Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 16:45:22 (3063)

2000-12-08 16:45:22# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, Frsm. 1. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[16:45]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Það vill svo til að það er ágæt ábending hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að auðvitað ætti ég að eiga orðastað við hæstv. forsrh. Hvar á ég að eiga orðastað við hæstv. forsrh.? Hann leggur aldrei í að koma í umræður. Hann kemur ekki til að eiga orðastað við aðra stjórnmálamenn í öðrum fjölmiðlum og meira að segja ríkisfjölmiðill eins og ríkissjónvarpið spyr ekki forsrh. fremur en formann Samfylkingarinnar um stöðu og þróun efnahagsmála. Menn geta svo velt því fyrir sér af hverju það stafar. Hæstv. forsrh. hefur ítrekað lýst þeirri skoðun sinni að engin hætta sé á ferðum varðandi viðskiptahallann. Ég vísa t.d. til ummæla hans í þætti hjá Agli Helgasyni, í Silfri Egils, í vor.

Herra forseti. Að því er er varðar afgang ríkissjóðs hefur enginn maður sýnt betur fram á það en hv. þm. Sverrir Hermannsson að ekki er um neitt annað að ræða en froðufé. Hv. þm. hefur sjálfur kennt mér þá þumalfingursreglu að fjórðungur viðskiptahallans sé í reynd hreinar tekjur fyrir ríkissjóð. Þar eru komnir 17,5 milljarðar. Síðan á að selja fyrir 15 milljarða. Þeir stálu 3 milljörðum af öldruðum (Forseti hringir.) og bótaþegum með því að hækka ekki skattleysismörkin. (Forseti hringir.) Þar eru komnir þessir 35 milljarðar. Þetta er (Forseti hringir.) froðufé eins og hv. þm. (Forseti hringir.) hefur margsinnis sagt.

(Forseti (GuðjG): Forseti biður hv. þingmenn að virða tímamörkin. Það eru 16 þingmenn á mælendaskrá og veitir ekki af að halda sig við tímamörk.)