Ferill 647. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1382  —  647. mál.




Skýrsla



félagsmálaráðherra, Páls Péturssonar, til Alþingis um þing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) sem haldið var á árinu 1998.

(Lögð fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



1. INNGANGUR


    Á síðustu 10 til 15 árum hafa orðið róttækar breytingar á efnahagsskipan heimsins. Gerðir hafa verið umfangsmiklir samningar um afnám hindrana í verslun og viðskiptum. Fyrirtæki og fyrirtækjasamsteypur hafa verið sameinaðar í meira mæli en áður og myndaðar stærri einingar en áður hafa þekkst sem hafa atvinnurekstur í öllum heimsálfum. Í þessu sambandi er talað um alþjóðavæðingu efnahagsmála. Búist var við að hagræðing og sérhæfing skiluðu meiri hagvexti, fjölgun starfa, félagslegum umbótum og almennt bættum efnahag. Þótt hagvöxtur hafi aukist hafa aðrar vonir ekki ræst. Til dæmis hefur störfum ekki fjölgað jafnmikið með alþjóðavæðingu efnahagsmála og sumir gerðu ráð fyrir og bilið á milli ríkra og fátækra hefur breikkað. Þessi þróun er stöðugt á dagskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og er brotin þar til mergjar en svörin liggja ekki í augum uppi. Hins vegar leggur stofnunin áherslu á að mæta þessum breytingum á margvíslegan hátt.
    Á oddvitafundi um félagslega þróun sem haldinn var í Kaupmannahöfn 1995 voru m.a. hugsanlegar afleiðingar alþjóðavæðingar til umfjöllunar. Ein af niðurstöðum fundarins var sú að fela Alþjóðavinnumálastofnuninni að taka til umfjöllunar með hvaða hætti væri hægt að tryggja að virt væru grundvallarréttindi í atvinnulífinu samfara alþjóðavæðingu efnahagslífsins. Með afgreiðslu yfirlýsingar um grundvallarréttindi skilaði 86. Alþjóðavinnumálaþingið því verki sem Kaupmannahafnarfundurinn fól ILO.
    Yfirlýsingin markar tímamót í starfsemi stofnunarinnar. Með henni er tekið fram að af aðild að Alþjóðavinnumálastofnuninni leiði að aðildarríki skuldbindi sig til að virða tiltekin réttindi sem felast í grundvallarsamþykktum ILO enda þótt þær hafi ekki verið fullgiltar af hlutaðeigandi ríki. Þær skuldbindingar sem hér um ræðir eru að virða réttinn til gera kjarasamninga, afnám hvers konar nauðungarvinnu, skylda til virkra aðgerða til að afnema vinnu barna og aðgerðir til að koma á jöfnum rétti karla og kvenna á vinnumarkaði.
    Þingið afgreiddi enn fremur ítarlega tillögu um aðgerðir til að bæta starfsumhverfi smárra og meðalstórra fyrirtækja. Reynsla ýmissa ríkja sýnir að þau eru vænlegur kostur við að skapa atvinnu og fjölga störfum. Samkvæmt tillögunni er því beint til aðildarríkjanna að þau tileinki sér og beiti viðeigandi stefnu í peningamálum og atvinnumálum sem stuðli að vexti og viðgangi fyrirtækja af þessari stærð. Sérstök áhersla er lögð á dregið sé úr skrifræði og íþyngjandi sköttum og öðrum gjöldum.
    Að venju starfaði á þinginu nefnd sem fjallaði um framkvæmd aðildarríkjanna á alþjóðasamþykktum og tillögum ILO á sviði félags- og vinnumála. Þingnefndin fjallaði ítarlega um viðvarandi virðingarleysi ríkisstjórnar Burma (Myanmar) fyrir réttindum sem fólgin eru í alþjóðasamþykkt um félagafrelsi. Nefndin fékk sönnun fyrir því að í Súdan viðgengst þrælkunarvinna. Þingið samþykkti einróma að beina því til þessara tveggja ríkja að aðstæðum verði þegar í stað komið í það horf að þær séu í samræmi við hlutaðeigandi samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.
    Fjallað var um vinnu barna en fyrir þinginu lá ítarleg skýrsla sem alþjóðavinnumálaskrifstofan hafði tekið saman. Samkvæmt skýrslunni er áætlað að um 250 milljónir barna í þróunarlöndunum á aldrinum 5–14 ára séu neydd til að vinna fullan vinnudag eða hluta úr degi. Mörg þeirra vinna við aðstæður sem hafa skaðleg áhrif á andlega og líkamleg heilsu þeirra. Gert er ráð fyrir að á 87. Alþjóðavinnumálaþinginu 1999 fari fram önnur umræða um þetta málefni og afgreidd verði samþykkt um afnám vinnu barna í sinni verstu mynd.
    Þinginu heppnaðist ekki að ná samstöðu um afgreiðslu alþjóðasamþykktar og tillögu um verktöku einstaklinga eða launaverktöku. Mikill ágreiningur ríkti um málið einkum um gildssvið og skilgreiningar. Samkomulag tókst um að beina því til stjórnarnefndar að setja málið að nýju á dagskrá Alþjóðavinnumálaþingsins árið 2002.
    Af hagkvæmisástæðum er nokkur grein gerð fyrir starfi félagsmálaráðuneytisins við framkvæmd félagsmálasáttmála Evrópu í viðauka við skýrsluna. Þar er greint frá athugasemdum sem sérfræðinganefnd Evrópuráðsins hefur gert við framkvæmd Íslands á skuldbindandi ákvæðum sáttmálans á árunum 1994–96.
    Með vísan til 19. gr. stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er hér með lögð fyrir Alþingi skýrsla um 86. Alþjóðavinnumálaþingið og birt tillaga um aðgerðir til að fjölga störfum í smáum og meðalstórum fyrirtækjum sem þingið afgreiddi. Enn fremur er birt yfirlýsing Alþjóðavinnumálaþingsins um grundvallarréttindi í atvinnulífinu.

2. 86. ALÞJÓÐAVINNUMÁLAÞINGIÐ 1998
2.1. SKIPULAG OG ÞÁTTTAKA

    Alþjóðavinnumálaþingið var sett í 86. skipti í Þjóðabandalagshöllinni í Genf 2. júní 1998. Þingið var fjölsótt að venju og sóttu það að þessu sinni rúmlega 3.000 þingfulltrúar. Alls sendu 157 af 174 aðildarríkum ILO sendinefndir til þingsins. Ráðherrar fóru fyrir sendinefndum 127 aðildarríkja.
    Forseti þingsins var kosinn Jean-Jacques Oechslin, ríkisstjórnarfulltrúi frá Frakklandi. Ochslin hefur verið lengur en nokkur annar fulltrúi í sendinefnd Frakklands á Alþjóðavinnumálaþinginu.
    Varaforsetar voru kosnir Alhaji Muhammed Mumuni, félags- og vinnumálaráðherra Ghana, sem fulltrúi ríkisstjórna á þinginu, Shri I. P. Anand, fulltrúi atvinnurekanda á Indlandi, og Sukesada Ito, fulltrúi launafólks í Japan.
    Sendinefnd Íslands skipuðu eftirtaldir:
    Frá félagsmálaráðuneyti: Gylfi Kristinsson, deildarstjóri í félagsmálaráðuneytinu. Frá utanríkisráðuneyti: Benedikt Jónsson, sendiherra Íslands hjá alþjóðastofnunum í Genf. Varamenn voru: Haukur Ólafsson sendiráðunautur og Guðmundur B. Helgason sendiráðsritari. Fulltrúar atvinnurekenda: Hrafnhildur Stefánsdóttir, lögfræðingur Vinnuveitendasambands Íslands. Varamaður hennar var Jón H. Magnússon, lögfræðingur VSÍ. Fulltrúar launafólks: Ástráður Haraldsson, lögfræðingur Alþýðusambands Íslands. Varamaður hans var Hervar Gunnarsson, varaforseti ASÍ.
    Á dagskrá þingsins voru eftirtalin málefni:
     1.      Skýrsla forstjóra og stjórnarnefndar.
     2.      Framkvæmd fjárhags- og framkvæmdaáætlunar.
     3.      Framkvæmd alþjóðasamþykkta og tillagna.
     4.      Yfirlýsing um grundvallarréttindi.
     5.      Drög að alþjóðasamþykkt um afnám vinnuþrælkunar barna.
     6.      Aðgerðir til að fjölga störfum í smáum og meðalstórum fyrirtækjum.
     7.      Verktakavinna launafólks (síðari umræða).
     8.      Tillögur til þingsályktunar.
     9.      Kjörbréf.
    Fyrirkomulaginu sem tekið var upp á 79. Alþjóðavinnumálaþinginu árið 1992 var haldið þetta þing. Í því felst að fulltrúar þeirra þriggja hópa, sem aðild eiga að þinginu, komu saman til óformlegra funda daginn fyrir formlega setningu Alþjóðavinnumálaþingsins. Á fundunum var gengið frá tilnefningum fulltrúa til setu í þingnefndum. Samþykkt var stofnun eftirtalinna þingnefnda: fjárhagsnefndar, nefndar um framkvæmd alþjóðasamþykkta og tillagna, nefndar um verktakavinnu einstaklinga, nefndar sem fjallaði um drög að alþjóðasamþykkt um afnám misnotkunar barna í sinni verstu mynd, nefndar um atvinnusköpun í smáum og meðalstórum fyrirtækjum, þingskapanefndar og nefndar um framvindu þingsins. Fulltrúar Íslands tóku þátt í nefnd um framkvæmd alþjóðasamþykkta og fjárhagsnefnd.
    Sérstakir heiðursgestir forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar, Michel Hansenne, og Alþjóðavinnumálaþingsins voru dr. Rafel Caldera, forseti Venesúela, og frú Mary Robinson, framkvæmdastjóri mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

2.2. ÞINGSETNING OG ALMENNAR UMRÆÐUR

    Þingsetning og almennar umræður á þessu 86. Alþjóðavinnumálaþingi voru með nokkuð öðrum hætti en undanfarin ár.
    Yfirleitt er setning Alþjóðavinnumálaþingsins mjög hefðbundin og hefst með kosningu þingforseta og annarra starfsmanna þingsins. Í kjölfarið fylgja ræður talsmanna þeirra þriggja hópa sem eiga seturétt á þinginu, þ.e. fulltrúar ríkisstjórna, atvinnurekenda og launafólks. Það var ekki laust við að þessi elsta sérstofnun Sameinuðu þjóðanna kastaði ellibelgnum þegar í þingsalinn gengu 500 börn á öllum aldri með söng og hljóðfæraslátt. Þau luku þar með heimsgöngu gegn vinnuþrælkun barna. Gangan var liður í því að vekja ríkisstjórnir og alþjóðastofnanir til meðvitunar um það hversu vinnuþrælkun barna er útbreitt vandamál. Markmiðið með því að ljúka göngunni á þessari stundu og stað var að hvetja þingfulltrúa á Alþjóðavinnumálaþinginu til að afgreiða alþjóðasamþykkt um afnám barnavinnu í sinni verstu mynd.
    Hitt atriðið sem var óvenjulegt var að forstjóri Alþjóðavinnumálastofnunarinnar lagði ekki fram að þessu sinni skýrslu um afmarkað efni á sviði vinnumála eins og venja er. Af þessu leiddi að ræðumenn við almennar umræður höfðu frjálsar hendur um efnisval í ræðum sínum. Enda fór það svo að viðfangsefni þeirra voru fjölbreytileg. Margir kusu að fjalla um skýrslu stjórnarnefndar um starfsemi stofnunarinnar á árunum 1996 og 1997. Flestir gerðu þó að umtalsefni drög sem lágu fyrir þinginu að yfirlýsingu um grundvallarreglur á sviði félags- og vinnumála. Samkvæmt yfirlýsingunni er litið svo á að af aðild að Alþjóðavinnumálastofnuninni leiði skyldu til að virða ákvæði í nokkrum grundvallarsamþykktum stofnunarinnar jafnvel þótt aðildarríki hafi ekki undirgengist skuldbindingar samkvæmt samþykktunum með fullgildingu þeirra. Þær skuldbindingar sem hér um ræðir eru að virða réttinn til gera kjarasamninga, afnám hvers konar nauðungarvinnu, skylda til virkra aðgerða til að afnema vinnu barna og aðgerðir til að koma á jöfnum rétti karla og kvenna á vinnumarkaði. Yfirgnæfandi meiri hluti ræðumanna lýsti yfir ánægju með drögin og lét í ljós von um að víðtæk samstaða tækist um afgreiðslu þeirra. Ekki tóku allir í sama streng, enda fór það svo að yfirlýsingin náði fram að ganga með mjög tæpum meiri hluta eins og lýst er á öðrum stað í þessari skýrslu.
    Greinilegt var að lok heimsgöngunnar gegn barnaþrælkun við þingsetninguna hafði mikil áhrif á ræðumenn. Margir þeirra fjölluðu um stöðu barna, einkum í þróunarlöndunum, og mikilvægi þess bæði fyrir þau sjálf og efnahagslega þróun ríkjanna að þau fái tækifæri til að afla sér menntunar og hljóti undirbúning fyrir þátttöku í atvinnulífinu sem geri þeim síðar á lífsleiðinni kleift að afla sér tekna til framfærslu og lífsviðurværis. Ræðumenn lögðu áherslu á að heilbrigð og vel menntuð þjóð væri forsenda framfara í efnahags- og félagsmálum. Þeir bentu á að það væri andstætt vonum um þróun þessara ríkja ef ný kynslóð fengi ekki tækifæri til að læra að lesa og skrifa og yrði farlama fyrir aldur fram vegna vinnuþrældóms og slæmra aðstæðna. Hafa yrði í huga að það væri ekki nægilegt að banna börnum þátttöku í atvinnulífinu. Þau yrðu að hafa aðra kosti. Ókeypis menntun fyrir öll börn sé ein leið til að koma í veg fyrir að þau sem búa við slæmar aðstæður lendi í enn vonlausari stöðu.
    Ræðumenn luku yfirleitt máli sínu með því að færa forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar, Michel Hansenne, þakkir fyrir vel unnin störf í þágu ILO. Ljóst var að Hansenne mundi láta af störfum í febrúar 1999. Þetta var því síðasta vinnumálaþing hans sem forstjóra stofnunarinnar.

2.3. UMRÆÐUR UM KJÖRBRÉF

    Í kjörbréfanefnd eiga einungis sæti þrír fulltrúar. Hún er þar með fámennasta nefnd þingsins. Á 86. Alþjóðavinnumálaþinginu áttu eftirtaldir sæti í nefndinni: Oumar Diop, ríkisstjórnarfulltrúi frá Senegal, formaður. Enn fremur sátu í nefndinni Funes de Rioja, fulltrúi atvinnurekenda í Argentínu, og Ulf Edström, fulltrúi launafólks í Svíþjóð.
    Að venju komu fram kærur við val á fulltrúum í sendinefndum nokkurra ríkja. Oftast er kvartað undan því að ríkisstjórnir sendi ófullskipaðar sendinefndir, þ.e. að annaðhvort séu þær án fulltrúa atvinnurekanda eða fulltrúa launafólks. Stundum kemur fyrir að sendinefndirnar séu án fulltrúa aðila vinnumarkaðarins. Komi sú staða upp eru viðbrögðin þau að fulltrúar ríkisstjórnarinnar eru sviptir atkvæðisrétti.
    Nefndin varð sammála um að telja öll fram komin kjörbréf gild. Þegar nefndin er sammála er niðurstaða hennar afgreidd án umræðu af allsherjarþinginu.

2.4. FJÁRMÁL

    Alþjóðavinnumálaþingið afgreiðir starfs- og fjárhagsáætlun fyrir Alþjóðavinnumálastofnunina til tveggja ára í senn. 85. þingið samþykkti áætlun fyrir árin 1998–99. Fjallað er um fjármálin í sérstakri þingnefnd, fjárhagsnefnd, sem í eiga sæti fulltrúar ríkisstjórna aðildarríkjanna. Oft hefur verið stormasamt í nefndinni og hart tekist á um fjármálin. Það eru einkum Bandaríkjamenn sem hafa haldið uppi gagnrýni sem er skiljanlegt þar sem þeir greiða fjórðung af heildarárgjöldum aðildarríkjanna. Þeim er það mikið hagsmunamál að útgjöldum sé stillt í hóf. Í skýrslu um 85. þingið kom fram að friðsælt hafi verið í nefndinni árið 1997. Ástæðan var hagstætt gengi Bandaríkjadals gagnvart svissneska frankanum. Fjárhagsáætlunin fyrir árin 1996–97 var 579,5 milljónir Bandaríkjadala en tillagan fyrir árin 1998–99 hljóðaði upp á 481 milljón Bandaríkjadala. Mælt í svissneskum frönkum var um að ræða örlitla hækkun á fjárhagsáætluninni á milli ára (úr 672 milljónum svissneskra franka 1996–97 í 702 milljónir svissneskra franka 1998–99).
    Þess skal getið að hlutdeild Íslands í árgjöldunum er 0,03%. Árgjald Íslands á árinu 1999 verður samkvæmt því um 101.500 svissneskir frankar.

2.5. FRAMKVÆMD SAMÞYKKTA OG TILLAGNA

    Nefnd um framkvæmd alþjóðasamþykkta er fjölmennasta nefnd Alþjóðavinnumálaþingsins. Á 86. Alþjóðavinnumálaþinginu sátu í nefndinni 214 fulltrúar með atkvæðisrétti eða nokkuð færri en á 85. þinginu, 105 fulltrúar ríkisstjórna, 26 fulltrúar atvinnurekenda og 83 fulltrúar launafólks. Auk þess sátu 153 áheyrnarfulltrúar fundi nefndarinnar. Samtals áttu 48 alþjóðasamtök áheyrnarfulltrúa í henni. Þannig sátu oft á tíðum rúmlega fjögur hundruð fulltrúar nefndafundi.
    Formaður var kosinn van der Heijden, fulltrúi ríkisstjórnar Hollands. Varaformenn voru kosnir þeir sömu og undanfarin vinnumálaþing: Alfred Wisskirchen, fulltrúi atvinnurekenda í Þýskalandi, og Willy Peirens, fulltrúi launafólks í Belgíu. Af hálfu Íslands sátu í nefndinni Gylfi Kristinsson, Ástráður Haraldsson og Hrafnhildur Stefánsdóttir.
    Umræður í nefndinni byggja á skýrslu sérfræðinganefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um framkvæmd alþjóðasamþykkta og tillagna. Skýrsla sérfræðinganna til vinnumálaþingsins hefur vaxið mjög að umfangi síðustu árin. Í skýrslunni gerir sérfræðinganefndin almennt grein fyrir framvindu mála varðandi framkvæmd samþykkta og tillagna sem hafa verið afgreiddar af Alþjóðavinnumálaþinginu. Stærsti hluti skýrslu sérfræðinganefndarinnar fjallar um framkvæmd einstakra aðildarríkja á samþykktum sem þau hafa fullgilt. Einnig er að finna upplýsingar um það hvernig aðildarríkin uppfylla aðrar skuldbindingar, t.d. þá að kynna fyrir löggjafarsamkomu samþykktir Alþjóðavinnumálaþingsins og hvort alþjóðavinnumálaskrifstofunni í Genf hafa borist skýrslur um framkvæmd alþjóðasamþykkta eins og áskilið er í stofnskrá ILO.
    Störf þingnefndar um framkvæmd alþjóðasamþykkta hefjast á umræðum um almenna hluta skýrslu sérfræðinganna. Yfirleitt eru fulltrúar ríkisstjórna í meiri hluta ræðumanna sem taka þátt í þessum hluta nefndarstarfsins. Margir gera að umtalsefni skoðanaskipti sem hafa orðið um hlutverk annars vegar þingnefndarinnar um framkvæmd alþjóðasamþykkta og hins vegar sérfræðinganefndar ILO. Einnig var fjallað um fjölda fullgildinga, skýrslur um framkvæmd alþjóðasamþykkta og nokkur önnur atriði sem fram koma í almennum hluta skýrslunnar. Að afloknum umræðum um þessi atriði hófst athugun á framkvæmd einstakra aðildarríkja á fullgiltum alþjóðasamþykktum. Formaður sérfræðinganefndarinnar, William Douglas, var viðstaddur almennar umræður í nefndinni.
    Fulltrúi ríkisstjórnar Íslands í nefndinni hafði að þessu sinni orð fyrir fulltrúum ríkisstjórna Norðurlanda í almennum umræðum. Hann gerði að umtalsefni hlutverk sérfræðinganefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og vakti athygli á því að hún nýtur mikils álits annarra alþjóðlegra og svæðisbundinna stofnana sem fjalla um mannréttindamál. Ástæðan væri m.a. skýrsla sérfræðinganefndarinnar sem hefði að aðalsmerki framsetningu sem byggði á umfjöllun sem væri hlutlæg. Hann færði sérfræðinganefndinni þakkir ríkisstjórna Norðurlandanna fyrir skýrsluna.
    Fulltrúi Íslands fjallaði um þann þátt skýrslu sérfræðinganna þar sem minnt er á að 50 ár eru liðin frá afgreiðslu Alþjóðavinnumálaþingsins á einni af grundvallarsamþykktum ILO, þ.e. samþykkt nr. 87, um félagafrelsi. Hann tók undir með sérfræðingunum að það væri ótrúlegt en satt að 54 aðildarríki að Alþjóðavinnumálastofnuninni treystu sér ekki til að fullgilda samþykktina. Hann sagði ríkisstjórnir Norðurlandanna fagna öllum aðgerðum sem leiddu til fjölgunar á fullgildingum á þessari grundvallarsamþykkt ILO.
    Í ræðu talsmanns Norðurlandanna var vakin athygli á áhrifum sem alþjóðasamþykkir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hafa haft á samþykktir og samninga annarra alþjóðastofnana eins og Evrópuráðsins og Evrópusambandsins. Hann lagði áherslu á að hliðstæð ákvæði í þessum samþykktum og samningum yrðu túlkuð með sama hætti og því væri mikilvægt að fulltrúi alþjóðavinnumálaskrifstofunnar tæki virkan þátt í starfi annarra stofnana sem væru virkar á þessu sviði.
    Fulltrúi Íslands lauk máli sínu með því að taka undir áhyggjur sérfræðinganefndarinnar yfir því að sífellt verður meiri dráttur á því að aðildarríkin sendi Alþjóðavinnumálastofnuninni skýrslur um framkvæmd alþjóðasamþykkta innan tilskilinna tímamarka.
    Stutt almenn umræða fór fram í nefndinni um skýrslu frá fjórðu sameiginlegu ráðstefnu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) um framkvæmd tilmæla um stöðu kennara.
    Einnig fór fram almenn umræða um sérstaka úttekt sérfræðinganefndar ILO á framkvæmd samþykktar nr. 159 og tilmæla 168 um starfsendurhæfingu og atvinnumál fatlaðra. Samtals hafa 58 af 174 aðildarríkjum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar fullgilt samþykktina, þar á meðal Ísland.

Umfjöllun um framkvæmd einstakra aðildarríkja á alþjóðasamþykktum.

    Að venju var mestum hluta af starfstíma nefndarinnar varið til að fjalla um framkvæmd aðildarríkjanna á alþjóðasamþykktum og um athugasemdir sem sérfræðinganefndin gerir við framkvæmd aðildarríkjanna á ákvæðum í stofnskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar eða í samþykktum sem hafa verið afgreiddar af Alþjóðavinnumálaþinginu. Athugasemdirnar eru í árlegri skýrslu sérfræðinganefndarinnar til Alþjóðavinnumálaþingsins sem lengist með hverju ári og var að þessu sinni röskar 500 blaðsíður. Þar sem athugasemdirnar eru mun fleiri en nokkur kostur er að taka til umfjöllunar á þinginu vinnur þingnefndin eftir skrá yfir mál sem fulltrúar aðila vinnumarkaðarins koma sér saman um að tekin verði til athugunar í nefndinni. Venjulega tekst nefndinni að fjalla um 50 til 60 mál um þingtímann. Á seinni árum hefur málum verið skipt í tvo flokka. Annars vegar eru málefni sem rekja má til vanrækslu af hálfu aðildarríkjanna. Misbrestur á því að kynna löggjafarsamkomu nýjar alþjóðasamþykktir eða tillögur er dæmi um mál af þessu tagi. Tveimur þingdögum er varið til að fara yfir þessi mál. Hinn flokkinn fylla alvarleg brot aðildarríkja á alþjóðasamþykktum. Þessi mál eru tekin til efnislegrar umfjöllunar sem getur tekið nokkrar klukkustundir allt eftir efni og alvarleika. Brot á grundvallarsamþykktum ILO eru litin sérstaklega alvarlegum aukum, einkum ef um er að ræða brot á ákvæðum alþjóðasamþykkta nr. 87, um félagafrelsi, og nr. 98, um samningafrelsi. Samtals var fulltrúum 27 aðildarríkja stefnt fyrir nefndina til að taka þátt í umræðum um meint brot á alþjóðasamþykktum og mættu fulltrúar 25 ríkja (sjö í Afríku, sjö í Ameríku, níu í Asíu og fjögurra í Evrópu. Ríkin tvö sem ekki sendu fulltrúa fyrir nefndina höfðu ekki sent sendinefnd til þingsins).
    Stærsti hluti skýrslu sérfræðinganefndarinnar fjallar um neikvæða hluti, þ.e. vanrækslu aðildarríkjanna á að uppfylla skildbindingar samkvæmt stofnskrá og alþjóðasamþykktum. En þess er einnig gætt að geta þess sem vel gert þótt það taki minna rými. Í skýrslunni hefur verið venja að birta skrá yfir aðildarríki sem hafa sýnt í verki að þau hafa tekið tillit til ábendinga sérfræðinganna. Að þessu sinni voru á skránni 32 slík tilvik í 22 aðildarríkjum. Samtals hafa verið skráð 2.164 dæmi um umbætur sem aðildarríkin hafa gert á lögum eða lagaframkvæmd í framhaldi af athugasemdum sérfræðinganna frá því að byrjað var að halda slíka skrá árið 1964.

Sérstakar ábendingar.

    Ýmsum viðurlögum er beitt í þingnefndinni til að freista þess að fá aðildarríkin til að sjá að sér og bæta framkvæmd á ákvæðum alþjóðasamþykkta sem þau hafa brotið. Alþjóðavinnumálastofnunin getur ekki þvingað aðildarríkin með valdi til að fara eftir ábendingum sínum. Þess í stað er höfðað til heiðurs hlutaðeigandi og skapað viðhorf meðal annarra aðildarríkja til verknaðarins. Hörðustu viðurlögin felast í því að aðildarríkis er getið í svonefndum sérstaka hluta skýrslu nefndar um framkvæmd alþjóðasamþykkta til allsherjarþings vinnumálaþingsins og á þinginu 1998 var tveggja ríkja getið, þ.e. Mayanmar (Burma) og Súdan.

Myanmar (Burma).

    Ríkisstjórn Burma er að á góðri leið með að komast í hóp ríkisstjórna þeirra aðildarríkja sem eru hvað alræmdastar fyrir að fótum troða grundvallarmannréttindi. Þingnefndin hefur árum saman rætt framkvæmd Mayanmar á framkvæmd samþykktar nr. 87, um félagafrelsi. Í skýrslum sérfræðinganefndarinnar til Alþjóðavinnumálaþingsins ár eftir ár kemur fram að ríkisstjórnin hafi ekki gripið til neinna aðgerða til að tryggja að ákvæði samþykktarinnar væru virt þrátt fyrir síendurtekin loforð um umbætur. Þvert á móti hefur ástandið farið síversnandi. Fulltrúi ríkisstjórnar Bretlands flutti ræðu í nafni ríkisstjórna 12 aðildarríkja um málið. Í þeim hópi voru ríkisstjórnir allra Norðurlandanna, Ítalíu, Kanada Hollands o.fl. Í ræðunni er fordæmt það algjöra virðingarleysi ríkisstjórnarinnar fyrir margendurteknum tilmælum sérfræðinganefndar ILO og Alþjóðavinnumálaþingsins um að fara ekki eftir skuldbindingum sem felast í alþjóðasamningum um mannréttindi, einkum í samþykkt 87 um félagafrelsi. Meðal þess sem breski fulltrúinn vakti athygli á var nýleg ályktun sem samþykkt hafði verið einróma af mannéttindanefnd Sameinuðu þjóðanna. Í henni er vakin athygli á umfangsmikilli nauðungarvinnu og barnaþrælkun í landinu. Nefndin samþykkti einróma harðorða tillögu þar sem ríkisstjórn Mayanmar var eindregið hvött til að gera þegar í stað nauðsynlegar umbætur þannig að ákvæði samþykktar 87 væru að fullu virt, enn fremur að fulltrúum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar verði veitt heimild til að heimsækja landið til að kanna aðstæður að eigin raun.

Súdan.

    Málefni Súdan hafa um árabil verið reglulegt viðfangsefni Alþjóðavinnumálaþingsins. Það snýst um framkvæmd á samþykkt nr. 29, um nauðungarvinnu. Meðal þeirra sem tóku til máls við umræðuna var fulltrúi Bandaríkjanna sem talaði m.a. af hálfu Norðurlandanna, Bretlands, Frakklands og Þýskalands. Í ræðu hans kom fram að svo virtist sem margháttuð mannréttindabrot væru viðvarandi vandamál í Súdan. Þannig bærust ítrekaðar upplýsingar um illræmt þrælahald þrátt fyrir mótmæli ríkisstjórnarinnar. Hún væri hins vegar ófáanleg til að heimila alþjóðlegum sendinefndum að ferðast til þeirra svæða þar sem þrælahald væri talið algengast. Sagðar væru fréttir af ránum á konum og börnum sem haldið væri í gíslingu og notuð sem þjónustufólk á heimilum stjórnarliða. Í skýrslum kæmi einnig fram að þetta fólk væri misnotað kynferðislega. Ekki væri hægt að komast að hinu sanna nema ríkisstjórnin aflétti ferðabanni á alþjóðlegar rannsóknanefndir. Fulltrúi Bandaríkjanna hvatti ríkisstjórn Súdan til að afnema þegar í stað þrælahald í hvaða mynd sem það fyrirfyndist og grípa þegar til aðgerða til að bæta ástandið í landinu þannig að það uppfyllti þau skilyrði sem sett eru í alþjóðasamþykkt nr. 29.


Málefni Indónesíu.


    Til viðbótar framangreindum málum voru athugasemdir sérfræðinganefndarinnar við framkvæmd 23 ríkja teknar til efnislegrar umræðu í þingnefndinni. Ástæða er til að gera grein fyrir umræðum um málefni Indónesíu.
    Á 85. Alþjóðavinnumálaþinginu flutti fulltrúi ríkisstjórnar Íslands ræðu við umræður um framkvæmd Indónesíu á samþykkt nr. 98, um samningafrelsi, í nafni ríkisstjórna Norðurlandanna, Bretlands og Hollands. Í henni var vitnað til skýrslu sérfræðinganefndar ILO um framkvæmd alþjóðasamþykkta. Í skýrslunni kemur fram að sérfræðinganefndin hefur áhyggjur af auknum fjölda kærumála þar sem stjórnvöld Indónesíu eru sökuð um mjög gróf brot á grundvallarreglum á vinnumarkaði, einkum þeim sem lúta að réttindum stéttarfélaga til að annast hagsmunagæslu fyrir hönd félagsmanna. Í ræðunni er tekið undir þessar áhyggjur sérfræðinganefndarinnar og skorað á ríkisstjórn Indónesíu að færa aðstæður til betra horfs. Enn fremur er vakin athygli á máli verkalýðsleiðtogans Muchtar Pakpahan og því beint til ríkisstjórnarinnar að hún virði borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi hans og ekki síst stöðu hans sem verkalýðsleiðtoga. Í skýrslu sérfræðinganefndarinnar til 86. vinnumálaþingsins kom fram að ríkisstjórnin hafi gert ýmsar umbætur, m.a. lýsti fulltrúi ríkisstjórnarinnar því yfir í umræðum á allsherjarþinginu að Indónesía hafði ákveðið að fullgilda fjórar samþykktir, þ.e. samþykkt nr. 87, um félagafrelsi, nr. 105, um afnám nauðungarvinnu, nr. 111, um afnám misréttis og nr. 138, um lágmarksaldur til vinnu. Að auki lýsti fulltrúinn yfir því að ríkisstjórnin hefði ákveðið að leysa Muchtar Pakpahan úr haldi. Að þessu tilefni hélt fulltrúi Íslands ræðu í nefndinni í nafni 16 ríkja (þ.e. Austurríkis, Bandaríkjanna, Belgíu, Bretlands, Danmerkur, Finnlands, Hollands, Íslands, Ítalíu, Japans, Kanada, Noregs, Portúgals, Svíþjóðar, Tyrklands og Þýskalands) þar sem fagnað var þessum jákvæðu tíðindum.
    Breytingar hafa orðið á undanförum árum í nefndinni. Áður heyrði það til undantekninga að fulltrúar annarra ríkisstjórna blönduðu sér í umræður um framkvæmd einstakra ríkja á alþjóðasamþykktum. Yfirleitt voru þar ekki aðrir en fulltrúar aðila vinnumarkaðarins sem létu í sér heyra við þau tækifæri. Þetta hefur breyst þannig að einkum fulltrúar vestrænna ríkisstjórna skipa sér saman um innlegg í þessum þætti nefndarstarfsins.

Athugasemdir við framkvæmd Íslands á fullgiltum alþjóðasamþykktum.

    Í skýrslu sérfræðinganefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar til Alþjóðavinnumálaþingsins koma ekki fram allar ábendingar eða athugasemdir sem hún gerir við framkvæmd aðildarríkjanna við fullgiltar alþjóðasamþykktir. Í kafla um framkvæmd samþykktar nr. 98 er að finna athugasemd sem snertir Ísland. Nefndin sendir aðildarríkjunum einnig bréflega ýmsar fyrirspurnir og ábendingar. Íslenskum stjórnvöldum bárust á árinu 1998 slíkar fyrirspurnir sem snertu framkvæmd nokkurra samþykkta.

Framkvæmd samþykktar nr. 98, um félagafrelsi.

    Í skýrslunni til 86. Alþjóðavinnumálaþingsins kvarta sérfræðingarnir undan því að hafa ekki fengið í hendur skýrslu Íslands um framkvæmd samþykktar nr. 98, um félagafrelsi. Þeir neyðist því til að birta aftur fyrri niðurstöðu sína sem er efnislega eftirfarandi:
    Í skýrslunni segir að nefndin gefi gaum að skýrslu ríkisstjórnarinnar. Hún kveðst einnig veita athygli niðurstöðum nefndar um félagsfrelsi í máli nr. 1768 [299. skýrsla nefndarinnar sem samþykkt var á 263. fundi stjórnarnefndar ILO í júní 1995].
    Nefndin vísar til fyrri athugasemda um nauðsyn þess að ríkisstjórnin forðist að grípa inn í kjarasamninga sem hafi verið gerðir með frjálsum samningaviðræðum aðila vinnumarkaðarins þar sem slíkt skerði rétt launafólks og atvinnurekenda til að semja um kjör og vinnuskilyrði. Fram kemur að skipun vinnuhóps um samskiptareglur á vinnumarkaði 4. október 1994 hafi vakið athygli nefndarinnar. Skipunin hafi að hluta til byggst á ábendingum sérfræðinganefndarinnar. Hlutverk vinnuhópsins sé að fara yfir samskiptareglur á vinnumarkaði og afla upplýsinga um slíkar reglur í nágrannalöndunum. Fyrir hópinn sé lagt að taka saman skýrslu um niðurstöðuna af athugun sinni. Ef í ljós kemur nauðsyn breytinga á íslenskri löggjöf er hópunum falið að setja fram tillögur um það efni. Sérfræðingarnir óska eftir að ríkisstjórnin veiti upplýsingar um niðurstöður af athugun vinnuhópsins, einkum ef settar verða fram tillögur um breytingar á samskiptareglum á vinnumarkaði.
    Sérfræðinganefndin kveðst enn fremur gefa því gaum að með kjarasamningum sem gerðir voru á árinu 1995 hafi verið gert þríhliða samkomulag með aðild ríkisstjórnarinnar líkt og áður hafi verið gert. Samningar hafi verið gerðir 21. febrúar 1995 á milli samtaka atvinnurekenda og launafólks til tveggja ára. Meginmarkmið samninganna sé að breyta launadreifingunni til hagsbóta fyrir hina lægstlaunuðu samtímis því að stefnt sé að því að halda heildarlaunabreytingum á svipuðu stigi og í nágrannalöndunum. Gert sé ráð fyrir að samningarnir feli í sér að launabreytingar verði 3,6% 1995 og 3,1% 1996. Ríkisstjórnin bendi á að samningarnir gildi til ársloka 1996 en þeir séu uppsegjanlegir frá 31. desember 1995 ef verðlagsþróun verður í verulegum mæli önnur en í helstu samkeppnislöndunum Íslands. Verði samningum sagt upp komi kauphækkanir á árinu 1996 ekki til framkvæmda.
    Í þessu sambandi kveðst nefndin vilja minna ríkisstjórnina á það álit sitt að það sé andstætt grundvallarreglum samþykktar nr. 98 að afnema ákvæði í kjarasamningi á þeirri forsendu að það sé ekki í hátt við stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Sérfræðingarnir segjast treysta því að umsamdar launahækkanir í samningunum frá árinu 1995 komi til framkvæmda. Þeir óska þess að ríkisstjórnin veiti upplýsingar um framvindu mála í næstu skýrslu sinni um framkvæmd samþykktarinnar.
    Þess skal getið að af ýmsum ástæðum reyndist ekki unnt að senda alþjóðavinnumálaskrifstofunni skýrslu um framkvæmd samþykktar nr. 98 í tæka tíð þannig að sérfræðingunum gæfist færi á að kanna efni hennar fyrir 86. Alþjóðavinnumálaþingið. Skýrslan var send skrifstofunni vorið 1998.
    Bréflega bárust íslenskum stjórnvöldum eftirfarandi athugasemdir í mars 1998:

Samþykkt nr. 111, um misrétti með tilliti til atvinnu og starfs.

    Sérfræðingarnir vísa til upplýsinga í skýrslu Íslands um að mat á framkvæmdaáætlun um aðgerðir til að koma á jafnrétti karla og kvenna á árunum 1994–97 fari fram á árinu 1998. Sérfræðinganefndin óskar eftir upplýsingum um niðurstöður matsins og um frekari aðgerðir til að hrinda ákvæðum áætlunarinnar í framkvæmd.
    Nefndin gerir að umtalsefni norræna verkefnið Nord-Lilia og óskar eftir upplýsingum um frekari aðgerðir til að auka virðingu fyrir grundvallarreglum sem settar eru í samþykktinni sem miða að því að koma á jafnrétti karla og kvenna.
    Loks óskar nefndin eftir að fá senda endurskoðaða þýðingu á stjórnarskránni sem hafi að geyma nýjan kafla um mannréttindamál.

Samþykkt nr. 155, um öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi.


    Í bréfi alþjóðavinnumálaskrifstofunnar er að finna ítarlegar athugasemdir við framkvæmd samþykktar nr. 155 og spurningar um einstök atriði. Sérfræðingarnir óska eftir upplýsingum um þróun vinnuverndarmála á sviðum sem hafi verið undanþegin gildissviði samþykktarinnar, svo sem loftferðir, fiskveiðar og köfun. Þeir óska eftir upplýsingum um framvinduna að því er varðar að láta samþykktina taka til fleiri starfsgreina.
    Nefndin óskar eftir eintökum af reglugerðum sem settar hafa verið á grundvelli 34. og 38. gr. laga nr. 46/1980.
    Enn fremur er óskað eftir upplýsingum um setningu reglugerðar um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað.
    Hún óskar einnig eftir upplýsingum um leiðbeiningarreglur sem samdar hafa verið um flutning á hættulegum efnum.
    Sérfræðingarnir vilja einnig fá skýringar á því hvaða verndar gegn uppsögnum eða öðrum aðgerðum þeir starfsmenn njóti sem neita að vinna við hættulegar aðstæður.
    Nefndin óskar eftir ljósriti af lögum nr. 81/1988, sbr. lög nr. 70/1995, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.
    Óskað er eftir ljósriti af reglugerð um persónuhlífar.
    Loks óskar sérfræðinganefndin eftir upplýsingum um framkvæmd 18. gr. samþykktarinnar um skyldu atvinnurekenda til að bregðast við neyðartilvikum og slysum.

Samþykkt nr. 159, um starfsendurhæfingu og atvinnumál fatlaðra.

    Í athugasemdunum kemur fram að sérfræðinganefndin veitir athygli upplýsingum í skýrslu Íslands um framkvæmd samþykktarinnar, einkum setningu laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðra.
    Nefndin vísar til 3. gr. samþykktarinnar og óskar eftir ítarlegum upplýsingum um aðgerðir til að finna vinnu fyrir fatlaða á almennum vinnumarkaði.

2.6. MÁLEFNI SMÁRRA OG MEÐALSTÓRRA FYRIRTÆKJA

    Málefni smárra og meðalstórra fyrirtækja hafa tölvuvert verið til umfjöllunar á vettvangi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Fyrir þessu eru ýmsar ástæður. Meðal annars hefur verið horft til þeirra sem góðs kosts í atvinnusköpun og fjölgun starfa.
    Á 85. Alþjóðavinnumálaþinginu var atvinnusköpun í smáum og meðalstórum fyrirtækjum á dagskrá. Fjallað var um viðfangsefnið í einni af vinnunefndum þingsins. Verkefni hennar fólst í því að fara yfir skýrslu sem alþjóðavinnumálaskrifstofan hafði tekið saman og bar heitið : General conditons to stimulate job creation in small and medium-sized enterprises. Nefndinni var einkum falið að fjalla um niðurstöður skýrslnanna sem hafa að geyma tillögur sem samdar voru á grundvelli upplýsinga sem aflað hafði verið frá aðildarríkjunum. Samtök atvinnurekenda og launafólks höfðu tekið þátt í samningu tillagnanna. Markmiðið var að Alþjóðavinnumálaþingið afgreiddi leiðbeiningarreglur, væntanlega tillögu, fyrir aðildarríkin um leiðir til að styrkja stöðu smárra og meðalstórra fyrirtækja og þar með skapa fleiri störf. Niðurstaða nefndarinnar var að leggja til að næsta Alþjóðavinnumálaþing afgreiði tillögu um aðgerðir til að efla smá og meðalstór fyrirtæki. Í niðurstöðunum er að finna ábendingar um helstu þætti tillögunnar sem yrðu til frekari umræðu á næsta þingi.
    Í samræmi við niðurstöðu 85. Alþjóðavinnumálaþingsins var umræðum um málefni smárra og meðalstórra fyrirtækja fram haldið á 86. þinginu í sérstakri þingnefnd. Nefndin kaus M. Pliszkiewicz, fulltrúa ríkisstjórnar Póllands sem formann. Varaformenn voru kosnir A. Jeetun, fulltrúi atvinnurekenda á Máritíus, og C. A. Appiah Agyei, fulltrúa launafólks frá Gana, sem varaformenn.
    Nefndin hélt samtals 13 árangursríka fundi, enda var ríkjandi góður samstarfsandi. Hún afgreiddi til allsherjarþingsins tillögu um aðgerðir til að bæta starfsaðstæður smárra og meðalstórra fyrirtækja. Samkvæmt tillögunni eiga aðildarríki m.a. að beita sér fyrir eftirfarandi:
     a.      að tileinka sér og beita viðeigandi stefnu í fjármálum, peningamálum og atvinnumálum sem stuðlar að sem bestum aðstæðum í efnahagsmálum (sem einkum varða verðbólgu, vaxtastig, gengi gjaldmiðla, skatta, atvinnustig og stöðugleika í samfélaginu);
     b.      að samþykkja og beita viðeigandi lagagreinum sem fyrst og fremst varða eignarrétt, sem nær m.a. til hugverka, staðsetningu fyrirtækja, framkvæmd samninga, sanngjarna samkeppni og viðeigandi löggjöf á sviði félagsmála og atvinnumála;
     c.      að gera sjálfstæða atvinnustarfsemi meira aðlaðandi með því að forðast stefnumörkun og lagasetningu sem kemur sér illa fyrir þá sem óska eftir að starfa sjálfstætt.
    Tillagan var samþykkt einróma á allsherjarþinginu. Hún er birt sem fylgiskjal II með þessari skýrslu.

2.7. AFNÁM VINNUÞRÆLKUNAR BARNA

    Sérstök þingnefnd fjallaði um vinnu barna. Á þinginu fór fram í nefndinni fyrri umræða um drög að samþykkt og tillögu um barnavinnu í sinni verstu mynd. Nefndin kaus A. Atsain, ríkisstjórnarfulltrúa frá Fílabeinsströndinni, sem formann. B. Botha, atvinnurekandafulltrúi frá Suður-Afríku, og L. Trotman, fulltrúi launafólks frá Barbados, voru kosnir varaformenn. H. Melkas, fulltrúi ríkisstjórnar Finnlands, var valinn til að flytja allsherjarþinginu skýrslu nefndarinnar.
    Nefndin hélt samtals 18 fundi. Umræður í nefndinni byggðust á skýrslu alþjóðavinnumálaskrifstofunnar, Child Labour. Í henni er að finna svör aðildarríkjanna við spurningaskrá sem þau og samtök aðila vinnumarkaðarins höfðu svarað árið 1997.
    Starfið í nefndinni var nokkuð óvenjulegt ef litið er til annarra þingnefnda á Alþjóðavinnumálaþinginu. Segja má að ríkt hafi samstaða á milli fulltrúa atvinnurekenda og launafólks. Ef til vill var ástæðan sú að í drögunum að samþykkt og tillögu er ábyrgðin á framkvæmd lögð fyrst og fremst á herðar stjórnvalda en ekki aðila vinnumarkaðarins. Í þessu felst, miðað við gildandi reglur Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um atkvæðagreiðslu, að fulltrúar atvinnurekanda og launafólks ráða niðurstöðu án tillits til þess hvaða afstöðu meiri hluti fulltrúa ríkisstjórna hefur til mála. Fulltrúar ríkisstjórna aðildarríkja þar sem vinna barna er algeng, t.d. Indlands og Pakistans, gagnrýndu nefndina fyrir að taka ekki nægilegt tillit til sjónarmiða ríkisstjórna. Fulltrúum vestrænna ríkja þótti þessi gagnrýni óréttmæt. Ríkisstjórnarfulltrúar hefðu sömu tækifæri og aðrir fulltrúar til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í nefndinni. Í raun má segja að í nefndinni hafi ríkt meiri andstæður á milli ríkja á norðurhveli og suðurhveli en á milli fulltrúa atvinnurekenda og launafólks sem er hið venjulega í málefnanefndum Alþjóðavinnumálaþingsins.
    Á þinginu var náið samráð á milli ríkisstjórnar vestrænna iðnríkja um framvindu mála í þingnefndinni. Í starfi nefndarinnar tóku einnig þátt fulltrúar Austur-Evrópuríkja. Samstarfið tók til nokkuð margra aðildarríkja og af máli fulltrúa ríkisstjórna Indlands og Pakistan mátti ráða að þeim þótti sinn málflutningur ekki hljóta undirtektir á þinginu. Samstarfshópurinn tók þessa kvörtun alvarlega og niðurstaðan varð sú að öllum ríkisstjórnum sem höfðu áhuga á málinu stóð til boða að taka þátt í daglegum fundum fulltrúa ríkisstjórna og leggja sitt af mörkum til umræðunnar.
    Fulltrúi forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar flutti yfirlitsræðu um vinnu barna við upphaf almennrar umræðu í nefndinni og fylgdi úr hlaði skýrslum um efnið. Í máli hans kom fram að nú á tímum er vinna og þrælkun barna gífurlega umfangsmikið vandamál og snertir að minnsta kosti 250 milljónir barna. Milljónir þeirra vinna við mjög hættulegar aðstæður sem hafa alvarleg áhrif á heilsu þeirra, þroska og lífsskilyrði.
    Talsmaður atvinnurekenda í nefndinni lýsti yfir stuðningi við samþykktina og tillöguna en lagði jafnframt áherslu á mikilvægi þess að textinn yrði knappur og skýr og markmiðin fá en raunhæf. Þannig væri stuðlað að því að sem flest ríki gætu undirgengist skuldbindingar um að hrinda þeim í framkvæmd. Þetta væri forsenda þess að unnt yrði á skömmum tíma að uppræta vinnu barna í sinni verstu mynd einnig í þróunarlöndunum. Langtímamarkmiðið væri að koma almennt í veg fyrir vinnu barna og að öllum yrði gert kleift að njóta menntunar. Að þessu sinni væri mikilvægt að sameinast um að einbeita sér að samningu gerðar sem hefði að markmiði afnám barnavinnu í sinni verstu mynd.
    Sömu sjónarmið komu fram hjá talsmanni fulltrúa launafólks. Hann lagði áherslu á stutta en markvissa samþykkt sem aðildarríki gætu fullgilt og tillögu sem hefði að markmiði að uppræta eins fljótt og hægt væri verstu tilvikin á þessu sviði. Einnig væri mikilvægt að fjölga sem mest fullgildingum á samþykkt ILO nr. 138 um lágmarksaldur til vinnu. Hún yrði áfram grundvallarsamþykkt um vinnu barna. Fulltrúi launafólks lagði áherslu á að vinna barna væri spurning um fátækt og að í hennar stað ætti að koma menntun og starfsþjálfun. Í því fælist skylda fyrir stjórnvöld og alþjóðastofnanir.
    Fulltrúar ríkisstjórna tóku í öllum meginatriðum í sama streng og talsmenn aðila vinnumarkaðarins að því er varðar nauðsynina á að uppræta vinnuþrælkun barna. Nokkrir fulltrúar þróunarlanda sögðu þó ekki kost á með skjótum hætti að banna vinnu barna, jafnvel ekki í þeirri mynd sem fjallað væri um í drögum að samþykkt og tillögu. Þessir fulltrúar ítrekuðu þörfina fyrir aðstoð, einkum efnahagsaðstoð, og að efni samþykktarinnar ætti að takmarka við skyldu til að setja sér stefnu um afnám vinnu barna. Fulltrúar ríkisstjórna iðnríkja sögðu drögin skapa góðan umræðugrundvöll en nokkrir sögðu nauðsynlegt að gera orðalag skýrara og að meiri áherslu yrði að leggja á menntun.
    Umræður í nefndinni voru á köflum erfiðar og tímafrekar, einkum hvað varðar inngangskafla samþykktarinnar. Þar var deilt um tilvísanir í aðra alþjóðasamninga, samþykktir og ályktanir um þetta efni. Í þeirri deilu tókust á þeir sem lögðu áherslu á stutta og hnitmiðaða samþykkt og fulltrúar sem aðhylltust ítarlegri texta. Niðurstaðan varð sú að nefna einungis ályktanir oddvitafundarins í Kaupmannahöfn um félagslega þróun og ályktanir kvennaþingsins í Beijing.
    Fulltrúar þróunarlanda lögðu til að samþykktin og tillagan tæki til barna á aldrinum 15 til 16 ára í stað þess að miða við 18 ára aldur. Þessi tillaga var felld.
    Hermennska barna var eitt af því sem mikið var rætt í nefndinni. Ekki var fjallað um þetta atriði í drögum að samþykkt og tillögu. Samkomulag náðist um að fresta umræðum um þetta málefni til annarrar umræðu sem fram fer á 87. Alþjóðavinnumálaþinginu 1999.
    Tillagan fjallar í öllum höfuðatriðum um sömu hluti og drögin að alþjóðasamþykkt. Hún er þó mun ítarlegri. Eftir umfjöllun í nefndinni var ákveðið að flytja nokkur atriði í texta samþykktarinnar. Þess skal getið að markmið tillögu er að vera leiðbeinandi um framkvæmd samþykktarinnar.

2.8. VERKTAKA EINSTAKLINGA — LAUNAVERKTAKA

    Í skýrslu um 85. Alþjóðavinnumálaþingið 1997 var gerð grein fyrir fyrri umræðu um drög að alþjóðasamþykkt og tillögu um það sem nefnt hefur verið verktaka einstaklinga eða launaverktaka (contract labour). Í skýrslunni voru raktar umræður hérlendis og á Norðurlöndunum um þetta málefni. Í henni kom fram að verulegur ágreiningur var meðal þingfulltrúa sem engu síður samþykktu tillögu um að vísa því til annarrar umræðu á 86. þinginu.
    Nefnd var sett að nýju í málið með það verkefni að afgreiða til allsherjarþingsins drög að alþjóðasamþykkt og tillögu. Sömu fulltrúar og árið áður voru valdir til forustu fyrir nefndinni, þ.e. L. Mishra, ríkisstjórnarfulltrúi frá Indlandi, var kosinn formaður, B. Noakes, fulltrúi atvinnurekenda í Ástralíu, og J. C. Parrot, fulltrúi launafólks í Kanada, voru valdir varaformenn. J. Saloheim frá Finnlandi var kosinn til að flytja allsherjarþinginu skýrslu nefndarinnar. Í nefndinni sátu samtals 194 fulltrúar, þ.e. 83 fulltrúar ríkisstjórna, 49 fulltrúar atvinnurekenda og 62 fulltrúar launafólks.
    Nefndin hóf störf 3. júni. Fyrir henni lágu ný drög að samþykkt og tillögu sem að hluta til var árangur nefndarstarfsins árið áður. Að öðrum þræði var hér um að ræða nýjan texta sem alþjóðavinnumálaskrifstofan hafði samið í ljósi undirtekta sem drögin frá sumrinu áður höfðu fengið hjá aðildarríkjunum.
    Í þessum nýja texta var m.a. að finna tillögu að almennu ákvæði um launaverktöku. Samkvæmt tillögu alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skyldi samþykktin taka til einstaklings sem vinnur fyrir annan einstakling, verkkaupa, eða lögpersónu og er honum háður eða með einhverjum hætti undir hans stjórn og hægt sé að jafna stöðunni við ráðningarsamband eins og það er skilgreint samkvæmt lögum eða hefðum í hlutaðeigandi ríki, en einstaklingurinn er ekki launamaður hjá verkaupa eða fyrirtæki. Skrifstofan lagði enn fremur til að samdar yrðu leiðbeiningarreglur um það hvernig hægt væri að meta hvort um væri að ræða venjulegt ráðningarsamband eða verktöku. Ef gildissvið samþykktarinnar tekur til einstaklings, sem svo háttar um sem að framan greinir, á hann að njóta verndar og réttinda að því er varðar:
     a.      að ganga í félag og gera kjarasamning,
     b.      að njóta verndar gegn mismunun sem á rót að rekja til kynþáttar, litarháttar, kyns, trúar, stjórnmálaskoðana, ríkisfangs eða þjóðlegs uppruna,
     c.      lágmarksaldur til vinnu,
     d.      greiðslu á umsaminni þóknun fyrir unnið verk,
     e.      vinnuvernd,
     f.      bætur vegna skaða eða sjúkdóms sem rekja má til framkvæmda á umsömdu verki,
     g.      réttindi til almannatrygginga sem greiða skal með hliðsjón af starfsmönnum í verktöku.
    Fyrsta viðfangsefni nefndarinnar var að taka afstöðu til tillagna alþjóðavinnumálaskrifstofunnar. Samandregið komst nefndin ekki lengra í starfi sínu en að ræða orðskýringar og gildissvið. Í ljós kom að á milli hinna þriggja hópa var óbrúanlegt bil í þessu máli. Af þessu leiddi að nefndinni tókst ekki að afgreiða til allsherjarþingsins alþjóðasamþykkt og tillögu um launaverktöku. Það er í fyrsta skipti síðan árið 1961 að slíkt gerist á Alþjóðavinnumálaþinginu.
    Talsmaður fulltrúa launafólks lýsti yfir miklum vonbrigðum með þessa niðurstöðu. Talsmaður atvinnurekenda var á öðru máli og taldi niðurstöðuna vera til vitnis um það að málið væri ekki á þvi stigi að það væri umræðuhæft á Alþjóðavinnumálaþinginu. Hann benti á erfiðleika í sambandi við notkun hugtaka, merkingarmun eftir tungumálum og vandamál við skilgreiningu á launaverktöku.
    Eini árangur nefndarstarfsins var að leggja til við allsherjarþingið að samþykkt yrði ályktunartillaga um hugsanlega afgreiðslu alþjóðasamþykktar um vernd einstaklinga sem eru í þeirri stöðu að geta talist vera launaverktakar. Samkvæmt henni var alþjóðavinnumálaskrifstofunni falið að vinna áfram að frekari athugun á launaverktöku. Enn fremur var því beint til stjórnarnefndar ILO að setja málið að nýju á dagskrá Alþjóðavinnumálaþingsins árið 2002.

2.9. YFIRLÝSING UM GRUNDVALLARRÉTTINDI Í ATVINNULÍFINU

    Eitt af athyglisverðustu málum 86. Alþjóðavinnumálaþingsins voru drög að yfirlýsingu um grundvallarsamþykktir á sviði vinnumála. Fjallað var um drögin í einni af nefndum þingsins sem var mjög fjölsótt af fulltrúum allra hópanna þriggja sem eiga sæti á þinginu. Sendiherra Kanada, Mark Moher, var valinn formaður nefndarinnar. Varaformenn voru kosnir William Brett, fulltrúi launafólks í Stóra-Bretlandi, og Tim Potter, fulltrúi atvinnurekenda í Bandaríkjum Norður-Ameríku.
    Í nefndinni var lögð rík áhersla á að ná samstöðu um texta yfirlýsingarinnar sem nyti einróma stuðnings á allsherjarþinginu. Það mundi skapa þrýsting á að eftir henni yrði farið í framtíðinni. Málið tók hins vegar nokkuð óvænta stefnu. Í stað væntinga um tiltölulega auðvelda afgreiðslu snerust umræður í nefndinni upp í deilur á milli iðnríkja og þróunarríkja. Í raun virtust allir fulltrúar sem tjáðu sig vera sammála um nauðsyn þess að Alþjóðvinnumálaþingið afgreiddi yfirlýsingu af þessu tagi. Hins vegar kom fram ótti hjá þingfulltrúum sem komu frá þróunarlöndunum um að hún yrði notuð sem skjól fyrir verslunarhindranir og verndarstefnu. Þeir börðust því ákveðið fyrir að fá tryggingu fyrir því að slíkt gerðist ekki og að yfirlýsingin yrði eins máttlaus og kostur væri. Forusturíki fyrir þessum hópi voru Indland, Pakistan, Mexíkó og Egyptaland. Hins vegar voru ríki í Afríku sunnan Súdan jákvæðari. Fulltrúar atvinnurekenda og launafólks lögðu sig fram um að leita samkomulags um texta sem hefði raunverulegt innihald og skipulag sem tryggði trúverðuga framkvæmd yfirlýsingarinnar.
    Vinnan í nefndinni gekk mjög treglega. Andófshópurinn hélt langdregnar ræður með sífelldum endurtekningum og sýndi lítinn vilja til samkomulags. Nefndinni var ætlað að skila af sér föstudaginn 22. júní en á miðnætti þann dag hafði enn ekki verið lokið við að ræða margar mikilvægar greinar í yfirlýsingunni. Nefndarvinnan hélt áfram laugardaginn 23. júní. Rétt fyrir miðnætti fékk nefndarstarfið óvæntan endi þegar allir fulltrúar launafólks gengu á dyr í mótmælaskyni við lítinn samkomulagsvilja þróunarlandanna. Þrátt fyrir þennan atburð var nefndarstarfi fram haldið mánudaginn 25. júní. Fyrir nefndinni lágu ný drög að þeim greinum sem enn höfðu ekki verið afgreiddar. Eftir langvinn ræðuhöld varð ljóst um kvöldið að ekki yrði komist hjá atkvæðagreiðslu í nefndinni og voru greidd atkvæði um nokkrar breytingartillögur. Þær hlutu mjög takmarkaðan stuðning. Við lokaafgreiðslu textans í heild hlaut hann stuðning yfirgnæfandi meiri hluta nefndarmanna. Nokkrir sátu hjá en fulltrúar Egyptalands, Pakistans og Líbanons greiddu atkvæði á móti. Við þessa niðurstöðu héldu flestir að niðurstaða væri fengin. En annað kom í ljós.
    Tillaga nefndarinnar að yfirlýsingu kom til afgreiðslu á allsherjarþingi Alþjóðavinnumálaþingsins síðasta þingdaginn. Fulltrúar ríkisstjórna í andstöðuhópnum óskuðu eftir að taka til máls og voru langorðir. Þegar umræðunni lauk nokkrum klukkustundum eftir boðuð þingslit höfðu allmargar sendinefndir horfið af vettvangi; áttu bókaða flugferð á tilteknum degi sem ekki var hægt að breyta nema með fyrirhöfn og aukakostnaði. Fulltrúi Egyptalands krafðist atkvæðagreiðslu með nafnakalli. Úrslit hennar voru þau að fylgjandi voru 273. Enginn var á móti en 43 sátu hjá. Samkvæmt reglum um atkvæðagreiðslur á Alþjóðavinnumálaþinginu þurfti tillagan að hljóta að lágmarki stuðning 264 þingfulltrúa til að ná fram að ganga þannig að ekki mátti miklu muna við atkvæðagreiðsluna.
    Þrátt fyrir allt er niðurstaðan ásættanleg. Yfirlýsingin hefði að ýmsu leyti mátt vera skorinorðari en ekki var raunhæft að búast við að þróunarlöndin gætu fallist á ákveðnari texta. Mikilvægasta atriðið er að finna í 2. gr. Þar er því slegið föstu að af aðild að Alþjóðavinnumálastofnuninni og stofnskrá hennar leiði skyldu til að virða og hrinda í framkvæmd grundvallarréttindum sem eru fólgin í mikilvægustu samþykktum ILO. Þessi réttindi og skyldur eru:
    Félagafrelsi og virk viðurkenning á réttinum til að gera kjarasamninga.
    Afnám hvers konar nauðungarvinnu.
    Raunverulegt afnám vinnu barna.
    Afnám hvers kyns mismununar í atvinnulífinu.
    Í viðauka með yfirlýsingunni er fjallað um eftirlit með framkvæmd yfirlýsingarinnar. Þessi texti er nokkru veikari en alþjóðavinnumálaskrifstofan hafði upphaflega lagt til. Af honum leiðir að stjórnarnefnd alþjóðavinnumálaskrifstofunnar eru veittar víðtækari heimildir til að setja reglur um eftirlitið. Í stjórnarnefndinni mun vera mikill meiri hluti fyrir eftirliti sem gerir kleift að varpa ljósi á þær ríkisstjórnir sem árum saman vanrækja skyldur sínar í þessu sambandi og taka þær til sérstakrar umfjöllunar á allsherjarþingi vinnumálaþingsins. Þetta verður gert með skýrslu sem alþjóðavinnumálaskrifstofan tekur árlega saman um framkvæmd aðildarríkjanna á einni eða fleiri af grundvallarsamþykktum ILO og gildir einu hvort ríkin hafa fullgilt samþykktina eða ekki. Búist er við að þetta muni auka þrýsting á aðildarríkin að fullgilda samþykktirnar sem hér um ræðir eða a.m.k. að þau fari eftir efni þeirra.
    Yfirlýsingin og árétting á eftirliti með framkvæmd hennar er birt með þessari skýrslu sem fylgiskjal I.

2.10. ÞINGSÁLYKANIR

    Samkvæmt stofnskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er heimilt að leggja fram tillögur til þingsályktunar fram á Alþjóðavinnumálaþinginu. Samkvæmt þingsköpum vinnumálaþingsins verða slíkar tillögur að hafa borist forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar 15 dögum fyrir þingsetningu. Fjallað er um þingsályktunartillögur í einni af fastanefndum þingsins, ályktunarnefnd (Resolutions Committee). Á árum kaldastríðsins og fyrir daga Óslóar-samkomulagsins á milli Ísraela og Palistínumanna var oft stormasamt í nefndinni. Á seinni árum hefur mjög dregið úr viðsjám á milli aðila að samstaða tókst um að stofna ályktunarnefnd annað hvert ár. Á árinu 1998 var að því komið að stofna til nefndar sem fjallaði um tillögur til þingsályktunar.
    Að þessu sinni kaus nefndin sem formann ríkisstjórnarfulltrúa Kólumbíu, Carlos Castillo. Varaformenn voru kosnir Steve Marshall, fulltrúi atvinnurekenda á Nýja Sjálandi, og Patricia O' Donovan, fulltrúi launafólks á Írlandi.
    Nefndin hafði til umfjöllunar samtals átta þingsályktunartillögur. Tvær voru síðar sameinaðar, þ.e. ályktanir sem fjölluðu um að minnast þess að 50 ár voru liðin frá því að Alþjóðavinnumálaþingið afgreiddi árið 1948 samþykkt nr. 87, um félagafrelsi.
    Samkvæmt verklagsreglum nefndarinnar hefst starf hennar á almennri kynningu á fram komnum þingsályktunartillögum. Að henni lokinni fer fram leynileg atkvæðagreiðsla um það í hvaða röð nefndin fjallar efnislega um tillögurnar. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar er mikilvæg vegna þess að tímans vegna kemst nefndin venjulega ekki yfir að afgreiða til allsherjarþingsins nema tvær til þrjá tillögur.
    Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar varð eftirfarandi:
     1.      Atvinnumál ungs fólks (tillagan hlaut 80.561 vegið atkvæði). 1
     2.      Lágmarkskröfur um réttindi og skyldur á vinnumarkaði (76.947 vegin atkvæði).
     3.      Fimmtíu ára afmæli alþjóðasamþykktar nr. 87, um félagafrelsi (70.277 vegin atkvæði).
     4.      Dómstólar í deilum á vinnumarkaði og hliðstæðar stofnanir (65.832 vegin atkvæði).
     5.      Atvinnuleysi og staða þeirra sem eru utangarðs á heimsmarkaði (62.280 vegin atkvæði).
    Fulltrúar atvinnurekenda höfðu lagt fram fyrstu tvær tillögurnar. Af því leiddi að fulltrúar launafólks voru allt annað en ánægðir með niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar einkum, að því er varðaði tillöguna um lágmarkskröfur um réttindi og skyldur á vinnumarkaði.
    Við umfjöllun um fyrstu tillöguna um atvinnumál ungs fólks komu fram um 90 breytingartillögur. Við umfjöllun um aðra tillöguna kom í ljós að fulltrúar launafólks höfðu ekki áhuga á að ræða hana. Talsmaður launafólks í nefndinni lagði fyrir fulltrúa atvinnurekenda spurningu um tilgang þess að leggja fram þingsályktunartillögu um „alþjóðavinnumálasamþykktir“. Fram kom að þeir óskuðu ekki eftir að taka þátt í umræðum sem hefðu að markmiði að takmarka verksvið Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.
    Eftir almennar umræður um tillöguna um alþjóðavinnumálasamþykktir fór tími nefndarinnar í að ræða breytingartillögur við ályktun um atvinnumál ungs fólks. Afgreiðsla þeirra reyndist tímafrek og lýsti skorti á samstarfsvilja á milli þingfulltrúa í nefndinni. Þegar leið á seinni hluta nefndarstarfsins lögðu menn sig meira fram og nefndinni tókst að afgreiða allar breytingartillögur og aðaltillöguna til allsherjarþingsins. Aðrar tillögur voru ekki afgreiddar.
    Samkvæmt tillögunni um atvinnumál ungs fólks er stjórnarnefnd ILO falið að hafa atvinnumál ungs fólks meðal forgangsverkefna við afgreiðslu starfs- og fjárhagsáætlunar ILO fyrir árin 2000–2001. Enn fremur er því beint til stjórnarnefndarinnar að hún setji við fyrsta tækifæri atvinnumál ungs fólks á dagskrá Alþjóðavinnumálaþingsins.
    Tillagan um atvinnumál ungs fólks var afgreidd nær einróma af allsherjarþingi vinnumálaþingsins.

2.11. ÖNNUR MÁLEFNI

Samstarf við fulltrúa annarra ríkja.


    
Alþjóðavinnumálaþingið er meðal umfangsmeiri alþjóðaþinga sem haldin eru. Í þessari skýrslu kemur fram að þingstörfum er fram haldið samtímis á allsherjarþingi og í fjölmörgum þingnefndum. Ljóst er að það er borin von fyrir litla sendinefnd eins og þá íslensku að geta fylgst með öllu sem fram fer. Þess vegna skiptir samstarf við aðra miklu máli. Þar vega þyngst vikulegir samráðsfundir fulltrúa ríkisstjórna Norðurlandanna. Á þeim fer fram kynning á stöðu málefna í einstökum nefndum og lögð á ráðin um sameiginlegt ræðuhald Norðurlandanna á allsherjarþinginu og í nefndum.
    Annað atriði, sem er til þess fallið er létta sendinefndinni þingstörfin, er samráðsfundir fulltrúa vestrænna iðnríkja (IMEC). Þessir fundir eru haldnir daglega og á þeim er farið yfir þau málefni sem eru efst á baugi hverju sinni. Með þátttöku í þessum fundum má fá gott yfirlit yfir það sem er að gerast á þessu fjölmenna alþjóðaþingi. Fundirnir eru einnig góður vettvangur til að kynna tillögur sem fulltrúar einstakra ríkja ráðgera að flytja í þingnefndum. Á þeim er einnig fjallað um mál sem eru til umfjöllunar í nefnd um framkvæmd alþjóðasamþykkta, einkum ef þau snerta ríki sem eiga aðild að hópnum. Loks eru oft á tíðum teknin til umfjöllunar drög að ræðum sem fulltrúar einstakra ríkja hyggjast flytja annaðhvort í eigin nafni eða fyrir hönd fleiri ríkja eða hópsins í heild.



Fylgiskjal I.


Yfirlýsing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um grundvallarréttindi
í atvinnulífinu, svo og árétting á framkvæmd.

    Þar eð Alþjóðavinnumálastofnunin var stofnuð með það að leiðarljósi að félagslegt réttlæti væri nauðsynleg forsenda varanlegs friðar um allan heim;
    þar eð hagvöxtur er nauðsynleg en þó ekki fullnægjandi forsenda réttlætis, félagslegra framfara og upprætingar fátæktar, en það staðfestir þörf þess að Alþjóðavinnumálastofnunin stuðli að fastmótaðri félagsmálastefnu, réttlæti og lýðræðislegum stofnunum;
    þar eð Alþjóðavinnumálastofnunin ætti nú sem aldrei fyrr að grípa til allra tiltækra ráða á sviði stöðlunar, samvinnu á tæknisviði og rannsókna, einkum varðandi atvinnumál, starfsþjálfun og vinnuaðstæður til að tryggja að alþjóðleg stefna í efnahags- og félagsmálum styrki hvor aðra í því skyni að stuðla að sjálfbærri þróun á breiðum grundvelli;
    þar eð Alþjóðavinnumálastofnunin ætti að huga sérstaklega að fólki með sérstakar félagslegar þarfir, einkum atvinnulausum og farandverkafólki, og hvetja til ráðstafana á alþjóðavettvangi, á afmörkuðum svæðum og á landsvísu sem stuðla að því að leysa vandamál þeirra og stuðla að virkri stefnumótun um atvinnusköpun;
    þar eð tryggja verður grundvallarréttindi í atvinnulífinu í því skyni að viðhalda tengslum milli félagslegra framfara og hagvaxtar, þar eð slíkt gerir viðkomandi fólki kleift að krefjast með frjálsum hætti og á grundvelli jafnréttis sanngjarns hluta af þeim verðmætum sem það hefur hjálpað til að skapa og að fá að njóta sín sem best í lífinu;
    þar eð Alþjóðavinnumálastofnunin er sú alþjóðastofnun sem samkvæmt stofnskrá sinni hefur það hlutverk að semja og fjalla um alþjóðlegar reglur á sviði vinnumála og nýtur alþjóðlegs stuðnings og viðurkenningar við að stuðla að grundvallarréttindum við vinnu;
    þar eð brýnt er nú á tímum, þegar þjóðir heims eru að verða æ háðari hver annarri á sviði efnahagsmála, að staðfesta hið óbreytanlega eðli grundvallarréttinda sem fólgin eru í stofnskrá stofnunarinnar og stuðla að beitingu þeirra um allan heim;
     1.      minnist Alþjóðavinnumálaþingið þess:
       a.      að með því að gerast aðilar að Alþjóðavinnumálastofnuninni hafa aðildarríkin lýst stuðningi sínum við þær meginreglur og þau réttindi sem tilgreind eru í stofnskránni og í Fíladelfíuyfirlýsingunni og skuldbundið sig til að vinna að því að ná meginmarkmiðum stofnunarinnar að svo miklu leyti sem þeim er fært og í fullu samræmi við aðstæður þeirra;
       b.      að slíkar meginreglur og réttindi hafa verið orðaðar og hafa þróast í formi sérstakra grundvallarréttinda með alþjóðasamþykktum sem njóta viðurkenningar bæði innan og utan stofnunarinnar;
     2.      lýsir Alþjóðavinnumálaþingið yfir því að öllum aðildarríkjum, jafnvel þótt þau hafi ekki fullgilt hlutaðeigandi alþjóðasamþykktir, er skylt sökum aðildar sinnar að stofnuninni að virða, stuðla að og beita í góðri trú og í samræmi við stofnskrá hennar meginreglum um þau grundvallarréttindi sem samþykktirnar fjalla um, þ.e.:
       a.      félagafrelsi og virka viðurkenningu á réttinum til að gera almenna kjarasamninga;
       b.      afnám hvers konar nauðungarvinnu;
       c.      virkt afnám vinnu barna; og
       d.      afnám misréttis við ráðningu til starfa og við vinnu;
     3.      viðurkennir Alþjóðavinnumálaþingið skyldu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar til að aðstoða aðildarríkin og mæta þannig viðurkenndum og yfirlýstum þörfum þeirra í því skyni að ná slíkum markmiðum með því að beita til fulls aðstöðu sinni í krafti stofnskrárinnar, aðgerða og fjárhagsstuðnings, svo og að hvetja aðrar alþjóðastofnanir, sem Alþjóðavinnumálastofnunin hefur skipuleg tengsl við skv. 12. gr. stofnskrárinnar, til þess að styðja slíkar aðgerðir:
       a.      með því að bjóða fram tæknilega aðstoð og ráðgjafarþjónustu til þess að stuðla að staðfestingu og framkvæmd alþjóðasamþykkta sem liggja til grundvallar;
       b.      með því að aðstoða þau aðildarríki sem hafa ekki enn aðstöðu til að fullgilda allar eða sumar þessara samþykkta í viðleitni sinni til að virða, stuðla að og framkvæma þau meginmarkmið varðandi grundvallarréttindi sem samþykktirnar fjalla um; og
       c.      með því að aðstoða aðildarríkin í viðleitni sinni til að skapa aðstæður fyrir efnahagslegar og félagslegar framfarir;
     4.      tekur Alþjóðavinnumálaþingið þá ákvörðun, í því skyni að yfirlýsing þessi komi að sem mestum notum og verði áhrifarík og virk árétting, að sigla í kjölfarið í samræmi við þær aðgerðir sem tilgreindar eru í viðaukanum með þessari yfirlýsingu, en hann telst vera óaðskiljanlegur hluti hennar;
     5.      leggur Alþjóðavinnumálaþingið áherslu á að ekki skuli beita alþjóðlegum reglum á sviði vinnumála til að koma á viðskiptahindrunum og að ekki skuli beita neinu í þessari yfirlýsingu eða í áréttingu hennar eða neinu öðru í því skyni; auk þess ber ekki með neinum hætti að efast um hlutfallslega betri stöðu neins ríkis í yfirlýsingu þessari eða áréttingu á henni.



Viðauki.

ÁRÉTTING Á FRAMKVÆMD YFIRLÝSINGARINNAR
I. Almennt markmið.

     1.      Markmiðið með áréttingunni, sem lýst er hér á eftir, er að örva viðleitni aðildarríkja stofnunarinnar til að stuðla að þeim grundvallarréttindum sem er að finna í stofnskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og Fíladelfíuyfirlýsingunni og staðfest eru með þessari yfirlýsingu.
     2.      Samkvæmt þessu markmiði, sem er eingöngu sett fram til hvatningar, stuðlar áréttingin að því að unnt verði að finna þau svið þar sem aðstoð stofnunarinnar gæti komið aðildarríkjunum að mestu gagni með tæknilegri samvinnu til þess að hjálpa þeim að hrinda þessum grundvallarréttindum í framkvæmd. Hér er ekki um ræða neitt sem kemur í stað skipulagðra eftirlitsaðgerða, né skyldi þetta trufla þá starfsemi; þar af leiðir að tilteknar aðstæður, sem eru á verksviði slíkra aðila, skulu ekki teknar til athugunar eða endurathugunar samkvæmt ákvæðum þessarar áréttingar.
     3.      Þær tvær hliðar þessarar áréttingar sem lýst er hér á eftir byggjast á núverandi aðgerðum: árleg árétting varðandi þær grundvallarsamþykktir sem hafa ekki verið staðfestar hafa aðeins í för með sér nokkra aðlögun að núverandi háttum við beitingu 19. gr., 5. mgr. e, í stofnskránni; og með alþjóðlegu skýrslunni næst bestur árangur af þeim aðgerðum sem framkvæmdar eru samkvæmt stofnskránni.

II. Árleg árétting varðandi grundvallarsamþykktir sem hafa ekki verið fullgiltar.
A. Markmið og gildissvið.

     1.      Markmiðið er að veita tækifæri til árlegrar endurskoðunar með einfaldari aðgerðum sem komi í stað endurskoðunar á fjögurra ára fresti sem stjórnarnefndin kom á 1995, en aðgerðirnar miðast við yfirlýsingu þeirra aðildarríkja sem hafa ekki enn staðfest allar grundvallarsamþykktir.
     2.      Áréttingin mun á hverju ári ná til þeirra fjögurra sviða grundvallarréttinda sem tilgreindar eru í yfirlýsingunni.

B. Hættir.

     1.      Áréttingin byggist á skýrslum þeim sem aðildarríkin eru beðin að skila skv. 19. gr., 5. mgr. e, í stofnskránni. Eyðublöðin fyrir skýrsluna verði útbúin með þeim hætti að spurt verði um upplýsingar frá ríkisstjórnum, sem hafa ekki staðfest eina eða fleiri grundvallarsamþykkt, um hvers konar breytingar sem kunna að hafa verið gerðar á lögum þeirra og venjum þar sem tekið er fullt tillit til 23. gr. stofnskrárinnar og venja.
     2.      Alþjóðavinnumálaskrifstofan tekur skýrslurnar saman og stjórnarnefndin fer yfir þær.
     3.      Alþjóðavinnumálaskrifstofan kann að leita aðstoðar sérfræðinganefndar, sem tilnefnd er sérstaklega í því skyni, til að semja inngang að þeim skýrslum sem teknar hafa verið saman í því skyni að vekja athygli á hvers konar þáttum sem kynnu að gefa tilefni til ítarlegri umræðna.
     4.      Kanna skyldi breytingar á núverandi starfsaðferðum stjórnarnefndarinnar í því skyni að veita þeim aðildarríkjum sem eiga ekki aðild að stjórnarnefndinni tækifæri til að koma á framfæri skýringum með eins viðeigandi hætti og unnt er, skýringum sem kynnu að reynast nauðsynlegar eða gagnlegar við umræður stjórnarnefndarinnar til viðbótar þeim upplýsingum sem fram koma í skýrslum þeirra.

III. Alþjóðleg skýrsla.
A. Markmið og gildissvið.

     1.      Markmið skýrslu þessarar er að gefa virka alþjóðlega mynd af hverju sviði grundvallarréttinda á undanförnu fjögurra ára tímabili og vera grundvöllur mats á gagnsemi þeirrar aðstoðar sem stofnunin veitir og ákvörðunar um forgangsröðun á næsta tímabili í formi framkvæmdaáætlana um tæknilega aðstoð sem eru sérstaklega til þess ætlaðar að stuðla að innri og ytri aðstæðum sem eru nauðsynleg forsenda framkvæmda.
     2.      Skýrslan nær á hverju ári til eins hinna fjögurra flokka grundvallarréttinda, hvers eftir annan.

B. Hættir.

     1.      Forstjórinn ber ábyrgð gerð skýrslunnar á grundvelli opinberra upplýsinga eða upplýsinga sem safnað hefur verið og þær metnar samkvæmt venjum. Hvað varðar þau aðildarríki sem hafa ekki fullgilt grundvallarsamþykktirnar verður hún einkum byggð á niðurstöðum framangreindrar árlegrar áréttingar. Hvað varðar þau aðildarríki sem hafa fullgilt hlutaðeigandi alþjóðasamþykktir verður skýrslan einkum byggð á skýrslum þeim sem fjallað er um skv. 22. gr. stofnskrárinnar.
     2.      Skýrsla þessi verður lögð fyrir þingið til þríhliða viðræðna sem skýrsla forstjórans. Þingið kann að fjalla um skýrslu þessa á sérstökum fundi og ekki á sama tíma og skýrslur skv. 12. gr. starfsreglna sinna eða með öðrum viðeigandi hætti. Síðan kemur fljótlega til kasta stjórnarnefndarinnar að draga sínar ályktanir af þeirri umræðu varðandi þá forgangsröðun og framkvæmdaáætlanir um tæknilega samvinnu sem hleypa skal af stokkunum á næsta fjögurra ára tímabili.

IV. Samkomulag er um:

     1.      að lagðar skuli fram tillögur til breytinga á starfsreglum stjórnarnefndarinnar og þingsins, en það fellur í þeirra hlut að framkvæma framangreind ákvæði,
     2.      að þingið skuli, þegar að því kemur, endurskoða framkvæmd þessarar áréttingar samkvæmt fenginni reynslu til þess að meta hvort hún hafi náð því almenna markmiði sem tilgreint er í I. kafla með fullnægjandi hætti.



Fylgiskjal II.


Tillaga nr. 189, um almennar aðstæður til að fjölga störfum
í smáum og meðalstórum fyrirtækjum.

    Alþjóðavinnumálaþingið sem stjórnarnefnd alþjóðavinnumálaskrifstofunnar hefur kallað saman í Genf og hefur komið til 86. fundar síns 2. júní 1998,
    viðurkennir þörf fyrir að stuðla að efnahagslegri, félagslegri og andlegri velferð og þróun einstaklinga, fjölskyldna, samfélaga og þjóða,
    og gerir sér grein fyrir mikilvægi þess að stuðla að atvinnusköpun í smáum og meðalstórum fyrirtækjum,
    minnist ályktunar um að styðja við smá og meðalstór fyrirtæki, sem Alþjóðavinnumálaþingið samþykkti í 72. þingsetu sinni 1986, svo og þær niðurstöður sem fram komu í ályktun um atvinnumálastefnu á alþjóðavísu sem þingið samþykkti í 83. þingsetu sinni 1996,
    gefur gaum að því að smá og meðalstór fyrirtæki, sem mikilvægur þáttur í hagvexti og efnahagsþróun, eru í vaxandi mæli ábyrg fyrir sköpun meiri hluta atvinnutækifæra um allan heim og geta hjálpað til við að móta umhverfi fyrir nýjungar og sjálfstæðan atvinnurekstur,
    gerir sér grein fyrir sérstöku mikilvægi arðbærra starfa, sjálfbærra starfa og gæðastarfa,
    viðurkennir að smá og meðalstór fyrirtæki veita konum og öðrum hópum sem hafa löngum staðið höllum fæti tækifæri til þess við betri aðstæður að komast inn á vinnumarkaðinn í aðbær, sjálfbær og góð störf,
    telur víst að með því að stuðla að virðingu fyrir samþykkt um nauðungarvinnu frá 1930, samþykkt um félagafrelsi og vernd réttar til að stofna félög frá 1948, samþykkt um rétt til að stofna félög og gera almenna kjarasamninga, samþykkt um sömu laun fyrir sömu vinnu frá 1951, samþykkt um afnám nauðungarvinnu frá 1957 og samþykkt um mismunun (við ráðningu og við vinnu) frá 1958 verði stuðlað að sköpun gæðastarfa í smáum og meðalstórum fyrirtækjum og einkum með því að stuðla að virðingu fyrir samþykkt og tillögu um lágmarksaldur til vinnu frá 1973 verði aðildarríkjunum hjálpað í viðleitni þeirra til að útrýma vinnu barna,
    og telur einnig víst að samþykkt nýrra ákvæða um atvinnusköpun í smáum og meðalstórum fyrirtækjum, sem líta beri til ásamt:
     a.      viðeigandi ákvæðum annarra alþjóðasamþykkta og tillagna Alþjóðavinnumálaþingsins, eftir því sem við á, svo sem samþykkt og tillögu um atvinnumálastefnu frá 1964 og tillögu um atvinnumálastefnu (viðbótarákvæði) frá 1984, tillögu um samvinnufélög (í þróunarríkjum) frá 1966, samþykkt og tillögu um þróun mannauðs frá 1975 og samþykkt og tillögu um öryggi og heilbrigði við vinnu frá 1981; og
     b.      öðru frumkvæði Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem hefur reynst vel við að stuðla að hlutverki smárra og meðalstórra fyrirtækja við sköpun sjálfbærra starfa og að hvetja til fullnægjandi og almennrar beitingar félagslegrar verndar, þ.m.t. verkefnisins Stofnið og bætið fyrirtæki ykkar og annarra verkefna, svo og að styðja við starf starfmenntamiðstöðvar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem stuðlar að þjálfun og aukinni færni,
muni veita aðildarríkjunum mikilvæga leiðsögn við hönnun og framkvæmd stefnu um atvinnusköpun í smáum og meðalstórum fyrirtækjum,
    og þar eð Alþjóðavinnumálaþingið hefur ákveðið að samþykkja tiltekin tilmæli varðandi almennar aðstæður í því skyni að stuðla að atvinnusköpun í smáum og meðalstórum fyrirtækjum, sem er fjórða málið á dagskrá þingsins,
    og þar eð þingið hefur ákveðið að þessi tilmæli skuli vera í formi tillögu,
    hefur þingið í dag, 18. júní 1998, samþykkt eftirfarandi tillögu sem nefna má tillögu um atvinnusköpun í smáum og meðalstórum fyrirtækjum 1998.

I. SKILGREINING, MARKMIÐ OG GILDISSVIÐ

     1.      Aðildarríkin ættu, í samráði við aðila vinnumarkaðarins, að skilgreina smá og meðalstór fyrirtæki með þeirri viðmiðun sem kann að vera talin viðeigandi, þannig að tekið sé tillit til félagslegra og efnahagslegra aðstæðna, en undirskilið er að slíkur sveigjanleiki ætti ekki að koma í veg fyrir að aðildarríkin geti komið sér saman um almennar skilgreiningar varðandi gagnasöfnun og greiningu.
     2.      Aðildarríkin ættu að gera ráðstafanir sem eru viðeigandi miðað við þjóðfélagsaðstæður og í samræmi við venjur í þjóðfélaginu í því skyni að viðurkenna og stuðla að því grundvallarhlutverki sem smá og meðalstór fyrirtæki geta haft með höndum varðandi:
       a.      það að stuðla að fullri og arðbærri atvinnu sem fólk kýs að stunda af fúsum og frjálsum vilja;
       b.      betri aðgang að launuðum störfum og verðmætamyndun sem leiðir til arðbærra og sjálfbærra starfa;
       c.      sjálfbæran hagvöxt og möguleika til að bregðast með sveigjanleika við breyttum aðstæðum;
       d.      aukna atvinnuþátttöku jaðarhópa og þeirra sem standa höllum fæti í samfélaginu;
       e.      aukinn sparnað og fjárfestingu innan lands;
       f.          þjálfun og þróun mannauðs;
       g.      jafnvægi í þróun afmarkaðra byggða og landsvæða;
       h.      útvegun vöru og þjónustu sem hentar betur þörfum markaðarins á staðnum;
       i.          aðgang að betri vinnu og vinnuumhverfi sem getur stuðlað að betra lífi, svo og að veita stórum hópi fólks félagslega vernd;
       j.          það að örva til nýjunga, sjálfstæðs atvinnurekstrar og þróunar og rannsókna á sviði tækni;
       k.      aðgang að mörkuðum innan lands og utan; og
       l.          það að stuðla að góðum samskiptum atvinnurekenda og starfsmanna.
     3.      Í því skyni að stuðla að því grundvallarhlutverki smárra og meðalstórra fyrirtækja sem vikið er að í 2. mgr. skyldu aðildarríkin gera viðeigandi ráðstafanir, m.a. varðandi það að framfylgja lögum og reglugerðum, til að vernda hagsmuni starfsmanna slíkra fyrirtækja með því að sjá þeim fyrir þeirri grundvallarvernd sem fyrir hendi er samkvæmt öðrum viðkomandi lögum og reglugerðum.
     4.      Ákvæði þessarar tillögu eiga við um allar atvinnugreinar og allar tegundir smárra og meðalstórra fyrirtækja hvernig sem eignarhaldi er háttað (t.d. einkafyrirtæki, opinber fyrirtæki, samvinnufélög, sameignarfélög, fjölskyldufyrirtæki og fyrirtæki í eigu eins aðila).

II. STEFNUMÖRKUN OG LAGAGRUNNUR

     5.      Í því skyni að skapa aðstæður sem stuðla að vexti og viðgangi smárra og meðalstórra fyrirtækja ættu aðildarríkin:
       a.      að tileinka sér og beita viðeigandi stefnu í fjármálum, peningamálum og atvinnumálum sem stuðla að sem bestum aðstæðum í efnahagsmálum (hvað varðar einkum verðbólgu, vaxtastig, gengi gjaldmiðla, skatta, atvinnustig og stöðugleika í samfélaginu);
       b.      að samþykkja og beita viðeigandi lagagreinum hvað varðar einkum eignarrétt, sem nær m.a. til hugverka, staðsetningu fyrirtækja, framkvæmd samninga, sanngjarna samkeppni og viðeigandi löggjöf á sviði félagsmála og atvinnumála;
       c.      að gera sjálfstæða atvinnustarfsemi meira aðlaðandi með því að forðast stefnumörkun og lagasetningu sem kemur sér illa fyrir þá sem óska eftir að starfa sjálfstætt.
     6.      Til viðbótar þeim ráðstöfunum sem vikið er að í 5. gr. ætti að koma á stefnumörkun sem stuðlar að rekstri virkra og samkeppnishæfra smárra og meðalstórra fyrirtækja sem eru fær um að veita arðbæra og sjálfbæra atvinnu við viðeigandi félagslegar aðstæður. Í því skyni ættu aðildarríkin að íhuga stefnumörkun sem:
        1.     skapar aðstæður sem:
             a.      veita öllum fyrirtækjum af hvaða stærð og gerð sem er:
                      i.      jöfn tækifæri hvað varðar einkum aðgang að lánum, erlendum gjaldeyri og innfluttum aðföngum; og
                      ii.      leggur á þau sanngjarna skatta;
             b.      tryggja að ekki sé um neina mismunun að ræða við beitingu löggjafar á sviði atvinnumála svo að unnt sé að stuðla að betri störfum í smáum og meðalstórum fyrirtækjum;
             c.      stuðla að því að smá og meðalstór fyrirtæki virði alþjóðlega vinnustaðla hvað varðar vinnu barna;
        2.    afnema hömlur gegn þróun og vexti smárra og meðalstórra fyrirtækja sem stafa einkum af
             a.      vandkvæðum við aðgang að lána- og fjármagnsmörkuðum;
             b.      lítilli færni í tækni og stjórnun;
             c.      ónógum upplýsingum;
             d.      lítilli framleiðni og litlum gæðum;
             e.      ónógu aðgengi að mörkuðum;
             f.          ónógu aðgengi að nýrri tækni;
             g.      skorti á flutningum og samgöngum;
             h.      óviðeigandi, ófullnægjandi eða of íþyngjandi kröfum um skráningu, leyfisveitingu, skýrslugjöf eða aðrar kröfur um stjórnun, þ.m.t. kröfur sem hamla gegn ráðningu starfsmanna, án þess þó að spilla skilyrðum til vinnu, áhrifamætti vinnueftirlits eða eftirliti með vinnuaðstæður og skyldum málum;
             i.          ónógum stuðningi við rannsóknir og þróun; og
             j.          vandkvæðum við aðgang að aðföngum frá opinberum aðilum og einkaaðilum.
        3.    er m.a. fólgin í sérstökum ráðstöfunum og frumkvæði í því skyni að veita hinum óformlega geira aðstoð og uppörvun við að verða hluti af hinum skipulagða geira.
     7.      Í því skyni að móta slíka stefnu skyldu aðildarríkin, þar sem það á við:
        1.    safna gögnum á landsvísu um smá og meðalstór fyrirtæki, m.a. um fjölda starfsfólks og gæði vinnunnar, en gæta þess þó að slíkt valdi ekki óhóflegri stjórnunarbyrði fyrir smá og meðalstór fyrirtæki;
        2.    framkvæma víðtæka endurskoðun á áhrifum núverandi stefnu og reglugerðum varðandi smá og meðalstór fyrirtæki, þar sem einkum yrði litið til áhrifa áætlana um aðlögun stærðar á atvinnusköpun;
        3.    endurskoða löggjöf um atvinnumál og félagsmál í samráði við aðila vinnumarkaðarins til þess að komast að raun um hvort:
              a.     slík löggjöf komi til móts við þarfir smárra og meðalstórra fyrirtækja og tryggi um leið viðeigandi vernd og vinnuaðstæður starfsmanna;
              b.     þörf sé fyrir auknar ráðstafanir vegna félagslegrar verndar, svo sem verkefni kostuð með frjálsum framlögum, samvinnuverkefni eða annað,
              c.     slík félagsleg vernd nær til starfsmanna í smáum og meðalstórum fyrirtækjum og hvort fyrir hendi séu viðeigandi ákvæði til að tryggja að farið sé að reglum almannatrygginga varðandi lækishjálp og sjúkra-, atvinnuleysis-, ellilífeyris-, atvinnuslysa-, fjölskyldu-, mæðra-, örorku- og eftirlifendabætur.
     8.      Á tímum efnahagsþrenginga ættu stjórnvöld að leitast við að veita smáum og meðalstórum fyrirtækjum og starfsmönnum þeirra mikla og virka aðstoð.
     9.      Við mótun slíkrar stefnu:
        1.    gætu aðildarríkin haft samráð við aðila vinnumarkaðarins, auk annarra hlutaðeigandi og lögmætra aðila eins og þeim þykir viðeigandi;
        2.    ættu aðildarríkin að taka tillit til annarrar stefnumörkunar, t.d. á sviði fjármála og peningamála, verslunar og iðnaðar, atvinnumála, launþegasamtaka, félagslegrar verndar, jafnréttis kynjanna,vinnueftirlits og heilbrigðismála og aukinnar færni með menntun og þjálfun;
        3.    ættu aðildarríkin að koma á fót stofnunum til að endurskoða slíka stefnumörkun í samráði við aðila vinnumarkaðarins og endurnýja hana.

III. ÞRÓUN FRAMTAKSMENNINGAR

     10.      Aðildarríkin ættu að gera ráðstafanir í samráði við aðila vinnumarkaðarins til að skapa og styrkja framtaksmenningu þar sem áhersla sé lögð á frumkvæði, stofnun fyrirtækja, framleiðni, umhverfismál, gæði, gott samband starfsmanna og atvinnurekenda og viðeigandi og sanngjarnar félagslegar venjur. Í því skyni ættu aðildarríkin að íhuga:
        1.    að stuðla að þróun framtakssemi og beita til þess menntakerfinu og þjálfun þeirra sem vantar vinnu, svo og hagvexti og efnahagsþróun, þar sem sérstök áhersla er lögð á mikilvægi góðra samskipta milli aðila vinnumarkaðarins og fjölbreytta starfs- og stjórnunarhæfni sem smá og meðalstór fyrirtæki hafa þörf á;
        2.    að leitast við, með viðeigandi ráðum, að hvetja til jákvæðari afstöðu til áhættureksturs og gjaldþrota fyrirtækja með því að viðurkenna gildi slíks sem tækifæris til að draga lærdóma af, jafnframt því að viðurkenna áhrif slíks bæði á sjálfstæða atvinnurekendur og starfsmenn;
        3.    að hvetja til stöðugrar símenntunar allra hópa starfsmanna og sjálfstæðra atvinnurekenda;
        4.    að hanna og kynna fræðsluefni með fullri þátttöku hlutaðeigandi atvinnurekenda og starfsmanna í því skyni að:
             a.      stuðla að virðingu fyrir lögum og reglum og réttindum starfsmanna, betra starfsumhverfi, meiri framleiðni og auknum gæðum vöru og þjónustu;
             b.      styðja við fyrirmyndir á sviði sjálfstæðs atvinnurekstrar og verðlaunaverkefna þar sem fullt tillit sé tekið til þarfa kvenna, jaðarhópa og þeirra sem standa höllum fæti.

IV. ÞRÓUN VIRKRAR GRUNNGERÐAR

     11.      Í því skyni að stuðla að vaxandi atvinnusköpun og samkeppni smárra og meðalstórra fyrirtækja ætti að huga að því hvort fyrir hendi er hvers konar bein og óbein stuðningsþjónusta fyrir þau og starfsmenn þeirra og hversu aðgengileg hún er, t.d.:
                  a.      undirbúningur að stofnun fyrirtækis og hvernig á að stofna það og stuðla að framgangi þess;
                  b.      gerð og þróun viðskiptaáætlana;
                  c.      uppeldisstöðvar fyrirtækja;
                  d.      upplýsingaþjónusta, m.a. ráðgjöf varðandi stefnu stjórnvalda;
                  e.      þjónusta á sviði ráðgjafar og rannsókna;
                  f.      aukin færni við stjórnun og störf;
                  g.      stuðlað er að þjálfun í fyrirtækjum og þróun slíkrar starfsemi;
                  h.      stuðningur við fræðslu um öryggi og heilbrigði við vinnu;
                  i.      stuðlað er að aukinni lestrar-, skriftar- og reikningskunnáttu, tölvukunnáttu og grunnmenntun stjórnenda og starfsmanna;
                  j.      aðgangur að orku, samskiptakerfum og vatns- og rafveitukerfum, húsnæði, flutningskerfum og flutningaleiðum á vegum hins opinbera eða fyrir tilstilli einkaaðila;
                  k.      aðstoð við að skilja og beita löggjöf á sviði atvinnumála, þ.m.t. ákvæðum um réttindi starfsmanna, svo og við þróun mannauðs og aukið jafnrétti kynjanna;
                  l.      aðstoð á sviði lögfræði, bókhalds og fjármálaþjónustu;
                  m.      stuðningur við nýjungar og nýmæli;
                  n.      ráðgjöf varðandi tækni;
                  o.      ráðgjöf um virka beitingu upplýsinga- og fjarskiptatækni á sviði viðskipta;
                  p.      aðgangur að fjármagnsmörkuðum, lánum og ábyrgðum;
                  q.      ráðgjöf á sviði fjármála, lántöku og lánastýringar;
                  r.      stuðlað að útflutningi og viðskiptatækifærum innan lands og utan;
                  s.      markaðsrannsóknir og aðstoð við markaðssetningu;
                  t.      aðstoð við hönnun vöru, þróun hennar og kynningu;
                  u.      gæðaeftirlit, þ.m.t. gæðaprófun og -mælingar;
                  v.      pökkunarþjónusta;
                  w.      aðstoð á sviði umhverfismála.
     12.      Að því marki sem við verður komið ætti sú þjónusta sem tilgreind er í 11. gr. að vera hönnuð og veitt í því skyni að tryggja að hún komi að sem bestum notum og sé við hæfi með því að:
                  a.      aðlaga þjónustuna að þörfum smárra og meðalstórra fyrirtækja, þannig að tekið sé tillit til ríkjandi efnahags-, félags- og menningarlegra aðstæðna, svo og mismunandi stærðar, atvinnugreina og þróunarstigs;
                  b.      tryggja virka þátttöku smárra og meðalstórra fyrirtækja og aðila vinnumarkaðarins við að ákvarða hvaða þjónusta á að vera í boði;
                  c.      fá opinbera geirann og einkageirann til þátttöku í að veita slíka þjónustu, t.d. samtök atvinnurekenda og stéttarfélög, hálfopinber samtök, sjálfstætt starfandi ráðgjafa, tæknigarða, uppeldisstofnanir fyrirtækja og smá og meðalstór fyrirtæki sjálf;
                  d.      fjölga þjónustustöðum og hafa þau í eins miklum námunda við smá og meðalstór fyrirtæki og unnt er;
                  e.      stuðla að greiðum aðgangi að samþættu úrvali virkrar þjónustu með því að hafa „allt á sama stað“ eða tilvísunarþjónustu;
                  f.      vinna að því að þeir sem þjónustuna veita geti sjálfir staðið straum af kostnaði með því að endurheimta kostnað sinn á hóflegan hátt úr hendi smárra og meðalstórra fyrirtækja og annarra þannig að það hafi ekki áhrif á markaðinn fyrir slíka þjónustu og til að auka möguleika smárra og meðalstórra fyrirtækja til atvinnusköpunar;
                  g.      tryggja að stjórnun slíkrar þjónustu sé fagleg og ábyrg;
                  h.      koma á fót stofnunum sem fylgjast stöðugt með og meta slíka þjónustu þannig að hún sé í sífelldri endurnýjun.
     13.      Þjónustan ætti að vera þeim hætti að lögð sé áhersla á aukna framleiðni og aðra þætti sem stuðla að skilvirkni og að hjálpa smáum og meðalstórum fyrirtækjum til að vera samkeppnishæf á innlendum og erlendum mörkuðum og bæta vinnuvenjur og vinnuaðstæður.
     14.      Aðildarríkin ættu að auðvelda smáum og meðalstórum fyrirtækjum aðgang að fjármagni og lánum við viðunandi aðstæður. Í þessu sambandi:
                  a.      ætti að veita lánaþjónustu og aðra fjármálaþjónustu á venjulegum viðskiptakjörum eftir því sem við verður komið til þess að tryggja viðgang þeirra, nema ef um sérstaklega viðkvæma hópa sjálfstætt starfandi atvinnurekenda er að ræða;
                  b.      ætti að grípa til viðbótarráðstafana til að einfalda stjórnunaraðgerðir, draga úr viðskiptakostnaði og ryðja úr vegi vandkvæðum vegna ónógra trygginga, t.d. með stofnun einkarekinna lánastofnana og fjármálastofnana sem veita þróunarlán til að bjarga smáum og meðalstórum fjárvana fyrirtækjum;
                  c.      mætti hvetja smá og meðalstór fyrirtæki til að mynda með sér gagnkvæm tryggingarsamtök;
                  d.      ætti að hvetja til þess að komið verði á fót stofnunum sem veita áhættulán og öðrum stofnunum sem sérhæfa sig í að aðstoða smá og meðalstór fyrirtæki sem sýna frumkvæði.
     15.      Aðildarríkin ættu að íhuga að taka upp viðeigandi stefnu í því skyni að bæta alla þætti atvinnuþátttöku í smáum og meðalstórum fyrirtækjum með því að tryggja að verndandi löggjöf á sviði atvinnumála og félagsmála sé beitt án mismununar.
     16.      Auk þess ættu aðildarríkin:
                  a.      að auðvelda, þar sem því verður við komið, þróun samtaka og stofnana sem geta með virkum hætti stuðlað að viðgangi og samkeppnishæfni smárra og meðalstórra fyrirtækja; í því sambandi ætti að íhuga að hafa samráð við aðila vinnumarkaðarins;
                  b.      að íhuga viðeigandi ráðstafanir til að stuðla að samvinnu milli smárra og meðalstórra fyrirtækja og stórra fyrirtækja; í því sambandi ætti að gera ráðstafanir til að vernda lögmæta hagsmuni hlutaðeigandi smárra og meðalstórra fyrirtækja og starfsmanna þeirra;
                  c.      að íhuga ráðstafanir til að stuðla að tengslum milli stórra og meðalstórra fyrirtækja í því skyni að hvetja til skipta á reynslu og deila með sér mannauði og áhættu; í þessu sambandi mætti hvetja smá og meðalstór fyrirtæki til að mynda með sér verkefnasamtök, netkerfi og samvinnufélög um framleiðslu og þjónustu þar sem tekið væri tillit til mikilvægs hlutverks samtaka atvinnurekenda og stéttarfélaga;
                  d.      að íhuga sérstakar ráðstafanir og hvatningu fyrir þá meðal tiltekinna hópa samfélagsins sem vilja starfa sjálfstætt, svo sem kvenna, þeirra sem hafa lengi verið atvinnulausir, þeirra sem hafa orðið fyrir barðinu á enduruppbyggingu fyrirtækja, takmarkandi ákvæðum í ráðningarsamningi eða mismunun, fatlaðra, þeirra sem hafa lokið herþjónustu, ungs fólks, þ.m.t. nýútskrifaðs fólks, eldri starfsmanna, þjóðernislegra minnihlutahópa, innfæddra og ættflokka; gera ætti gangskör að því að kanna hverjir þessir hópar eru og taka tillit til félagslegrar og efnahagslegrar forgangsröðunar og aðstæðna í hverju ríki;
                  e.      að íhuga sérstakar ráðstafanir til að bæta samskipti og tengsl milli stjórnarstofnana og smárra og meðalstórra fyrirtækja og aðila vinnumarkaðarins sem tengjast slíkum fyrirtækjum í því skyni að auka virkni stjórnvaldsaðgerða til atvinnusköpunar;
                  f.      að hvetja til stuðnings við sjálfstætt starfandi konur og viðurkenna mikilvægi kvenna í atvinnulífinu með ráðstöfunum sem einkum beinast að konum sem eru þegar eða óska eftir að verða sjálfstætt starfandi.

V. HLUTVERK SAMTAKA ATVINNUREKENDA OG STÉTTARFÉLAGA

     17.      Samtök atvinnurekenda og stéttarfélög ættu að íhuga að styðja við þróun smárra og meðalstórra fyrirtækja með eftirfarandi hætti:
                  a.      að upplýsa stjórnvöld um hagsmunamál smárra og meðalstórra fyrirtækja eða starfsmanna þeirra eftir því sem við á;
                  b.      að veita beina stuðningsþjónustu, t.d. með þjálfun, ráðgjöf, greiðari aðgangi að lánum, markaðssetningu og ráðleggingum um samskipti á vinnumarkaði, og stuðla að tengslum við stærri fyrirtæki;
                  c.      hafa samvinnu við stofnanir á landsvísu, á tilteknum landsvæðum eða í sama byggðarlagi, svo og á milliríkjagrundvelli svæðisbundnar stofnanir sem veita aðstoð smáum og meðalstórum fyrirtækjum á sviðum eins og þjálfun, ráðgjöf, stofnun fyrirtækja og gæðaeftirliti;
                  d.      að taka þátt í ráðum, verkefnishópum og öðrum stofnunum á landsvísu, á tilteknum landsvæðum og í tilteknum byggðarlögum sem komið hefur verið á fót til að fjalla um mikilvæg efnahagsmál og félagsmál, þ.m.t. stefnumörkun og áætlanir sem hafa áhrif á smá og meðalstór fyrirtæki;
                  e.      að stuðla að og taka þátt í enduruppbyggingu sem leiðir til efnahagslegra og félagslegra framfara (t.d. með endurhæfingu og því að stuðla að sjálfstæðri atvinnustarfsemi) með viðeigandi félagslegum öryggisnetum;
                  f.      að taka þátt í að stuðla að skiptum á reynslu og koma á tengslum milli smárra og meðalstórra fyrirtækja;
                  g.      að taka þátt í að fylgjast með og greina félagsleg málefni og málefni sem snerta vinnumarkaðinn og hafa áhrif á smá og meðalstór fyrirtæki, t.d. hvað varðar ráðningarkjör, vinnuaðstæður, félagslega vernd og starfsþjálfun og stuðla að úrbótum eftir þörfum;
                  h.      að taka þátt í aðgerðum til að auka gæði og framleiðni, svo og að stuðla að beitingu siðareglna, jafnrétti kynjanna og afnámi misréttis;
                  i.      að gera kannanir á smáum og meðalstórum fyrirtækjum, safna tölfræðilegum gögnum og öðrum upplýsingum á þessu sviði, þ.m.t. tölfræðilegum gögnum sundurliðuðum eftir kynferði og aldri, og koma slíkum upplýsingum, svo og frásögnum af bestu reynslu, á framfæri við samtök atvinnurekenda og stéttarfélaga á landsvísu og á alþjóðavettvangi; og
                  j.      veita þjónustu og ráðgjöf um réttindi starfsmanna, atvinnumálalöggjöf og félagslega vernd starfsmanna í smáum og meðalstórum fyrirtækjum.
     18.      Hvetja ætti smá og meðalstór fyrirtæki og starfsmenn þeirra til að hafa viðeigandi málsvara þannig að fullt tillit sé tekið til félagafrelsis. Í þessu sambandi ættu samtök atvinnurekenda og stéttarfélög að sjá til þess að samtök þeirra nái einnig til smárra og meðalstórra fyrirtækja.

VI. ALÞJÓÐLEG SAMVINNA

     19.      Hvetja ætti til viðeigandi alþjóðlegrar samvinnu á eftirtöldum sviðum:
                  a.      að koma á sameiginlegum starfsreglum við söfnun sambærilegra gagna í því skyni að stuðla að stefnumörkun;
                  b.      að skiptast á upplýsingum, sem væru sundurliðaðar eftir kyni, aldri og öðrum viðeigandi breytum, um bestu reynslu hvað varðar stefnumörkun og áætlanir um atvinnusköpun og auka vinnugæði í smáum og meðalstórum fyrirtækjum;
                  c.      að mynda tengsl milli innlendra og alþjóðlegra aðila og stofnana sem taka þátt í þróun smárra og meðalstórra fyrirtækja, þ.m.t. samtök atvinnurekenda og stéttarfélög, í því skyni að auðvelda:
                      i.      skipti á starfsmönnum, reynslu og hugmyndum;
                      ii.      skipti á kennsluefni, kennsluaðferðum og ítarefni;
                      iii.      að taka saman niðurstöður rannsókna og önnur megindleg og eigindleg gögn sem sundurliðuð eru eftir kynferði og aldri um smá og meðalstór fyrirtæki og þróun þeirra;
                      iv.      að stofna til alþjóðlegs samstarfs og samvinnu smárra og meðalstórra fyrirtækja, og notkun undirverktaka og annarra viðskiptatengsla;
                      v.      að stuðla að þróun nýrra tækifæra og beita nútímaupplýsingatækni til að skiptast á upplýsingum milli ríkisstjórna, samtaka atvinnurekenda og stéttarfélaga um þá reynslu sem fengist hefur varðandi stuðning við smá og meðalstór fyrirtæki;
                  d.      með alþjóðlegum fundum og umræðuhópum um aðferðir til atvinnusköpunar með þróun smárra og meðalstórra fyrirtækja, þ.m.t. stuðningi við sjálfstætt starfandi konur; svipaðar aðferðir til atvinnusköpunar og að styðja við sjálfstæða atvinnustarfsemi koma að gagni fyrir jaðarhópa og þá sem standa höllum fæti;
                  e.      kerfisbundnar rannsóknir á ýmsum sviðum og í ýmsum löndum á því hvaða þættir stuðla helst að góðum árangri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum og mikilli atvinnusköpun við góðar vinnuaðstæður og viðeigandi félagslega vernd;
                  f.      að veita smáum og meðalstórum fyrirtækjum og starfsmönnum þeirra aðgang að gagnasöfnum innan lands og utan, t.d. um atvinnutækifæri, markaðsupplýsingar, lög og reglugerðir, tækni og vörustaðla.
     20.      Aðildarríkin ættu að vekja athygli á efni þessarar tillögu meðal annarra alþjóðlegra aðila. Aðildarríkin ættu einnig að vera reiðubúin til samstarfs við slíka aðila þar sem það á við þegar þau meta og beita ákvæðum þessarar tillögu og taka tillit til mikilvægs hlutverks Alþjóðavinnumálastofnunarinnar við að stuðla að atvinnusköpun í smáum og meðalstórum fyrirtækjum.



Fylgiskjal III.


Skýrsla um starf nefndar sem fer með málefni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar
og um framkvæmd félagsmálasáttmála Evrópu á árinu 1998.

    Á 61. Alþjóðavinnumálaþinginu, sem haldið var í Genf árið 1976, var afgreidd samþykkt nr. 144, um samstarf ríkisvalds og aðila vinnumarkaðarins um framkvæmd alþjóðlegra reglna á sviði vinnumála. Ísland fullgilti samþykktina árið 1981. Samþykktin endurspeglar það samstarf fulltrúa ríkisstjórna og aðila vinnumarkaðarins sem fram fer innan Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og skapar henni sérstöðu meðal annarra stofnana sem starfa innan vébanda Sameinuðu þjóðanna. Í öllum nefndum og ráðum stofnunarinnar eiga sæti fulltrúar ríkisstjórna, atvinnurekenda og launafólks. Í anda samþykktar nr. 144 var skipuð 16. apríl 1982 samstarfsnefnd ríkisvaldsins og aðila vinnumarkaðarins sem fjallar um samskipti Íslands við Alþjóðavinnumálastofnunina. Á árinu 1998 skipuðu eftirtaldir nefndina: Fulltrúi Alþýðusambands Íslands, Ástráður Haraldsson, lögfræðingur ASÍ, fulltrúi Vinnuveitendasambands Íslands, Hrafnhildur Stefánsdóttir, lögfræðingur VSÍ. Fulltrúi félagsmálaráðuneytisins gegnir formennsku í nefndinni. Gylfi Kristinsson deildarstjóri gegndi henni til júlíloka er Elín Blöndal, deildarstjóri í félagsmálaráðuneytinu, tók við.
    Verkefni nefndarinnar eru svipuð frá ári til árs, þ.e. að fara yfir drög að skýrslum til alþjóðavinnumálaskrifstofunnar í Genf um framkvæmd fullgiltra alþjóðasamþykkta, svara spurningaskrám sem skrifstofan sendir aðildarríkjunum þegar undirbúin eru drög að nýjum samþykktum og fjalla um athugasemdir sem sérfræðinganefnd ILO gerir við framkvæmd á alþjóðasamþykktum. Nefndin ræðir einnig framkvæmd Íslands á ákvæðum félagsmálasáttmála Evrópu.
    Nefnd um samskipti Íslands við Alþjóðavinnumálastofnunina hélt á árinu 1998 samtals 14 fundi. Helstu viðfangsefni nefndarinnar voru:

Málefni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.


a. Skýrslur um framkvæmd alþjóðasamþykkta á sviði vinnumála.
    Samkvæmt 22. gr. stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er aðildarríki skylt að gefa stofnuninni skýrslur um framkvæmd alþjóðasamþykkta. Þessi skylda er tvíþætt. Í fyrsta lagi skulu aðildarríkin gefa ILO reglulega skýrslur um framkvæmd þeirra samþykkta sem þau hafa fullgilt. Í öðru lagi getur stjórnarnefnd ILO falið alþjóðavinnumálaskrifstofunni að óska eftir skýrslum frá aðildarríkjunum um framkvæmd ákvæða í öðrum samþykktum sem þau hafa ekki fullgilt. Lagt er til í 5. gr. tillögu nr. 152, um samstarf um framkvæmd alþjóðlegra reglna á sviði vinnumála, að stjórnvöld hafi samráð við aðila vinnumarkaðarins um samningu þessara skýrslna.
    Á árinu 1998 undirbjó ILO-nefndin skýrslur ríkisstjórnarinnar um framkvæmd eftirfarandi alþjóðasamþykkta sem Ísland hefur fullgilt:
    Nr. 2, um ráðstafanir gegn atvinnuleysi.
    Nr. 29, um nauðungarvinnu eða skylduvinnu.
    Nr. 87, um félagafrelsi og verndun þess.
    Nr. 98, um félagafrelsi og réttinn til að semja sameiginlega.
    Nr. 102, um lágmark félagslegs öryggis.
    Nr. 108, um persónuskírteini sjómanna.
    Nr. 122, um stefnu í atvinnumálum.

b. Skýrsla um 85. Alþjóðavinnumálaþingið 1997.
    Aðild að Alþjóðavinnumálastofnuninni fylgir sú skylda að kynna löggjafarsamkomu þær samþykktir sem Alþjóðavinnumálaþingin hafa afgreitt. Á Íslandi er þetta ákvæði uppfyllt með þeim hætti að félagsmálaráðherra gefur Alþingi skýrslu um Alþjóðavinnumálaþingin. Í skýrslunum eru birtar í íslenskri þýðingu þær samþykktir, tillögur og ályktanir sem þingin hafa afgreitt. Á árinu 1998 var haft samráð við ILO-nefndina um skýrslu félagsmálaráðherra um 85. Alþjóðavinnumálaþingið sem haldið var 1997. Það þing afgreiddi nýja alþjóðasamþykkt nr. 181, um einkareknar vinnumiðlunarskrifstofur. Þingið lauk fyrri umræðu um drög að samþykkt og tillögu um launaverktöku.
    Í viðauka við skýrsluna eru birtar athugasemdir óháðrar sérfræðinganefndar Evrópuráðsins við framkvæmd Íslands á árunum 1992–94 á ákvæðum félagsmálasáttmála Evrópu.

c. Undirbúningur fyrir þátttöku í 86. Alþjóðavinnumálaþinginu.
    ILO-nefndin fjallaði á fundum sínum fyrri hluta árs 1998 um dagskrármál 86. Alþjóðavinnumálaþingsins. Á fundunum var farið yfir drög að yfirlýsingu um grundvallarréttindi í atvinnulífinu. Enn fremur var farið yfir skýrslur sem alþjóðavinnumálaskrifstofan hafði tekið saman til undirbúnings umræðum um helstu dagskrármál vinnumálaþingsins.

d.     Fullgilding alþjóðasamþykkta..
    Á árinu fjallaði nefndin um hugsanlega fullgildingu Íslands á eftirfarandi alþjóðasamþykktum:
    Nr. 138, um lágmarksaldur við vinnu.
    Nr. 147, um lágmarkskröfur á kaupskipum.
    Nr. 156, um starfsmenn með fjölskylduábyrgð.
    Nr. 170, um öryggi við notkun efna við vinnu.
    Nr. 173, um vernd launa við gjaldþrot.
    Nr. 174, um ráðstafanir til að koma í veg fyrir meiri háttar iðnaðarslys.
    Nr. 181, um einkareknar vinnumiðlunarskrifstofur.

Félagsmálasáttmáli Evrópu.

    Umfjöllun um aðild Íslands að félagsmálasáttmála Evrópu er meðal verkefna sem falin hafa verið ILO-nefndinni. Nefndin fjallaði um sáttmálann á samtals sjö fundum á árinu 1998. Helstu viðfangsefni nefndarinnar í sambandi við félagsmálasáttmálann voru samning skýrslu um framkvæmd nokkurra ákvæða sáttmálans, athugun á athugasemdum sérfræðinganefndar Evrópuráðsins við framkvæmd Íslands á sáttmálanum og könnun á hugsanlegri fullgildingu Íslands á endurskoðaðri gerð félagsmálasáttmála Evrópu frá árinu 1996.

a.     Skýrsla um framkvæmd félagsmálasáttmálans.
    Ráðherranefnd Evrópuráðsins samþykkti á fundi sínum 17. september 1992 að breyta til reynslu fyrirkomulagi á skýrslugjöf um framkvæmd sáttmálans. Samkvæmt 21. gr. sáttmálans skulu aðildarríki taka saman á tveggja ára fresti skýrslu um framkvæmdina. Samkvæmt því hafa aðildarríkin tekið saman annað hvert ár skýrslu um framkvæmd allra fullgiltra ákvæða sáttmálans. Enn fremur hefur þeim verið skipt í tvo hópa og hafa ríkjahóparnir skipst á um að senda Evrópuráðinu skýrslur sínar. Þessu var breytt þannig að taka skal saman á hverju ári skýrslu um framkvæmd á tilteknum fjölda greina. Aðildarríkin hafa því í raun skilað skýrslu á tveimur árum um framkvæmd ákvæða sáttmálans. Síðar var ákveðið að létta aðildarríkjunum skýrslugjöfina með því að óska einungis eftir skýrslu fjórða hvert ár um tilteknar greinar sáttmálans. Af þessum breytingum hefur leitt að sérfræðinganefnd Evrópuráðsins hefur nú getað lagt samtímis mat á framkvæmd allra aðildarríkjanna á ákvæðum sáttmálans. Það hefur leitt til þess að betri samanburður fæst á framkvæmd ríkjanna á sáttmálanum.
    Í samræmi við breyttar reglur um skýrslur um framkvæmd á félagsmálasáttmálanum óskaði Evrópuráðið eftir skýrslu um framkvæmd á eftirtöldum greinum sáttmálans:
    2. gr., um réttinn til sanngjarnra vinnuskilyrða.
    3. gr., um réttinn til öryggis við störf og heilsusamlegra vinnuskilyrða.
    4. gr., um réttinn til sanngjarns kaups.
    15. gr., um rétt líkamlegra eða andlegra fatlaðra til starfsþjálfunar, endurhæfingar og endurheimtar félagslegrar stöðu.

b.     Athugasemdir við framkvæmd Íslands á ákvæðum félagsmálasáttmálans.
    ILO-nefndin fjallaði á árinu um athugasemdir við framkvæmd Íslands á nokkrum ákvæðum félagsmálasáttmála Evrópu sem koma fram í skýrslu sérfræðinganefndar Evrópuráðsins 14-1 sem var gefin út í mars 1998. Athugasemdirnar eru birtar í heild sinni í viðauka með þessari skýrslu.

c.     Hugsanleg fullgilding á endurskoðaðri gerð félagsmálasáttmálans.
    Árið 1990 samþykktu evrópskir félagsmálaráðherrar tillögu Lalumiere, þáverandi framkvæmdastjóra Evrópuráðsins, um endurskoðun á ákvæðum félagsmálasáttmálans. Í framhaldi af samþykkt tillögunnar var hafin endurskoðun sáttmálans af sérstakri nefnd á vegum Evrópuráðsins. Nefndin afgreiddi til ráðherranefndar Evrópuráðsins árið 1991 drög að bókun við félagsmálasáttmálann þar sem skýrar er kveðið á um hlutverk sérfræðinganefndar Evrópuráðsins. Í henni er einnig kveðið skýrar á um verkefni nefndar sem í eiga sæti fulltrúar aðildarríkja sáttmálans. Að tillögu nefndarinnar samþykkti ráðherranefndin árið 1995 viðauka við sáttmálann sem veitir heildarsamtökum vinnumarkaðarins rétt til að kæra framkvæmd sáttmálans til Evrópuráðsins. Þriðja skjalið sem nefndin afgreiddi til ráðherranefndarinnar er ný gerð sáttmálans þar sem eldri ákvæði hafa verið færð í nútímalegra horf en jafnframt bætt við 11 nýjum efnisgreinum. ILO-nefndin fór á árinu yfir breytingar sem hafa verið gerðar frá eldri gerð sáttmálans og nýmæli sem hefur verið bætt við. Markmiðið hefur verið að kanna hugsanlega fullgildingu Íslands á þessari endurskoðuðu gerð félagsmálasáttmálans. Enn er þó eftir nokkur vinna við athugun á einstökum ákvæðum áður en nefndin getur skilað af sér tillögum um mögulega fullgildingu sáttmálans.




Fylgiskjal IV.


Fulltrúar Íslands á Alþjóðavinnumálaþinginu 1945–98.

    Samkvæmt 3. gr. 1. tölul. stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar skal allsherjarþing fulltrúa aðildarríkjanna koma saman til fundar þegar þörf krefur, þó eigi sjaldnar en einu sinni á ári. Tekið er fram að þar eigi sæti fjórir fulltrúar frá hverju ríki. Tveir skulu vera fulltrúar hlutaðeigandi ríkisstjórnar og annar hinna tveggja fulltrúi atvinnurekenda, en hinn fulltrúi launafólks. Hin síðari ár hefur Alþjóðavinnumálaþingið undantekningarlaust komið saman í Genf í Sviss. Þingið stóð í u.þ.b. þrjár vikur. Frá og með 81. þinginu 1994 var formlegur hluti þingsins styttur um fimm daga. Þess í stað hefur einum til tveimur dögum fyrir þingsetningu verið varið til óformlegra undirbúningsfunda. Á nokkra ára fresti eru haldin aukaþing sem hafa verið helguð málefnum skipverja.
    Í 3. gr. 2. tölul. stofnskrárinnar kemur fram að hver fulltrúi getur haft með sér ráðgjafa en þeir mega ekki vera fleiri en tveir um hvert málefni sem er á dagskrá þingsins. Með fullgildingu stofnskrárinnar skuldbindur aðildarríki sig til þess að skipa fulltrúa aðila vinnumarkaðarins í sendinefnd til þátttöku í Alþjóðavinnumálaþinginu í samráði við helstu samtök atvinnurekenda og launafólks, sbr. 3. gr. 5. tölul. Við skipun fulltrúa aðila vinnumarkaðarins í sendinefnd Íslands hefur frá upphafi verið haft samráð við Alþýðusamband Íslands (ASÍ) og Vinnuveitendasamband Íslands (VSÍ). Embættismenn úr félagsmálaráðuneyti (félmrn.), samgönguráðuneyti (samgrn.) og utanríkisráðuneyti (utanrrn.) hafa verið fulltrúar ríkisstjórnarinnar í nefndinni.
    Hér fer skrá yfir þátttöku af hálfu Íslands í Alþjóðavinnumálaþinginu. Skráin hefst árið 1945 þegar aðild Íslands að Alþjóðavinnumálastofnuninni var samþykkt á 27. þinginu í París og lýkur með upptalningu á þingfulltrúum sem sóttu 86. þingið 1998. Bent skal á að þótt hér sé um að ræða tæmandi skrá yfir íslenska þingfulltrúa gildir ekki það sama um félagsmálaráðherra. Einungis er getið þeirra ráðherra sem hafa sent fulltrúa til þingsins. Rétt er einnig að benda á að árið 1970 var stofnuð fastanefnd Íslands í Genf. Þeir fulltrúar utanríkisráðuneytisins sem hafa sótt þingið frá þeim tíma hafa í öllum tilvikum verið starfsmenn fastanefndarinnar. Loks er rétt að vekja athygli á því að nokkur undanfarin ár hafa fulltrúar samtaka aðila vinnumarkaðarins skipt með sér þátttöku í þinginu þannig að varamaður hefur leyst aðalmann af hólmi þegar u.þ.b. helmingur þingtímans hefur verið liðinn.


Félagsmálaráðherra:     Alþjóðavinnumálaþing:    Fulltrúar:

Finnur Jónsson     27. þing, París 1945     Þórhallur Ásgeirsson (utanrrn.)
félagsmálaráðherra    29. þing, Montreal 1946    Thor Thors (utanrrn.)
17. sept. 1946 –         Þórhallur Ásgeirsson (utanrrn.)
4. febrúar 1947        Kjartan Thors (VSÍ)
                   Pétur G. Guðmundsson (ASÍ)

Stefán Jóh. Stefánsson     30. þing, Genf 1947     Finnur Jónsson (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Jónas Guðmundsson (félmrn.)
1947–1949          Benedikt Gröndal (VSÍ)
                   Björn Bjarnason (ASÍ)
              31. þing, San Francisco     Jónas Guðmundsson (félmrn.)
              1948     Jón S. Ólafsson (félmrn.)

Ólafur Thors     32. þing, Genf 1949     Jónas Guðmundsson (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Jón S. Ólafsson (félmrn.)
1949–1950          Sigurður Jónsson (VSÍ)
                   Magnús Ástmarsson (ASÍ)

Steingrímur Steinþórsson    33. þing, Genf 1950     Jónas Guðmundsson (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Haraldur Kröyer (utanrrn.)
1950–1956     35. þing, Genf 1952     Jónas Guðmundsson (félmrn.)
                   Jón S. Ólafsson (félmrn.)
                   Kjartan Thors (VSÍ)
                   Magnús Ástmarsson (ASÍ)
              38. þing, Genf 1955     Hjálmar Vilhjálmsson (félmrn.)
                   Jón S. Ólafsson (félmrn.)
                   Eyjólfur Jóhannsson (VSÍ)
                   Eðvarð Sigurðsson (ASÍ)

Hannibal Valdimarsson    40. þing, Genf 1957     Hannibal Valdimarsson (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Jón S. Ólafsson (félmrn.)
1956–1958          Kjartan Thors (VSÍ)
                   Eðvarð Sigurðsson (ASÍ)

Eggert G. Þorsteinsson     50. þing, Genf 1966     Eggert G. Þorsteinsson (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Jón S. Ólafsson (félmrn.)
1965–1970          Kjartan Thors (VSÍ)
                   Björgvin Sigurðsson (VSÍ)
                   Hannibal Valdimarsson (ASÍ)
                   Snorri Jónsson (ASÍ)

Hannibal Valdimarsson    57. þing, Genf 1972     Hannibal Valdimarsson (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Jón S. Ólafsson (félmrn.)
1971–1973          Einar Benediktsson (utanrrn.)
                   Kristján Ragnarsson (VSÍ)
                   Snorri Jónsson (ASÍ)

Björn Jónsson     59. þing, Genf 1974     Jón S. Ólafsson (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Einar Benediktsson (utanrrn.)
1973–1974          Ólafur Jónsson (VSÍ)
                   Snorri Jónsson (ASÍ)

Gunnar Thoroddsen     63. þing, Genf 1977     Gunnar Thoroddsen (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Haraldur Kröyer (utanrrn.)
1974–1978          Kornelíus Sigmundsson (utanrrn.)

Magnús H. Magnússon     64. þing, Genf 1978     Jón S. Ólafsson (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Haraldur Kröyer (utanrrn.)
1978–1980          Jón H. Bergs (VSÍ)
                   Snorri Jónsson (ASÍ)
                   Ásmundur Stefánsson
              65. þing, Genf 1979     Haraldur Kröyer (utanrrn.)
                   Tómas Karlsson (utanrrn.)
              66. þing, Genf 1980     Jón S. Ólafsson (félmrn.)
                   Tómas Karlsson (utanrrn.)

Svavar Gestsson     67. þing, Genf 1981     Svavar Gestsson (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Jón S. Ólafsson (félmrn.)
1980–1983          Hannes Jónsson (utanrrn.)
                   Skúli Jónsson (VSÍ)
                   Kristín Mäntilä (ASÍ)
              68. þing, Genf 1982     Jón S. Ólafsson (félmrn.)
                   Hannes Jónsson (utanrrn.)
                   Kristín Mäntilä (ASÍ)
              69. þing, Genf 1983     Jón S. Ólafsson (félmrn.)
                   Hannes Jónsson (utanrrn.)
                   Magnús Gunnarsson (VSÍ)
                   Björn Björnsson (ASÍ)

Alexander Stefánsson     70. þing, Genf 1984     Jón S. Ólafsson (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Hannes Hafstein (utanrrn.)
1983–1987          Kristján Þorbergsson (VSÍ)
                   Lára V. Júlíusdóttir (ASÍ)
              71. þing, Genf 1985     Gylfi Kristinsson (félmrn.)
                   Hannes Hafstein (utanrrn.)
                   Kristján Þorbergsson (VSÍ)
                   Lára V. Júlíusdóttir (ASÍ)
              72. þing, Genf 1986     Alexander Stefánsson (félmrn.)
                   Hallgrímur Dalberg (félmrn.)
                   Gylfi Kristinsson (félmrn.)
                   Hannes Hafstein (utanrrn.)
                   Kristján Þorbergsson (VSÍ)
                   Guðmundur J. Guðmundsson (ASÍ)
              73. þing, Genf 1987     Gylfi Kristinsson (félmrn.)
                   Kristinn Árnason (utanrrn.)
                   Kristján Þorbergsson (VSÍ)
                   Guðmundur J. Guðmundsson (ASÍ)

Jóhanna Sigurðardóttir     75. þing, Genf 1988     Jóhanna Sigurðardóttir (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Hallgrímur Dalberg (félmrn.)
1987–1994          Gylfi Kristinsson (félmrn.)
                   Sverrir Haukur Gunnlaugsson
                    (utanrrn.)
                   Kristinn Árnason (utanrrn.)
                   Jón H. Magnússon (VSÍ)
                   Guðmundur J. Guðmundsson (ASÍ)
              76. þing, Genf 1989     Jóhanna Sigurðardóttir (félmrn.)
                   Gylfi Kristinsson (félmrn.)
                   Eyjólfur Sæmundsson (félmrn.)
                   Sverrir Haukur Gunnlaugsson
                   (utanrrn.)
                   Kristinn Árnason (utanrrn.)
                   Bjarnveig Eiríksdóttir (utanrrn.)
                   Hrafnhildur Stefánsdóttir (VSÍ)
                   Jón H. Magnússon (VSÍ)
                   Ásmundur Stefánsson (ASÍ)
                   Guðmundur J. Guðmundsson (ASÍ)
            77. þing, Genf 1990     Gylfi Kristinsson (félmrn.)     
                   Eyjólfur Sæmundsson (félmrn.)
                   Kjartan Jóhannsson (utanrrn.)
                   Kristinn F. Árnason (utanrrn.)
                   Stefán Jóhannesson (utanrrn.)
                   Hrafnhildur Stefánsdóttir (VSÍ)
                   Jón H. Magnússon (VSÍ)
                   Þráinn Hallgrímsson (ASÍ)
                   Guðmundur J. Guðmundsson (ASÍ)
              78. þing, Genf 1991     Jóhanna Sigurðardóttir (félmrn.)
                   Gylfi Kristinsson (félmrn.)
                   Kjartan Jóhannsson (utanrrn.)
                   Kristinn F. Árnason (utanrrn.)
                   Stefán Jóhannesson (utanrrn.)
                   Hrafnhildur Stefánsdóttir (VSÍ)
                   Jón H. Magnússon (VSÍ)
                   Guðmundur J. Guðmundsson (ASÍ)
                   Þráinn Hallgrímsson (ASÍ)
              79. þing, Genf 1992     Gylfi Kristinsson (félmrn.)
                   Eyjólfur Sæmundsson (félmrn.)
                   Kjartan Jóhannsson (utanrrn.)
                   Kristinn F. Árnason (utanrrn.)
                   Stefán Jóhannesson (utanrrn.)
                   Margrét Viðar (utanrrn.)
                   Hrafnhildur Stefánsdóttir (VSÍ)
                   Jón H. Magnússon (VSÍ)
                   Þráinn Hallgrímsson (ASÍ)
                   Þórunn Sveinbjörnsdóttir (ASÍ)
              80. þing, Genf 1993     Gylfi Kristinsson (félmrn.)
                   Eyjólfur Sæmundsson (félmrn.)
                   Kjartan Jóhannsson (utanrrn.)
                   Lilja Ólafsdóttir (utanrrn.)
                   Stefán Jóhannesson (utanrrn.)
                   Hrafnhildur Stefánsdóttir (VSÍ)
                   Jón H. Magnússon (VSÍ)
                   Benedikt Davíðsson (ASÍ)
                   Bryndís Hlöðversdóttir (ASÍ)
              81. þing, Genf 1994     Jóhanna Sigurðardóttir (félmrn.)
                   Berglind Ásgeirsdóttir (félmrn.)
                   Gylfi Kristinsson (félmrn.)
                   Kjartan Jóhannsson (utanrrn.)
                   Guðmundur B. Helgason (utanrrn.)
                   Hrafnhildur Stefánsdóttir (VSÍ)
                   Jón H. Magnússon (VSÍ)
                   Bryndís Hlöðversdóttir (ASÍ)
                   Hervar Gunnarsson (ASÍ)

Páll Pétursson     82. þing, Genf 1995     Páll Pétursson (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Gylfi Kristinsson (félmrn.)
1995–          Gunnar Snorri Gunnarsson (utanrrn.)
                   Guðmundur B. Helgason (utanrrn.)
                   Haukur Ólafsson (utanrrn.)
                   Hrafnhildur Stefánsdóttir (VSÍ)
                   Jón H. Magnússon (VSÍ)
                   Ástráður Haraldsson (ASÍ)
                   Hervar Gunnarsson (ASÍ)
              83. þing, Genf 1995     Jósef H. Þorgeirsson (samgrn.)
                   Gunnar Snorri Gunnarsson (utanrrn.)
                   Guðmundur B. Helgason (utanrrn.)
                   Haukur Ólafsson (utanrrn.)
                   Jón H. Magnússon (VSÍ)
                Borgþór S. Kjærnested
                   (Sjómannafélag Reykjavíkur)
              84. þing, Genf 1996     Páll Pétursson (félmrn.)
                   Gylfi Kristinsson (félmrn.)
                   Gunnar Snorri Gunnarsson (utanrrn.)
                   Guðmundur B. Helgason (utanrrn.)
                   Haukur Ólafsson (utanrrn.)
                   Hrafnhildur Stefánsdóttir (VSÍ)
                   Jón H. Magnússon (VSÍ)
                   Ástráður Haraldsson (ASÍ)
                   Hervar Gunnarsson (ASÍ)
              85. þing, Genf 1997     Gylfi Kristinsson (félmrn.)
                   Gunnar Snorri Gunnarsson (utanrrn.)
                   Guðmundur B. Helgason (utanrrn.)
                   Haukur Ólafsson (utanrrn.)
                   Hrafnhildur Stefánsdóttir (VSÍ)
                   Jón H. Magnússon (VSÍ)
                   Ástráður Haraldsson (ASÍ)
                   Hervar Gunnarsson (ASÍ)
              86. þing, Genf 1998     Gylfi Kristinsson (félmrn.)
                   Benedikt Jónsson (utanrrn.)
                   Guðmundur B. Helgason (utanrrn.)
                   Haukur Ólafsson (utanrrn.)
                   Hrafnhildur Stefánsdóttir (VSÍ)
                   Jón H. Magnússon (VSÍ)
                   Ástráður Haraldsson (ASÍ)
                   Hervar Gunnarsson (ASÍ)


VIÐAUKI

Athugasemdir nefndar óháðra sérfræðinga við framkvæmd
Íslands á félagsmálasáttmála Evrópu á árunum 1992–94.

    Hér eru birtar athugasemdir sem nefnd óháðra sérfræðinga á vegum Evrópuráðsins hefur gert við framkvæmd Íslands á ákvæðum félagsmálasáttmála Evrópu á árunum 1994–96. Athugasemdirnar eru birtar í skýrslu sérfræðinganefndarinnar European Social Charter, Committee of Independent Experts of the European Social Charter, Conclusions XIV-1, Strasbourg 1998. Það skal tekið fram athugasemdir sérfræðinganefndarinnar eru ekki tilfærðar orðrétt heldur er um að ræða efnislega samantekt nema annað sé tekið fram. Tilvitnuð ákvæði sáttmálans eru einnig stytt.
    Rétt er að geta þess að ráðherranefnd Evrópuráðsins samþykkti á 497. fundi í september 1993 að breyta framkvæmd á ákvæðum um skýrslur aðildarríkja félagsmálasáttmálans. Áður var óskað eftir skýrslu frá aðildarríkjunum á tveggja ára fresti um framkvæmd allra greina sem þau voru skuldbundin til að framfylgja. Nú ber aðildarríkjunum að gefa skýrslu árlega um framkvæmd tiltekinna ákvæða. Af þessu leiðir að umsögn sérfræðinganefndarinnar um framkvæmd á öllum ákvæðum sáttmálans dreifist á nokkur ár. Hér er því gerð grein fyrir umsögn um framkvæmd Íslands á nokkrum ákvæðum félagsmálasáttmálans sem birtist í framangreindri skýrslu sérfræðinganna. Af þessu leiðir að það yfirlit yfir athugasemdir sérfræðinganefndarinnar sem hér er birt er ekki sambærilegt við hliðstæð yfirlit sem áður hafa verið birt í skýrslu félagsmálaráðherra til Alþingis.

1. gr.


    1. mgr., um að allir menn skuli eiga þess kost að vinna fyrir sér í starfi sem þeir hafa sjálfir valið.
    * Sérfræðinganefndin getur þess að á Íslandi mældist örlítil minnkun atvinnuleysis á viðmiðunartímabilinu. Samkvæmt hagtölum í skýrslunni nam atvinnuleysið 4,7% 1994 og 4,3% 1996. Atvinnuleysi meðal kvenna var 5,8% 1996 og 3,2% meðal karla. Atvinnuleysi ungmenna er rösklega tvöfalt meira en atvinnuleysi almennt, en langtímaatvinnulausir (þeir sem höfðu verið atvinnulausir í meira en sex mánuði) voru 28,4% af öllum atvinnulausum 1995. Af þeim mjög svo ítarlegu tölfræðilegu upplýsingum sem ríkisstjórnin lagði fram ræður nefndin einnig að um er að ræða verulegan mismun á atvinnuleysisstigi eftir árstímum, svo og að hlutastörf eru algeng, og það vekur athygli að u.þ.b. helmingur útivinnandi kvenna er í hlutastörfum.
    Samkvæmt skýrslu Íslands er markmið efnahagsstefnunnar að móta aðstæður fyrir stöðugan hagvöxt og aukna atvinnu og að lækka erlendar skuldir án þess að stefna stöðugleika í hættu. Nefndin kveðst hafa aðra heimild 2 um það að Íslendingar hafi notið hagvaxtar þrjú ár í röð frá 1994. Hagvöxturinn kom fram í auknu atvinnustigi 1995 og 1996 og þeirri staðreynd að hlutfallslega mikil atvinnuþátttaka hefur haldið áfram (88,1% 1996).
    Í skýrslu Íslands segir að ekki hafi orðið nein marktæk breyting á atvinnumálastefnu 1995–1996 og í henni eru nefndar ýmsar ráðstafanir á vinnumarkaðnum á viðmiðunartímabilinu, svo sem ráðstafanir til atvinnusköpunar, starfsþjálfun og herferð til að örva atvinnuþátttöku kvenna. Nefndin veitir því athygli að hin nýstofnaða Vinnumálastofnun ákvað í september 1997 að hefja könnun á þeim ráðstöfunum sem gerðar höfðu verið til að fjölga kvennastörfum og óskar nefndin eftir því að fá upplýsingar um þá könnun í næstu skýrslu. Nefndin óskar einnig eftir nánari upplýsingum um aðrar ráðstafanir á vinnumarkaði, einkum fjölda þeirra sem nutu góðs af, svo og áætluð áhrif á atvinnuþátttöku.
    Fram kemur að nefndin gefur gaum að umsögn ríkisstjórnarinnar um athugasemdir Bandalags háskólamanna (BHM). Ríkisstjórnin fullyrðir að tekist hafi að draga mjög úr verðbólgu án þess að valda auknu atvinnuleysi. Ríkisstjórnin leggur enn fremur áherslu á að atvinnuleysi meðal háskólamenntaðra manna sé mjög lítið, þ.e. 0,7% árið 1995, og hún hefur ekki fundið neina sönnun fyrir því að of mikil menntun valdi vanda á íslenskum vinnumarkaði.
    Loks veitir kveðst nefndin veita því athygli að verulega var dregið úr opinberum fjárframlögum varðandi atvinnumálastefnu í fjárlögum 1996 — úr 1,27% af vergri landsframleiðslu 1995 í 0,9% 1996 — og að framlög til virkra aðgerða voru nær helmingi minni. Nefndin óskar eftir því að í næstu skýrslu komi fram skýring á þessari þróun.
     2. mgr., um að réttur verkafólks til að vinna fyrir sér í starfi sem það hefur valið sér sé verndaður á raunhæfan hátt.
    * Nefndin gefur gaum að upplýsingum í skýrslu Íslands og svörum við þeim spurningum sem spurt var í fyrri niðurstöðum.

1.     Afnám hvers konar mismununar til starfa.
    Nefndin gefur gaum að því að í 65. gr. Stjórnarskrár Íslands, sem breytt var með lögum nr. 97/1975, er ákvæði þess efnis að allir séu jafnir fyrir lögum og skuli njóta mannréttinda án tillits til kynþáttar, litarháttar, fjárhagsstöðu, ætternis eða stöðu sem skilgreind er með öðrum hætti. Einnig er tekið fram að konur og karlar skuldi njóta jafnréttis í öllu tilliti.
    Hvað varðar mismunun á grundvelli kynferðis er í skýrslu Íslands að finna upplýsingar um yfirstandandi framkvæmd fjögurra ára áætlunar í jafnréttismálum (1993–97). Jafnréttisráð hefur gefið út áfangaskýrslu um framkvæmd áætlunarinnar fyrstu tvö árin þar sem fjallað er um þau verkefni sem hin ýmsu ráðuneyti hafa haft frumkvæði að. Verkefnin eru af ýmsum toga, svo sem launamunur, starfsþjálfun kvenna, kynferðisleg áreitni, jafnrétti kynjanna í menntakerfinu og jafnrétti í starfsmannamálum. Nefndin óskar eftir því að fá upplýsingar um árangur af framkvæmd þessarar áætlunar.
    Í skýrslunni er einnig að finna ítarlegar upplýsingar um norræna verkefnið Nord-Lilia um jafnrétti kynjanna í menntakerfinu. Markmið verkefnisins voru að örva til þróunar inntaks og aðferðafræða í kennaramenntun á Norðurlöndum og stuðla að þróun norræns samstarfsnets í því skyni að koma til hjálpar við skipti á reynslusögum og dreifingu hugmynda á þessu sviði. Nefndin veitir því athygli að verkefni þetta hefur haft mikil áhrif á starfið á Íslandi og hún spyr hvaða sértækar ráðstafanir hafi verið gerðar til þess að fylgja verkefninu eftir.
    Nefnd sérfræðinganna viðurkennir að stjórnarskrárbreytingin, sem getið var hér að framan, skýrir lagaákvæði um aðrar tegundir mismununar en minnist þess jafnframt að í fyrri niðurstöðum sínum óskaði hún eftir upplýsingum um hvaða ráðstafanir hefðu verið gerðar í reynd í því skyni að hvetja til jafnréttis til starfa án mismununar á grundvelli kynþáttar, þjóðernis eða félagslegs uppruna og stjórnmálaskoðana. Þar eð nefndinni hafa ekki borist sérstakar upplýsingar varðandi þetta endurtekur hún beiðni sína.
    Varðandi vernd fyrir mismunun á grundvelli aðildar að stéttarfélagi vísar nefndin til niðurstöðu sinnar í 5. gr.
    Fram kemur að nefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu að Ísland fullnægi ákvæðum samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um misrétti með tilliti til atvinnu eða starfs.

2.     Bann við nauðungarvinnu.
    Nefndin hefur ekki fundið neinar upplýsingar í skýrslunni um bann við nauðungarvinnu og óskar því eftir staðfestingu á því að ekki hafi orðið neinar breytingar sem geta skal um í skýrslunni. Hvað sem því viðvíkur ítrekar nefndin jákvæða niðurstöðu sína.
    
3. mgr., um ókeypis vinnumiðlun fyrir allt verkafólk.
    * Fram kemur hjá sérfræðinganefndinni að í skýrslu Íslands komi fram að engar breytingar hafi orðið á viðmiðunartímabilinu. Hins vegar voru gerðar róttækar breytingar með lögum nr. 13/1997, um ráðstafanir á vinnumarkaði, sem samþykkt voru 13. mars 1997 (utan viðmiðunartímabilsins).
    Nefndin minnist þess að hún hefur hvað eftir annað óskað eftir hagtölum um vinnumiðlun opinberra og einkarekinna vinnumiðlunarskrifstofa og þar eð henni hafa ekki enn borist slík gögn frestaði hún að skýra frá niðurstöðu sinni í fyrri eftirlitslotu (Niðurstöður XIII-3, bls. 83). Fulltrúi Íslands í nefnd fulltrúa ríkisstjórna aðildarríkjanna sagði að erfitt væri að fá umbeðnar upplýsingar vegna þess að vinnumiðlunarþjónusta væri rekin á vegum sveitarfélaganna. 3
    Þrátt fyrir það vonast nefndin til þess að framkvæmd hinna nýju laga um ráðstafanir á vinnumarkaði geri ríkisstjórn Íslands kleift að fá aðgang að nauðsynlegum upplýsingum í framtíðinni.
    Af þessum sökum ákvað nefndin enn á ný að fresta birtingu niðurstöðu sinnar.

5. gr.

    Greinin fjallar um réttinn til að stofna félög.
    * Nefndin kveðst gefa gaum að upplýsingum í skýrslu Íslands. Orðrétt segir í skýrslu sérfræðinga Evrópuráðsins:

„Stofnun stéttarfélaga.

    Ástandið hefur alltaf verið talið viðunandi hvað varðar hina ýmsu þætti við stofnun stéttarfélaga, svo sem rétt stéttarfélaga til að velja sér félaga og fulltrúa, skipuleggja stjórn sína og starfsemi og rétt þeirra til að tengjast stofnunum á landsvísu eða alþjóðavettvangi.

Réttur til að ganga í eða ganga ekki í stéttarfélag.

    Ástandið hefur alltaf talist viðunandi hvað varðar rétt til að ganga í stéttarfélög, sem er tryggður í Stjórnarskrá Íslands (74. gr., sjá hér á eftir) og lögum nr. 80/1938 (1. kafla), um stéttarfélög og vinnudeilur. Hins vegar óskar nefndin eftir því að fá í hendur nýjar upplýsingar, einkum um ástandið í reynd, í næstu skýrslu um 5. gr.
    Varðandi rétt til að standa utan stéttarfélags er skýrt frá því í skýrslunni að með lögum nr. 97/1995 hafi verið gerðar breytingar á stjórnarskrá Íslands frá 1944, en helstu breytingarnar fjölluðu um mannréttindamál, m.a. hinn neikvæða rétt til að stofna félög, sem er nú tryggður með ákvæðum 74. gr. stjórnarskrárinnar (nr. 33/1944) skv. breytingu í 12. gr. framangreindra laga.
    Viðkomandi hlutar hinnar nýju 74. 4 gr. hljóða sem hér segir:
    „Rétt eiga menn á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds. Banna má þó um sinn starfsemi félags sem er talið hafa ólöglegan tilgang, en höfða verður þá án ástæðulausrar tafar mál gegn því til að fá því slitið með dómi.
    Engan má skylda til aðildar að félagi. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.“
    Í skýrslu Íslands segir að bent hafi verið á í greinargerð með breytingum á stjórnarskránni að „engin ákvæði eru þess efnis að aðeins megi ráða til starfa félaga í stéttarfélagi, en slík ákvæði er að finna í miklum meiri hluta kjarasamninga milli stéttarfélaga og atvinnurekenda eða um lög eða reglur um kjarasamninga um greiðslu stéttarfélagsgjalda og önnur ákvæði um slíkt.“ Samkvæmt skýrslunni lætur þingnefndin þess getið um stjórnarskrárbreytinguna við framlagningu frumvarpsins að staða þessara ákvæða „kunni að vera óljós“.
    Í skýrslu Íslands segir enn fremur að samkvæmt orðanna hljóðan í fyrstu setningu 2. mgr. stjórnarskrárinnar sé ekki heimilt með lögum eða stjórnvaldsákvörðun að skylda neinn til að ganga í félag. Þar af leiðandi gildir þetta ákvæði ekki um skuldbindingar á grundvelli frjálsra samninga, þ.m.t. kjarasamninga. Varðandi stéttarfélög og aðild að þeim segir í skýrslu Íslands: „Tekið er fram að samkvæmt gildandi lögum er launafólki ekki skylt að ganga í stéttarfélag. Gert er ráð fyrir því í lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, að launafólk geti staðið utan stéttarfélaga.“ Nefndin gengur út frá því að í skýrslu Íslands sé hér vikið aftur að undirbúningsvinnu ( travaux preparatoires ). Nefndin gefur gaum að því að í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur eru ekki ákvæði um rétt til að ganga ekki í stéttarfélag, en í þeim er a.m.k. tvisvar getið um starfsmenn utan stéttarfélaga (3. og 7. gr.).
    Í lokaorðum skýrslu Íslands segir að í 2. mgr. hins nýja ákvæðis stjórnarskrárinnar sé ekki fjallað um aðstæður sem eiga við um stéttarfélög og í henni felist því ekki nein breyting á reglum um aðild að stéttarfélögum. Í henni segir að ákvæði um bann við ráðningu fólks utan stéttarfélaga í kjarasamningum, þar sem segir að félagar viðkomandi stéttarfélags skuli njóta forgangs til vinnu á félagssvæði þess, feli ekki í sér skyldu til að ganga í félag af þeirri tegund sem vikið er að í fyrstu setningu 2. mgr.
    Á grundvelli þeirra upplýsinga sem er að finna í skýrslunni sýnist nefndinni að þær breytingar sem gerðar hafa verið á stjórnarskrá Íslands feli ekki í sér vernd hins neikvæða félagafrelsis að nægilegu marki til að komast hjá þeirri skyldu að ganga í stéttarfélag sem byggist á ákvæðum í almennum kjarasamningum þess efnis að aðeins félagar í stéttarfélagi skuli ráðnir til starfa eða gangi fyrir um störf. Nefndin minnist þess að „frelsi til að ganga í stéttarfélög, sem tryggt er með ákvæðum 5. gr. sáttmálans, hlýtur að fela í sér að ekki sé fyrir hendi neins konar skylda til að ganga í eða vera félagi í stéttarfélagi“. Eins og nefndin hefur vakið athygli á við ýmis tækifæri eru ákvæði í 5. gr. þar sem mælt er fyrir um vernd slíks frelsis í landslögum, annaðhvort með lagasetningu eða fordæmisrétti (Niðurstöður XI-1, bls. 72).
    Enn fremur segir nefndin að hin neikvæða hlið réttar til að stofna félag, sem sett var í stjórnarskrána, er takmörkuð að því marki að hún veitir löggjafanum möguleika til að gera undantekningar. Nefndin bendir á að í sáttmálanum er ekki að finna ákvæði sem heimila takmörkun réttar til að stofna félög nema þau falli innan takmarka 31. gr., en spyr þó við hvaða aðstæður eftirfarandi setning eigi við: „ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra“.
    Hvað varðar aðstæður í raun segir í skýrslunni að ákvæði þess efnis að aðeins skuli ráða til starfa félaga í stéttarfélagi hafið verið að finna í sumum almennum kjarasamningum sem gerðir voru á viðmiðunartímabilinu. Skýrslan bendir einnig til þess að síðan stjórnarskrárbreytingin var gerð hafi almenn ákvæði um forgang komið í stað ákvæða þess efnis aðeins sé heimilt að ráða til starfa félaga í stéttarfélagi í flestum almennum kjarasamningum. Nefndin telur að ákvæði þess efnis að aðeins megi ráða til starfa félaga í stéttarfélagi eða að þeir skuli njóta forgangs séu í grundvallaratriðum brot á sáttmálanum.
    Nefndin óskar eftir því að í næstu skýrslu sé að finna ítarlegar upplýsingar um tilvist ákvæða í almennum kjarasamningum þess efnis að aðeins sé heimilt að ráða til starfa félaga í stéttarfélögum eða að þeir skuli njóta forgangs, þ.e. hve margir almennir kjarasamningar sem innihalda slík ákvæði séu enn við lýði eftir gerð nýrra [kjara]samninga 1997, til hve margra starfsmanna þeir nái og hvaða atvinnugreinar komi þar helst við sögu. Nefndin óskar einnig eftir því að fá ítarlegar upplýsingar um hvað nákvæmlega segir í þessum ákvæðum.

Starfsemi stéttarfélaga.
    Um ástand mála varðandi gerð almennra kjarasamninga vísar nefndin til niðurstaðna sinna í 1. mgr. 6. gr.
    Nefndin óskar eftir því að fá upplýsingar í næstu skýrslu um aðgang fulltrúa stéttarfélaga að vinnustöðum og um fundafrelsi (spurning B á skýrslueyðublaði).
    Nefndin minnist þess að í lögum nr. 80/1980, um stéttarfélög og vinnudeilur, er að finna ákvæði sem ætlað er að vernda starfsmenn og fulltrúa þeirra fyrir uppsögn og öðrum hefndarráðstöfunum sökum aðildar að stéttarfélagi eða starfsemi þess (4. og 11. gr.).

Einstaklingsréttur (Scope ratione personae).
    Ástandið hefur alltaf verið talið viðunandi að þessu leyti. Hins vegar óskar nefndin eftir því að fá í hendur nýjar upplýsingar um rétt opinberra starfsmanna og lögreglumanna til að stofna félög, svo og um framkvæmd ákvæða 5. gr. hvað varðar þegna annarra aðildarríkja.

Niðurstaða.

    Nefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu að ástand mála hvað varðar lög og framkvæmd á Íslandi varðandi hið neikvæða félagafrelsi samrýmist ekki ákvæðum 5. gr. sáttmálans.
    Nefndin óskar eftir því að í næstu skýrslu verði veitt svar við almennri spurningu hennar um rétt til að koma fram fyrir hönd annars (representativity) sem beint hefur verið til allra aðildarríkja (bls. 43–45).“

6. gr.

    1. mgr., um að stuðla að samráði starfsmanna og atvinnurekanda.
    * Umsögn nefndar óháðra sérfræðinga Evrópuráðsins um framkvæmd þessa ákvæðis er eftirfarandi: „Nefndin er þeirrar skoðunar að upplýsingar í skýrslu Íslands í þessu ákvæði eigi helst við um 2., 3. og 4. mgr. 6. gr. Nefndin staðfestir fyrri jákvæða niðurstöðu sína, en óskar um leið eftir nýjum upplýsingum í næstu skýrslu um samráð í einkageiranum á landsvísu og innan einstakra fyrirtækja, svo og í opinbera geiranum.“
     2. mgr., um að stuðlað sé að frjálsum samningaumleitunum milli vinnuveitenda og verkalýðsfélaga til að ákvarða laun og vinnuskilyrði með heildarsamningum.
    * Um framkvæmd þessa ákvæðis segir svo: „Nefndin veitir því athygli í skýrslu Íslands að með lögum nr. 75/1996 voru gerðar breytingar á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur að fengnum tillögum vinnuhóps með aðild fulltrúa ríkisvalds og samtaka atvinnurekenda og launafólks. Í 5. gr. laganna er m.a. að finna eftirtaldar breytingar:
          Umboð samninganefnda er útskýrt. Samninganefnd eða fulltrúi, sem kemur fram fyrir hönd aðila við gerð almenns kjarasamnings, skal hafa til að bera hæfni til að semja tillögur að samningi, taka þátt í samningaviðræðum og undirrita samninga fyrir hönd stéttarfélagsins eða sambandsins sem í hlut á. Samninganefndinni er heimilt að veita sameiginlegri samninganefnd margra stéttarfélaga eða sambanda umboð til samningsgerðar. Henni er einnig heimilt að krefjast sameiginlegrar atkvæðagreiðslu félaga í hlutaðeigandi stéttarfélögum samkvæmt ákvörðun sinni á hverjum tíma eða því sem um kann að hafa verið samið í almennum kjarasamningum.
          Í hinum nýju lögum er útskýrt hvenær almennir kjarasamningar öðlast gildi. Þegar þar til skipaðir fulltrúar aðila hafa undirritað samning um kaup og kjör er meginreglan sú að hann öðlist gildi frá undirritun, nema honum sé hafnað með meiri hluta greiddra atkvæða í leynilegri atkvæðagreiðslu með þátttöku a.m.k. 20% þeirra sem eru á kjörskrá eða félagaskrá innan fjögurra vikna frá undirritun. Ef fram fer leynileg póstatkvæðagreiðsla meðal félaga um samning telst niðurstaða hennar gild hver sem þátttakan er.
          Með lögunum hafa verið staðfestar reglur um tilhögun uppkasta að almennum kjarasamningum milli margra stéttarfélaga hjá sama fyrirtæki. Í slíkum tilvikum er nauðsynlegt að fram fari sameiginleg atkvæðagreiðsla. Ef samningur nær aðeins til nokkurs hluta félaga í stéttarfélagi eða starfsmanna fyrirtækis er heimilt að hafa ákvæði í honum þess efnis að aðeins þeir hafi atkvæðisrétt.
    Í skýrslunni er vakin athygli á því að verkalýðshreyfingin var ekki sátt við efni frumvarpsins um framangreindar breytingar. Svo virðist sem ákvæðin um umboð samninganefnda og leynilega atkvæðagreiðslu um almenna kjarasamninga og vinnustöðvun hafi verið gagnrýnd sérstaklega sem afskipti af innri málefnum hreyfingarinnar. Í skýrslunni er lögð áhersla á það í þessu sambandi að framangreindar reglur eigi ekki aðeins við um samtök launafólks, heldur einnig um samtök atvinnurekenda, og að báðum aðilum hefur reynst nauðsynlegt að breyta lögum sínum til þess að aðlagast þessum breytingum. Tilgangurinn með breytingunum var að koma á jafnræði milli samtaka aðila vinnumarkaðarins. Áður en nefndin kemst að niðurstöðu um það hvort hin breyttu lög koma heim og saman við 2. mgr. 6. gr. sáttmálans óskar hún eftir því að fá í næstu skýrslu upplýsingar um hvernig framkvæmdin var í raun við gerð almennra kjarasamninga 1997.
    Í fyrri niðurstöðu nefndarinnar áréttaði hún beiðni sína í Niðurstöðum XIII-1 (bls. 145) um staðfestingu á því að bráðabirgðalögin hefðu verið felld úr gildi í samræmi við skýlaus ákvæði kjarasamnings milli ríkisstjórnarinnar og Bandalags háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna (BHMR). Í skýrslunni kemur fram að bráðabirgðalögin, nr. 89/1990, sem síðar voru samþykkt sem lög nr. 4/1991, um launagreiðslur, hafi fallið úr gildi 26. febrúar 1993 þegar fjarmálaráðuneytið gerði samning við öll stéttarfélög innan BHMR um framlengingu kjarasamninganna.
    Nefndin hefur óskað eftir ítarlegum upplýsingum um úrskurð sem gerðardómur skipaður af Hæstarétti Íslands (skv. 2. gr. laga nr. 15/1993) kvað upp 9. ágúst 1993 þar eð enginn samningur um kaup og vinnuskilyrði skipverja á Herjólfi var gerður fyrir 1. júní 1993. Til að bregðast við því bætti ríkisstjórnin við skýrslu sína niðurstöðu nefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um félagafrelsi um kvörtun sem Alþýðusamband Íslands (ASÍ) lagði fram um þetta mál (mál nr. 1768). 5
    Nefndin gefur gaum að því að málið snýst um samþykkt laga á Alþingi þar sem lagt var bann við verkfalli og verkbanni á ferjunni Herjólfi og hafði að geyma ákvæði um stofnun sérstaks gerðardóms til að ákveða laun skipverja. Nefndin gefur einnig gaum að því að verkfall var boðað 3. febrúar 1993 og að lögin voru samþykkt sjö vikum síðar, 23. mars 1993. Á meðan á verkfallinu stóð lá ferjan bundin við bryggju. Stjórn Herjólfs hf. gerði sérstakan samning við sérhvert hinna fimm mismunandi stéttarfélaga skipverja. Í þessu tilviki voru félagar í Stýrimannafélagi Íslands í verkfalli þar eð þeir kröfðust þess að laun þeirra yrðu hækkuð í tilteknu hlutfalli við laun bátsmanns (félaga í Sjómannafélaginu Jötni). Nefndin gefur gaum að því að gerðardómurinn, sem skipaður var með framangreindum lögum, skyldi ákveða kaup og kjör allrar áhafnarinnar ef deiluaðilar hefðu ekki samið fyrir 1. júní 1993. Þar eð samningur hafði ekki verið gerður kvað gerðardómurinn upp úrskurð sinn 9. ágúst 1993 þess efnis að laun félaga í Sjómannafélaginu Jötni skyldu lækkuð um 10%.
    Nefndin tekur undir þá skoðun nefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um félagafrelsi að lög nr. 15/1993 stangist á við meginregluna um sjálfstæði aðila að almennum kjarasamningum þar eð þau snertu stéttarfélag sem átti ekki beina aðild að vinnudeilunni. Nefndin telur að hinn gagnrýndi kjarasamningur hafi brotið í bága við 2. mgr. 6. gr. og hefði talist grundvöllur neikvæðrar niðurstöðu varðandi það viðmiðunartímabil sem hér um ræðir. Nefndin fer þess á leit við ríkisstjórnina að hún forðist að samþykkja slík lög á ný og óskar eftir að fá nákvæmar og ítarlegar upplýsingar í skýrslum í framtíðinni um hvers konar sambærilega löggjöf sem kann að verða sett á hverju viðkomandi viðmiðunartímabili.
    Hvað viðkemur því málefni sem nefnt var í þessu sambandi varðandi hæfni gerðardómsins vísar nefndin til niðurstöðu sinnar í 3. mgr. 6. gr. og hvað varðar það mál hvort verkfallsréttur hafi verið brotinn vísar nefndin til niðurstöðu sinna í 4. mgr. 6. gr.
    Að því tilskildu að nefndin fái í hendur þær upplýsingar sem hún hefur óskað eftir um breytingar á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur kemst hún að jákvæðri niðurstöðu varðandi viðmiðunartímabilið 1994–96.“
     3. mgr., um skipulag sáttafyrirkomulags og gerðardóma eftir samkomulagi við lausn vinnudeilna.
    Í niðurstöðum sérfræðinganefndarinnar um framkvæmd á þessu ákvæði segir svo: „Hvað varðar Ísland lítur nefndin svo á að með lögum nr. 75/1996, sem fólu í sér breytingar á lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, sé m.a. gert ráð fyrir því að sáttasemjari ríkisins grípi fyrr inn í málin. Hvenær sem er, eftir að viðræðuáætlun hefur verið gefin út, er aðilum heimilt að óska eftir milligöngu eða aðstoð sáttasemjara sem þá ber án tafar að leitast við að tryggja að tilraunir til samningsgerðar haldi áfram samkvæmt viðræðuáætluninni. Aðilum ber að veita sáttasemjara tækifæri til að fylgjast með vinnudeilum og tilraunum til samninga þegar hann óskar þess (24. gr.).
    Enn fremur eru í lögunum nánari ákvæði um skilyrðin fyrir því að sáttasemjara sé unnt að leggja fram miðlunartillögur (28. gr.). 6
    Nefndin hefur veitt því athygli að sum ákvæði laganna eiga einnig við um opinbera starfsmenn sem lögin ná til varðandi samninga um kaup og kjör opinberra starfsmanna. Nefndin óskar því eftir að fá í næstu skýrslu nýjar upplýsingar um sáttastörf í kjaradeilum opinberra starfsmanna.
    Nefndin gefur gaum að niðurstöðu nefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um félagafrelsi í deilumáli (máli nr. 1768) 7 varðandi setningu laga á Alþingi (laga nr. 15 frá 23. mars 1993) sem kváðu á um bann við verkfalli og verkbanni á ferjunni Herjólfi og skipun sérstaks gerðardóms til að ákveða laun skipverja ef aðilar hefðu ekki náð samningi fyrir 1. júní 1993. Samkvæmt úrskurðinum veittu ákvæði í 3. gr. laganna gerðardóminum engan sveigjanleika í túlkun við störf sín þar eð þau kváðu á um að „við ákvörðun kaups og kjara samkvæmt lögum þessum [skyldi] hafa til hliðsjónar gildandi kjarasamninga á kaupskipum og almenna launaþróun í landinu“.
    Nefndin er þeirrar skoðunar að beiting gerðardóms án samþykkis aðila fái ekki staðist samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 6. gr. sáttmálans, nema aðgerðin takmarkist við þau mál sem tilgreind eru í 31. gr. Eins og nefndin segir í niðurstöðu sinni skv. 4. mgr. 6. gr. er ekki unnt að telja að sú hafi verið raunin við umræddar aðstæður.
    Enn fremur er nefndin sammála nefnd Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um félagafrelsi um að gerðardómskerfið skuli njóta sjálfstæðis og að efnisleg niðurstaða gerðardóms skuli ekki ákveðin fyrir fram með lögum.
    Þar af leiðandi telur nefndin að beiting lögbundins gerðardóms við þær aðstæður sem um ræðir sé brot á þeim rétti sem tryggður er í 4. mgr. 6. gr. Hún vekur hins vegar athygli á því að atvik þetta varð á fyrra viðmiðunartímabili (1992–93). Nefndin kemst því að þeirri niðurstöðu að Ísland hafi fullnægt þessi ákvæði sáttmálans á viðmiðunartímabilinu 1994–96 en vekur athygli á beiðni sinni skv. 4. mgr. 6. gr. um nákvæmar og ítarlegar upplýsingar um hvers konar sambærileg mál í framtíðinni í skýrslum um viðeigandi viðmiðunartímabil.“
     4. mgr., um rétt verkafólks og vinnuveitenda á sameiginlegum aðgerðum þegar hagsmunaárekstrar verða.
    * Umsögn nefndarinnar um framkvæmd þessa ákvæðis er eftirfarandi: „Nefndin gefur gaum að upplýsingum í skýrslu Íslands.

Sameiginlegar aðgerðir.
    Í lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, eru sérstök ákvæði þess efnis að stéttarfélögum, samtökum atvinnurekenda og sjálfstæðum atvinnurekendum sé heimilt að lýsa yfir verkföllum og verkbönnum í því skyni að stuðla að framgangi krafna sinna í vinnudeilum og til að vernda rétt sinn samkvæmt lögunum samkvæmt þeim skilyrðum og takmörkunum sem þar eru tilgreindar (14. gr.). Nefndin gefur gaum að því í skýrslunni að í lögum nr. 75/1996, um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, er að finna skilgreiningu á hugtakinu „vinnustöðvun“ (19. gr.) sem á við um verkbönn atvinnurekenda og verkföll þar sem starfsmenn leggja niður venjubundin störf sín að nokkru eða öllu leyti í því skyni að ná tilteknu markmiði. Hugtakið á einnig við um sambærilegar aðgerðir atvinnurekenda eða starfsmanna sem líkja má við vinnustöðvun.
    Samkvæmt skýrslunni verður að fullnægja tveimur skilyrðum til þess að af verkfalli geti orðið: Starfsmenn verða að hafa lagt niður venjubundin störf sín að öllu eða nokkru leyti í því skyni að ná tilteknu sameiginlegu markmiði.

Takmarkanir á verkfallsrétti
.
    Varðandi skilyrði fyrir beitingu verkfallsréttar telur nefndin að samkvæmt breyttum lögum um stéttarfélög og vinnudeilur (15. gr.) geti samtök atvinnurekenda eða stéttarfélag, sem hyggst hefja vinnustöðvun, því aðeins gert það ef slíkt hefur verið ákveðið í almennri og leynilegri atkvæðagreiðslu með þátttöku a.m.k. 20% félaga með atkvæðisrétt samkvæmt kjörskrá eða félagaskrá og að því tilskildu að tillagan njóti stuðnings meiri hluta greiddra atkvæða. Að öðrum kosti, ef fram fer leynileg póstatkvæðagreiðsla meðal félaga um samning, telst niðurstaða hennar gild hver sem þátttakan er.
    Ef ætlunin er að vinnustöðvun nái aðeins til tiltekins hóps félaga í stéttarfélagi eða starfsmanna á tilteknum vinnustað er heimilt að takmarka atkvæðisrétt við þá sem vinnustöðvunin nær til. Í slíkum tilvikum verða 20% atkvæðisbærra starfsmanna að taka þátt í atkvæðisgreiðslunni og meiri hluti þeirra verður að styðja tillöguna um vinnustöðvun.
    Til þess að ákvörðun um boðun vinnustöðvunar sé lögleg verða viðræður eða tilraun til viðræðna að hafa reynst árangurslausar þrátt fyrir tilraunir sáttasemjara.
    Ákvörðun um sameiginlegar aðgerðir í því skyni að knýja fram breytingu á eða ákvörðun um kaup og kjör skal tilkynnt sáttasemjara og þeim sem slík aðgerð beinist einkum gegn sjö sólarhringum áður en ætlunin er að hún hefjist.
    Hvað varðar takmarkanir samkvæmt almennum kjarasamningum eða aðrar takmarkanir gefur nefndin gaum að því, m.a. í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, að verkföll eru ekki heimil í deilum varðandi málefni sem falla innan verksviðs Félagsdóms (17. gr.). Félagsdómur hefur það verksvið að fjalla um ágreiningsmál um meint brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur eða tjón sem orðið hefur af völdum ólöglegrar vinnustöðvunar, svo og að fjalla um ágreining um brot á „verksamningum“ eða túlkun þeirra eða gildi. Enn fremur getur Félagsdómur fjallað um ágreining atvinnurekenda og launafólks ef aðilar eru sammála um að skjóta slíkum málum til hans (44. gr.).
    Nefndin telur að framangreindar undantekningar frá verkfallsrétti teljist ekki brot á ákvæðum 4. mgr. 6. gr.
    Hvað varðar einkageirann gefur nefndin gaum að því í skýrslunni að allar aðgerðir sem fullnægja þeim skilyrðum sem tilgreind eru í 19. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeildur teljast verkföll, hvort sem stéttarfélag á þar hlut að máli eða ekki. Nefndin óskar eftir staðfestingu í næstu skýrslu á því að upptalningin í 14. gr. laganna (sjá hér að framan) útiloki ekki að hópur starfsmanna geti gert verkfall án stuðnings stéttarfélags.
    Nefndin minnist þess að niðurstaðan hefur fram til þessa verið neikvæð þar eð verkfallsréttur opinberra starfsmanna er takmarkaður samkvæmt lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, við aðstæður þar sem verkfalli er ætlað að ná fram almennum kjarasamningi.
    Samkvæmt skýrslunni er ástandið óbreytt, en flest ákvæði um opinbera starfsmenn hafa nú verið tekin til gagngerrar endurskoðunar og skipaði fjármálaráðherra nefnd í því skyni í ágúst 1995. Nefndin vonast til að endurskoðunin leiði til þess að ástandinu verði komið í það horf að það uppfylli skilyrði sáttmálans hvað þetta varðar.

Riftun starfssamnings.
    Nefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu áður að ástandið hafi fullnægt ákvæði sáttmálans um rétt launafólks til verndar fyrir uppsögn sökum þátttöku í löglegu verkfalli (Niðurstöður X-1, bls. 75). Nefndin minnist þess að í 4. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur eru ákvæði sem banna atvinnurekendum eða fulltrúum þeirra að reyna að hafa áhrif á starfsmenn í sambandi við vinnudeilur með því að senda þeim uppsagnarbréf eða hóta að senda þeim slíkt bréf eða með peningagreiðslum, loforðum um ávinning eða með því að neita að afhenda slíkar greiðslur.

Frádráttur frá launum starfsmanna í verkfalli.
    Nefndin ítrekar beiðni sína um svar við almennri spurningu sem borin var fram í Niðurstöðu XIII-1 (bls. 153) um frádrætti frá launum í verkfalli.

Afskipti ríkisstjórnarinnar í því skyni að stöðva verkfall með lagasetningu
eða lögbundnum gerðardómi.

    Nefndin minnist þess að hún hefur áður gagnrýnt Ísland vegna lagasetningar til að stöðva verkföll (Niðurstöður XII, bls. 128). Nefndin vísar til banns við verkfalli stýrimanna á ferjunni Herjólfi með setningu laga nr. 15/1993 sem getið er í niðurstöðu í 2. mgr. 6. gr. Nefndin hefur gefur gaum að því í niðurstöðu nefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um félagafrelsi (mál nr. 1768) að ríkisstjórnin skírskotaði í raun til efnahagslegra ástæðna við að stöðva verkfallið og skylda aðila til að sæta gerðardómi ef þeir hefðu ekki náð samningi innan tiltekins tíma. Nefndin minnir ríkisstjórn Íslands á að beiting lögbundins gerðardóms til að stöðva verkfall brýtur í bága við ákvæði sáttmálans nema fullnægt sé skilyrðum í 31. gr. sem ekki var um að ræða í þessu tiltekna máli. Þar af leiðandi braut bann við verkfallinu í bága við ákvæði 4. mgr. 6. gr., enda þótt það hafi gerst utan viðmiðunartímabilsins.
    Nefndin vonast til þess að ríkisstjórn Íslands forðist að framkvæma slíkar aðgerðir í framtíðinni en óskar eftir að fá nákvæmar og ítarlegar upplýsingar í skýrslunni um viðeigandi viðmiðunartímabil ef slíkt kemur fyrir. Nefndin leggur áherslu á að stjórnvöld verða að sýna fram á að skilyrðum 31. gr. sé fullnægt í hverju tilviki og áskilur sér rétt til að sannreyna hvort skilyrðum 31. gr. hafi verið fullnægt (Niðurstöður XI-1, bls. 89).

Niðurstaða.
    Það er niðurstaða nefndarinnar að ástandið á Íslandi samræmist ekki þessu ákvæði sáttmálans þar eð réttur opinberra starfsmanna til að boða verkfall takmarkast enn við aðstæður þar sem verkfall miðast við gerð almenns kjarasamnings.“

12. gr.

    1. mgr., um að almannatryggingum sé komið á eða þeim viðhaldið.
    * Nefndin gefur gaum að því að Ísland hefur almannatryggingakerfi og samkvæmt því endurnýjar hún jákvæða niðurstöðu sína.
    Nefndin óskar þess að næstu skýrslu fylgi eintak, á einu af hinum opinberu tungumálum Evrópuráðsins, af síðustu lagasetningu um almannatryggingar á Íslandi (lög nr. 117/1993), svo og nýjasta útgáfa annarra texta sem gilda um þá þætti almannatrygginga sem lögin ná ekki til.
     2. mgr., um eflingu almannatrygginga þannig að þær jafnist á við það sem krafist er til fullgildingar alþjóðavinnumálasamþykkt nr. 102, um lágmark félagslegs öryggis.
    * Nefndin gefur gaum að því að Ísland fullnægir enn þessu ákvæði og endurnýjar því jákvæða niðurstöðu sína.
     3. mgr., um markvissa eflingu almannatrygginga.
    „Þar eð nefndinni hafa ekki borist neinar upplýsingar þess efnis að ástandið á Íslandi hafi breyst á viðmiðunartímabilinu endurnýjar hún jákvæða niðurstöðu sína.
    Nefndin harmar það hins vegar að í skýrslunni er ekki að finna nýjar upplýsingar sem hún þarfnast til að meta ástandið varðandi ákvæði 3. mgr. 12. gr. Í næstu skýrslu ættu því að koma fram athugasemdir um breytingar á almannatryggingakerfinu, einkum hvað varðar þann hundraðshluta þjóðarinnar sem kerfið nær til og hve háar bæturnar eru.
    Nefndin hefur aðrar heimildir um það en skýrsluna 8 að á árinu 1997, þ.e. utan viðmiðunartímabilsins, hafi orðið verulegar breytingar á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna og atvinnuleysisbótakerfinu og óskar því eftir að í næstu skýrslu verði útskýrt í hverju þessar breytingar voru fólgnar með tilvísan — ef það á við — til spurninga sem spurt var í almennum athugasemdum um 3. mgr. 12. gr. í Niðurstöðum XIII-4 (bls. 143).“
     4. mgr., um gerð gagnkvæmra eða fjölþjóðlegra samninga um tryggingabætur og aðgerðir til að koma í veg fyrir missi þeirra.
    * Nefndin minnir ríkisstjórn Íslands á að ákvæði 4. mgr. 12. gr. sáttmálans skylda aðildarríkin til að:
          tryggja jafnan rétt varðandi almannatryggingar, þ.e. að takmarka ekki almannatryggingabætur við eigin þegna eða þegna tiltekinna aðildarríkja og — þótt sá möguleiki sé fyrir hendi að krefjast búsetu vegna iðgjaldafrírra bóta (viðauki við 4. mgr. 12. gr.) — að setja ekki aðeins þegnum annarra aðildarríkja nokkur viðbótarskilyrði eða skilyrði sem mundu samkvæmt eðli málsins gera þessum hópi erfiðara um vik að fullnægja;
          tryggja þegnum annarra aðildarríkja þau réttindi sem þeir hafa áunnið sér samkvæmt almannatryggingalögum í sínu eigin landi, einkum hvað varðar langtímabætur, burtséð frá því hvar þeir dveljast í aðildarríkjunum (samlagning bótaréttar);
          við veitingu og útreikning bóta, þar sem þess gerist þörf, að taka tillit til vátryggingartímabila og/eða vinnutímabila sem þegnar annarra aðildarríkja hafa lokið innan lögsagnarumdæmis annarra aðildarríkja með því að safna saman slíkum tímabilum (almennur inngangur að Niðurstöðum XIII, bls. 46 og áfram).
    Nefndin gefur gaum að því að þessum kröfum er fullnægt hvað varðar þegna annarra aðildarríkja sem eiga aðild að Evrópusambandinu (ESB) og samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) sem reglugerð Efnahagsbandalagsins nr. 1408/71 nær til.
    Hvað viðkemur þegnum annarra ríkja sem eiga aðild að sáttmálanum minnist nefndin þess að Ísland tengist Kýpur og Tyrklandi með evrópsku bráðabirgðasamkomulagi um almannatryggingar, en enginn samningur um almannatryggingar er í gildi sem tengir Ísland við Möltu. Nefndin gefur gaum að því að löggjöf Íslands tryggir ekki, eða virðist ekki tryggja, að kröfum í 4. mgr. 12. gr. sé fullnægt varðandi þegna þessara þriggja ríkja;
          réttur til barnabóta fyrir öll börn undir sextán ára aldri (69. kafli laga nr. 75/1981, um tekjuskatt) er háður því skilyrði að börnin búi á Íslandi burtséð frá því hvert ríkisfang þeirra er;
          réttur til barnalífeyris, sem greiddur eru börnum undir átján ára aldri ef annað foreldri þeirra er látið eða nýtur örorkubóta (14. gr. almannatryggingalaga), er háður því, hvert sem ríkisfangið er, að barnið eða foreldrið búi á Íslandi og hafi verið búsett á Íslandi í þrjú ár áður en sótt er um bætur; nefndinni virðist því að bætur séu greiddar ef umsækjandi fullnægir þeim skilyrðum að búa á Íslandi og hafa búið þar í tiltekinn tíma, en nefndin óskar þess að fá þennan skilning sinn staðfestan í næstu skýrslu;
          vegna þess að samningur við Möltu er ekki fyrir hendi geta þegnar Möltu hvorki varðveitt þau réttindi sem þeir ávinna sér samkvæmt íslenskum lögum né varðveitt áunnin réttindi, t.d. með þeim hætti að safna saman loknum tímabilum innan lögsagnarumdæmis annarra aðildarríkja.
    Nefndin minnist þess að í 4. mgr. 12. gr. er ekki krafist gagnkvæmni, en skyldar aðildarríkin til að tryggja beitingu framangreindra meginreglna með samningi eða hvers konar öðrum hætti.
    Hvað sem því líður gerir nefndin sér grein fyrir því að mjög fáir einstaklingar 9 eiga hér hlut að máli og að engir verulegir fólksflutningar eiga sér stað milli þessara ríkja og Íslands. Hún er því þeirrar skoðunar að Ísland ætti að eiga auðvelt með að fullnægja ákvæðum 4. mgr. 12. gr.:
          annaðhvort með því að setja í lög eða almennar reglugerðir ákvæði þess efnis að varðandi öll svæði sem 4. mgr. 12. gr. nær til skuli þegnar allra ríkja sem eiga aðild að sáttmálanum njóta sömu fyrirgreiðslu og íslenskir þegnar og þegnar Evrópusambandsríkja eða ríkja sem eiga aðild að samningnum um Evrópskt efnahagssvæði;
          eða með því að skuldbinda sig til að afgreiða sérhvert mál sem nú er á döfinni eða verður það í framtíðinni í samræmi við kröfur í 4. mgr. 12. gr. með einhliða ráðstöfunum innan lands og með því að tilkynna það hlutaðeigandi mönnum.
    Nefndin frestar því að birta niðurstöðu sína þangað til íslensk stjórnvöld hafa valið hvaða leið skuli farin og heitið því að farið skuli að ákvæðum 4. mgr. 12. gr. í þeim fáu tilvikum sem upp kunna að koma.

13. gr.

    1. mgr., um að sérhverjum manni sem hefur ónóg fjárráð og getur ekki aflað þeirra af eigin rammleik verði veitt næg aðstoð.
    * Hvað varðar félagslega aðstoð gefur nefndin gaum að því í skýrslu Íslands að í mars 1996 voru öllum sveitarstjórnum gefin fyrirmæli þess efnis að útlendingar ættu rétt á félagslegri þjónustu. Í skýrslunni er staðfest að ekki er krafist tiltekins búsetutíma af þeim sem eru ekki íslenskir þegnar, heldur er það skilyrði sett að viðkomandi eigi lögheimili á Íslandi, þ.e. að nafn hans sé skráð í þjóðskrá.
    Í fyrri niðurstöðu sinni óskaði nefndin eftir frekari upplýsingum um niðurfellingu bóta til þeirra sem hafna því að leita eftir eða þiggja atvinnu. Í þessari skýrslu er getið um úrskurð úrskurðarnefndar félagsþjónustu þar sem tekið var fram að áfrýjandi hefði ekki gilda ástæðu fyrir að hafna hlutastarfi þar eð sú kvörtun hennar að boðin laun væru lægri en þau sem samið hefði verið um við hlutaðeigandi stéttarfélag átti ekki við rök að styðjast. Í slíkum tilvikum er sveitarstjórnum heimilt að lækka bætur. Í Reykjavík eru bætur lækkaðar um 50% þótt í skýrslunni sé tekið fram að fordæmisréttur úrskurðarnefndar félagsþjónustu heimilar í raun meiri lækkun. Nefndin óskar eftir að fá frekari upplýsingar um þennan fordæmisrétt í næstu skýrslu. Með sama hætti spyr nefndin um hve langan tíma bætur eru lækkaðar í slíkum tilvikum og hvaða ráðstafanir sveitarstjórnin gerir til að finna aðra lausn.
    Í skýrslunni er að finna upplýsingar um samsetningu og völd úrskurðarnefndar félagsþjónustu. Hæstiréttur Íslands skipar formann nefndarinnar sem skal vera löglærður. Samband íslenskra sveitarfélaga og félagsmálaráðuneytið skipa hina tvo nefndarmennina. Úrskurðarnefndin tekur við áfrýjunum gegn úrskurðum sveitarstjórna um framboð félagslegrar þjónustu og greiðslu bóta og er henni heimilt að ógilda slíka úrskurði. Úrskurðum hennar má skjóta til dómstóla. Nefndin spyr hvort slíkt málskot nái einnig til efnisatriða málsins (sjá Niðurstöður XIII-4, bls. 56).
    Samkvæmt skjali sem fylgdi skýrslunni 10 nutu 6.300 manns félagslegrar aðstoðar 1994. Bætur til framfæris námu rösklega 1% af öllum félagslegum útgjöldum sama ár. Nefndin vonast til að fá nýjar tölur í næstu skýrslu, svo og upplýsingar um bótafjárhæðir.
    Hvað viðkemur læknishjálp segir í skýrslunni að allir umsækjendur verði að sæta sex mánaða biðtíma, hvort sem þeir eru íslenskir þegnar eða útlendingar. Nefndin minnist þess að samkvæmt þessu ákvæði sáttmálans er ekki heimilt að krefjast tiltekins búsetutíma af þeim sem hafa þörf fyrir læknishjálp (Niðurstöður XIII-4, bls. 61). Í skýrslunni segir að þeim sem ekki fullnægja skilyrðinu um biðtíma sé veitt ókeypis aðstoð í neyðartilvikum. Til þess að nefndin geti myndað sér skoðun á málinu óskar hún eftir því að í næstu skýrslu komi fram hvort þetta þýði að þeir sem eru hjálpar þurfi fái læknishjálp á einhverjum öðrum grundvelli áður en sex mánaða biðtímanum lýkur.
    Nefndin frestar að birta niðurstöðu sína þangað til hún hefur fengið í hendur umbeðnar upplýsingar.
     2. mgr., um aðgerðir til að hindra að fólk sem nýtur félagslegrar aðstoðar glati rétti til stjórnmálaafskipta eða missi félagsleg réttindi.
    * Sérfræðinganefndin segir að í skýrslu Íslands sé staðfest að á Íslandi séu engin tengsl milli félagslegrar aðstoðar og læknishjálpar annars vegar og pólitískra og félagslegra réttinda hins vegar. Nefndin endurnýjar jákvæða niðurstöðu sína.
     3. mgr., um opinbera þjónustu, ráðleggingar eða félagslega aðstoð til að koma í veg fyrir skort.
    * Nefndin kveðst harma að í skýrslu Íslands er ekki að finna neinar nýjar upplýsingar um þetta ákvæði. Nefndin vísar íslenskum stjórnvöldum á athugasemdir sínar um þetta ákvæði í Niðurstöðum XIII-4 (bls. 59-60) og óskar eftir því að í næstu skýrslu verði gefnar upplýsingar um þau atriði sem tilgreind eru þar, einkum um fjölda, menntun og skyldur starfsmanna og þá fjármuni sem veittir eru til ráðgjafar og heimaþjónustu á Íslandi. Nefndin spyr einnig hvort viðunandi þjónustustig sé fyrir hendi á landsbyggðinni. Nefndin endurnýjar jákvæða niðurstöðu sína, en þó með fyrirvara.
    
4. mgr., um að ákvæðum í 1.,2. og 3. mgr. greinarinnar sé beitt jafnt gagnvart eigin þegnum og þegnum annarra samningsaðila sem löglega dvelja í löndum þeirra í samræmi við skuldbindingar þeirra í Evrópusamþykktinni um félagslega aðstoð og læknishjálp sem undirrituð var í París 11. desember 1953.
    * Sérfræðinganefndin kveðst gefa gaum að því í skýrslu Íslands að félagsleg aðstoð er „í undantekningartilvikum“ veitt bjargarlausum mönnum sem eru staddir í landinu með löglegum hætti en eiga ekki lögheimili á Íslandi. Til þess að nefndin geti gengið úr skugga um hvort þetta sé nægilegt í reynd, með vísan til 4. mgr. 13. gr. sáttmálans, óskar hún eftir því að í næstu skýrslu verði tilgreind dæmi um aðstæður þar sem félagsleg aðstoð hefur verið eða mundi verða veitt eða henni hafnað. Nefndin minnir ríkisstjórn Íslands á að hún sé skuldbundin til að hlíta þessu ákvæði um að veita þegnum annarra aðildarríkja neyðarhjálp, svo fremi þeir dvelji í landinu með löglegum hætti án þess að vera búsettir þar sem þeir hafa bráða þörf fyrir hjálp.
    Í skýrslunni segir að gert sé ráð fyrir að útlendingar, sem ekki eru búsettir á Íslandi, greiði fyrir hvers konar þjónustu sem þeir fá. Hins vegar segir þar einnig að sjúkrahúsum og læknum sé skylt að taka sjúka til meðferðar burtséð frá því hvort þeir geti greitt fyrir hana eða ekki. Nefndin minnist þess að með þessu ákvæði er aðildarríkjunum gert skylt að tryggja að slíkir menn njóti ókeypis neyðarhjálpar ef þeir geti ekki greitt fyrir hana. Til þess að nefndin geti gengið úr skugga um hvort ástandið á Íslandi sé efnislega í samræmi við þessa skuldbindingu óskar hún upplýsinga um:
          hvort skylda sjúkrahúsa og lækna til að taka sjúka til meðferðar burtséð frá greiðslugetu þeirra sé bundin í lög;
          hvort þessi regla eigi einnig við um menn sem eru staddir á Íslandi með löglegum hætti án þess að vera búsettir þar;
          hvort um sé að ræða að það hafi einhverjar afleiðingar fyrir slíka menn að njóta læknisaðstoðar sem þeir geta ekki greitt fyrir.
    Hvað varðar nauðungarflutning til fyrra heimalands lýsir ríkisstjórnin yfir því að ekki sé vitað um neitt tilvik brottvísunar útlendings, sem hefur haft búsetu á Íslandi með lögmætum hætti, sökum fátæktar. Nefndin minnir íslensk stjórnvöld á að þetta ákvæði sáttmálans á við um þegna annarra ríkja, sem eiga aðild að sáttmálanum, sem eru staddir innan lögsagnarumdæmis ríkisins án þess að hafa þar búsetu og spyr hvort nokkrum slíkum mönnum hafi nokkurn tímann verið vísað úr landi vegna þess að þeir leituðu eftir félagslegri aðstoð eða læknishjálp.
    Nefndin frestar birtingu niðurstöðu sinnar þangað til henni hafa borist umbeðnar upplýsingar.

16. gr. — Réttur fjölskyldu til félagslegrar, lagalegrar og efnahagslegrar verndar.


    * Nefndin kveðst gefa gaum að upplýsingum í skýrslu Íslands.

„Lagavernd fjölskyldunnar.
    Hvað varðar reglur um sameiginlegar eignir hjóna, jafnrétti maka og lausn fjölskyldudeilna segir í skýrslunni að samkvæmt hjúskaparlögum, nr. 31/1993, beri að gefa hjónum, sem óska eftir skilnaði, tækifæri til að ná sáttum. Hjónum með börn undir lögaldri er skylt að reyna að ná sáttum. Sáttatilraun skal vera í höndum prests, eða sýslumanns eða dómara ef foreldrarnir eru ekki í trúfélagi eða tilheyra mismunandi trúfélögum. Í deilum um forsjá barna segir í barnalögum, nr. 20/1992, að skylt sé að hlíta sáttatilraun dómara eða fjölskylduráðgjafarstofu sem dómari mælir með. Í skýrslunni segir að skv. 16. gr. sveitarstjórnarlaga sé sveitarstjórnum skylt að koma á fót félagslegri þjónustu, einkum fjölskylduráðgjöf, sem geti veitt skjólstæðingum ráðgjöf um málefni á borð við barnauppeldi og hjónaskilnað. Nefndin óskar eftir því að í næstu skýrslu verði gefnar upplýsingar um slíka þjónustu, einkum um lausn fjölskyldudeilna.
    Nefndinni skilst af skýrslunni að hafi Alþingi samþykkt ályktun 13. maí 1997 þar sem því er beint til stjórnvalda að móta fjölskyldustefnu og gera ráðstafanir til að styrkja stöðu fjölskyldunnar. Nefndin óskar eftir því að í næstu skýrslu verði gefnar upplýsingar um þróun mála á þessu sviði.

Efnahagsleg vernd fjölskyldunnar.
a.     Barnabætur og aðrar bætur.
    
Nefndin gefur gaum að ítarlegum upplýsingum um fjárhæðir hinna ýmsu barnabóta. Fjárhæð barnabóta, sem greiddar eru vegna sérhvers barns á framfæri undir sextán ára aldri, er 9.272 krónur á ári fyrir fyrsta barn og 28.768 krónur fyrir hvert barn til viðbótar. Bætur eru hækkaðar um 30.176 krónur fyrir hvert barn undir 7 ára aldri. Fjölskyldur með eitt foreldri fá greiddar hærri fjárhæðir. Barnabótaaukar eru einnig greiddir foreldrum með tekjur undir tilteknu marki.
    Þar eð nefndin hefur ekki undir höndum sambærilegar tölur fyrir fyrri viðmiðunartímabil er henni ekki kleift að meta þær breytingar sem orðið hafa á bótafjárhæðum á núverandi viðmiðunartímabili. Nefndin óskar því eftir að í næstu skýrslu verði gefnar nýjar upplýsingar um fjárhæð barnabóta í næstu eftirlitslotu og upplýst verði hvort sú fjárhæð nægi til að fullnægja þörfum fjölskyldunnar.

b.     Jafn réttur.
    
Sem svar við spurningum nefndarinnar segir í skýrslunni að barnabætur séu greiddar svo fremi barnið sé búsett á Íslandi án tillits til þjóðernis þess.
    Varðandi þetta mál vísar nefndin til athugasemda sinna og spurninga í 4. mgr. 12. gr.

c.     Ákvæði um skatta.
    
Nefndin gefur gaum að því að stefnunni um eftirgjöf skatta var haldið áfram á viðmiðunartímabilinu. Nefndin spyr hvaða áhrif skattalegar aðgerðir hafi haft á fjárhagsstöðu fjölskyldunnar.

d.     Sérstök vernd fyrir fjölskyldur með eitt foreldri og lágtekjufjölskyldur.
    
Nefndin gefur gaum að sérstökum ráðstöfunum í fjármálum vegna fjölskyldna með eitt foreldri og lágtekjufjölskyldna, einkum hinni hagstæðari eftirgjöf skatta til handa fjölskyldum með eitt foreldri og veitingu barnabótaauka til handa börnum einstæðra foreldra eða foreldrum með tekjur undir tilteknum mörkum. Ákvæði eru um annars konar bætur: bótaauka fyrir heimili, auknar bætur fyrir ekkjur og ekkla með börn á framfæri, barnabætur til handa einstæðum foreldrum og sérstakan styrk vegna námskostnaðar.

Félagsleg vernd fjölskyldunnar.
a.     Byggingar og aðgangur að húsnæði.
    
Í skýrslunni er að finna upplýsingar um fjárhagslega aðstoð vegna íbúðarkaupa, húsaleigustyrk, sem nemur 7.000 krónum, auk 4.500 króna fyrir fyrsta barn, 3.500 króna fyrir annað barn og 3.000 króna fyrir þriðja barn og hvert barn eftir það. Viðbót, sem samsvarar 12% af leigu frá 20.000 kr. til 40.000 króna, er einnig greidd.

b.     Dagvistun barna.
    
Í skýrslunni er ekki að finna neinar upplýsingar um þetta svið. Nefndin óskar eftir að fá nýjar upplýsingar um þetta málefni í næstu skýrslu.

c.     Stofnanir sem koma fram sem fulltrúar foreldra og veita félagsþjónustu.
    
Í skýrslunni er ekki að finna neinar upplýsingar um þetta svið. Nefndin óskar eftir að fá í hendur nýjar upplýsingar um þetta málefni í næstu skýrslu.

Niðurstaða
.
    Nefndin frestar því að birta niðurstöðu sína þangað til henni hafa borist ýmsar upplýsingar sem hún hefur óskað eftir, m.a. um veitingu fjölskyldubóta skv. 4. mgr. 12 gr.“
Neðanmálsgrein: 1
1     Setu- og atkvæðisrétt á Alþjóðavinnumálaþinginu eiga fulltrúar ríkisstjórna, atvinnurekenda og launafólks. Í því skyni að jafna áhrif þessara þriggja hópa eru greidd atkvæði margfölduð með ákveðnum stuðli sem tekur mið af fjölda fulltrúa hvers hóps um sig á þinginu eða í hlutaðeigandi þingnefnd. Af þessari ástæðu virðast atkvæðatölur vera í litlu samræmi við fjölda þingfulltrúa.
Neðanmálsgrein: 2
2     Efnahagsyfirlit Efnahags- og framfarastofnunarinnar: Ísland, 1997.
Neðanmálsgrein: 3
3     13. skýrsla (III), bls. 40.
Neðanmálsgrein: 4
4     Fyrri 74. gr. stjórnarskrárinnar hljóðar svo:
         „Rétt eiga menn á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds. Banna má þó um sinn starfsemi félags sem er talið hafa ólöglegan tilgang, en höfða verður þá án ástæðulausrar tafar mál gegn því til að fá því slitið með dómi …“
Neðanmálsgrein: 5
5     Birt í 299. skýrslu nefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um félagafrelsi.
Neðanmálsgrein: 6
6     Fyrstu þrjár málsgreinar 28. gr. hljóða sem hér segir:
         „Ef tvö eða fleiri stéttarfélög eða sambönd stéttarfélaga eiga aðild að deilu er sáttasemjara heimilt, í samráði við samninganefndirnar, að leggja fram miðlunartillögu sem nær til fleiri en eins deiluaðila eða þeirra allra.
         Atkvæðagreiðsla og talning atkvæða skal fara fram sameiginlega fyrir öll stéttarfélögin eða samböndin sem miðlunartillagan nær til, þannig að heildarfjöldi atkvæða ráði því hvort tillagan er samþykkt eða felld. Sáttasemjara er einnig heimilt að skipuleggja sameiginlega atkvæðagreiðslu, jafnvel þótt hann kunni að leggja fram fleiri en eina miðlunartillögu, svo fremi það sé gert á sama tíma. Í slíku tilviki skal reglan í 1. mgr. gilda.
         Skilyrði fyrir því að sáttasemjara sé kleift að leggja fram eina eða fleiri miðlunartillögur samkvæmt þessari grein eru sem hér segir:
          a.     að viðræður hafi farið fram um þær kröfur sem settar hafa verið fram, þ.m.t. sérmál, eða að árangurslausar tilraunir hafi verið gerðar til að koma á viðræðum samkvæmt viðræðuáætlun,
          b.     að sá tími sem ákveðinn er í viðræðuáætluninni um viðræður aðila án aðildar sáttasemjara sé liðinn án þess að samningar hafi náðst,
          c.     að sáttasemjari hafi leitast við að miðla málum milli allra hlutaðeigandi samningsaðila og telji að ekkert útlit sé fyrir að samningar takist með þeim,
          d.     að samningar um kaup og kjör hafi verið opnir til endurskoðunar um nokkurn tíma, þannig að samningsaðilum hafi gefist tækifæri til að þrýsta á um samþykkt krafna sinna,
          e.     að aðilum að vinnudeilunni hafi gefist tækifæri til að tjá sig um hugmynd sáttasemjara um gerð sameiginlegrar miðlunartillögu, en hugmyndin hafi verið kynnt þeim beint eða á opinberum vettvangi.“
Neðanmálsgrein: 7
7     Birt í 299. skýrslu nefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um félagafrelsi.
Neðanmálsgrein: 8
8     Efnahagsyfirlit Efnahags- og framfarastofnunarinnar: Ísland, 1997.
Neðanmálsgrein: 9
9     1. janúar 1996 voru einn Möltubúi, einn Kýpverji og fjórir Tyrkir búsettir á Íslandi (heimild: Evrópuráðið, Lýðfræðileg þróun í Evrópu að undanförnu, 1996).
Neðanmálsgrein: 10
10     Almannatryggingar á Norðurlöndum: umfang, kostnaður og fjármögnun 1994.