Ferill 190. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 220  —  190. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um stofnun nýbúamiðstöðvar á Vestfjörðum.

Flm.: Einar K. Guðfinnsson, Sighvatur Björgvinsson,     Kristinn H. Gunnarsson,


Guðjón A. Kristjánsson, Einar Oddur Kristjánsson.



    Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að undirbúa stofnun miðstöðvar nýbúa á Vestfjörðum í samvinnu við sveitarstjórnir, Rauða kross Íslands og Svæðisvinnumiðlun Vestfjarða. Hlutverk miðstöðvarinnar verði að greiða fyrir samskiptum Íslendinga og erlendra ríkisborgara, vinna með sveitarstjórnum að eflingu þjónustu fyrir erlenda ríkisborgara, fyrirbyggja vandamál í samskiptum fólks af margvíslegum menningarsvæðum og auðvelda aðlögun erlends fólks að íslensku þjóðfélagi.

Greinargerð.


    Þingsályktunartillaga að mestu samhljóða þessari var lögð fram á 123. löggjafarþingi. Var mælt fyrir henni og henni vísað til nefndar. Umsagnir bárust frá fimm aðilum sem allar voru jákvæðar.
    Eitt af því sem einkennir nútímaþjóðfélag er aukinn margbreytileiki. Fólk sækir nám til útlanda, flytur á milli landa og færir með sér áhrif af dvöl í fjarlægum löndum. Fullyrða má að mun meira sé einnig um að fólk af erlendu bergi brotið flytji hingað til lands af margvíslegum ástæðum. Það er fagnaðarefni að stjórnvöld hafa undanfarin ár tekið árlega á móti nokkrum hópi flóttamanna og stuðlað þannig að því að það geti byggt upp nýtt líf í öðrum heimkynnum.
    Fjölmargir útlendingar sækja hingað í atvinnuskyni. Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið opnuðust nýjar leiðir í þessum efnum, eins og kunnugt er. Áður var Norðurlandabúum auðvelt að fá vinnu hér á landi. Einnig er löng hefð fyrir því að fólk komi hingað um langan veg til vinnu. Árum saman komu til að mynda stórir hópar fólks frá Ástralíu og Nýja-Sjálandi og unnu hér á landi um lengri eða skemmri tíma. Sumir festu hér rætur, eignuðust fjölskyldur og völdu sér búsetu á Íslandi.
    Öllu fordómalausu og upplýstu fólki er þróun af þessu tagi fagnaðarefni. Aukin menningarleg fjölbreytni bætir hvert þjóðfélag, breikkar umræðu, kveikir nýjar hugmyndir og brýtur niður múra á milli fólks. Þessa sér víða stað hér sem betur fer.
    Því er hins vegar ekki að neita að breytingum af þessu tagi geta fylgt vandamál. Við þeim þarf að bregðast. Vænlegast í því sambandi er að auka þekkingu og ryðja burtu fordómum. Forsenda þess er að tengsl erlends fólks og annarra íbúa landsins séu aukin. Oft standa tungumálaörðugleikar í vegi fyrir því að slíkt sé hægt. Þess vegna er mikilvægt að úr því sé bætt.
    Þetta er sennilega hvergi orðið jafnbrýnt og á Vestfjörðum. Áratugahefð er fyrir góðum samskiptum íbúanna þar og erlendra hópa sem komið hafa þar til lengri eða skemmri dvalar. Jafnan hafa þessi samskipti gengið vel. Eftir því sem fólki af erlendu þjóðerni fjölgar eykst nauðsyn þess að koma á góðu skipulagi til þess að tryggja snurðulaus samskipti við þá íbúa sem fyrir eru. Þetta má kalla þjóðfélagslega afleiðingu þeirra breytinga sem slík þróun hefur í för með sér.
    Ljóst er að mjög umtalsverður hluti íbúa Vestfjarða nú hefur erlent ríkisfang. Samkvæmt samantekt Hagstofu Íslands frá 31. desember 1998 en það eru nýjustu tiltæku upplýsingarnar, voru 7,3% íbúanna á Vestfjörðum með erlent ríkisfang, eða 630 manns. Það er talsverð fjölgun frá árinu á undan, en þá voru 5,3% íbúa, eða 461 manns, á Vestfjörðum með erlent ríkisfang. Hlutfallið er nokkuð misjafnt eftir sveitarfélögum en ljóst að fjöldinn á hverjum stað getur sveiflast talsvert milli ára. Í ýmsum byggðarlögum er um að ræða verulegan hluta íbúanna. (Sjá fylgiskjal I.)
    Umtalsverður hluti þess erlenda fólks sem nú dvelur á Vestfjörðum er frá fjarlægum málsvæðum. Tungumálið er því veruleg hindrun í vegi þess að taka upp samskipti við Íslendinga. Meiri hluti útlendinga sem býr á Vestfjörðum er frá Póllandi, eða 363 af 630 sem er um 57,6% fólks með erlent ríkisfang á Vestfjörðum. Margt fólk kemur líka frá enn fjarlægari stöðum, en alls eru íbúar á Vestfjörðum með erlent ríkisfang frá 40 þjóðlöndum. (Sjá fylgiskjal II.)
    Í fyrra fóru forsvarsmenn atvinnufyrirtækja í Vesturbyggð fram á það við bæjaryfirvöld að tekin yrði upp kennsla í íslensku fyrir það erlenda fólk sem þar dvelst og starfar. Eru þau mál nú í undirbúningi. Víðar er áhugi á þessu, enda gefur það augaleið að á vinnustöðum þar sem svo háttar til að jafnvel meiri hluti starfsfólks er af erlendu bergi brotinn eru tungumálaerfiðleikar farnir að standa í veginum fyrir nauðsynlegum innbyrðis samskiptum fólks.
    Til dæmis um stöðu þessa máls má nefna að fyrir rúmu ári gaf Alþýðusamband Vestfjarða út kjarasamninga sína við vinnuveitendur á pólsku auk íslensku til þess að auðvelda erlendu starfsfólki að skilja rétt sinn.
    Þeir sem gleggst þekkja til í þessum málum á Vestfjörðum telja að nú gæti aukins áhuga fólks að koma með fjölskyldur sínar hingað til lands. Algengara er en áður að hjón komi til starfa. Þetta erlenda fólk sýnir aukinn vilja til þess að hafa börnin með sér, af skiljanlegum og eðlilegum ástæðum. Nú þegar eru börn pólskra starfsmanna á Vestfjörðum í skólum og leikskólum í byggðarlögunum. Þetta skapar vitaskuld vanda í skólastarfinu sem nauðsynlegt er að bregðast við á fullnægjandi hátt.
    Á stöðum þar sem margt fólk með erlent ríkisfang dvelst er einnig þýðingarmikið, til þess að varðveita heillega samfélagsmynd, að íbúarnir eigi sem greiðasta leið til samskipta sín í milli. Þar með er auðvelduð leið allra að þátttöku í því skemmtilega fjölbreytilega og þroskandi menningar- og mannlífi sem er til staðar víða úti um landið. Það er því mikils um vert að tryggja með öllum tiltækum ráðum að svo megi verða.
    Vestfirðingar hafa sýnt gott frumkvæði í því að auka samkennd íbúanna. Í tvígang hefur verið efnt til svokallaðrar þjóðahátíðar þar sem íbúar á Vestfjörðum með erlent ríkisfang hafa haft veg og vanda af vandaðri menningardagskrá, kynnt siði og venjur frá heimalandi sínu og borið fram veglega veislurétti að hætti landsmanna sinna. Þetta hefur eflt samkennd íslenskra og erlendra íbúa Vestfjarða.
    Allt þetta sýnir mikilvægi þess að skipulega sé unnið að því treysta tengsl þess fólks sem á Vestfjörðum býr og dvelur, hvort sem um er að ræða fólk með erlent ríkisfang eða aðra. Á Vestfjörðum hafa menn gert sér ljósa grein fyrir þessu. Stofnaður hefur verið áhugahópur um menningarfjölbreytni sem starfað hefur um eins árs skeið. Í fyrrahaust var tekin saman greinargerð á vegum þessa hóps um stofnun nýbúamiðstöðvar á Vestfjörðum sem varpar skýru ljósi á þessi mál og fylgir hér með sem fylgiskjal. (Sjá fylgiskjal III.)
    Á hinn bóginn er ljóst að fella þarf stuðning við nýbúa inn í fastmótaðan farveg svo að vel megi takast til. Uppræta þarf fordóma og tryggja að samskipti fólks gangi sem best fyrir sig. Nauðsynlegur stuðningur getur verið kostnaðarsamur, ekki síst fyrir lítil og vanmáttug sveitarfélög, og því þarf að hyggja vel að uppbyggingunni. Þess þarf að gæta að stuðningurinn falli og vel að félagsþjónustukerfi einstakra sveitarfélaga. Þetta kemur vel fram í umsögn bæjarstjórnar Vesturbyggðar dags. 10. mars sl. og eru flutningsmenn samþykkir því.


Fylgiskjal I.


Íbúar á Vestfjörðum 31. desember 1998 eftir sveitarfélögum og ríksfangi.



Mannfjöldi
alls
Íslenskt
ríkisfang
Erlent
ríkisfang
Íslenskt
ríkisfang, %
Erlent
ríkisfang, %
Vestfirðir 8.600 7.970 630 92,7 7,3
Bolungarvík 1.018 948 70 93,1 6,9
Ísafjarðarbær 4.482 4.109 373 91,7 8,3
Reykhólahreppur 307 303 4 98,7 1,3
Tálknafjarðarhreppur 348 294 54 84,5 15,5
Vesturbyggð 1.254 1.148 106 91,5 8,5
Súðavíkurhreppur 261 244 17 93,5 6,5
Árneshreppur 71 71 0 100,0 0,0
Kaldrananeshreppur 142 141 1 99,3 0,7
Hólmavíkurhreppur 484 479 5 99,0 1,0
Kirkjubólshreppur 49 49 0 100,0 0,0
Bæjarhreppur 97 97 0 100,0 0,0
Broddaneshreppur 87 87 0 100,0 0,0


Fylgiskjal II.


Mannfjöldi 31. desember 1998 eftir sveitarfélögum og ríkisfangi.



Ísland 7.970
Norðurlönd 49
    Danmörk 26
    Noregur 9
    Svíþjóð 14
ESB – utan Norðurlanda 63
    Austurríki 1
    Þýskaland 7
    Spánn 3
    Frakkland 2
    Bretland 18
    Grikkland 0
    Írland 4
    Holland 4
    Portúgal 24
Önnur Evrópulönd 418
    Bosnía-Hersegóvína 6
    Búlgaría 4
    Króatía 24
    Ungverjaland 1
    Pólland 363
    Rúmenía 3
    Rússland 7
    Slóvenía 1
    Júgóslavía 9
Norður-Ameríka 14
    Kanada 3
    Bandaríkin 11
Önnur Ameríkulönd 19
    Brasilía 1
    Kúba 2
    Guyana 8
    Perú 8
Afríka 22
    Grænhöfðaeyjar 2
    Marokkó 4
    Nígería 2
    Rúanda 1
    Suður-Afríka 11
    Sambía 1
    Simbabve 1
Asía 35
    Ísrael 1
    Japan 2
    Filippseyjar 9
    Taíland 23
Eyjaálfa 10
    Ástralía 4
    Nýja-Sjáland 6
Alls 8.600


Fylgiskjal III.


Greinargerð um stofnun nýbúamiðstöðvar á Vestfjörðum.
(Haust 1998.)


    Miðstöð nýbúa á Vestfjörðum er hugsuð sem þriggja ára tilraunaverkefni. Gert er ráð fyrir að þegar nokkuð er liðið á starfstímann verði starfsemin metin með tilliti til árangurs og þarfar og þá tekin ákvörðun um áframhaldandi starfsemi.
    Á Vestfjörðum býr fjöldi fólks af erlendum uppruna. Nú eru um 500 útlendingar skráðir á Vestfjörðum en fjöldi þeirra er þó mun meiri þar sem stór hluti erlendra íbúa hefur fengið íslenskan ríkisborgararétt. Fólki af erlendu bergi brotið hefur fjölgað mjög á síðustu árum og fyrirsjáanlegt er að erlendu fólki fjölgi stöðugt. Mikið er nú um að fólk komi í hópum af sama bakgrunni. Það er að nokkru sjálfu sér nógt um félagsskap. Það leitar lítið út fyrir hópinn sinn og blandast Íslendingum lítið sem ekkert. Fjöldi barna sem eiga ekki íslensku að móðurmáli er að aukast. Vegna þessa menningarmunar og fjarlægðar milli heimamanna og aðkomufólks er ljóst að byggð á Vestfjörðum geldur fyrir núverandi ástand. Menningar- og félagsstarf í fámennum byggðum líður fyrir það að stór hluti íbúanna getur ekki tekið eðlilegan þátt í mannlífinu. Upp koma samskiptavandamál sem valdið geta misskilningi og fordómum. Ljóst er þó að vestfirsk byggð þarf á þessu fólki að halda, ekki einungis sem vinnuafli heldur og sem virkum þátttakendum í samfélaginu bæði í menningar- og félagslegu tilliti. Mikill mannauður býr í þessum nýju íbúum svæðisins sem nýtist ekki sem skyldi vegna ónógra samskipta milli ný- og síbúa. Hér er um að ræða fólk á góðum aldri, oft með fjölbreytta menntun og gott frumkvæði og ríka sjálfsbjargarviðleitni. Það er því kappsmál fyrir samfélagið að virkja þessa einstaklinga til fullrar þátttöku í leik og starfi.
    Reynsla Vestfirðinga og annarra af móttöku flóttafólks sýnir að mjög er hægt að hraða því að aðkomufólk nái fótfestu í íslensku samfélagi sé vel að málum staðið. Í þeim fjölþjóðlegu uppákomum sem haldnar hafa verið hefur þátttaka verið góð og ljóst er að áhugi er fyrir meira samstarfi og blöndun þjóðhópa. Aðstöðuleysi og skortur á fjármagni ásamt tungumálaörðugleikum o.fl. stendur frekara samstarfi og kynnum fyrir þrifum.
    Áhugahópur um menningarfjölbreytni hefur starfað á Vestfjörðum síðan í ársbyrjun. Hópurinn hefur m.a. gengist fyrir fjölþjóðasamkomu á degi Sameinuðu þjóðanna gegn kyn þáttafordómum, tekið þátt í atvinnuvegasýningu Vestfjarða og kynningu á þætti útlendinga í atvinnu- og menningarlífi á svæðinu. Hópurinn hefur á síðustu vikum og mánuðum einnig kannað þörf og unnið að undirbúningi fyrir stofnun miðstöðvar fyrir nýbúa. Ljóst er að bæði nýbúar og síbúar telja að mikil þörf sé á slíkri miðstöð til að brúa bilið á milli þessara hópa og koma í veg fyrir margs konar árekstra og vandamál sem alkunn eru annars staðar. Hópurinn hefur haft samstarf og samráð við marga aðila, svo sem Rauða kross Íslands, Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða, bæjarráð Ísafjarðarbæjar, Svæðisvinnumiðlun Vestfjarða og Fjórðungssamband Vestfirðinga. Bæði Rauði kross Íslands og Ísafjarðarbær hafa lýst sig reiðubúna til að standa að slíkri miðstöð.
    Áhugahópinn skipa: Bryndís Friðgeirsdóttir, svæðisfulltrúi RKÍ á Vestfjörðum og bæjarfulltrúi í Ísafjarðarbær, Dorothee Lubecki, ferðamálafulltrúi Vestfjarða, Guðrún Stella Gissurardóttir, forstöðumaður Svæðisvinnumiðlunar Vestfjarða, Ingibjörg Daníelsdóttir, skólaritari í Framhaldsskóla Vestfjarða, og Laufey Haraldsdóttir dýralæknir.
    Gert er ráð fyrir að miðstöðin starfi á fjórðungsvísu en aðsetur hennar verði á Ísafirði. Gert er ráð fyrir einu stöðugildi. Hlutverk miðstöðvarinnar er tvíþætt: Að fyrirbyggja vandamál og stuðla að betri nýtingu þess mannauðs sem býr í erlendu aðkomufólki. Hún ætti almennt að auðvelda og greiða fyrir samskiptum útlendinga og Íslendinga. Það er brýnt að útlendingar geti leitað eitthvert eftir aðstoð og upplýsingum en eins ætti miðstöðin að hafa frumkvæði að námskeiðahaldi og annarri þjónustu. Til dæmis gæti miðstöðin staðið fyrir gerð upplýsingarita um vestfirskt samfélag á ýmsum tungumálum, kynnt réttindi og skyldur íslenskra þegna, skipulagt íslenskunám fyrir útlendinga og staðið fyrir félagsmálanámskeiðum af ýmsu tagi. Einnig gæti miðstöðin verið skólum á svæðinu innan handar vegna nemenda af erlendum uppruna.
    Miðstöðin gæti m.a. aðstoðað við allt það sem heyrir undir daglegt líf, svo sem útfyllingu skattframtala og eyðublaða, almenna leiðsögn um samfélagið og skýringar á ýmsum hlutum, t.d. launaseðlum o.fl. Einnig gæti miðstöðin skipulagt þátttöku stuðningsfjölskyldna þegar þess er þörf. Þá gæti miðstöðin staðið fyrir kynningu eða öðrum uppákomum með það fyrir augum að koma í veg fyrir kynþáttafordóma á meðal Íslendinga. Miðstöðin gæti aðstoðað við túlka- og þýðingarþjónustu og þróað og safnað saman erlendu lesefni.
    Í meðfylgjandi fjárhagsáætlun sem nær yfir stofnkostnað og rekstur er gert ráð fyrir að heildarrekstrarkostnaður fyrir utan stofnkostnað verði 5.423.000 kr. sem telja verður nokkuð raunhæfa upphæð miðað við umfang verkefnisins. Ljóst er að leita þarf víðar eftir fjármagni en hjá Ísafjarðarbæ og Rauða krossi Íslands. Hefur hópurinn leitað til Fjórðungssambands Vestfirðinga eftir stuðningi og fleiri hafa sýnt hugmyndinni áhuga. Telur hópurinn eðlilegt að leita til félagsmálaráðuneytis og menntamálaráðuneytis um fjármagn sem samsvarar a.m.k. launum og launatengdum gjöldum en öðrum kostnaði verði skipt á milli sveitarfélaga (Fjórðungssamband) og Rauða kross Íslands.
    Hópurinn vill að lokum benda á mikla atvinnuþátttöku útlendinga á Vestfjörðum sem þýðir að þeir greiða mikið til samfélagsins í formi opinberra gjalda og hafa þegið lítið af samfélaginu í staðinn. Einnig vill hópurinn benda á að 10. desember nk. er hálfrar aldar afmæli mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. Þau tímamót væru mjög viðeigandi og skemmtileg viðmiðun til að hefja starf nýbúamiðstöðvar á Vestfjörðum.
Fjárhagsáætlun fyrir miðstöð nýbúa á Vestfjörðum, þús. kr.
Laun og launatengd gjöld, eitt stöðugildi 2.700
Leiga 300
Sími/internet 200
Hiti og rafmagn 60
Ræsting 60
Tóner/pappír/ritföng 240
Hreinlætis- og kaffivörur 90
Erlend blöð og tímarit 48
Ýmislegt 85
Stjórnarlaun 70
Aðkeypt sérfræðiaðstoð 700
Kostnaður við námskeið og upplýsingaefni 450
Ferðakostnaður 420
Alls 5.423
Áætlaður stofnkostnaður, þús. kr.
Tölva 150
Prentari/faxtæki/ljósritunarvél 170
Símtæki 20
Húsgögn 250
Reiknivél 10
Annað 70
Alls 670