Ferill 24. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1248  —  24. mál.



Nefndarálit



um till. til þál. um setningu siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið umsagnir frá Fjármálaeftirlitinu, Verslunarráði Íslands, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Verðbréfaþingi Íslands, Neytendasamtökunum, Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Seðlabanka Íslands og Samtökum fjárfesta og sparifjáreigenda.
    Tillögugreinin gerir ráð fyrir að viðskiptaráðherra sjái um að allar stofnanir og fyrirtæki á fjármálamarkaðinum setji sér sérstakar siðareglur í viðskiptum og verði þær lagðar fyrir viðskiptaráðherra til staðfestingar. Hliðsjón verði m.a. höfð af tilmælum framkvæmdastjórnar ESB frá 25. júlí 1977 um siðareglur Evrópubandalaganna um viðskipti með framseljanleg verðbréf (77/534/EBE) og almennt viðurkenndum meginreglum FIBV (Alþjóðasambands kauphalla) um viðskiptahætti í verðbréfaviðskiptum frá 1992.
    Nefndin telur ekki eðlilegt að viðskiptaráðherra hafi bein afskipti af því að fyrirtæki setji sér siðareglur eins og tillögugreinin gerir ráð fyrir. Hins vegar finnst nefndinni eðlilegt að kannað verði hvort fyrirtæki hafi sett sér slíkar siðareglur og í framhaldi af því verði hugað að því hvernig hægt verði að koma því við að þau fyrirtæki sem ekki hafi sett sér slíkar reglur geri það. Leggur nefndin því til að viðskiptaráðherra verið falið að kanna hvort fyrirtæki á fjármálamarkaði hafi sett sér siðareglur og skila Alþingi skýrslu um niðurstöður könnunarinnar. Leggur nefndin áherslu á að skýrslan verði lögð fram í upphafi næsta löggjafarþings.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:

    Tillögugreinin orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela viðskiptaráðherra að kanna hvort stofnanir og fyrirtæki á fjármálamarkaði hafi sett sér siðareglur í samræmi við tilmæli framkvæmdastjórnar ESB frá 25. júlí 1977 um siðareglur Evrópubandalaganna um viðskipti með framseljanleg verðbréf (77/534/ EBE) og almennt viðurkenndar meginreglur FIBV (Alþjóðasambands kauphalla) um viðskiptahætti í verðbréfaviðskiptum frá 1992. Ráðherra skili Alþingi skýrslu um niðurstöðu könnunarinnar í upphafi haustþings.

Alþingi, 8. maí 2000.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Hjálmar Árnason.



Sigríður A. Þórðardóttir.


Pétur H. Blöndal.


Gunnar Birgisson.



Jóhanna Sigurðardóttir.


Margrét Frímannsdóttir.


Ögmundur Jónasson.