Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 547, 125. löggjafarþing 291. mál: tekjuskattur og eignarskattur (ellilífeyrisgreiðslur, samsköttun félaga og ríkisverðbréf).
Lög nr. 101 27. desember 1999.

Lög um breyting á lögum á nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.


1. gr.

     Á eftir 2. málsl. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Hafi verið gerður samningur um skiptingu ellilífeyrisgreiðslna á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, telst ellilífeyrir til tekna hjá þeim sem fær hann greiddan.

2. gr.

     3. mgr. 57. gr. B laganna orðast svo:
     Við samsköttun skal tekjuskattur af sameiginlegum tekjuskattsstofni og eignarskattur af sameiginlegum eignarskattsstofni allra hlutafélaga sem taka þátt í samsköttuninni lagður á móðurfélagið en öll hlutafélögin bera sameiginlega ábyrgð á skattgreiðslum. Þó er skattstjóra heimilt að leggja tekjuskatt og eignarskatt á hvert og eitt félag óski hlutafélögin í samsköttun sérstaklega eftir því.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 78. gr. laganna:
  1. 1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Heimilt er mönnum að draga frá eignum sínum, sbr. 73. gr., innstæður sínar í bönkum og sparisjóðum, innlánsdeildum og á stofnsjóðsreikningum samvinnufélaga, póstgíróreikningum og orlofsfjárreikningum, svo og verðbréf, sem hliðstæðar reglur gilda um samkvæmt sérlögum, markaðsverðbréf sem gefin eru út af ríkissjóði, ríkisvíxla, ríkisbréf, happdrættisskuldabréf ríkissjóðs, húsbréf gefin út af Byggingarsjóði ríkisins og hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða, sbr. lög um verðbréfasjóði, þar sem verðbréfasjóðurinn er eingöngu myndaður af framangreindum skuldaviðurkenningum, og hlutabréfaeign í hlutafélögum, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr., að því marki sem eignir þessar eru umfram skuldir, enda séu eignirnar ekki tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi.
  2. 2. mgr. fellur brott.


4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts árið 2000 vegna tekna og eigna ársins 1999.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Þrátt fyrir ákvæði 78. gr. laganna er mönnum heimilt við álagningu ársins 2000 vegna eigna í árslok 1999 og við álagningu ársins 2001 vegna eigna í árslok 2000 að draga frá eignum sínum, sbr. 73. gr., markaðsverðbréf sem gefin eru út af ríkissjóði, ríkisvíxla, ríkisbréf, happdrættisskuldabréf ríkissjóðs, húsbréf gefin út af Byggingarsjóði ríkisins og hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða, sbr. lög um verðbréfasjóði, þar sem verðbréfasjóðurinn er eingöngu myndaður af framangreindum skuldaviðurkenningum, alls að verðmæti 2.000.000 kr. hjá einstaklingi og 4.000.000 kr. hjá hjónum, enda séu eignir þessar ekki tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Um eignir samkvæmt þessu ákvæði umfram framangreind eignamörk fer eftir ákvæðum 78. gr.

Samþykkt á Alþingi 21. desember 1999.