Ferill 458. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 692 — 458. mál.
Skýrsla
forsætisráðherra um meðferð og framkvæmd ályktana Alþingis á 125. og 126. löggjafarþingi.
(Lögð fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)
Forsætisráðherra hefur á liðnum árum lagt fyrir Alþingi skýrslur um framkvæmd og meðferð á ályktunum Alþingis. Hin fyrsta þessara skýrslna var lögð fram á 112. löggjafarþingi, þá að beiðni nokkurra þingmanna en síðari skýrslur voru teknar saman að frumkvæði forsætisráðuneytis. Í svari forsætisráðherra við fyrirspurn frá hv. þingmanni Rannveigu Guðmundsdóttur á 21. fundi yfirstandandi löggjafarþings, þar sem spurt var um afdrif þingsályktana, kom fram að ný skýrsla yrði birt á þessu þingi.
Skýrsla sú, sem nú er lögð fram, nær til ályktana Alþingis á 125. og 126. löggjafarþingi en eðlilegt mætti telja að árlegar skýrslur næðu til næstliðins þings, þegar þess væri að vænta að ráðuneytum eða öðrum, sem falin er meðferð og framkvæmd þingsályktananna, hefði veist nokkur tími og ráðrúm til athafna. Forsætisráðuneytið leitaði eftir því við önnur ráðuneyti með bréfi dags. 6. nóvember 2002 að þau tækju saman stuttar greinargerðir um meðferð og framkvæmd þeirra þingsályktana, sem þeim hefði verið falin meðferð með, og fara svör ráðuneytanna hér á eftir.
Skýrsla þessi er lögð fram með vísun til 45. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis.
Forsætisráðuneyti.
Þál. 15/125 um ályktanir Vestnorræna ráðsins, frá 9. maí 2000 – þskj. 1277.
Alþingi ályktar að beina þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að vinna að framkvæmd ályktana Vestnorræna ráðsins sem samþykktar voru á fundi ráðsins á Brjánsstöðum á Skeiðum 9.–12. ágúst 1999.
Félagsmálaráðuneytinu var falin framkvæmd ályktunarinnar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar með bréfi dags. 20. nóvember 2000.
Þál. 16/125 um skipan nefndar um sveigjanleg starfslok, frá 9. maí 2000 – þskj. 1285.
Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að skipa nefnd til að móta tillögur um sveigjanleg starfslok.
Hinn 12. janúar 2001 skipaði forsætisráðherra nefnd undir forustu Guðmundar Hallvarðssonar alþingismanns til þess að vinna að framgangi framangreindrar ályktunar. Nefndin skilaði áliti í október 2002. Útgangspunktur í störfum nefndarinnar var að það sé verðugt markmið að auka sveigjanleika varðandi það hvernig og hvenær fólk lýkur atvinnuþátttöku og voru tillögur nefndarinnar unnar út frá þeim forsendum.
Nefndin ræddi fjölmargar leiðir sem gætu verið til þess fallnar að koma til móts við þau ólíku sjónarmið sem uppi eru varðandi ákvarðanir um starfslok starfsmanna og tilhögun þeirra. Þeim leiðum, sem nefndin telur að verðskuldi ítarlega skoðun, var skipt í þrjá meginflokka:
a. frestun starfsloka – lenging starfsævi,
b. flýting starfsloka – stytting starfsævi,
c. hlutataka og tímabundin taka eftirlauna.
Auk þess þarf að huga að úrræðum sem beinast að því að gera eldri starfsmönnum kleift að sinna störfum sem miðast við getu hvers og eins. Á það ekki síst við um þá sem sinna störfum sem krefjast andlegs eða líkamlegs álags.
Tillögurnar hafa það að meginmarkmiði að auka á svigrúm og frelsi einstaklinga til að tímasetja starfslok þannig að henti hverjum og einum en einnig að íslenskur vinnumarkaður verði enn sveigjanlegri en nú er. Við útfærslu tillagnanna þarf að tryggja að fyrir hendi sé nægur hvati fyrir launþega til að vinna lengur en almennur eftirlaunaaldur kveður á um til að framleiðslugeta íslensks efnahagslífs sé sem mest.
Nánari útfærslu tillagnanna má finna í skýrslunni en hana má nálgast á vef forsætisráðuneytis (www.forsaetisraduneyti.is). Þessa má geta að skýrslunni hefur verið dreift til allra þingmanna.
Þál. 18/125 um varðveisla báta og skipa, frá 9. maí 2000 – þskj. 1317.
Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa tillögur um hvernig skuli staðið að varðveislu gamalla skipa og báta sem eru mikilsverðar minjar um atvinnu- og byggðasögu. Í því sambandi verði mótaðar reglur um fjármögnun, sem m.a. Þróunarsjóður sjávarútvegsins taki þátt í, og varðveislugildi báta og skipa skilgreint.
Menntamálaráðuneytinu var falin framkvæmd ályktunarinnar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar með bréfi dags. 20. nóvember 2000.
Þál. 21/125 um verkaskiptingu hins opinbera og einkaaðila, frá 9. maí 2000 – þskj. 1337.
Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd, sem í verði m.a. fulltrúar allra þingflokka, sem geri samanburð á þróun og reynslu af breytingum í tengslum við einkavæðingu og einkaframkvæmd og fjalli um framtíðarkosti í þeim efnum.
Fyrirmæli þingsályktunarinnar þóttu óljós og ráðuneytið sá sér ekki fært að skipa nefnd á grundvelli hennar. Bréf þess efnis var sent Alþingi 1. nóvember 2001. Ný þingsályktun, með skýrara orðalagi, var send forsætisráðuneytinu 29. apríl 2002 ( þál. 24/127, þskj. 1417, um skipan nefndar til að kanna reynslu af einkavæðingu og einkaframkvæmd). Hinn 5. júní 2002 sendi forsætisráðuneytið bréf til allra þingflokka með ósk um tilnefningu í nefnd samkvæmt þskj. 1417 frá 127. lögþ. Ekki hefur enn verið skipað í nefndina þar sem enn vantar tilnefningu frá Samfylkingunni.
Þál. 27/125 um Kristnihátíðarsjóð, frá 2. júlí 2000 – þskj. 1424.
Alþingi ályktar, í tilefni þess að 1000 ár eru liðin frá því að kristinn siður var lögtekinn á Íslandi, að stofna sjóð, Kristnihátíðarsjóð, er njóti framlaga af fjárlögum næstu fimm ár, 100 millj. kr. á ári, og hafi að markmiði:
a. að efla fræðslu og rannsóknir á menningar- og trúararfi þjóðarinnar og stuðla að umræðum um lífsgildi hennar, siðferði og framtíðarsýn;
b. að kosta fornleifarannsóknir á helstu sögustöðum þjóðarinnar, m.a. á Þingvöllum, í Skálholti og á Hólum.
Alþingi kjósi sjóðnum stjórnarnefnd.
Stjórnarnefndin eigi samvinnu við menntamálaráðuneytið, kirkjumálaráðuneytið, þjóðkirkjuna og önnur trúfélög, Þjóðminjasafnið og háskólana í Reykjavík og á Akureyri, svo og frjáls félagasamtök, um viðfangsefni sjóðsins, skipti fé hans milli meginverkefna, skipi verkefnisstjórnir, hvora á sínu sviði, og staðfesti áætlanir þeirra.
Hinn 28. febrúar 2001 samþykkti Alþingi lög um Kristnihátíðarsjóð og 1. mars 2001 kaus Alþingi, skv. 3. gr. þeirra laga, þriggja manna stjórn og jafnmarga varamenn. Formaður stjórnar sjóðsins er Anna Soffía Hauksdóttir verkfræðingur. Starfstími Kristnihátíðarsjóðs er fimm ár eða til ársloka 2005.
Hlutverk sjóðsins er tvíþætt:
a. að efla fræðslu og rannsóknir á menningar- og trúararfi þjóðarinnar og stuðla að umræðum um lífsgildi hennar, siðferði og framtíðarsýn.
b. að kosta fornleifarannsóknir á helstu sögustöðum þjóðarinnar, m.a. á Þingvöllum, í Skálholti og á Hólum.
Sjóðurinn hefur tvívegis úthlutað styrkjum en styrkveiting fer fram 1. desember ár hvert.
Þál. 24/126 um heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga, frá 11. maí 2001 – þskj. 1294.
Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa heildstæða og samræmda opinbera stefnu í málefnum barna og unglinga. Markmið stefnumótunar verði að tryggja hag og velferð barna og unglinga á öllum sviðum þjóðlífsins og búa þeim sem best og jöfnust skilyrði til uppvaxtar og þroska. Í því skyni verði skipuð nefnd með aðild forsætisráðuneytis, félagsmálaráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis, umhverfisráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Á grundvelli stefnumótunar framangreindra aðila verði gerð fimm ára framkvæmdaáætlun í samráði við opinberar stofnanir og félagasamtök sem vinna að málefnum barna og unglinga, þ.m.t. félagasamtök unglinga.
Framkvæmdaáætlunin verði lögð fyrir Alþingi til staðfestingar eigi síðar en á haustþingi árið 2002.
Hinn 21. október 2001 skipaði forsætisráðherra nefnd undir forustu Drífu Hjartardóttur
alþingismanns til þess að vinna að framgangi framangreindrar ályktunar. Jón Björnsson sálfræðingur var ráðinn starfsmaður nefndarinnar og hefur nefndin starfsaðstöðu sína á Barnaverndarstofu. Nefndin kom fyrst saman 31. janúar 2002 og hafði í byrjun desember 2002 haldið sjö fundi. Nefndin mótaði strax í upphafi þá stefnu að taka í starfi sínu mið af barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og leitast við að skilgreina helstu áhyggjuefni varðandi stöðu og hagi barna nú og til næstu framtíðar. Starfsmanni nefndarinnar var falið að efna til funda og viðræðna með þeim aðilum sem gerst þekkja til og leggja niðurstöður fyrir nefndina. Starfsmaður nefndar ásamt nefndinni hefur nú þegar rætt við 75 aðila. Starfsmaður lagði bráðabirgðaskýrslu fyrir nefndina í október sl. þar sem talin voru 13 atriði sem fram hafði komið víðtæk samstaða um að kölluðu á aðgerðir. Nefndin vinnur nú að því að skilgreina þessi atriði nánar, fækka þeim og undirbúa tillögur/hugmyndir til úrbóta. Ráðgert er að skila tillögum fljótlega á árinu 2003. Nefndin mun væntanlega gera tillögur til forsætisráðherra um fá atriði (5–7) og áþreifanleg, sem kalla á úrbætur á næstu árum, ásamt hugmyndum um hvernig þær skuli framkvæmdar.
Þál. 26/126 um gerð neyslustaðals, frá 19. maí 2001 – þskj. 1448.
Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að gera könnun á notkun neysluviðmiðana í nágrannalöndum Íslendinga við ákvarðanir er lúta að fjárhæðum bóta og styrkja í velferðarkerfinu, við mat á greiðslugetu við innheimtu vangoldinna opinberra gjalda og meðlagsgreiðslna og við ákvarðanatöku við lánveitingar úr opinberum sjóðum, svo sem lánasjóðum námsmanna og íbúðalánasjóðum. Enn fremur verði lagt mat á hvort ástæða sé til að samræma slíkar neysluviðmiðanir hér á landi, notkun þeirra eða aðferðir við gerð þeirra.
Stefnt skal að því að niðurstöður verði lagðar fyrir Alþingi á næsta þingi.
Í framhaldi af viðræðum ríkisstjórnarinnar við fulltrúa Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins, vorið 2001, um forsendur kjarasamninga var m.a. ákveðið að fjármálaráðherra myndi skipa nefnd með aðild ASÍ, fjármálaráðuneytis og Þjóðhagsstofnunar. Hinn 3. ágúst það ár skipaði fjármálaráðherra nefnd undir forustu Bolla Þórs Bollasonar skrifstofustjóra. Hlutverk nefndarinnar var að kanna kosti og galla þess að taka upp fjölþrepatekjuskatt hjá einstaklingum. Einnig var nefndinni falið að kanna forsendur þess að vinna upplýsingar um viðmiðunarreglur fyrir mismunandi fjölskyldur sem nota má meðal annars við útreikning á greiðslubyrði, félagslegum bótum og mat á breytingum á skatt- og bótakerfi.
Þar sem efni þingsályktunarinnar og hlutverk ofangreindrar nefndar um fjölþrepaskatt og viðmiðunarneyslu skarast svo mjög var ekki talin nauðsyn á því að stofna sérstaka nefnd á vegum forsætisráðuneytisins um neyslustaðal.
Nefndin um fjölþrepaskatt er að leggja lokahönd á vinnuna og er skýrsla hennar væntanleg á næstu mánuðum.
Dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
Þál. 3/126 um flutning hættulegra efna um jarðgöng, frá 15. desember 2000 – þskj. 574.
Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja reglur um flutning á hættulegum efnum um jarðgöng.
Í reglunum verði m.a. kveðið á um hvort slíkir flutningar skuli leyfðir og þá með hvaða skilyrðum, þ.e. flutningstækjum, ökuhraða, eftirliti og hvort loka skal göngum fyrir annarri umferð meðan flutningurinn fer fram.
Starfshópur sem dómsmálaráðherra skipaði 27. mars 2001 og falið var að fjalla um ofangreinda þingsályktun hefur lokið störfum og skilað skýrslu. Skýrslan var kynnt ríkisstjórninni á fundi 12. nóvember sl., auk þess sem skýrslan var kynnt flutningsmönnum þingsályktunartillögunnar og öllum formönnum þingflokkanna.
Í starfshópinn voru skipuð Arnbjörg Sveinsdóttir alþingismaður, sem jafnframt var formaður, Gestur Guðjónsson verkfræðingur, tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins, Guðmundur Gunnarsson yfirverkfræðingur, tilnefndur af Brunamálastofnun, Hjálmar Björgvinsson aðalvarðstjóri, tilnefndur af ríkislögreglustjóra, Hreinn Haraldsson framkvæmdastjóri, tilnefndur af Vegagerðinni, Ingimundur Einarsson varalögreglustjóri, tilnefndur af lögreglustjóranum í Reykjavík, og Víðir Kristjánsson deildarstjóri, tilnefndur af Vinnueftirlitinu. Sandra Baldvinsdóttir, lögfræðingur í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, og síðar Aagot Óskarsdóttir, lögfræðingur á sama stað, voru ritarar starfshópsins.
Í skýrslunni leggur starfshópurinn til að fylgt verði boðuðum tillögum Sameinuðu þjóðanna og:
* hættulegum farmi verði skipt í 5 flokka samkvæmt tillögum frá OECD. Flokkuninni er lýst í fylgiskjali 2 í skýrslunni.
* sett verði upp sérstök skilti við öll jarðgöng á vegakerfinu þar sem fram kemur hvaða flokka efna er leyft að flytja um viðkomandi göng. Ef um takmörkun er að ræða geti hún verið mismunandi innan ársins, vikunnar og dagsins.
* gert verði áhættumat fyrir öll jarðgöng með nýju áhættumatslíkani (Quantitative Risk Assessment Model) frá OECD og ákvörðun um hugsanlegar takmarkanir á flutningi hættulegs farms í þeim verði teknar út frá niðurstöðum þess mats.
* stuðst verði við ákvarðanalíkan frá OECD (Decision Support Model) þegar það liggur fyrir í endanlegri útgáfu til samanburðar áhættu við flutning eftir mismunandi leiðum.
Lagt er til að framangreind ákvæði verði sett í reglugerð um flutning á hættulegum farmi og að reglugerð um sektir og önnur viðurlög verði endurskoðuð m.t.t. brota á þeim ákvæðum. Einnig er lagt til að lögreglustjóri geti í samráði við veghaldara sett sérstök skilyrði um flutningstæki, ökuhraða, eftirlit eða lokun ganga fyrir annarri umferð meðan á flutningi hættulegs farms stendur. Þá er lagt til að flutningur hættulegs farms sem nú er bannaður um helgar verði einnig bannaður á virkum dögum meðan umferðin er mest en á móti verði banni aflétt að næturlagi um helgar meðan umferðin er í lágmarki. Lagt er til að Hvalfjarðargöng falli almennt í B flokk en að frekari takmarkanir verði ákveðnar sem tilgreindar eru í skýrslunni. Að lokum bendir starfshópurinn á mikilvægi þess að tillögur á grundvelli vinnu, sem hófst síðla árs 2001, að frumkvæði Vegagerðarinnar í samráði við Spöl ehf. við endurskoðun öryggismála í jarðgöngum nái sem fyrst fram að ganga, ekki síst varðandi eftirlit með hættulegum farmi og réttindum bílstjóra.
Í séráliti fulltrúa Samtaka atvinnulífsins kemur fram að hann styður flest það sem í skýrslunni stendur ef undan eru skilin ákveðin atriði í tillögum meiri hluta hópsins er varða akstur ólestaðra olíuflutningabíla um Hvalfjarðargöng.
Félagsmálaráðuneyti.
Þál. 15/125 um ályktanir Vestnorræna ráðsins, frá 9. maí 2000 – þskj. 1277.
Alþingi ályktar að beina þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að vinna að framkvæmd ályktana Vestnorræna ráðsins sem samþykktar voru á fundi ráðsins á Brjánsstöðum á Skeiðum 9.–12. ágúst 1999.
Félagsmálaráðherra fól Jafnréttisstofu að vinna að framkvæmd ályktunar nr. 5/1999 í febrúar 2001 og var þess óskað að haft yrði náið samstarf við Kvenréttindafélag Íslands, Stígamót og Kvennaathvarf við framkvæmd ályktunarinnar. Fjallar ályktunin um að skipa vinnuhóp í samvinnu við landsstjórnir Færeyja og Grænlands sem leggi fram tillögur um sameiginlegar aðgerðir í vestnorrænu löndunum til að stöðva ofbeldi gegn konum. Sérstakur starfshópur var settur á laggirnar með fulltrúum allra landanna. Af hálfu Íslands sitja í starfshópnum Valgerður H. Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu, Þorbjörg I. Jónsdóttir, fulltrúi Kvennaráðgjafarinnar, Þórunn Þórarinsdóttir, fulltrúi Stígamóta og Elfa Björk Ellertsdóttir, fulltrúi Kvennaathvarfsins. Fyrir hönd Færeyja eiga sæti í hópnum Elin Reinert Planck, fulltrúi Kvinnuhúsið í Þórshöfn, og Jane Hoydal, fulltrúi Jafnréttisráðs Færeyja, en hún tók við af Augusta Mikkelssen. Frá Grænlandi sitja þær Agathe Fontaine, fulltrúi Jafnréttisráðs Grænlands, og Maren L. Heihnann, fulltrúi Kvennaathvarfsins Nuummi, Nuuk.
Starfshópurinn hefur haldið fjóra fundi í löndunum þremur og hefur verið gerð óformleg úttekt á stöðu mála. Þar á meðal var kannað í hvaða mynd ofbeldi birtist ásamt því að fara yfir orsakir þess og afleiðingu. Þá hefur hópurinn kynnt sér rannsóknir sem gerðar hafa verið á ofbeldi gegn konum auk þeirra aðgerða og tilboða sem þegar eru í boði í löndunum. Á fundi í Færeyjum í nóvember 2001 voru lagðar línur að skýrslu sem færeysku fulltrúarnir unnu nokkuð viðamikil drög að. Íslensku fulltrúarnir tóku að sér að fullvinna skýrsluna. Þeirri vinnu er ekki lokið en er gert ráð fyrir að skila henni til stjórnvalda ekki síðar en í lok janúar 2003. Athugaðir hafa verið möguleikar á útgáfu skýrslunnar í ritröðinni TemaNord og hugmyndin er að kynna hana fyrir vestnorrænum stjórnmálamönnum á vormánuðum 2003.
Ályktun nr. 7/1999 hefur komið að fullu til framkvæmda hér á landi með tilkomu nýrrar löggjafar um fæðingar- og foreldraorlof. Þar var konum og körlum veittur jafn réttur til fæðingar- og foreldraorlofs frá og með árinu 2003. Þá hafa stjórnvöld í Grænlandi og Færeyjum komið hingað til lands til að kynna sér hina nýju fæðingarorlofslöggjöf.
Enn hefur ekki unnist tími né fjármagn verið fyrir hendi svo unnt hafi verið að grípa til sérstakra ráðstafana vegna annarra ályktana sem gera ráð fyrir samstarfi landanna á sviði jafnréttismála.
Þál. 19/125 um nýbúamiðstöð á Vestfjörðum, frá 9. maí 2000 – þskj. 1335.
Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að undirbúa stofnun miðstöðvar nýbúa á Vestfjörðum í samvinnu við sveitarstjórnir, Rauða kross Íslands og Svæðisvinnumiðlun Vestfjarða. Hlutverk miðstöðvarinnar verði að greiða fyrir samskiptum Íslendinga og erlendra ríkisborgara, vinna með sveitarstjórnum að eflingu þjónustu fyrir erlenda ríkisborgara, fyrirbyggja vandamál í samskiptum fólks af margvíslegum menningarsvæðum og auðvelda aðlögun erlends fólks að íslensku þjóðfélagi.
Fjölmenningarsetur á Vestfjörðum var formlega opnað á Ísafirði af Páli Péturssyni félagsmálaráðherra 30. júlí 2001. Í maí sama ár hafði Elsa Arnardóttir verið ráðin framkvæmdastjóri og var hlutverk hennar meðal annars að undirbúa stofnun Fjölmenningarsetursins. Sérstakur ráðgjafahópur var skipaður til að vera framkvæmdastjóra til stuðnings í starfi og stefnumótun, vera honum til ráðuneytis og skapa honum nauðsynleg tengsl við félagsmálaráðuneytið og aðra aðila sem tilnefna fulltrúa í hópinn, þ.e. Vinnumálastofnun, Fjórðungssamband Vestfirðinga, Rauða kross Íslands og Rætur, félag um menningarfjölbreytni á Vestfjörðum. Hópurinn hefur haldið að jafnaði fundi ársfjórðungslega.
Eftirtaldir skipa ráðgjafahópinn:
* Ásta Sigrún Helgadóttir, fulltrúi félagsmálaráðuneytis og formaður ráðgjafahópsins,
* Guðrún Stella Gissurardóttir, fulltrúi Svæðisvinnumiðlunar Vestfjarða,
* Hörður Högnason, fulltrúi Rauða kross Íslands,
* Ingimar Halldórsson, fulltrúi Fjórðungssambands Vestfirðinga,
* Roland Smelt, fulltrúi Róta.
Helstu verkefni Fjölmenningarsetursins hafa verið rekstur skrifstofu í Þróunarsetri Vestfjarða á Árnagötu 2–4 á Ísafirði. Setrið hefur starfrækt upplýsingaþjónustu fyrir innflytjendur sem fyrst og fremst hefur beinst að því að miðla upplýsingum um lög og reglur er varða dvalar- og atvinnuleyfi og almennt um þjónustu hins opinbera, s.s. heilsugæslu, þjónustu sveitarfélaganna, upplýsingar um túlkun o.s.frv. Einnig hefur verið rekinn þjónustusími á landsvísu frá 6. júní 2002 fyrir fólk af erlendum uppruna. Verkefnið er samstarfsverkefni Fjölmenningarseturs, rauðakrossdeildanna á norðanverðum Vestfjörðum og Austfjörðum og Rauða kross Íslands. Þjónustan á ensku, pólsku og serbnesku/króatísku hefur aðsetur í húsnæði Fjölmenningarseturs á Ísafirði en þjónustan á tælensku hefur aðsetur á Stöðvarfirði á skrifstofu Rauða krossins. Símsvörunarþjónustan á tælensku var opnuð á Þjóðahátíð Austfirðinga 28. september 2002. Meðal annarra verkefna má nefna heimasíðu, þýðingu frétta og tilkynninga á erlend tungumál, íslenskukennslu, æskulýðsstarf o.fl.
Fjármálaráðuneyti.
Þál. 36/126 um áhrif lækkunar á endurgreiðslu virðisaukaskatts, frá 20. maí 2001 – þskj. 1506.
Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að gangast fyrir sérstakri úttekt á áhrifum lækkunar á endurgreiðslu virðisaukaskatts úr 100% í 60% til byggjenda íbúðarhúsnæðis vegna vinnu manna á byggingarstað og til eigenda íbúðarhúsnæðis vegna viðhaldsvinnu. Í úttekt þessari verði m.a. lagt mat á hvort lækkun endurgreiðslunnar hafi aukið tekjur ríkissjóðs eins og vonast var til, hvort og/eða hversu mikið svört atvinnustarfsemi á þessu sviði hafi aukist og hvort ástæða sé til þess að hækka endurgreiðsluhlutfallið á nýjan leik og bæta aðgang að endurgreiðslum.
Stefnt skal að því að niðurstöður verði lagðar fyrir Alþingi á næsta þingi.
Í þingsályktun, sem samþykkt var á Alþingi 20. maí 2001, var fjármálaráðherra falið að gangast fyrir sérstakri úttekt á áhrifum lækkunar á endurgreiðslu virðisaukaskatts úr 100% í 60% til byggjenda íbúðarhúsnæðis vegna vinnu manna á byggingarstað og til eigenda íbúðarhúsnæðis vegna viðhaldsvinnu. Í úttekt þessari yrði m.a. lagt mat á hvort lækkun endurgreiðslunnar hefði aukið tekjur ríkissjóðs eins og vonast var til, hvort og/eða hversu mikið svört atvinnustarfsemi á þessu sviði hefði aukist og hvort ástæða væri til þess að hækka endurgreiðsluhlutfallið á nýjan leik og bæta aðgang að endurgreiðslum.
Í kjölfar þingsályktunarinnar var settur á laggirnar starfshópur, skipaður tveimur starfsmönnum fjármálaráðuneytisins og tveimur starfsmönnum frá embætti ríkisskattstjóra. Niðurstaða starfshópsins er í formi 15 bls. skýrslu sem fjármálaráðherra lagði fyrir Alþingi 17. október 2002 (þskj. 206 – 203. mál) 1 . Í skýrslunni er farið yfir þau atriði sem tilgreind eru í þingsályktuninni.
Sjá: www.althingi.is/altext/128/s/0206.html
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.
Þál. 34/126 um heilbrigðisáætlun til 2010, frá 20. maí 2001 – þskj. 1469.
Alþingi ályktar að stefna í heilbrigðismálum á Íslandi fram til ársins 2010, sem hefur það að markmiði að bæta heilsufar þjóðarinnar, skuli byggjast á eftirfarandi stefnumiðum:
Sjá lista yfir stefnumið áætlunarinnar flokkuð eftir helstu verkefnum og meginþáttum á vef Alþingis: www.althingi.is/altext/126/s/1458.html
Framkvæmd heilbrigðisáætlunar til 2010
Inngangur
Yfirumsjón með framkvæmd heilbrigðisáætlunarinnar er á hendi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins í samvinnu við landlæknisembættið. Við framkvæmd heilbrigðisáætlunarinnar hefur verið komið á fót samráðshópum jafnframt því sem náið samstarf er haft við ýmsa sérfróða aðila, samstarfsráð og nefndir á vegum heilbrigðisstjórnarinnar.
Stýrihópur
Komið hefur verið á laggirnar sérstökum stýrihóp innan ráðuneytisins og er hann hugsaður sem eins konar samráðsvettvangur um framkvæmd heilbrigðisáætlunarinnar.
Samráðshópar vegna forgangsverkefna
Á eftirtöldum sjö sviðum starfa sérstakir verkefna- eða faghópar:
* Áfengis-, vímuefna- og tóbaksvarnir
* Börn og ungmenni
* Eldri borgarar
* Geðheilbrigði
* Hjarta- og heilavernd
* Krabbameinsvarnir
* Slysavarnir
Starfshættir
Stýrihópurinn heldur a.m.k. árlega eða oftar, ef þurfa þykir, fundi með hverjum hinna ofangreindu samráðshópa. Til annarra sérfróðra aðila er leitað þegar ástæða þykir til. Meginverkefni stýrihópsins er að leggja línurnar um hvernig best verði unnið að markmiðum heilbrigðisáætlunarinnar. Þannig er ætlunin að stuðlað sé að því að heilbrigðisáætlunin verði ávallt lögð til grundvallar við verkefnaval heilbrigðisþjónustunnar og fjárlagagerð á næstu árum.
Skýrslugerð
Árlega verður gefin út skýrsla um stöðu og framkvæmd áætlunarinnar. Fyrsta skýrslan verður gefin út á árinu 2003. Á árinu 2005 er gert ráð fyrir að allir meginþættir og mælikvarðar áætlunarinnar verði endurskoðaðir.
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.
Þál. 3/125 um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun, frá 21. desember 1999 – þskj. 521.
Á grundvelli fyrirliggjandi skýrslu um umhverfisáhrif Fljótsdalsvirkjunar, greinargerðar um orkuöflun fyrir álver í Reyðarfirði, skýrslu um þjóðhagsleg áhrif álversins og athugunar á samfélagslegum áhrifum þess lýsir Alþingi yfir stuðningi við að haldið verði áfram framkvæmdum við Fljótsdalsvirkjun, sbr. lög um raforkuver, nr. 60/1981, samning ríkisstjórnar Íslands og Landsvirkjunar, dags. 11. ágúst 1982, og lög um Landsvirkjun, nr. 42/1983.
Þingsályktunin fól í sér yfirlýsingu Alþingis um stuðning við framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun og krafðist ekki frekari aðgerða af hálfu ráðuneytisins enda fallið frá hinum fyrirhuguðu virkjanaframkvæmdum.
Þál. 20/125 um setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði, frá 9. maí 2000 – þskj. 1336.
Alþingi ályktar að fela viðskiptaráðherra að kanna hvort stofnanir og fyrirtæki á fjármálamarkaði hafi sett sér siðareglur í samræmi við tilmæli framkvæmdastjórnar ESB frá 25. júlí 1977 um siðareglur Evrópubandalaganna um viðskipti með framseljanleg verðbréf (77/534/EBE) og almennt viðurkenndar meginreglur FIBV (Alþjóðasambands kauphalla) um viðskiptahætti í verðbréfaviðskiptum frá 1992. Ráðherra skili Alþingi skýrslu um niðurstöðu könnunarinnar í upphafi haustþings.
Viðskiptaráðherra skilaði Alþingi skýrslu um siðareglur í viðskiptum á fjármagnsmarkaði á 126. löggjafarþingi 2000–2001, þskj. 121, 121. mál. Helstu niðurstöður skýrslunnar voru þær að fjármálafyrirtæki töldu almennt að þau uppfylltu þær reglur um heiðarlega og eðlilega viðskiptahætti sem kveðið er á um í tilmælum framkvæmdastjórnar ESB frá 25. júlí 1977 og í almennt viðurkenndum meginreglum FIBV frá 1992. Þau töldu að siðareglur Verðbréfaþings Íslands nr. 5 frá l. júlí 1999 og verklagsreglur á grunni 15. og 21. gr. laga um verðbréfaviðskipti tækju með fullnægjandi hætti mið af ofangreindum tilmælum ESB og meginreglum FIBV en höfðu fæst sett sér sérstakar siðareglur aðrar en þær sem leiða af reglum VÞÍ og verðbréfaviðskiptalögum. Í skýrslunni voru rakin tilmæli ESB og meginreglur FIBV og ákvæði um heiðarlega og eðlilega viðskiptahætti í íslenskum lögum. Jafnframt fylgdu með skýrslunni svör fjármálafyrirtækja við fyrirspurn ráðuneytisins.
Þál. 25/126 um tilraunir með brennsluhvata, frá 15. maí 2001 – þskj. 1361.
Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að láta fara fram ítarlegar tilraunir og úttekt á umhverfis- og brennsluáhrifum brennsluhvata. Niðurstöður þeirrar úttektar verði gerðar opinberar fyrir 1. júlí 2002.
Í kjölfar ályktunarinnar fór ráðuneytið þess á leit við Iðntæknistofnun að stofnunin gerði tillögu að tilraun og úttekt á umhverfis- og brennsluáhrifum brennsluhvata ásamt kostnaðaráætlun. Við undirbúning stofnunarinnar kom í ljós að tilraun með brennsluhvata hafði farið fram hér á landi auk ýmissa tilrauna víða um heim. Töldu þeir aðilar sem flytja inn slíka brennsluhvata ekki þörf á frekari tilraunum og voru ekki tilbúnir að taka þátt í slíkum rannsóknum. Ráðuneytið taldi því ekki ástæðu til frekari aðgerða vegna þingsályktunarinnar.
Menntamálaráðuneyti.
Þál. 17/125 um könnun á læsi fullorðinna, frá 9. maí 2000 – þskj. 1286.
Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að láta fara fram könnun á læsi Íslendinga. Könnunin verði gerð á árunum 2000 og 2001 og taki til aldurshópanna 18–67 ára. Við undirbúning og framkvæmd verði haft samráð við aðila vinnumarkaðarins.
Menntamálaráðuneytið skipaði starfshóp 8. mars 2002. Skilgreint hlutverk starfshópsins var að:
a. Benda á leiðir til þess að ná til fullorðins fólks sem á við lestrar- og skriftarörðugleika að etja.
b. Gera áætlun um hvernig koma megi þessum aðilum til aðstoðar við að vinna bug á ólæsinu.
c. Skilgreina hvaða aðilar það eru sem koma þurfa að þessu átaki.
d. Meta kostnað við átak gegn ólæsi fullorðinna.
Starfshópinn skipuðu
Formaður starfshópsins var Sigrún Jóhannesdóttir, án tilnefningar, Emil B. Karlsson, tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins, Inga Sigurðardóttir, tilnefnd af verkefnisstjórn um símenntun, Ingibjörg E. Guðmundsdóttir tilnefnd af ASÍ, Jón Torfi Jónasson, tilnefndur af Félagsvísindadeild HÍ, Margrét Gunnarsdóttir, tilnefnd af félagsmálaráðuneytinu, Rannveig Lund, tilnefnd af KHÍ, og Þorbjörg Jónsdóttir, tilnefnd af Námsflokkum Reykjavíkur.
Vinna hófst í apríl 2002 með söfnun upplýsinga um eðli og umfang vandans hérlendis og þau úrræði sem beitt er í þeim löndum sem við berum okkur almennt saman við. Haldnir voru 11 nefndarfundir auk nokkurra vinnufunda. Auk þess unnu nefndarmenn talsvert á milli funda. Hinn 31. október 2002 skilaði nefndin af sér niðurstöðum og tillögum til ráðherra.
Helstu niðurstöður
Fólk er mjög misvel læst og er lestrarfærni skipt samkvæmt svonefndri PISA-könnun í sex mismunandi þrep. Samkvæmt þeirri skiptingu má gera ráð fyrir að 8% eða rúmlega 15 þúsund Íslendingar á aldrinum 15–65 ára eigi við mjög mikla eða umtalsverða lestrarörðugleika að stríða. Þetta er sá hópur sem tillögur starfshópsins snúast fyrst og fremst um. Til viðbótar þeim eiga um 20 þúsund Íslendingar í nokkrum vandræðum með starf, endurmenntun eða eðlilegan hreyfanleika í atvinnulífinu vegna lítillar lestrarfærni. Í könnuninni er gert ráð fyrir því að lítil lestrarfærni hái nálægt 35 þúsund einstaklingum á aldrinum 15–65 ára.
Tillögur til úrbóta
Til þess að taka á þeim vanda sem lítil lestrarfærni er leggur starfshópurinn til:
a. Að sett verði lög um greiningu og sérkennslu fyrir fullorðna til að draga úr þeim vanda sem fylgir lítilli lestrarfærni.
b. Að stofnuð verði læsismiðstöð til að m.a. stýra sameiginlegum verkefnum tengdum úrræðunum.
c. Nefndin telur mikilvægt að byggð verði upp sérfræðiþekking á 10–12 stöðum á landinu við stofnanir sem fyrir eru og litið á þær sem nokkuð sjálfstæðar útstöðvar læsismiðstöðvar. Í þessum útstöðvum fer fram greining, ráðgjöf, kennsla og hvatning fyrir þá sem bæta vilja lestrarfærni sína. Lagt er til að útstöðvunum verði valinn staður hjá núverandi 8 símenntunarstöðvum á landsbyggðinni og á 2–4 stöðum á höfuðborgarsvæðinu og nýtt verði sem best sú þekking og reynsla sem þegar er fyrir hendi.
Kostnaður
Samkvæmt kostnaðaráætlun er kostnaður áætlaður á bilinu 17 milljónir kr. til 22 milljónir kr. á ári, misjafnt eftir árum eða samtals um 99 milljónir kr. á fimm ára tímabili.
Stutt er síðan starfshópurinn lauk störfum og eru tillögur hans til skoðunar í ráðuneytinu.
Þál. 18/125 um varðveislu báta og skipa, frá 9. maí 2000 – þskj. 1317.
Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa tillögur um hvernig skuli staðið að varðveislu gamalla skipa og báta sem eru mikilsverðar minjar um atvinnu- og byggðasögu. Í því sambandi verði mótaðar reglur um fjármögnun, sem m.a. Þróunarsjóður sjávarútvegsins taki þátt í, og varðveislugildi báta og skipa skilgreint.
Í kjölfar ályktunarinnar skipaði menntamálaráðuneytið nefnd sem í eiga sæti Þorgeir Ólafsson, sem er formaður, Ágúst Georgsson, fulltrúi Þjóðminjasafnsins, Hildur Lilliendahl, fulltrúi sjávarútvegsráðuneytisins, og Guðbrandur Jónsson, fulltrúi Félags fornbátaeigenda. Nefndin hefur fundað nokkrum sinnum og átt viðræður við fulltrúa Siglingastofnunar. Í apríl sl. sendi formaður nefndarinnar minnisblað til ráðherra til að bera undir hann hugmyndir sem liggja fyrir og til að fá úr því skorið hvort hún eigi að halda áfram og útfæra þær nánar eða leita nýrra leiða.
Tillögur nefndarinnar eru í helstu dráttum eftirfarandi:
a. Heimilt verði að friðlýsa gamla báta í neyðartilvikum.
b. Leita þurfi álits „skipavarðveislunefndar“ um stórvægilegar breytingar, förgun eða sölu gamalla báta úr landi, t.d. öllum sem smíðaðir eru fyrir 1940.
c. Í þjóðminjalögum verði nánari ákvæði um meðferð og varðveislu gamalla báta og skipsflaka.
d. Stofnaður verði skipavarðveislusjóður með framlögum úr ríkissjóði og lágu gjaldi á alla haffæra báta.
e. Skipavarðveislunefnd verði sett á laggirnar til að sjá um ofangreind efni.
f. Eigendum gamalla báta verði gert auðveldara að hirða um þá með lækkun opinberra gjalda gegn því að notkun bátanna verði takmörkum háð (sumarsiglingar, ekki í atvinnuskyni o.s.frv.).
Framangreindar hugmyndir taka að nokkru mið af norskum lögum, einkum hvað varðar ákvæði um friðlýsingu báta. Það mun hvergi vera heimilt nema í Noregi. Skipavarðveislunefnd og störf hennar væri sniðin eftir húsafriðunarnefnd nema ekki væri gert ráð fyrir eins miklum umsvifum. Víða í nágrannalöndum okkar njóta eigendur merkra báta fríðinda hvað snertir opinber gjöld og viðhald bátanna og mun ESB vera að undirbúa reglur í þeim efnum.
Afstaða ráðuneytisins til tillagnanna liggur ekki fyrir enn sem komið er.
Þál. 33/126 um textun íslensks sjónvarpsefnis, frá 19. maí 2001 – þskj. 1465.
Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að stuðla að því að íslenskt sjónvarpsefni verði textað eftir því sem við verður komið til hagsbóta fyrir heyrnardauft fólk sem við núverandi aðstæður á erfitt með að fylgjast með íslensku efni í sjónvarpi.
Menntamálaráðuneytið kom þingsályktunartillögunni á framfæri við Ríkisútvarpið, Íslenska útvarpsfélagið og Íslenska sjónvarpsfélagið með bréfum, dags. 31. ágúst og 10. september 2001. Þar óskaði menntamálaráðuneytið upplýsinga um hvernig þessum málum væri háttað hjá sjónvarpsstöðvunum. Ráðuneytið ítrekaði þessi bréf með bréfum 10. janúar á þessu ári, og óskaði eftir því að í upplýsingunum kæmu einnig fram kostnaðartölur vegna textunar á íslensku sjónvarpsefni sem og upplýsingar um hlutfall textaðs efnis eftir flokkum. Svör bárust frá Ríkisútvarpinu og Íslenska útvarpsfélaginu.
Í svari Ríkisútvarpsins kom fram að á árinu 2001 voru frumsýndar um 625 mínútur af innlendu efni sem textað var á síðu 888 í textavarpinu. Á árinu 2001 var kostnaður hjá Ríkisútvarpinu við textun innlends efnis og táknmálsfréttir tæpar 2,8 millj. kr. Í svarbréfi Ríkisútvarpsins kom einnig fram að gert væri ráð fyrir auknum kostnaði við textun í fjárhagsáætlun fyrir þetta ár.
Menntamálaráðuneytið óskaði þá eftir yfirliti yfir textað íslenskt efni í Sjónvarpinu á þessu ári auk skýringa á því í hverju aukinn kostnaður við textun í fjárhagsáætlun fyrir árið 2002 liggur. Í svari Ríkisútvarpsins kemur fram að á þessu ári er áætlað að frumsýndar verði um 1.100 mínútur af innlendu efni sem textað er á síðu 888. Á árinu 2002 er gert ráð fyrir að alls fari 3,3 millj. kr. til textunar á síðu 888 og táknmálsfrétta. Kostnaður vegna textunar og táknmálsfrétta hefur því aukist um 19% á milli ára hjá Ríkisútvarpinu. Miðað við þessar upplýsingar er áætlað að textað íslenskt efni í Sjónvarpinu aukist um 58% á milli áranna 2001–2002.
Í svari Íslenska útvarpsfélagsins kom fram að íslenskt sjónvarpsefni á sjónvarpsstöðvum fyrirtækisins er ekki textað.
Í janúar á þessu ári átti fyrrerandi menntamálaráðherra fund með forsvarsmönnum Heyrnarhjálpar um textun á íslensku sjónvarpsefni. Í kjölfar þess fundar sendi ráðuneytið fulltrúa sinn á norrænan fund í Gautaborg þar sem fjallað var um textun á sjónvarpsefni fyrir heyrnarskerta.
Haldið var Textaþing 2. nóvember sl. Að þinginu stóðu félagið Heyrnarhjálp, Landssamband eldri borgara, Félag heyrnarlausra, fjölmenningarráð og Foreldra- og styrktarfélag heyrnardaufra barna. Á þinginu var fjallað um hvernig hægt er að tryggja betra aðgengi að íslensku efni í sjónvarpi og íslenskum kvikmyndum. Menntamálaráðherra flutti ávarp á Textaþinginu þar sem m.a. kom fram að hann hygðist beita sér fyrir því að textun á íslensku efni hjá Ríkisútvarpinu yrði aukin enn frekar til hagsbóta fyrir heyrnardaufa.
Samgönguráðuneyti.
Þál. 14/125 um flugmálaáætlun 2000–2003, frá 8. maí 2000 – þskj. 1193.
Alþingi ályktar að framkvæmdum í flugmálum og rekstri flugvalla skuli hagað samkvæmt eftirfarandi flugmálaáætlun fyrir árin 2000–2003.
Flugmálastjórn fer með framkvæmd þingsályktunar um flugmálaáætlun. Vísað er til skýrslu samgönguráðherra um framkvæmd flugmálaáætlunar 2000, þskj. 1106, sem dreift var á 127. löggjafarþingi Alþingis. Þar er að finna umbeðnar upplýsingar um framkvæmd þingsályktunarinnar.
Þál. 23/125 um vegáætlun fyrir árin 2000–2004, frá 13. maí 2000 – þskj. 1409.
Alþingi ályktar, samkvæmt V. kafla vegalaga, nr. 45/1994, að árin 2000–2004 skuli framkvæmdum í vegamálum hagað og vegir flokkaðir samkvæmt eftirfarandi vegáætlun.
Vegagerðin fer með framkvæmd þingsályktunar um vegáætlun. Vísað er til skýrslu samgönguráðherra um framkvæmd vegáætlunar 2000, þskj. 1367 sem dreift var á vorþingi 2001 og skýrslu samgönguráðherra um framkvæmd vegáætlunar 2001, þskj. 1291 sem dreift var á vorþingi 2002. Þar er að finna umbeðnar upplýsingar um framkvæmd þingsályktunarinnar.
Þál. 24/125 um jarðgangaáætlun 2000–2004, frá 13. maí 2000 – þskj. 1410.
Alþingi ályktar að á árunum 2000–2004 skuli varið 4.650 millj. kr. til að grafa jarðgöng sem hluta af vegakerfi landsins. Fyrstu verkefnin sem framkvæma skal eru jarðgöng milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar annars vegar og milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar hins vegar. Jafnframt verði hafinn undirbúningur að næstu verkefnum. Sérstaklega verði rannsökuð göng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar á Vestfjörðum og á Austfjörðum ný göng milli Eskifjarðar og Norðfjarðar og göng milli Héraðs og Vopnafjarðar.
Vísað er til skýrslu samgönguráðherra um framkvæmd vegáætlunar 2000, þskj. 1367, sem dreift var á vorþingi 2001 og skýrslu samgönguráðherra um framkvæmd vegáætlunar 2001, þskj. 1291, sem dreift var á vorþingi 2002. Þar er að finna umbeðnar upplýsingar um framkvæmd þingsályktunarinnar.
Þál. 1/126 um ferjuaðstöðu við Bakkafjöru undan Vestmannaeyjum, frá 5. desember 2000 – þskj. 437.
Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að hlutast til um við Siglingastofnun Íslands að hún hefji sem fyrst rannsóknir á ferjuaðstöðu við Bakkafjöru og öðrum aðstæðum í tengslum við ferjuleið frá Vestmannaeyjum að Bakkafjöru.
Í þingsályktunartillögunni var gert ráð fyrir að undirbúningsrannsóknir taki a.m.k. þrjú ár og var kostnaður áætlaður um 10 millj. kr. í þrjú ár. Siglingastofnun sótti um 10 millj. kr. á fjárlögum fyrir árið 2002 sem ekki gekk fram. Vinna Siglingastofnunar hefur því verið takmörkuð við vinnu sem unnin var fyrir rannsóknafé stofnunarinnar.
Undirbúningur að rannsóknum á ferjuaðstöðunni hófst á því að safnað var saman öllum tiltækum gögnum um dýptarmælingar á stafrænu formi undan Bakkafjöru og við Vestmannaeyjar. Þá hefur verið unnið að öldufarsreikningum á siglingaleiðinni milli lands og Eyja og til Þorlákshafnar. Samið hefur verið við Vestmannaeyjahöfn um reglulegar dýptarmælingar við Bakkafjöru til að fylgjast með botnbreytingum undan Bakkafjöru. Í haust var fyrsta dýptarmælingin gerð. Talið er nauðsynlegt að kanna breytingar á sandrifjum með dýptarmælingum vetur, sumar, vor og haust á tímabilinu 2002–2006. Samgönguráðherra skipaði starfshóp 3. maí 2002 til að fjalla um samgöngur til Vestmannaeyja með þarfir fólks og atvinnulífs í huga. Hlutverk starfshópsins felst m.a. í gerð úttektar á hinum ýmsum kostum sem mögulegir eru til flugs og siglinga milli lands og Vestmannaeyja í samanburði við þá þjónustu sem boðið er upp á í dag. Má þar nefna m.a. hugmyndir um uppbyggingu í Bakkafjöru, rekstur svifnökkva eða annarra nýrra aðferða. Sú undirbúningsvinna, sem þegar hefur verið unnin við rannsóknir við Bakkafjöruna, mun nýtast starfshópnum við mat á hinum ýmsu kostum sem til greina koma við úrbætur á samgöngum til Vestmannaeyja.
Þál. 27/126 um sjóvarnaáætlun 2001–2004, frá 19. maí 2001 – þskj. 1449.
Alþingi ályktar skv 4. gr. laga um sjóvarnir, nr. 28/1997, að árin 2001–2004 skuli framkvæmdum við sjóvarnir hagað samkvæmt eftirfarandi sjóvarnaáætlun.
Siglingastofnun fer með framkvæmd þingsályktunar um sjóvarnaáætlun og vinnur að henni í samráði við sveitarfélög. Vísað er til skýrslu samgönguráðherra um hafnarframkvæmdir 2001, þskj. 1358, sem dreift var á vorþingi 2002. Þar er að finna upplýsingar um framkvæmd sjóvarnaáætlunar 2001. Áætlað er að skila skýrslu um framvindu þingsályktunar um sjóvarnaáætlun 2002 á næsta vorþingi.
Þál. 28/126 um hafnaáætlun 2001–2004, frá 19. maí 2001 – þskj. 1450.
Alþingi ályktar skv. 24. gr. hafnalaga, nr. 23/1994, að árin 2001–2004 skuli framkvæmdum í hafnamálum hagað samkvæmt eftirfarandi hafnaáætlun.
Siglingastofnun fer með framkvæmd þingsályktunar um hafnaáætlun og vinnur að henni í samráði við hafnarsjóði og sveitarfélög. Vísað er til skýrslu samgönguráðherra um hafnarframkvæmdir 2001, þskj. 1358 sem dreift var á vorþingi 2002. Þar er að finna helstu upplýsingar um framkvæmd hafnaáætlunar 2001. Áætlað er að skila skýrslu um framvindu þingsályktunar um hafnaáætlun 2002 á næsta vorþingi.
Þál. 29/126 um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda, frá 19. maí 2001 – þskj. 1458.
Alþingi ályktar að á árunum 2001 til 2003 skuli gert átak í öryggismálum sjófarenda. Markmið átaksins verði að treysta öryggi íslenskra skipa og áhafna þeirra sem og farþega á íslenskum skipum og skipum sem sigla í íslenskri efnahagslögsögu samkvæmt eftirfarandi áætlun. Stefnt verði að því að skilgreina hlutverk þeirra sem vinna að öryggismálum sjófarenda og að slysum til sjós fækki um að minnsta kosti þriðjung fram til ársins 2004 og að sama skapi dragi úr tjóni vegna sjóslysa. Samgönguráðherra skal fyrir 1. apríl hvers árs, fyrst árið 2002, leggja fyrir Alþingi skýrslu um framgang áætlunar í öryggismálum sjómanna og hvernig henni miðar í átt að settu marki.
Þál. fylgir tafla yfir helstu verkefni árin 2001, 2002 og 2003 ásamt áætlaðri ráðstöfun fjárframlags hvers árs. Sjá: www.althingi.is/altext/126/s/1458.html
Eins fram kemur í þingsályktunartillögunni skal samgönguráðherra fyrir l. apríl ár hvert leggja fyrir Alþingi skýrslu um framgang ályktunarinnar. Vísað er til fyrstu skýrslu samgönguráðherra um framkvæmd langtímaáætlunar í öryggismálum sjófarenda fyrir árin 2001–2003, þskj. 1108, sem lögð fyrir Alþingi í mars 2002. Áætlað er að skila næstu skýrslu um framvindu þingsályktunar um framkvæmd langtímaáætlunar í öryggismálum sjófarenda fyrir árin 2001–2003 á næsta vorþingi.
Sjávarútvegsráðuneyti.
Þál. 35/126 um könnun á áhrifum fiskmarkaða, frá 20. maí 2001 – þskj. 1471.
Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að skipa nefnd sem hafi það hlutverk að gera úttekt á gildi fiskmarkaða fyrir íslenskan sjávarútveg og atvinnuþróun. Nefndin afli gagna, beri saman aðstæður og leggi þannig mat á áhrif fiskmarkaða, m.a. með tilliti til:
1. brottkasts,
2. verðmyndunar sjávarafla,
3. tekna útgerðar,
4. tekna sjómanna,
5. sérhæfingar í fiskvinnslu,
6. nýtingar áður vannýttra fisktegunda,
7. umgengni um og frágangs á afla um borð í fiskiskipum,
8. aðgengis fiskvinnslunnar að hráefni,
9. möguleika á nýliðun í fiskvinnslu,
10. erlendra markaða fyrir sjávarafla,
11. erlendra markaða fyrir sjávarafurðir,
12. verðs á útfluttum sjávarafurðum,
13. flutnings á afla innan lands,
14. stöðugleika í fiskvinnslu,
15. byggðaþróunar.
Hinn 23. nóvember 2001 skipaði Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra nefnd sem hafði það hlutverk að gera úttekt á gildi fiskmarkaða og áhrifum þeirra á íslenskan sjávarútveg og atvinnuþróun.
Í nefndina voru skipaðir:
* Arnar Sigurmundsson, formaður Samtaka fiskvinnslustöðva og tilnefndur af þeim,
* Arthúr Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda og tilnefndur af því,
* Árni Múli Jónasson aðstoðarfiskistofustjóri, tilnefndur af Fiskistofu,
* Benedikt Valsson, framkvæmdastjóri Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og tilnefndur af því, en síðar var Guðjón Ármann Einarsson skipaður í hans stað.
* Bjarni Áskelsson, framkvæmdastjóri Samtaka uppboðsmarkaða og tilnefndur af þeim,
* Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna og tilnefndur af því,
* Helgi Laxdal, formaður Vélstjórafélags Íslands og tilnefndur af því,
* Hólmgeir Jónsson, framkvæmdastjóri Sjómannasambands Íslands og tilnefndur af því,
* Óskar Þór Karlsson, framkvæmdastjóri Ísfisks, tilnefndur af Samtökum fiskvinnslu án útgerðar.
Eftirtaldir aðilar voru skipaðir án tilnefningar
* Alda Möller matvælafræðingur,
* Arnbjörg Sveinsdóttir alþingismaður,
* Arndís Ármann Steinþórsdóttir, skrifstofustjóri í sjávarútvegsráðuneytinu,
* Halldór Jónsson framkvæmdastjóri, Fiskvinnslunni Ísfirðingi,
* Kristján Pálsson alþingismaður og er hann formaður nefndarinnar,
* Magnús Stefánsson alþingismaður,
* Sigríður Ingvarsdóttir alþingismaður,
* Svanfríður Jónasdóttir alþingismaður,
* Valgerður Sigurðardóttir, forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar.
Sökum þess hve fjölmenn nefndin var ákvað sjávarútvegsráðherra að innan hennar skyldi starfa sérstök framkvæmdanefnd. Formaður hennar var Kristján Pálsson og aðrir í henni Arndís Ármann Steinþórsdóttir og Magnús Stefánsson. Alda Möller var starfsmaður nefndarinnar.
Störf nefndanna
Framkvæmdanefndin hefur haldið 14 fundi. Hún hefur auk þeirra ferðast víða um land til að kynna sér starfsemi fiskmarkaða. Innan lands hafa í allt verið heimsóttar þrettán starfsstöðvar fiskmarkaða og 36 fyrirtæki sem eiga viðskipti við markaðina. Flest fyrirtækjanna eru kaupendur en allmörg þeirra eru jafnframt seljendur á fiskmörkuðum. Þá hefur verið rætt við bæjarstjóra Snæfellsbæjar, forstöðumann Verðlagsstofu skiptaverðs og forsvarsmenn fyrirtækis er annast umsvifamikla landflutninga með fisk sem seldur er á fiskmörkuðum. Auk framangreindra heimsókna framkvæmdanefndar hefur hún fengið til sín á fundi fulltrúa tveggja fyrirtækja og haft símafund með einum útgerðarmanni sem staddur var á hafi úti. Framkvæmdanefndin fór kynnisferð á fiskmarkaðina í Hull og Grimsby í Englandi og heimsótti auk þess sex bresk fyrirtæki sem eiga viðskipti við fiskmarkaði sem og tvö íslensk markaðsfyrirtæki. Starfsmaður framkvæmdanefndarinnar fór á fiskmarkað Færeyja. Þá aflaði nefndin gagna frá fiskmarkaðinum í Bremerhaven.
Fiskmarkaðsnefndin hefur haldið 10 fundi. Á fyrstu fundunum í desember 2001 og febrúar 2002 voru afhent ýmis gögn sem framkvæmdanefndin hafði safnað og kynntu nefndarmenn viðhorf sín til verkefnisins, ýmist munnlega eða með greinargerðum og minnispunktum. Á fundi í lok september lagði framkvæmdanefndin fram skýrslu sína um starfsemi fiskmarkaða og hefur síðan í október fjallað um tillögur til úrbóta. Gert er ráð fyrir að nefndin ljúki starfi sínu í desember 2002.
Utanríkisráðuneyti.
Þál. 1/125 um fullgildingu viðbótarsamnings við samning um flutning dæmdra manna, 14. desember 1999 – þskj. 415.
Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd viðbótarsamning við samning frá 21. mars 1983 um flutning dæmdra manna sem gerður var í Strassborg 18. desember 1997.
Viðbótarsamningurinn var fullgiltur af Íslands hálfu 25. maí 2000 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. september 2000.
Þál. 2/125 um aðild að samningi um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu (CITES), 14. desember 1999 – þskj. 416.
Alþingi ályktar að heimila að Ísland gerist aðili að samningi um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu sem gerður var í Washington 3. mars 1973 ásamt breytingum sem gerðar voru á honum í Bonn 22. júní 1979 og í Gaborone 30. apríl 1983.
Ísland gerðist aðili að samningnum ásamt breytingunum 3. janúar 2000 og öðluðust samningurinn og breytingin frá 22. júní 1979 gildi að því er Ísland varðar 2. apríl 2000. Breytingin frá 30. apríl 1983 hefur enn ekki öðlast gildi.
Þál. 4/125 um aðild að Haagsamningi um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingu milli landa, 21. desember 1999 – þskj. 544.
Alþingi ályktar að heimila að Ísland gerist aðili að Haagsamningi um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingu milli landa sem gerður var í Haag 29. maí 1993.
Ísland gerðist aðili að samningnum 17. janúar 2000 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. maí 2000.
Þál. 6/125 um fullgildingu samnings sem ráð Evrópusambandsins og lýðveldið Ísland og konungsríkið Noregur gera með sér um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna, 22. mars 2000 – þskj. 799.
Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning sem ráð Evrópusambandsins og lýðveldið Ísland og konungsríkið Noregur gera með sér um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna sem undirritaður var í Brussel 18. maí 1999.
Samningurinn var fullgiltur af Íslands hálfu 26. maí 2000 og öðlaðist gildi 26. júní 2000.
Þál. 7/125 um fullgildingu bráðabirgðasamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Frelsissamtaka Palestínu (PLO) fyrir hönd Þjóðarráðs Palestínu, 3. apríl 2000 – þskj. 905.
Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd bráðabirgðasamning milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Frelsissamtaka Palestínu (PLO) fyrir hönd Þjóðarráðs Palestínu sem undirritaður var í Leukerbad 30. nóvember 1998.
Samningurinn var fullgiltur af Íslands hálfu 18. ágúst 2000 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. nóvember 2000.
Þál. 8/125 um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2000, 4. maí 2000 – þskj. 1143.
Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2000 sem gengið var frá með orðsendingaskiptum í Reykjavík og Þórshöfn 2. og 22. febrúar 2000.
Samningurinn, sem gildir aðeins, fyrir árið 2000, öðlaðist gildi til bráðabirgða 22. febrúar 2000. Hann var staðfestur af Íslands hálfu 13. júní 2000 en honum var ekki veitt formlegt gildi.
Þál. 9/125 um staðfestingu samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2000, 4. maí 2000 – þskj. 1144.
Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd eftirtalda samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2000 sem gerðir voru í Þórshöfn 20. október 1999:
1. Sameiginlega bókun um niðurstöður fiskveiðiviðræðna um stjórnun veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum í Norðaustur-Atlantshafi á árinu 2000.
2. Bókun um sérstakar verndunarráðstafanir með tilliti til stjórnunar veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2000.
3. Samning milli Íslands og Færeyja um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2000.
4. Samkomulag milli Íslands og Noregs um veiðiheimildir innan efnahagslögsögu Íslands, efnahagslögsögu Noregs og fiskveiðilögsögu Jan Mayen á árinu 2000.
5. Samkomulag milli Íslands og Rússneska sambandsríkisins um veiðiheimildir innan efnahagslögsögu Íslands á árinu 2000.
Framangreindum samningum, sem giltu aðeins fyrir árið 2000, var beitt til bráðabirgða frá 1. janúar 2000. Þeir voru staðfestir af Íslands hálfu 13. júní 2000 en þeim var ekki veitt formlegt gildi.
Þál. 10/125 um staðfestingu breytinga á stofnsamningi Evrópustofnunar fjarskipta um gervitungl, EUTELSAT, frá 4. maí 2000 – þskj. 1145.
Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir hönd Íslands breytingar á stofnsamningi Evrópustofnunar fjarskipta um gervitungl, EUTELSAT, sem gerðar voru í Cardiff 19. maí 1999.
Breytingarnar voru staðfestar af Íslands hálfu 9. október 2000 og öðluðust gildi 28. nóvember 2002.
Þál. 11/125 um fullgildingu samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 156, um jafna möguleika og jafnrétti til handa körlum og konum í atvinnu: Starfsfólk með fjölskylduábyrgð, 4. maí 2000 – þskj. 1146.
Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 156, um jafna möguleika og jafnrétti til handa körlum og konum í atvinnu: Starfsfólk með fjölskylduábyrgð, sem gerð var í Genf 23. júní 1981.
Samþykktin var fullgilt af Íslands hálfu 22. júní 2000 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 22. júní 2001.
Þál. 12/125 um staðfestingu ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum og bókunum við EES-samninginn, 8. maí 2000 – þskj. 1191.
Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 59/96, 87/97, 15/98, 20/99, 41/99, 42/99, 57/99, 82/99, 83/99, 84/99, 95/99, 96/99, 121/99, 165/99, 166/99, 168/99, 12/00, 20/00 og 21/00 um breytingar á II., IV., IX., X., XI., XVI., XVII., XVIII., XIX. og XX. viðauka og bókun 37 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið frá 2. maí 1992.
Ákvarðanirnar voru staðfestar af Íslands hálfu 22. maí 2000 og öðluðust gildi að því er Ísland varðar 1. júlí 2000.
Þál. 13/125 um fullgildingu Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn, 8. maí 2000 – þskj. 1192.
Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd Rómarsamþykkt um Alþjóðlega sakamáladómstólinn sem samþykkt var 17. júlí 1998.
Samþykktin var fullgilt af Íslands hálfu 25. maí 2000 og öðlaðist gildi 1. júlí 2002.
Þál. 22/125 um fullgildingu samnings um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn, 13. maí 2000 – þskj. 1395.
Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn sem samþykktur var í New York 10. september 1996.
Samningurinn var fullgiltur af Íslands hálfu 26. júní 2000 en hefur enn ekki öðlast gildi.
Þál. 2/126 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 66/2000, um breytingu á XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við EES-samninginn, 12. desember 2000 – þskj. 516.
Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 66/2000 frá 2. ágúst 2000, um breytingu á XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 93/1999 frá 13. desember 1999, um ramma bandalagsins varðandi rafrænar undirskriftir.
Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 25. janúar 2001 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. mars 2001.
Þál. 6/126 um fullgildingu samnings milli Evrópubandalagsins og lýðveldisins Íslands og konungsríkisins Noregs um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi, 26. febrúar 2001 – þskj. 784.
Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning sem Evrópubandalagið og lýðveldið Ísland og konungsríkið Noregur gera með sér um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi.
Samningurinn var fullgiltur af Íslands hálfu 28. febrúar 2001 og öðlaðist hann gildi 1. apríl 2001.
Þál. 7/126 um aðild að sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samninga um sölu á vöru milli ríkja, 27. mars 2001 – þskj. 962.
Alþingi ályktar að heimila að Ísland gerist aðili að sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samninga um sölu á vöru milli ríkja sem gerður var í Vínarborg 11. apríl 1980.
Ísland gerðist aðili að sáttmálanum 10. maí 2001 og öðlaðist hann gildi að því er Ísland varðar 1. júní 2002.
Þál. 8/126 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 88/2000, um breytingu á VII. viðauka (Gagnkvæm viðurkenning á starfsmenntun og hæfi) við EES-samninginn, 27. mars 2001 – þskj. 963.
Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 88/2000 frá 27. október 2000, um breytingu á VII. viðauka (Gagnkvæm viðurkenning á starfsmenntun og hæfi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/42/EB frá 7. júní 1999, um tilhögun viðurkenningar á menntun og hæfi með tilliti til atvinnustarfsemi sem fellur undir tilskipanir um afnám hafta og bráðabirgðaráðstafanir og um viðbót við almennu kerfin til viðurkenningar á menntun og hæfi.
Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 19. apríl 2001 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. júní 2001.
Þál. 9/126 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 91/2000, um breytingu á XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við EES-samninginn, 27. mars 2001 – þskj. 964.
Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 91/2000 frá 27. október 2000, um breytingu á XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 31/2000 frá 8. júní 2000, um tiltekna lagalega þætti þjónustu, einkum rafrænna viðskipta, í tengslum við upplýsingasamfélagið á innri markaðnum („tilskipun um rafræn viðskipti“).
Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 19. apríl 2001 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar l. júní 2001.
Þál. 10/126 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 97/2000, um breytingar á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn, 27. mars 2001 – þskj. 965.
Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 97/2000, um breytingar á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun ráðsins nr. 1999/63/EB frá 21. júní 1999, um samning um skipulag á vinnutíma sjómanna á kaupskipum milli Samtaka skipaeigenda í Evrópubandalaginu (ECSA) og Samtaka félaga flutningaverkamanna í Evrópusambandinu (FST).
Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 19. apríl 2001 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. júní 2001.
Þál. 11/126 um aðild að samningi um öryggi starfsmanna Sameinuðu þjóðanna og tengdra starfsmanna, 27. mars 2001 – þskj. 966.
Alþingi ályktar að heimila að Ísland gerist aðili ad samningi um öryggi starfsmanna Sameinuðu þjóðanna og tengdra starfsmanna sem gerður var í New York 9. desember 1994.
Ísland gerðist aðili að samningnum 10. maí 2001 og öðlaðist hann gildi að því er Ísland varðar 9. júní 2001.
Þál. 12/126 um aðild að samningi um opinber innkaup, 27. mars 2001 – þskj. 967.
Alþingi ályktar að heimila að Ísland gerist aðili að samningi um opinber innkaup sem undirritaður var í Marakess 15. apríl 1994.
Ísland gerðist aðili að samningnum 29. mars 2001 og öðlaðist hann gildi að því er Ísland varðar 28. apríl 2001.
Þál. 13/126 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2000, um breytingar á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn, 23. apríl 2001 – þskj. 1101.
Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2000 frá 27. október 2000, um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1999/95/EB frá 13. desember 1999, um framkvæmd ákvæða um vinnutíma sjómanna á skipum sem fara um hafnir í bandalaginu.
Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 17. maí 2001 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. júlí 2001.
Þál. 14/126 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 108/2000, um breytingu á XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við EES-samninginn, 11. maí 2001 – þskj. 1283.
Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 108/2000 frá 30. nóvember 2000, um breytingu á XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn ákvarðanir framkvæmdastjórnarinnar 2000/518/EB frá 26. júlí 2000 sem byggð er á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/46/EB og fjallar um fullnægjandi vernd persónuupplýsinga í Sviss, 2000/519/EB frá 26. júlí 2000 sem byggð er á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/46/EB og fjallar um fullnægjandi vernd persónuupplýsinga í Ungverjalandi og 2000/520/EB frá 26. júlí 2000 sem byggð er á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/46/EB og fjallar um fullnægjandi vernd samkvæmt þeim meginreglum um örugga höfn fyrir friðhelgi einkalífsins og þeim algengu spurningum og svörum um það efni sem viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna hefur gefið út.
Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 28. maí 2001 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. júlí 2001.
Þál. 15/126 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 47/2001, um breytingu á XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við EES-samninginn, 11. maí 2001 – þskj. 1284.
Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 47/2001 frá 30. mars 2001, um breytingu á XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2887/2000 frá 18. desember 2000, um opinn aðgang að heimtaugum.
Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 28. maí 2001 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. júlí 2001.
Þál. 16/126 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 48/2001, um breytingu á XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við EES-samninginn, 11. maí 2001 – þskj. 1285.
Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 48/2001 frá 30. mars 2001, um breytingu á XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2000/709/EB frá 6. nóvember 2000, um lágmarksviðmiðanir sem aðildarríkin skulu taka tillit til þegar þau tilnefna aðila í samræmi við 4. mgr. 3. gr. tilskipunar 1999/93/EB um ramma bandalagsins varðandi rafrænar undirskriftir.
Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 28. maí 2001 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. júlí 2001.
Þál. 17/126 um samþykkt ákvörðunar ráðherraráðs Evrópusambandsins um að koma á, í samræmi við 34. gr. sáttmálans um Evrópusambandið, samningi um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum milli aðildarríkja Evrópusambandsins, 11. maí 2001 – þskj. 1286.
Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að tilkynna fyrir Íslands hönd samþykki á ákvörðun ráðherraráðs Evrópusambandsins um að koma á, í samræmi við 34. gr. sáttmálans um Evrópusambandið, samningi um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum milli aðildarríkja Evrópusambandsins að því leyti sem ákvæði hans byggjast á Schengen-samningnum.
Samþykki Íslands á ákvörðuninni var tilkynnt 31. maí 2001 og tók hún gildi að því er Ísland varðar l. júlí 2001.
Þál. 18/126 um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2001, 11. maí 2001 – þskj. 1287.
Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2001 sem gengið var frá með orðsendingaskiptum í Reykjavík og Þórshöfn 12. febrúar og 2. mars 2001.
Samningurinn, sem gildir aðeins fyrir árið 2001, öðlaðist gildi til bráðabirgða 2. mars 2001. Hann var staðfestur af Íslands hálfu 11. júní 2001 en honum var ekki veitt formlegt gildi.
Þál. 19/126 um aðild að Genfarsamningi um breytingu á Haagsamningnum um alþjóðlega skráningu hönnunar á sviði iðnaðar, 11. maí 2001 – þskj. 1288.
Alþingi ályktar að heimila að Ísland gerist aðili að Genfarsamningi um breytingu á Haagsamningnum um alþjóðlega skráningu hönnunar á sviði iðnaðar sem gerður var í Genf 2. júlí 1999.
Ísland gerðist aðili að samningnum 6. júlí 2001 en hann hefur enn ekki öðlast gildi.
Þál. 20/126 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 4/2001, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 11. maí 2001 – þskj. 1289.
Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 4/2001 frá 31. janúar 2001, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/26/EB frá 16. maí 2000, um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um ábyrgðartryggingu vegna notkunar vélknúinna ökutækja og um breytingar á tilskipunum ráðsins 73/239/EBE og 88/357/EBE (Fjórða tilskipun um ökutækjatryggingar).
Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 28. maí 2001 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. júlí 2001.
Þál. 21/126 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 44/2001, um breytingar á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 11. maí 2001 – þskj. 1290.
Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 44/2001 frá 30. mars 2001, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/28/EB frá 18. september 2000, um breytingu á tilskipun 2000/12/EB um stofnun og rekstur lánastofnana.
Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 28. maí 2001 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. júlí 2001.
Þál. 22/126 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2001, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 11. maí 2001 – þskj. 1291.
Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2001 frá 30. mars 2001, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/46/EB frá 18. september 2000, um stofnun og rekstur rafeyrisstofnana og eftirlit með þeim.
Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 28. maí 2001 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. júlí 2001.
Þál. 23/126 um staðfestingu samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2001, 11. maí 2001 – þskj. 1292.
Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd eftirtalda samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2001 sem gerðir voru í Skagen 18. október 2000:
1. Sameiginlega bókun um niðurstöður fiskveiðiviðræðna um stjórnun veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum í Norðaustur-Atlantshafi á árinu 2001.
2. Bókun um sérstakar verndunarráðstafanir með tilliti til stjórnunar veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2001.
3. Samning milli Íslands og Færeyja um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2001.
4. Samkomulag milli Íslands og Noregs um veiðiheimildir innan efnahagslögsögu Íslands, efnahagslögsögu Noregs og fiskveiðilögsögu Jan Mayen á árinu 2001.
5. Samkomulag milli Íslands og Rússneska sambandsríkisins um veiðiheimildir innan efnahagslögsögu Íslands á árinu 2001.
Framangreindum samningum, sem giltu aðeins fyrir árið 2001, var beitt til bráðabirgða frá 1. janúar 2001. Þeir voru staðfestir af Íslands hálfu 11. júní 2001 en þeim var ekki veitt formlegt gildi.
Þál. 30/126 um staðfestingu breytinga á samningi um Alþjóðastofnun um notkun gervitungla í siglingum (INMARSAT), 19. maí 2001 – þskj. 1459.
Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir hönd Íslands breytingar á samningi um Alþjóðastofnun um notkun gervitungla í siglingum (INMARSAT) sem gerðar voru á þingi aðildarríkja INMARSAT í London 20.–24. apríl 1998.
Breytingarnar voru staðfestar af Íslands hálfu 2. júlí 2001 og öðluðust gildi 31. júlí 2001.
Þál. 31/126 um fullgildingu V viðauka við samning um verndun Norðaustur-Atlantshafsins, um verndun og varðveislu vistkerfa og líffræðilegrar fjölbreytni hafsvæðisins, 19. maí 2001 – þskj. 1460.
Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd V. viðauka við samning um verndun Norðaustur-Atlantshafsins, um verndun og varðveislu vistkerfa og líffræðilegrar fjölbreytni hafsvæðisins, og 3. viðbæti við samninginn sem gerðir voru í Sintra 23. júlí 1998.
Viðaukinn og viðbætirinn voru fullgiltir af Íslands hálfu 18. júní 2001 og öðluðust gildi að því er Ísland varðar 18. júlí 2001.
Þál. 32/126 um endurskoðun viðskiptabanns á Írak, 19. maí 2001 – þskj. 1461.
Alþingi ályktar að styðja frumkvæði Norðmanna á vettvangi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um að framkvæmd viðskiptabanns á Írak verði tekin til endurskoðunar með það fyrir augum að aðgerðir Sameinuðu þjóðanna beinist enn frekar að því að hindra að harðstjórn Saddams Husseins komi sér upp gereyðingarvopnum og ógni öryggi á svæðinu.
Alþingi fagnar stuðningi ríkisstjórnar Íslands við frumkvæði Norðmanna og hvetur hana til að stuðla að áframhaldandi framgangi málsins á alþjóðavettvangi.
Eftir að Norðmenn tóku sæti í öryggisráðinu beittu þeir sér mjög fyrir endurskoðun á framkvæmd viðskiptabannsins. Í framhaldi af því samþykkti öryggisráðið samhljóða hinn 14. maí 2002 ályktun nr. 1409 (2002) þar sem framkvæmd gildandi viðskiptabanns var breytt. Breytingin þýðir að í reynd er allur innflutningur heimilaður, að undanskildum hergögnum og vopnabúnaði, sem og vörum sem hugsanlega er unnt að nýta í hernaðarlegum tilgangi.
Íslensk stjórnvöld studdu umrædda endurskoðun og fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum fylgdist náið með þessu endurskoðunarstarfi. Ísland á ekki aðild að öryggisráðinu og hefur því takmarkaða möguleika á að hafa bein áhrif.
Málefni Íraks hafa einnig verið til umræðu á norrænum utanríkisráðherrafundum þar sem Noregur hefur gert grein fyrir stöðu Íraksmálsins á hverjum tíma í öryggisráðinu. Ísland hefur eins og önnur norræn ríki lýst stuðningi sínum við þá vinnu.
1 Skýrsla fjármálaráðherra um áhrif lækkunar á endurgreiðslu virðisaukaskatts úr 100% í 60% til byggjenda íbúðarhúsnæðis vegna vinnu manna á byggingarstað og til eigenda íbúðarhúsnæðis vegna viðhaldsvinnu.