Rannsókn á efnahagslegum völdum kvenna

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 14:30:52 (1077)

2000-11-01 14:30:52# 126. lþ. 18.1 fundur 104. mál: #A rannsókn á efnahagslegum völdum kvenna# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[14:30]

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin. Það er gott að þetta verkefni er farið af stað og eiginlega ekki seinna vænna því að hér er að vissu leyti um mjög flókið verkefni að ræða. Það krefst mikils undirbúnings og yfirlegu og því ekki seinna vænna að hefjast handa eigi þessu að vera lokið eða komið í farveg innan árs eða svo en eins og hér hefur verið rætt tekur framkvæmdaáætlunin um jafnrétti kynjanna yfir fjögur ár og rennur út á næsta ári, í árslok 2001.

Mjög brýnt er að átta sig á stöðu kynjanna í efnahagslegu tilliti hér á landi. Allt of lítið hefur verið gert af því að rannsaka þessi mál. Það er ekki síst brýnt svo stjórnvöld geti brugðist við þeim niðurstöðum sem þar koma fram, vilji þau gera það. Mér segir svo hugur að grípa þurfi til ýmissa aðgerða til að styrkja stöðu kvenna á vinnumarkaði. Ég vona svo sannarlega að niðurstöður þessarar könnunar færi okkur skref áfram í þeirri viðleitni.