Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 606, 126. löggjafarþing 214. mál: jöfnun flutningskostnaðar á sementi (stjórnarmenn o.fl.).
Lög nr. 151 20. desember 2000.

Lög um breytingu á lögum um jöfnun flutningskostnaðar á sementi, nr. 62 30. apríl 1973, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
  1. 2. mgr. orðast svo:
  2.      Flutningsjöfnunargjaldið skal reikna og greiða á hvert selt tonn af sementi. Skulu innlendir framleiðendur og innflytjendur, sem stunda endursölu á sementi á minnst tveimur verslunarstöðum sem jafnframt eru aðaltollhafnir, greiða gjaldið til flutningsjöfnunarsjóðs sements af sölu í hverjum mánuði eigi síðar en á síðasta virka degi að tveimur mánuðum liðnum frá lokum sölumánaðar. Flutningsjöfnunargjald af öðru innfluttu sementi skal innheimt með aðflutningsgjöldum. Annast tollstjórar innheimtuna og skulu þeir skila gjaldinu til flutningsjöfnunarsjóðs sements.
  3. Við bætist ný málsgrein er orðast svo:
  4.      Þrátt fyrir 1. mgr. skal ekki leggja flutningsjöfnunargjald á sement sem notað er til framleiðslu á viðgerðarefnum eða tilbúnum múrblöndum. Flutningsjöfnunarsjóður greiðir ekki flutningskostnað á sementi til þeirra nota.


2. gr.

     1. málsl. 5. gr. laganna orðast svo: Viðskiptaráðherra skipar til fjögurra ára í senn flutningsjöfnunarsjóði þriggja manna stjórn án tilnefningar og skipar viðskiptaráðherra formann sjóðstjórnar.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
  1. 2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Er stjórninni meðal annars heimilt að ákveða að jöfnun flutningskostnaðar milli tiltekinna verslunarstaða, þar á meðal framleiðslustaðar eða aðaltollhafnar og annarra verslunarstaða, skuli takmörkuð við kostnað af þeim flutningsháttum sem ódýrastir eru á hverjum tíma og skemmstu flutningsleið.
  2. 2. mgr. fellur brott.


4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 16. desember 2000.