Bygging menningarhúsa

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 19:33:58 (1169)

2000-11-01 19:33:58# 126. lþ. 18.17 fundur 130. mál: #A bygging menningarhúsa# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., PBj
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[19:33]

Pétur Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil fagna þeirri umræðu sem er um menningarhús á landsbyggðinni og menningarstörf sem þar eru unnin. Í upphafi komu fram margar neikvæðar athugasemdir við það sem sett var fram enda var þetta kannski í dálítið þröngum farvegi. En af því að Ísafjörður var nefndur hér áðan tel ég mjög nauðsynlegt að einmitt á stöðum eins og Ísafirði þar sem starf hefur verið í mjög góðum farvegi, að það verði stutt, og í staðinn fyrir að byggja nýtt menningarhús þá verði stutt það sem þar í gangi, þ.e. Edinborgarhúsið sem er fjölnota menningarhús. Þar er listaskóli með blómlegri starfsemi, Listaskóli Rögnvaldar Ólafssonar. Þar er verið að innrétta leikhús og það vantar einmitt fjármagn til þess að ljúka þeirri leikhúsbyggingu. Ég tel að þannig eigi að vinna, að koma til móts við þau störf sem eru unnin á landsbyggðinni og efla það sem heimamenn eru að gera með þessu framlagi. Ég vona að sú verði raunin og ég reyndar trúi því að þannig verði unnið.