Ferill 156. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 418  —  156. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2000.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.



    Við lokaumræðu um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2000 er eðlilegt að horfa til baka og bera saman forsendur fjárlaganna og áætlaða útkomu ársins. Fjárlög ársins gerðu ráð fyrir að útgjöld næmu 193,2 milljörðum kr. og tekjur 209,9 milljörðum kr. Tekjujöfnuður var því áætlaður 16,7 milljarðar kr. Nú liggur fyrir að útgjöld aukast um rúma 8,2 milljarða kr. umfram fjárlög og að tekjur verði 224,1 milljarður kr. sem er 14,2 milljörðum kr. hærri fjárhæð en gert var ráð fyrir. Tekjujöfnuður er því áætlaður tæpir 23 milljarðar kr. Útgjöld ríkissjóðs hafa aukist að raungildi um rúma 50 milljarða kr. frá árinu 1994.
    Áætlað var að ríkissjóður tæki á árinu löng lán sem næmu 5,0 milljörðum kr. Nú er ljóst að lántökur verða mun meiri eða sem nemur 25,5 milljörðum kr. Ástæður þessa eru þær sem minni hlutinn benti á í fyrra við umræður um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2000, þ.e. veik gjaldeyrisstaða vegna mikils viðskiptahalla. Ríkissjóður hefur ekki getað greitt niður erlend lán vegna stöðu gengisins og hefur því þurft að taka ný erlend lán til að gera upp þau eldri.
    Ekki þarf að fara mörgum orðum um efnahagsforsendur fjárlaga fyrir árið 2000. Þær brugðust allar eins og fram kom í nefndaráliti 1. minni hluta við 2. umræðu um fjáraukalagafrumvarpið. Tekjuauki ríkissjóðs endurspeglar þá þenslu sem verið hefur á árinu. Þannig er áætlað að tekjuskattur einstaklinga hækki um rúm 14% frá árinu 1999 og að virðisaukaskattur aukist um 10% á milli ára. Gert er ráð fyrir að tekjur af reglulegri starfsemi ríkissjóðs, án sölu eigna o.fl., hafi hækkað um 8,4% milli ára. Allt eru þetta hækkanir langt umfram forsendur fjárlaga.
    Viðskiptahallinn hefur aukist um 14 milljarða kr. á árinu og stefnir í að verða 54 milljarðar kr. í árslok. Gangi það eftir verður halli á viðskiptajöfnuði 6,5% til 8,0% af landsframleiðslu í fjögur ár í röð. Ekki eru dæmi um svo mikinn halla í jafnlangan tíma frá 1970. Þjóðhagsstofnun spáir því að hallinn verði svipaður á næsta ári eða um 8% af landsframleiðslu og nemi þá tæplega 60 milljörðum kr. OECD, sem gerþekkir íslenskt efnahagslíf, er þó miklu svartsýnni fyrir hönd íslensks efnahagslífs. Stofnunin spáir því að viðskiptahallinn í ár verði miklu meiri en Þjóðhagsstofnun telur, eða 70 milljarðar kr. sem jafngildir 9,1% af landsframleiðslunni. OECD spáir svo að á næsta ári aukist viðskiptahallinn enn, eða í 10% af landsframleiðslu.
    Þessi mikli viðskiptahalli og skuldasöfnunin sem honum fylgir hefur aukið jafnt og þétt þrýstinginn á gengi íslensku krónunnar og hefur Seðlabankinn hvað eftir annað þurft að grípa inn í. Í þjóðhagsáætlun Þjóðhagsstofnunar fyrir árið 2001 er varað við afleiðingum af svo miklum og langvarandi viðskiptahalla en þar segir m.a.: „Mikill og langvarandi viðskiptahalli þjóða hefur því stundum verið undanfari skarprar gengislækkunar.“ Við slíkar aðstæður er mikil hætta á að verðbólga aukist enn frekar.
    Gert er ráð fyrir að hrein skuldastaða þjóðarbúsins verði um 78% af landsframleiðslu í lok þessa árs eða 11,2% hærri en um síðustu áramót. Reiknað er með að hrein skuldastaða hækki í 85% af landsframleiðslu fyrir lok næsta árs. Óhjákvæmilega hefur þessi þensla og væntingar landsmanna aukið á skuldasöfnun heimilanna og er áætlað að skuldir þeirra nemi um 600 milljörðum kr. í árslok samanborið við 510 milljarða kr. í árslok 1999. Þannig mun hlutfall milli skulda og ráðstöfunartekna heimilanna aukast verulega milli ára. Ekki má mikið út af bregða í efnahagsstjórninni til að illa fari hjá mörgum heimilum við slíkar aðstæður.
    Við 3. umræðu um frumvarpið leggur meiri hlutinn til útgjaldahækkanir að upphæð 452,1 millj. kr. Stærstu liðirnir lúta að heilbrigðisstofnunum. Um er að ræða leiðréttingar á rekstrargrunni ársins 1999 eins og það er orðað í greinargerð. Samtals nema þær leiðréttingar tæpum 230 millj. kr. Auk þess eru veittar 150 millj. kr. til að mæta kostnaði við sameiningu stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík. Í greinargerð Ríkisendurskoðunar sem birt var í nóvember sl. var gert ráð fyrir að halli á sjúkrastofnunum næmi um 600 millj. kr. í árslok 2000 þannig að enn virðist einhver vandi heilbrigðisstofnana eiga að bíða 3. umræðu fjárlaga fyrir árið 2001. Því er ljóst að þær lagfæringar sem gerðar voru á rekstrargrunni sjúkrastofnana við gerð fjárlaga fyrir árið 2000 hafa ekki haldið að öllu leyti.
    Að undanförnu hafa komið upp nokkur slæm dæmi um aðhaldsleysi við stjórn ríkisfjármála bæði vegna lélegrar áætlanagerðar og skorts á eftirliti. Nöturlegt dæmi um þetta eru nýlegar upplýsingar um framkvæmdir við Þjóðmenningarhúsið. Þær framkvæmdir eru alfarið á ábyrgð forsætisráðuneytisins eins og Ríkisendurskoðun hefur bent á. Við 1. umræðu um fjáraukalagafrumvarpið óskuðu fulltrúar Samfylkingarinnar eindregið eftir skýringum fjármálaráðherra á þeim mistökum sem urðu í tengslum við framkvæmdir í Þjóðmenningarhúsinu. Engin svör bárust. Við umfjöllun fjárlaganefndar um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2000 kom hins vegar fram að í sumar óskaði forsætisráðuneytið eftir því að Ríkisendurskoðun gerði rannsókn „á því hvað fór úrskeiðis þannig að læra mætti af mistökunum“ eins og segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar um málið. Tilurð skýrslunnar var upplýst í minnisblaði frá forsætisráðuneytinu til fjárlaganefndar eftir að óskað hafði verið eftir skýringum á því á fundi nefndarinnar með fulltrúa forsætisráðuneytisins hvað hefði valdið því að framkvæmdirnar höfðu farið 100 millj. kr. fram úr heimildum á fjárlögum ársins. Það er einkar athyglisvert að þrátt fyrir að upplýsingar hafi legið fyrir í forsætisráðuneytinu frá því í ágúst hafði ráðuneytið ekkert frumkvæði að því að upplýsa fjárlaganefnd um málið. Þetta er ámælisvert og enn eitt dæmið um skort á upplýsingum til nefndarinnar. Fyrir 2. umræðu um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2000 óskuðu fulltrúar Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd eftir að fá í hendur téða skýrslu. Hún barst þó ekki fyrr en að lokinni umræðunni.
    Í skýrslunni kemur m.a. fram að strax í janúar sl. var ljóst í hvað stefndi því þá þegar var verkið komið um 70 millj. kr. umfram fjárheimildir. Þessar upplýsingar komu fram á fundi sem m.a. fulltrúi forsætisráðuneytisins sat. Að mati Ríkisendurskoðunar áttu þessar upplýsingar að vera næg ástæða til viðbragða. Ekkert var aðhafst og örfáum mánuðum síðar taldi forsætisráðherra framkvæmdirnar vera til fyrirmyndar vegna þess m.a. að allar áætlanir hefðu staðist. Ef upplýsingastreymið innan forsætisráðuneytisins er með þessum hætti er erfitt að gera þá kröfu til ráðuneytisins að það hafi frumkvæði að því að upplýsa fjárlaganefnd um jafnalvarlega framúrkeyrslu og varð við framkvæmdirnar í Þjóðmenningarhúsinu.
    Fleira var merkilegt við janúarfundinn því þá fyrst voru lögð fram gögn um fjárhagsstöðu verksins þrátt fyrir að forsætisráðuneytið ætti að fá árlega skýrslu um stöðu verksins samkvæmt skipunarbréfi hússtjórnarinnar. Slík skýrsla var aldrei gerð af hálfu hússtjórnarinnar og aldrei kallaði forsætisráðuneytið eftir þessum upplýsingum á verktímanum þótt ráðuneytið sjálft hefði ákveðið að þessar upplýsingar ættu að vera fyrir hendi. Allt bendir til þess að framkvæmdirnar við Þjóðmenningarhúsið geti verið skólabókardæmi um hvernig ekki eigi að standa að slíkum framkvæmdum.

Alþingi, 3. des. 2000.



Einar Már Sigurðarson,


frsm.


Gísli S. Einarsson.


Össur Skarphéðinsson.