Ferill 636. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1186  —  636. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um varðveislu báta og skipa.

Frá sjávarútvegsnefnd.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa tillögur um hvernig skuli staðið að varðveislu gamalla skipa og báta sem eru mikilsverðar minjar um atvinnu og byggðasögu. Í því sambandi verði mótaðar reglur um fjármögnun, sem m.a. Þróunarsjóður sjávarútvegsins taki þátt í, og varðveislugildi báta og skipa skilgreint.

Greinargerð.


    Nefndin flytur þessa tillögu í framhaldi af umfjöllun um 102. mál, frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 92/1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum (þskj. 104). Í því er lagt til að Þróunarsjóður sjávarútvegsins veiti byggðasöfnum og sjóminjasöfnum styrki til varðveislu skipa samkvæmt nánar skilgreindum reglum. Frumvarpið var flutt af þingmönnum allra þingflokka sem sæti eiga á Alþingi.
    Nefndin er sammála þeim markmiðum sem frumvarpið er byggt á, en telur eðlilegt í ljósi umsagna sem bárust um málið að nánar verði skoðað hvernig best verði staðið að varðveislu báta og skipa. Þá telur nefndin brýnt að mótaðar verði reglur um fjármögnun og að varðveislugildi báta og skipa verði skilgreint. Leggur nefndin áherslu á að málinu verði lokið af hálfu ríkisstjórnarinnar á þessu ári.