Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1243, 116. löggjafarþing 557. mál: Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála (heildarlög).
Lög nr. 76 19. maí 1993.

Lög um Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála.


1. gr.

     Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála skal vera sjálfstæð vísindaleg stofnun er heyrir undir menntamálaráðherra.

2. gr.

     Stofnunin skiptist í tvær deildir, rannsókna- og þróunardeild og prófa- og matsdeild.

3. gr.

     Helstu verkefni rannsókna- og þróunardeildar eru:
  1. Vinna að rannsóknum á sviði uppeldis- og menntamála með sérstakri áherslu á verkefni er haft geta hagnýta og/eða fræðilega þýðingu fyrir uppeldis- og menntamál í landinu.
  2. Veita faglega ráðgjöf um rannsóknir og þróunarverkefni á sviði uppeldis- og menntamála.
  3. Veita kennurum, kennaraefnum og háskólastúdentum í framhaldsnámi á sviði uppeldis- og menntamála þjálfun og ráðgjöf í fræðilegum vinnubrögðum eftir því sem aðstæður leyfa.
  4. Kynna íslenskar og erlendar rannsóknir á sviði uppeldis- og menntamála.


4. gr.

     Helstu verkefni prófa- og matsdeildar eru:
  1. Sjá um samningu og úrvinnslu samræmdra prófa og könnunarprófa. Kennarar skulu taka þátt í prófagerð.
  2. Hafa umsjón með mati á úrlausnum slíkra prófa, sérstaklega lokaprófs viðkomandi skólastigs.
  3. Sjá um mat á skólastarfi. Niðurstöður slíks mats skal birta opinberlega að jafnaði á fjögurra ára fresti.
  4. Ráðgjöf til menntamálaráðherra um aðalnámsskrá grunnskóla og námsskrá framhaldsskóla ef þurfa þykir í ljósi mats stofnunarinnar á starfi skólanna og þróunar í skólastarfi.


5. gr.

     Starfi stofnunarinnar stýrir forstöðumaður, ráðinn til fimm ára í senn. Forstöðumaður skal uppfylla þær hæfniskröfur sem gerðar eru til prófessora við Háskóla Íslands. Forstöðumaður ræður aðra starfsmenn.

6. gr.

     Háskólakennurum, kennurum og öðrum sérfræðingum í opinberri þjónustu er heimilt að inna vinnuskyldu sína, eða hluta hennar, af hendi með störfum innan stofnunarinnar að fengnu samþykki forstöðumanns.

7. gr.

     Menntamálaráðherra skipar ráðgjafarnefnd til fimm ára í senn er vera skal forstöðumanni stofnunarinnar til faglegrar ráðgjafar. Í nefndinni skulu eiga sæti sex fulltrúar, einn skipaður af menntamálaráðherra án tilnefningar og er hann formaður nefndarinnar, tveir fulltrúar tilnefndir sameiginlega af Kennarasambandi Íslands og Hinu íslenska kennarafélagi og skal annar þeirra vera grunnskólakennari og hinn framhaldsskólakennari, einn samkvæmt tilnefningu Háskóla Íslands, einn samkvæmt tilnefningu Háskólans á Akureyri og einn samkvæmt tilnefningu Kennaraháskóla Íslands. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.

8. gr.

     Meta skal starf stofnunarinnar á þriggja ára fresti af þar til kvöddum sérfræðingum sem ráðgjafarnefnd og ráðherra kalla til.

9. gr.

     Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd þessara laga.

10. gr.

     Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög nr. 69/1988, um Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála, og 65. gr. laga nr. 49/1991. Úr 68. gr. sömu laga falla brott orðin „skólum, skólastarfi“, svo og önnur lagaákvæði er fara kunna í bága við ákvæði laga þessara.

11. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 7. maí 1993.