Búsetuþróun

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 18:43:02 (1147)

2000-11-01 18:43:02# 126. lþ. 18.14 fundur 58. mál: #A búsetuþróun# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[18:43]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svörin og þeim þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu sem er sannarlega allt of stutt. Hér gefst ekki tími til að fara í gegnum öll þau mál sem þyrfti.

Ég styð það og bind miklar vonir við að málaflokkurinn hefur verið fluttur frá forsrn. til iðn.- og viðskrn. Ég hika ekki við það og hæstv. iðnrh. hefur fullan stuðning minn við að spýtt verði í lófana hvað þetta varðar. Í þessum málum, meðan þau voru í forsjá hæstv. forsrh., gerðist ekki neitt. Það verður að segjast eins og er.

Hér hefur verið fjallað um húshitun, að þar fari 790 milljónir til niðurgreiðslu. Ég vil aðeins benda á að í fjárlagafrv. sem nú liggur fyrir er ekki aukið við þann lið eins og lofað var áður og það er ekki tekið á vandamálum dýrra hitaveitna.

Það er sannarlega rétt að mannlíf og menningarlíf er gott á landsbyggðinni en menn lifa ekki á því einu saman.

Svo ég komi aftur að fsp. minni þó ekki gefist mikill tími til að fara um það mörgum orðum þá tel ég ákaflega mikilvægt að Byggðastofnun fái fjármuni til að meta þessa byggðaröskun alls staðar, ekki bara varðandi það sem komið hefur fram, um hvað það kosti sveitarfélögin sem taka við fólkinu hér á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur komið fram í ræðu forsrh. að séu 6--12 milljarðar. Það eitt út af fyrir sig væri nægjanleg ástæða til að skipta um gír. Hitt sem fram kom í svari hæstv. ráðherra er það að ekki hefur verið metið eða gerð nein tilraun til að meta hvað breytingarnar kosta sveitarfélögin sem fólkið flytur frá. Það er mjög mikilvægt, herra forseti, að Byggðastofnun og iðnrn., nýtt ráðuneyti byggðamála, taki á þeim málum sem allra fyrst.