Ferill 55. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 55  —  55. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um rannsóknir á ferjuaðstöðu við Bakkafjöru undan Vestmannaeyjum.

Flm.: Árni Johnsen, Drífa Hjartardóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir,


Hjálmar Árnason, Guðmundur Hallvarðsson, Ísólfur Gylfi Pálmason,


Þorgerður K. Gunnarsdóttir,     Kristján L. Möller, Jón Kristjánsson.



    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að hlutast til um við Siglingastofnun Íslands að hún hefji sem fyrst rannsóknir á ferjuaðstöðu við Bakkafjöru og öðrum aðstæðum í tengslum við ferjuleið frá Vestmannaeyjum að Bakkafjöru.

Greinargerð.


Inngangur.
    Um 150 þúsund manns ferðast árlega til Vestmannaeyja, en þær eru meðal þriggja fjölsóttustu ferðamannastaða á Íslandi. Hugmyndin að ferjusiglingu stystu leið milli lands og Eyja miðast við að flytja fólk, bíla og gáma. Slík framkvæmd mundi gjörbylta samgöngum milli lands og Eyja og aðstöðu allri á Suðurlandsundirlendinu því þá yrðu farnar ferðir á 30–60 mínútna fresti og siglingartími yrði ekki fjarri þeim tíma sem tæki að aka göng til Eyja.
    Möguleiki er á að stytta verulega ferjusiglingu milli lands og Eyja með ferjuaðstöðu á Bakkafjöru, sem er stysta sjóleiðin, allt niður í 20 mínútna siglingartíma.

Rannsóknir.
    Hafnleysi einkennir suðurströnd landsins. Af þeim sökum hafa rannsóknir á sjólagi og efnisflutningum þar ekki verið ofarlega á baugi. Áhuginn hefur hingað til einkum beinst að Þorlákshöfn í vestri og Hornafirði í austri, en þar á milli eru um 350 km. Við uppbyggingu landshafnarinnar í Þorlákshöfn um miðjan áttunda áratuginn og eftir að Ósinn við Hornafjörð lokaðist fyrir tíu árum fóru fram umfangsmiklar rannsóknir og athuganir við þessar hafnir. Þann grunn má nýta til að skilgreina hvaða upplýsinga þarf að afla til að svara spurningum um hafnargerð á Bakkafjöru.
    Aðstæður til siglinga upp að Bakkafjöru eru um margt svipaðar og á grynnslunum utan Hornafjarðaróss. Þar er dýpið um 7 m og munur á flóði og fjöru um 0,5 m minni en við Bakkafjöru. Í rauninni er siglt inn um mjög vítt og stöðugt hlið á Hornafirði þar sem Hvanney og sjávarföllin í Ósnum halda aðstæðum stöðugum.
    Með þekkingu á hegðun sandrifjanna og hliðanna við Bakkafjöru er talið að finna megi aðstæður sem hægt væri að nýta fyrir sérbúið ferjuskip til að sigla að ferjuaðstöðu þar sem leitast væri við að finna sem haganlegastar aðstæður.
    Lítið er vitað um sjólag og breytingar á sandrifjunum við Bakkafjöru. Til að afla gagna um fjöruna, botninn úti fyrir og sjólag þar þarf að sigla um svæðið og mæla dýpið reglulega. Skip eins og Lóðsinn í Vestmannaeyjum hentar mjög vel til þessara rannsókna, m.a. vegna þess að hann er búinn tveimur aflmiklum vélum og hefur góða stjórnhæfni. Siglt yrði upp að Bakkafjöru þegar aldan gengi niður eftir brim og svæðið mælt bæði innan og utan sandrifjanna til að fylgjast með hliðum. Þetta þyrfti að gera 5–10 sinnum í 3–4 ár. Á sama tíma væri fjaran mæld reglulega. Ölduspá fyrir Bakkafjöru gæti verið aðgengileg á heimasíðu Siglingastofnunar Íslands og á grundvelli gagna væri hægt að reikna efnisflutninga með ströndinni.
    Gert er ráð fyrir að a.m.k. þrjú ár þurfi til að meta hvort aðstæður eru þannig að ferja gæti haldið uppi reglulegum siglingum upp að Bakkafjöru og þá væru frátafir vegna brima þekktar eins og á Hornafirði.
    Hönnun og þróun aðstöðu fyrir ferju tæki einkum mið af að halda í lágmarki stofnkostnaði og rekstrarkostnaði vegna dælingar á sandi og möl og frátafa vegna brima. Þessi aðstaða verður að uppfylla allar öryggiskröfur sem gerðar eru fyrir farþega á ferjum.

Eftirfarandi er áætlun um undirbúningsrannsóknir:
Kostnaður
(millj. kr.)
Búnaður um borð á Lóðsinum: DGPS-staðsetningartæki og mælingabúnaður líkur búnaði SÍ ásamt Doppler-straummæli og búnaði til að taka botnsýni. Stofnkostnaður og
leiga á Lóðsinum: 5 millj. kr. + 2 millj. kr.
7
Búnaður til að sniðmæla fjörur á landi
3
Sjálfvirk veðurathugunarstöð á Bakkafjöru
2
Öldudufl úti fyrir ströndinni og ölduspár við Bakkafjöru á heimasíðu SÍ
3
Hugbúnaður til að reikna efnisflutninga með ströndinni. Stofnkostnaður 2 millj. kr. og
vinna 2 millj. kr.
4
Grjótnámsrannsóknir vegna brimvarna
5
Jarðvegsathuganir á hafnarstæði
3
Úrvinnsla mælinga og vinna við skýrslugerð
3
Samtals
30

    Kostnaður er áætlaður um 10 millj. kr. á ári miðað við þriggja ára tímabil.