Hafnaáætlun 2001--2004

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 19:02:33 (8396)

2001-05-19 19:02:33# 126. lþ. 129.18 fundur 327. mál: #A hafnaáætlun 2001--2004# þál. 28/126, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[19:02]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef eina spurningu og tvær athugasemdir við ræðu hv. þm. Í löngu máli lýsti hv. þm. þeirri stefnu sem birtist í hafnaáætlun og sagði í lokin að hún hefði miklar efasemdir um þessa stefnu. Herra forseti, ég fagna því og ég deili með henni áhyggjum af stefnunni sem boðuð er af hv. þm. Árna Johnsen og hæstv. samgrh.

Í öðru lagi sagði hv. þm. að það gengi ekki að vera að setja peninga í skipaiðnað í Vestmannaeyjum því að það væri ríkisstyrktur skipaiðnaður. Seinna í máli hv. þm. kom í ljós að það væri allt í lagi að gera það, ef það væri í Hafnarfirði. Það kom fram í máli hv. þm. og ómögulegt að skilja það öðruvísi.

Allt um það, herra forseti. Sú litla spurning sem mig langar til þess að varpa fram til hv. þm. er þessi: Í ljósi fyrirvara hennar við framlag til kvíarinnar í Vestmannaeyjum, mun hún þá greiða atkvæði gegn því hér í þinginu? Það kom ekki fram í máli hennar.