Ferill 207. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 217  —  207. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um afkomutryggingu aldraðra og öryrkja.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson, Jóhann Ársælsson, Sigríður Jóhannesdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir,
Kristján L. Möller, Bryndís Hlöðversdóttir, Gísli S. Einarsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni í samráði við samtök aldraðra og öryrkja að koma á afkomutryggingu fyrir lífeyrisþega svo að enginn þurfi að una fátækt eða óvissu um kjör sín. Þá skal sérstaklega taka tillit til sérstöðu ungra öryrkja sem verða fyrir varanlegri örorku á æskuárum. Samningur um afkomutryggingu taki gildi frá og með 1. janúar 2001 og verði undirstaða nýrra laga um almannatryggingar.

Greinargerð.


    Alltof margir þjóðfélagsþegnar búa við kjör sem duga ekki fyrir nauðþurftum eða brýnustu framfærslu. Á það ekki síst við ýmsa aldraða, öryrkja og einstæða foreldra, atvinnulausa og þá sem búa við langvarandi sjúkdóma.
    Samfylkingin hefur það stefnumál að komið verði á afkomutryggingu svo að enginn þurfi að una fátækt og óvissu um kjör sín. Með þeirri tillögu sem hér er flutt er stigið fyrsta skrefið í þessa átt og lýtur hún að afkomutryggingu aldraðra og öryrkja.
    Í næsta áfanga mun þingflokkur Samfylkingarinnar beita sér fyrir því að teknar verði upp viðræður milli ríkisvaldsins, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins um afkomutryggingu þeirra sem af félags-, heilsufars- eða öðrum óviðráðanlegum ástæðum hafa ekki sér til framfærslu það sem samsvarar lágmarkslaunum í þjóðfélaginu hverju sinni. Í því sambandi þarf m.a. að huga að afnámi skattlagningar á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og skattlagningar húsaleigubóta og tryggja að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga sé á hverjum tíma með þeim hætti að enginn þurfi að una því að eiga ekki fyrir nauðþurftum.
    Til að ná því markmiði sem að er stefnt með þessari þingsályktunartillögu verði teknar upp viðræður milli stjórnvalda og samtaka lífeyrisþega um nýjan samning um afkomutryggingu sem komi til framkvæmda um næstu áramót og verði síðan undirstaða nýrra laga um almannatryggingar.
    Þjóðfélag getur ekki talist velferðarþjóðfélag nema vel sé búið að öldruðum og öryrkjum og þeim tryggð sómasamleg kjör. Margt hefur verið vel gert í málefnum þessa fólks á umliðnum áratugum. Samt býr allt of stór hópur aldraðra og öryrkja við bágborið ástand og í heild hefur þessi hópur ekki fengið sanngjarnan eða eðlilegan hlut í góðæri liðinna ára. Í því efni hefur verulega dregið sundur með lífeyrisþegum og þeim sem verst hafa kjörin á vinnumarkaðnum. Sama gildir um bilið milli meðallauna verkamanna og lífeyrisgreiðslna. Þegar á allt er litið fer því fjarri að afkoma og aðbúnaður margra aldraðra hér á landi sé mannsæmandi.

Prentað upp.


    Sú staðreynd að meira en helmingur aldraðra er með framfærslueyri undir lágmarkslaunum staðfestir bág kjör allt of stórs hóps aldraðra í íslensku þjóðfélagi. Það segir líka sína sögu að 40% lífeyrisþega hafa óskerta tekjutryggingu. Í skýrslu um kjör öryrkja sem Samfylkingin óskaði eftir frá forsætisráðherra og lögð var fram á Alþingi á síðasta ári kom fram að 43% allra öryrkja fá engar greiðslur úr lífeyrissjóði. Athyglisvert er einnig að 22% ellilífeyrisþega, 5.855 manns, voru með tekjur undir 70 þús. kr. á mánuði á árinu 1999.
    Frá 1995 til 1. október 2000 hefur grunnlífeyrir og tekjutrygging hækkað um nálægt 25% en launavísitala hins vegar hækkað frá sama tíma um 41,5%. Þegar litið er á kaupmátt lífeyrisgreiðslna samanborið við lágmarkslaun liggur fyrir að kaupmáttur lífeyrisgreiðslna er langt undir kaupmætti lágmarkslauna verkafólks og hefur munurinn aukist jafnt og þétt, ekki síst eftir að slitið var á tengsl launa og lífeyrisgreiðslna árið 1995.
    Fram hefur komið að grunnlífeyrir og tekjutrygging voru samtals 51,7% af meðaldagvinnulaunum verkamanna á árinu 1991 en 1999 var hlutfallið komið niður í 43,8%. Grunnlífeyrir og tekjutrygging þarf þannig að hækka um 18% til að aldraðir haldi stöðu sinni gagnvart verkafólki. Það þyrfti því að auka lífeyrisgreiðslur um 3–4 milljarða kr. til að hlutfallið milli dagvinnulauna verkamanna og lífeyrisgreiðslna, þ.e. grunnlífeyris og tekjutryggingar, sé það sama nú og var árið 1991.
    Ef miðað er við nýlega kjarasamninga stefnir í að grunnlífeyrir og tekjutrygging haldi áfram að lækka sem hlutfall af launum verkamanna og verður hlutfallið að óbreyttu komið niður í 42,4% árið 2003. Árið 1989 námu lífeyrisgreiðslur 80,2% af lágmarkslaunum verkakarla. Þetta hlutfall var 60,5% árið 1998 og 64% á sl. ári. Þau viðmið sem hér hafa verið nefnd ætti m.a. að hafa í huga þegar metnar eru leiðir til að koma á afkomutryggingu fyrir lífeyrisþega.
    Staða flestra lífeyrissjóða er sem betur fer traust og því munu aukin lífeyrisréttindi bæta kjör eldri borgara á komandi árum. Hlutur almannatrygginga í eftirlaunum mun minnka og lífeyrissjóðanna aukast. Þó ber að hafa í huga að þeir sem nú þegar eru komnir á eftirlaun munu ekki njóta þess, heldur aðeins þeir sem hefja töku lífeyris á komandi árum.
    Eignastaða aldraðra hér á landi er yfirleitt góð og ber að fagna því. Þó er allt of algengt að tekjustaða þeirra sé slæm og þeim reynist erfitt að greiða skatta og skyldur af eignum sínum sem oftast eru fólgnar í íbúðum sem fólkið býr sjálft í og hefur mikinn kostnað af.
    Húsnæðisaðstaða of margra er þó afar bágborin. 15% þeirra sem eru í 700 leiguíbúðum á vegum Reykjavíkurborgar eru aldraðir eða vel á annað hundrað, og aldraðir á biðlista eftir leiguíbúðum hjá borginni eru 126. Á biðlistum eftir þjónustuíbúðum í Reykjavík eru 250 aldraðir og eftir hjúkrunarheimilum um 230.
    Þannig bíða um 600 aldraðir eftir hjúkrunar- eða þjónustuíbúðum auk leiguíbúða, en stærsti hluti þessa hóps er í mjög brýnni þörf fyrir húsnæði, aðhlynningu eða þjónustu.
    Sama gildir um öryrkja en stór hópur öryrkja er á leigumarkaði og langur biðlisti er eftir íbúðum hjá Öryrkjabandalaginu, en á fimmta hundrað bíða þar eftir húsnæði.
    Lífeyrisþegar voru ekkert of sælir af kjörum sínum á árum niðursveiflu í efnahagslífinu 1988–1993, en þá var þó miklu betur reynt að tryggja að lífeyrir öryrkja og aldraðra fylgdi lágmarkslaunum, þrátt fyrir það að raunhækkun á tekjum hins opinbera hafi aðeins verið rúmir 4 milljarðar kr. á þessu sex ára tímabili.
    Á sl. sex árum hefur aftur á móti orðið 64 milljarða kr. raunhækkun á tekjum hins opinbera. Þrátt fyrir þennan gífurlega tekjuauka hafa lífeyrisgreiðslur aldrei verið lægra hlutfall af þjóðarframleiðslu, hvort sem miðað er við lágmarkslaun í þjóðfélaginu eða meðallaun verkamanna. Lífeyrisgreiðslur með fullri tekjutryggingu eru innan við 50 þús. kr. en lágmarkslaunin rúmlega 76 þús. kr.
    Það er því deginum ljósara að lífeyrisþegar hafa ekki fengið sinn hlut í góðærinu og eiga raunar rétt og kröfu til þess að fá eðlilega og sanngjarna leiðréttingu á kjörum sínum. Ljóst er einnig að mikill tekjuafgangur á ríkissjóði, sem var á síðasta ári 26 milljarðar kr., er m.a. fenginn með því að taka af öldruðum og öryrkjum eðlilegan hlut þeirra í góðærinu.
    Ákveðið var með lögum sem tóku gildi í byrjun árs 1998 að bætur almannatrygginga ættu að breytast í samræmi við þróun launa en hækka þó aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Á þessu tímabili hafa lífeyrisgreiðslurnar nær undantekningarlaust verið miðaðar við það sem lægst hefur gefið lífeyrisþegum, þ.e. vísitölu neysluverðs í stað launavísitölu. Þannig hafa lífeyrisgreiðslurnar einungis hækkað um 11% á þessu tímabili en launavísitala hækkað mun meira, um 17%.
    Á þessu ári hafa lífeyrisgreiðslur, þ.e. tekjutrygging og grunnlífeyrir, einungis hækkað um rúm 5% og það í áföngum á árinu, sem gerir um 1.500 kr. eftir skatt á lífeyri og fulla tekjutryggingu, en láglaunafólk, sem er með um 76 þús. kr. á mánuði, á að fá 8,9%.
    Á undanförnum missirum hafa þær litlu hækkanir sem runnið hafa til lífeyrisþega iðulega verið teknar aftur með ýmsum hætti. Hér skal minnt á nokkur veigamikil atriði sem hafa skert kjör lífeyrisþega til viðbótar skerðingu á lífeyrisgreiðslum.
    Skemmst er að minnast mikillar hækkunar á lyfjakostnaði um mitt þetta ár, um allt að 37% á algengum lyfjum. Nú er svo komið að sumir lífeyrisþegar og láglaunafólk geta ekki leyst út nauðsynleg lyf.
    Húsnæðiskostnaður öryrkja og aldraðra hefur líka hækkað gífurlega á síðustu árum, ekki síst þeirra sem eru á leigumarkaði. Styrkir til bifreiðakaupa öryrkja eru líka færri og að raungildi lægri en þeir voru árið 1995. Auk þess hefur ríkisstjórnin afnumið þau hagstæðu bifreiðakaupalán sem öryrkjum stóðu áður til boða og vísar þeim nú á almennar lánastofnanir.
    Benda má einnig á að skattleysismörk eru u.þ.b. þau sömu og í byrjun tíunda áratugarins. Þau hafa ekki aðeins dregist aftur úr launaþróun, heldur einnig vísitölu neysluverðs. Þessi raunlækkun vegur afar þungt fyrir lífeyrisþega og hefur veruleg áhrif á kaupmátt þeirra.
    Frítekjumörk þeirra lífeyrisþega, sem ná því að fá rúmar 9 þús. kr. úr lífeyrissjóði og eiga ekki útivinnandi maka, hafa einnig dregist mun meira aftur úr launavísitölu en sjálfar bótaupphæðirnar.
    Notkun síma er lífeyrisþegum mjög mikilvæg, ekki aðeins til að draga úr einangrun sem oft er að finna í þessum hópi, heldur er hér einnig um mikið öryggistæki að ræða. Verulega hefur dregið úr þeirri aðstoð sem öryrkjar og aldraðir hafa fengið til að standa undir afnotagjöldum.
    Afar brýnt er orðið að móta heildarstefnu í málefnum aldraðra, m.a. út frá breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar á næstu árum, en öldruðum mun fjölga mjög hratt og mun meira hlutfallslega en þeim sem eru á vinnumarkaði.
    Heildarstefnumótun í málefnum lífeyrisþega þarf auk tryggingagreiðslna að taka til heilbrigðis-, húsnæðis- og atvinnumála þeirra. Sérstaklega þarf að skoða markvissa stefnumótun í uppbyggingu dvalar- og hjúkrunarheimila og sveigjanleg starfslok aldraðra.
    Velferðarkerfið á Íslandi er miklu veikara en annars staðar á Norðurlöndum og útgjöld ríkissjóðs hér mun minni en annars staðar gerist. Opinber útgjöld til elli- og örorkulífeyrisþega eru t.d. miklu lægri hér á landi en í flestum OECD-löndunum. Í samantekt, sem Kristinn Karlsson tók saman í október 1999 um útgjöld til félags- og heilbrigðismála á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum árið 1997, kemur fram að útgjöld til félags- og heilbrigðismála aldraðra og öryrkja, sem hlutfall af landsframleiðslu, eru langlægst hér á landi. Á Íslandi er hlutfallið 7,7% af landsframleiðslu en allt upp í 17,3% af landsframleiðslu í Svíþjóð, 14,6% í Danmörku, 13,9% í Finnlandi og 12,4% í Noregi.
    Í því efnahagsumhverfi sem við búum við nú er mjög brýnt að hafa öflugt velferðarkerfi sem tryggir að enginn þurfi að þola fátækt eða öryggisleysi. Í löndum þar sem óheft frjálshyggja og markaðshyggja er allsráðandi í stefnu stjórnvalda hefur bilið milli ríkra og fátækra breikkað. Þetta hefur líka gerst á Íslandi. Atvinnu- og ráðstöfunartekjur þeirra tekjuhærri í þjóðfélaginu hafa á undanförnum árum aukist mun meira en þeirra tekjulægri, þannig að misskiptingin hefur vaxið.
    Þegar litið er til þess misréttis sem við blasir í tekjuskiptingunni er ljóst að öflugt markaðskerfi sem tryggir heilbrigða samkeppni kallar líka á styrkar stoðir velferðarkerfisins, annars breikkar bilið milli ríkra og fátækra eins og dæmin sanna. Þannig þarf samhliða öflugu markaðskerfi að tryggja öflugt og skilvirkt velferðarkerfi sem m.a. tryggir örugga afkomu þeirra sem höllum fæti standa og að allir geti lifað með fullri reisn.
    Mikilvægt er að stjórnvöld líti til þess að hér er ekki aðeins um útgjöld að ræða heldur skilar hluti kostnaðarins sér til baka í formi beinna og óbeinna skatta, auk þess sem markmið tillögunnar er að vinna gegn félagslegri misskiptingu.
    Árið 1998 voru lífeyrisgreiðslur úr lífeyrissjóðum til aldraðra samtals 9 milljarðar kr. og 2,5 milljarðar kr. til öryrkja. Úr almannatryggingakerfinu voru hins vegar greiddir 10 milljarðar kr. í lífeyrisgreiðslur (grunnlífeyri og tekjutryggingu) til aldraðra og 3,5 milljarðar kr. til öryrkja.
    Á næstu árum munu lífeyrisgreiðslur úr lífeyrissjóðunum enn aukast og má ætla að á síðasta ári hafi hlutur almannatryggingakerfisins og lífeyrissjóðanna í lífeyrisgreiðslum verið svo til jafn, en að strax á þessu ári verði hlutur lífeyrissjóðanna meiri en almannatryggingakerfisins og fari upp úr því vaxandi. Hlutur lífeyrissjóðanna mun þannig jafnt og þétt stækka með auknum lífeyrisréttindum og hærra hlutfalli aldraðra af heildarfjölda þjóðarinnar.
    Rétt og eðlilegt er því að horfa á lífeyrisgreiðslur til aldraðra og öryrkja í þessu samhengi um leið og þjóðarsátt verði um það markmið að koma á afkomutryggingu fyrir lífeyrisþega sem tryggi að enginn þurfi að una fátækt eða óvissu um kjör sín.
    Tillagan gerir ráð fyrir því að kjör ungra öryrkja verði sérstaklega bætt og að með því verði viðurkennd sérstaða þeirra. Framfærslubyrði ungra öryrkja er oft mjög mikil, ekki síst ef þeir hafa fyrir fjölskyldu að sjá. Í því sambandi skal minnt á ályktun Öryrkjabandalagsins frá 1998. Þar var skorað á Alþingi að hækka grunnlífeyri sérstaklega og mest hjá þeim sem verða fyrir varanlegri örorku á æskuárum. Tillaga bandalagsins var sú að verði einstaklingur fyrir varanlegri örorku 20 ára eða yngri skuli grunnlífeyrir hans nema ekki lægri upphæð en 51.000 kr. á mánuði og fylgi sú upphæð þróun launavísitölu. Verði einstaklingur fyrir örorku síðar á starfsævinni skal grunnlífeyrir hans nema hlutfallslega lægri upphæð eða sem svarar 1,4% fyrir hvert ár umfram tvítugt uns ellilífeyrisaldri er náð. Flutningsmenn leggja til að þessi tillaga Öryrkjabandalagsins komi til skoðunar verði þessi þingsályktunartillaga samþykkt.
    Ætla má að það kosti a.m.k. 3–5 milljarða kr. að gera sérstakt átak í málefnum lífeyrisþega og ungra öryrkja eins og tillaga þessi gerir ráð fyrir. Til álita kæmi að skipta þessum útgjöldum á tvö ár. Fyrri áfangi yrði um næstu áramót, 1. janúar 2001, með samningi um afkomutryggingu sem gerður yrði við samtök öryrkja og aldraðra. Síðari áfangi yrði 1. janúar 2002 og yrði þá lokið endurskoðun almannatryggingakerfisins, en tillaga þessi gerir ráð fyrir að samningur um afkomutryggingu verði undirstaða nýrra laga um lífeyristryggingar almannatrygginga. Í undirbúningi eru tillögur til að mæta þessum útgjöldum, þar á meðal tilfærslur í skattkerfinu sem kynntar verða síðar.