Ferill 113. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 328  —  113. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um fullgildingu viðbótarsamnings við samning um flutning dæmdra manna.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Tómas H. Heiðar þjóðréttarfræðing frá utanríkisráðuneyti. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá fangahjálpinni Vernd, Ríkislögreglustjóra og Landssambandi lögreglumanna.
    Megintilgangur samningsins um flutning dæmdra manna, sem gerður var í Strassborg 21. mars 1983 á vegum Evrópuráðsins, er að gera fullnustu refsingar mögulega í öðru ríki en þar sem hún er ákveðin. Að baki samningnum búa þau mannúðarsjónarmið að gera dómþola kleift að afplána refsingu í heimalandi sínu og það sjónarmið að þannig sé fremur unnt að stuðla að félagslegri endurhæfingu hans og búa hann undir að koma út í þjóðfélagið á ný. Samningurinn öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. desember 1993.
    Með þingsályktunartillögunni er leitað heimildar til að fullgilda viðbótarsamning við samning um flutning dæmdra manna. Meginmarkmiðið með viðbótarsamningnum er að gera flutning á fullnustu dóms mögulegan í þeim tilvikum þegar dómþoli leitast við að komast hjá fullnustu eða frekari fullnustu með því að flýja til landsvæðis þegnríkis áður en hann hefur afplánað dóminn, svo og þegar dómur eða stjórnvaldsákvörðun, sem leiðir af honum, felur í sér ákvörðun um brottvísun eða flutning dómþola úr landi að fullnustu lokinni.
    Nefndin leggur til að málið verði samþykkt.
    Jón Kristjánsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 7. des. 1999.



Tómas Ingi Olrich,


form., frsm.


Valgerður Sverrisdóttir.


Lára Margrét Ragnarsdóttir.


    

Einar K. Guðfinnsson.


Sighvatur Björgvinsson.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.



Steingrímur J. Sigfússon.