Ferill 239. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 260  —  239. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um gerð neyslustaðals.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Margrét Frímannsdóttir,


Sigríður Jóhannesdóttir, Gísli S. Einarsson, Ásta R. Jóhannesdóttir,


Kristján L. Möller, Össur Skarphéðinsson.



    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að skipa nefnd til að vinna að gerð samræmds neyslustaðals um framfærslukostnað heimila eftir fjölskyldugerð sem verði leiðbeinandi fyrir stjórnvöld við ýmsar ákvarðanir er lúta að fjárhæðum bóta og styrkja velferðarkerfisins. Þessi neysluviðmiðun verði einnig lögð til grundvallar greiðsluáætlun og greiðslumati hjá lánastofnunum, svo og innheimtu vangoldinna skattskulda og meðlagsgreiðslna einstaklinga.
    Nefndin verði m.a. skipuð fulltrúum Hagstofu Íslands, Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og Neytendasamtakanna. Niðurstaða nefndarinnar verði lögð fyrir Alþingi í ársbyrjun 2002.

Greinargerð.


    Tilgangur þessarar tillögu er að gerður verði samræmdur neyslustaðall sem verði leiðbeinandi fyrir stjórnvöld sem viðmiðunargrundvöllur við ýmsar ákvarðanir sem tengjast rétti til bóta samkvæmt skatta- og almannatryggingalögum, sem og fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélögum. Ekki síður á þessi neyslustaðall að vera grundvöllur greiðsluáætlunar og greiðslumats hjá lánastofnunum, þ.m.t. Lánasjóði íslenskra námsmanna, og við innheimtu vangoldinna opinberra gjalda, t.d. skattskulda og meðlagsgreiðslna.
    Nú tekur hið opinbera mið af a.m.k. fimm mismunandi framfærslugrunnum við ákvörðun bóta, lána, fjárhagsaðstoðar og styrkveitinga, svo og við mat á greiðslugetu vegna fjárhagserfiðleika. Má þar nefna tryggingakerfið, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, Lánasjóð íslenskra námsmanna, Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, Íbúðalánasjóð og lánastofnanir. Hagstofan gerir síðan reglulega neyslukannanir. Að auki má nefna tekjutengdar bætur skattkerfisins. Allur gangur virðist vera á því að hve miklu leyti kannanir liggja að baki nauðsynlegum framfærslukostnaði hverrar fjölskyldugerðar. Mikilvægt er að þróaður verði einn samræmdur neyslustaðall sem opinberir aðilar byggi á við ákvarðanir sem tengjast framfærslu og tekjum. Annars staðar á Norðurlöndum og reyndar víða í Evrópu hefur verið farin sú leið að þróa einn ákveðinn neyslustaðal sem framfærslukostnaður eftir fjölskyldugerð og stærð byggist á og notaður er við ýmsar stjórnvaldsákvarðanir.
    Í skýrslu starfshóps um nýtt greiðslumat frá febrúar 1998 segir:
    „Á Norðurlöndunum og víða í Evrópu er notuð „neysluviðmiðun“ til leiðbeiningar um mat á greiðslugetu fólks. Neysluviðmiðun á að gefa til kynna áætluð útgjöld fjölskyldu miðað við viðurkennda neyslu eða neyslumynstur fyrir ólíkar fjölskyldugerðir og stærðir. Að baki liggja rannsóknir og úttekt á því hvað heimili, með mismunandi samsetningu fjölskyldunnar eftir kyni og aldri, þurfa til framfærslu.
    Í Svíþjóð og Noregi hefur verið lögð mikil vinna í þróun og vinnslu viðmiðunarneyslu á sl. 20 árum. Þar hefur verið tekið mið af neysluviðmiðun heimilanna þegar ákvarðaðar eru bætur skattalaga, ákvæði réttarfarslaga, svo sem lög um skuldaaðlögun og reglur um heimildir sýslumanna til að draga af tekjum manna vegna vanskila hjá lánastofnunum og opinberum aðilum, t.d. vegna skatta og meðlagsskulda. Þá er neysluviðmiðun grundvöllur greiðslumats hjá lánastofnunum og fjárhagsráðgjöfum banka og á vegum sveitarfélaganna auk áætlanagerðar hjá heimilunum sjálfum.“
    Í framangreindri skýrslu kemur fram hvað mikill munur er á þeim framfærslukostnaði sem Hagstofa áætlar til framfærslu annars vegar og Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna hins vegar. Hagstofan áætlar t.d. framfærsluþörf einstaklings 96 þús. kr. á mánuði en Ráðgjafarstofan 63 þús. kr.
    Í nýlegum samanburði frá miðju síðasta ári á framfærslukostnaði samkvæmt lágmarksframfærslu Íbúðalánasjóðs, viðmiðunarneyslu Ráðgjafarstofu og neyslukönnun Hagstofunnar, áætlar Íbúðalánsjóður framfærslukostnað hjóna með tvö börn 108 þús. kr., Ráðgjafarstofan tæpar 140 þús. kr. og Hagstofan rúmlega 242 þús. kr. Það rennir vissulega stoðum undir nauðsyn þess að sett verð samræmd neysluviðmiðun fyrir framfærslukostnað heimilanna eins og hér er lagt til.
    Í 113. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 929/1999, um innheimtu þinggjalda á árinu 2000, er að finna heimildir fyrir innheimtumenn til að krefjast þess að launagreiðendur haldi eftir hluta af kaupi launþega til lúkningar á skattskuldum, þ.e. þeim gjöldum sem launþegar bera sjálfsskuldarábyrgð á og ber að innheimta skv. 110. og 113. gr. laga nr. 75/1981. Tekið er fram að aldrei megi halda eftir meira en 75% af heildarlaunagreiðslu hverju sinni vegna tekjuskatts og útsvars. Jafnframt er tekið fram að afdráttur af launum til staðgreiðslu skal ávallt ganga fyrir afdrætti af launum eldri skattskulda og gjalda. Þetta ákvæði er mjög óréttlátt gagnvart fólki með lágar eða miðlungstekjur sem lent hefur í miklum fjárhagserfiðleikum og með því er oft komið í veg fyrir að fólk geti unnið sig út úr vandanum. Má í því sambandi nefna að forstöðumaður Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna hefur einmitt bent á ósveigjanlega og harða innheimtu opinberra gjalda öfugt við sveigjanleika og samningsvilja lánastofnana gagnvart einstaklingum sem eru að vinna sig út úr vanskilum og miklum fjárhagserfiðleikum. Einnig má geta þess að efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis lagði fyrir þingið skýrslu um úttekt Ríkisendurskoðunar á innheimtusviði tollstjórans í Reykjavík þar sem þetta ákvæði er eitt af því sem nefndin bendir á að þarfnist úrbóta. Í skýrslunni segir:
    „Nefndin leggur til að reglur um frádrátt af launum gjaldenda vegna ógreiddra skatta verði endurskoðaðar. Nú mun alltaf vera krafist fulls afdráttar, þ.e. að launagreiðandi haldi eftir 75% af heildarlaunagreiðslu. Er ljóst að sú framkvæmd gengur ekki upp gagnvart fólki með lágar eða miðlungstekjur, enda hafa launagreiðendur í mörgum tilvikum ekki sinnt þessari skyldu sinni. Tekur nefndin undir hugmyndir sem tollstjóri kynnti á fundi nefndarinnar um að tekið verði tillit til aðstæðna gjaldenda, t.d. framfærslukostnaðar og greiðslubyrði.“
    Í þessu sambandi má einnig benda á að í lögum nr. 54/1971, um Innheimtustofnun sveitarfélaga, kemur fram að meðal hlutverka hennar sé að innheimta hjá meðlagsskyldum foreldrum meðlög sem Tryggingastofnun ríkisins hefur greitt forráðamönnum barna þeirra. Í 5. gr. laganna er að finna heimild til handa Innheimtustofnun sveitarfélaga til að krefjast þess að launagreiðendur haldi eftir hluta af launum vegna meðlagskrafna. Finna má ítarlegri ákvæði um innheimtu meðlags í reglugerð nr. 68/1996, um innheimtu og skil á meðlögum o.fl. á vegum Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Í 4. gr. reglugerðarinnar kemur fram að meðlagskröfur Innheimtustofnunar sveitarfélaga skuli ganga fyrir öðrum kröfum, þar á meðal kröfum sveitarsjóða og innheimtumanna ríkissjóðs, að undanskilinni staðgreiðslu opinberra gjalda. Jafnframt kemur fram í 4. gr. að aldrei skuli launagreiðendur þó halda eftir meiru en nemur 50% af heildarlaunagreiðslu hverju sinni til greiðslu á meðlögum sem launagreiðanda er skylt að halda eftir af launum viðkomandi.
    Eins og sjá má er misræmi á milli laga um tekjuskatt og eignarskatt annars vegar og laga um Innheimtustofnun sveitarfélaga hins vegar. Ef reglan um 50% innheimtu meðlags væri nýtt til hins ýtrasta gæti launþegi setið eftir með 10% af launum þar sem kveðið er á um að staðgreiðsla gangi fyrir meðlagskröfu.
    Mikill launamunur og sívaxandi skuldir heimilanna eru einnig veigamikil rök fyrir því hve brýnt er orðið að settar verði raunhæfar reglur um neysluviðmiðun sem verði leiðbeinandi fyrir ýmsar stjórnvaldsákvarðanir sem snerta kjör og afkomu fólks í landinu.