Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 551, 126. löggjafarþing 176. mál: Námsmatsstofnun (heildarlög).
Lög nr. 168 21. desember 2000.

Lög um Námsmatsstofnun.


1. gr.

     Námsmatsstofnun er sjálfstæð stofnun sem heyrir stjórnarfarslega undir menntamálaráðherra.
     Hlutverk stofnunarinnar er að annast framkvæmd samræmdra prófa á grunn- og framhaldsskólastigi, svo sem mælt er fyrir um í lögum, reglugerðum og aðalnámskrám, auk annarra verkefna á sviði námsmats og rannsókna sem tengjast því svo sem nánar er mælt fyrir um í lögum þessum.

2. gr.

     Helstu verkefni Námsmatsstofnunar eru að:
  1. sjá um samningu, framkvæmd og úrvinnslu samræmdra prófa og könnunarprófa í grunn- og framhaldsskólum,
  2. sjá um birtingu niðurstaðna samræmdra prófa gagnvart nemendum, skólum og fræðsluyfirvöldum og útgáfu heildaryfirlits með niðurstöðum í hverju prófi og prófþáttum eftir skólum og á landsvísu og öðrum upplýsingum sem skýra niðurstöður samræmdra prófa,
  3. miðla upplýsingum til skóla um nýtingu og túlkun á niðurstöðum prófa í einstökum skólum þannig að þau nýtist til þróunar skólastarfs þar og
  4. vinna að námsmatsrannsóknum og samanburðarrannsóknum við árangur skólastarfs í öðrum löndum.

     Stofnunin getur unnið að öðrum verkefnum á sviði námsmats og prófagerðar á grundvelli sérstakra samninga við menntamálaráðuneytið og aðra aðila.
     Menntamálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari fyrirmæli um verkefni stofnunarinnar.

3. gr.

     Forstöðumaður Námsmatsstofnunar er skipaður af menntamálaráðherra til fimm ára að fenginni umsögn stjórnar stofnunarinnar. Hann skal hafa lokið meistaraprófi eða hafa jafngilda þekkingu og reynslu og skal jafnframt hafa sýnt þann árangur í starfi að hann njóti viðurkenningar á starfssviði sínu. Forstöðumaðurinn annast yfirstjórn stofnunarinnar og daglegan rekstur, ber ábyrgð á fjárreiðum hennar og ræður aðra starfsmenn. Forstöðumaðurinn kemur fram fyrir hönd stofnunarinnar út á við.

4. gr.

     Forstöðumanni er heimilt að semja við aðra aðila um að sinna þjónustu sem stofnuninni er að lögum falið að annast.

5. gr.

     Menntamálaráðherra skipar þrjá menn í stjórn stofnunarinnar til fjögurra ára í senn svo sem hér segir: einn samkvæmt tilnefningu samstarfsnefndar háskólastigsins, einn samkvæmt tilnefningu Kennarasambands Íslands og einn án tilnefningar og skal hann vera formaður. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
     Stjórnin staðfestir starfsáætlanir stofnunarinnar og fylgist með framkvæmd þeirra. Stjórnin veitir menntamálaráðherra umsögn um ráðningu forstöðumanns.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 76/1993, um Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Umboð núverandi ráðgjafarnefndar Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála fellur niður við gildistöku laga þessara.
     Núverandi forstöðumaður Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála gegnir embætti sínu út yfirstandandi skipunartímabil sitt. Að því loknu skal skipa forstöðumann Námsmatsstofnunar í samræmi við ákvæði laga þessara.
     Starfsmenn Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála við gildistöku laga þessara skulu halda óbreyttum starfskjörum.
     Námsmatsstofnun tekur við skuldbindingum sem gerðar hafa verið í nafni Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála við gildistöku laga þessara.

Samþykkt á Alþingi 14. desember 2000.