Ferill 332. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 431  —  332. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um textun íslensks sjónvarpsefnis.

Flm.: Sigríður Jóhannesdóttir, Ólafur Örn Haraldsson, Kolbrún Halldórsdóttir,


Katrín Fjeldsted, Guðjón A. Kristjánsson.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að beita sér fyrir því að íslenskt sjónvarpsefni verði textað eftir því sem við verður komið til hagsbóta fyrir heyrnardauft fólk sem við núverandi aðstæður á erfitt með að fylgjast með íslensku efni í sjónvarpi.

Greinargerð.


    Ljóst er að þeir sem eru heyrnarlausir eða heyrnardaufir eiga mun erfiðara með að fylgjast með innlendu sjónvarpsefni en erlendu þar sem aðaltengiliður þeirra við efnið er skrifaði textinn sem fylgir með. Hann hefur fram að þessu aðeins fylgt erlendu efni sem hefur verið íslenskað. Hópur þeirra sem eru heyrnarlausir eða svo heyrnardaufir að þeir eiga í erfiðleikum með að fylgjast með töluðu orði í ljósvakamiðlum er mjög stór. Þeir sem nota heyrnartæki að staðaldri eru 15–18 þúsund og auk þess geta margir heyrnardaufir ekki nýtt sér heyrnartæki. Alls er talið að 25–30 þúsund Íslendingar séu heyrnarskertir en þeir vilja lifa í íslensku málsamfélagi og geta það. Þetta er sennilega stærsti hópur fatlaðra í samfélaginu.
    Því miður hefur í mörgum tilfellum gengið erfiðlega að dempa aukahljóð í heyrnartækjum þannig að sumir heyrnardaufir varast að nota þau þegar þeir horfa á sjónvarp. Mörgum finnst orðið brýnt jafnréttismál að texta íslenskt sjónvarpsefni eftir því sem við verður komið. Slíkt hefur tíðkast í nágrannalöndum okkar, sumum nokkuð lengi. Auðvitað hlýtur alltaf eitthvert efni að vera undanskilið, svo sem fréttir sem berast á síðustu stundu og beinar útsendingar frá umræðum, en það yrði strax til mikilla bóta ef hafist yrði handa við að texta efni sem hægt væri að vinna þannig með góðu móti.
    Þess má geta að annars staðar á Norðurlöndum er textun innlends efnis orðin sjálfsögð í rekstri sjónvarpsstöðva. Einnig má benda á að textun íslensks efnis ýtir mjög undir bætta lestrargetu heyrnarskertra barna og unglinga, auk þess sem slík textun er mikilvægur stuðningur við nýbúa sem eru að læra málið. Það auðveldar þeim að skilja efnið geti þeir fylgst með skjátextanum jafnframt því sem þeir hlusta.