipulagsstjórn hafi samþykkt að mæla með leyfisveitingunni. Með bréfi, dags. 13. maí 1992, óskaði Landsvirkjun enn á ný eftir leyfi fyrir Fljótsdalsvirkjun á grundvelli 2. mgr. 5. gr. þágildandi skipulagslaga. Með bréfi, dags. 24. júní 1992, svaraði hreppsnefndin bréfi Landsvirkjunar á þá leið að ekki hafi verið tekin endanleg afstaða til málsins og telji sveitarstjórnin æskilegt að aðilar fundi um þessi mál og önnur sem sveitarstjórnin hefði áhuga á að ræða. Samkvæmt þessu liggur ekki fyrir formlegt samþykki Fljótsdalshrepps fyrir frekari framkvæmdum við Fljótsdalsvirkjun en áður greindum aðkomugöngum.
    Með skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, voru felld úr gildi eldri skipulagslög, nr. 19/1964, og byggingarlög, nr. 54/1978. Skv. 9. gr. laganna er landið allt skipulagsskylt. Skal bygging húsa og annarra mannvirkja ofan jarðar og neðan, svo og aðrar framkvæmdir og aðgerðir sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess vera í samræmi við skipulagsáætlanir. Í 2. gr. laganna er skipulagsáætlun skilgreind sem áætlun þar sem gerð er grein fyrir markmiðum viðkomandi stjórnvalda og ákvörðunum um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar og lýst forsendum þeirra ákvarðana. Skipulagsáætlanir skiptast samkvæmt ákvæðum laganna í þrjá flokka: Svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag. Svæðisskipulag er skipulagsáætlun sem tekur yfir fleiri en eitt sveitarfélag og er ætlað að samræma stefnu í landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi, umhverfismálum og þróun byggðar á minnst 12 ára tímabili. Aðalskipulag er skipulagsáætlun fyrir tiltekið sveitarfélag þar sem stefna sveitarfélagsins í fyrrgreindum þáttum kemur fram. Deiliskipulag er skipulagsáætlun fyrir afmarkaða reiti innan sveitarfélags sem byggð er á aðalskipulagi og kveður nánar á um útfærslu þess. Gilda ákvæði um deiliskipulag jafnt um þéttbýli og dreifbýli.
    Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 er óheimilt að grafa grunn, reisa hús, breyta því eða burðarkerfi þess, formi eða svipmóti eða gera önnur þau mannvirki sem falla undir IV. kafla laganna nema að fengnu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar. Skulu framkvæmdir vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag, sbr. 2. mgr. 43. gr. laganna. Í 2. mgr. 36. gr. laganna, sbr. 5. gr. laga nr. 135/1997, er kveðið á um undanþágu frá ákvæðum um byggingarleyfi. Undanþegin byggingarleyfi eru götur, holræsi, vegir og brýr, aðrar en göngubrýr í þéttbýli, jarðgöng, flugbrautir og dreifi- og flutningskerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta, svo og hafnir og virkjanir, enda séu þær gerðar á vegum opinberra aðila eða unnar samkvæmt sérlögum. Þó þarf byggingarleyfi fyrir varanlegum húsbyggingum í tengslum við þessar framkvæmdir. Mannvirki sem undanþegin eru byggingarleyfi skulu gerð í samræmi við skipulagsákvæði skv. III. kafla laganna, sbr. 3. mgr. 36. gr.
    Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laganna, sbr. 4. gr. laga nr. 135/1997, skulu meiri háttar framkvæmdir sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breyting lands með jarðvegi eða efnistöku, vera í samræmi við skipulagsáætlanir og úrskurð um mat á umhverfisáhrifum þar sem það á við. Er óheimilt að hefja slíkar framkvæmdir sem ekki eru háðar byggingarleyfi fyrr en að fengnu framkvæmdaleyfi viðkomandi sveitarstjórnar.
    Skilja verður orðið virkjanir í 36. gr. skipulags- og byggingarlaga svo að átt sé við virkjunarframkvæmd í heild sinni, þ.e. stöðvarhús, göng og lón. Eru þau mannvirki óaðskiljanlegur hluti virkjunar og því ekki háð byggingarleyfi. Með húsbyggingum í tengslum við virkjanaframkvæmdir er hins vegar átt við íbúðarhús, mötuneyti, verkstæði og fleira sem er ekki nauðsynlega tengt virkjunarframkvæmdinni sem slíkri og þyrfti byggingarleyfi sveitarstjórnar fyrir þeim.
    Samkvæmt 2. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í skipulags- og byggingarlögum skulu öll sveitarfélög hafa gert aðalskipulag að liðnum tíu árum frá gildistöku laganna, sem var 1. janúar 1998, sbr. 62. gr. Í 3. tölul. ákvæðis til bráðabirgða segir að sveitarstjórn geti án þess að fyrir liggi staðfest aðalskipulag eða samþykkt deiliskipulag og að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar leyft einstakar framkvæmdir sem um kann að vera sótt. Unnt er að binda slíkt leyfi tilteknum skilyrðum. Er þetta sambærilegt ákvæði við það sem áður var í 2. mgr. 5. gr. eldri skipulagslaga.
    Fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir eru að mestu leyti innan Fljótsdalshrepps en að nokkru innan Jökuldalshrepps miðað við upplýsingar sem nýlega hafa komið fram um mörk milli hreppanna. Hrepparnir eru að hluta til á miðhálendinu og hluti hinna fyrirhuguðu virkjunarframkvæmda. 10. maí 1999 var birt í B-deild Stjórnartíðinda auglýsing nr. 355, um staðfestingu umhverfisráðherra á svæðisskipulagi miðhálendis Íslands 2015. Í auglýsingunni segir að með vísan til 13. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, sbr. lög nr. 135/1997, staðfesti ráðuneytið svæðisskipulag miðhálendis Íslands 2015. Síðan segir að samvinnunefnd um svæðiskipulag á miðhálendi Íslands, sbr. bráðabirgðaákvæði skv. 1. gr. laga nr. 73/1993 og 13. gr. laga nr. 135/1997, hafi samþykkt tillöguna 23. nóvember 1998 til afgreiðslu Skipulagsstofnunar sem með greinargerð ásamt viðaukum, dags. 9. apríl 1999, mæli með staðfestingu skipulagsáætlunarinnar. Mörk svæðisskipulags miðhálendis Íslands 2015 sé lína sem mótuð hafi verið við gerð svæðisskipulagstillögunnar, sbr. 2. gr. laga nr. 58/1999, um breytingu á skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, sbr. lög nr. 135/1997, og sé sýnd á skipulagsuppdrætti í mælikvarða 1:350.000, sbr. einnig fylgiskjal með auglýsingunni. Þá segir í auglýsingunni: „Afmörkun svæða á skipulagsuppdrætti og umfjöllun í skipulagsgreinargerð svæðisskipulags miðhálendis Íslands 2015 felur í sér eftirfarandi varðandi landnotkun, samgöngur, veitur og takmarkanir á landnotkun: … Fyrirhuguð orkuvinnslusvæði: Afmörkun allra fyrirhugaðra orkuvinnslusvæða vatnsaflsvirkjana sem samræmast stefnumörkun skipulagsins.“
    Á framangreindum skipulagsuppdrætti fyrir svæðisskipulag miðhálendisins er dregin markalína milli miðhálendis og sveitarfélaga. Samkvæmt uppdrættinum er fyrirhugað Eyjabakkalón á því svæði sem tilheyrir miðhálendinu. Samkvæmt þessu er gert ráð fyrir lóninu á staðfestu svæðisskipulagi. Í greinargerð með svæðisskipulagstillögunni (bls. 131) segir að Fljótsdalsvirkjun sé heimiluð með lögum 1981 og leyfi ráðherra hafi verið veitt fyrir 1. maí 1994. Virkjunin sé því einungis matsskyld ef um breytingar sé að ræða frá upphaflegum áætlunum.
    Unnið er að gerð svæðisskipulags fyrir Héraðssvæði sem tekur til Norður-Héraðs, Fellahrepps, Fljóstsdalshrepps, Austur-Héraðs og Borgarfjarðar eystra. Hvorki er til aðalskipulag Fljótsdalshrepps eða Jökuldalshrepps né deiliskipulag fyrir svæðið þar sem stöðvarhúsi virkjunarinnar og öðrum mannvirkjum tengdum henni er ætlað að rísa. Skv. 3. tölul. bráðabirgðaákvæðis núgildandi skipulags- og byggingarlaga getur sveitarstjórn að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar veitt leyfi til frekari framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun þótt ekki liggi fyrir staðfest aðalskipulag eða samþykkt deiliskipulag. Er hér eins og áður segir um sömu heimild að ræða og áður var í 2. mgr. 5. gr. eldri skipulagslaga, en með vísan til þess ákvæðis sótti Landsvirkjun á sínum tíma um heimild til framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun og á þeim grundvelli veitti sveitarstjórn Fljótsdalshrepps heimild fyrir gerð aðkomuganga virkjunarinnar.

8. Fljótsdalsvirkjun og náttúruverndarlög.
    Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. þágildandi náttúruverndarlaga, nr. 47/1971, hafði Náttúruverndarráð með höndum framkvæmdir í náttúruverndarmálum með þeim hætti sem mælt var fyrir um í lögunum. Í 1. mgr. 29. gr. laganna var kveðið svo á að skylt væri að leita álits Náttúruverndarráðs áður en framkvæmdir hæfust ef fyrirhuguð mannvirkjagerð eða jarðrask ylli hættu á því að landið breytti varanlega um svip, merkum náttúruminjum yrði spillt eða hættu á mengun lofts og lagar. Gat ráðið krafist atbeina lögreglustjóra til að varna því að verk yrði hafið eða því fram haldið, sbr. 2. mgr. 29. gr. Þá var í 3. mgr. 29. gr. mælt fyrir um að virkjanir, verksmiðjur og önnur stór mannvirki skyldu hönnuð í samráði við Náttúruverndarráð, svo og vegalagning til slíkra mannvirkja.
    Í samræmi við ákvæði 29. gr. laga nr. 47/1971 leituðu Rafmagnsveitur ríkisins umsagnar Náttúruverndarráðs um Fljótsdalsvirkjun með bréfi, dags. 24. febrúar 1981. Umsögnin barst með bréfi ráðsins, dags. 31. mars 1981, og lagðist ráðið ekki gegn virkjuninni. Leitað var álits Náttúruverndarráðs að nýju þegar ákveðið var að gerð skyldu aðrennslisgöng í stað skurða sem áður voru fyrirhugaðir. Ráðið taldi í umsögn sinni, dags. 7. febrúar 1991, að þessi breytta verkhönnun mundi draga verulega úr umhverfisáhrifum. Ákvæðum náttúruverndarlaga um aðkomu náttúruverndaryfirvalda að málefnum Fljótsdalsvirkjunar var því að öllu leyti fullnægt áður en leyfi iðnaðarráðherra til Landsvirkjunar var gefið út 24. apríl 1991.
    Með nýjum náttúruverndarlögum, nr. 93/1996, sem komu í stað laga nr. 47/1971, urðu verulegar breytingar á stjórnskipan náttúruverndarmála. Ný ríkisstofnun, Náttúruvernd ríkisins, tók við daglegum rekstri og verkefnum Náttúruverndarráðs en ráðinu var ætlað að vera ráðgefandi fyrir stjórnvöld. Sama skipan er samkvæmt núgildandi náttúruverndarlögum, nr. 44/1999.
    Samkvæmt 35. gr. laga nr. 44/1999 skal þess gætt við hönnun vega, virkjana, verksmiðja og annarra mannvirkja að þau falli sem best að svipmóti lands. Í 34. gr. laganna er ákvæði samhljóða 1. málsl. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 135/1997, þess efnis að meiri háttar framkvæmdir sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breyting lands með jarðvegi og efnistöku, skuli vera í samræmi við skipulagsáætlanir og úrskurð um mat á umhverfisáhrifum þar sem það á við. Skv. 2. mgr. 37. gr. laga nr. 44/1999 skal leita umsagnar Náttúruverndar ríkisins og náttúruverndarnefnda áður en veitt er framkvæmda- eða byggingarleyfi, sbr. 27. og 42. gr. skipulags- og byggingarlaga, til framkvæmda sem hafa í för með sér röskun landslagsgerða sem tilgreindar eru í 1. mgr. 37. gr. Meðal þeirra eru stöðurvötn og tjarnir, 1.000 fermetrar að stærð eða stærri, og mýrar og flóar 3 hektarar að stærð eða stærri, svo og fossar. Eins og kunnugt er mun nokkurt votlendi raskast við fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir auk þess sem fossum verður raskað. Ekki þarf að leita umsagnar ef fyrir liggur aðalskipulag sem samþykkt hefur verið eftir 1. júlí 1999 þar sem umsögn Náttúruverndar ríkisins og náttúruverndarnefnda um skipulagsáætlunina liggur fyrir, sbr. 33. gr. laga nr. 44/1999.
    Eyjabakkar eru á náttúruminjaskrá en eru ekki friðlýstar náttúruminjar. Skv. 2. mgr. 38. gr. náttúruverndarlaga skal leita umsagnar og tilkynna Náttúruvernd ríkisins um framkvæmdir þar sem hætta er á að spillt verði náttúruminjum sem ekki hafa verið friðlýstar.
    Í 10. kafla meðfylgjandi skýrslu Landsvirkjunar um umhverfisáhrif Fljótsdalsvirkjunar (fylgiskjal I) er ítarlega gerð grein fyrir alþjóðasamningum um umhverfismál, m.a. náttúruvernd, og vísast til þeirrar umfjöllunar um þau atriði.

9. Fljótsdalsvirkjun og lög um mat á umhverfisáhrifum.
    Árið 1993 setti Alþingi lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, og var með því meðal annars verið að leiða í lög hér á landi ákvæði tilskipunar Evrópubandalagsins, 85/337/EBE, um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið. Markmið laganna er skv. 1. gr. þeirra að tryggja að áður en tekin er ákvörðun um framkvæmdir sem kunna, vegna staðsetningar, starfsemi sem þeim fylgir, eðlis eða umfangs, að hafa í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum, svo og að tryggja að slíkt mat verði fastur liður í gerð skipulagsáætlana. Í 5. gr. laganna eru taldar upp framkvæmdir sem háðar eru mati á umhverfisáhrifum. Meðal þeirra eru vatnsorkuvirkjanir með uppsett afl 10 MW eða meira og vatnsmiðlanir, þar sem meira en 3 km 2 lands fara undir vatn vegna stíflumannvirkjanna og/eða breytinga á árfarvegi.
    Samkvæmt upphaflegu frumvarpi til laga nr. 63/1993 skyldu lögin öðlast gildi um leið og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið öðlaðist gildi að því er Ísland varðar. Við meðferð frumvarpsins á Alþingi var sú breyting gerð á gildistökuákvæðinu að lögin skyldu þegar öðlast gildi, en jafnframt var bætt inn bráðabirgðaákvæðum. Í bráðabirgðaákvæði II segir:,,Þrátt fyrir ákvæði 17. gr. laga þessara eru framkvæmdir samkvæmt leyfum útgefnum fyrir 1. maí 1994 ekki háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum þessum.“ Segir í nefndaráliti umhverfisnefndar Alþingis, sem skilaði samhljóða áliti og breytingatillögum, að lagt sé til að lögin öðlist þegar gildi, enda þyki þau eiga fullan rétt á sér án tillits til EES-samningsins. Um bráðabirgðaákvæðið sagði að nauðsynlegt væri að gefa hlutaðeigandi aðilum nokkurn aðlögunartíma vegna þeirra breyttu réttarreglna sem lagðar væru til í frumvarpinu. Í ræðu framsögumanns með nefndarálitinu sagði að með gildistöku frumvarpsins, þó að það kæmi ekki til framkvæmda strax, væri hægt að vinna að undirbúningi málsins og semja reglugerð en „allri óvissu um það hvernig farið verður með leyfi sem útgefin eru fyrir 1. maí 1994 er eytt með þessu ákvæði“.
    Samkvæmt þessu er afdráttarlaust á því byggt í lögum nr. 63/1993 að framkvæmdir samkvæmt virkjunarleyfum útgefnum fyrir 1. maí 1994 séu undanþegar mati á umhverfisáhrifum, þar með talin Fljótsdalsvirkjun, en leyfi til hennar voru í skilningi laganna gefin út fyrir umræddan tíma. Í því sambandi skal þess getið að umhverfisráðuneytið fer með málefni sem tengjast lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993. Hefur umhverfisráðuneytið talið að virkjunarframkvæmdir séu undanþegnar mati á umhverfisáhrifum þegar útgefin leyfi í skilningi bráðabirgðaákvæðis laga um mat á umhverfisáhrifum liggja fyrir, sbr. t.d. bréf ráðuneytisins, dags. 6. september 1996, varðandi Nesjavallavirkjun. Í því tilviki hafði iðnaðarráðherra ekki gefið út virkjunarleyfi en í lögum um raforkuver er iðnaðarráðherra veitt heimild til að gefa út leyfi til virkjunarinnar. Umhverfisráðuneytið taldi að þar sem fyrir hendi væri heimild Alþingis til viðkomandi framkvæmdar væri hún undanþegin mati á umhverfisáhrifum.
    Að því er varðar Fljótsdalsvirkjun sérstaklega hefur umhverfisráðuneytið með bréfi til nefndasviðs Alþingis, dags. 15. júlí 1999, í tilefni af þingsályktunartillögu um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar, sem lögð var fyrir síðasta löggjafarþing, tekið fram að fyrir virkjuninni sé leyfi í skilningi bráðabirgðaákvæðis II í lögum um mat á umhverfisáhrifum. Er niðurstaða ráðuneytisins mjög afgerandi en í bréfinu segir m.a.:
    „…var ríkisstjórninni með lögum nr. 60/1981 heimilað að semja við Landsvirkjun m.a. um að reisa og reka virkjun við Jökulsá í Fljótsdal allt að 330 MW að stærð. Hinn 24. apríl 1991 veitti iðnaðarráðherra Landsvirkjun virkjunarleyfi fyrir Fljótsdalsvirkjun, 210 MW að stærð ásamt aðalorkuveitum.
    Í lögum nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum, kemur fram í ákvæði til bráðabirgða að lögin gildi ekki um framkvæmdir með leyfum útgefnum fyrir 1. maí 1994.
    Með vísun til þess er Fljótsdalsvirkjun, 210 MW að stærð ásamt aðalorkuveitum, ekki matsskyld framkvæmd samkvæmt lögum nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum, þar sem leyfi til hennar var veitt fyrir 1. maí 1994.
    Samkvæmt ofanrituðu er ljóst að ekki verður krafist mats á umhverfisáhrifum vegna Fljótsdalsvirkjunar að óbreyttum lögum nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum.“ (Sjá fylgiskjal IX.)
    Sami skilningur kemur einnig fram í bréfi umhverfisráðuneytisins til iðnaðarráðherra, dags. 5. nóvember 1999, þar sem staðfestur er sá skilningur iðnaðarráðuneytisins að á grundvelli heimildar Alþingis, sbr. lög um raforkuver, nr. 60/1981, og samning ríkisstjórnar Íslands og Landsvirkjunar, dags. 11. ágúst 1982, sbr. og 6. og 7. gr. laga um Landsvirkjun, nr. 42/1983, og leyfi iðnaðarráðherra, dags. 24. apríl 1991, liggi fyrir útgefið leyfi í skilningi nefnds bráðabirgðaákvæðis laga nr. 63/1993. Jafnframt er staðfest að ekki sé skylt að lögum að fram fari mat á umhverfisáhrifum áður en gefið er út leyfi sveitarstjórnar á grundvelli skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997. (Sjá fylgiskjöl X og XI.)
    Segja má að þýðing bráðabirgðaákvæðis II í lögum nr. 63/1993 sé tvíþætt. Í fyrsta lagi felst það í ákvæðinu að framkvæmdir sem hlutu leyfi á tímabilinu frá gildistöku laganna, 21. maí 1993 og fram til 1. maí 1994, eru undanþegnar mati á umhverfisáhrifum.
    Í öðru lagi felst í hinu tilvitnaða bráðabirgðaákvæði laga nr. 63/1993 árétting þeirrar grundvallarreglu íslenskrar stjórnskipunar að lögum verður almennt ekki beitt með afturvirkum hætti, hvorki lögum nr. 63/1993 né öðrum lögum. Hefði þessi og orðið niðurstaðan varðandi lög nr. 63/1993, hvort sem bráðabirgðaákvæðis laganna hefði notið við eða ekki. Alþingi hefði því orðið að setja sérstakt ákvæði sem skyldaði Fljótsdalsvirkjun í mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 63/1993 ef sú hefði verið ætlunin. Í því sambandi er hins vegar rétt að hafa í huga að vafamál er hvort slíkt hefði staðist jafnræðisreglu íslensks stjórnarfars, sbr. nú 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. laga nr. 97/1995.
    Að því er afturvirkni laga varðar skal til frekari áherslu bent á að í 77. gr. stjórnarskrárinnar er nú lagt bann við afturvirkni refsilaga og skattalaga, en ekki er sérstaklega kveðið á um bann við afturvirkni almennra laga. Sú lögskýringarregla er þó almennt talin gilda hér á landi að lögum verður ekki beitt afturvirkt um atvik sem áttu sér stað fyrir gildistöku þeirra. Þó er eðli málsins samkvæmt talið að löggjafinn hafi nokkuð rúmar heimildir til þess að kveða á um afturvirkni laga sem auka réttindi borgaranna eða laga sem eru réttarskýrandi án þess að vera íþyngjandi.
    Heimildir löggjafans til þess að kveða á um afturvirkni íþyngjandi laga eru hins vegar óljósari. Fyrir setningu núverandi 77. gr. stjórnarskrárinnar árið 1995 var talið að afturvirkni skattalaga gæti verið óheimil með vísan til þeirra raka, að óheimilt væri að setja íþyngjandi lagaákvæði með afturvirkum hætti, sbr. Hrd. 1984. 560. Í því máli taldi meiri hluti Hæstaréttar að afturvirk álagning gatnagerðargjalda væri óheimil og fæli í sér brot gegn eignarréttindum þeirra sem fyrir henni urðu. Að því er varðar heimildir löggjafans til þess að kveða á um afturvirkni annarra laga en skattalaga skal bent á Hrd. 1985. 1296. Í því máli taldi meiri hluti Hæstaréttar að óheimilt hefði verið að leggja skyldu á aðila til að greiða verðtryggingu á lífeyrisréttindi fyrrverandi starfsmanna með afturvirkum hætti.
    Úrlausnir dómstóla benda til þess að niðurstaða þeirra um heimildir löggjafans til þess að kveða á um afturvirkni laga ráðist af samanburði á þeim hagsmunum annars vegar sem verið er að tryggja með afturvirkninni og hins vegar því hversu íþyngjandi hið afturvirka lagaákvæði er fyrir þá sem fyrir því verða. Að því er Fljótsdalsvirkjun varðar er ljóst að lagasetning um afturvirk áhrif laganna um mat á umhverfisáhrifum gagnvart þeirri virkjun mundi fela í sér íþyngjandi takmörkun á heimildum til að nýta þegar veitt leyfi. Verður ekki séð að neinar þær breytingar hafi átt sér stað frá setningu laga nr. 63/1993 sem réttlætt geta nú nauðsyn þess að beita ákvæðum laganna með afturvirkum hætti. Þá er og ljóst, eins og áður segir, að lagasetning, sem skyldaði Fljótsdalsvirkjun eina í mat á umhverfisáhrifum, mundi vera í andstöðu við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.
    Af framansögðu er ljóst að í ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 63/1993 fólst árétting á þeirri grundvallarreglu að lögum verður ekki breytt með afturvirkum hætti. Ákvæðið hefur ekki verið fellt úr gildi og verður ekki nema með breytingu á lögunum. Niðurfelling þess hefði og engin áhrif á leyfi sem gefin voru út fyrir 1. maí 1994, enda á engan hátt hægt að líta svo á að framkvæmdir sem leyfðar hefðu verið fyrir þann tíma ættu við niðurfellingu ákvæðisins að sæta mati á umhverfisáhrifum með þeim hætti sem mælt er fyrir í lögunum.
    Mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 63/1993 getur verið tímafrekt ferli. Á það einkum við um umfangsmiklar virkjunarframkvæmdir eins og Fljótsdalsvirkjun, þar sem ekki er mögulegt að stunda rannsóknir ekki nema lítinn hluta ársins vegna staðsetningar og verðurfars. Í ljósi þess sem áður segir er fróðlegt að skoða hver atburðarásin gæti orðið ef málefni Fljótsdalsvirkjunar yrðu sett í allt það formlega ferli sem lög nr. 63/1993 gera ráð fyrir, þar með talið frekara mat:
    Þannig mætti gera ráð fyrir að skipulagsstjóri tæki skýrslu Landsvirkjunar til athugunar í nóvember 1999 og gæti niðurstaða hans þá legið fyrir í janúar 2000. Ef í kjölfarið yrði farið fram á frekara mat sem krefðist viðbótarrannsókna eða gagna sem kölluðu á vettvangsrannsóknir gætu þær að öllum líkindum ekki farið fram fyrr en næsta sumar. Ef unnt yrði að ljúka þeim á einu sumri er líklegt að skýrsla um frekara mat gæti fyrst legið fyrir í nóvember á næsta ári. Skipulagsstjóri gæti þá fyrst úrskurðað síðari hluta janúar 2001. Verulegar líkur eru á að sá úrskurður yrði kærður til umhverfisráðherra og gæti það kæruferli tekið tólf vikur. Endanlegur úrskurður ráðherra gæti því í fyrsta lagi legið fyrir í apríl árið 2001. Ef vinna við gerð útboðsgagna yrði hafin strax að fengnum úrskurði umhverfisráðherra væri unnt að auglýsa útboð haustið 2001. Samningar við verktaka gætu legið fyrir í ársbyrjun 2002 og framkvæmdir hafist þá um sumarið. Unnt yrði að gangsetja virkjunina síðari hluta árs 2005 miðað við fyrrgreindar forsendur, en á það skal minnt, að í yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands, Landsvirkjunar og Hydro Aluminium A/S frá 29. júní 1999 er stefnt að því að starfsemi álvers við Reyðarfjörð geti hafist undir lok ársins 2003.

10. Fljótsdalsvirkjun og tilskipun nr. 85/337/EBE.
    Með tilskipun nr. 85/337 setti Evrópubandalagið reglur um að meta skyldi áhrif sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kynnu að hafa á umhverfið. Aðildarríkjunum var gefinn þriggja ára frestur til að innleiða efni hennar í rétt sinn. Sá frestur rann út 3. júlí 1988 og hvað Ísland varðar með gildistöku EES-samningsins 1. janúar 1994. Reglur tilskipunarinnar voru eins og áður segir teknar upp í íslenskan rétt með áðurgreindum lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 63/1993.
    Í tilskipun 85/337 er að finna leiðbeinandi lágmarksreglur um það hvaða framkvæmdir skulu háðar mati á umhverfisáhrifum og hvernig það mat skuli framkvæmt. Í 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar segir „að aðildarríkin skuli gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja, að leyfi til framkvæmda, sem geta haft í för með sér veruleg áhrif á umhverfið vegna eðlis þeirra, stærðar eða staðsetningar, verði ekki veitt, fyrr en farið hefur fram mat á því, hver áhrifin kunna að verða“.
    Í tilskipuninni er ekki að finna ákvæði sem kveða á um það hvernig farið skuli með framkvæmdir samkvæmt leyfum útgefnum fyrir gildistöku tilskipunarinnar. Um þetta atriði hafa á hinn bóginn gengið nokkrir dómar Evrópudómstólsins og má í stuttu máli segja að dómstóllinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að tilskipunin hafi ekki afturvirk áhrif. Í því felst að hafi formleg beiðni legið fyrir um leyfi vegna tiltekinnar framkvæmdar áður en tilskipunin öðlaðist gildi sé viðkomandi framkvæmd ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar. Áður tilvitnað bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 63/1993 gengur því lengra en niðurstaða Evrópudómstólsins þar sem lögin binda þetta tímamark við útgáfu leyfis eins og áður er rakið. Tilskipunin öðlaðist ekki gildi hér á landi fyrr en 1. janúar 1994 og er því ljóst að leyfi til virkjunar Jökulsár í Fljótsdal voru þá þegar til staðar. Ákvæðum tilskipunarinnar verður því ekki beitt um Fljótsdalsvirkjun, sbr. og það sem áður sagði um afturvirkni laga.
    Síðari breytingar á tilskipuninni, sbr. tilskipun nr. 97/11/EC um breytingar á tilskipun nr. 85/337/EBE um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið, hafa engin áhrif á leyfi til virkjunarinnar að þessu leyti. Skal í því sambandi ítrekað að engar þær breytingar hafa verið gerðar á verkhönnun Fljótsdalsvirkjunar frá því að leyfi iðnaðarráðherra var gefið út sem leiða til þess að þörf sé á útgáfu nýs leyfis eða sérstöku matsferli og á framkvæmdin heldur ekki undir ákvæði tilskipunarinnar af þeirri ástæðu.

11.     Heimildir ráðherra til að afturkalla leyfi.
    Í umræðunni um framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun sem fram hefur farið að undanförnu hefur því sjónarmiði stundum verið hreyft að iðnaðarráðherra sé heimilt að afturkalla áður útgefin leyfi til framkvæmda við virkjunina. Þykir því rétt að fara um það atriði nokkrum orðum í athugasemdum þessum.
    Það er almennt viðurkennd meginregla samkvæmt íslenskum rétti að stjórnvaldi er óheimilt að afturkalla ívilnandi stjórnvaldsákvörðun þegar hún hefur verið tekin og tilkynnt aðilum máls nema fyrir hendi sé skýr lagaheimild til slíkrar afturköllunar. Rök þessarar reglu mega vera öllum ljós því það mundi skapa óþolandi réttaróvissu og glundroða ef stjórnvöld gætu afturkallað fyrri ákvarðanir sínar að eigin geðþótta.
    Að því er Fljótsdalsvirkjun varðar er í fyrsta lagi ljóst að ráðherra skortir með öllu vald til þess að afturkalla þær heimildir til virkjunarinnar sem Alþingi hefur þegar veitt og grein er gerð fyrir hér að framan. Í öðru lagi er til þess að líta að í lögum um virkjunarframkvæmdir er ekki að finna sérstaka heimild ráðherra til að afturkalla leyfi sem hann hefur veitt. Má og benda á að slík afturköllun hefði litla þýðingu því eftir sem áður stæði óhaggað leyfi Alþingis til virkjunarinnar. Í þriðja lagi ber að hafa í huga að í leyfi vegna Fljótsdalsvirkjunar er enginn fyrirvari um heimildir ráðherra til afturköllunar leyfisins. Umhugsunarefni er þá hvort til greina kæmi við afturköllun af hálfu ráðherra að beita ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Í 25. gr. þeirra laga kemur fram að stjórnvald geti að eigin frumkvæði afturkallað ákvörðun sem tilkynnt hefur verið þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila eða ákvörðunin er ógildanleg.
    Ljóst má vera að skilyrði 25. gr. stjórnsýslulaga eru ekki fyrir hendi varðandi leyfið sem iðnaðarráðherra gaf út vegna Fljótsdalsvirkjunar 24. apríl 1991. Slík afturköllun mundi hafa í för með sér verulegt tjón fyrir leyfishafann og ekki eru til staðar nein atriði sem valdið geta ógildingu leyfisins. Af þessum sökum er það ekki á valdi ráðherra að afturkalla einhliða umrætt leyfi vegna Fljótsdalsvirkjunar.
    Eins og áður segir veitti iðnaðarráðherra 24. apríl 1991 Landsvirkjun leyfi fyrir Fljótsdalsvirkjun með 210 MW uppsettu afli ásamt aðalorkuveitum á grundvelli 7. gr. laga um Landsvirkjun, nr. 42/1983. Greinin hljóðar svo:
     Til byggingar nýrra raforkuvera og meginstofnlína þarf Landsvirkjun leyfi ráðherra þess sem fer með orkumál. Áður en byrjað er á nýjum mannvirkjum, hvort heldur eru raforkuver eða meginstofnlínur, skal Landsvirkjun senda ráðherra þeim, sem fer með orkumál, uppdrætti af hinum fyrirhuguðu mannvirkjum, ásamt lýsingu á þeim.
    Getur ráðherra krafist þeirra breytinga á fyrirhugaðri tilhögun mannvirkja sem nauðsynlegar kunna að þykja vegna almenningshagsmuna.
    Af orðalagi ákvæðis 2. mgr. 7. gr. verður ráðið að ráðherra er heimilt að setja skilyrði um breytingar á fyrirhugaðri tilhögun mannvirkja áður en hann veitir leyfið. Þetta ákvæði veitir ráðherra á hinn bóginn ekki heimild til að afturkalla stjórnvaldsákvörðun eða setja henni skilyrði eftir að hún hefur verið tekin og tilkynnt aðila. Þrengir ákvæði þetta því augljóslega rétt ráðherra til íhlutunar.

12. Afturköllun eða breyting Alþingis á virkjunarleyfi.
    Áður hefur verið gerð grein fyrir samningi sem ríkisstjórn Íslands og Landsvirkjun gerðu 11. ágúst 1982 um virkjanamál, yfirtöku byggðalína o.fl. Í 4. gr. samningsins segir að Landsvirkjun taki að sér að greiða kostnað RARIK af undirbúningi og rannsóknum fyrir Blönduvirkjun, Fljótsdalsvirkjun og Villinganesvirkjun til 1. október 1982. Samkvæmt því sem fram kom í fylgiskjali með samningnum var áætlaður kostnaður RARIK 1. október 1982 á verðlagi 1. júlí 1982 107.344.000 kr. Í 5. gr. samningsins segir að Landsvirkjun greiði ríkissjóði hlutdeild í kostnaði af undirbúningi og rannsóknum Orkustofnunar vegna Fljótsdalsvirkjunar þar til í október 1982 og var áætlað að kostnaður við Fljótsdalsvirkjun yrði 48.818.000 kr. Segir í 5. gr. að greiðslur umrædds kostnaðar samkvæmt þeirri grein skuli tengjast útgáfu hlutaðeigandi virkjunarleyfa.
    Samkvæmt upplýsingum Landsvirkjunar greiddi fyrirtækið um 1.550 millj. kr. á núvirði til ríkisins vegna Fljótsdalsvirkjunar á grundvelli 4. og 5. gr. samningsins frá 11. ágúst 1982. Kostnaður Landsvirkjunar við rannsóknir, hönnun, annan undirbúning og framkvæmdir frá þeim tíma að Landsvirkjun tók að sér, með samningi við ríkissjóð á árinu 1982, að reisa og reka virkjunina nemur um 1.650 millj. kr. á núvirði samkvæmt upplýsingum fyrirtækisins. Samtals er því kostnaður Landsvirkjunar vegna Fljótsdalsvirkjunar orðinn um 3.200 millj. kr. á núvirði.
    Að framan er þess getið að framkvæmdarvaldshafa skorti heimildir til þess að breyta eða afturkalla einhliða og í andstöðu við vilja virkjunaraðila þau leyfi sem veitt hafa verið til virkjunar Jökulsár í Fljótsdal. Jafnframt er tekið fram að slíkt verði einungis gert með lögum frá Alþingi. Vafasamt sé að slík lagasetning fái staðist bótalaust gagnvart virkjunaraðilanum. Við mat á því hvort Alþingi geti bótalaust breytt eða afturkallað virkjunarleyfi Landsvirkjunar vegna Fljótsdalsvirkjunar skiptir mestu máli hvort leyfi fyrirtækisins telst eign þess í merkingu eignarréttarákvæðis 72. gr. íslensku stjórnarskrárinnar og skal næst að því vikið.
    Hugtakið eign í íslensku lagamáli hefur ekki fastmótaða merkingu. Yfirleitt er þó talið að hugtakið setji ákveðin takmörk og veiti vissa vísbendingu, þar með talið í skilningi eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar. Það bendir til þess að hagsmunir eða verðmæti þurfi að vera í nánum tengslum við ákveðinn eða ákveðna aðila öðrum fremur og að jafnaði er talið að því skilyrði sé ekki fullnægt nema því aðeins að réttarreglurnar fái viðkomandi aðilum ákveðnar heimildir í hendur og að hann hafi völ einhverra úrræða til verndar rétti sínum. Hugtökin eign og eignarréttur eiga því fyrst og fremst við um réttarstöðu sem fær ákveðnum aðila eða aðilum einkaforræði eða einkaumráð tiltekins verðmætis. Um réttarstöðu er talað vegna þess að rétthafinn getur fylgt eftir heimildum sínum með þvingunum, ef þörf krefur, oftast fyrir atbeina dómstóla eða annarra handhafa opinbers valds.
    Í upphafi var talið að stjórnarskrárvernd eignarréttinda takmarkaðist við líkamlega muni eins og fasteignir og lausafé. Það er hins vegar löngu viðurkennt að með orðinu eign í 72. gr. stjórnarskrárinnar er ekki aðeins átt við líkamlega muni eins og fasteignir og lausafé heldur einnig hvers konar önnur verðmæt réttindi sem til eigna verða talin, eins og afnota- eða nýtingarréttindi, kröfuréttindi, höfundarréttindi, réttindi samkvæmt einkaleyfi og vörumerki o.fl. Þá má einnig geta þess að atvinnuréttindi eru í ýmsum samböndum talin til eignaréttinda. Ýmsar heimildir og ívilnanir sem veittar eru af hálfu hins opinbera geta og talist til eignar í skilningi stjórnarskrárinnar. Má í því sambandi benda á Hrd. 1943, bls. 154. Í þeim dómi var talið að ekki hefði verið heimilt að svipta fyrirtæki skatt- og útsvarsfrelsi sem því hafði verið veitt til ákveðins tíma með sérstökum lögum sem felld voru úr gildi áður en skattfrelsistímabilinu lauk.
    Sá réttur sem felst í virkjunarleyfi telst til afnota- eða nýtingarréttinda í framangreindum skilningi og er hann því eign rétthafans í merkingu 72. gr. stjórnarskrárinnar. Með virkjunarrétti fær virkjunaraðilinn heimildir til þess að reisa og reka virkjun á tilteknu landsvæði. Eru slíkar heimildir almennt ótímabundnar og yfirleitt grundvöllur umfangsmikillar atvinnustarfsemi á viðkomandi svæði. Færir leyfið rétthafanum í hendur flestar heimildir til afnota og nýtingar lands og landsgæða sem almennt felast í eignarrétti. Dæmi um afnota- eða nýtingarréttindi, sem svipar til virkjunarleyfis en hefur þó að jafnaði ekki í sér fólgið jafnmikið fjárverðmæti, er byggingarleyfi en óumdeilt er samkvæmt íslenskum rétti að slíkt leyfi nýtur verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar.
    Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið og að því gættu að Landsvirkjun greiddi með samningi við ríkisstjórn Íslands 1.550 millj. kr. fyrir réttinn til Fljótsdalsvirkjunar er ljóst að það virkjunarleyfi telst eign fyrirtækisins skv. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Af því leiðir að virkjunarleyfið verður hvorki tekið af fyrirtækinu í heild né að hluta nema fullnægt sé áskilnaði 72. gr. stjórnarskrárinnar, þ.e. að almenningsþörf krefji, til komi lagafyrirmæli í þá veru og fullar bætur komi fyrir. Í þessu felst að verði virkjunarleyfið afturkallað eða það takmarkað frá því sem nú er væri um bótaskylda eignarskerðingu að ræða í skilningi 72. gr. stjórnarskrár lýðveldsins.
    Eignarréttarvernd 72. gr. stjórnarskrárinnar er ekki algjör. Þrátt fyrir þetta stjórnarskrárákvæði getur löggjafinn heimilað ýmiss konar takmarkanir á eignarrétti og eignarskerðingu sem ekki verða taldar eignarnám og án þess að til nokkurra bóta komi. Mörkin milli eignarnáms og annars konar takmarkana eða skerðinga á eignarrétti eru ekki alltaf ljós. Þar geta komið til ýmis vafatilvik og þar er einmitt eitt vandasamasta úrlausnarefnið í sambandi við skýringu á 72. gr. stjórnarskrárinnar.
    Þær takmarkanir á eignarrétti sem eigendur verða að þola bótalaust hafa stundum verið nefndar almennar takmarkanir eignarréttinda. Það hugtak veitir nokkra vísbendingu um hvaða eignarskerðingu megi ótvírætt framkvæma án þess að nokkrar fébætur komi fyrir tjón sem af henni leiðir. Eignarskerðing sem leiðir beint af lögum, kemur niður á mörgum eignum eða eigendum og hefur ekki í för með sér verulegt tjón á fjárhagslegum hagsmunum verður tvímælalaust talin til almennra takmarkana á eignarrétti sem 72. gr. stjórnarskrárinnar skyldar ekki til að bæta. Á hinn bóginn eru líkur til að um bótaskylda skerðingu sé að ræða þegar eigandi er sviptur verðmætum eignarheimildum sínum og þær fengnar öðrum aðila eða almenningi í hendur í heild eða að hluta. Einnig er fremur um eignarnám að ræða, og þar með bótaskylda skerðingu, þegar eignarskerðing byggist á ákvörðun sem beint er sérstaklega að ákveðinni eign eða eiganda.
    Þegar þetta er virt er ljóst að lagasetning sem afturkallar eða þrengir rétt Landsvirkjunar til virkjunar Jökulsár í Fljótsdal teldist engan veginn almenn takmörkun eignarréttinda. Hið sama gildir um lagasetningu sem skyldar Landsvirkjun til að hlíta niðurstöðum mats á umhverfisáhrifum.

13. Tengsl Fljótsdalsvirkjunar við álver í Reyðarfirði.
    Á grundvelli fyrirliggjandi heimilda og stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar, dags. 28. maí 1999, samþykkti ríkisstjórnin yfirlýsingu sem undirrituð var af fulltrúum iðnaðarráðherra, Landsvirkjunar og Hydro Aluminium A/S. Í yfirlýsingunni er lagður grunnur að vinnu- og tímaáætlun næstu ellefu mánuði og skuldbindingum og fyrirætlunum samstarfsaðila. Markmiðið er að búa svo í haginn með undirbúningsvinnu að taka megi ákvörðun um, hvort ráðist verður í byggingu vatnsorkuvers á Austurlandi og álvers í Reyðarfirði fyrir 1. júní árið 2000. Svo standa megi við yfirlýsinguna þarf að liggja fyrir virkjunarkostur sem unnt væri að hefja framkvæmdir við á næsta ári. Eini raunhæfi kosturinn í þessu sambandi er Fljótsdalsvirkjun. Tafir vegna mats á umhverfisáhrifum yrðu til þess að tefja virkjunarframkvæmdir um a.m.k. eitt ár en af því mundi leiða að rekstur álvers í Reyðarfirði gæti í fyrsta lagi hafist í lok ársins 2004 eða byrjun 2005.
    Skýrsla um mat á umhverfisáhrifum álvers í Reyðarfirði hefur verið lögð fram og er hún dagsett í október 1999. Í skýrslunni er m.a. komist að þeirri niðurstöðu að mengun frá álverinu verði innan viðmiðunarmarka fyrir nálæga byggð og atvinnustarfsemi á svæðinu. Bygging álvers muni hafa í för með sér breytingar á gróðurfari í næsta nágrenni álvers þar sem viðkvæmur gróður muni hörfa fyrir þolnari, en áhrif á dýralíf verði lítil. Einnig kemur fram að bygging álvers muni hafa jákvæð áhrif á atvinnulíf og byggðaþróun á Austurlandi. Um 270 ársverk muni skapast í álverinu þegar í árslok 2003 og áætlað er að svipaður fjöldi starfa verði til í öðrum atvinnu- og þjónustugreinum á Austurlandi. Gert er ráð fyrir að fyrsti áfangi álversins leiði til þess að íbúar verði um 1.500 fleiri en reiknað er með í fyrirliggjandi áætlunum.
    Ljóst er að stórverkefni á borð við byggingu og rekstur álvers í Reyðarfirði hefur víðtæk þjóðfélagsleg áhrif. Í nýlegri rannsókn á þjóðhagslegum áhrifum stóriðju á Íslandi kemur fram að til þessa hafi stóriðjan skilað hreinum arði til þjóðfélagsins, að teknu tilliti til alls kostnaðar, þar með talins fjárfestingarkostnaðar, sem nemur 0,5% af þjóðarframleiðslu á hverju ári síðustu 30 árin og var t.d. 2,5 milljarðar árið 1997. Ávinningur þjóðarinnar af stóriðju er að núvirði um 18% af landsframleiðslu ársins 1997 eða rúmir 92 milljarðar. Með tilkomu fyrsta áfanga álvers í Reyðarfirði mun árlegt útflutningsverðmæti álframleiðslu aukast um 16 milljarða og vægi stóriðju í heildarútflutningi fara úr 16% í 24%.
    Nú er séð fyrir endann á þeim fjárfestingum sem hófust árið 1996 og er hætt við að takturinn í íslenskum þjóðarbúskap breytist frá og með árinu 2000 ef ekki kemur til frekari uppbygging á sviði orkufreks iðnaðar. Þá má búast við minni hagvexti, minni fjárfestingu og auknu atvinnuleysi, nema því aðeins að verkefni sem skila jafnmiklum þjóðhagslegum ávinningi á öðrum sviðum komi til. Ætla má að bygging álvers í Reyðarfirði verði þjóðarbúinu farsæl. Það drægi úr vægi sjávarútvegs í þjóðarbúskapnum, renndi fleiri styrkum stoðum undir útflutningsatvinnuvegina, yki framleiðslugetu þjóðfélagsins, skapaði fjölbreyttara atvinnulíf, flytti inn erlent fjármagn og tækniþekkingu og skapaði hundruð nýrra hálaunastarfa.

14.     Meginniðurstöður í skýrslu Landsvirkjunar.
14.1. Inngangur.
    Í skýrslu Landsvirkjunar kemur fram að undirbúningur og rannsóknir vegna Fljótsdalsvirkjunar hafa staðið yfir í meira en aldarfjórðung þótt ekki hafi verið um samfellda vinnu að ræða. Mikilvægasta breytingin á hönnun virkjunarinnar var gerð á árunum 1989–90 þegar fallið var frá löngum veituskurðum frá miðlunarlóni að stöðvarinntaki og aðrennslisgöng valin sem veituleið. Sú jarðgangatilhögun sem nú er miðað við var boðin út árið 1991. Á grundvelli tilboða sem bárust er kostnaðaráætlun virkjunarinnar öruggari en ella.
    Miðað við aðrar fyrirhugaðar stórar vatnsaflsvirkjanir hér á landi er Fljótsdalsvirkjun afar hagkvæm að því gefnu að orka hennar nýtist að fullu strax í upphafi og hagstætt raforkuverð fáist. Ekki hefur fundist annar raunhæfur möguleiki á vatnsmiðlun fyrir sjálfstæða virkjun í Jökulsá í Fljótsdal en á Eyjabökkum. Eini möguleikinn til að virkja Jökulsá í Fljótsdal án miðlunar á Eyjabökkum er að veita ánni í aðrennslisgöng Kárahnúkavirkjunar eftir að sú virkjun hefur verið reist og nýta miðlun í Hálslóni.
    Í skýrslunni kemur fram að áhrif Fljótsdalsvirkjunar á umhverfi eru fjölmörg og margvísleg. Þegar þessi áhrif veru vegin og metin kemur í ljós að áhrif virkjunarinnar á náttúrufar eru að langmestu leyti fólgin í áhrifum Eyjabakkalóns. Áhrif annarra hluta virkjunarinnar á náttúrufar eru yfirleitt talin vera lítil eða óveruleg.
    Hér á eftir er farið yfir þætti þar sem áhrif eru mikil eða talsverð en lýsingu á þeim þáttum þar sem áhrif eru talin lítil eða óveruleg er yfirleitt sleppt í þessari samantekt og vísast til meginmáls skýrslunnar um þau.

14.2. Eyjabakkasvæði.
Landslag.
    Eyjabakkasvæðið er hluti af landslagsheild sem breytist verulega með tilkomu miðlunarlóns. Það sem einkum gerir þessa landslagsheild tilkomumikla er Snæfell og fjallaklasinn í nágrenni þess, ásamt Vatnajökli í suðri. Eyjabakkalón veldur miklum breytingum á þessari landslagsheild. Þessum breytingum er lýst í máli og myndum í skýrslunni og er vísað til þeirra. Lítið mun sjást til lónsins af vegum og slóðum sem um svæðið liggja. Sjónræn áhrif á hefðbundnar gönguleiðir eru talsverð, t.d. á gönguleið á Snæfell og einnig á fyrsta hluta gönguferðar niður í Lónsöræfi. Gönguferðir um Snæfellssvæðið eru einkum stundaðar frá miðjum júlí fram í miðjan ágúst og á þeim tíma er Eyjabakkalón yfirleitt nálægt hæstu stöðu þannig að ströndin umhverfis lónið verður mjó rönd á flestum stöðum.

Jarðvegur og jarðmyndanir.
    Með tilkomu lónsins myndast strandlína við lónið. Þessi strandlína verður til við rof á þeim jarðefnum sem fyrir eru. Í aurkeilum undir Snæfelli og við sunnanvert lónið er þó ekki búist við miklu öldurofi vegna þess hve land er þar hallalítið og strandefnið grófkornótt. Þar sem land er bratt og fínkornóttur jarðvegur við ströndina má búast við jarðvegsrofi, einkum fyrstu árin.
    Framan við sporð Eyjabakkajökuls er kerfi af jökulgörðum og jökulmyndunum. Þessar jökulminjar munu að mestu fara í kaf við tilkomu lónsins. Eitt af því sem sérstætt hefur verið talið við Eyjabakkasvæðið eru svonefndir Hraukar, en það eru jarðvegsfellingar við Eyjafell sem mynduðust við það að jökullinn vöðlaði upp jarðvegi fyrir framan sporðinn. Hraukarnir munu fara í kaf og eyðileggjast vegna öldurofs.
    Hraukarnir framan við Eyjabakkajökul eru ekki einstæðir, heldur er sambærilega jarðvegsmyndun að finna norðan við Brúarjökul. Þá eru einnig svipuð fyrirbæri á Svalbarða.

Yfirborðsvatn og fossar.
    Miklar breytingar verða á fossum í Jökulsá í Fljótsdal og fossar í Laugará hverfa. Enda þótt fossar í Jökulsá hverfi ekki alveg verða þeir ekki svipur hjá sjón að lokinni virkjun, nema síðla sumars þau ár þegar Eyjabakkalón fyllist og vatn rennur um stífluyfirfall.

Loftslag.
    Aurburður í Jökulsá í Fljótsdal er mestur í júlí og ágúst þegar lónið er að fyllast. Því verður að gera ráð fyrir að aur botnfalli á strandsvæðum sem standa upp úr vatnsborði lóns að sumarlagi þegar það er ekki orðið fullt. Há grunnvatnsstaða að vori, leysingavatn og ölduáhrif lónsins á haustin munu þó draga úr hættu á því að aur safnist í verulegum mæli á strandsvæði lónsins. Ef fínn jökulleir þornar í þurrum og hvössum vindi má búast við að rykmistur myndist við lónið. Við þessar aðstæður er oft mistur í lofti við Snæfell vegna ryks, einkum frá aurum Jökulsár á Fjöllum. Ekki er því gert ráð fyrir að mistursdögum á svæðinu fjölgi frá því sem verið hefur. Reynsla frá Sultartangalóni og Blöndulóni er þó sú að jökulleir safnast ekki í strandsvæði lónanna.
    Fullyrðingar um loftslagsbreytingar vegna lónsins eiga ekki við rök að styðjast. Reynsla frá nátturulegum vötnum, t.d. Leginum, sýnir að lofthiti og vindur ráða mestu um hitastig lónsins en ekki hitastig innstreymis. Reynsla frá öðrum uppistöðulónum Landsvirkjunar og reynsla erlendis frá styður þessar niðurstöður. Losun gróðurhúsalofttegunda frá Eyjabakkalóni er aðeins brot af þeirri losun sem kemur frá öðrum gerðum orkuvera.

Gróður.
    Allur gróður á Eyjabökkum fer undir vatn. Flóra svæðisins er vel þekkt. Ekki hafa komið í ljós á Eyjabökkum tegundir sem eru í útrýmingarhættu, eða á válista, enda umhverfisskilyrði þannig að þar þrífast helst plöntur sem hafa mikið þolsvið gagnvart umhverfinu. Ekki að sjá að á Eyjabökkum sé að finna staði sem eru einstakir í sinni röð að því er viðkemur gerð gróðurfélaganna heldur eiga þau sér hliðstæður víða á hálendinu. Náttúrulegt gróðurfélag, sem hefur lagað sig að ákveðnum aðstæðum, er ávallt einhvers virði þótt það búi ekki yfir einstökum sérkennum. Þá er það einnig talið merkilegt við svæðið að gróðurlendið þar er hluti af gróðurlendi sem nær nánast óslitið frá sjó og inn að Eyjabakkajökli eða um 140 km leið. Strandrof getur valdið skemmdum á gróðri sem næst er lóninu, bæði með ölduágangi og vindrofi. Engar stórar gróðurvinjar eru þó í hættu vegna þessa.

Dýralíf.
    Þrátt fyrir að rannsóknir á dýralífi við Eyjabakka hafi nú staðið yfir í hartnær 30 ár liggja ekki fyrir svör um það hvaða áhrif myndun lóns á Eyjabökkum muni hafa á dýralíf. Það eru einkum þrjár dýrategundir sem Eyjabakkalón hefur áhrif á. Þær eru hreindýr, álftir og heiðagæsir.
    Samkvæmt rannsóknum nýtir hluti hreindýrastofnsins Eyjabakka til beitar, einkum í ágúst, og sjást á þeim tíma stundum stórir hópar hreindýra þar. Aðalástæðan fyrir því að dýrin leita á þetta svæði síðsumars virðist vera sú að þarna er snjóþungt fram eftir sumri og gróður tekur því seinna við sér og er næringarríkari á þessum tíma en t.d. á Vesturöræfum. Ljóst er að myndun lónsins mun auka beitarálag á öðrum svæðum, en talið er að tilkoma lónsins muni lítið breyta lífsskilyrðum hreindýrastofnins.
    Um 20 álftapör verpa í lónstæðinu. Þetta er innan við 1% af íslenska álftastofninum. Ólíklegt verður að teljast að þetta hafi afdrifaríkar afleiðingar fyrir stofninn.
    Áhrif fyrirhugaðs Eyjabakkalóns á dvöl geldra heiðagæsa á Eyjabökkum hafa verið mikið til umræðu og vakið mikla athygli. Geldgæsir nýta Eyjabakka til þess að fella flugfjaðrir um mitt sumar. Þær eru þá ófleygar um 3–4 vikna skeið. Eyjabakkar eru nú stærsti fjaðrafellistaður heiðagæsa. Þar fella fjaðrir um 7–10% geldgæsa í stofninum. Fyrst varð vart við heiðagæs í fjaðrafelli á Eyjabökkum árið 1979 og voru þá taldir um 1.300 fuglar á svæðinu. Síðan þá hefur fuglum í fjarðrafelli fjölgað á Eyjabökkum og urðu þeir flestir 1991 eða um 13.000. Þeim fækkaði strax árið eftir og eru þeir nú um 8.000.
    Fáar heiðagæsir verpa á Eyjabakkasvæðinu. Heiðagæsastofninn virðist vera í örum vexti, enda þótt heiðagæsum í Þjórsárverum, þar sem er stærsta heiðagæsavarp í heiminum, hafi fækkað. Fram til ársins 1985 virðast Eyjabakkar hafa gegnt mun minna hlutverki fyrir heiðagæsastofninn en nú. Nýir staðir sem hugsanlegir eru sem fellistaðir fyrir heiðagæs hafa einnig myndast, eins og í nágrenni Blöndulóns. Þá er rétt að benda á það til samanburðar að skotnar eru um 30–40 þúsund heiðagæsir á ári þannig að það eru ekki eingöngu virkjanir sem geta haft áhrif á viðkomu heiðagæsastofnsins.

14.3. Sauðárveita.
    Sauðárveita hefur talsverð áhrif á yfirborðsvatn og fossa. Vatnsmagn í Kelduá í Suðurdal minnkar um sem næst fjórðung og ásýnd fossa breytist. Sauðárveita er talin geta haft góð áhrif á vatnalíf í Kelduá vegna þess að jökulgrugg í ánni nánast hverfur.

14.4. Virkjun í heild.
Ferðamennska.
    Vegagerð vegna virkjunarinnar hefur þegar skilað sér í auknum fjölda ferðamanna á svæðinu við Snæfell. Í skýrslunni eru leidd rök að því að bygging Fljótsdalsvirkjunar muni ekki leiða til samdráttar í ferðamennsku, hvorki á landinu í heild né á virkjunarsvæðinu heldur benda flest rök til þess að bætt aðgengi geti hleypt nýju blóði í ferðamennsku á svæðinu. Ekki er talið að breytt ásýnd lands á Eyjabakkasvæði muni skipta þar sköpum ef marka má reynslu Norðmanna. Talið er að virkjunin geti dregið úr fjölda ferðamanna sem vilja lágmarksþjónustu og sækja í einveru og kyrrð hálendisins. Benda má á að um 90% íslenskra ferðamanna á Þjórsár-Tungnaársvæði töldu í skoðanakönnun 1996 að uppistöðulón hefðu jákvæð eða engin áhrif á upplifun þeirra á náttúru svæðisins.

Friðlýst svæði og svæði á náttúruminjaskrá.
    Eyjabakkalón hefur áhrif á svæði nr. 616 á náttúruminjaskrá, Eyjabakka í Fljótsdalshreppi. Svæðið afmarkast að vestan af 700 m hæðarlínu í Snæfellshálsi frá Eyjabakkajökli norður á móts við Eyjabakkafoss, þaðan í suðvesturenda Folavatns og áfram um Háöldu að mörkum friðlands í Lónsöræfum. Óskir um friðun svæðisins stangast á við heimildarlög um Fljótsdalsvirkjun.

Atvinnusköpun og byggðaþróun.
    Bygging virkjunarinnar er meginforsenda þess að unnt sé að sjá fyrirhuguðu álveri á Reyðarfirði fyrir nægri orku eigi það að taka til starfa árið 2003. Því má segja að áhrif virkjunar séu samofin þeim efnahagslegu áhrifum sem verða af byggingu og rekstri álvers með tilheyrandi eflingu byggðar og atvinnulífs á Austurlandi. Þessara áhrifa mun gæta um allt land. Reynsla Norðmanna sýnir að áhrif virkjana og stóriðju í tiltölulega einangruðum dreifbýlishéruðum styrkja þessi sveitarfélög og draga úr brottflutningi fólks af viðkomandi svæði. Önnur augljós áhrif á byggingartíma eru efling verktakastarfsemi, hærra þjónustustig á svæðinu og aukin almenn atvinna. Á byggingartíma munu mest starfa rúmlega 500 starfsmenn og við rekstur virkjunarinnar er gert ráð fyrir 15–20 heilsársstörfum. Þessir starfsmenn munu væntanlega búa í nálægum þéttbýlisstöðum.

Mótvægisaðgerðir.
    Í skýrslunni er fjallað um hugsanlegar mótvægisaðgerðir gegn þeim áhrifum sem virkjunin mun hafa á náttúrufar svæðisins, eftir því sem við á. Veigamestu mótvægisaðgerðirnar verða vegna gróðureyðingar á Eyjabökkum. Er lagt til að átak verði gert í uppgræðslu og ræktun annarra svæða, þó ekki nauðsynlega í næsta nágrenni virkjunarsvæðisins heldur þar sem slík uppgræðsla er talin skila mestum árangri. Verður það gert í samvinnu við Landgræðslu ríkisins, Skógrækt ríkisins, Náttúruvernd ríkisins og sveitarstjórn Fljótsdalshrepps og ef til vill fleiri aðila.

15.     Aðrir virkjunar- og stóriðjukostir.
    Að beiðni iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins hefur Orkustofnun samið greinargerð um hugsanlega kosti til að afla orku fyrir fyrsta áfanga ráðgerðs álvers í Reyðarfirði sem taki til starfa í árslok 2003. Greinargerðin er birt sem fylgiskjal II með þessari tillögu.
    Í upphafi greinargerðar sinnar reifar Orkustofnun raforkuþarfir umrædds álvers, en það er talið þurfa um 1.700 GWh/a af raforku. Þá er farið yfir raforkuspá að öðru leyti þar sem m.a. er tekið tillit til skuldbindinga um aukna raforku til núverandi stóriðjuvera. Jafnframt er gerð grein fyrir orkuöflun til að mæta þessum þörfum allt fram til ársins 2005.
    Þá gerir stofnunin grein fyrir stöðu undirbúnings á frekari virkjunum, jafnt vatnsafls- sem jarðgufuvirkjunum. Þar kemur fram að tiltækir séu aðrir virkjunarkostir en Fljótsdalsvirkjun, sem gætu gefið um 1.500 GWh/a af raforku fyrir árslok 2003. Þar af kæmu þó aðeins um 600 GWh/a frá virkjunum á Norður- og Austurlandi.
    Af þessu dregur stofnunin þá meginniðurstöðu „að aðeins með því að reisa Fljótsdalsvirkjun [sé] nú unnt að tryggja 120 þúsund tonna álveri í Reyðarfirði orku fyrir árslok 2003. Er þá miðað við að orkuverð frá öðrum virkjunarkostum verði að vera álíka og frá Fljótsdalsvirkjun og að staðfesta verði fyrir mitt ár 2000 væntanlega orkuafhendingu.“ En í yfirlýsingu Hydro Aluminium A/S, Landsvirkjunar og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins frá 29. júní sl. er einmitt gert ráð fyrir að ákvörðun um það hvort álverið verður reist verði tekin fyrir 1. júní nk.
    Ályktun Orkustofnunar er síðan rökstudd í einstökum atriðum. Tekur stofnunin þá bæði til umfjöllunar orkukosti í nálægð við Reyðarfjörð, þ.e. á Norðaustur- og Austurlandi, sem og möguleika á öflun orku annars staðar og á flutningi þeirrar orku til Reyðarfjarðar. Að mati stofnunarinnar er meginástæða þess að þeir kostir koma ekki til álita sú að tími sé of naumur til ákvarðanatöku, undirbúnings og framkvæmda. En fleira kemur til, einkum að kostnaður við aðra kosti verði of mikill, t.d. ef flytja þarf raforkuna um langan veg.
    Að auki er í greinargerð Orkustofnunar ítarleg umfjöllun um aðdraganda Fljótsdalsvirkjunar. Áform um virkjunina frá þeim tíma að lagaheimild var veitt fyrir henni 1981 eru borin saman við núverandi áform. Kemur þar glöggt fram að tilhögun virkjunarinnar hefur tekið margvíslegum breytingum sem allar eru til bóta með tilliti til náttúru- og umhverfisverndar.
    Að beiðni ráðuneytisins fjallar Orkustofnun enn fremur um það „hvort unnt sé að breyta hönnun Fljótsdalsvirkjunar frekar til að draga enn meir úr umhverfisáhrifum virkjunarinnar, einkum áhrifum fyrirhugaðrar miðlunar á Eyjabökkum“ eins og sagði í erindi ráðuneytisins til stofnunarinnar. Er þá fyrst fjallað um stærð Eyjabakkalóns og fengin sú niðurstaða að ekki sé unnt að minnka flatarmál þess án þess að gera það næsta gagnslaust til miðlunar. Nýtt miðlunarlón neðar í Jökulsá í Fljótsdal er heldur ekki talið koma til álita sakir verulega aukins kostnaðar. Á hinn bóginn bendir stofnunin á að afla mætti umtalsvert meiri orku með því að hækka Eyjabakkastíflu nokkuð án þess að flatarmál lónsins ykist að ráði.

16. Þjóðhagsleg áhrif virkjunar- og stóriðjuframkvæmda.
    Í upphafi þessa áratugar var talið að heppilegast væri að reisa álverksmiðju á Suðvesturlandi og kom þar margt til. Í fyrsta lagi væri ódýrara að afla orku þar. Í öðru lagi væri umhverfisröskun við byggingu og rekstur álvers þar talin minni en á öðrum svæðum. Í þriðja lagi væri rekstrarkostnaður álvers á því svæði talinn lægri. Þetta hefur breyst. Orka frá Blönduvirkjun hefur verið seld og búið er að reisa þær virkjanir og gera þær orkuöflunarframkvæmdir sem áformaðar voru vegna álvers á Keilisnesi, samkvæmt bráðabirgðaákvæði sem sett var í lög um raforkuver, að Fljótsdalsvirkjun undanskilinni. Ef reisa ætti álver á suðvesturhorni landsins á næstu árum þyrfti því að ráðast í miklar framkvæmdir við raforkukerfi landsins með byggingu hálendislínu sem gerir orkuöflunina óhagstæða. Þá er líklegt að mikil andstaða yrði við gerð slíkrar línu vegna sjónmengunar.
    Þessi breyttu skilyrði og viðhorf hafa því skapað nýja möguleika á að tengja stóriðjuverkefni aðgerðum til að styrkja byggð utan suðvesturhorns landsins. Bygging álvers í Reyðarfirði mun styrkja byggð á Austurlandi, auka fjölbreytni atvinnulífsins og draga úr mikilvægi sjávarútvegsins. Atvinnutækifærum ungs og vel menntaðs fólks sem kýs að búa á atvinnusvæði væntanlegs álvers mun fjölga. Það mun leiða til eflingar á annarri starfsemi á svæðinu samfara því sem byggðirnar verða betur í stakk búnar til að mæta auknum kröfum um hagræðingu í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja.
    Þjóðhagsstofnun hefur metið þjóðhagsleg áhrif 120 þúsund tonna álvers í Reyðarfirði sem tæki til starfa árið 2003. Matið miðast við að virkjunarframkvæmdir hefjist á næsta ári og bygging álversins árið 2001. Heildarfjárfesting næmi rúmlega 60 milljörðum króna. Fjárfesting yrði að meðaltali rúmlega 15% meiri á tímabilinu 2000–2003 en ef ekki kæmi til byggingar álversins. Varanleg hækkun landsframleiðslu yrði um 1,4% og varanleg hækkun þjóðarframleiðslu um 1,2%. Einnig hafa verið könnuð staðbundin áhrif álversins. Um 270 framtíðarstörf yrðu í verksmiðjunni. Miðað við fyrri reynslu er reiknað með því að störfum á atvinnusvæði álversins fjölgi um annað eins fyrir óbein áhrif af starfsemi þess. Miðað við áætlaða umframeftirspurn eftir vinnuafli sem starfsemin mundi skapa má ætla að aðfluttir umfram brottflutta á atvinnusvæðinu yrðu um 640 manns.
    Þá hefur Þjóðhagsstofnun metið þjóðhagsleg áhrif 360 þúsund tonna álvers í Reyðarfirði sem byggt yrði í tveimur áföngum. Gert er ráð fyrir að fyrri áfanginn yrði 120 þúsund tonn og tæki til starfa árið 2003 og að hinn síðari yrði 240 þúsund tonn og tæki til starfa árið 2008. Heildarfjárfesting í álverinu og nauðsynlegum orkumannvirkjum yrði alls um 180 milljarðar króna á tímabilinu 2000–2008. Varanleg hækkun landsframleiðslu yrði um 4% og varanleg hækkun þjóðarframleiðslu um 3%. Í verksmiðjunni yrðu um 570 störf. Aðflutningur fólks sem stækkun álversins úr 120 þúsund tonnum í 360 þúsund tonn hefði í för með sér yrði svipaður eða heldur minni en við fyrsta áfanga.

17. Helstu niðurstöður í skýrslu Nýsis um athugun á samfélagslegum áhrifum álvers í Reyðarfirði.
    Við rekstur 120 þúsund tonna álvers munu starfa um 240 manns auk þess sem afleysingastörf munu nema um 30 ársverkum. Talið er að vegna margfeldisáhrifa geti skapast allt að 200–250 störf til viðbótar á svæðinu. Talið er að þeir sem nú búa á Mið-Austurlandi, auk þess unga fólks sem kemur á vinnumarkaðinn þar á næstu árum, muni geta mannað um 2/ 3 hluta þessara starfa. Miðað við svipaða fjölskyldustærð og atvinnuþátttöku og nú er þar má áætla að þessi 450–500 nýju störf muni framfleyta a.m.k. 900–1.000 manns.
    Miðað við 480 þúsund tonna framleiðslu má gera ráð fyrir að störfum í heild fjölgi um 1.250–1.350 og um allt að 2.500 manns á Mið-Austurlandi á u.þ.b. 15 árum. Í þeirri áætlun er ekki reiknað með ýmsum óhjákvæmilegum þjóðfélagsbreytingum og tækniþróun á næstu 15 árum sem hafa munu áhrif á störf, laun, fjölskyldugerð og viðskipti, auk þess samdráttar sem óhjákvæmilega mun gæta í einhverjum greinum. Af þessum sökum er erfitt að segja nákvæmlega fyrir um heildaráhrif álversins á samfélagið. Ljóst er að starfsemi álvers mun auka umsvif í verslunar- og þjónustustarfsemi og líklegt er að ungt fólk muni sækja í störf í álverinu. Það getur dregið úr því misvægi sem nú er í aldursdreifingu íbúanna.
    Margir á Austurlandi uppfylla hæfniskröfur sem gerðar eru til starfsmanna í álveri. Flest bendir til að áhrif af uppbyggingu og rekstri álvers verði jákvæð jafnt fyrir framþróun í atvinnulífi og í samfélaginu almennt. Ný þjónustufyrirtæki verði stofnuð og framtíðarmöguleikar starfandi fyrirtækja birtist á jákvæðan og neikvæðan hátt. Hugsanlegt er að þensluáhrif álvers birtist í skorti á vinnuafli í öðrum fyrirtækjum og að þau geti tímabundið misst starfsfólk til álversins. Hins vegar telja flestir atvinnurekendur á svæðinu að þetta muni virka jákvætt þegar til lengri tíma er litið og aðgangur að þjónustu verði auðveldari. Talið er að rekstur álvers muni hafa lítil áhrif á sjávarútveg, útgerð muni halda áfram óbreytt en tímabundið gætu fiskvinnslufyrirtæki misst vinnuafl til álvers. Þegar fram í sækir er búist við að aukinn fólksfjöldi og efling þjónustu muni koma útgerðarfyrirtækjum vel. Álver mun því keppa um vinnuafl við önnur fyrirtæki en jafnframt skapast grundvöllur fyrir ýmsa atvinnustarfsemi. Talið er að fólk í sérfræðistörfum sé frekar en ófaglært fólk tilbúið til að flytja lengri vegalengdir . Áhrif af álveri muni m.a. verða þau að sérfræðingar flytjist til svæðisins, m.a. af höfuðborgarsvæðinu. Eins má reikna með að álver virki hvetjandi á ungt fólk á Austfjörðum til að afla sér menntunar sem störf í álveri krefjast. Tilkoma álvers muni því hækka menntunarstig á svæðinu.
    Rekstur álvers eykur þörf fyrir íbúðarhúsnæði á Mið-Austurlandi. Reiknað er með að byggja þurfi um 200–250 íbúðir í tengslum við fyrsta áfanga en allt að 500 íbúðir ef 1. og 2. áfangi ná fram að ganga. Eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði mun aukast, það getur leitt til hækkunar á fasteignaverði og kallað á endurbætur og viðhald á því húsnæði sem fyrir er. Þetta væri jákvæð þróun þar sem íbúðaverð á Austurlandi hefur verið lágt undanfarið. Fjölgun íbúa kallar á aukna opinbera þjónustu en ekki er talið að fjölgun íbúa muni valda teljandi stofnkostnaði, t.d. í skólakerfinu. Á því sviði eins og ýmsum öðrum mun íbúafjölgun bæta nýtingu fjárfestinga sem fyrir eru. Tilkoma álvers og fjölgun íbúa mun hafa góð áhrif á menningarlíf á Mið-Austurlandi og gera má ráð fyrir að það verði fjölbreyttara en nú er, auk þess sem eftirspurn eftir hvers konar afþreyingu muni aukast.
    Samgöngur til og frá iðnaðarsvæðinu eru góðar. Meiri umferð mun verða samhliða byggingu og rekstri álvers. Almenningssamgöngur eru innan Fjarðabyggðar og tilkoma álvers mun skjóta styrkari stoðum undir þær. Hugsanleg jarðgöng milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar mundu stækka vinnusóknarsvæði álvers og þar með gætti áhrifa þess víðar á Austurlandi. Flugumferð um Egilsstaðaflugvöll mundi aukast á byggingartímanum.

18. Álit Byggðastofnunar á áhrifum álvers á byggðaþróun á Austurlandi.
    Í bréfi Byggðastofnunar til iðnaðarráðuneytisins, dags. 2. nóvember 1999, er lagt mat á það hver áhrif álver í Reyðarfirði muni hafa á atvinnu- og búsetuþróun á Austurlandi. Þar er vísað til skýrslu ráðgjafarþjónustunnar Nýsis hf. og Community Resource Services Ltd. um athugun á samfélagslegum áhrifum álvers í Reyðarfirði (sjá 17. kafla hér að framan). Í bréfinu segir að Byggðastofnun hafi veitt aðstoð við efnisöflun skýrslunnar og sé hún m.a. byggð á þeim gögnum, sem stofnunin lét í té. Þá segir orðrétt:
    „Skýrslan gefur greinargóða lýsingu á samfélagslegum þáttum á Mið-Austurlandi, svo sem íbúa- og atvinnuþróun, húsnæðismálum og þjónustustigi. Þar er einnig að finna könnun á vinnumarkaði svæðisins og menntunarstigi íbúa og hvernig vinnuaflsþörf álvers fellur að þessum atriðum. Mat á fjölda afleiddra starfa er einnig mikilvægur þáttur í greiningu á áhrifum stóriðju á svæðinu. Þá er einnig sett fram mat á samfélagslegum áhrifum sem er m.a. byggt á viðtölum við heimamenn. Einnig er gerð tilraun til að meta áhrif álvers á aðrar atvinnugreinar.
    Byggðastofnun telur að skýrslan gefi raunhæft mat á áhrifum á byggð og atvinnulíf á starfssvæði fyrirhugaðs álvers og hefur engu þar við að bæta. Stofnunin vill jafnframt benda á að nauðsynlegt er að ríkisvaldið hugi vel að framkvæmdum í grunngerð svæðisins, svo sem varðandi framhaldsmenntun, heilbrigðisþjónustu og vegakerfi á svæðinu. Einnig er mikilvægt að sveitarfélög hafi góða möguleika til að sinna þeim þáttum sem að þeim snúa, svo sem varðandi skipulagsmál, lagnakerfi, leik- og grunnskóla og hafnargerð.
    Byggðastofnun telur að nýbreytni verði að koma til í atvinnuuppbyggingu á svæðinu ef stöðva á þann brottflutning sem verið hefur að undanförnu. Þar þarf margt að koma til skoðunar og sú kynning sem fram kemur í gögnum um álver í Reyðarfirði virðist staðfesta að þar er á ferðinni kostur sem ber að gaumgæfa rækilega.“

Fylgiskjöl með þingsályktunartillögu þessari:
     I.      Skýrsla Landsvirkjunar um umhverfisáhrif Fljótsdalsvirkjunar, dags. 5. nóvember 1999. Prentað sérstaklega.
     II.      Greinargerð Orkustofnunar um orkuöflun fyrir álver í Reyðarfirði, dags. 4. nóvember 1999.
     III.      Skýrsla Þjóðhagsstofnunar um þjóðhagsleg áhrif álvers í Reyðarfirði, október 1999.
     IV.      Skýrsla Nýsis hf., dags. í september 1999.
     V.      Samningur ríkisstjórnar Íslands og Landsvirkjunar um virkjanamál, yfirtöku byggðalína o.fl., dags. 11. ágúst 1982.
     VI.      Yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands, Landsvirkjunar og Hydro Aluminium A/S, dags. 29. júní 1999.
     VII.      Umsókn Landsvirkjunar um leyfi iðnaðarráðherra, dags. 19. apríl 1991.
     VIII.      Leyfi iðnaðarráðherra, dags. 24. apríl 1991.
     IX.      Bréf umhverfisráðuneytisins til nefndasviðs Alþingis, dags. 15. júlí 1999.
     X.      Bréf iðnaðarráðuneytisins til umhverfisráðuneytisins, dags. 3. nóvember 1999.
     XI.      Bréf umhverfisráðuneytisins til iðnaðarráðuneytisins, dags. 5. nóvember 1999.








Mynd 1


(Er ekki til tölvutæk.)











Mynd 2


(Er ekki til tölvutæk.)

Fylgiskjal I.


Skýrsla Landsvirkjunar um umhverfisáhrif Fljótsdalsvirkjunar,
dags. 5. nóvember 1999.


Prentað sérstaklega.




Skýrslan er á heimasíðu Landsvirkjunar:

www.lv.is/lv.nsf/pages/lv-fljotsd-umhv.html



Fylgiskjal II.


Orkustofnun:

Greinargerð um orkuöflun fyrir álver í Reyðarfirði.
(4. nóvember 1999.)


1. Inngangur.
    Með bréfi dagsettu 27. október 1999 óskaði iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið eftir því við Orkustofnun að stofnunin tæki saman greinargerð um hugsanlega kosti til að afla orku fyrir fyrsta áfanga ráðgerðs álvers við Reyðarfjörð. Eftirfarandi er texti bréfs ráðuneytisins:
Með vísan til fundar ráðuneytisins með Orkustofnun, dags. 17. september 1999 óskar ráðuneytið eftir greinargerð stofnunarinnar um hvaða virkjunarkostir kunna að koma til greina vegna orkuöflunar fyrir lok árs 2003 og geta nýst vegna 120 þús. tonna álvers á Reyðarfirði. Jafnframt óskar ráðuneytið umfjöllunar um þróun hugmynda um virkjun Jökulsár í Fljótsdal og mat stofnunarinnar á því hvort unnt sé að breyta hönnun Fljótsdalsvirkjunar frekar til að draga enn meir úr umhverfisáhrifum virkjunarinnar, einkum áhrifum fyrirhugaðrar miðlunar á Eyjabökkum.
    Með þessari greinargerð bregst Orkustofnun við erindi ráðuneytisins, en kýs um leið að setja málið í nokkru víðara samhengi en beinlínis er um beðið.
    Ráðagerðir um umrætt álver miðast við að unnt verði að gefa bindandi vilyrði þegar á fyrri helmingi næsta árs, ársins 2000, um afhendingu orkunnar. Kemur þetta fram í yfirlýsingu Hydro Aluminium AS, Landsvirkjunar og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins frá 29. júní 1999, en þar er um það samið að ákvörðun verði tekin fyrir 1. júní 2000 um hvort ráðist skuli í byggingu álversins eða ekki. Þá er ljóst að verð rafmagnsins skiptir sköpum.
    Umfjöllun Orkustofnunar beinist því einkum að leiðum sem uppfyllt geta eftirfarandi þrjú skilyrði:
     *      Orkan tiltæk til afhendingar fyrir árslok 2003.
     *      Skuldbinding á fyrri hluta ársins 2000 um orkuafhendingu.
     *      Orkukostnaður lægri eða ámóta og frá Fljótsdalsvirkjun.
    Athygli skal vakin á því að virkjunarkostir eru nú í endurskoðun í sambandi við þá rammaáætlun um virkjun vatnsafls og jarðvarma sem iðnaðarráðherra — í samráði við umhverfisráðherra — hefur nýlega hrint af stað. Orkustofnun verður einn helsti bakhjarl þessa starfs. Þar verða allir þeir kostir yfirfarnir sem ekki eru þegar í framkvæmd eða með framkvæmdaleyfi. Fljótsdalsvirkjun fellur því ekki undir viðfangsefni rammaáætlunarinnar, en á hinn bóginn flestir ef ekki allir þeir aðrir kostir sem koma við sögu í þessari greinargerð. Sú sýn sem hér verður reifuð varðandi virkjunarmöguleikana kann að taka breytingum eftir því sem starfi að rammaáætluninni vindur fram.
    Enn fremur ber að hafa í huga að fæstir þeir virkjunarkostir sem nefndir eru í þessari greinargerð hafa farið í mat á umhverfisáhrifum lögum samkvæmt. Undirbúningstími virkjana er í þessari greinargerð miðaður við að slíkt mat valdi hvorki umtalsverðum töfum né því að hætt verði við framkvæmdir.

2. Orkuspá og þarfir ráðgerðs orkufreks iðnaðar.

    Áætlað er að raforkunotkun á Íslandi hafi undir árslok 1998 verið komin í rétt ríflega 6.900 GWh/a (gígavattstundir á ári, en 1 GWh jafngildir 1 milljón kílóvattstunda). Raforkuþörfin hafði þá aukist ört á liðnum árum vegna nýrra verkefna í orkufrekum iðnaði: Stækkunar álvers Ísals í Straumsvík og fyrsta áfanga álvers Norðuráls á Grundartanga. Síðla á þessu ári, 1999, hófst rekstur þriðja bræðsluofnsins hjá Íslenska járnblendifélaginu og gefnar hafa verið skuldbindingar um aukna raforkusölu til álvers Norðuráls vegna stækkunar sem svarar til aukinna afkasta sem nema 30 þús. tonnum af áli á ári, en þessi viðbótarsala á að hefjast í apríl 2001. Aukin orkuþörf af þessum sökum svo og almennur vöxtur í raforkuþörfinni kemur fram í 1. töflu og er þá um leið getið þeirra virkjunarframkvæmda sem ætlað er að mæta þörfinni.
    Orkuþörf vegna fyrsta áfanga ráðgerðs álvers í Reyðarfirði nemur við verksmiðjuvegg um 1.700 GWh/a, en afköst þessa áfanga eru áætluð 120 þús. tonna af áli á ári. Í raun verður að reikna orkuþörfina nokkru meiri vegna flutningstaps frá virkjunum að verksmiðju. Á móti kemur að hluti orkunnar getur verið ótrygg orka, en slíkt verður látið liggja á milli hluta í þessari greinargerð.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Fram kemur í 1. töflu annars vegar hvernig raforkubúskapurinn verður án álvers í Reyðarfirði og hins vegar að álveri meðtöldu og þeim virkjunum sem nú eru ráðgerðar í því sambandi, þ.e. Fljótsdalsvirkjun, samkvæmt leyfi iðnaðarráðherra frá 24. apríl 1991, og jarðgufuvirkjun í Bjarnarflagi eða með stækkun í Kröflu. Fyrir Bjarnarflagsvirkjun er heimild í lögum um raforkuver, nr. 60/1981, eftir breytingar á þeim með lögum nr. 48/1999. Hvort sem orka er fengin úr Bjarnarflagi eða frá Kröflu þarf að leggja háspennulínu frá Kröflu til Reyðarfjarðar. Því kemur mjög til álita sá kostur að auka orkugetu Fljótsdalsvirkjunar með enn frekari veitum af Hraunum en felast í fyrirliggjandi hugmynd um virkjunina. Að þessu verður vikið síðar í þessari greinargerð undir umfjöllun um Hraunaveitu.
    Samkvæmt töflunni er séð fyrir orkuþörfinni fram á árið 2004. Því er spáð að orkuþörf hins almenna markaðar vaxi um allt að 60 GWh/a á ári næstu árin á eftir. Enda þótt ekki kæmi til nýs orkufreks iðnaðar þyrfti því mjög bráðlega að huga að frekari orkuöflun fyrir almenna markaðinn. Unnt væri að sjá fyrir þeirri eftirspurnaraukningu með ýmsu móti, svo sem með vatnsorkuverum af minna tagi (6. áfangi Kvíslarveitu, Villinganesvirkjun) eða áföngum í jarðgufuvirkjunum (Krafla, Bjarnarflag, Öxarfjörður, Þeistareykir, Grensdalur, Reykjanes o.s.frv.).

3. Yfirlit yfir virkjunarkosti og meginniðurstaða.
    Í 2. töflu eru taldar upp þær virkjanir sem lengst eru komnar í undirbúningi og mat á því hvenær þær gætu orðið tilbúnar til raforkuframleiðslu. Jarðgufuvirkjunum eru ekki gerð tæmandi skil í þessari töflu, en síðar í þessari greinargerð er fjallað um þær nánar. Virkjunarstaðirnir, svo og aðrir þeir staðir sem koma við sögu í greinargerðinni, eru færðir inn á Íslandskort það sem sést á meðfylgjandi 1. korti.
    Virkjunarkostunum er í töflunni raðað í kostnaðarflokka, þar sem I. flokkur merkir að orkuverð gæti orðið sambærilegt við eða lægra en orkuverð frá Fljótsdalsvirkjun. En þá er aðeins miðað við orkukostnað við stöðvarvegg, en ekki tekið tillit til kostnaðar við flutning á orkunni sem getur verið afar mismikill.
    Orkugeta virkjana í I. flokki, annarra en Fljótdalsvirkjunar, sem gætu hafið framleiðslu fyrir ársbyrjun 2004 er samtals um 1.500 GWh/a. Þar af er orkugeta nýrra virkjana á Norður- og Austurlandi aðeins um 600 GWh/a. Afganginn þyrfti þá að flytja um langan veg með tilheyrandi viðbótarkostnaði, og skortir þó enn nokkuð, eða um 200 GWh/a.
    Á eftirfarandi yfirliti sést að aðeins með því að reisa Fljótsdalsvirkjun er nú unnt að tryggja 120 þúsund tonna álveri á Reyðarfirði orku fyrir árslok 2003. Er þá miðað við að orkuverð frá öðrum virkjunarkostum verði að vera álíka og frá Fljótsdalsvirkjun og að staðfesta verði fyrir mitt ár 2000 væntanlega orkuafhendingu.
    Á árunum 2004–2005 væri hugsanlegt að útvega næga orku, annaðhvort með flutningi verulegs hluta orkunnar frá virkjununum á Suður- og Suðvesturlandi eða með stóraukinni virkjun jarðvarma á Norðausturlandi. Fyrri leiðin kallar annaðhvort á lagningu háspennulína yfir Sprengisand, sem mundi hleypa orkukostnaðinum langt yfir sett mörk, eða línulagnir frá Blöndu og allt til Reyðarfjarðar, sem einnig yrði afar dýrt. Erfitt er á þessari stundu að fullyrða að hin leiðin, nýjar jarðgufuvirkjanir á Norðausturlandi, sé fær. Rannsóknarboranir hafa því miður ekki verið gerðar í þeim mæli að um það geti verið full vissa.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



4. Undirbúningur Fljótsdalsvirkjunar.
    Forsaga.
    Fyrsta hugmynd að virkjun Jökulsár í Fljótsdal var sett fram í skýrslu Sigurðar Thoroddsen verkfræðings til Raforkumálaskrifstofunnar árið 1954. Samkvæmt þeirri hugmynd var ráðgert að veita ánni út Múla (milli Norður- og Suðurdals í Fljótsdal) og virkja niður í Norðurdal í Fljótsdal.
    Í skýrslu frá Orkustofnun 1969 var sett fram Áætlun um forrannsókn á vatnsorku Íslands 1970–1974. Í þeirri skýrslu komu fram hugmyndir um að veita öllum þremur stóru jökulánum norðan Vatnajökuls saman á Fljótsdalsheiði í eina virkjun í Fljótsdal. Undirbúningsrannsóknir samkvæmt fyrrnefndri áætlun hófust 1970 á vegum Orkustofnunar. Meginviðfangsefni rannsóknanna var gerð nákvæmra staðfræðikorta, styrking vatnhæðarmælakerfis í ánum og jarðfræðirannsóknir.
    Árið 1974 hófust undirbúningsrannsóknir á svonefndri Bessastaðaárvirkjun á vegum Rafmagnsveitna ríkisins, en sú virkjun var þá talin vænlegur virkjunarkostur fyrir orkuveitusvæðið á Austurlandi. Þær forsendur breyttust með tengingu orkuveitusvæðisins við aðra hluta landskerfisins.

     Mynsturáætlun.
    Á árunum 1977–1978 voru fyrirliggjandi niðurstöður úr gagnaöflun nýttar til að gera mynsturáætlun um virkjun jökulánna norðan Vatnajökuls. Varðandi Jökulsá í Fljótsdal varð niðurstaðan sú að hana væri heppilegast að virkja í sérvirkjun, annaðhvort með veitu út Fljótsdalsheiði að inntakslóni, sem áður var ráðgert sem aðalmiðlun Bessastaðaárvirkjunar, eða með veitu út á Múla. Árin 1979–1980 voru þessar leiðir bornar saman og varð Fljótsdalsvirkjun með veitu út Fljótsdalsheiði fyrir valinu, eins og síðar greinir.

     Umhverfisrannsóknir.
    Umhverfisrannsóknir voru hafnar 1975, annars vegar á Fljótsdalsheiði á virkjunarsvæði Bessastaðaárvirkjunar á vegum Rafmagnsveitna ríkisins og hins vegar á Eyjabakkasvæði á vegum Orkustofnunar. Ein af forsendum þess að hægt sé að meta áhrif einstakra framkvæmda á náttúrufarslega þætti er að eitthvað sé til samanburðar. Því ákvað Orkustofnun að láta þessar athuganir ná til mun stærra grannsvæðis, og á árunum 1977–1979 var safnað ítarlegum upplýsingum um náttúrufar á Eyjabakkasvæði, Vesturöræfum, Kringilsárrana og á svæði sem kennt er við Sauðafell vestan Jöklu og norðan við Kringilsárrana. Auk þessa höfðu áður verið gerðar athuganir á Fljótsdalsheiði og fyrirhuguð skurðstæði voru skoðuð sérstaklega 1979. Nánari listun þessara athugana er að finna í inngangskafla skýrslu Hjörleifs Guttormssonar o.fl. 1981 sem unnin var fyrir Orkustofnun. Gróðurkort voru gerð af lónstæðum og grannsvæðum við Gilsárvötn að tilhlutan Rafmagnsveitna ríkisins 1976 og af Eyjabakkasvæði 1978 að tilhlutan Orkustofnunar. Þessi kort voru í mælikvarða 1:20.000, mun nákvæmari og á betri kortagrunni en önnur kort sem gerð höfðu verið af hálendinu.
    Um helmingur hreindýrastofnsins dvelur sumarlangt á Vesturöræfum við Jökulsá á Dal (Jöklu) og á Eyjabakkasvæði við Jökulsá í Fljótsdal, einkum síðla sumars, í ágústmánuði. Orkustofnun hóf þegar árið 1977 undirbúning að ítarlegum rannsóknum á hreindýrastofninum. Eftir að hafa ráðfært sig við þá sérfræðinga sem mest höfðu rannsakað hreindýrin varð að ráði að fá sérfræðinga frá Noregi til aðstoðar við að skipuleggja rannsóknir. Þeir komu hingað til lands og skiluðu áætlun um rannsóknir sem voru taldar bæði nægjanlegar og viðráðanlegar. Í kjölfarið hófust rannsóknir árið 1979 og stóðu út sumarið 1981. Jafnframt var aflað upplýsinga frá erlendum sérfræðingum sem höfðu þekkingu á áhrifum mannvirkja á far dýranna og hvernig mætti við bregðast. Leiddi það til tillagna um hvernig mætti greiða dýrunum leið yfir skurðinn og draga úr áhrifum á dýrin meðan á framkvæmdum stæði. En einmitt skurðirnir voru eitt aðalgagnrýnisatriði við þessa útfærslu Fljótsdalsvirkjunar sem ráðgerð var þegar heimildarlög voru samþykkt um virkjunina.
    Í greinargerð Orkustofnunar frá árinu 1992 (HA-02/92) er gerð nánari grein fyrir framangreindum rannsóknum, helstu niðurstöðum varðandi náttúrufarslega þætti og því hvernig þær voru notaðar til að leiðbeina um legu og útfærslu einstakra mannvirkja. Þar er einnig skrá um helstu rannsóknir sem gerðar voru, eða lágu fyrir þegar ákvörðun var tekin um að heimila virkjun árinnar.

     Hönnun Fljótsdalsvirkjunar 1982.
    Á þeim árum sem tilhögun virkjunar var í mótun var það hald sérfræðinga að veitur í skurðum væru að jafnaði mun ódýrari en veitur í göngum, en reynsla af gangagerð á landinu var þá fremur slæm. Bæði við Múla- og Fljótsdalsvirkjun var gert ráð fyrir löngum veituskurðum í meira en 600 m hæð. Það réði mestu um að Fljótsdalsvirkjun varð fyrir valinu, að á Fljótsdalsheiði endaði hinn 25 km langi skurður í stóru inntakslóni sem gat tryggt áfallalítinn rekstur í um 3–4 vikna skeið, þótt skurðurinn kynni að stíflast á vetrum. Á Múla endaði skurðurinn hins vegar í litlu inntakslóni. Á þessum grundvelli var hafist handa við að ljúka verkhönnun Fljótsdalsvirkjunar, en henni lauk á árinu 1982.
    Auk miðlunar á Eyjabökkum og veituskurðar að inntakslónum sem yrðu mynduð annars vegar með stækkun Gilsárvatna og hins vegar með stækkun og tengingu Hólmavatns og Garðavatns var gert ráð fyrir eftirtöldum veitum:
     *      Að Eyjabakkalóni: Veita úr Innri-Sauðá frá Sauðárvatni um Grjótá og Kelduá.
     *      Að Gilsárvatnalóni: Veitur frá Laugará, Hölkná og Þórisstaðakvísl með smáuppistöðulónum í þeim síðarnefndu.
    Tilhögun þessarar virkjunarhugmyndar frá árinu 1982 kemur fram á 2. korti.
    Uppsett afl Fljótsdalsvirkjunar var þarna ráðgert 290 MW og miðað við þáverandi orkukerfi var reiknað með að virkjunin framleiddi um 1.470 GWh á ári. Þess má geta að aflþörf þessarar virkjunar mundi vera talin minni nú, þegar orkufrekur iðnaður vegur orðið þyngra í heildarraforkukerfinu.
    Á 1. mynd er til fróðleiks sýnd nokkur dæmi um þverskurð af veituskurðum samkvæmt þessari verkhönnun sem var grundvöllur lagaheimildar um virkjun Jökulsár í Fljótsdal á sínum tíma. Ljóst er að hér hefði verið um veruleg mannvirki að ræða, sem hefði verið lýti í landslagi og farartálmi manna og dýra.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



1. mynd. Þversnið skurða samkvæmt eldri hönnun Fljótsdalsvirkjunar frá 1982.

6. Núverandi áform um Fljótsdalsvirkjun, lagastoð og stjórnvaldsheimildir.
     Heimildarlög.
    Árið 1981 heimilaði Alþingi virkjun Jökulsár í Fljótsdal samkvæmt fyrrgreindri áætlun með lögum nr. 61/1981. Lögin veittu ríkisstjórn heimild til að semja við Landsvirkjun um að reisa Fljótsdalsvirkjun með allt að 330 MW afli. Samkvæmt þeirri tilhögun sem lá þessari heimild til grundvallar var gert ráð fyrir lóni á Eyjabökkum með yfirfallshæð í 667,5 m y.s. Það gæfi 625 Gl miðlun en í veitum og inntakslónum um 130 Gl. Í heild var því gert ráð fyrir um 745 Gl miðlun.
    Áður en til heimildar kom var leitað umsagnar ýmissa aðila, bæði heimamanna og opinberra stofnana, þar á meðal Náttúruverndarráðs. Í umsögn ráðsins í mars 1981 kemur fram að það muni ekki leggjast gegn miðlun við Eyjabakka telji yfirvöld hana nauðsynlega. Sú afstaða mótaðist m.a. af því að „samkomulag hafi tekist um varanlega verndun Þjórsárvera, sem frá sjónarmiði náttúruverndar og samkvæmt niðurstöðum rannsókna á báðum þessum svæðum eru talin mikilvægari hálendisvin“, eins og kemur fram í umsögn ráðsins.
    Fram til ársins 1979 voru rannsóknir vegna Fljótsdalsvirkjunar á vegum Orkustofnunar, en þá þótti henta að orkufyrirtæki yfirtækju ábyrgð á kostnaðarsömum hönnunarrannsóknum og samningum sem gera þyrfti við ýmsa rétthafa á virkjunarsvæðinu. Var þá Rafmagnsveitum ríkisins falin umsjón virkjunarinnar með fulltingi stýrihóps sem í áttu sæti fulltrúar frá iðnaðarráðuneyti, Orkustofnun og Landsvirkjun auk fulltrúa Rafmagnsveitnanna. Á árinu 1982 var gerður samningur milli ríkisstjórnarinnar og Landsvirkjunar um yfirtöku á forræði Fljótsdalsvirkjunar og var heimild fyrir Fljótsdalsvirkjun síðan felld inn í ný lög um Landsvirkjun, lög nr. 42/1983.
    Með þingsályktunartillögu, sem samþykkt var á Alþingi 6. maí 1982, var ákveðið að Fljótsdalsvirkjun yrði næsta virkjun á eftir Blönduvirkjun, og framkvæmdatími við virkjanir skarast ef orkuþörf krefði. Þessi samþykkt var felld úr gildi með lögum nr. 74/1990 (breyting á lögum nr. 60/1981), en þar segir m.a.: „Röð framkvæmda við virkjanir og aðrar stórframkvæmdir í raforkumálum skal ráðast af væntanlegri nýtingu orkunnar og skal þess gætt að orkuöflun verði með sem hagkvæmustum hætti fyrir þjóðarbúið.“
    Í bráðabirgðaákvæði laga nr. 74/1990 er Fljótsdalsvirkjun jafnframt talin upp fyrst þeirra virkjana sem ráðast skal í takist samningar um nýtt álver á Keilisnesi með 200 þús. tonna framleiðslugetu á ári. Þá er Landvirkjun heimilað að verja fé til undirbúningsframkvæmda í þessu skyni.

     Endurskoðun fyrri tilhögunar.
    Vegna bættrar tækni í jarðgangagerð og góðrar reynslu af gerð jarðganga í Ólafsfjarðarmúla og við Blönduvirkjun var hönnun Fljótsdalsvirkjunar endurskoðuð á árunum 1989– 1990 og tilhögun breytt þannig að veitan frá Eyjabakkalóni færðist af yfirborði í göng. Með því var ekki lengur þörf á stórum inntakslónum og í þeirri útfærslu sem iðnaðarráðherra veitti leyfi fyrir 24. apríl 1991 var fallið frá hinum mikla veituskurði, báðum inntakslónunum og veitum af Fljótsdalsheiði að mestu leyti.
    Með því minnkaði landþörf virkjunarinnar um tæpa 30 km 2. Þar af voru ríflega 20 km 2 gróið land, að stórum hluta votlendi, og um 4 km 2 vötn. Auk þess var komist hjá stórfelldum veituskurðum með þeim landslagsáhrifum og tálmunum sem skurðirnir hefðu haft, sbr. uppdrætti á 3. korti. Þetta verður að teljast umtalsverð breyting umhverfinu til hagsbóta miðað við það sem Alþingi heimilaði á sínum tíma.
    Í 3. töflu og með 2. mynd kemur fram samanburður á helstu stærðum Fljótsdalsvirkjunar samkvæmt áformunum frá 1982 og fyrirliggjandi núverandi tilhögun. Þess má geta að mat á umfangi landnotkunar hefur verið nokkuð á reiki. Kemur þar ýmislegt til, svo sem breytingar á landslagi vegna áhrifa jökla og ekki síður gerð nákvæmari korta. Þegar lagaheimild var veitt fyrir virkjuninni árið 1981 var búist við að Eyjabakkalón yrði öllu stærra en hér kemur fram í töflu og á mynd, enda miðaðist lagaheimildin við lónshæð allt að 667,5 m y.s., sem hefði leitt til þess að Eyjabakkalón yrði um 47 km 2 að flatarmáli í stað þeirra tæpra 44 km 2 sem nú er reiknað með. Taflan og myndin sýna því lágmarkslandþörf Fljótsdalsvirkjunar eftir eldri tilhöguninni.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


2. mynd. Samanburður á landþörf Fljótsdalsvirkjunar samkvæmt eldri og núverandi tilhögun.

    Fyrstu framkvæmdaþættir Fljótsdalsvirkjunar voru boðnir út veturinn 1990–1991, en framkvæmdum var hætt síðla árs 1991, að öðru leyti en því að unnið var við aðkomugöng sumarið 1992. Aðrar undirbúningsframkvæmdir hafa verið vegagerð, en slóðir höfðu verið lagðar áður.

6. Hugsanlegar breytingar á tilhögun Fljótsdalsvirkjunar.
    Hér verður fjallað um hina eiginlegu beiðni ráðuneytisins um greiningu á öðrum orkukostum fyrir álver á Reyðarfirði en áformum um Fljótsdalsvirkjun. Verður þá fyrst hugað að tilbrigðum við Fljótsdalsvirkjun, einkum breyting[um] sem gætu stuðlað að aukinni sátt um umhverfisáhrif virkjunarinnar eins og segir í beiðni ráðuneytisins.

    Minna lón.
    Það er fyrst og fremst áformað miðlunarlón á Eyjabökkum sem veldur ágreiningi um Fljótsdalsvirkjun. Því verður hugað sérstaklega að því hvort unnt sé að minnka þetta lón að óbreyttu stíflustæði.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Lónstæðið á Eyjabökkum er mjög flatt. Til að ná í helming ráðgerðrar miðlunar þarf t.d. lón sem er að flatarmáli um 80% af hinu fyrirhugaða Eyjabakkalóni. Þetta má lesa út úr 4. töflu og 3. mynd. Svigrúm til að draga úr flatarmáli lónsins er ekki fyrir hendi. Strax við 650 m yfirfallshæð yrði mest af flæðilandinu, þ.e. hinum eiginlegu Eyjabökkum komið undir vatn (um 19 km 2), en miðlun yrði aðeins um 20 Gl. Það er því augljóst að engin leið er að hlífa flæðilandinu ef miðlun verður á annað borð á Eyjabakkasvæðinu.
    Enda þótt ekki takist að varna því að Eyjabakkar fari undir vatn, má spyrja hvort ekki mætti lækka stífluna nægilega til að hlífa svonefndum Hraukum, Eyjafelli og hluta af lónunum sem heiðagæsir nýta sem skjól á fjaðrafellitímanum. Ef vatnsborð fer yfir u.þ.b. 653 m fara öldur að rjúfa úr þessum landformum og spilla þeim. Við þá yfirfallshæð næst aðeins um 90 Gl miðlun, sem er með öllu ófullnægjandi fyrir virkjunina. Orkustofnun telur því ekki vera neinn skynsamlegan kost á því að minnka miðlunarlónið á Eyjabökkum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


3. mynd. Flatarmál og miðlunarrými Eyjabakkalóns við mismunandi lónshæð.


     Nýtt lónstæði.
    Í umræðum um virkjunina hefur komið fram uppástunga um að miðlun virkjunarinnar yrði flutt neðar og árdalurinn stíflaður þar sem hann er þrengstur rétt sunnan við Laugafell. Til þess að ná þar sambærilegri miðlun og á Eyjabakkasvæði þyrfti að stífla upp í um 640 m y.s. Mesta hæð stíflu yrði um 110 m, en árdalurinn er það víður að efnismagn stíflunnar yrði meira en tífalt efnismagn Eyjabakkastíflu, eða um 20 Gl (milljónir rúmmetra). Í stífluna þyrfti helmingi meira efni en í stíflu við Kárahnúka, sem yrði þó ein sú hæsta í Evrópu. Við neðri tilhögun mætti stytta aðrennslisgöngin um 6 km, en á móti yrði virkjað fall um 30–40 m minna. Stofnkostnaður þessarar tilhögunar er áætlaður meira en 50 milljarðar kr. sem er rúmlega tvöfaldur kostnaður við ráðgerða Fljótsdalsvirkjun. Að auki yrði afl og orka slíkrar virkjunar nokkru minni en hinnar ráðgerðu Fljótsdalsvirkjunar sakir minni fallhæðar.
    Spyrja má hvort slíkt lón sunnan Laugafells mætti ekki verið minna, enda yrði þá aftur gripið til fyrri áforma um að hafa sérstakt inntakslón við Gilsárvötn, þótt það kalli á dælingu upp í síðarnefnda lónið. Slíkur kostur hefur ekki verið kannaður í þaula en með hliðsjón af því sem hér segir um kostnað við stíflu sunnan Laugafells er ljóst að ekki getur verið um hagkvæma orkuöflun að ræða. Að auki kæmi hvorugur þessara kosta um nýtt lónstæði sunnan Laugafells til álita innan þess þrönga tímaramma sem gefin er. Hér væri um virkjunarkosti að ræða sem þyrfti að rannsaka og undirbúa í hvívetna en lágmarkstími frá hugmyndarstigi til loka framkvæmda er venjulega 6–7 ár. Í þessu tilfelli gæti tíminn þó verið eitthvað styttri vegna mikillar þekkingar á svæðinu í heild.

     Stærra lón.
    Eins og fram kemur í 4. töflu er unnt að ná umtalsvert meiri miðlun á Eyjabökkum en nú er ráðgert án þess að auka landrými lónsins sem neinu nemur. Breyting í þá veru er í sjálfu sér ekki til þess fallin að draga úr umhverfisáhrifum framkvæmdanna. En á tvennt verður þó að líta. Annars vegar mætti nýta lónið til verulega aukinnar orkuframleiðslu og þar með minni umhverfisáhrifa á hverja orkueiningu og hins vegar gerði stækkun lónsins frekari orkuöflun við Kröflu eða í Bjarnarflagi óþarfa í því skyni að afla viðbótarorku fyrir álver í Reyðarfirði. Slík stækkun virkjunarinnar rúmast innan gildandi heimildarlaga um Fljótsdalsvirkjun. Á hinn bóginn þyrfti nýtt framkvæmdaleyfi frá ráðherra.
    Ef yfirfallshæð yrði hækkuð í 667,5 m y.s. færu um 3,3 km 2 meira land undir vatn og miðlun stækkaði um u.þ.b. 130 Gl, úr 500 í um 625 Gl. Þegar heimildarlögin um Fljótsdalsvirkjun voru samþykkt 1981 var reiknað með þessari yfirfallshæð. Auk þess var þá gert ráð fyrir samtals um 130 Gl miðlun á Fljótsdalsheiði. Það er áþekkt því sem Orkustofnun hefur áætlað að fá megi með lóni í Kelduá og ýmsum smálónum á Hraunum. Með því að nýta jafngildi þeirra miðlana sem heimildalögin gerðu ráð fyrir væri mögulegt að stækka veitu af vatnasviði Kelduár til Fljótsdalsvirkjunar að því marki sem hagkvæmt er. Fyrirkomulag slíkra veitna kemur fram á 4. korti, Fljótsdalsvirkjun með Hraunaveitu.
    Eins og þegar hefur komið fram í 2. kafla þessarar greinargerðar kemur þessi breyting á fyrirkomulagi virkjunarinnar mjög til álita, þar sem þá væri að fullu séð fyrir orkuþörf umrædds álversáfanga. Unnt ætti að vera að ljúka framkvæmdum við þannig breytta virkjun í tæka tíð fyrir árslok 2003. Breytingin kallar á hinn bóginn á mat á umhverfisáhrifum á hinum breyttu þáttum.

7. Jarðgufustöðvar á Norðausturlandi.
    Á Norðausturlandi eru átta háhitasvæði. Fjögur þeirra (Gjástykki, Fremri-Námar, Askja og Kverkfjöll) eru lítið þekkt og er ekki reiknað með að þau verði virkjuð á næsta áratug. Hin fjögur svæðin (Námafjall, Krafla, Þeistareykir og Öxarfjörður) eru betur könnuð og hefur orkuvinnsla farið fram bæði í Námafjalli og Kröflu um áratuga skeið. Landsvirkjun hefur nýtingarleyfi í Kröflu og Námafjalli en tvö ný orkufyrirtæki hafa helgað sér vinnslurétt á Þeistareykjum og í Öxarfirði.
    Áður en ráðist er í virkjun á nýju háhitasvæði þarf að bora að minnsta kosti tvær rannsóknarholur til þess að sannreyna hagkvæma vinnslueiginleika svæðisins. Það er orðið nokkuð almenn samstaða um það meðal sérfræðinga á þessu sviði og orkufyrirtækja að jarðgufuvirkjanir séu reistar í 20–40 MW áföngum, eftir því hve öflugt svæðið virðist vera. Fyrsti áfanginn er nýttur til að afla vinnslureynslu og gagna til að meta líklega vinnslugetu svæðisins og leggja mat á skynsamlega áfangaskiptingu við frekari vinnslu. Það er jafnframt mat sérfræðinga að á öflugum háhitasvæðum nægi 2–3 ára reynsla af massatöku úr borholum til að taka ákvörðun um næsta áfanga.
    Á Kröflusvæðinu eru margir virkjunarstaðir, enda er talið að svæðið í heild gæti staðið undir allt að 375 MW raforkuvinnslu í 50 ár. Þrjú önnur vinnslusvæði hafa verið skilgreind (Víti–Hveragil, Sandabotnafjall og svæði vestan Hvíthólaklifs). Mjög góður árangur hefur fengist af borunum á árinu 1999 á svæðinu við Víti–Hveragil. Þar mætti nú þegar byrja á virkjunarframkvæmdum við 30 MW einingu sem gæti verið tilbúin fyrir lok árs 2003, sbr. fyrrgreinda möguleika á orkuvinnslu fyrir álver í Reyðarfirði til fyllingar orku frá Fljótsdalsvirkjun. Annar 30 MW áfangi á Víti–Hveragilssvæði gæti síðan verið tilbúinn til orkuvinnslu í lok árs 2005.
    Fyrir liggur verkáætlun um 40 MW virkjun í Bjarnarflagi (Námafjall). Ef ákvörðun yrði tekin um þá virkjun í byrjun árs 2000, væri hægt að hefja vinnslu frá virkjuninni fyrir lok árs 2003, eins og áður segir. Samfelld vinnsla hefur verið á jarðvarma í Bjarnarflagi um áratuga skeið sem svarar til 15 MW raforkuvinnslu. Hefur vinnslan ekki haft merkjanleg áhrif á jarðhitakerfið. Allt bendir því til að óhætt væri að hefja vinnslu í öðrum áfanga í Bjarnarflagi í lok ársins 2005. Í eftirfarandi yfirliti er reiknað með að sá áfangi yrði 30 MW.
    Á vegum Íslenskrar orku ehf. hefur verið lokið við borun fyrstu djúpu rannsóknarholunnar í Öxarfirði og er búist við að vísbendingar um vinnslueiginleika svæðisins í Öxarfirði liggi fyrir í byrjun árs 2000. Þeistareykir ehf. hafa hafið undirbúning rannsóknarborunar á Þeistareykjum og er þess vænst að rannsóknarboranir hefjist þar á árinu 2000. Ef boraðar yrðu tvær rannsóknarholur á Þeistareykjum á árinu 2000 og bætt við annarri rannsóknarholu í Öxarfirði á því ári mætti taka ákvörðun um nýjar 30 MW virkjanir bæði á Þeistareykjum og í Öxarfirði í byrjun árs 2001 að því tilskyldu að rannsóknarboranirnar lofuðu góðu. Reynslan frá Nesjavöllum og Svartsengi sýnir að í kjölfarið ætti að vera auðvelt að reisa jarðgufustöðvar á 2–3 árum. Gengju þessar forsendur eftir ætti að vera unnt að hafa fullbúnar 30 MW virkjanir bæði á Þeistareykjum og í Öxarfirði í árslok 2003 í kjölfar jákvæðra niðurstöðu úr rannsóknarborunum sem gerðar yrðu næsta ár. Ef reynsla yrði góð af þeim virkjunum mætti bæta við öðrum 30 MW einingum 3–4 árum seinna, þ.e. á tímabilinu 2006–2007.
    Ekki hefur verið borað enn þá á Kröflusvæðinu við Sandabotnafjall og vestan Hvíthólaklifs. Rannsókn þessara svæða eru því á svipuðu stigi og háhitasvæðanna á Þeistareykjum og í Öxarfirði. Ef miðað er við sama framkvæmdahraða á þessum svæðum og áætlað var hér að framan fyrir Þeistareyki og Öxarfjörð, mætti hafa 30 MW virkjanir tilbúnar á báðum vinnslusvæðunum um veturinn 2003–2004. Annar áfangi á þessum svæðum gæti síðan verið tilbúinn í lok árs 2006. Til þess að þessi tímasetning gæti gengið eftir þyrfti að bora tvær árangursríkar rannsóknarholur á hvoru svæðinu fyrir sig strax snemma á árinu 2000.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    5. tafla sýnir hugsanlega þróun í byggingu gufuaflsvirkjana á Norðausturlandi. Er þá miðað við eins hraða uppbyggingu og frekast er unnt og út frá því gengið að niðurstöður úr rannsóknarborunum skili ávallt jákvæðri niðurstöðu. Jafnframt verður að leggja þunga áherslu að ekki yrði unnt að byggja ákvarðanatöku um orkusölu þegar á fyrri helmingi næsta árs á þeim virkjunarkostum þar sem ekki liggur nú þegar fyrir sannreynd gufa. Það er því einungis orka í fyrsta talnadálki töflunnar sem getur komið til álita fyrir fyrsta áfanga álvers í Reyðarfirði miðað við þann þrönga tímaramma sem settur er.
    Af þeim sex virkjunarstöðum sem taldir eru í 5. töflu eru fjögur svæði þar sem ekki hefur fengist reynsla með borunum. Óvissa er því tengd þessari áætlun, eins og fyrr segir. Hún lýtur ekki aðeins að því hvenær raforkuvinnsla getur hafist heldur hefur árangur borana einnig áhrif á framleiðslukostnað raforku frá hverju virkjunarsvæði. Ef árangur rannsóknarborana yrði það slæmur að tvö af fjórum nýjum vinnslusvæðum reynast óhagkvæm til vinnslu raforku, yrði viðbótarorkugeta jarðhitavirkjananna eins og sýnt er í 6. töflu.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Samkvæmt því sem hér hefur verið sagt er ekki raunhæft að gera ráð fyrir að lofa mætti meiri raforku frá umræddum jarðgufustöðvum fyrir hið ráðgerða álver í Reyðarfirði en þeim 560 GWh/a sem komið gætu frá næstu áföngum í Kröflu og Bjarnarflagi. Er þá ekki síst litið til þess að gefa þurfi þegar á fyrri helmingi næsta árs skuldbindingar um orkuafhendinguna. Á hinn bóginn er engan veginn óraunhæft að reikna með að orku megi afla úr jarðgufustöðvum fyrir 120 þúsund tonna álver sem kæmi í gagnið 2005–2006. Til þess að ná mætti því markmiði þyrfti að hefja allumfangsmiklar boranir strax á árinu 2000 á þeim sex vinnslusvæðum sem upp eru talin í 5. töflu.
    Ekki verður annað sagt um orkukostnað á þessu stigi en að hann geti verið sambærilegur við kostnað í miðlungs vatnsaflsvirkjunum. Þá má ekki gleyma því að flutningskerfi vantar til að koma orkunni frá hugsanlegum jarðgufuverum á Norðausturlandi til Reyðarfjarðar.

8. Orkuöflunarkostir á Austurlandi, aðrir en Fljótsdalsvirkjun.
    Í þessum kafla verður hugað að orkuöflunarkostum á Austurlandi, öðrum en Fljótsdalsvirkjun. Hér er annars vegar um að ræða meginjökulsárnar tvær vestan Jökulsár í Fljótsdal, þ.e. Jökulsá á Dal og Jökulsá á Fjöllum. Hins vegar koma til skoðunar nokkrar litlar eða miðlungsvirkjanir í öðrum vatnsföllum. Ljóst má vera að enginn þessara virkjunarkosta kemur til álita innan þess tímaramma sem ráðuneytið setur í erindi sínu, eins og nánar kemur fram í umfjöllum um einstaka kosti hér á eftir.
    Virkjun stóru jökulvatnanna eru gerð ítarleg skil í riti iðnaðarráðuneytisins frá 1994 Virkjanir norðan Vatnajökuls, upplýsingar til undirbúnings stefnumótun. Það sem hér fer á eftir er því að mestu lausleg samantekt úr því riti með nokkrum viðbótum.
    Ríkjandi hugmyndir um virkjun jökulsánna þriggja, Jökulsár í Fljótsdal, Jökulsár á Dal og Jökulsár á Fjöllum, hafa það allar sameiginlegt að vatni þeirra er veitt í Lagarfljót og með stöðvarhús að mestu á sama stað í Norðurdal, sjá 5. kort. Þetta helgast af þeirri landfræðilegu staðreynd að Lagarfljót er nánast sem fjörður sem gengur langt inn í hálendi landsins. Það er því unnt að nýta óvenjumikið fall við þessa tilhögun, nánast 600 m, eða frá liðlega 600 m y.s. niður í um 30 m y.s. Til samanburðar er mesta fall sem hingað til hefur verið virkjað í stórvirkjun hérlendis að finna í Blöndu, en þar er fallhæðin 287 m. Þessir einstæðu landfræðilegu kostir gera þessar virkjanir sérlega hagkvæmar. Á móti kemur vissulega að vatnsvegir í göngum eru langir og þörf á vatnsmiðlun veruleg eins og við virkjun stórra jökulvatna yfirleitt.

     Virkjun Jökulsár á Dal.
    Ríkjandi hugmynd um virkjun Jökulsár á Dal er um svonefnda Kárahnúkavirkjun. Byggir hún á miðlunarlóni sunnan Kárahnúka, Hálslóni og veitu vatns eftir jarðgöngum um 40 km leið að stöðvarhúsi neðanjarðar í Fljótsdal niður undir Lagarfljót. Orkugeta Kárahnúkavirkjunar er nú áætluð um 3.500 GWh/a og orkukostnaður með því lægsta sem fengist getur úr vatnsaflsvirkjunum hérlendis eða álíka og úr Fljótsdalsvirkjun. Slík virkjun verður auðvitað ekki reist nema í tengslum við sérstakan áfanga í orkufrekum iðnaði. Áfanginn yrði að vera stór, eða sem svarar til álvers með um 240 þús. tonna afkastagetu á ári.
    Það er mögulegt að skipta virkjuninni í tvo áfanga þar sem sá fyrri yrði virkjun niður undir Brú á Jökuldal (Hafrahvammavirkjun) og sá síðari frá litlu inntakslóni við Eiríksstaði á Jökuldal í göngum undir Fljótsdalsheiði að Fljótsdal sem fyrr (Brúarvirkjun). Fyrirkomulag miðlunar yrði eins í báðum tilvikum, þ.e. í lóni sunnan Kárahnúka. Slík áfangaskipting gerir um leið mögulegt að áfangaskipta að sama skapi álveri eða öðru iðjuveri er keypti orkuna. Orkukostnaður slíkrar skiptrar virkjunar er álíka og frá Kárahnúkavirkjun óskiptri. Hængurinn er aftur á móti sá að miðlunarlónið yrði að mynda strax í fullri stærð með fyrri áfanganum og er það verulegur hluti heildarkostnaðar við báða áfangana. Vaxtabyrði af þeim sökum mundi því fljótt verða verulega íþyngjandi ef seinni áfanginn fylgdi ekki fast á hæla hins fyrri.
    Komið hefur fram ábending um að haga fyrri áfanganum þannig að hafa stöðvarhúsið sem næst sjálfri Kárahnúkastíflu. Við það yrði áfram næsta óbreytt vatn í Hafrahvammagljúfrum, en í framangreindum hugmyndum um Hafrahvammavirkjun er gert ráð fyrir að hafa virkjunina neðan gljúfranna til að nýta fallið eftir þeim. Lausleg athugun bendir til að sú tilhögun að sleppa nýtingu þess falls rýri orkugetuna svo að orkan yrði a.m.k. þriðjungi dýrari en ella.
    Þá hefur einnig verið kannaður sá möguleiki að virkja Jökulsá á Dal í fjórum þrepum niður Jökuldal. Sú virkjanaröð þarf jafnstóra eða stærri heildarmiðlun en þær fyrrnefndu. Fyrsta þrepið er sambærilegt við Hafarahvammavirkjun, en þar við bætast þrjú þrep og þrjú inntakslón í farvegi árinnar. Þessi síðari þrep hafa í för með sér áhrif á náttúrufar sem er hrein viðbót við umhverfisáhrif fyrsta þrepsins, sem er aftur meginþáttur Kárahnúkavirkjunar í heild, en Hálslón er báðum hugmyndunum sameiginlegt. Hér vísast til ritsins Samanburður á umhverfisáhrifum nokkurra tilhagana á stórvirkjun á Austurlandi (Austurlandsvirkjun), sem var tekið saman að tilhlutan Samstarfsnefndar iðnaðarráðuneytis og Náttúruverndarráðs um orkumál árið 1993. Samkvæmt áætlunum frá 1994 er þrepavirkjunarleiðin um 40% eða um 20 milljarða kr., dýrari en Kárahnúkavirkjun. Af þeim sökum er hún ekki talin skynsamlegur kostur.
    Mest hefur verið unnið að hugmyndinni um Kárahnúkavirkjun og er talið að sú virkjun gæti verið komin í gagnið um 2007–2008, enda væri ákvörðun um að ráðist í hana tekin þegar á þessum vetri.

     Jökulsá á Fjöllum.
    Sú hugmynd um virkjun Jökulsár á Fjöllum, sem helst hefur verið staldrað við í seinni tíð, byggist á miðlunarlóni í Arnardal og vatnsveitu þaðan eftir göngum í tveimur þrepum niður í Fljótsdal. Stöðvarhús yrðu á tveimur stöðum, við Brú (Arnardalsvirkjun, 185 MW) og í Fljótsdalnum (Brúarvirkjun, 375 MW). Heildarorkugetan er áætluð allt að 4.000 GWh/a. Miðað við orkugetu er miðlunarþörfin hlutfallslega minni en í hinum jökulsánum tveimur, Jökulsá í Fljótsdal og Jökulsá á Dal, enda er árstíðasveifla í heildarrennsli Jökulsár á Fjöllum minni en í hinum. Orkukostnaður er þó mjög svipaður og í Kárahnúkavirkjun, með öðrum orðum með því lægsta sem fengist getur hérlendis. Helstu umhverfisáhrif eru skerðing á vatni niður Jökulsá á Fjöllum og þar með í Dettifossi.
    Hugmyndir um þessa virkjunarkosti eru skemmra á veg komnar en Kárahnúkavirkjun. Því er vart raunsætt að gera ráð fyrir styttri undirbúnings- og framkvæmdatíma en 10 árum.

     Smávirkjanir á Austurlandi.
    Til eru nokkrar áætlanir um smáar virkjanir á Austurlandi. Hugmyndir þessar eru yfirleitt fremur gamlar eða mjög lauslegar og hafa fæstar þeirra verið endurskoðaðar nýverið. Helstu hugmyndirnar eru:
     *      Virkjun Fjarðarár í Seyðisfirði, 20 MW (frumhönnunarskýrsla frá 1989, fremur dýr virkjun).
     *      Gilsárvatnavirkjun, 50 MW (lausleg áætlun frá 1996, fremur dýr virkjun).
     *      Berufjarðarvirkjun, a.m.k. 70 MW (lausleg áætlun frá 1976; er í endurskoðun).
     *      Virkjun Geithellnaár, 5,5 MW (lausleg áætlun frá 1985).
    Um þessar virkjanir er það m.a. að segja, að Rafmagnsveitur ríkisins hafa látið kanna fyrst nefndu kostina tvo. Orkukostnaður beggja er nærri tvöfalt hærri en í Fljótsdalsvirkjun. Gilsárvatnavirkjun nýtir nokkurn veginn þann hluta af veitum á Fljótsdalsheiði, sem felldar voru niður þegar veita Fljótsdalsvirkjunar var færð af yfirborði í jarðgöng við endurskoðun tilhögunar 1991. Rafmagnsveiturnar höfðu heimild fyrir Bessastaðaárvirkjun á sínum tíma, en hún var felld úr gildi við lagahreinsun fyrir allmörgum árum (lög nr. 33/1989), enda slík virkjun ekki talin á dagskrá lengur eftir að heimild var gefin fyrir Fljótsdalsvirkjun. Orkustofnun metur það svo, að lítil virkjun eins og virkjun Geithellnaár með lóni í Geithellnadal, muni stangast mjög á við sjónarmið um verndun náttúru þar í dalnum. Svipað getur átt við um margar fyrrgreindra smávirkjana.
    Hugmynd um Berufjarðarvirkjun miðast við að safna saman vatni af Hraunum og veita því eftir göngum niður í virkjun niður við Berufjörð. Hún nýtti því það vatn af Hraunum sem ekki yrði notað í Fljótsdalsvirkjun. Hugmyndin um Berufjarðarvirkjun hefur nýverið fengið lauslega endurskoðun, sem bendir til að hún geti verið stærri og hlutfallslega ódýrari en áður var ráð fyrir gert og nefnt er í upptalningunni. Orkugetan gæti orðið 800–1.000 GWh/a og orkukostnaður um 18–22 kr. á árskílóvattstundina sem setur þennan kost í gott meðallag. Miðlunarmöguleikar eru aftur á móti mjög rýrir þannig að slík virkjun gæti ótækt staðið ein sér, en gæti fallið þokkalega inn í heildarkerfi sem t.d. byggðist á umtalsverðu jarðgufuafli. Þessi kostur er verður frekari athugunar en ljóst má vera að hann kemur þó engan veginn til álita til orkuöflunar fyrir það álver sem erindi ráðuneytisins fjallar um.

9. Orkuöflun frá stöðvum utan Austur- og Norðausturlands.
    Orkuöflun til ráðgerðs álvers á Reyðarfirði frá virkjunum utan Austur- og Norðausturlands kallar að sjálfsögðu á flutning á þeirri orku. Núverandi orkuflutningskerfi, byggðalínan, er með öllu ófær um að flytja þá orku alla. Tvenns konar flutningur orku kemur til álita í þessu sambandi, þ.e. um hugsanlega Sprengisandslínu eða með þeim hætti að Blönduvirkjun yrði losuð undan því að flytja orku suður á land, en sendi í stað þess orku austur á land. Strax skal bent á þann annmarka slíkra flutninga eftir hvorri leiðinni sem er að flutningstap yrði umtalsvert.
    Hvað fyrri leiðina varðar hefur verður rætt um annaðhvort 220 kV eða 400 kV línu yfir Sprengisand og alla leið austur í Reyðarfjörð, alls um 375 km vegalengd. Raunar er talið óhjákvæmilegt að lagðar yrðu tvær slíkar línur þó ekki væri nema vegna rekstraröryggis. Miðað við verð og flutningsgetu er vart talið skynsamlegt að leggja slíkar línur nema miða við hærri spennuna. Allt um það er kostnaður við þessar línur þvílíkur að ekki er skynsamlegt að leggja í þau útgjöld vegna umrædds álvers eingöngu. Þess verður þó að geta að aukin raforkuvinnsla og raforkunotkun austanlands kallar fyrr eða síðar á öfluga tengingu við meginvirkjunarsvæðin sunnanlands.
    Áætlað er að tvær 220 kV línur (með tengibúnaði) kosti um 14–15 milljarða kr. en tvær 400 kV línur allt að 20 milljarða kr. Orkuöflunarkostir fyrir sunnan eru vart ódýrari en raforkan frá Fljótsdalsvirkjun. Og þegar slíkur flutningskostnaður bættist við, er ekki unnt að tala um að þessi lausn uppfylli með nokkru móti þá kröfu að orkan sé ekki ýkja miklu dýrari en sú frá ráðgerðri Fljótsdalsvirkjun.
    Vegna rafmagns til umrædds álvers eins er seinni leiðin, rafmagn frá Blönduvirkjun, nærtækari og verður því farið nokkrum frekari orðum um þann möguleika. Framleiðslugeta Blönduvirkjunar er um 800 GWh/a og undanfarin missiri hefur megnið af því rafmagni farið suður byggðalínu frá Blöndu til markaðarins á Suðvesturlandi. Þessu mætti snúa við án þess styrkja þyrfti línurnar að sunnan til Blöndu að því tilskyldu að tilsvarandi viðbótarorku megi afla úr virkjunum sunnanlands.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Af efri hluta 7. töflu sést að nokkuð skortir á að útvega mætti nægilegt rafmagn að sunnan til að beina megi Blöndurafmagni í austur fyrir árslok 2003, en megi afhendingin dragast nokkuð ætti að vera unnt að losa um Blöndurafmagn. Heildaröflun rafmagns fyrir umrætt álver í Reyðarfirði gæti með þessari leiðinni verið eins og sýnt er í neðri hluta töflunnar þar sem gripið er til jarðgufuvirkjana norðaustanlands að ríflega hálfu leyti. Enn og aftur verður þá að hafa þann fyrirvara að enn eru jarðhitasvæðin í Öxarfirði og Þeistareykjum það lítt þekkt að af þeim sökum einum yrði örðugt að gefa loforð þegar fyrir mitt ár 2000 um orkuafhendingu síðar.
    Þessi lausn hefði enn fremur í för með sér að stórefla þyrfti flutningskerfið milli Blönduvirkjunar og Austurlands, sem yrði kostnaðarsamt og setti þessa lausn því í raun utan kostnaðarrammans. Á hinn bóginn kann af öðrum ástæðum að vera nauðsynlegt að styrkja flutningskerfið norðanlands. Nákvæmir útreikningar á verði orku samkvæmt þessari blönduðu leið liggja því ekki fyrir.


1. kort
(Er ekki til tölvutækt.)




2. kort
(Er ekki til tölvutækt.)




3. kort
(Er ekki til tölvutækt.)




4. kort
(Er ekki til tölvutækt.)





5. kort
(Er ekki til tölvutækt.)

Fylgiskjal III.


Skýrsla Þjóðhagsstofnunar um þjóðhagsleg áhrif
álvers í Reyðarfirði, október 1999.

    Að beiðni iðnaðarráðuneytis hefur Þjóðhagsstofnun metið þjóðhagsleg áhrif byggingar og reksturs álvers á Reyðarfirði. Mat þetta er háð ýmsum forsendum sem óvissa ríkir um og raktar eru hér á eftir. Skoðuð voru tvö dæmi:
     1.      Álver á Reyðarfirði með 120 þúsund tonna framleiðslugetu sem tæki til starfa árið 2003
     2.      Álver á Reyðarfirði byggt í tveimur áföngum, 120 þúsund tonn árið 2003 og 240 þúsund til viðbótar árið 2008.
    Það ber að taka fram að hér er ekki um mat á rekstrarlegri né heldur þjóðhagslegri arðsemi þessara verkefna að ræða, t.d. er ekki lagt mat á hagnað af orkusölu til viðkomandi stóriðjufyrirtækja og ekki er tekið tillit til kostnaðar vegna umhverfisáhrifa.

Skýringar:
    Niðurstöður dæmanna hér á eftir eru birtar sem frávik frá samanburðardæmi sem byggist á 2% jöfnum hagvexti og ekki gert ráð fyrir aukningu stóriðju frá því sem nú er ef frá er skilin stækkun álvers Norðuráls á Grundartanga í 90.000 tonn. Áhrif dæmanna tveggja eru metin með því að bæta forsendum þeirra ofan á forsendur í samanburðardæminu og framreikna upp á nýtt með sama líkani. Niðurstöðurnar eru síðan bornar saman við samanburðardæmið.
    Gert er ráð fyrir að aðrar forsendur en þær sem varða stóriðjukostina haldist óbreyttar. Þetta þýðir til dæmis að opinber útgjöld haldast óbreytt þrátt fyrir aukinn tekjuafgang, nafngengi helst fast þrátt fyrir hækkað raungengi, vextir af erlendum lánum eru óbreyttir þrátt fyrir auknar erlendar lántökur og svo framvegis. Í flestum tilvikum er þetta stóriðjudæmunum í hag, þ.e. neikvæð áhrif virðast minni í dæmunum en ef ytri forsendum yrði breytt.
    Í dæmunum er hvorki reiknað með erlendum eiginfjárframlögum til stóriðjuframkvæmdanna né heldur arðgreiðslum til útlanda. Ef það væri gert breyttust viðskiptajöfnuður og þjóðarframleiðsla sem svarar muninum á arðsemiskröfu fjárfestanna og vöxtum á erlendum lánum sem að jafnaði þýddi minni þjóðhagslegan ábata. Enn fremur er við því að búast að yfirgnæfandi hlutfall tekna orkufyrirtækja af sölu til álfyrirtækja í dæmum 2 og 3 mundi að öllum líkindum leiða til þess að fjármagnskostnaður þeirra hækkaði. Erlendum vöxtum er haldið föstum í dæmunum svo ekki er tekið tillit til þessa.
    Þá ber að hafa það í huga að líkanið sem notað er við þetta mat er einungis gert til að spá nokkur ár fram í tímann, en ekki til þess árafjölda sem hér er sýndur. Þannig má búast við að margföldunaráhrif séu í raun minni en hér kemur fram. Í þessu sambandi ber einnig að minna á að Þjóðhagsstofnun reiknar ekki með öðru en að framleiðsluþættir séu að jafnaði fullnýttir á því tímabili sem um ræðir án þess að til stóriðjuframkvæmda komi. Það er því spurning hvort jöfnur líkansins, sérstaklega launa- og verðjöfnur, spái nægjanlega vel fyrir um þróun verðlags og raungengis. Hér má nefna að jafnvægislíkan Þjóðhagsstofnunar gefur til kynna nokkuð minni áhrif á þjóðarframleiðslu til frambúðar en þær niðurstöður sem hér eru kynntar enda gerir það ekki ráð fyrir neinum margföldunaráhrifum til lengdar fyrir þjóðarbúskapinn í heild.

Helstu niðurstöður:
    Helstu niðurstöður útreikninganna fara hér á eftir.
Dæmi 1.     Álver á Reyðarfirði sem tæki til starfa árið 2003.
Dæmi 2.    Álver á Reyðarfirði byggt í tveimur áföngum, 120 þúsund tonn árið 2003 og 240 þúsund til viðbótar árið 2008.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Dæmi 1.
    Í dæmi 1 er gert ráð fyrir að byggt verði álver á Reyðarfirði með 120 þúsund tonna framleiðslugetu sem tæki til starfa árið 2003. Reiknað er með að virkjanaframkvæmdir vegna álversins hæfust á næsta ári og að bygging álversins hæfist árið 2001.
    Heildarfjárfesting nemur rúmlega 60 milljörðum króna sem samsvarar nærri 50% af fjárfestingu ársins 1999. Landsframleiðsla verður tæplega 2% hærri en ella hefði orðið fyrstu árin eftir að álverið tekur til starfa en varanleg aukning landsframleiðslu er áætluð um 1,4%. Varanleg aukning þjóðarframleiðslu verður um 1,2% og varanleg aukning einkaneyslu um 1%. Útflutningur eykst um ríflega 4% til frambúðar. Hlutfall álframleiðslu í útflutningi nemur þannig um 20% á árinu 2003 samanborið við tæp 15% í samanburðardæminu. Viðskiptajöfnuður versnar um allt að 2% af landsframleiðslu á byggingartímabilinu, en til lengdar eru áhrif á viðskiptajöfnuð lítil.
    Um 270 framtíðarstörf myndast í verksmiðjunni. Reiknað er með að alls þurfi um 1.250 ársverk til byggingarframkvæmdanna. Til virkjanaframkvæmda er áætlað að þurfi alls tæp 1.700 ársverk á árunum 2000–2003.
    Auk áhrifa 120 þúsund tonna álvers á helstu þjóðhagsstærðir hefur Þjóðhagsstofnun kannað staðbundin áhrif álversins . Vegna sameiningar sveitarfélaga á Austurlandi eru ekki aðgengileg gögn um sama atvinnusvæði og miðað var við í fyrri athugun Þjóðhagsstofnunar. Nú er miðað við Fellahrepp, Austur-Hérað, Fjarðabyggð, Fáskrúðsfjarðarhrepp og Búðahrepp. Munurinn frá fyrri athugun eru þeir sveitahreppar sem sameinuðust Egilsstöðum. Íbúafjöldi þessa svæðis sem athugunin nær til var rúmlega 6.400 manns 1998 en á atvinnusvæði fyrri athugunar var íbúafjöldinn rúmlega 6.100. Á meðfylgjandi mynd er reiknað með því að ef ekki kæmu til þau atvinnutækifæri sem álverið býður upp á muni fækkun íbúa nema um 1,5%.
    Sé byggt á fyrri reynslu um staðbundin áhrif nýrra starfa má reikna með því að störf sem eru óbein afleiðing af starfsemi álversins séu álíka mörg og störfin í álverinu sjálfu. Reiknað er með því að þau störf verði til einu ári seinna en tilefni þeirra. Því mun 120 þúsund tonna álver leiða af sér um 540 ný störf samtals og er ekki reiknað með því að álverið ryðji burt öðrum atvinnugreinum á svæðinu. Ef gert er ráð fyrir að ákvörðun um álver stöðvi brottflutning frá svæðinu og mannaflaþörf þess atvinnulífs sem fyrir er verði óbreytt veldur álverið umframeftirspurn eftir vinnuafli sem nemur 280 manns. Ef miðað er við að aldursdreifing þeirra sem störfin vinna sé hin sama og annarra sem flytja milli sveitarfélaga þurfa aðfluttir að vera um 640 manns. Það er umtalsverð breyting frá þeirri íbúaþróun sem einkennt hefur þetta svæði á undanförnum árum ef Egilsstaðir og nágrenni er undanskilið.

Dæmi 2.
    Í dæmi 2 er gert ráð fyrir því að álverið á Reyðarfirði yrði stækkað um 240 þúsund tonn árið 2008 og yrði framleiðslugeta þess þá alls 360 þúsund tonn.
    Heildarfjárfestingin nemur 180 milljörðum króna, sem dreifist á níu ár, en fjárhæðin samsvarar 140% af fjárfestingu ársins 1999. Reiknað er með að fyrri hluti álversins verði byggður á árunum 2001–2003, að hafist verði handa við að byggja síðari áfangann árið 2006 og honum verði lokið á árinu 2008. Á árunum 2001–2003 má búast við að fjárfesting verði á bilinu 15–25% hærri og 25–50% hærri á árunum 2006–2008 en ef ekki yrði ráðist í framkvæmdir. Reikna má með að landsframleiðsla verði meira en 5% hærri en í samanburðardæminu þegar mest lætur en ríflega 4% meiri til frambúðar. Varanleg hækkun þjóðarframleiðslu er minni, eða ríflega 3% sem er svipað og hækkun einkaneyslu.
    Þegar síðari hluti álversins verður kominn í gagnið mun útflutningur verða 10–15% hærri en ella. Árið 2009 er gert ráð fyrir að álframleiðsla nemi um 20–25% af heildarútflutningi samanborið við 10–12% í grunndæminu. Vegna þess hve stór hluti aðfanga til byggingar álvers eru innflutt, hafa framkvæmdirnar neikvæð áhrif á viðskiptajöfnuð og reikna má með því að hallinn yrði að meðaltali meiri sem nemur 2% af landsframleiðslu en í grunndæminu á árunum 2000–2008 sem kemur fram í töluverðri aukningu í erlendum skuldum eða sem nemur rétt um 10% af landsframleiðslu fram til ársins 2010. Eftir að síðari áfangi álversins hefur verið tekinn í notkun má búast við að erlendar skuldir lækki smám saman.
    Með byggingu álvers á Reyðarfirði má búast við að myndist 570 störf til frambúðar, þar af 270 störf þegar fyrri hluti álversins verður tekinn í notkun. Reiknað er með að 3.200 ársverk þurfi til byggingar álversins. Þar af eru 2.000 ársverk vegna byggingar síðari hluta álversins árin 2006–2008. Þá má búast við að um 500–600 manns fái störf við virkjanaframkvæmdir á ári á byggingartímanum frá 2000 til 2008. Aðflutningur fólks sem stækkun álversins úr 120 þúsund tonnum í 360 þúsund tonn hefur í för með sér verður svipaður eða minni en vegna fyrsta áfanga.

Línurit:
    Í línuritunum hér að neðan er dæmi 1 sýnt með brotalínu og dæmi 2 með breiðri heilli línu.

Mynd 1:     Fjárfesting. Mismunur, % frá grunndæmi.
Mynd 2:     Þjóðarframleiðsla. Mismunur, % frá grunndæmi.
Mynd 3:     Landsframleiðsla. Mismunur, % frá grunndæmi.
Mynd 4:     Einkaneysla. Mismunur, % frá grunndæmi.
Mynd 5:     Útflutningur. Mismunur, % frá grunndæmi.
Mynd 6:     Viðskiptajöfnuður. Mismunur, % af landsframleiðslu.
Mynd 7:     Erlendar skuldir. Mismunur, % af landsframleiðslu.
Mynd 8:     Íbúaþróun á miðsvæði Austfjarða með og án 120 þúsund tonna álvers



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Íbúaþróun á miðsvæði Austfjarða með og án 120 þúsund tonna álvers



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Fylgiskjal IV.


Skýrsla Nýsis hf.


(September 1999.)




(Er ekki til tölvutæk.)


Fylgiskjal V.


Samningur ríkisstjórnar Íslands og Landsvirkjunar
um virkjanamál, yfirtöku byggðalína o.fl.

(11. ágúst 1982.)


(Er ekki til tölvutæk.)


Fylgiskjal VI.


Yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands, Landsvirkjunar og Hydro Aluminium A/S.
(Hallormsstað, 29. júní 1999.)

A. Inngangur.

     1. Viðræður hafa staðið yfir um Noral-verkefnið — vatnsorkuver á Austurlandi og álver í Reyðarfirði — um allnokkurn tíma milli iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis, fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands, Landsvirkjunar og Hydro Aluminium A/S í Noregi. Fulltúar þessara aðila, sem mynda samráðsnefnd, komu saman á Hallormsstað dagana 28.–29. júní til þess að fara yfir þann árangur sem náðst hefði í viðræðunum. Í þessari yfirlýsingu er að finna niðurstöður þeirrar yfirferðar að því er varðar þá viðskiptahugmynd sem býr að baki Noral-verkefninu og tíma- og vinnuáætlun fyrir næstu ellefu mánuði, svo og fyrirætlanir og skuldbindingar aðila í þessu tilliti eins og þær eru á þessum tíma. Meginmarkmiðið er að þoka undirbúningsvinnunni áfram á næstu mánuðum að því marki að unnt verði að taka endanlega ákvörðun um að ráðast í verkefnið fyrir 1. júní árið 2000.

B. Grunnhugmyndin að baki Noral-verkefninu.

    2. Noral-verkefnið felst í megindráttum í byggingu vatnsorkuvers á Austurlandi og álvers, Noral-álversins, í Reyðarfirði, ásamt öðrum nauðsynlegum mannvirkjum, þar á meðal hafnaraðstöðu. Áætlað er að ljúka fyrsta áfanga verkefnisins síðari hluta ársins 2003. Í grundvallaratriðum er um að ræða 210 MW virkjun í Fljótsdal, álbræðslu með 120.000 tonna upphaflega árlega framleiðslugetu ásamt nauðsynlegum innviðum (infrastrúktúr).
     3. Fljótsdalsvirkjun verður byggð og rekin af Landsvirkjun og í eigu Landsvirkjunar. Markmiðið er að afhenda rafmagn til Noral-álversins samkvæmt langtímasamningi á samkeppnishæfu verði. Ef endanleg ákvörðun er tekin um að ráðast í verkefnið í heild er áætlað að vinna við byggingu Fljótsdalsvirkjunar hefjist á síðari hluta ársins 2000, með það fyrir augum að taka orkuverið í notkun fyrir lok ársins 2003.
     4. Árleg framleiðslugeta Noral-álversins í upphafi verður 120 þúsund tonn, með möguleika á stækkun í áföngum upp í 480 þúsund tonn. Ef endanleg ákvörðun er tekin um að ráðast í verkefnið í heild, er gert ráð fyrir að hefja framkvæmdir við fyrsta áfangann árið 2001 og að þeim áfanga verði lokið á 24 mánuðum. Áhersla verður lögð á að nota bestu fáanlegu tækni til þess að halda loft-, vatns- og jarðvegsmengun frá álverinu í lágmarki. Álverið verður í eigu íslensks almenningshlutafélags, Noral-álfélagsins, sem einnig mun reka verksmiðjuna. Ætlunin er að renna stoðum undir hagkvæmni Noral-álversins með fjölmörgum langtímasamningum milli Noral-álfélagsins og Hydro Aluminium AS, þ.m.t. um rekstur álversins, útvegun tækniþekkingar, sölu og markaðssetningu hrámálms og útvegun súráls og rafskauta.
     5. Gert er ráð fyrir að íslenskir fjárfestar og Hydro Aluminium A/S muni samanlagt eignast meiri hluta í Noral-álfélaginu, en að það hlutafé sem eftir stendur verði boðið til sölu á Verðbréfaþingi Íslands og víðar. Hydro Aluminium A/S gerir ráð fyrir að fjármagna hluta af fjárfestingu sinni í hlutabréfum félagsins með framlagi í öðru formi en beinum greiðslum. Gert er ráð fyrir að um 30% af fjárfestingarkostnaði verði greiddur með sölu hlutabréfa, 10% með víkjandi lánum og um 60% með langtímalánum.
     6. Útreikningar benda til þess að Noral-álverið geti skilað góðum arði af eigin fé og heildarfjármagni ef unnt verður að halda heildarfjárfestingarkostnaði 120 þúsund tonna álversins undir 420 milljónum USD (3.500 USD á hvert tonn af afkastagetu). Þetta eru þau markmið sem að verður stefnt með hönnun og annarri undirbúningsvinnu á næstu mánuðum.
     7. Lóðin undir Noral-álverið og höfn til útskipunar á unnu áli og aðflutnings súráls, rafskauta og annarra aðfanga verður lögð til af ríkisstjórninni eða sveitarstjórninni á staðnum með samningum sem gerðir verða á grundvelli gildandi laga og reglugerða.
     8. Eins og raunin hefur verið í fyrri fjárfestingarverkefnum á sviði stóriðju mun Noral- verkefnið, þegar því verður hrint í framkvæmd og þá einkum á byggingarstigum verksins, hafa veruleg áhrif á þjóðarhag á Íslandi, og einkum og sér í lagi á efnahag Austurlands. Ríkisstjórn Íslands mun leitast við að halda í lágmarki hvers kyns óhagstæðum efnahagsáhrifum meðan bygging orkuversins og álversins stendur sem hæst.

C. Tíma- og vinnuáætlun.

     9. Til þess að undirbúa jarðveginn fyrir endanlega ákvörðun um að ráðast í verkefnið eigi síðar en 1. júní 2000, þannig að unnt verði að gangsetja álverið á síðari hluta ársins 2003, þarf að ná ýmsum áföngum í ákvarðanatöku í næstunni. Mikilvægustu áfangarnir eru eftirfarandi:
     *      Fyrir 1. september 1999. Umsókn um umhverfismat og starfsleyfi.
     *      Fyrir 1. nóvember 1999. Frumathugun lokið í megindráttum ásamt minnisblaði um innviði (infrastrúktúr).
     *      Fyrir 31. desember 1999. Drög að yfirlitssamningi tilbúin, svo og drög að helstu samningum sem nauðsynlegir eru fyrir verkefnið, þ.m.t. hluthafasamningur, sölu- og markaðssamningur, samningarnir um útvegun hráefnis (súráls og rafskauta), samningur um rafmagnsverð og um heimildir til stækkunar, samningur um tækniþekkingu og rekstrarsamningur. Frumathugun á hagkvæmni lokið og lokahagkvæmnisathugun hafin.
     *      Fyrir 1. febrúar 2000. Gert ráð fyrir samþykki þar til bærra stjórnvalda á umhverfismatinu.
     *      Fyrir 1. mars 2000. Gengið frá lokadrögum að yfirlitssamningi og samningum sem að baki honum liggja.
     *      Fyrir 1. apríl 2000. Endanlegur frágangur á eignarhaldi Noral-álfélagsins. Skráning hlutafélagsins.
     *      Fyrir 1. maí 2000. Gengið frá fjármögnun. Samnningar um undirbúning lóðar og afnot af hafnaraðstöðu gerðir við ríkisstjórnina og/eða sveitarstjórnir.
     *      Fyrir 1. júní 2000. Lokaákvarðanir teknar um að ráðast í byggingu Fljótsdalsvirkjunar og fyrsta áfanga álversins, Noral-álversins, í Reyðarfirði.
     10. Frumhönnun Noral-álversins, sem getið er hér að framan, er þegar hafin. Meginþættir frumhönnunarinnar felast í tæknilegum rannsóknum á hönnun álversins, mati á umhverfisáhrifum og hagfræðilegum atriðum. Vinnu á þessum sviðum verður hraðað á komandi mánuðum til þess að unnt verði að ná þeim áföngum sem lýst er í tímaáætluninni hér að framan og afla þeirra upplýsinga sem þörf verður á á síðari stigum ákvarðanatökuferlisins. Þannig mun greining á fjármálahlið verkefnisins og hagkvæmni gegna meginhlutverki við að laða að fjárfesta og afla fjármagns fyrir Noral-álfélagið. Einnig munu rannsóknir á umhverfisáhrifum, einkum á áhrifum af brennisteinstvíoxíði og flúori, svo og jarðvegsmengun í nágrenni fyrirhugaðrar álverslóðar, sem unnar verða af viðurkenndum íslenskum, norskum og sænskum sérfræðingum á viðkomandi sviði, verða mikilvægt framlag til umhverfismatsins. Það gefur tilefni til bjartsýni að fyrstu niðurstöður af útreikningum veðurfarslíkana og rannsóknum á gróðurkortum benda til þess að hugsanleg skaðleg umhverfisáhrif verði minni en upphaflega var gert ráð fyrir. Engu að síður er þörf á frekari rannsóknum, og þær rannsóknir verða gerðar til þess að tryggja að umhverfisstöðlum verði fylgt.
     11. Nákvæm eignarhaldssamsetning álversins liggur ekki enn fyrir, enda mun hún að nokkru leyti ráðast af áhuga fjárfesta. Ætlunin er sú að upphaflegir eigendur verði hópur íslenskra fjárfesta, Hydro Aluminium A/S og fjölþjóðasamtök banka. Ekki er gert ráð fyrir að bankarnir fjárfesti í Noral-álfélaginu til langframa heldur að þeir muni í fyllingu tímans selja hlut sinn til annarra fjárfesta á Verðbréfaþingi Íslands, þar sem Noral-álfélagið verður skráð, og víðar. Bæði íslensku fjárfestarnir og Hydro Aluminium A/S munu eiga þess kost að auka hlutdeild sína í heildarhlutafé félagsins frá upphaflegu framlagi sínu.
     12. Vinna við löggerninga, yfirlitssamninginn og aðra samninga, mun halda áfram á vegum samráðsnefndarinnar með það að markmiði að gera mögulegt að taka allar nauðsynlegar ákvarðanir samkvæmt áætlun eða á undan áætlun. Svo sem tilgreint er í málsgreininni þar sem tímaáætlunin er sett fram eru meginskjölin sem þurfa að liggja fyrir eftirfarandi:
     *      Hluthafasamningur milli helstu fyrirhuguðu eigenda Noral-álfélagsins.
     *      Fjármálasamningar milli Noral-álfélagsins og banka og annarra fjármálastofnana.
     *      Fjárfestingarsamningur milli Noral-álfélagsins og ríkisstjórnar Íslands.
     *      Orkusölusamningur milli Noral-álfélagsins og Landsvirkjunar.
     *      Samningar milli Noral-álfélagsins og Hydro Aluminium AS, þ.m.t. um sölu og markaðssetningu málms, stjórnun álversins, útvegun framleiðslutækni og útvegun hráefnis (súráls og rafskauta).
     *      Lóðar- og hafnarsamningur milli Noral-álfélagsins og ríkisstjórnarinnar og/eða sveitarfélaga.

D. Skuldbindingar og fyrirætlanir samstarfsaðila.

     13. Samstarfsaðilarnir í Noral-verkefninu, ríkisstjórn Íslands, Landsvirkjun og Hydro Aluminium AS, hafa skuldbundið sig til þess að vinna að því að semja heildardrög að yfirlitssamningi um fyrsta áfanga verkefnisins, svo og um ákvarðanatökuferlið varðandi hugsanlega síðari stækkun, eigi síðar en 31. desember 1999. Tilgangurinn með yfirlitssamningnum er að tryggja að ákvörðun um að ráðast í fyrsta áfanga verkefnisins, Fljótsdalsvirkjun og 120 þúsund tonna álver við Reyðarfjörð, geti legið fyrir fyrir 1. júní árið 2000 þannig að unnt verði að taka orkuverið og álbræðsluna í notkun fyrir árslok 2003. Aðilar hafa samþykkt að framkvæma og fjármagna í sameiningu viðamiklar rannsóknir á sviði tæknimála, fjármála, umhverfismála o.fl. sem varðar heildarmarkmið Noral-verkefnisins.
     14. Að því er varðar efni yfirlitssamningsins hafa aðilar tilkynnt um eftirfarandi skuldbindingar og fyrirætlanir:
     *      Ríkisstjórnin mun tryggja að vinna stjórnvalda við mat á umhverfisáhrifum álvers með allt að 480 þúsund tonna afkastagetu tefjist ekki vegna skorts á mannafla eða annarra verkefna. Ríkisstjórnin mun kanna möguleika á því að gera Noral-álfélaginu kleift að kaupa rafmagn frá fyrirhugaðri Kárahnúkavirkjun á samkeppnishæfu orkuverði er ákvarðast af áætlun um kostnað við fjárfestinguna. Ríkisstjórnin mun leitast við að tryggja fjárfestingu í almennum innviðum (infrastrúktúr) samkvæmt minnisblaðinu um innviði (infrastrúktúr), þ.m.t. fjárfestingar af hálfu sveitarstjórna á staðnum. Ríkisstjórnin heitir því að gera það sem í hennar valdi stendur til þess að afla annarra nauðsynlegra leyfa fyrir Noral-álfélagið.
     *      Landsvirkjun mun leitast við að geta boðið Noral-álverinu rafmagn til fyrsta áfangans á samkeppnishæfu verði sem tengist vísitölu álverðs á London Metal Exchange (LME). Ákvæði og skilmálar rafmagnssamningsins og tilhögun vísitölubindingarinnar verða samkomulagsatriði. Að því gefnu að viðunandi skuldbindingar fáist frá öðrum aðilum, mun Landsvirkjun hefja vinnu við að byggja Fljótsdalsvirkjun á öðrum fjórðungi ársins 2000 svo að unnt verði að hefja afhendingu rafmagns á síðari hluta ársins 2003.
     *      Noral-álfélagið mun í góðri trú gefa yfirlýsingu um þær skuldbindingar sem Landsvirkjun þarfnast til þess að geta hafið framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun a.m.k. einu ári áður en fyrirhuguð bygging álversins hefst. Hluthafar, fyrir hönd Noral-álfélagsins, mun einnig hefja samningaviðræður í góðri trú um öll ákvæði og skilmála rafmagnssamningsins milli Landsvirkjunar og Noral-álfélagsins.
     *      Hydro Aluminium A/S mun eiga samningaviðræður í góðri trú (á grundvelli meginreglunnar um viðskipti milli óskyldra aðila) um ákvæði og skilmála hinna ýmsu samninga, um sölu og markaðssetningu áls, útvegun tækniþekkingar, stjórnun og útvegun hráefnis, við Noral-álfélagið.
     15. Óháð yfirlitssamningnum, en í tengslum við hann, munu ríkisstjórnin, Hydro Aluminium A/S og hinir upphaflegu íslensku fjárfestar komast að samkomulagi um eignarsamsetningu Noral-álfélagsins í megindráttum, þ.m.t. um rétt stærstu hluthafa til þess að auka hlutdeild sína, áður en ákvörðun er tekin um að ráðast í verkefnið, svo og um viðunandi fjármögnunaráætlun.



Fylgiskjal VII.


Umsókn Landsvirkjunar um leyfi iðnaðarráðherra.
(19. apríl 1991.)



(Er ekki til tölvutæk.)



Fylgiskjal VIII.


Leyfi iðnaðarráðherra.
(24. apríl 1991.)



(Er ekki til tölvutækt.)



Fylgiskjal IX.


Bréf umhverfisráðuneytisins til nefndasviðs Alþingis.
(15. júlí 1999.)


    Ráðuneytið vísar til erindis yðar frá 21. f.m. þar sem óskað er eftir umsögn ráðuneytisins um tillögu til þingsályktunar um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar, 3. mál.
    Eins og fram kemur í greinargerð með tillögunni var ríkisstjórninni með lögum nr. 60/ 1981 heimilað að semja við Landsvirkjun m.a. um að reisa og reka virkjun við Jökulsá í Fljótsdal allt að 330 MW að stærð. Hinn 24. apríl 1991 veitti iðnaðarráðherra Landsvirkjun virkjunarleyfi fyrir Fljótsdalsvirkjun, 210 MW að stærð ásamt aðalorkuveitum.
    Í lögum nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum, kemur fram í ákvæði til bráðabirgða að lögin gildi ekki um framkvæmdir með leyfum útgefnum fyrir 1. maí 1994.
    Með vísun til þess er Fljótsdalsvirkjun, 210 MW að stærð ásamt aðalorkuveitum, ekki matsskyld framkvæmd samkvæmt lögum nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum, þar sem leyfi til hennar var veitt fyrir 1. maí 1994.
    Samkvæmt ofanrituðu er ljóst að ekki verður krafist mats á umhverfisáhrifum vegna Fljótsdalsvirkjunar að óbreyttum lögum nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum.

F.h.r.
Ingimar Sigurðsson.



Fylgiskjal X.


Bréf iðnaðarráðuneytisins til umhverfisráðuneytisins.
(3. nóvember 1999.)

    Með heimild Alþingis, sbr. lög um raforkuver, nr. 60/1981, og samning ríkisstjórnar Íslands og Landsvirkjunar, dags. 11. ágúst 1982, sbr. og 6. og 7. gr. laga um Landsvirkjun, nr. 42/1983, og leyfi iðnaðarráðherra, dags. 24. apríl 1991, var Landsvirkjun veitt leyfi til virkjunar Jökulsár í Fljótsdal og framkvæmda í því sambandi.
    Í iðnaðarráðuneytinu er nú unnið að gerð þingsályktunartillögu um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun. Af því tilefni er hér með óskað staðfestingar umhverfisráðuneytisins á þeim skilningi iðnaðarráðuneytisins að með framangreindum lagaheimildum og leyfi iðnaðarráðherra liggi fyrir útgefið leyfi til Fljótsdalsvirkjunar í skilningi bráðabirgðaákvæðis laga nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum. Skal í þessu sambandi m.a. vísað til bréfs umhverfisráðuneytisins til nefndasviðs Alþingis, dags. 15. júlí 1999.
    Jafnframt er óskað staðfestingar umhverfisráðuneytisins á þeim skilningi iðnaðarráðuneytisins að samkvæmt þessu sé ekki skylt að lögum að fram fari mat á unhverfisáhrifum áður en gefin eru út leyfi sveitarstjórnar á grundvelli skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997.

F.h.r.


ÞÖ/GAG


Fylgiskjal XI.


Bréf umhverfisráðuneytisins til iðnaðarráðuneytisins.
(5. nóvember 1999.)


    Vísað er til erindis yðar dagsett 3. þ.m., þar sem óskað er eftir staðfestingu umhverfisráðuneytisins á þeim skilningi iðnaðarráðuneytisins að með heimild Alþingis, sbr. nánar tilgreind lagaákvæði, og leyfi iðnaðarráðherra, dagsett 24. apríl 1991, liggi fyrir útgefið leyfi til Fljótsdalsvirkjunar í skilningi bráðabirgðaákvæðis laga nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum.
    Umhverfisráðuneytið staðfestir hér með þann skilning yðar að á grundvelli hinna tilvitnuðu lagaákvæða og leyfis iðnaðarráðherra, dagsett 24. apríl 1991, liggi fyrir að Fljótsdalsvirkjun, 210 MW að stærð ásamt aðalorkuveitu er ekki matskyld framkvæmd samkvæmt lögum nr. 63/1993. Jafnframt staðfestir ráðuneytið þann skilning yðar að ekki sé skylt að lögum að fram fari mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar áður en gefin eru út leyfi sveitarstjórnar á grundvelli skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997.

F.h.r.
Magnús Jóhannesson.
Kristín L. Árnadóttir.

Neðanmálsgrein: 1
1      Í greinargerð sem fylgdi erindi Landsvirkjunar, dags. 19. apríl 1991, kemur fram að gert sé ráð fyrir 500 Gl Eyjabakkamiðlun. Af þessu leiðir að heimildir Landsvirkjunar vegna Fljótsdalsvirkjunar á grundvelli laga um raforkuver, nr. 60/1981, og samnings fyrirtækisins og ríkisstjórnar Íslands frá 11. ágúst 1982 eru ekki að fullu nýttar, hvorki að því er varðar uppsett afl né stærð miðlunar við Eyjabakka.