Ferill 237. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 788  —  237. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyting á ýmsum lögum vegna þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Bogason og Þorstein A. Jónsson frá dómsmálaráðuneyti, Þóri Oddsson og Smára Sigurðsson frá ríkislögreglustjóra, Arnar Guðmundsson frá Lögregluskóla ríkisins, Jóhannes Jensson og Jónas Magnússon frá Landssambandi lögreglumanna, Friðrik Georgsson og Steingrím P. Björnsson frá Tollvarðafélagi Íslands, Jóhann Benediktsson, sýslumann á Keflavíkurflugvelli og Óskar Þórmundsson og Halldór R. Guðjónsson sem einnig koma frá sýslumannsembættinu á Keflavíkurflugvelli.
    Nefndarmenn fóru ásamt utanríkismálanefnd í kynnisferð í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og skoðuðu breytingar á flugstöðinni vegna Schengen-samstarfsins. Þar áttu nefndirnar jafnframt fund með Óskari Valdimarssyni frá Framkvæmdasýslu ríkisins og Helga Gunnarssyni frá Verkfræðistofunni VSÓ, sem einnig sat fundinn fyrir hönd Framkvæmdasýslu ríkisins, Ómari Kristjánssyni, Stefáni Jónssyni og Einari M. Jóhannssyni frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Birni Inga Knútssyni og Ómari Ingvarssyni frá Flugmálastjórn, Sævari Lýðssyni og Óskari Þórmundssyni frá sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli, Ingimar Erni Péturssyni frá Atlanta, Ómari Benediktssyni og Gunnari Þorvaldssyni frá Íslandsflugi og Sigþóri Einarssyni, Hrafni Þorgeirssyni og Gunnari Ólsen frá Flugleiðum.
    Þá bárust umsagnir um málið frá Landssambandi lögreglumanna, ríkistollstjóra, Útlendingaeftirlitinu, Lögmannafélagi Íslands, ríkissaksóknara, Fangelsismálastofnun og ríkislögreglustjóra.
     Frumvarpið er eitt af þremur frumvörpum sem nefndin hefur haft til umfjöllunar vegna lögfestingar nauðsynlegra ákvæða vegna fyrirhugaðrar þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu. Nefndin hefur einnig haft til umfjöllunar frumvarp til laga um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi (236. mál, þskj. 288) og frumvarp til laga um breytingar á lögum um útlendinga, nr. 45/1965 (328 mál, þskj. 578). Jafnframt er nú til umræðu á Alþingi tillaga til þingsályktunar um heimild fyrir ríkisstjórnina til að fullgilda samning sem ráð Evrópusambandsins og lýðveldið Ísland og konungsríkið Noregur gera með sér um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna og undirritaður var í Brussel á síðasta ári (206. mál, þskj. 240).
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á fimm lagabálkum vegna fyrirhugaðrar þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu.
    Nefndin hefur rætt ítarlega um 9. og 10. gr. frumvarpsins þar sem lögð er til breyting á ákvæðum lögreglulaga, nr. 90/1996. Í þessum ákvæðum frumvarpsins er lagt til að ríkislögreglustjóri geti skipað menn til starfa til að sinna landamæravörslu sem ekki hafa lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins. Skv. 3. mgr. 28. gr. lögreglulaga skal hins vegar hver sá sem skipaður er til lögreglustarfa hafa lokið prófi frá skólanum. Með frumvarpinu er því lögð til undantekning frá þeirri meginreglu. Með þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu mun verða allnokkur breyting á landamæravörslu hér á landi. Persónueftirlit með farþegum sem ferðast innan Schengen-svæðisins verður lagt af en verður umfangsmeira með þeim sem ferðast til og frá ríkjum utan Schengen-svæðisins. Gert er ráð fyrir að fjölga þurfi starfsfólki til að sinna landamæravörslu og þykir það til hagræðis að heimilt verði að skipa einstaklinga eingöngu til þeirra starfa þótt þeir hafi ekki lokið prófi frá skólanum. Nefndin telur eðlilegt að gefið verði svigrúm til að ráða til starfa einstaklinga með aðra menntun en frá Lögregluskólanum, t.d. með góða tungumálakunnáttu, en telur rétt að þeir starfi ætíð undir stjórn lögreglumanns sem skipaður er skv. 3. mgr. 28. gr. lögreglulaga.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
     1.      Nýr kafli á eftir I. kafla frumvarpsins. Í 7. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á lögum um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma, nr. 56/1993, þar sem heimilað er m.a. að úrskurða dómþola, sem komið hefur sér undan refsingu með því að flýja frá ríki sem biður um fullnustu, í gæsluvarðhald til að tryggja nærveru hans þar til gögn með beiðni um fullnustu hafa borist eða ákvörðun um hvort fallist verði á beiðni er tekin. Lögin gilda hins vegar ekki um fullnustu viðurlaga eða aðrar aðgerðir sem falla undir ákvæði laga um fullnustu refsidóma, sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, o.fl., nr. 69/1963. Við meðferð frumvarpsins hjá nefndinni kom í ljós að láðst hefur við samningu þess að gera breytingar á síðarnefndu lögunum til samræmis við Schengen-samninginn. Nefndin leggur því til breytingar á lögunum sem heimilar sömu meðferð á dómþolum sem flýja til landsins frá Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð.
     2.      Lagðar eru til breytingar á 4. gr. frumvarpsins (sem verður 5. gr.). Eins og greinin er í frumvarpinu er hún ekki einskorðuð við þátttökuríki Schengen-samstarfsins. Frumvarpinu er ætlað að breyta lögum vegna þátttöku Íslands í samstarfinu og því eðlilegt að takmarka greinina við það. Að mati nefndarinnar er ákvæðið skýrara í sérstakri lagagrein og leggur til breytingar á frumvarpinu í samræmi við það. Að öðru leyti er um málfarslagfæringar að ræða.
     3.      Lagðar eru til málfarsbreytingar á 7. gr. (sem verður 8. gr.).
     4.      Við meðferð frumvarpsins hjá nefndinni kom í ljós að láðst hafði að gera ráð fyrir ákvæði sem uppfyllir ákvæði 117. gr. Schengen-samningsins þar sem sú skylda er lögð á aðildarríkin að þau uppfylli ákveðin lágmarksskilyrði varðandi notkun lögreglu á persónuupplýsingum. Lagt er til að ný grein bætist við frumvarpið á eftir 9. gr. (er verði 10. gr.) og breyti lögreglulögum með þeim hætti að ríkislögreglustjóra er falið að halda málaskrá um kærur sem berast lögreglu, dagbók lögreglu og aðrar skrár sem nauðsynlegar eru í þágu löggæsluhagsmuna. Dómsmálaráðherra er jafnframt skylt að setja nánari reglur um þessar skrár.
     5.      Lagðar eru til breytingar á 10. gr. (sem verður 12. gr.). Nefndin leggur til að þeir sem skipaðir eru til starfa til að sinna landamæravörslu skuli starfa undir stjórn lögreglumanns sem skipaður er skv. 3. mgr. 28. gr. lögreglulaga. Landamæravarsla er í eðli sínu löggæslustarf og telur nefndin rétt að þeir starfsmenn sem ráðnir yrðu skv. 10. gr. frumvarpsins starfi ætíð á ábyrgð og undir stjórn lögreglumanns sem lokið hefur prófi frá Lögregluskóla ríkisins. Nefndin leggur einnig til að bætt verði við frumvarpið reglugerðarheimild þar sem dómsmálaráðherra er gert að setja ákvæði um nám og fyrirkomulag á prófi fyrir landamæraverði.
     6.      Að mati nefndarinnar er gildistökuákvæði frumvarpsins ekki nægilega skýrt. Með því að heimila dómsmálaráðherra að ákveða hvenær lögin öðlist gildi er verið að framselja heimild löggjafans til að ákvarða um gildistöku laga. Hér er um að ræða undantekningu frá því sem almennt tíðkast og ekki í samræmi við þá lagahefð sem skapast hefur hér á landi að Alþingi ákveði hvenær lög sem það hefur samþykkt öðlist gildi. Við meðferð málsins hjá nefndinni hefur komið í ljós að fátt er því til fyrirstöðu að lögin öðlist þegar gildi. Undirbúningur fyrir þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu stendur yfir og til þess að honum verði fram haldið með eðlilegum hætti, m.a. með móttöku gagna og ýmissa upplýsinga frá öðrum aðildarríkjum verða ákvæði Schengen-samningsins að hafa verið lögfest hér á landi. Er því lagt til að lögin öðlist þegar gildi.
    Ögmundur Jónasson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann andvígur áliti þessu.

Alþingi, 13. mars 2000.



Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


form., frsm.


Katrín Fjeldsted.


Guðjón Sigurjónsson.



Ásta Möller.


Sigríður Ingvarsdóttir.


Jónína Bjartmarz.



Ólafur Örn Haraldsson.