Ferill 19. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 19  —  19. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Drífa Hjartardóttir, Guðjón A. Kristjánsson,


Ólafur Örn Haraldsson, Rannveig Guðmundsdóttir, Ögmundur Jónasson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa heildstæða og samræmda opinbera stefnu í málefnum barna og unglinga. Markmið stefnumótunar verði að tryggja hag og velferð barna og unglinga á öllum sviðum þjóðlífsins og búa þeim sem best og jöfnust skilyrði til uppvaxtar og þroska. Í því skyni verði skipuð nefnd með aðild forsætisráðuneytis, félagsmálaráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis, umhverfisráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga.
    Á grundvelli stefnumótunar framangreindra aðila verði gerð fimm ára framkvæmdaáætlun í samráði við opinberar stofnanir og félagasamtök sem vinna að málefnum barna og unglinga, þ.m.t. félagasamtök unglinga.
    Framkvæmdaáætlunin verði lögð fyrir Alþingi til staðfestingar eigi síðar en á haustþingi árið 2001.

Greinargerð.


    Allt frá stofnun embættis umboðsmanns barna árið 1995 hefur umboðsmaður vakið athygli stjórnvalda á því hve brýnt sé að mótuð verði skýr opinber heildarstefna í málefnum barna og unglinga og aðgerðir samræmdar af hálfu stjórnvalda á ýmsum sviðum er snerta hagi þeirra.
    Í skýrslu umboðsmanns barna árið 1996 kemur m.a. fram eftirfarandi:
    „Það ætti að vera aðalsmerki hverrar ríkisstjórnar og hverrar sveitarstjórnar að tryggja öllum börnum sem best og jöfnust skilyrði til uppvaxtar og þroska, en að mínu mati verður því markmiði einungis náð með því að mótuð verði skýr opinber heildarstefna í málefnum þeirra og aðgerðir samræmdar af hálfu stjórnvalda, ríkis og sveitarfélaga, á hinum ýmsu sviðum er varða börn og ungmenni, hvort sem er á sviði barnaverndarmála, skólamála, heilbrigðismála, menningarmála og öryggismála almennt, svo að mikilvægir málaflokkar séu nefndir. Með þessu móti tel ég að velferð umbjóðenda minna, fjölmennasta aldurshópsins í íslensku samfélagi, verði best borgið þegar til lengri tíma er litið.“
    Í ljósi þessa telja flutningsmenn afar brýnt að Alþingi sýni vilja sinn til heildstæðrar stefnumótunar í málefnum barna og því er þessi þingsályktunartillaga flutt.
    Hin norrænu ríkin hafa öll mótað heildstæða stefnu í málefnum barna og unglinga. Má t.d. nefna að árið 1986 var lögð fyrir danska þingið af hálfu þáverandi félagsmálaráðherra tillaga um heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga, en á grundvelli þeirrar tillögu, sem samþykkt var í janúar 1987, var skipuð nefnd með aðild þeirra ráðuneyta sem málefni barna og unglinga heyra til. Á grundvelli stefnumótunar var síðan unnin ítarleg framkvæmdaáætlun sem tók einnig mjög mikið tillit til sjónarmiða unglinga sem að stefnumótuninni komu. Þá var og komið á reynslusveitarfélögum sem sérstaklega tóku þátt í að þróa ýmsar nýjungar í stefnumótun og framkvæmdaáætlun um málefni unglinga.
    Flutningsmenn hafa einnig kynnt sér ítarlega og heildstæða stefnumótun í málefnum barna og unglinga í Noregi sem tekur á öllum þáttum þjóðlífsins sem snúa að málefnum barna og unglinga, en í þeirri stefnu er þungamiðjan að öryggi, umönnun og góð uppvaxtarskilyrði barna og unglinga séu meðal mikilvægustu verkefna stjórnvalda. Þar er lögð megináhersla á þátttöku og ábyrgð barna og unglinga í stefnumótuninni þannig að þarfir og áhugamál þeirra eru tekin alvarlega í stefnu og framkvæmdaáformum stjórnvalda. Í allri löggjöf er einnig litið til áhrifa hennar á málefni barna og unglinga. Mikil áhersla er einnig lögð á samvinnu og samráð opinberra aðila, ríkis og sveitarfélaga, í þessum málum með því að leggja á þau ábyrgð og skyldur í heildstæðri og samfelldri stefnumörkun á öllum sviðum sem lúta að málefnum barna og unglinga.
    Ljóst er að hér á landi er ekki síður þörf fyrir heildstæða stefnumótun í málefnum barna og unglinga en annars staðar á Norðurlöndum. Á margan hátt er umhverfi barna á Íslandi frábrugðið því sem þar er. Má t.d. nefna að þar hefja börn skólagöngu fyrr en hér og skólaárið er styttra hér á landi. Þá er vinna barna og unglinga yfir sumartímann mun algengari hér auk þess sem vinnutími foreldra er mun lengri og laun og lífskjör almennt lélegri. Þekkt er einnig tvöfalt vinnuálag kvenna, en atvinnuþátttaka kvenna er miklu meiri en t.d. annars staðar á Norðurlöndum. Nefna má einnig að fæðingarorlof er mun styttra hér á landi, sem og réttur foreldra vegna veikinda barna, auk þess sem slysatíðni barna er mun hærri en í nágrannalöndunum.
    Hinn 20. nóvember nk. eru liðin 11 ár frá gildistöku barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, en á Íslandi öðlaðist hann gildi 27. nóvember 1992. Í tillögu til þingsályktunar um bætta réttarstöðu barna samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem flutt var á 122. löggjafarþingi undir forustu Rannveigar Guðmundsdóttur, er þess m.a. getið að þótt barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hafi lýst yfir ánægju með ýmsa þætti í framkvæmd barnasáttmálans hér á landi hafi verið gerðar alvarlegar athugasemdir við aðra þætti framkvæmdarinnar. Einnig kom fram í greinargerð með þeirri þingsályktunartillögu að enn skorti á að íslenskur réttur uppfylli ákvæði barnasáttmálans og að langt sé í land með að lagaframkvæmd sé í samræmi við anda sáttmálans, þ.e. að börn og ungmenni innan 18 ára aldurs njóti þeirrar verndar sem sáttmálanum er ætlað að veita.
    Ýmsar samnorrænar kannanir sem gerðar hafa verið sýna líka að framlög til málefna barna og fjölskyldna þeirra eru langminnst á Íslandi. Í úttekt og skýrslu sem gerð var af landsnefnd um Ár fjölskyldunnar 1994 kom fram að börn og málsvarar þeirra munu halda áfram að gera kröfur um bætta réttarstöðu þeirra, uppeldisskilyrði og tilfinningatengsl við báða foreldra. Orðrétt segir í skýrslunni: „Í samfélagi okkar er nú brýnna en áður að búa börnum traust og stöðug uppvaxtarskilyrði eins og margsinnis hefur verið sýnt fram á í þessari skýrslu.
    Það þarf að skapa foreldrum forsendur og aðstöðu til að mynda stöðug tengsl við börn sín, hvernig sem formgerð samskiptanna er. Þannig tryggjum við börnum innri ró og stöðugleika er skapar kjölfestu sem er nauðsynleg til að geta mætt ólgunni sem bíður þeirra í nútímasamfélagi fjölhyggju, hraða og breytileika.“ Síðan segir að fjölskyldan hafi sem samfélagsstofnun á Íslandi allt annað en viðurkenndan sess. Hún sé eins konar afgangsstærð og réttur hennar sífellt fyrir borð borinn.
    Umboðsmaður barna gaf á árinu 1998 út ítarlega samantekt um stöðu og hagi barna í íslensku samfélagi sem nefnist „Mannabörn eru merkileg – staðreyndir um börn og unglinga“. Þar er fjallað um stöðu fjölskyldunnar, efnahag barnafjölskyldna, fötluð börn, heilbrigðsmál og heilsufarsvandamál, slys á börnum, barnaverndarstarf, félagsleg vandamál barna og unglinga, skólakerfið, tómstundamál barna og menningu og lífssýn unglinga. Í formála að þessari bók sem umboðsmaður barna, Þórhildur Líndal, ritar kemur fram eftirfarandi: „Í starfi mínu sem umboðsmaður barna hef ég komist að raun um, að á Íslandi eigum við eftir að vinna mikið grundvallarstarf í málefnum barna og ungmenna og sömuleiðis eigum við margt ólært í þeim efnum. Að mínu mati erum við almennt séð komin mun styttra á veg en aðrar Norðurlandaþjóðir, sem við að öðru jöfnu berum okkur saman við. Almenn stefnumörkun og áætlanagerð af hálfu stjórnvalda í málefnum barna og ungmenna er ekki til staðar og sú hugsun um að slíks sé þörf, virðist mörgum vera fjarlæg.“ Umboðsmaður barna ítrekar síðan í þessum formála nauðsyn þess að ráðist verið í það brýna verk sem mótun opinberrar stefnu í málefnum barna og ungmenna er og telur að bókin geti verið gagnlegur grunnur til að byggja slíka stefnumótun á. Flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu taka undir þessa skoðun og telja eðlilegt að þessi bók verði m.a. lögð til grundvallar við stefnumótun þá sem þingsályktunin kveður á um.
    Það er grundvallaratriði hjá þjóðum sem kenna sig við velferðarsamfélög að búa vel að börnum og unglingum og tryggja þeim sem jöfnust skilyrði til uppvaxtar og þroska. Heildstæð og samræmd opinber stefnumótun í málefnum barna og unglinga, sem framkvæmdaáætlun til nokkurra ára byggist síðan á, er forsendan fyrir skipulögðu og markvissu starfi í því efni. Að flutningi þessarar tillögu standa þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum sem sæti eiga á Alþingi. Þeir leggja áherslu á að í öllu starfi og stefnumótun sem þingsályktunartillagan kveður á um verði eins og kostur er tekið tillit til sjónarmiða og viðhorfa barna og unglinga.
    Tillaga þessi var lögð fram á síðasta löggjafarþingi og hlaut þá einstaklega góðar viðtökur umsagnaraðila. Má þar nefna Barnaheill, Barnaverndarstofu, umboðsmann barna, BUGL, Félag íslenskra uppeldis- og meðferðarstofnana fyrir börn og unglinga og Barnaverndarráð.