Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1142, 125. löggjafarþing 281. mál: þinglýsingalög (Landskrá fasteigna).
Lög nr. 45 16. maí 2000.

Lög um breyting á þinglýsingalögum, nr. 39/1978.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
  1. Á eftir fyrri málslið 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gildir um skjöl sem afhent eru til aflýsingar þar sem dagbók er haldin í tölvu.
  2. 2. mgr. orðast svo:
  3.      Nú er afhent skjal til þinglýsingar og skal þá vísa því frá ef eitthvert af eftirtöldum atriðum á við:
    1. skjal er afhent í röngu umdæmi,
    2. fasteign er ekki skráð í þinglýsingabók nema um stofnskjal sé að ræða,
    3. stofnskjal landeignar er ekki forskráð í Landskrá fasteigna samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna,
    4. skjal varðar bein eða óbein eignarréttindi að fasteign og ekki er getið fastanúmers hennar,
    5. afmörkun lands eða lóðar er ekki í samræmi við 2. mgr. 20. gr.,
    6. ekki er ótvírætt við hvaða eign skjal á, hvaða aðila skjal varðar eða hvert efni þess er að öðru leyti,
    7. skjalið skortir undirritun útgefanda og vitundarvotta eða annarra þeirra er skjal geta staðfest, sbr. 22. gr., sé þessa þörf,
    8. skjal er aðeins afhent í einu eintaki eða samrit eða endurrit er ekki ritað á löggiltan þinglýsingapappír.



2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna, sbr. lög nr. 63/1988:
  1. 2. mgr. orðast svo:
  2.      Bækur þær er lúta að fasteignum skulu tölvufærðar í Landskrá fasteigna eftir nánari fyrirmælum ráðherra í reglugerð. Þar skal mælt fyrir um öryggisráðstafanir og vistun þinglýsingargagna. Þar til lokið hefur verið við þinglýsingarhluta Landskrár fasteigna er þinglýsingarstjórum heimilt að nota eldri þinglýsingabækur, lausblaðabækur, spjöld eða eldra tölvukerfi. Aðrar bækur skulu vera lausblaðabækur, en heimilt er þó að hafa þær í spjaldskrárformi. Dómsmálaráðherra ákveður nánari tilhögun þeirra, hvort tölvutækni skuli beitt við skráningu þeirra upplýsinga sem þær hafa að geyma og hvort það skuli gert í sumum þinglýsingaumdæmum eða þeim öllum.
  3. Í stað orðanna „hverri fasteign“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: hverju; og orðið „fasteignar“ í 3. málsl. 4. mgr. fellur brott.
  4. 5. mgr. fellur brott.


3. gr.

     Við 1. mgr. 9. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Við þinglýsingu í Landskrá fasteigna er stöðu skjals breytt úr „dagbókarfært“ í „þinglýst“.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna, sbr. lög nr. 85/1989:
  1. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ef beiðni um aflýsingu er færð í dagbók skv. 1. mgr. 6. gr. skulu aflýst skjöl ekki numin úr skjalahylkjum.
  2. 3. mgr. orðast svo:
  3.      Með reglugerð má ákveða að vistun skjala á tölvutæku formi komi í stað geymslu í skjalahylkjum skv. 1. mgr. Þann hátt má hafa á í sumum eða öllum þinglýsingaumdæmum eftir því sem aðstæður leyfa. Takmarka má vörslu skjala á þann veg við ákveðnar tegundir skjala.


5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna, sbr. lög nr. 85/1989:
  1. Síðari málsliður 1. mgr. orðast svo: Verður þá slíkum yfirlýsingum ekki þinglýst nema sjálft veðbréfið eða endurrit þess, með áritun um veðbreytinguna, sé sýnt eða afhent þinglýsingarstjóra svo að hann geti gengið úr skugga um að hennar sé nægilega getið í veðbréfinu sjálfu.
  2. 2. mgr. fellur brott.


6. gr.

     Við 13. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Aflýsing skjals í Landskrá fasteigna fer þannig fram að stöðu skjals er breytt úr „þinglýst“ í „aflýst“. Upplýsingar um aflýst skjöl og yfirlýsingu rétthafa skulu varðveittar í ferilskrá viðkomandi eignar í tölvukerfi. Síðan skal rita vottorð um aflýsinguna á frumrit skjalsins og geta þess hvenær hún fór fram og hvar hennar sé getið. Að svo vöxnu skal skila aðila sínu eintaki.

7. gr.

     Fyrsti málsliður 15. gr. laganna orðast svo: Skjali er þinglýst þegar það hefur verið fært í þinglýsingabók eða fær stöðuna „þinglýst“ í tölvu, en forgangsáhrif þinglýsingar teljast frá þeim degi er skjal var afhent til þinglýsingar, sbr. þó 2. mgr. 14. gr., enda sé skjalið tækt til þinglýsingar.

8. gr.

     Lokamálsliður 17. gr. laganna, sbr. lög nr. 85/1989, orðast svo: Að öðrum kosti dregur þinglýsingarstjóri strik yfir færslu skjals í þinglýsingabók eða afmáir skjal í tölvukerfi, og falla þá brott áhrif þinglýsingarinnar.

9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 20. gr. laganna, sbr. lög nr. 85/1989:
  1. 2. mgr. orðast svo:
  2.      Binda skal þinglýsingu stofnskjals fasteignar því skilyrði að þar komi fram:
    1. heiti landeignar samkvæmt ákvörðun sveitarfélags,
    2. landnúmer lóðar, eitt eða fleiri,
    3. landnúmer þess lands sem lóð er tekin úr,
    4. afmörkun lóðar á uppdrætti sem staðfestur hefur verið af skipulagsyfirvöldum,
    5. fastanúmer hverrar fasteignar sem hefur beina tilvísun í þá skika sem henni tilheyra.

  3. Við greinina bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  4.      Heimilt er að þinglýsa í einu stofnskjali myndun fleiri en einnar fasteignar.
         Ráðherra er heimilt að ákveða í reglugerð að binda skuli þinglýsingu skjals er varðar landamerki eða lóðamörk því skilyrði að tilgreina skuli hnit skurðpunkta og markalínur samkvæmt viðurkenndu hnitakerfi, svo og mælikvarða uppdrátta af landi. Nú eru ekki fyrir hendi nægilega nákvæm hnitakerfi, og getur þá ráðherra í reglugerð mælt fyrir um form og efni uppdrátta.


10. gr.

     Lokamálsliður 1. mgr. 22. gr. laganna orðast svo: Vitundarvottar skulu geta kennitölu sinnar, eða eftir atvikum fæðingardags og heimilisfangs.

11. gr.

     Við 2. mgr. 24. gr. laganna, sbr. lög nr. 90/1991, bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Hafi veðandlag aðfarar- eða kyrrsetningargerðar ekki verið myndað í þinglýsingabók skal þinglýsingarstjóra heimilt að mynda eign til bráðabirgða í Landskrá fasteigna. Slík skráning til bráðabirgða kemur ekki í stað þinglýsingar stofnskjals skv. 20. gr.

12. gr.

     Síðari málsliður 2. mgr. 39. gr. laganna orðast svo: Þinglýsing á staðfestingu rétthafa samkvæmt þinglýsingabók um aflýsingu skjals er þó fullnægjandi ef um er að ræða bréf sem gefin hafa verið út til ríkissjóðs, opinberra stofnana, banka, sparisjóða, lífeyrissjóða, tryggingafélaga eða verðbréfasjóða.

13. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2001.
     Ákvæði efnismálsliðar a-liðar 1. gr. og c- og d-liðar efnisgreinar b-liðar 1. gr. laga þessara skulu þó ekki koma til framkvæmda að því er varðar tölvufærðar fasteignabækur í umdæmum sýslumannanna í Hafnarfirði, á Ísafirði og í Reykjavík fyrr en þær bækur hafa verið tölvufærðar í Landskrá fasteigna. Ákvæðin skulu þó koma til framkvæmda eigi síðar en 31. desember 2004.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Dómsmálaráðuneytið hefur umsjón með yfirfærslu þinglýsingabóka fasteigna í Landskrá fasteigna í samvinnu við Fasteignamat ríkisins í því skyni að mynda þinglýsingarhluta Landskrár fasteigna í samræmi við lög um skráningu og mat fasteigna. Um gerð þinglýsingarhluta Landskrár fasteigna fer eftir ákvæðum laga þessara.
     Áður en upplýsingar úr þinglýsingabók eru yfirfærðar í Landskrá fasteigna skal þinglýsingarstjóri bera saman lýsingu fasteignar eins og hún er í Landskrá fasteigna og þinglýsingabók. Komi fram misræmi þar skal þinglýsingarstjóri skrá um það athugasemdir í Landskrá fasteigna.
     Sé fasteign í þinglýsingabók ekki auðkennd með fastanúmeri eða landnúmeri er þinglýsingarstjóra heimilt að nota auðkenni fasteignar í Landskrá fasteigna, enda leiki ekki vafi á að um sömu eign sé að ræða.
     Við afmörkun landeignar í Landskrá fasteigna skal leggja til grundvallar lýsingu eignamarka í þinglýsingabók séu þau fyrir hendi, en ella skal miða við lýsingu í landamerkjaskrá. Séu upplýsingar um afmörkun landeignar ekki fyrir hendi, hvorki í þinglýsingabók né landamerkjaskrá, skal þinglýsingarstjóra heimilt að leggja til grundvallar afmörkun samkvæmt skrám sveitarfélags.
     Dómsmálaráðherra setur að öðru leyti nánari reglur um hvernig skuli brugðist við misræmi í skráningu milli þinglýsingabóka og Landskrár fasteigna.

Samþykkt á Alþingi 4. maí 2000.