Ferill 243. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 268  —  243. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um könnun á áhrifum fiskmarkaða.

Flm.: Svanfríður Jónasdóttir, Jóhann Ársælsson, Sighvatur Björgvinsson,


Jóhanna Sigurðardóttir, Sigríður Jóhannesdóttir, Kristján L. Möller.



    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að skipa nefnd sem hafi það hlutverk að gera úttekt á gildi fiskmarkaða fyrir íslenskan sjávarútveg og atvinnuþróun. Nefndin afli gagna, beri saman aðstæður og leggi þannig mat á áhrif fiskmarkaða, m.a. með tilliti til:
     1.      brottkasts,
     2.      verðmyndunar sjávarafla,
     3.      tekna útgerðar,
     4.      tekna sjómanna,
     5.      sérhæfingar í fiskvinnslu,
     6.      nýtingar áður vannýttra fisktegunda,
     7.      umgengni um og frágangs á afla um borð í fiskiskipum,
     8.      aðgengis fiskvinnslunnar að hráefni,
     9.      möguleika á nýliðun í fiskvinnslu,
     10.      erlendra markaða fyrir sjávarafla,
     11.      erlendra markaða fyrir sjávarafurðir,
     12.      verðs á útfluttum sjávarafurðum,
     13.      flutnings á afla innan lands,
     14.      stöðugleika í fiskvinnslu,
     15.      byggðaþróunar.

Greinargerð.


    Þær miklu breytingar sem hafa orðið og verða enn í íslenskum sjávarútvegi eiga m.a. rætur að rekja til tæknibreytinga á sviði fjarskipta og upplýsingastreymis, tækni og tækja sem leyst hafa mannshöndina af hólmi, bættra samgangna og möguleika til skjótra flutninga, fiskveiðistjórnunarkerfisins og markaðsvæðingar veiðanna, svo og þess að fiskmarkaðir hafa haslað sér völl á undanförnum árum.
    Á fiskmörkuðum eru nú árlega seld um 100 þúsund tonn af bolfiski fyrir um 10 milljarða kr. Flutningsmenn þessarar tillögu eru sannfærðir um mikilvægi fiskmarkaða fyrir þróun sjávarútvegs á Íslandi og telja því mikilvægt að gerð sé vönduð úttekt á helstu álitamálum sem fram hafa komið í umfjöllun um fiskmarkaði og mikilvægi þeirra.
    Við umræður á Alþingi um fiskmarkaði og þá hugmynd að allur fiskur verði seldur eða verðlagður á fiskmörkuðum hafa margvísleg sjónarmið komið fram. Hér á eftir fara helstu rök sem fram hafa komið í umræðunni, bæði með og á móti:
          Áhöfn er eignaraðili að sínum hlut um leið og afli kemur um borð. Samkvæmt samningum hefur útgerðarmaður með hendi sölu aflans og hefur til þess umboð áhafnar. Þá skal útgerðarmaður tryggja skipverjum hæsta gangverð fyrir fiskinn.
          Krafan um allan fisk á markað er meginkrafa allra samtaka sjómanna í dag.
          Sjómenn telja að samstarfsnefndir eða úrskurðarnefndir um fiskverð hafi ekki skilað því sem til var ætlast.
          Alþýðusamböndin fyrir austan og vestan hafa ályktað um að allur afli verði seldur á fiskmörkuðum.
          Kjör sjómanna eru ákveðin með hlutaskiptum.
          Nú eru árlega seld um 100 þús. tonn af bolfiski fyrir um 10 milljarða kr.
          Samstarf um land allt með nýjustu fjarskiptatækni gerir kleift að koma á viðskiptum hvar sem skip eða verkendur eru.
          Fiskmarkaðir hafa skapað tilverugrundvöll fyrir mörg fyrirtæki sem hafa sérhæft sig með tilliti til ákveðinna erlendra markaða.
          Til er orðinn markaður fyrir tegundir sem áður var e.t.v. hent á þeim forsendum að þær væru ekki söluvara.
          Viðhorf vinnslunnar hafa breyst, hún orðin meðvitaðri um markaðinn.
          Ef fiskmarkaðir hefðu ekki komið til hefði landvinnslan farið enn frekar halloka fyrir sjóvinnslunni.
          Verð sem fæst á mörkuðum er orðið viðmið fyrir verð í beinum viðskiptum.
          Stór hluti framsalsins er til sérhæfingar svo að unnt sé að tryggja vinnslunni tiltekið hráefni.
          Núverandi kerfi leiðir frekar til að menn sérhæfi sig með því að versla með óveiddan fisk en hráefni á mörkuðum.
          Mismunun felst í því að útvegsmenn fá úthlutað veiðiheimildum ókeypis og mega síðan selja öðrum aðgang að auðlindinni; þeir geta þannig ráðstafað óveiddum fiski að vild en hafa einnig ráðstöfunarvald yfir aflanum.
          Tortryggni hefur skapast milli sjómanna og útvegsmanna vegna dæma um að sjómenn séu látnir bera kostnað af kaupum eða leigu á aflaheimildum.
          Hagsmunir sjómanna og útvegsmanna fara saman við verðlagningu á sjávarafla.
          Að allur afli sé seldur á fiskmörkuðum er hagsmunamál vinnslunnar svo að hún geti sérhæft sig frekar.
          Eðlileg samkeppni þarf að vera um hráefni svo að þeir hæfustu verki fiskinn á hverjum tíma.
          Mismunun felst í því að sum vinnslufyrirtæki hafa veiðiheimildir en önnur ekki.
          Er æskilegt að forsenda fyrir vinnslu sé að menn fari í útgerð?
          „Reynslan af fiskmörkuðum bendir eindregið til þess að uppboð á veiddum fiski hafi aukið stöðugleika og sérhæfingu í fiskvinnslu“ samkvæmt grein Björns G. Ólafssonar í Vísbendingu.
          Ef skip eða kvóti er seldur úr byggðarlagi getur vinnslan haldið áfram ef hún á kost á að kaupa afla á fiskmarkaði. Þannig tryggir fiskmarkaðurinn meira öryggi og stöðugleika í vinnslunni og minnkar þá óvissu sem fylgir fiskveiðistjórnunarkerfinu.
          Innherjaviðskipti, eins og þegar útgerðarmaður selur eigin vinnslu aflann, eru ekki markaðsviðskipti. Engin trygging er fyrir því að hæsta verðs sé leitað í slíkum viðskiptum.
          Sömu rök eru notuð gegn sölu alls afla á fiskmarkaði og voru þegar fiskverð var gefið frjálst og þegar útflutningur á sjávarafurðum var gefinn frjáls.
          Sjómenn á vinnsluskipum fá greitt samkvæmt hlutaskiptareglu, ekki bara fyrir veiðarnar heldur vinnsluna líka, og fá þannig laun í samræmi við markaðsverð á þeirri afurð sem þeir koma með að landi.
          Verið er að takmarka viðskiptasvið með fisk.
          Telja verður andstætt markaðskerfinu að neyða menn til að eiga viðskipti með þessum tiltekna hætti.
          Nauðsynlegt er vegna gæðamála að sami aðili haldi utan um verðið frá því að fiskurinn er veiddur og þar til hann er seldur.
          Breytingar mundu trufla þróunarstarf.
          Allur afli seldur á fiskmarkaði veldur mismunun því að vinnsluskipin þurfa ekki að fara með sín viðskipti á fiskmarkað.
          Mögulegt verður að vera að selja afla af heimaskipi á verði undir markaðsverði til að halda vinnslunni heima gangandi.
          Eðlilegt er að menn hafi ráðstöfunarrétt yfir því sem þeir eru að bjóða til sölu.
          Menn verða að geta haft sitt eigið gæðaeftirlit frá því að veiðarnar hefjast og þar til vinnslu og sölu er lokið.
          Óvissa skapast í byggðum úti á landi ef útgerðarmönnum sem vilja landa þar er gert að landa á markaði.
          Fiskmarkaðir eru óþarfa milliliður sem greiða þarf umsýslugjald.
          Hagkvæmt að hluti aflans fari á fiskmarkað.
    Úttekt sú sem hér er lögð til breytir e.t.v. ekki viðhorfum þeirra sem sjá sér helst hag í óbreyttu ástandi. Hún getur hins vegar verið stjórnmálamönnum stuðningur við þær ákvarðanir sem þeir þurfa að taka um starfsumhverfi sjávarútvegsins. Þess vegna er mikilvægt að hún verði framkvæmd fljótt og af vandvirkni.