Ferill 571. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1375  —  571. mál.





Nefndarálit



um till. til þál. um jarðgangaáætlun fyrir árin 2000–2004.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jóhann Guðmundsson frá samgönguráðuneyti og Helga Hallgrímsson, Jón Rögnvaldsson og Hrein Haraldsson frá Vegagerðinni.
    Alþingi samþykkti þingsályktun í mars 1999 þess efnis að fela samgönguráðherra að vinna langtímaáætlun um gerð jarðganga á Íslandi. Vegagerðin fékk málið til vinnslu og skilaði hún jarðgangaáætlun í janúar sl. Í framhaldi af því var lögð fram tillaga sú sem hér er til afgreiðslu.
    Það er niðurstaða samgöngunefndar að jarðgangagerð sé áhrifarík leið til samgöngubóta þar sem þeim verður ekki komið við með öðrum hætti þannig að viðunandi teljist. Með jarðgöngum má rjúfa vetrareinangrun, stækka atvinnu- og þjónustusvæði og tengja saman byggðarlög með þeim hætti að skilyrði skapist fyrir eflingu byggðar og hagstæða íbúaþróun.
    Fyrstu verkefnin samkvæmt tillögunni eru jarðgöng milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar annars vegar og milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar hins vegar. Þessum verkefnum er ekki raðað. Nefndin er sammála þessu verkefnavali og að mati hennar er eðlilegt að samgönguráðherra taki ákvörðun um tilhögun útboðs verkefnanna þegar rannsóknir eru komnar á það góðan rekspöl að allir helstu þættir framkvæmdanna liggi fyrir. Í því felst meðal annars að ákveða hvort bæði verkefnin verði boðin út í einu eða annað þeirra fyrst. Er reiknað með að rannsóknin taki tvö ár en þó líklega skemmri tíma á Austurlandi. Á árunum 2002–2004 er gert ráð fyrir að árlega verði 1.400 millj. kr. lagðar í þessi verkefni.
    Samhliða framkvæmdum við þessi tvö verkefni verða hafnar rannsóknir til undirbúnings jarðgöngum á Vestfjörðum og Austfjörðum. Sérstaklega eru nefnd þrjú verkefni sem rannsaka á.
    Nefndin leggur áherslu á að fjár til að standa straum af kostnaði við jarðgangagerð samkvæmt tillögunni verði aflað sérstaklega, m.a. með sölu ríkiseigna.
    Vegáætlun er nú til endurskoðunar og leggur nefndin til að jarðgangaáætlun verði felld inn í hana. Verður jarðgangaáætlun því hluti vegáætlunar og kemur þar með til endurskoðunar á tveggja ára fresti.



Prentað upp.

    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 10. maí 2000.



Árni Johnsen,


form., frsm.


    Kristján L. Möller.


Arnbjörg Sveinsdóttir.



Hjálmar Árnason.


Lúðvík Bergvinsson,


með fyrirvara.



Þorgerður K. Gunnarsdóttir.



Jón Bjarnason,


með fyrirvara.


Guðmundur Hallvarðsson.


Jón Kristjánsson.