Ferill 412. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 667  —  412. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um fullgildingu samnings milli Evrópubandalagsins og lýðveldisins Íslands og konungsríkisins Noregs um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi.

(Lögð fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning sem Evrópubandalagið og lýðveldið Ísland og konungsríkið Noregur gera með sér um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
1.1 Almennt.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á samningi sem Evrópubandalagið og lýðveldið Ísland og konungsríkið Noregur gera með sér um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi, hér eftir vísað til sem „samningurinn“. Samningurinn er prentaður sem fylgiskjal I með tillögu þessari.
    Þegar Schengen-samstarfið kom til framkvæmda milli þáverandi aðildarríkja þess var fellt niður persónueftirlit á sameiginlegum landamærum þeirra. Það leiddi til þess að allir innan svæðisins gátu ferðast án hindrana á landamærum milli ríkjanna, einnig þeir sem leitað höfðu hælis á svæðinu og þeir sem dvöldust þar með ólögmætum hætti.
    Til að bregðast við þessari stöðu var að finna ákvæði í Schengen-samningnum sem síðar hafa verið yfirtekin með Dyflinnarsamningnum.
    Samkvæmt 7. gr. samnings sem ráð Evrópusambandsins og lýðveldið Ísland og konungsríkið Noregur gera með sér um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna, hér eftir vísað til sem „Brusselsamningurinn“, sem fullgiltur var af Íslands hálfu 26. maí 2000, voru samningsaðilar sammála um að gera þyrfti viðeigandi samkomulag um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skyldi fara með beiðni um hæli sem lögð væri fram í einhverju af aðildarríkjunum eða á Íslandi eða í Noregi. Fram kemur og í ákvæðinu að samkomulag þetta þurfi að vera frágengið þegar Brusselsamningurinn kemur til framkvæmda en ákveðið hefur verið að það verði 25. mars 2001. Er því ljóst að fullgilding þessa samnings þarf að fara fram fyrir lok febrúar 2001 svo uppfylla megi þessa samningsskuldbindingu, sbr. 2. mgr. 14. gr. samningsins.
    Samningurinn tengir Ísland og Noreg við framkvæmd svonefnds Dyflinnarsamnings auk tveggja ákvarðana sem teknar hafa verið í tengslum við framkvæmd hans af svonefndri „18. gr. nefnd“ sem starfar á grunni hans, sjá fylgiskjöl II.–IV. Samningurinn mun einnig tengja Ísland og Noreg við framkvæmd svokallaðrar EURODAC-reglugerðar sem samþykkt var af ráðherraráði ESB 11. desember 2000 og prentuð er sem fylgiskjal V með tillögu þessari. Jafnframt felur samningurinn í sér að ríkin tvö geta tengst réttarreglum EB á þessu sviði sem samþykktar verða í framtíðinni á því afmarkaða sviði sem hér um ræðir.

1.2 Um Dyflinnarsamninginn.
    Dyflinnarsamningurinn, sem fjallar um það hvaða ríki beri ábyrgð á umfjöllun um beiðni um hæli sem lögð er fram í einhverju aðildarríkja Evrópubandalaganna, var undirritaður 15. júní 1990 og kom til framkvæmda árið 1997. Markmið samningsins er að leitast við að hindra að umsækjanda um hæli sé af yfirvöldum vísað frá einu ríki til annars án þess að tekið sé á umsókn hans um hæli. Samningurinn tryggir umsækjanda um hæli að hann fær meðferð umsóknar sinnar í einu ríki og inniheldur samningurinn reglur um það hvernig ákveðið skuli hvaða ríki það er hverju sinni sem ber skyldur að þessu leyti. Samningnum er einnig ætlað að fyrirbyggja að umsóknir um hæli, sem lagðar eru fram í fleiri en einu aðildarríki, verði teknar til meðferðar í fleiri en einu aðildarríki. Í samningnum felst og að hafi umsókn um hæli verið hafnað í einu aðildarríki og umsækjandi sækir í framhaldi um hæli í öðru aðildarríki þá er hinu síðarnefnda heimilt að snúa umsækjanda til baka til þess fyrrnefnda án þess að taka umsóknina til meðferðar. Á hinn bóginn er síðarnefnda ríkinu ávallt heimilt að taka umsóknina til meðferðar þó því sé það ekki skylt á grunni Dyflinnarsamningsins.
    Rétt er að taka fram að sú stefna sem mun ráða við meðferð umsókna á Íslandi er sú stefna sem mótuð er af íslenskum stjórnvöldum. Þannig mælir Dyflinnarsamningurinn einvörðungu fyrir um málsmeðferðarreglur en ekki um innihald stefnu viðkomandi ríkis. Einnig ber að nefna að samningurinn vísar sérstaklega til flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna frá 1951 og viðbótarbókunar við hann frá 1967 en Ísland hefur fullgilt hvort tveggja. Reynslan af framkvæmd Dyflinnarsamningsins hefur leitt í ljós að ýmislegt má betur fara. Meðal annars hefur reynst erfitt að skera úr í einstökum tilvikum hvaða aðildarríki skuli bera ábyrgð á meðferð hælisumsóknar þar sem erfitt hefur reynst að leiða í ljós hvar umsækjandi hefur haldið sig eða hvaða leið hann hefur komið inn á samningssvæðið. Af þessum sökum hefur ESB leitast við að styrkja og efla samstarf aðildarríkjanna á þessu sviði og í því skyni samþykkt að setja á fót miðlægt kerfi er geymi skrár yfir fingraför þeirra er leitað hafa hælis á svæðinu og tiltekins hóps ólöglegra innflytjenda. Ráðgert er að kerfið verði tekið í notkun á árinu 2002 (EURODAC).

2. Samantekt um samninginn.
    Samningurinn sem nú er lagt til að ríkisstjórn Íslands verði heimilt að fullgilda tekur á stofnanalegum þáttum samstarfs Íslands og Noregs við ESB á sviði Dyflinnarsamningsins. Samningurinn felur í sér að ríkin tvö taki yfir og hrindi í framkvæmd öllum ákvæðum Dyflinnarsamningsins utan 16.–22. gr. en þau ákvæði fjalla einvörðungu um stofnanaleg atriði er varða samskipti aðildarríkja ESB. Auk þess munu ríkin tvö taka yfir og hrinda í framkvæmd tveimur ákvörðunum um nánari framkvæmd Dyflinnarsamningsins sem teknar hafa verið af svokallaðri 18. gr. nefnd. Jafnframt er gert ráð fyrir því í samræmi við yfirlýsingu í samningnum að Ísland og Noregur taki yfir ákvörðun nefndarinnar um sameiningu fjölskyldna en sú ákvörðun var nýlega tekin af nefndinni. Að sama skapi er gert ráð fyrir að ríkin taki þátt í samstarfi um stofnun EURODAC-kerfisins í samræmi við reglugerð EB sem samþykkt var 11. desember 2000.
    Dyflinnarsamningurinn gerir ráð fyrir að allar ákvarðanir um nýjar reglur verði teknar með einróma samþykki í svonefndri 18. gr. nefnd. Amsterdamsáttmáli ESB gerir hins vegar ráð fyrir að eigi síðar en 2004 komi EB-reglur í stað samningsins en samningur Íslands og Noregs við Evrópubandalagið gerir ráð fyrir að ríkin tvö eigi samstarf við ESB hvort heldur er um gildandi löggjöf að ræða eða þá löggjöf sem samþykkt verður í framtíðinni.
    Eftir að Amsterdamsáttmáli aðildarríkja ESB gekk í gildi er það framkvæmdastjórnin sem kemur fram fyrir hönd ESB gagnvart þriðju ríkjum á sviði útlendingamálefna. Af þessum sökum gerir samningurinn ráð fyrir að sett sé á fót sameiginleg nefnd þar sem fulltrúar samningsaðila eiga sæti, þ.e. Íslands, Noregs og Evrópubandalagsins, en framkvæmdastjórnin mun þar koma fram fyrir hönd bandalagsins.
    Gert er ráð fyrir því í þeim tilvikum að 18. gr. nefndin kemur saman til að fjalla um nýjar reglur að boðað verði til fundar í sameiginlegu nefndinni á sama tíma. Þegar framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins undirbýr tillögur að nýrri löggjöf á samningssviðinu er gert ráð fyrir að hún leiti ráðgjafar hjá íslenskum og norskum sérfræðingum með sama hætti og hjá sérfræðingum aðildarríkjanna. Fulltrúar Íslands og Noregs geta lagt fram tillögur í sameiginlegu nefndinni en í þeim tilvikum að slík tillaga felur í sér breytingar á gildandi reglum er gert ráð fyrir því að slík tillaga verði tekin upp af framkvæmdastjórninni eða einhverju aðildarríki og lögð fram innan ESB til frekari meðferðar auk þeirrar meðferðar sem hún hlýtur innan sameiginlegu nefndarinnar. Að svo miklu leyti sem framkvæmdastjórninni mun í framtíðinni verða framselt vald til að setja fyllri reglur á samningssviðinu er gert ráð fyrir að Ísland og Noregur geti lagt fram tillögur beint í þeim nefndum sem aðstoða framkvæmdastjórnina hvað þetta varðar. Eru þessar reglur mótaðar út frá ákvæðum EES-samningsins.
    Með sama hætti og í Brusselsamningnum er gert ráð fyrir að Ísland og Noregur taki sjálfstæða ákvörðun um það hverju sinni hvort þau kjósa að fallast á ákvörðun sem ESB hefur tekið á samningssviðinu að undangenginni meðferð í sameiginlegu nefndinni. Í þeim tilvikum að ríkin tvö kjósa að gangast ekki undir tiltekna ákvörðun eða hrinda henni ekki í framkvæmd er gert ráð fyrir því að sameiginlega nefndin takið málið fyrir og meti innan 90 daga allar leiðir sem mögulegar eru til að framkvæma samninginn áfram. Finnist ekki lausn að þessu leyti fellur samningurinn úr gildi.
    Með sama hætti og í Brusselsamningnum er gert ráð fyrir að samningsaðilar tryggi samræmda túlkun og framkvæmd ákvæða samningsins með þeim hætti að fylgjast með þróun dómaframkvæmdar dómstóls EB svo og með þróun dómaframkvæmdar þar til bærra dómstóla á Íslandi og í Noregi. Á hinn bóginn hefur hvorki dómstóll EB né framkvæmdastjórn þess valdheimildir gagnvart Íslandi eða Noregi.
    Komi upp verulegur munur á túlkun reglnanna eða framkvæmd þeirra að því er varðar Ísland eða Noreg þá skal taka málið upp í sameiginlegu nefndinni en nefndin hefur 180 daga til að finna lausn á málinu. Finnist ekki lausn fellur samningurinn úr gildi.
    Jafnframt inniheldur samningurinn ákvæði um lausn ágreiningsmála auk þess sem uppsagnarákvæði er að finna í samningnum.
    Að lokum er að finna ákvæði að því er varðar fjárhagslegt framlag í tengslum við samninginn en í því efni er miðað við sams konar skiptingu kostnaðar og í Brusselsamningnum.

3. Samningsniðurstaða.
3.1 Almennt.
    Eins og getið var að framan er gert ráð fyrir því að þátttaka Íslands og Noregs í framkvæmd Dyflinnarsamningsins verði komin til framkvæmda áður en Schengen-samstarfið hefst á Norðurlöndum. Með Brusselsamningnum var sett á fót svokölluð samsett nefnd þar sem fulltrúar Íslands, Noregs og aðildarríkja Evrópubandalagsins koma saman og ræða ólík mál á samningssviðinu. Brusselsamningurinn var gerður á grundvelli bókunar við Amsterdamsáttmála aðildarríkja ESB á milli ríkjanna tveggja annars vegar og ráðs ESB hins vegar. Að áliti ESB náði framangreind bókun ekki yfir Dyflinnarsamninginn og af þeim sökum skyldi framkvæmdastjórnin koma fram fyrir hönd aðildarríkja sambandsins á þessu sviði en ekki ráðherraráðið. Er þetta grunnástæða þess að samstarfinu á sviði Dyflinnarsamningsins er valið annað form og önnur umgjörð en er að finna í Brusselsamningnum. Þannig munu fulltrúar Íslands og Noregs hitta framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins í stað aðildarríkjanna þegar kemur að umræðu um þau atriði er falla undir þennan samning.

3.2 Sameiginleg nefnd.
    Í tengslum við þátttöku Íslands og Noregs í framkvæmd Dyflinnarsamningsins er sett á fót sameiginleg nefnd samningsaðila þar sem sitja fulltrúar Íslands, Noregs og framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins. Í sameiginlegu nefndinni fara fram viðræður samningsaðila um framkvæmd og frekari þróun þeirra reglna sem er að finna í Dyflinnarsamningnum og þeim ákvörðunum og gerðum er framkvæmd hans tengjast. Markmið nefndarinnar er að tryggja samræmda framkvæmd reglnanna á Íslandi, í Noregi og innan ESB. Jafnframt er nefndinni ætlað að vera vettvangur til að leysa ágreiningsmál milli samningsaðila. Nefndin kemur saman á viðeigandi vettvangi eftir því sem aðstæður krefjast.
    Ljóst er að þær aðstæður geta komið upp að mikilvægt reynist að geta rætt atriði við fulltrúa aðildarríkjanna sjálfra og af þeim ástæðum er samkomulag um það að framkvæmdastjórnin mun í öllum tilvikum bjóða fulltrúum þeirra til setu á fundum nefndarinnar í því skyni að ræða þau atriði sem samningurinn nær yfir. Til að undirstrika mikilvægi þess að aðildarríkin taki þátt í fundum nefndarinnar er að finna í samningnum yfirlýsingu aðildarríkja ESB um að þau muni taka þátt í fundum nefndarinnar.
    Sameiginlegu nefndinni er ætlað að ræða framkvæmd þeirra reglna sem vísað er til í samningnum ásamt því að skiptast á skoðunum um frekari þróun þeirra. Þannig taka fulltrúar ríkjanna tveggja þátt í mótun nýrra reglna á grunni Dyflinnarsamningsins og mótaðar eru í 18. gr. nefndinni auk þess sem þeir munu taka þátt í mótun reglna í framtíðinni á grundvelli nýrrar löggjafar ESB á þessu sviði.
    Með sama hætti og samkvæmt Brusselsamningnum er gert ráð fyrir því að starf nefndarinnar verði nánar útfært í sérstökum starfsreglum er nefndin sjálf setur sér. Í samræmi við yfirlýsingu með 3. gr. samningsins er gert ráð fyrir að reglurnar muni m.a. fjalla um hvaða reglur skuli gilda um meðferð skjala sem nefndin hefur til umfjöllunar.
    Auk þessa er gert ráð fyrir því að framkvæmdastjórnin sendi fulltrúum Íslands og Noregs tillögur sínar á þeim sviðum er varða samninginn með sama hætti og aðildarríkjum bandalagsins. Með sama hætti skal tilkynna Íslandi og Noregi innan sameiginlegu nefndarinnar um dómaframkvæmd EB-dómstólsins á samningssviðinu auk þess sem ríkin tvö gera með sama hætti grein fyrir réttarframkvæmd innan ríkjanna hvort heldur er dómstóla eða stjórnvalda.

3.3 Undirbúningur og samþykkt nýrra gerða.
    Þegar fjallað er um þennan þátt samningsins er rétt að greina annars vegar á milli gerða sem samþykktar eru á grunni núverandi Dyflinnarsamnings og hins vegar gerða sem samþykktar verða á grundvelli breyttra reglna samkvæmt Amsterdamsáttmálanum.
    Að því er varðar hið fyrrnefnda þá er það Dyflinnarsamningurinn sjálfur sem myndar rammann um samstarfið og inniheldur þær meginreglur sem aðildarríkin fylgja. Auk þess er gert ráð fyrir því að 18. gr. nefndin taki frekari ákvarðanir um nánari framkvæmd einstakra þátta samningsins sjálfs. Fram að þessu hefur nefndin tekið fjórar ákvarðanir en þrjár þeirra varða samning Íslands og Noregs með einum eða öðrum hætti. Gert er ráð fyrir að starf nefndarinnar verði takmarkað á næstu missirum með hliðsjón af þeim breytingum sem leiða af Amsterdamsáttmálanum. Samkomulag er um það meðal samningsaðila að fundir í sameiginlegu nefndinni verði ávallt haldnir í tengslum við fundi 18. gr. nefndarinnar auk þess sem hið sama gildir um fundi sérfræðinga sem haldnir eru til undirbúnings fundum í 18. gr. nefndinni. Má í þessu sambandi vísa til yfirlýsingar sem fylgir samningnum.
    Eins og fram hefur komið gerir Amsterdamsáttmálinn ráð fyrir því að í stað Dyflinnarsamningsins verði settar nýjar reglur af hálfu Evrópubandalagsins. Í því felst að það verður ráðherraráð ESB sem tekur ákvarðanir um nýjar gerðir í stað 18. gr. nefndarinnar. Á sama tíma mun framkvæmdastjórnin fá lykilhlutverk í tengslum við undirbúning og útfærslu á nýjum reglum á þessu sviði. Fulltrúar Íslands og Noregs munu taka þátt í mótun þessara nýju reglna ásamt fulltrúum framkvæmdastjórnarinnar í sameiginlegu nefndinni.
    Við undirbúning nýrra reglna hefur framkvæmdastjórnin oft þann hátt á að leita eftir ráðgjöf sérfræðinga aðildarríkjanna. Með sama hætti ber framkvæmdastjórninni á samningssviðinu að leita óformlega eftir ráðgjöf sérfræðinga Íslands og Noregs. Með sama hætti skal framkvæmdastjórnin tryggja þátttöku sérfræðinga Íslands og Noregs í undirbúningsstarfi af þessu tagi auk þess sem hún skal kynna ráðherraráðinu sjónarmið ríkjanna tveggja eftir því sem þörf er á. Ákvæði að þessu leyti eru sambærileg þeim sem er að finna í Brusselsamningnum og EES-samningnum.
    Í þeim þáttum samstarfs aðildarríkja ESB sem falla undir fyrstu stoð sambandsins getur ráðherraráðið framselt vald á einstökum sviðum til framkvæmdastjórnarinnar til að setja fyllri reglur á þessum sviðum eða til að taka nauðsynlegar ákvarðanir í tengslum við framkvæmd tiltekinnar löggjafar. Í þeim tilvikum kallar framkvæmdastjórnin sér til aðstoðar sérfræðinga frá aðildarríkjunum. Komi til þessa er gert ráð fyrir því í samningnum að fulltrúar Íslands og Noregs njóti sömu stöðu og fulltrúar aðildarríkjanna. Að því er varðar ákvarðanatöku um nýjar reglur á samningssviðinu þá er það ráðherraráð ESB sem tekur bindandi ákvarðanir að því er varðar aðildarríki þess. Að því búnu ákveða Ísland og Noregur hvort í sínu lagi hvort þau samþykkja efni þessara ákvarðana og taka þær upp í landsrétt sinn en þau verða einungis bundin að þau taki ákvörðun með þessum hætti. Þær reglur er gilda um það með hvaða hætti Ísland tekur þessa ákvörðun eru þær sömu og gilda á grunni Brusselsamningsins. Þegar Ísland tekur ákvörðun um að samþykkja reglur er breyta eða byggjast á reglum þeim sem er að finna í samningnum verður Ísland bundið að þjóðarétti frá þeim tímapunkti sem samið hefur verið um í tengslum við viðkomandi gerð eða felst í samningnum sjálfum. Má ætla að þær reglur sem hér um ræður verði flestar með þeim hætti að þær megi framkvæma hér á landi án lagabreytinga. Í þeim tilvikum að svo er ekki munu reglur íslensks réttar um gerð þjóðréttarsamninga skera úr um málsmeðferð og eftir atvikum um aðkomu Alþingis að meðferð einstakra mála. Í samningnum er gert ráð fyrir því að í einstökum tilvikum verði unnt að ákveða gildistökudag gerðar sem er annar en gildir fyrir aðildarríki ESB. Í því sambandi kemur til skoðunar hverju sinni sá tími sem Ísland og Noregur telja sig þurfa til að tryggja að viðkomandi gerð verði innleidd í landsrétt með stjórnskipulega réttum hætti. Í þeim tilvikum að nauðsynlegt reynist að leggja mál fyrir Alþingi skal Ísland tilkynna það til ESB eigi síðar en 30 dögum eftir að ráðherraráðið hefur samþykkt gerðina. Endanleg tilkynning um afstöðu Íslands verður því ekki send fyrr en málsmeðferð á Alþingi er lokið og er miðað við að sú tilkynning eigi sér stað eigi síðar en sex mánuðum eftir að tilkynning ESB barst.
    Í þeim tilvikum að Ísland samþykkir ekki nýjar gerðir kemur til kasta ákvæða samningsins er mæla fyrir um að möguleikar skuli skoðaðir til að viðhalda samningnum þrátt fyrir stöðu af þessu tagi. Finnist ekki lausn í því efni innan 90 daga fellur samningurinn úr gildi eftir atvikum að því er varðar Ísland eða Noreg.

3.4 Lausn ágreiningsmála.
    Ákvæði 8. gr. samningsins um lausn ágreiningsmála er byggt á samsvarandi ákvæði í Brusselsamningnum. Að auki getur reynt á ákvæðið í tengslum við ákvarðanir er fyrirhugað er að taka með vísan til þess öryggisákvæðis sem er að finna í 5. gr. samningsins.
    Það eru þrenns konar aðstæður sem geta leitt til þess að ágreiningsmál komi upp sem kalli á málsmeðferð skv. 8. gr. Í fyrsta lagi getur til þess komið ef í ljós kemur verulegur munur á túlkun eða framkvæmd reglna þeirra sem vísað er til í samningnum milli aðildarríkjanna og sameiginlegu nefndinni hefur ekki tekist að leysa. Í öðru lagi kann ágreiningur að rísa um stofnanaleg atriði er tengjast framkvæmd samningsins. Í þriðja lagi kemur til kasta 8. gr. í þeim tilvikum að aðgerðir skv. 5. gr. eru fyrirhugaðar.
    Að öðru leyti er samningsaðilum heimilt að taka upp í sameiginlegu nefndinni hvert það vandamál sem kann að koma upp í tengslum við framkvæmd samningsins. Er nefndinni þá ætlað að ræða lausnir sem leyst geta viðkomandi vandkvæði en takist það ekki kemur til kasta 8. gr. um lausn ágreiningsmála.
    Komi til kasta ákvæða 8. gr. er gert ráð fyrir því að málið verði sett á dagskrá sameiginlegu nefndarinnar en samþykkt dagskrárinnar með þessum dagskrárlið markar upphaf þess 90 daga frests sem er til reiðu til að leysa málið. Verði þessir 90 dagar ekki til þess að leysa málið hefur nefndin 90 daga til viðbótar til að finna á því endanlega lausn en nefndin tekur ákvarðanir með einróma samþykki. Finnist ekki lausn fellur samningurinn úr gildi að því er varðar eftir atvikum Ísland eða Noreg.

3.5 Uppsögn samningsins.
    Allir samningsaðilar hafa rétt til að segja samningnum upp og eru engin skilyrði sett fyrir slíkri aðgerð. Segi Evrópubandalagið samningnum upp hefur það virkni bæði gagnvart Íslandi og Noregi en ríkin tvö geta sagt samningnum upp hvort í sínu lagi.
    Uppsögn kemur til framkvæmda sex mánuðum eftir að hún er tilkynnt.

4. Einstök ákvæði.
    Samningurinn hefur að geyma 15 greinar ásamt viðauka. Samningnum fylgja fimm sameiginlegar yfirlýsingar.
    Í þessum kafla verður gefið yfirlit yfir efni samningsins í heild sinni. Í þeim tilvikum að einstakar yfirlýsingar varða tiltekin ákvæði samningsins verður þeirra getið í tengslum við viðkomandi ákvæði.
    Aðilar að samningnum eru Ísland, Noregur og Evrópubandalagið. Þrátt fyrir að Evrópubandalagið sé aðili að samningnum en ekki einstök aðildarríki þess leiðir það af 1. gr. og 5. mgr. 4. gr. að þær reglur sem samningurinn nær yfir skapa gagnkvæm réttindi og gagnkvæmar skyldur milli Íslands og Noregs og aðildarríkja EB.

Um aðfaraorð.


    Í aðfaraorðum samningsins er lýst aðdraganda samningsgerðarinnar og markmiðum samningsaðila. Vísað er til 7. gr. Brusselsamningsins frá 18. maí 1999 þar sem fram kemur að gera þyrfti viðeigandi samkomulag um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í einhverju af aðildarríkjunum eða á Íslandi eða í Noregi. Jafnframt er vísað til ákvarðana sem teknar hafa verið af 18. gr. nefndinni og að tenging Íslands og Noregs við Dyflinnarsamninginn verði einnig að ná yfir þessar ákvarðanir. Svo og er vísað til tilskipunar 95/46/EB um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga en hún skal vera grundvöllur að meðferð persónuupplýsinga samkvæmt samningnum, sbr. hér á landi lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Að því búnu er vísað til þess að Ísland og Noregur séu ekki aðildarríki ESB og því sé nauðsynlegt að setja á fót skipulag er tryggi tengsl Íslands og Noregs við frekari þróun reglna á samningssviðinu. Tekið er fram í aðfaraorðunum að samningsaðilar geri sér grein fyrir nauðsyn þess að tryggja þátttöku Íslands og Noregs á öllum stigum með tilliti til framkvæmdar Dyflinnarsamningsins, beitingar hans í reynd og frekari þróunar hans. Með þetta að leiðarljósi koma samningsaðilar á fót sameiginlegri nefnd sem tryggir aðkomu Íslands og Noregs að undirbúningi ákvarðana á þessu sviði. Að lokum er vísað til reglugerðar um EURODAC sem hluta af samningnum með það í huga að framkvæmd hennar verði hliðstæð á Íslandi, í Noregi og í Evrópubandalögunum.

Um 1. gr.


    Í 1. gr. samningsins kemur fram að Ísland, Noregur og Evrópubandalagið skuli framkvæma Dyflinnarsamninginn ásamt tengdum reglum sem tilgreindar eru í viðauka við samninginn í gagnkvæmum samskiptum þeirra og í samskiptum við aðildarríki ESB. Jafnframt skulu ríkin tvö taka þátt í framkvæmd ákvæða reglugerðar um skráningu og samanburð á fingraförum (EURODAC).

Um 2. gr.


    Í 2. gr. er fjallað um þá málsmeðferð sem skal viðhöfð þegar framkvæmdastjórnin leggur fram tillögur að nýjum reglum. Skv. 1. mgr. skal framkvæmdastjórnin leita ráða hjá íslenskum og norskum sérfræðingum á sama hátt og hún leitar ráða hjá sérfræðingum frá aðildarríkjunum þegar hún undirbýr tillögur að nýjum reglum sem byggðar eru á a-lið 1. mgr. 63. gr. Rómarsáttmálans svo sem honum hefur verið breytt á sviði sem fellur undir viðfangsefni viðaukans við samninginn eða EURODAC-reglugerðina. Skv. 2. mgr. skal framkvæmdastjórnin tilkynna Íslandi og Noregi um tillögur sem varða samninginn. Skv. 3. mgr. skulu samningsaðilar áður en löggjöf er samþykkt eiga með sér samráð í sameiginlegu nefndinni. Eftir samþykkt nýrra reglna innan ESB skal beitt reglum samningsins um það ferli sem Ísland og Noregur viðhafa við meðferð á samþykktum reglum ESB, sbr. 4. gr. samningsins. Skv. 4. mgr. skuldbinda samningsaðilar sig til að vinna saman í góðri trú innan sameiginlegu nefndarinnar. Skv. 5. mgr. hafa Ísland og Noregur rétt til að leggja fram tillögur í sameiginlegu nefndinni á samningssviðinu eins og það er skilgreint í 1. gr. samningsins en ef tillögurnar eiga að leiða til nýrrar löggjafar eða breytinga á löggjöf er frekari framgangur þeirra háður því að framkvæmdastjórnin eða einstakt aðildarríki taki þær upp innan ESB. Skv. 6. mgr. skal framkvæmdastjórnin tryggja sérfræðingum Íslands og Noregs eins víðtæka þátttöku og mögulegt er á undirbúningsstigi löggjafar með sama hætti og sérfræðingum aðildarríkjanna. Yfirlýsing fjögur við samninginn segir jafnframt að meginreglurnar að baki bréfaskiptum þeim sem fram fóru í tengslum við Brusselsamninginn og vörðuðu sams konar atriði skuli vera til grundvallar þessu atriði. Skv. 7. mgr. skal framkvæmdastjórnin koma áliti sérfræðinga Íslands og Noregs á framfæri við ráðherraráð ESB.

Um 3. gr.


    Í 3. gr. samningsins er að finna ákvæði um stofnun sameiginlegu nefndarinnar og um samsetningu hennar. Í nefndinni sitja fulltrúar Íslands, Noregs og framkvæmdastjórnar ESB. Gert er ráð fyrir að nefndin samþykki eigin starfsreglur og komi saman að frumkvæði einhvers samningsaðilanna. Nefndin tekur ákvarðanir með einróma samþykki samningsaðila nema annað leiði af starfsreglum nefndarinnar. Nefndin mun byggja á reglum ESB að því er varðar meðferð skjala en á hinn bóginn mun það ráðast af íslenskum lögum hvernig háttað verður aðgangi að þessum skjölum að svo miklu leyti sem þau eru í vörslu íslenskra stjórnvalda. Nefndin kemur saman á viðeigandi vettvangi eftir því sem aðstæður krefjast. Gert er ráð fyrir því að formennska í nefndinni gangi á milli samningsaðila á sex mánaða fresti. Nefndinni er ætlað að fylgjast með framkvæmd þeirra reglna sem Ísland og Noregur taka yfir á grunni samningsins. Jafnframt skal upplýsingamiðlun fara fram innan nefndarinnar.

Um 4. gr.


    Í 4. gr. samningsins er fjallað um samþykkt og gildistöku þeirra reglna er falla undir samninginn ásamt afleiðingum þess að Ísland og/eða Noregur fallast ekki á reglur sem ESB hefur samþykkt. Byggist ákvæðið í stórum dráttum á Brusselsamningnum. Í 1. mgr. er kveðið á um að samþykkt nýrra gerða og ráðstafana á gildissviði samningsins sé í höndum þar til bærra stofnana Evrópusambandsins. Framkvæmdastjórnin skal tilkynna Íslandi og Noregi strax um samþykkt nýrra gerða og ráðstafana, sbr. 2. mgr. Þótt gert sé ráð fyrir einhliða samþykkt nýrra gerða og ráðstafana af hálfu Evrópusambandsins verður að hafa í huga að gert er ráð fyrir að Ísland og Noregur hafi í samræmi við ákvæði samningsins komið að mótun gerða á vettvangi sameiginlegu nefndarinnar.
    Með 1. mgr. er mörkuð sú stefna að nýjar gerðir skuli ganga í gildi samtímis innan Evrópusambandsins og á Íslandi og í Noregi.
    Samkvæmt 2. mgr. skulu Ísland og Noregur hvort fyrir sig ákveða hvort þau samþykki efni gerðar eða ráðstafana. Löndin skulu tilkynna aðalskrifstofu ráðherraráðsins og framkvæmdastjórninni um ákvörðun sína innan 30 daga frá samþykkt gerðar eða ráðstöfunar. Slík tilkynning, sem er einhliða, stofnar til þjóðréttarlegrar skuldbindingar Íslands gagnvart Evrópusambandsríkjunum og Noregi, sbr. 5. mgr.
    Í 3. mgr. er kveðið á um hvernig staðið skuli að tilkynningum af Íslands hálfu þegar gerð eða ráðstöfun kallar á atbeina Alþingis. Ísland mun í slíku tilviki tilkynna aðalskrifstofu ráðsins og framkvæmdastjórninni um að atbeina þingsins þurfi til áður en stjórnvöld geti skuldbundið sig. Stjórnvöld munu í slíkum tilvikum hafa farið fram á að gildistaka viðkomandi gerðar eða ráðstöfunar verði ákvörðuð þannig að fullnægjandi svigrúm sé til þingmeðferðar, sbr. 1. mgr. Ísland sendir síðan að lokinni þingmeðferð, og að því gefnu að niðurstaða hennar hafi verið jákvæð, aðra tilkynningu sem stofnar til hinnar þjóðréttarlegu skuldbindingar.
    Í 4. mgr. er kveðið á um hvernig staðið skuli að tilkynningum af hálfu Noregs þegar ný gerð eða ráðstöfun kallar á atbeina Stórþingsins.
    Í 5. mgr. er kveðið á um þjóðréttarlegt skuldbindingargildi tilkynninga Íslands og Noregs samkvæmt framangreindu.
    Í 6. mgr. er kveðið á um málsmeðferð í þeim tilvikum að annaðhvort Ísland eða Noregur samþykkja ekki gerð eða ráðstöfun. Slíkt getur gerst hvort sem er með því að beinlínis sé tilkynnt að gerð sé ekki samþykkt eða með því að áskildar tilkynningar skv. 4. gr. berist ekki á réttum tíma. Í slíkum tilvikum telst samningnum slitið að því er varðar Ísland eða Noreg, eftir því sem við á, nema sameiginlega nefndin ákveði annað, sbr. 7. mgr.

Um 5. gr.


    Í 5. gr. er að finna öryggisákvæði sem gefur samningsaðilum möguleika til að taka ófyrirsjáanleg vandamál í tengslum við framkvæmd samningsins upp í sameiginlegu nefndinni en nefndin getur þá ákveðið að grípa til ráðstafana til að taka á málinu. Ákvæðið er byggt á ákvæði 17. gr. Dyflinnarsamningsins sjálfs.

Um 6. gr.


    
Í 6. gr. greinir hvernig ætlunin er að ná því markmiði samningsaðila að beiting og túlkun ákvæðanna sem getur um í 1. gr. verði samræmd.
    Í 1. mgr. kemur fram að gert er ráð fyrir að sameiginlega nefndin fylgist stöðugt með dómaframkvæmd Evrópudómstólsins og einnig dómaframkvæmd þar til bærra dómstóla Íslands og Noregs varðandi slík ákvæði. Í þessu augnamiði er gert ráð fyrir sérstöku fyrirkomulagi til að tryggja reglubundna og gagnkvæma miðlun upplýsinga um þessa dómaframkvæmd.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að Ísland og Noregur eigi rétt á að leggja greinargerð eða skriflegar athugasemdir fyrir Evrópudómstólinn í málum sem dómstóll aðildarríkis hefur vísað til hans. Mun Evrópusambandið leitast við að breyta samþykktum Evrópudómstólsins til að gera þetta mögulegt. Þessi réttur er í líkingu við Brusselsamninginn og EES-samninginn.

Um 7. gr.


    Samkvæmt 7. gr. skulu Ísland og Noregur árlega gefa sameiginlegu nefndinni skýrslu um hvernig stjórnvöld og dómstólar hafa beitt og túlkað þær reglur er greinir í 1. gr.
    Komi í ljós verulegur munur á framkvæmd reglna milli samningsaðila skal sameiginlega nefndin taka slíkt til meðferðar og leita lausna til að tryggja samræmi.
    Ákvæðið er efnislega samhljóða ákvæðum 10. gr. Brusselsamningsins.

Um 8. gr.


    Í 8. gr. er kveðið á um meðferð ágreiningsmála. Slík mál skal setja á dagskrá sameiginlegu nefndarinnar. Nefndin hefur 90 daga til að leysa málið frá þeim degi að telja sem dagskráin sem ágreiningsmálið hefur verið sett á er samþykkt. Náist ekki lausn á því 90 daga tímabili skal bætt við 90 dögum til að finna endanlega lausn. Fáist engin endanleg lausn telst samningnum slitið gagnvart því ríki sem ágreiningurinn er við.
    Þetta þýðir að frá því að ágreiningsmál kemur upp og er formlega sett á dagskrá sameiginlegu nefndarinnar líða sex mánuðir áður en til uppsagnar getur komið.

Um 9. gr.


    Í 9. gr. er kveðið á um þátttöku Íslands og Noregs í kostnaði af samstarfinu. Er gert ráð fyrir því að Ísland leggi til fjárlaga Evrópubandalaganna 0,1% vegna stjórnsýslu- og rekstrarkostnaðar við uppsetningu og rekstur miðlægrar einingar fyrir EURODAC. Framlag vegna annars kostnaðar miðast við þjóðarframleiðslu.
    Í 2. mgr. er kveðið á um rétt Íslands og Noregs til að fá skjöl og túlkun á fundum samsettu nefndarinnar á opinberu tungumáli stofnana Evrópusambandsins að eigin vali. Það er þó áréttað að allar þýðingar og túlkun úr og á íslensku og norsku skuli vera á kostnað Íslands eða Noregs eftir því sem við á. Að meginstefnu til er ákvæðið byggt á 12. gr. Brusselsamningsins.

Um 10. gr.


    Samkvæmt 10. gr. skulu persónuverndarstofnanir Íslands og Noregs vinna saman með óháðri eftirlitsstofnun Evrópubandalagsins eftir að hún hefur tekið til starfa en skv. 286. gr. Rómarsáttmálans svo sem honum hefur verið breytt er stofnuninni ætlað að hafa eftirlit með stofnunum Evrópubandalagsins á þessu sviði. Miðað er við að frekari samningar um útfærslu þessa samstarfs verði gerðir þegar stofnuninni hefur verið komið á fót.

Um 11. gr.


    Í 11. gr. er kveðið á um tengsl samningsins við aðra samninga. Samningurinn skal ekki hagga EES-samningnum né neinum öðrum samningum milli Íslands og EB eða Noregs og EB. Enn fremur er kveðið á um að hann skuli ekki hafa áhrif á samninga sem gerðir verða milli þessara aðila. Að lokum er ítrekað að samningurinn skuli ekki hagga norræna vegabréfasambandinu.

Um 12. gr.


    Samkvæmt 12. gr. getur Danmörk tekið þátt í samstarfinu samkvæmt samningnum eftir sérstakri beiðni þar um en um þá þátttöku verður fjallað í sérstakri bókun við samninginn. Ástæða þess að nauðsynlegt er að hafa ákvæði af þessu tagi er að efnissvið samningsins fellur undir þær undanþágur sem Danmörk hefur frá framkvæmd ákvæða Rómarsáttmálans eins og honum hefur verið breytt. Þess vegna getur Evrópubandalagið ekki samið fyrir hönd Danmerkur á þessu sviði heldur verður Danmörk að gerast aðili að þessum samningi með hefðbundnum þjóðréttarlegum hætti.
    Danmörk hefur að markmiði að nýta þessa heimild.

Um 13. gr.


    Í þessu ákvæði er afmarkað landfræðilegt gildissvið samningsins.

Um 14. gr.


    Í þessu ákvæði er fjallað um gildistöku samningsins en gert er ráð fyrir að samningurinn gangi í gildi á fyrsta degi næsta mánaðar eftir að vörsluaðili hans tilkynnir samningsaðilunum um að síðasta skjalið um fullgildingu eða samþykki hafi verið afhent til vörslu. Af þessu ákvæði leiðir með hliðsjón af ákvæðum 7. gr. Brusselsamningsins að nauðsynlegt er að samningurinn verði af allra hálfu fullgiltur í febrúarmánuði 2001.

Um 15. gr.


    Ákvæðið inniheldur heimild fyrir samningsaðila til einhliða uppsagnar samningsins. Öðlast slík uppsögn gildi 6 mánuðum eftir að yfirlýsing um hana hefur verið afhent. Segi Evrópubandalagið samningnum upp öðlast sú uppsögn gildi gagnvart bæði Íslandi og Noregi.

    Í tengslum við samningsgerðina hafa verið gefnar fimm yfirlýsingar. Þegar hefur að framan verið fjallað um yfirlýsingar númer þrjú og fjögur í tengslum við þau ákvæði sem þær varða. Í fyrstu yfirlýsingunni segir að samningsaðilar muni halda fundi í sameiginlegu nefndinni í tengslum við alla fundi í 18. gr. nefndinni, þ.m.t. undirbúningsfundi. Í annarri yfirlýsingunni kemur fram að framkvæmdastjórnin skal boða aðildarríki sambandsins til fundar í sameiginlegu nefndinni í því skyni að ræða öll mál í tengslum við samninginn. Hafa aðildarríkin lýst vilja sínum til að sitja fundi nefndarinnar. Í yfirlýsingu fimm kemur fram að samningsaðilar séu sammála um að taka inn í samninginn á grunni 4. gr. samningsins ákvörðun 18. gr. nefndarinnar um sameiningu fjölskyldna.

5. Dyflinnarsamningurinn.
5.1 Almennt.
    Dyflinnarsamningurinn tekur einvörðungu til þeirra er sækja um hæli (hælisleytenda), sbr. 3. gr. samningsins, en ekki til þeirra sem sækja um dvalarleyfi á öðrum forsendum. Þau ríki sem taka þátt í samstarfinu á grunni Dyflinnarsamningsins áskilja sér rétt til að senda hælisleitanda til baka til þriðja ríkis samkvæmt meginreglunni um fyrsta griðland enda er það í samræmi við alþjóðalög og stríðir ekki gegn flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þannig verður áfram, þrátt fyrir þátttöku í samstarfi á grunni Dyflinnarsamningsins, heimilt að vísa hælisleitendum til baka til öruggs þriðja ríkis utan þess svæðis sem Dyflinnarsamningurinn tekur til.
    Dyflinnarsamningurinn hefur ekki að geyma efnisreglur um það hvort fallist skuli á umsókn um hæli eður ei. Það er landsréttar að ákveða það, sbr. 3. mgr. 3. gr. samningsins. Aðildarríki samningsins staðfesta í 2. gr. hans skyldur sínar samkvæmt flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna frá 1951 og bókun við hann frá 1967.
    Ákvæði 16.–22. gr. samningsins gilda ekki um Ísland og Noreg þar sem þau varða málefni er snerta samstarfið á milli aðildarríkja ESB og stofnanalega þætti þess samstarfs.
    Ákvarðanir um frekari útfærslu Dyflinnarsamningsins eru teknar af sérstakri nefnd sem sett er á fót á grunni 18. gr. samningsins, svokallaðri 18. gr. nefnd, en í henni sitja fulltrúar einstakra aðildarríkja.

5.2 Ákvörðun um hvaða ríki beri ábyrgð á umsókn.
    Viðmiðanirnar sem beitt er við ákvörðun um það hvaða ríki skuli teljast ábyrgt fyrir meðferð hælisumsóknar er að finna í 4.–8. gr. samningsins, sbr. 2. mgr. 3. gr. Er þeim raðað í forgangsröð.
    Í fyrstu er miðað við að það ríki sé ábyrgt fyrir meðferð umsóknar þar sem nánasti fjölskyldumeðlimur hælisleitanda býr með lögmætum hætti, sbr. 4. gr. Ef ekki eru til staðar fjölskyldutengsl með þeim hætti sem lýst er í 4. gr., kemur það í hlut þess ríkis sem gaf umsækjanda heimild til komu inn á samningssvæðið að bera ábyrgð á meðferð umsóknar, sbr. 5. gr. Í samræmi við þetta verður það ríki ábyrgt sem hefur gefið út dvalarleyfi eða gilda vegabréfsáritun til umsækjanda. Hafi umsækjandi undir höndum fleiri en eina gilda heimild (dvalarleyfi eða vegabréfsáritun) verður það ríki ábyrgt sem gaf út það leyfi sem síðast rennur út.
    Ef ekki er unnt að ákvarða ábyrgðina á grunni 4. eða 5. gr. skal ábyrgð á meðferð umsóknar, í samræmi við 6. og 7. gr. samningsins, hvíla á því ríki sem umsækjandi hefur með ólögmætum hætti ferðast til yfir ytri landamæri samningssvæðisins.
    Sé ekki unnt að ákvarða á grunni 4.–7. gr. samningsins hvaða ríki beri ábyrgð á meðferð umsóknar kveður 8. gr. á um það að hún skuli vera þess ríkis sem tekið hefur við umsókn um hæli.
    Að fengnu samþykki umsækjanda getur ríki tekið umsókn til meðferðar án þess að það beri ábyrgð á meðferð hennar á grunni 4.–8. gr. samningsins, sbr. 4. mgr. 3. gr. Í þeim tilvikum fellur niður ábyrgð þess ríkis sem ella hefði borið hana. Að sama skapi getur ríki, að fengnu samþykki umsækjanda, beðið annað aðildarríki að taka að sér meðferð umsóknar, sbr. 9. gr. Aðstaða þar sem komið gæti til beitingar á 4. mgr. 3. gr. og 9. gr. væri í tilfelli þar sem umsækjandi hefði sterk fjölskyldutengsl við annað ríki en það sem bera ætti ábyrgðina og fjölskyldutengslin féllu ekki undir 4. gr. samningsins. Reglur sem ætlað er tryggja samræmda og virka framkvæmd á reglum samningsins um sameiningu fjölskyldna er að finna í ákvörðun 18. gr. nefndarinnar nr. 1/00, sem gert er ráð fyrir að taka inn í samninginn á síðari stigum, sbr. yfirlýsingu fimm.

5.3 Skyldur einstakra samningsríkja.
    Meginreglan er að það ríki sem hefur móttekið umsókn um hæli kanni hvaða ríki það er á grunni Dyflinnarsamningsins sem ber skylda til að taka umsókn til meðferðar. Í 12. gr. samningsins er kveðið á um að í þeim tilvikum að umsækjandi beinir umsókn sinni til annars aðildarríkis en þess sem hann er staddur í sé það síðarnefnda ríkið sem ákvarði hvar ábyrgð á meðferðinni skuli liggja.
    Aðildarríki sem er ábyrgt fyrir meðferð umsóknar á grunni samningsins er skylt skv. 11. og 13. gr. samningsins að taka umsækjanda í umsjá eða taka við honum frá öðrum aðildarríkjum samningsins. Ólíkir frestir gilda eftir því hvort um er að ræða umsjá eða endurviðtöku

5.4 Niðurfelling skyldna samkvæmt samningnum.
    Samkvæmt 2. málsl. 7. mgr. 3. gr. og 3. mgr. 10. gr. fellur skyldan til að taka við hælisleitanda á ný niður hafi umsækjandi verið utan þess ríkis í meira en þrjá mánuði. Jafnframt fellur skylda viðkomandi ríkis niður í því tilviki að annað aðildarríki gefur út dvalarleyfi til umsækjanda til lengri tíma en þriggja mánaða, sbr. 7. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 10. gr.
    Ef aðildarríki hefur sent umsækjanda til upprunalands viðkomandi eða annars ríkis þar sem umsækjandi getur ferðast löglega, fellur skylda viðkomandi ríkis niður, sbr. 4. mgr. 10. gr. Það ríki sem sent hefur umsækjanda út fyrir samningssvæðið skal geta sannað að það hafi í raun verið gert, sbr. 7. gr. ákvörðunar nr. 1/97, sbr. fylgiskjal III.
    Að öðru leyti fellur ábyrgðin niður samkvæmt samningnum þegar sex mánaða fresturinn til að sækja um að annað ríki taki að sér ábyrgðina er liðinn, sbr. 1. mgr. 11. gr.

5.5 Upplýsingaskipti.
    Ákvæði 14. og 15. gr. samningsins innihalda reglur um skipti á upplýsingum milli aðildarríkjanna. Í því sambandi er skilið á milli almennra upplýsinga, eins og um gildandi lög og reglur, aðstæður í heimalandi umsækjanda og ferðaleiðir, sem skiptast má á án takmarkana, sbr. 14. gr. og ákvörðun 1/98, sbr. fylgiskjal IV, og upplýsinga þar sem afhending er háð reglum um persónuvernd, sbr. 15. gr. samningsins.

5.6 Frekari þróun reglna.
    Í samræmi við ákvæði a-liðar 1. mgr. 63. gr. Rómarsáttmálans svo sem honum var breytt með Amsterdamsáttmálanum er gert ráð fyrir að fyrir 2004 verði samþykktar nýjar EB-reglur sem komi í stað Dyflinnarsamningsins. Má gera ráð fyrir að tillögur þess efnis líti dagsins ljós á fyrri hluta yfirstandandi árs.

6. Reglugerð um EURODAC.
6.1 Um EURODAC.
    Reglur um EURODAC er að finna í reglugerð EB nr. 2725/2000/EB um stofnsetningu EURODAC til samanburðar á fingraförum með hliðsjón af virkari framkvæmd og beitingu Dyflinnarsamningsins. Reglugerðin var samþykkt af ráðherraráði ESB 11. desember 2000.
    Markmiðið með EURODAC er að aðstoða við að ákveða hvaða ríki það er sem ber ábyrgð á umsókn um hæli á grundvelli Dyflinnarsamningsins og á annan hátt að stuðla að sem virkastri framkvæmd Dyflinnarsamningsins, sbr. 1. gr. reglugerðarinnar.
    Almenn ástæða þess að ríki telja nauðsynlegt að safna fingraförum með þessum hætti er sú þróun sem færðist í vöxt um og upp úr 1990 að hælisleitendur höfðu umsóknir til meðferðar í fleiri en einu ríki, sóttu um hæli á fleiri en einum stað í viðkomandi ríki undir mismunandi nöfnum og að þeir sneru aftur til viðkomandi ríkis eftir að hafa verið vísað frá. Þessi staða var alvarleg að því leyti að hún krafðist þess m.a. að yfirvöld beindu kröftum sínum í auknum mæli að því að draga fram hið sanna um hver umsækjandi væri í raun og veru. Í mörgum tilvikum tekst ekki að leiða slíkt í ljós með öruggum hætti. Þessi aðstaða leiðir til þess að fólk býr í auknum mæli í viðkomandi ríki án þess að unnt hafi verið að færa á það sönnur hver viðkomandi er. Jafnframt ýtir þessi aðstaða undir að fólk taki sér búsetu í viðkomandi ríkjum með ólögmætum hætti.
    Stór hluti þeirra er sækja um hæli eða búa með ólögmætum hætti í viðkomandi ríki hafa ekki undir höndum lögmæt ferðaskilríki eða annað sem staðfest getur hver viðkomandi er eða ferðaleið hans. Þetta gerir það að verkum að enn erfiðara verður að skera úr um hvaða ríki bera skuli ábyrgð á meðferð umsóknar um hæli og skera úr um hver viðkomandi hælisleitandi er. Að geta safnað, skráð og skipst á upplýsingum um fingraför á þessu sviði er því mikilvægt tæki til að hjálpa til við að leysa ólík vandamál sem ríkin standa frammi fyrir á þessu sviði.
    Rökin að baki því að setja á fót EURODAC eru í öllum meginatriðum þau sem hér hafa verið reifuð.
    Í þessu efni er athygli og vakin á 2. mgr. 15. gr. Dyflinnarsamningsins, sbr. og ákvörðun 1/98, en á grunni hennar er heimilt að senda fingraför milli samningsaðila í því skyni að skera úr um hver umsækjandi er.
    EURODAC samanstendur af miðlægri einingu sem staðsett verður innan framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins, sbr. 3. gr. reglugerðarinnar. Hlutverk þessarar einingar er að reka gagnagrunn sem hefur að geyma upplýsingar um fingraför og bera ábyrgð á samskiptum og upplýsingamiðlun milli aðildarríkjanna og gagnagrunnsins. Til að hafa eftirlit með starfi einingarinnar og miðlun persónuupplýsinga til aðildarríkjanna er sett á fót óháð eftirlitsnefnd, sbr. 20. gr. Auk þess er gert ráð fyrir að eftirlitsstofnanir í einstökum aðildarríkjum hafi eftirlit með því að einstök aðildarríki virði ákvæði reglugerðarinnar um persónuvernd.

6.2 Skráning og samanburður.
    Reglugerðin um EURODAC mælir fyrir um að taka skuli fingraför af öllum er leita hælis og eru 14 ára eða eldri, sbr. 4. gr., auk útlendinga sem eru eldri en 14 ára og eru handteknir við tilraun til ólöglegrar komu frá þriðja ríki, sbr. 8. gr. Aðildarríki getur annars flutt upplýsingar um fingraför og tilvísananúmer til miðlægu einingarinnar til að ganga úr skugga um hvort útlendingur sem er eldri en 14 ára og án löglegrar heimildar til dvalar hafi einhverju sinni sótt um hæli, sbr. 11. gr.
    Upplýsingar um umsækjendur um hæli eru varðveittar í gagnagrunninum í 10 ár, sbr. 6. gr. Upplýsingar skulu afmáðar þegar tímabilið rennur út eða þegar viðkomandi einstaklingur hlýtur ríkisborgararétt í einhverju aðildarríkjanna, sbr. 7. gr. Upplýsingar um einstakling sem hefur stöðu flóttamanns í skilningi flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna skulu skv. 12. gr. ekki vera aðgengilegar. Fimm árum eftir að EURODAC hefur starfsemi sína skal endurmeta hvernig farið verði með þessar upplýsingar. Á því tímabili er ekki gert ráð fyrir að veita upplýsingar um þessa einstaklinga.
    Skráning þeirra sem handteknir eru við tilraun til að koma ólöglega inn á svæðið frá þriðja ríki, á sér stað í því skyni að geta borið þær upplýsingar saman við upplýsingar sem síðar eru settar inn í kerfið um hælisleitendur. Þessar upplýsingar eru afmáðar úr kerfinu eftir tvö ár, þegar viðkomandi hefur fengið útgefið dvalarleyfi, hefur yfirgefið svæði aðildarríkjanna eða fengið ríkisborgararétt í einhverju þeirra, sbr. 9. og 10. gr.
    Upplýsingar sem sendar eru miðlægu einingunni til samanburðar á grunni 11. gr. skal afmá um leið og niðurstöður samanburðar hafa verið afhentar viðkomandi aðildarríki.

7. Persónuvernd.
    Á þeim sviðum sem þingsályktunartillaga þessi nær til er, svo sem endranær innan Schengen-samstarfsins, lögð veruleg áhersla á persónuvernd.
    Þegar um er að ræða málsmeðferð samkvæmt Dyflinnarsamningnum þá gilda ákvæði útlendingalaga og stjórnsýslulaga um málsmeðferð stjórnvalda. Tryggir þetta svo sem kostur er réttarstöðu viðkomandi einstaklings.
    Tilskipun EB um persónuvernd gildir bæði að því er varðar málsmeðferð samkvæmt Dyflinnarsamningnum, sbr. 2. mgr. 2. gr. í ákvörðun 1/98 og 15. mgr. aðfaraorða reglugerðarinnar um EURODAC. Samningur Íslands og Noregs vísar í aðfaraorðum sínum til þess að ríkin skuli beita ákvæðum tilskipunarinnar við meðferð persónuupplýsinga í tengslum við framkvæmd samningsins. Tilskipunin hefur það að markmiði að tryggja lágmarksvernd fyrir einstaklinga á öllu EES-svæðinu en tilskipunin er hluti af EES-samningnum samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 25. júní 1999 og hefur Ísland þegar samþykkt nauðsynlega löggjöf í þessu skyni, sbr. lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
    Ákvæði 15. gr. Dyflinnarsamningsins inniheldur og sérstök ákvæði um persónuvernd en framangreind lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000, innihalda fullnægjandi heimildir að þessu leyti. Sending upplýsinga skv. 15. gr. getur einvörðungu átt sér stað í því skyni að ákvarða hvaða samningsaðili skuli bera ábyrgð á meðferð umsóknar um hæli, til meðferðar á umsókn og því skyni að geta uppfyllt þær skyldur sem hvíla á ríki sem samkvæmt ákvæðum samningsins ber ábyrgð á meðferð umsóknar um hæli. Auk þess fer upplýsingamiðlun þessi einvörðungu fram milli þeirra stjórnvalda sem tilkynnt hafa verið til 18. gr. nefndarinnar. Fram kemur að upplýsingarnar verða einvörðungu notaðar í því skyni sem uppgefið var sem rökstuðningur fyrir beiðni um þær. Er einnig tekið fram að upplýsingum verði einungis miðlað til stjórnvalda og dómstóla sem hafa það hlutverk að skera úr um hvaða aðildarríki það er sem bera skal ábyrgð á meðferð umsóknar eða að uppfylla skyldurnar samkvæmt samningnum.
    Ákvæði 15. gr. kveður og á um að aðildarríki það sem sendir upplýsingarnar skuli sjá til þess að þær séu réttar og hafi verið uppfærðar. Komi í ljós að samningsaðili hafi gefið rangar upplýsingar eða veitt upplýsingar sem ekki hefði átt að veita skal þeim samningsaðila sem tók við þeim þegar tilkynnt um það en honum ber þá skylda til að leiðrétta upplýsingarnar. Upplýsingar sem sendar eru með þessum hætti skal einungis varðveita svo lengi sem nauðsynlegt er vegna hagsmuna tengdra máli því sem miðlun upplýsinganna fór fram vegna og skulu í öllum tilvikum vera tryggðar með sama hætti líkt og aðrar sams konar upplýsingar í viðkomandi ríki. Að lokum er í 15. gr. fjallað um aðstæður þar sem upplýsingar eru ekki sendar eða meðhöndlaðar með rafrænum hætti en í þeim tilvikum skulu samningsaðilar taka ákvarðanir um nauðsynlegt eftirlit til að tryggja að ákvæði samningsins séu virt. Í þeim tilvikum að aðildarríki vilji fara með upplýsingar að hluta eða öllu leyti rafrænt er mælt fyrir um að ráðstafanir séu gerðar sem að lágmarki uppfylli samning Evrópuráðsins frá 28. janúar 1981 um persónuvernd í tengslum við rafræna miðlun upplýsinga og að óháðri stofnun hafi verið falið að hafa með þessu eftirlit.
    Í V. kafla reglugerðarinnar um EURODAC er að finna fyllri ákvæði um persónuvernd. Skv. 13. og 14. gr. bera aðildarríkin ábyrgð á töku fingrafara, skráningu þeirra, vörslu og öryggi í miðlægu einingunni. Framkvæmdastjórnin ber ábyrgð á því að rekstur einingarinnar verði í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar. Aðildarríki þau sem sent hafa inn fingraför og aðildarríki sem fá jákvæða svörun við upplýsingabeiðni um leit í gagnabankanum hafa aðgang að þeim upplýsingum sem þar er að finna, sbr. 15. gr. Jafnframt er það eingöngu það ríki sem sendi upplýsingarnar sem getur breytt upplýsingum sem sendar hafa verið. Á hinn bóginn skulu önnur aðildarríki eða miðlæga einingin svo fljótt sem kostur er tilkynna því ríki sem skráði upplýsingarnar hafi þau grun um að upplýsingar sem skráðar hafa verið gangi gegn reglum EURODAC.
    Miðlæga einingin skal í öryggisskyni skrá allar aðgerðir sem framkvæmdar eru í kerfinu, sbr. 16. gr.
    Einstaklingur eða aðildarríki sem verður fyrir tjóni vegna ólöglegra aðgerða á þessu sviði á rétt til bóta á grunni 17. gr. reglugerðarinnar frá því ríki sem tjóninu olli. Að sama skapi er það ríki sem veldur tjóni á gagnagrunninum ábyrgt fyrir tjóninu.
    Í 18. gr. er fjallað um rétt til að fá upplýsingar og eiga aðgang að þeim upplýsingum sem skráðar eru í miðlægu eininguna. Sérhver einstaklingur skal í samræmi við landsrétt getað notfært sér rétt þann sem leiðir af 12. gr. tilskipunar Evrópubandalagsins um persónuvernd, sbr. ákvæði laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, að því er varðar rétt hins skráða. Komi í ljós að skráðar upplýsingar eru rangar eða jafnvel ólögmætar er unnt að krefjast þess að þær verði strikaðar út eða leiðréttar.

8. Lagabreytingar.
    Þegar hefur verið lagt fram frumvarp um breyting á lögum um eftirlit með útlendingum, nr. 45/1965, vegna þátttöku Íslands í samstarfi á sviði Dyflinnarsamningsins.

9. Kostnaður.
    Um kostnað vegna þátttöku í samstarfinu er fjallað í 9. gr. samningsins svo sem áður segir. Framlag Íslands mun annars vegar vera til almenns reksturs ESB í tengslum við samstarfið þar sem um er að ræða kostnað vegna skjala og túlkunar á fundum sameiginlegu nefndarinnar og byggist það framlag á þjóðarframleiðslu.
    Í 9. gr. er og gert ráð fyrir að Ísland og Noregur leggi fram fjármagn til uppbyggingar og síðar reksturs miðlægu einingar EURODAC. Er í því sambandi miðað við sama greiðsluhlutfall Íslands og í Brusselsamningnum en gert er ráð fyrir að framlagið verði reiknað hverju sinni af áætluðum kostnaði við uppsetningu og rekstur EURODAC. Felur þetta í sér að framlag Íslands í upphafi mun verða um 1,2 milljónir króna en frá og með 2002 er gert ráð fyrir að framlagið miðist við fjárlög ESB á hverjum tíma en gera má ráð fyrir að fjárhæð framlags Íslands lækki nokkuð eftir að rekstur EURODAC hefst. Hafa ber í huga í þessu sambandi að einnig mun þurfa að koma til fjárfestinga innan lands, einkum hjá embætti ríkislögreglustjóra. Er þar um að ræða tæknibúnað í tengslum við vörslu og miðlun upplýsinga um fingraför. Í því efni er rétt að hafa í huga að sá búnaður mun einnig nýtast lögreglu við almenna lögreglustarfsemi.



Fylgiskjal I.


SAMNINGUR
MILLI EVRÓPUBANDALAGSINS
OG LÝÐVELDISINS ÍSLANDS OG KONUNGSRÍKISINS NOREGS
UM VIÐMIÐANIR OG FYRIRKOMULAG
VIÐ AÐ ÁKVARÐA HVAÐA RÍKI SKULI FARA MEÐ
BEIÐNI UM HÆLI SEM LÖGÐ ER FRAM Í AÐILDARRÍKI
EÐA Á ÍSLANDI EÐA Í NOREGI


EVRÓPUBANDALAGIÐ

og

LÝÐVELDIÐ ÍSLAND

og

KONUNGSRÍKIÐ NOREGUR,

hér á eftir nefnd „samningsaðilarnir“,

HAFA Í HUGA að aðildarríki Evrópusambandsins hafa gert með sér Dyflinnarsamninginn um það hvaða ríki beri ábyrgð á meðferð beiðna um hæli sem lagðar eru fram í einhverju aðildarríkja Evrópubandalaganna 1 , sem undirritaður var í Dyflinni 15. júní 1990 (hér á eftir nefndur „Dyflinnarsamningurinn“),

MINNAST ÞESS að í 7. gr. samningsins frá 18. maí 1999, sem ráð Evrópusambandsins (hér á eftir nefnt „ráðið“) og Lýðveldið Ísland og Konungsríkið Noregur gerðu með sér um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna 2 , er kveðið á um gerð viðeigandi samkomulags um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í einhverju aðildarríkjanna eða á Íslandi eða í Noregi,

ÁLÍTA að það sé viðeigandi að ákvæði Dyflinnarsamningsins og viðkomandi ákvæði sem nefndin, sem komið var á fót skv. 18. gr. þess samnings, hefur þegar samþykkt, skuli felld inn í samning þennan, sbr. þó þau tengsl sem komið hefur verið á samkvæmt Dyflinnarsamningnum milli ríkjanna sem eru aðilar að þeim samningi,

ÁLÍTA að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/46/EB frá 24. október 1995 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga 3 (hér á eftir nefnd „tilskipunin um vernd persónuupplýsinga“) skuli beitt á Íslandi og í Noregi með sama hætti og í aðildarríkjum Evrópubandalagsins við vinnslu persónuupplýsinga í þeim tilgangi sem fjallað er um í samningi þessum,

VIÐURKENNA, engu að síður, að ákvæðin, sem felld eru inn í samning þennan, verði, ef við á, að aðlaga þannig að tekið sé mið af stöðu Íslands og Noregs sem eru ekki aðildarríki,

ERU SANNFÆRÐ UM að það sé nauðsynlegt að samningur þessi feli í sér ferli þar sem kveðið er á um samræmi við þróun bandalagsgerða, einkum í tengslum við málefnin sem um getur í a-lið 1. mgr. 63. gr. stofnsáttmála Evrópubandalagsins,

ERU SANNFÆRÐ UM að það sé nauðsynlegt að skipuleggja samstarfið við Lýðveldið Ísland og Konungsríkið Noreg á öllum stigum með tilliti til framkvæmdar Dyflinnarsamningsins, beitingar hans í reynd og frekari þróunar hans,

ÁLÍTA að í þeim tilgangi sé nauðsynlegt að mynda skipulagseiningu sem tryggi þátttöku Lýðveldisins Íslands og Konungsríkisins Noregs í starfi á þessum sviðum og geri þeim kleift að taka þátt í þessu starfi í nefnd,

HAFA Í HUGA að ráðið samþykkti 11. desember 2000 reglugerð (EB) nr. 2725/2000 um stofnun „Eurodac“ til að bera saman fingraför í því skyni að stuðla að skilvirkri beitingu Dyflinnarsamningsins 4 í því augnamiði að auðvelda ákvörðun um hvaða samningsaðili beri ábyrgð á meðferð beiðni um hæli samkvæmt Dyflinnarsamningnum (hér á eftir nefnd „Eurodac-reglugerðin“),

ÁLÍTA að víkka skuli út samning þennan þannig að hann nái yfir það viðfangsefni sem fjallað er um í Eurodac-reglugerðinni með það í huga að framkvæmd reglugerðarinnar verði hliðstæð á Íslandi, í Noregi og í Evrópubandalögunum,

HAFA Í HUGA að ákvæði IV. bálks stofnsáttmálans um Evrópubandalagið og gerðir, sem samþykktar hafa verið á grundvelli þess bálks, gilda ekki um Konungsríkið Danmörku en Danmörk skuli fá tækifæri til að taka þátt í samningi þessum ef ríkið óskar þess,

HAFA ORÐIÐ ÁSÁTT UM EFTIRFARANDI:

1. gr.


     1.      Ákvæði Dyflinnarsamningsins, sem tilgreind eru í 1. hluta viðaukans við þennan samning, og ákvarðanir nefndarinnar, sem komið var á fót skv. 18. gr. Dyflinnarsamningsins, sem tilgreindar eru í 2. hluta téðs viðauka, skulu koma til framkvæmda á Íslandi og í Noregi og beitt í gagnkvæmum samskiptum þeirra og í samskiptum þeirra við aðildarríkin, sbr. þó 4. mgr.
     2.      Aðildarríki skulu beita reglunum, sem um getur í 1. mgr., að því er varðar Ísland og Noreg, sbr. þó 4. mgr.
     3.      Ákvæði tilskipunarinnar um vernd persónuupplýsinga, eins og þeim er beitt í aðildarríkjunum að því er varðar persónuupplýsingar sem unnar eru til þess að framkvæma og beita ákvæðunum sem skilgreind eru í viðaukanum, skulu koma til framkvæmda og beitt að breyttu breytanda á Íslandi og í Noregi.
     4.      Að því er varðar 1. og 2. mgr. ber að skilja tilvísanir í ákvæðin, sem fjallað er um í viðaukanum og ná til „aðildarríkja“, þannig að þær taki einnig til Íslands og Noregs.
     5.      Þessi samningur skal gilda um Eurodac-reglugerðina að teknu tilliti til sérstakrar stöðu Noregs og Íslands utan Evrópusambandsins með það í huga að framkvæmd þeirrar reglugerðar verði hliðstæð á Íslandi, í Noregi og í Evrópubandalaginu.

2. gr.


1)           Þegar unnið er að drögum að nýrri löggjöf á grundvelli a-liðar 1. mgr. 63. gr. stofnsáttmála Evrópubandalagsins á sviði sem fellur undir viðfangsefni viðaukans við þennan samning eða 5. mgr. 1. gr. skal framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna (hér á eftir nefnd „framkvæmdastjórnin“) óformlega leita ráða hjá sérfræðingum Íslands og Noregs á sama hátt og hún leitar ráða hjá sérfræðingum aðildarríkjanna við gerð tillagna sinna.
2)           Þegar framkvæmdastjórnin sendir Evrópuþinginu og ráðinu tillögur sínar sem skipta máli varðandi þennan samning skal hún senda Íslandi og Noregi afrit af þeim.
    Fyrstu skoðanaskipti geta farið fram í sameiginlegu nefndinni sem komið var á fót skv. 3. gr. óski einhver samningsaðila þess.
3)           Á þeim tíma sem líður fram að samþykkt löggjafar skulu samningsaðilarnir, í samfelldu ferli upplýsingaskipta og samráðs, ráðgast hver við annan á ný í sameiginlegu nefndinni á öllum tímamótum að beiðni einhvers þeirra. Þegar löggjöf hefur verið samþykkt skal beitt málsmeðferðinni sem mælt er fyrir um í 2.–7. mgr. 4. gr.
4)           Samningsaðilarnir skulu starfa saman af heilum hug á upplýsinga- og samráðstímabilinu með það fyrir augum að auðvelda starf sameiginlegu nefndarinnar samkvæmt þessum samningi í lok meðferðar málsins.
5)           Fulltrúar ríkisstjórna Íslands og Noregs skulu hafa rétt til að leggja fram tillögur í sameiginlegu nefndinni varðandi málefni sem um getur í 1. mgr.
6)           Framkvæmdastjórnin skal tryggja sérfræðingum Noregs og Íslands eins víðtæka þátttöku og unnt er á viðkomandi sviðum við undirbúning á drögum að tillögum að ráðstöfunum er síðar eiga að fara fyrir þær nefndir sem aðstoða framkvæmdastjórnina við að beita framkvæmdarvaldi sínu. Í þessum málum skal framkvæmdastjórnin, þegar hún gengur frá tillögum að ráðstöfunum, ráðgast við sérfræðinga Íslands og Noregs á sama grundvelli og hún ráðgast við sérfræðinga aðildarríkjanna.
7)           Í tilvikum þegar mál er til meðferðar hjá ráðinu í samræmi við málsmeðferð sem gildir um viðkomandi nefnd skal framkvæmdastjórnin koma áliti sérfræðinga Íslands og Noregs á framfæri við ráðið.

3. gr.


1)           Hér með er komið á fót sameiginlegri nefnd sem skipuð er fulltrúum samningsaðilanna.
2)           Sameiginlega nefndin skal samþykkja samhljóða reglur um málsmeðferð.
3)           Sameiginlega nefndin skal halda fundi að frumkvæði forseta hennar eða að ósk einhvers nefndarmanna.
4)           Sameiginlega nefndin skal koma saman á viðeigandi vettvangi, eftir því sem aðstæður krefjast, í þeim tilgangi að endurskoða eiginlega framkvæmd og beitingu ákvæðanna sem fjallað er um í viðaukanum, þar með taldar nýjar gerðir eða ráðstafanir sem um getur í 1. gr. og nefndin, sem komið var á fót skv. 18. gr. Dyflinnarsamningsins, hefur samþykkt, og til að skiptast á skoðunum um mótun nýrrar löggjafar á grundvelli a-liðar 1. mgr. 63. gr. stofnsáttmála Evrópubandalagsins þar sem fjallað er um viðfangsefni viðaukans eða 5. mgr. 1. gr.
    Miða skal við að öll upplýsingaskipti, sem varða þennan samning, fari fram innan valdsviðs sameiginlegu nefndarinnar.
5)           Embætti forseta sameiginlegu nefndarinnar skal skipa til skiptis, til sex mánaða í senn, fulltrúi Evrópubandalagsins og fulltrúi ríkisstjórnar Íslands eða Noregs, eftir stafrófsröð.

4. gr.


1)           Með fyrirvara um 2. mgr. skal nýjum gerðum eða ráðstöfunum, sem varða málefni sem um getur í 1. gr., og nefndin, sem komið var á fót skv. 18. gr. Dyflinnarsamningsins, samþykkir, nema í þeim sé skýrt kveðið á um annað, beitt frá og með sama tíma í aðildarríkjunum annars vegar og á Íslandi og í Noregi hins vegar.
2)           Framkvæmdastjórnin skal tilkynna Íslandi og Noregi tafarlaust um samþykkt gerða eða ráðstafana sem um getur í 1. mgr. Ísland og Noregur skulu ákveða, hvort í sínu lagi, hvort þau samþykkja efni þeirra og taka þær upp í landsrétt sinn. Þessar ákvarðanir skulu tilkynntar aðalskrifstofu ráðsins og framkvæmdastjórninni innan þrjátíu daga frá samþykkt viðkomandi gerða eða ráðstafana.
3)           Ef efni slíkrar gerðar eða ráðstöfunar getur ekki orðið bindandi fyrir Ísland fyrr en stjórnskipuleg skilyrði hafa verið uppfyllt skal Ísland gera aðalskrifstofu ráðsins og framkvæmdastjórninni grein fyrir því þegar Ísland sendir tilkynningu sína. Þegar öll stjórnskipuleg skilyrði hafa verið uppfyllt skal Ísland þegar í stað gera aðalskrifstofu ráðsins og framkvæmdastjórninni skriflega grein fyrir því og upplýsa þetta eins fljótt og unnt er fyrir daginn sem mælt er fyrir um að gerðin eða ráðstöfunin öðlist gildi, að því er Ísland varðar, í samræmi við 1. mgr.
4)           Ef efni slíkrar gerðar eða ráðstöfunar getur ekki orðið bindandi fyrir Noreg fyrr en stjórnskipuleg skilyrði hafa verið uppfyllt skal Noregur gera aðalskrifstofu ráðsins og framkvæmdastjórninni grein fyrir því þegar Noregur sendir tilkynningu sína. Þegar öll stjórnskipuleg skilyrði hafa verið uppfyllt skal Noregur þegar í stað gera aðalskrifstofu ráðsins og framkvæmdastjórninni skriflega grein fyrir því og eigi síðar en sex mánuðum frá því að tilkynning þar til bærrar stofnunar Evrópusambandsins berst. Frá þeim degi sem mælt er fyrir um að gerðin eða ráðstöfunin öðlist gildi að því er Noreg varðar og þar til upplýst hefur verið að stjórnskipuleg skilyrði hafi verið uppfyllt skal Noregur, eftir því sem unnt er, beita efni gerðarinnar eða ráðstöfunarinnar til bráðabirgða.
5)           Við samþykki Íslands og Noregs á efni gerða og ráðstafana, sem um getur í 1. mgr., skapast réttindi og skyldur milli Íslands og Noregs svo og milli Íslands og Noregs annars vegar og aðildarríkja Evrópusambandsins hins vegar.
6)           Í þeim tilvikum þegar:
       a)      annaðhvort Ísland eða Noregur tilkynnir þá ákvörðun sína að samþykkja ekki efni gerðar eða ráðstöfunar sem um getur í 1. mgr. og farið hefur verið með samkvæmt þeim málsmeðferðarreglum sem settar eru í þessum samningi; eða
       b)      annaðhvort Ísland eða Noregur sendir ekki tilkynningu innan þeirra þrjátíu daga tímamarka sem sett eru í 2. mgr.; eða
       c)      Ísland sendir ekki tilkynningu fyrir þann dag sem mælt er fyrir um að viðkomandi gerð eða ráðstöfun öðlist gildi að því er Ísland varðar; eða
       d)      Noregur sendir ekki tilkynningu innan þeirra sex mánaða tímamarka sem sett eru í 4. mgr. eða gerir ekki ráðstafanir til beitingar til bráðabirgða, eins og gert er ráð fyrir í sömu málsgrein, frá þeim degi að telja sem mælt er fyrir um að viðkomandi gerð eða ráðstöfun öðlist gildi að því er Noreg varðar;
telst samningi þessum frestað að því er Ísland eða Noreg varðar, eftir því sem við á.
7)           Sameiginlega nefndin skal kanna málið sem leiddi til frestunar og tekur að sér að ráða bót, innan níutíu daga, á þeim atriðum sem leiddu til þess að samþykki eða fullgildingu var hafnað. Þegar allir frekari möguleikar til þess að viðhalda góðri framkvæmd þessa samnings hafa verið kannaðir, þar á meðal sá möguleiki að taka tillit til jafngildrar löggjafar, getur nefndin ákveðið með samhljóða samþykki að koma samningnum aftur á. Ef frestun þessa samnings er enn í gildi níutíu dögum síðar telst honum slitið að því er Ísland eða Noreg varðar, eftir því sem við á.

5. gr.


    Þangað til ráðstafanirnar, sem um getur í 1. mgr. 2. gr., öðlast gildi og koma í stað ákvæðanna, sem um getur í 1. mgr. 1. gr., í samræmi við 3. og 4. mgr. 4. gr., getur samningsaðili, sem lendir í miklum erfiðleikum vegna verulega breyttra aðstæðna frá því sem var við gerð þessa samnings, lagt málið fyrir sameiginlegu nefndina sem komið var á fót skv. 3. gr. og getur hún lagt fyrir samningsaðilana tillögur um ráðstafanir til að taka á málinu. Sameiginlega nefndin skal taka ákvörðun um þessar ráðstafanir með samhljóða samþykki. Náist ekki samhljóða samþykki skal 8. gr. beitt.

6. gr.


1)           Til að ná því markmiði samningsaðilanna að ná fram eins samræmdri beitingu og túlkun og unnt er á ákvæðunum sem um getur í 1. gr. skal sameiginlega nefndin fylgjast stöðugt með þróun dómaframkvæmdar dómstóls Evrópubandalaganna (hér á eftir nefndur „dómstóllinn“) og einnig þróun dómaframkvæmdar þar til bærra dómstóla Íslands og Noregs varðandi slík ákvæði. Í þessu augnamiði samþykkja samningsaðilarnir að tryggja tafarlausa og gagnkvæma miðlun þessarar dómaframkvæmdar.
2)           Með fyrirvara um samþykkt nauðsynlegra breytinga á samþykktum dómstólsins skulu Ísland og Noregur eiga rétt á að leggja greinargerð eða skriflegar athugasemdir fyrir dómstólinn í málum sem dómstóll aðildarríkis hefur vísað til hans til að fá forúrskurð um túlkun ákvæðis sem um getur í 5. mgr. 1. gr. eða 1. mgr. 2. gr.

7. gr.


1)           Ísland og Noregur skulu árlega gefa sameiginlegu nefndinni skýrslu þar sem fram kemur hvernig stjórnvöld þeirra og dómstólar hafa beitt og túlkað ákvæðin sem um getur í 1. gr. og, ef við á, eins og dómstóllinn hefur túlkað þau.
2)           Ef sameiginlega nefndin hefur ekki getað tryggt samræmda beitingu og túlkun innan tveggja mánaða frá því að athygli hennar er vakin á verulegum mun á dómaframkvæmd dómstólsins og dómstóla Íslands eða Noregs eða verulegum mun á beitingu yfirvalda viðkomandi aðildarríkja annars vegar og Íslands eða Noregs hins vegar, að því er varðar ákvæðin sem um getur í 1. gr., skal málsmeðferð skv. 8. gr. koma til framkvæmda.

8. gr.


1)           Rísi ágreiningur um beitingu eða túlkun þessa samnings, eða komi upp þær aðstæður sem kveðið er á um í 5. gr. eða 2. mgr. 7. gr., skal setja málið opinberlega á dagskrá fundar sameiginlegu nefndarinnar sem ágreiningsmál.
2)           Sameiginlega nefndin skal hafa níutíu daga til að leysa ágreininginn frá þeim degi að telja sem dagskráin, sem ágreiningsmálið hefur verið sett á, er samþykkt.
3)           Geti sameiginlega nefndin ekki leyst ágreininginn á því níutíu daga tímabili sem gert er ráð fyrir í 2. mgr. skal bætt við níutíu dögum til að finna endanlega lausn. Hafi sameiginlega nefndin ekki tekið ákvörðun við lok þess tímabils telst samningnum slitið að því er Ísland eða Noreg varðar, eftir því sem við á, þegar síðasti dagur þess tímabils er liðinn.

9. gr.


1)           Ísland og Noregur skulu á hverju ári leggja til fjárlaga Evrópusambandsins, vegna stjórnsýslu- og rekstrarkostnaðar við uppsetningu og rekstur miðlægrar einingar fyrir Eurodac, fjárhæð sem nemur:
-      0,1% fyrir Ísland
-      4,995% fyrir Noreg
af viðmiðunarfjárhæð, sem í upphafi var 9 575 000 evrur í heildarskuldbindingum og 5 000 000 evrur í greiðsluskuldbindingum, og, frá og með fjárhagsárinu 2002, af viðeigandi fjárveitingum á fjárlögum fyrir viðkomandi fjárlagaár.
    Að því er varðar annan stjórnsýslu- eða rekstrarkostnað í tengslum við beitingu þessa samnings skal hlutur Íslands og Noregs í honum greiðast með árlegum framlögum inn á fjárlög Evrópusambandsins í samræmi við hundraðshluta vergrar þjóðarframleiðslu þessara landa af vergri þjóðarframleiðslu allra þátttökuríkjanna.
2)           Ísland og Noregur skulu eiga rétt á að fá afhent skjöl sem varða þennan samning og fá túlkun á fundum sameiginlegu nefndarinnar á opinbert tungumál stofnana Evrópubandalaganna að eigin vali. Ísland eða Noregur skal þó bera kostnað við þýðingu og túlkun úr og á íslensku eða norsku, eftir því sem við á.

10. gr.


    Yfirvöld á Íslandi og í Noregi, sem hafa eftirlit með vernd persónuupplýsinga innan lands, og óháða eftirlitsstofnunin, sem komið er á fót skv. 2. mgr. 286. gr. stofnsáttmála Evrópubandalagsins, skulu hafa með sér samstarf, eftir því sem þörf er á, við skyldustörf sín, ekki síst með því að skiptast á öllum þeim upplýsingum sem að gagni geta komið. Gera skal samkomulag um hvernig slíku samstarfi verður háttað um leið og þessari stofnun hefur verið komið á fót.

11. gr.


1)           Samningur þessi skal engin áhrif hafa á samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eða aðra samninga sem Evrópubandalagið og Ísland og/eða Noregur eða ráðið og Ísland og/eða Noregur hafa gert með sér.
2)           Samningur þessi skal engin áhrif hafa á samninga sem gerðir verða milli Íslands og/eða Noregs og Evrópubandalagsins.
3)           Samningur þessi skal engin áhrif hafa á samstarfið innan ramma Norræna vegabréfasambandsins að því marki sem samstarfið er ekki andstætt eða til fyrirstöðu þessum samningi og þeim gerðum og ráðstöfunum sem byggjast á honum.

12. gr.


    Konungsríkið Danmörk getur farið þess á leit að taka þátt í samningi þessum. Skilyrði fyrir þeirri þátttöku skulu samningsaðilarnir ákveða og skal það gert með samþykki Konungsríkisins Danmerkur í bókun við samning þennan.

13. gr.


1)           Með fyrirvara um 2.–5. mgr. tekur samningur þessi til þess yfirráðasvæðis, sem stofnsáttmáli Evrópubandalagsins gildir á, og til Íslands og Noregs.
2)           Samningur þessi tekur ekki til Svalbarða (Spitzbergen).
3)           Samningur þessi tekur aðeins til yfirráðasvæðis Konungsríkisins Danmerkur í samræmi við ákvæði 12. gr. og því aðeins til Færeyja og Grænlands að Dyflinnarsamningurinn verði rýmkaður þannig að hann nái til þessara yfirráðasvæða.
4)           Samningur þessi tekur ekki til frönsku umdæmanna handan hafsins.
5)           Samningur þessi öðlast því aðeins gildi á Gíbraltar að Dyflinnarsamningurinn, eða bandalagsráðstöfun sem kemur í stað þess samnings, taki til Gíbraltar.

14. gr.


1)           Samningur þessi er háður fullgildingu eða samþykki samningsaðilanna. Skjöl um fullgildingu eða samþykki verða afhent framkvæmdastjóra ráðsins til vörslu en hann skal vera vörsluaðili.
2)           Samningur þessi öðlast gildi á fyrsta degi næsta mánaðar eftir að vörsluaðili hans tilkynnir samningsaðilunum að síðasta skjalið um fullgildingu eða samþykki hafi verið afhent til vörslu.

15. gr.


    Hver samningsaðili getur slitið samningi þessum með skriflegri yfirlýsingu til vörsluaðila. Slík yfirlýsing öðlast gildi sex mánuðum eftir að hún er afhent til vörslu. Samningurinn fellur úr gildi ef annaðhvort Evrópubandalagið eða bæði Ísland og Noregur hafa sagt honum upp.

Gjört í á degi mánaðar árið í einu frumriti á dönsku, ensku, finnsku, frönsku, grísku, hollensku, ítölsku, portúgölsku, spænsku, sænsku, þýsku, íslensku og norsku og eru allir textarnir jafngildir en frumritið verður afhent til vörslu í skjalasafni aðalskrifstofu ráðs Evrópusambandsins.
VIÐAUKI


ÁKVÆÐI VARÐANDI DYFLINNARSAMNINGINN
OG ÁKVARÐANIR NEFNDARINNAR SEM KOMIÐ VAR Á FÓT
SKV. 18. GR. HANS


1. hluti: Dyflinnarsamningurinn

Öll ákvæði samningsins, sem var undirritaður í Dyflinni 15. júní 1990, um það hvaða ríki beri ábyrgð á meðferð beiðna um hæli sem lagðar eru fram í einhverju aðildarríkjanna, nema 16.–22. gr.

2. hluti: Ákvarðanir nefndarinnar sem komið var á fót skv. 18. gr. Dyflinnarsamningsins.

Ákvörðun nefndarinnar, sem komið var á fót skv. 18. gr. Dyflinnarsamningsins frá 15. júní 1990, nr. 1/97 frá 9. september 1997 varðandi ákvæði um framkvæmd samningsins.

Ákvörðun nefndarinnar, sem komið var á fót skv. 18. gr. Dyflinnarsamningsins frá 15. júní 1990, nr. 1/98 frá 30. júní 1998 varðandi ákvæði um framkvæmd samningsins.


..............




YFIRLÝSING NR. 1



Þangað til Evrópubandalagið samþykkir löggjöf sem kemur í staðinn fyrir Dyflinnarsamninginn munu samningsaðilarnir halda fund í sameiginlegu nefndinni, sem komið var á fót skv. 1. mgr. 3. gr. samningsins, í tengslum við hvern fund í nefndinni sem komið var á fót skv. 18. gr. Dyflinnarsamningsins, þar með taldir fundir á vettvangi sérfræðinga til undirbúnings starfi hennar.


YFIRLÝSING NR. 2



Samningsaðilarnir leggja áherslu á mikilvægi náinna og virkra samræðna allra þeirra sem tengjast framkvæmd Dyflinnarsamningsins og ráðstafananna sem um getur í 1. mgr. 2. gr. samningsins.

Framkvæmdastjórnin býður sérfræðingum frá aðildarríkjunum að sitja fundi sameiginlegu nefndarinnar og skiptast þar á skoðunum, í fullu samræmi við 1. mgr. 3. gr. samningsins, við Ísland og Noreg um öll mál sem samningurinn fjallar um.

Samningsaðilarnir taka mið af vilja aðildarríkjanna til að þiggja slík boð og taka þátt í slíkum skoðanaskiptum við Ísland og Noreg um öll mál sem samningurinn fjallar um.


YFIRLÝSING NR. 3



Samningsaðilarnir samþykkja að í reglum um málsmeðferð sameiginlegu nefndarinnar, sem komið var á fót skv. 3. gr. samningsins, komi fram að reglur stofnana Evrópusambandsins, þaðan sem skjöl eru upprunnin, varðandi ráðstafanir til verndar leynilegum upplýsingum, sem gilda hjá þessum stofnunum, skuli einnig gilda um vernd leynilegra upplýsinga sem sameiginlega nefndin notar.


YFIRLÝSING NR. 4



Innan gildissviðs samningsins samþykkja samningsaðilarnir að meginreglurnar sem lágu til grundvallar bréfaskiptunum, sem fylgja sem viðauki við samninginn frá 18. maí 1999, skuli taka til nefnda sem aðstoða framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna við að beita framkvæmdarvaldi sínu.


YFIRLÝSING NR. 5



Samningsaðilarnir samþykkja að ákvörðun nefndarinnar, sem komið var á fót skv.18. gr. Dyflinnarsamningsins frá 15. júní 1990, nr. 1/2000 frá 31. október 2000 um flutning ábyrgðar á aðstandendum í samræmi við 4. mgr. 3. gr. og 9. gr. þess samnings skuli færast undir gildissvið samningsins samkvæmt málsmeðferðinni í 4. gr. hans.



Fylgiskjal II.


SAMNINGUR



um það, hvaða ríki beri ábyrgð á meðferð beiðna um hæli


sem lagðar eru fram í einhverju aðildarríkja Evrópubandalaganna.




HANS HÁTIGN KONUNGUR BELGÍU,

HENNAR HÁTIGN DROTTNING DANMERKUR,

FORSETI SAMBANDSLÝÐVELDISINS ÞÝSKALANDS,

FORSETI LÝÐVELDISINS GRIKKLANDS,

HANS HÁTIGN KONUNGUR SPÁNAR,

FORSETI LÝÐVELDISINS FRAKKLANDS,

FORSETI ÍRLANDS,

FORSETI ÍTALSKA LÝÐVELDISINS,

HANS KONUNGLEGA TIGN STÓRHERTOGINN AF LÚXEMBORG

HENNAR HÁTIGN DROTTNING HOLLANDS,

FORSETI PORTÚGALSKA LÝÐVELDISINS,

HENNAR HÁTIGN DROTTNING SAMEINAÐA KONUNGSRÍKISINS STÓRA- BRETLANDS OG NORÐUR-ÍRLANDS,

SEM HAFA HLIÐSJÓN af því markmiði sem ákveðið var á fundi ráðs Evrópubandalaganna í Strassborg 8. og 9. desember 1989, um samræmingu stefnu sinnar um veitingu hælis,

SEM HAFA EINSETT SÉR, í samræmi við sameiginlegar mannúðarhefðir sínar, að veita flóttamönnum fullnægjandi vernd samkvæmt skilmálum Genfarsamnings frá 28. júlí 1951, eins og honum var breytt með New York-bókuninni frá 31. janúar 1967, um réttarstöðu flóttamanna, hér á eftir nefnd „Genfarsamningurinn“ og „New York-bókunin“,

SEM LÍTA TIL þess sameiginlega markmiðs sem felst í landsvæði án innri landamæra þar sem sérstaklega frjáls för fólks er tryggð eins og kveðið er á um í Stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu eins og honum hefur verið breytt með einingarlögum Evrópu,

SEM ER LJÓS nauðsyn þess, þegar stefnt er að þessu markmiði, að gera ráðstafanir til að hindra að upp komi aðstæður þar sem beiðendur um hæli þurfa of lengi að velkjast í vafa um sennilegan árangur beiðna sinna, og umhugað um að tryggja öllum beiðendum um hæli að beiðnir þeirra fái meðferð í einu aðildarríki og að séð verði til þess að beiðendum um hæli verði ekki þráfaldlega vísað frá einu aðildarríki til annars án þess að neitt þeirra játi sig bært til að fjalla um beiðni um hæli,

SEM VILJA halda áfram viðræðum við flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna til að ná ofangreindum markmiðum,

SEM HAFA EINSETT SÉR að eiga náið samstarf um framkvæmd samnings þessa með ýmsum ráðum, þar á meðal með skiptum á upplýsingum,

HAFA ÁKVEÐIÐ AÐ GERA MEÐ SÉR SAMNING ÞENNAN OG HAFA Í ÞVÍ SKYNI TILNEFNT SEM UMBOÐSMENN SÍNA MEÐ FULLRI HEIMILD:

HANS HÁTIGN KONUNGUR BELGÍU,

Melchior WATHELET
varaforsætisráðherra, ráðherra dómsmála og ráðherra málefna lítilla og meðalstórra fyrirtækja og sjálfstæðra atvinnurekenda

HENNAR HÁTIGN DROTTNING DANMERKUR,

Hans ENGELL
dómsmálaráðherra

FORSETI SAMBANDSLÝÐVELDISINS ÞÝSKALANDS,

Dr. Helmut RÜCKRIEGEL
sendiherra Sambandslýðveldisins Þýskalands í Dublin

Wolfgang SCHÄUBLE
innanríkisráðherra Sambandslýðveldisins

FORSETI LÝÐVELDISINS GRIKKLANDS,

Ioannis VASSILIADES
innanríkisráðherra

HANS HÁTIGN KONUNGUR SPÁNAR,

José Luis CORCUERA
innanríkisráðherra

FORSETI LÝÐVELDISINS FRAKKLANDS,

Pierre JOXE
innanríkisráðherra

FORSETI ÍRLANDS,

Ray BURKE
dómsmála- og samgönguráðherra

FORSETI ÍTALSKA LÝÐVELDISINS,

Antonio GAVA
innanríkisráðherra

HANS KONUNGLEGA TIGN STÓRHERTOGINN AF LÚXEMBORG,

Marc FISCHBACH
menntamála-, dómsmála- og stjórnsýsluráðherra


HENNAR HÁTIGN DROTTNING HOLLANDS,

Ernst Maurits Henricus HIRSCH BALLIN
dómsmálaráðherra

FORSETI PORTÚGALSKA LÝÐVELDISINS,

Manuel PEREIRA
innanríkisráðherra

HENNAR HÁTIGN DROTTNING SAMEINAÐA KONUNGSRÍKISINS STÓRA BRETLANDS OG NORÐUR-ÍRLANDS,

David WADDINGTON
innanríkisráðherra

Sir Nicholas Maxted FENN, KCMG
sendiherra Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands í Dublin,

SEM HAFA skipst á trúnaðarskjölum og fundið þau gild og í réttu formi,

HAFA ORÐIÐ ÁSÁTT UM EFTIRFARANDI:

1. gr.

1.      Í samningi þessum:
  (a)      merkir „útlendingur“ hvern þann mann, sem ekki er ríkisborgari aðildarríkis,
  (b)      merkir „beiðni um hæli“ beiðni útlendings um vernd aðildarríkis samkvæmt Genfarsamningnum, með vísan til þess að hann hafi réttarstöðu flóttamanns í merkingu 1. gr. þess samnings eins og honum hefur verið breytt með New York-bókuninni,
  (c)      merkir „beiðandi um hæli“ útlending sem sótt hefur um hæli meðan ekki hefur enn verið tekin endanleg ákvörðun um beiðni hans,
  (d)      merkir „meðferð beiðni um hæli“ allar ráðstafanir vegna meðferðar, ákvarðanir og dómsúrlausnir þar til bærra yfirvalda varðandi beiðni um hæli, að frátalinni málsmeðferð til að ákvarða hvaða ríki beri að fjalla um beiðni um hæli samkvæmt samningi þessum,
  (e)      merkir „dvalarleyfi“ hverja þá heimild, sem yfirvöld aðildarríkis gefa út, er veitir útlendingi rétt til dvalar á yfirráðasvæði þess, að frátöldum vegabréfsáritunum og dvalarleyfum um stundarsakir sem gefin eru út meðan fjallað er um beiðni um dvalarleyfi eða hæli,
  (f)      merkir „komuáritun“ heimild eða ákvörðun aðildarríkis er gerir útlendingi kleift að koma til yfirráðasvæðis þess að öðrum komuskilyrðum uppfylltum,
  (g)      merkir „gegnumfararáritun“ heimild eða ákvörðun aðildarríkis er gerir útlendingi kleift að fara um yfirráðasvæði þess eða um gegnumfararsvæði hafnar eða flugvallar að öðrum gegnumfararskilyrðum uppfylltum.
2.      Meta skal í ljósi þeirra skilgreininga, sem settar eru fram í f- og g-liðum 1. mgr., hvers konar vegabréfsáritun um er að ræða.

2. gr.

    Aðildarríkin staðfesta skuldbindingar sínar samkvæmt Genfarsamningnum eins og honum hefur verið breytt með New York-bókunninni, án þess að neinar takmarkanir séu gerðar varðandi staðarlegt gildi þeirra, svo og ásetning sinn um að eiga samstarf við flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna um framkvæmd þeirra.

3. gr.

1.      Aðildarríkin skuldbinda sig til að fjalla um beiðni hvers þess útlendings um hæli, sem setur fram slíka beiðni á landamærum eða yfirráðasvæði þeirra.
2.      Fjalla skal um þessa beiðni af einu aðildarríki, sem ákvarða skal eftir þeim forsendum sem settar eru fram í samningi þessum. Þær forsendur, sem kveðið er á um í 4.–8. gr., skulu gilda í þeirri röð sem þær eru settar fram.
3.      Fjalla skal um þessa beiðni af því ríki eftir landslögum og þjóðréttarlegum skuldbindingum þess.
4.      Hvert aðildarríki á rétt á að fjalla um beiðni um hæli, sem útlendingur leggur fram við það, þrátt fyrir að því sé óskylt að fjalla um hana samkvæmt þeim forsendum sem kveðið er á um í samningi þessum, enda fallist sá á það, sem um hæli sækir.
    Skyldur þess aðildarríkis, sem ber að fjalla um beiðnina samkvæmt áðurgreindum forsendum, falla þá niður og færast til þess aðildarríkis sem lét í ljós vilja sinn til að fjalla um beiðnina. Hafi beiðni verið vísað til hins síðargreinda ríkis skal það skýra því ríki frá því, sem forsendurnar eiga við um.
5.      Hvert aðildarríki heldur rétti sínum til að senda beiðanda um hæli til þriðja ríkis samkvæmt landslögum sínum eftir því sem kveðið er á um í Genfarsamningnum eins og honum hefur verið breytt með New York-bókuninni.
6.      Málsmeðferð til ákvörðunar á hvaða aðildarríki beri að fjalla um beiðni um hæli samkvæmt samningi þessum skal hafin um leið og beiðni um hæli er fyrst lögð fram í aðildarríki.
7.      Beiðandi um hæli, sem er í öðru aðildarríki og leggur þar fram beiðni um hæli eftir að hafa afturkallað beiðni sína meðan ákvörðunar er leitað á því, hvaða ríki skuli fjalla um beiðni hans, skal það aðildarríki sem sú beiðni um hæli var lögð fram við taka aftur við honum með þeim hætti sem í 13. gr. segir, með tilliti til þess að leitt verði til lykta hvaða ríki beri ábyrgð á því að fjalla um hælisbeiðnina.
    Skylda þessi á ekki lengur við ef hælisbeiðandi hefur síðan yfirgefið yfirráðasvæði aðildarríkjanna í að minnsta kosti þrjá mánuði, eða hefur fengið dvalarleyfi í aðildarríki er gildir lengur en í þrjá mánuði.

4. gr.

    Eigi beiðandi um hæli aðstandanda í aðildarríki, sem viðurkennt er að hafi réttarstöðu flóttamanns í skilningi Genfarsamningsins eins og honum hefur verið breytt með New York- bókuninni, og dvelur ólöglega þar, ber því ríki að fjalla um beiðni hans, enda sé það vilji þeirra einstaklinga sem málið varðar.
    Viðkomandi aðstandandi má aðeins vera maki beiðanda um hæli eða ógift barn beiðandans sem er ólögráða og ekki hefur náð átján ára aldri, eða faðir eða móðir beiðanda ef beiðandi er sjálfur ógiftur og ólögráða og hefur ekki náð átján ára aldri.

5. gr.

1.      Hafi beiðandi um hæli gilt dvalarleyfi ber aðildarríki því sem gaf út leyfið að fjalla um hælisbeiðni hans.
2.      Hafi beiðandi um hæli gilda vegabréfsáritun ber aðildarríki því sem gaf út vegabréfsáritunina að fjalla um hælisbeiðni hans, nema við eftirtaldar aðstæður:
  (a)      Hafi vegabréfsáritunin verið útgefin samkvæmt skriflegri heimild annars aðildarríkis, ber því aðildarríki að fjalla um hælisbeiðnina. Ef aðildarríki leitar fyrst samráðs hjá miðlægu stjórnvaldi annars aðildarríkis, m.a. af öryggisástæðum, skal samþykki hins síðargreinda ekki talið fela í sér skriflega heimild í skilningi þessa ákvæðis.
  (b)      Hafi beiðandi um hæli gegnumfararáritun og leggur fram beiðni sína í öðru aðildarríki þar sem ekki er gerð til hans krafa um vegabréfsáritun, ber því aðildarríki að fjalla um hælisbeiðnina.
  (c)      Hafi beiðandi um hæli gegnumfararáritun og leggur beiðni sína fram við það ríki sem áritunina gaf út, og það ríki hefur veitt viðtöku skriflegri staðfestingu sendiráðs eða ræðismanns þess aðildarríkis þar sem ákvörðunarstaður er, þess efnis að sá útlendingur sem fallið var frá áritunarkröfu gagnvart fullnægi skilyrðum til að mega koma til þess ríkis, ber síðargreinda ríkinu að fjalla um hælisbeiðnina.
3.      Hafi beiðandi um hæli fleiri en eitt gilt dvalarleyfi eða vegabréfsáritanir, sem fleiri en eitt aðildarríki hafa gefið út, ber aðildarríkjunum að fjalla um hælisbeiðni hans í þessari röð:
  (a)      ríkið sem gaf út það dvalarleyfi sem veitir rétt til lengstrar dvalar, en sé gildistími allra dvalarleyfanna sá sami, það ríki sem veitti það dvalarleyfi er síðast rennur út,
  (b)      séu hinar ýmsu vegabréfsáritanir af sama tagi, ríkið sem gaf út þá vegabréfsáritun sem síðast rennur út,
  (c)      séu vegabréfsáritanirnar af mismunandi tagi, ríkið sem gaf út þá vegabréfsáritun sem lengst gildir, en séu gildistímar hinir sömu, það ríki sem gaf út þá vegabréfsáritun sem síðast rennur út. Ákvæði þetta skal ekki gilda ef beiðandi hefur eina eða fleiri gegnumfararáritanir, sem útgefnar hafa verið gegn framvísun komuáritunar annars aðildarríkis. Í því tilviki ber það ríki ábyrgð á meðferðinni.
4.      Hafi beiðandi um hæli aðeins eitt eða fleiri dvalarleyfi sem runnið hafa út fyrir skemmri tíma en tveimur árum, eða eina eða fleiri vegabréfsáritanir sem runnið hafa út fyrir skemmri tíma en sex mánuðum, er gert hafa honum kleift að koma til yfirráðasvæðis aðildarríkis í raun, skulu ákvæði 1., 2. og 3. mgr. þessarar greinar gilda meðan útlendingurinn hefur ekki yfirgefið yfirráðasvæði aðildarríkjanna.
    Hafi beiðandi um hæli eitt eða fleiri dvalarleyfi sem runnið hafa út fyrir lengri tíma en tveimur árum, eða eina eða fleiri vegabrefsáritanir sem runnið hafa út fyrir lengri tíma en sex mánuðum, er gert hafa honum kleift að koma til yfirráðasvæðis aðildarríkis, og útlendingurinn hefur ekki yfirgefið landsvæði bandalagsins, hvílir meðferðarskyldan á því aðildarríki sem beiðnin er lögð fram við.

6. gr.

    Þegar unnt er að sýna fram á að beiðandi um hæli hafi ólöglega farið yfir landamæri aðildarríkis á landi, sjó eða í lofti frá ríki utan Evrópubandalaganna, ber því ríki sem hann kom til að fjalla um hælisbeiðnina.
    Skylda þess ríkis fellur þó niður ef sýnt er fram á að beiðandi hafi búið í því aðildarríki sem beiðni hans um hæli er lögð fram við, í að minnsta kosti sex mánuði áður en hann leggur fram beiðni sína. Sé svo ber hinu síðargreinda aðildarríki að fjalla um hælisbeiðnina.

7. gr.

1.      Skylda til að fjalla um beiðni um hæli hvílir á því aðildarríki sem ber að hafa eftirlit með komu útlendingsins til landsvæðis aðildarríkjanna, nema útlendingurinn, eftir að hann hefur löglega komið til aðildarríkis, þar sem vegabréfsáritun fyrir hann er ekki krafist, leggi fram beiðni um hæli í öðru aðildarríki, þar sem vegabréfsáritunar er ekki heldur krafist fyrir hann til að mega koma þangað. Sé svo ber hinu síðargreinda aðildarríki að fjalla um beiðni hans um hæli.
2.      Þar til samningur aðildarríkjanna um fyrirkomulag um för yfir ytri landamæri öðlast gildi skal ekki líta svo á að aðildarríki sem heimilar gegnumför án vegabréfsáritunar um gegnumfararsvæði flugvalla sinna sé ábyrgt fyrir komueftirliti hvað varðar ferðamenn sem ekki yfirgefa gegnumfararsvæðið.
3.      Sé sótt um hæli þegar farið er um flugvöll aðildarríkis ber því aðildarríki að fjalla um beiðnina.

8. gr.

    Sé ekki unnt að ákvarða út frá öðrum forsendum sem tilgreindar eru í samningi þessum hvaða aðildarríki ber að fjalla um beiðni um hæli, ber því aðildarríki sem beiðni er lögð fram við að fjalla um hana.

9. gr.

    Hvert aðildarríki getur, enda þótt því beri ekki að fjalla um beiðni samkvæmt þeim forsendum sem kveðið er á um í samningi þessum, fjallað um beiðni um hæli að beiðni annars aðildarríkis af mannúðarástæðum, einkum með tilliti til fjölskyldu- og menningarsjónarmiða, enda standi vilji beiðanda til þess.
    Ef aðildarríkið sem þannig er leitað til fellst á beiðnina flyst skylda til að fjalla um beiðnina til þess ríkis.

10. gr.

1.      Aðildarríki það sem fjalla ber um beiðni samkvæmt þeim forsendum sem kveðið er á um í samningi þessum skal:
  (a)      Taka beiðanda, sem lagt hefur fram beiðni um hæli í öðru aðildarríki, í sína umsjá samkvæmt því sem í 11. gr. segir,
  (b)      ljúka meðferð hælisbeiðninnar,
  (c)      veita að nýju viðtöku eða taka aftur samkvæmt því sem í 13. gr. segir beiðanda sem hefur lagt fram beiðni til meðferðar og dvelur ólöglega í öðru aðildarríki,
  (d)      taka aftur samkvæmt því sem í 13. gr. segir beiðanda er afturkallað hefur beiðni sem er til meðferðar og lagt fram beiðni í öðru aðildarríki,
  (e)      taka aftur samkvæmt því sem í 13. gr. segir útlending sem fengið hefur synjun á beiðni sinni og dvelur ólöglega í öðru aðildarríki.
2.      Veiti aðildarríki beiðanda dvalarleyfi sem gildir lengur en í þrjá mánuði flytjast þær skyldur, sem tilgreindar eru í a–e-liðum 1. mgr. til þess aðildarríkis.
3.      Þær skyldur sem tilgreindar eru í a–d-liðum 1. mgr. falla niður ef útlendingurinn hefur yfirgefið yfirráðasvæði aðildarríkisins í að minnsta kosti þrjá mánuði.
4.      Þær skyldur, sem tilgreindar eru í d–e-liðum 1. mgr., falla niður ef ríki það, sem fjalla ber um beiðni um hæli, tekur og framfylgir nauðsynlegum ráðstöfunum til að senda útlendinginn aftur til heimalands síns eða annars lands sem hann fær löglega komið til, eftir að beiðni hans hefur verið afturkölluð eða henni synjað.

11. gr.

1.      Telji aðildarríki sem beiðni um hæli hefur verið lögð fram við, að öðru aðildarríki beri að fjalla um beiðnina, getur það eins fljótt og unnt er og eigi síðar en innan sex mánaða eftir þann dag er beiðni var lögð fram, skorað á hitt aðildarríkið að taka beiðanda í sína umsjá.
    Verði það ekki gert innan hins sex mánaða frests ber því ríki, þar sem beiðnin var lögð fram, að fjalla um beiðnina um hæli.
2.      Með beiðni um að beiðandi sé tekinn í umsjá hins aðildarríkisins skulu fylgja upplýsingar er gera stjórnvöldum þess ríkis kleift að ganga úr skugga um hvort því beri að fjalla um beiðni samkvæmt þeim forsendum sem kveðið er á um í samningi þessum.
3.      Þegar ákvarðað er hvaða ríki beri að fjalla um beiðni samkvæmt þessum forsendum skal miða við stöðu máls þegar beiðandi um hæli lagði fyrst fram beiðni sína við aðildarríki.
4.      Aðildarríki skal taka afstöðu til beiðnar um viðtöku innan þriggja mánaða frá því er áskorunin er sett fram. Bregðist það ekki við innan þess frests skal það talið jafngilt því að hún sé samþykkt.
5.      Flytja verður beiðanda um hæli frá því aðildarríki þar sem beiðni er lögð fram og til þess aðildarríkis sem fjalla ber um beiðnina eigi síðar en einum mánuði eftir að beiðni um að taka hann í umsjá er samþykkt, eða einum mánuði eftir að meðferð kærumáls lýkur, er beiðandi hefur átt frumkvæði að til að bera brigður á ákvörðun um flutning hans, hafi sú málsmeðferð frestunaráhrif.
6.      Ráðstafanir skv. 18. gr. geta síðar ráðið þeirri málsmeðferð í einstökum atriðum, sem viðhöfð er til að taka beiðanda í umsjá.

12. gr.

    Leggi beiðandi fram beiðni um hæli til viðeigandi stjórnvalda aðildarríkis meðan hann er staddur á yfirráðasvæði annars aðildarríkis, skal það aðildarríki þar sem beiðandi er staddur ákvarða hvaða aðildarríki beri að fjalla um beiðni hans um hæli. Það aðildarríki sem við beiðninni tekur skal án tafar skýra hinu síðargreinda aðildarríki frá beiðninni, og skal hvað framkvæmd samnings þessa snertir líta svo á að það aðildarríki sé aðildarríkið þar sem beiðni um hæli er lögð fram.

13. gr.

1.      Beiðanda um hæli skal taka aftur í þeim tilvikum sem kveðið er á um í 7. mgr. 3. gr. og 10. gr., eins og hér segir:
  (a)      í beiðni um að beiðandi sé tekinn aftur skulu vera skýringar, er gera því ríki sem hún er lögð fram við kleift að ákvarða hvort því beri að fjalla um beiðnina skv. 7. mgr. 3. gr. og 10. gr.;
  (b)      ríkið sem ætlast er til að taki beiðanda aftur skal svara beiðninni innan átta daga frá því er málinu er vísað til þess. Viðurkenni það skyldu sína skal það taka beiðanda aftur eins fljótt og unnt er og eigi síðar en einum mánuði eftir að það fellst á að gera það.
2.      Með ráðstöfunum sem gerðar eru skv. 18. gr. má síðar kveða nánar á um með hverjum hætti taka skuli beiðanda aftur.

14. gr.

1.      Aðildarríki skulu eiga með sér gagnkvæm samskipti með tilliti til:
.      ráðstafana á sviði innlendrar löggjafar, stjórnsýslureglna eða starfshátta er varða hæli;
.      tölfræðilegra upplýsinga um mánaðarlegar komur beiðenda um hæli og sundurliðun þeirra eftir þjóðerni. Slíkar upplýsingar skal senda ársfjórðungslega fyrir milligöngu skrifstofu ráðs Evrópubandalaganna, sem sjá skal til þess að þær séu framsendar aðildarríkjum, framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna og flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna.
2.      Aðildarríkin geta átt með sér gagnkvæm samskipti með tilliti til:
.      almennra upplýsinga um nýja þróun varðandi hælisbeiðnir;
.      almennra upplýsinga um ástand í þeim löndum sem beiðendur eru frá eða þaðan sem þeir koma.
3.      Vilji aðildarríki sem sendir upplýsingar skv. 2. mgr. að þeim sé haldið leyndum skulu hin aðildarríkin virða það.

15. gr.

1.      Hvert aðildarríki skal senda hverju öðru aðildarríki sem þess óskar þær upplýsingar um einstök mál sem nauðsynlegar eru til að:
.      ákvarða hvaða aðildarríki beri að fjalla um hælisbeiðni,
.      fjalla um hælisbeiðni,
.      framkvæma allar skuldbindingar samkvæmt samningi þessum.
2.      Í þeim upplýsingum skulu aðeins vera:
.      atriði sem varða persónu beiðanda, og, þar sem við á, fjölskyldu hans (fullt nafn, og þar sem við á fyrra nafn, gælunöfn eða uppfundin nöfn, núverandi og fyrrverandi ríkisfang, fæðingardagur og fæðingarstaður),
.      persónu- og ferðaskilríki (tilvísanir, gildi, útgáfudagur, útgáfustjórnvald, útgáfustaður o. s. frv.),
.      aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að sýna fram á hver beiðandi er,
.      dvalarstaðir og ferðaleiðir,
.      dvalarleyfi og vegabréfsáritanir sem aðildarríki hefur útgefið,
.      staður þar sem beiðnin var lögð fram,
.      hvenær fyrri beiðni var lögð fram, ef um það er að ræða, hvenær núverandi beiðni er lögð fram, hvaða stigi málsmeðferð hefur náð, og hvaða ákvörðun hefur verið tekin ef því er að skipta.
3.      Enn fremur getur aðildarríki farið þess á leit við annað aðildarríki að það skýri sér frá á hverju beiðandi byggir beiðni sína, og, þar sem við á, rök fyrir þeim ákvörðunum, sem kunna að hafa verið teknar varðandi beiðandann. Það ríki sem um upplýsingarnar er beðið hefur ákvörðunarvald um hvort þær verði látnar í té. Í öllum tilvikum er afhending umbeðinna upplýsinga háð samþykki hælisbeiðanda.
4.      Upplýsingaskipti þessi skulu fara fram að beiðni aðildarríkis og mega einungis eiga sér stað milli þeirra stjórnvalda sem hvert aðildarríki hefur tilnefnt og tilkynnt nefnd þeirri sem kveðið er á um í 18. gr.
5.      Upplýsingar þær sem skipst er á má aðeins nota í þeim tilgangi sem kveðið er á um í 1. mgr. Í hverju aðildarríki má aðeins senda slíkar upplýsingar þeim stjórnvöldum, dómstólum og úrskurðaraðilum sem falið er að:
.      ákvarða hvaða aðildarríki beri að fjalla um hælisbeiðni,
.      fjalla um hælisbeiðni,
.      framkvæma allar skuldbindingar samkvæmt samningi þessum.
6.      Aðildarríki það sem upplýsingarnar sendir skal sjá um að þær séu nákvæmar og uppfærðar.
    Ef í ljós kemur að það aðildarríki hafi veitt ónákvæmar upplýsingar eða upplýsingar sem ættu ekki að hafa verið veittar, skal aðildarríki því sem við þeim tekur þegar skýrt frá því. Þeim ber þá að leiðrétta upplýsingarnar eða eyða þeim.
7.      Beiðandi um hæli á rétt til að fá í hendur, samkvæmt beiðni, þær upplýsingar sem skipst er á varðandi hann meðan þær eru tiltækar.
    Sýni beiðandi fram á að upplýsingarnar séu ónákvæmar eða að ekki hefði átt að veita þær, á hann rétt á að fá þær leiðréttar eða þeim eytt. Réttar þessa skal neytt í samræmi við þau skilyrði sem kveðið er á um í 6. mgr.
8.      Í hverju aðildarríki sem um er að ræða skal skrá sendingu þeirra upplýsinga sem skipst er á og viðtöku þeirra.
9.      Upplýsingarnar skulu ekki geymdar lengur en nauðsyn krefur með tilliti til tilgangs upplýsingaskiptanna. Viðkomandi aðildarríki skal þegar við á fjalla um nauðsyn þess að þær séu geymdar.
10.      Hvernig sem á stendur skulu þær upplýsingar sem sendar eru njóta að minnsta kosti sömu verndar og veittar eru sambærilegum upplýsingum í því aðildarríki sem við þeim tekur.
11.      Ef úrvinnsla gagna fer ekki fram með sjálfvirkum hætti og þau sæta annarri meðhöndlun skal hvert aðildarríki gera viðeigandi raunhæfar eftirlitsráðstafanir til að tryggja að ákvæðum greinar þessarar sé fylgt. Ef aðildarríki hefur eftirlitsstofnun af því tagi sem fjallað er um í 12. mgr. má fela henni þetta eftirlitshlutverk.
12.      Vilji eitt eða fleiri aðildarríki tölvuvæða þær upplýsingar sem nefndar eru í 2.–3. mgr. að einhverju eða öllu leyti getur aðeins af því orðið ef viðkomandi ríki hafa leitt í landslög reglur um slíka gagnavinnslu í samræmi við Strassborgarsamning frá 28. janúar 1981 um vernd einstaklinga varðandi vélræna vinnslu persónuupplýsinga, og ef þau hafa falið viðeigandi ríkisstofnun að hafa sjálfstætt eftirlit með vinnslu og notkun gagna sem send eru samkvæmt samningi þessum.

16. gr.

1.      Hvert aðildarríki getur lagt fram við nefnd þá sem kveðið er á um í 18. gr. tillögur um endurskoðun samnings þessa í því skyni að bæta úr vandkvæðum við framkvæmd hans.
2.      Reynist nauðsynlegt að endurskoða eða breyta samningi þessum svo að náð verði þeim markmiðum sem kveðið er á um í 8. gr. a í Stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu, sérstaklega ef samræming á stefnu um veitingu hælis og sameiginleg stefna varðandi vegabréfsáritanir er háð því að þeim markmiðum verði náð, skal það ríki sem fer með forsæti í ráði Evrópubandalaganna kalla nefnd þá, sem kveðið er á um í 18. gr., saman til fundar.
3.      Öll endurskoðun samnings þessa, svo og allar breytingar á honum, skulu samþykktar af nefnd þeirri sem kveðið er á um í 18. gr. Skal endurskoðun eða breyting öðlast gildi samkvæmt ákvæðum 22. gr.

17. gr.

1.      Ef aðildarríki verður fyrir alvarlegum erfiðleikum vegna verulegra breytinga á þeim aðstæðum sem ríkja við gerð samnings þessa getur það ríki borið málið fram fyrir nefnd þá sem kveðið er á um í 18. gr. svo hún geti lagt til við aðildarríkin aðgerðir til að bregðast við því ástandi eða samþykkt endurskoðun eða breytingar eins og nauðsynlegt virðist, og skal endurskoðun eða breyting öðlast gildi eins og kveðið er á um í 3. mgr. 16. gr.
2.      Vari það ástand, sem í 1. mgr. getur, enn að sex mánuðum liðnum, getur nefndin samkvæmt því sem í 2. mgr. 18. gr. segir heimilað því aðildarríki þar sem breytingin hefur áhrif sín tímabundna frestun á framkvæmd ákvæða samnings þessa, þó þannig að frestunin hamli ekki því að náð verði þeim markmiðum sem kveðið er á um í 8. gr. a í stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu eða gangi gegn öðrum þjóðréttarlegum skuldbindingum aðildarríkjanna.
3.      Meðan á frestun stendur skal nefndin halda áfram umræðum sínum í því skyni að endurskoða ákvæði samnings þessa, hafi hún þá ekki þegar náð samkomulagi.

18. gr.

1.      Stofnuð skal nefnd þar sem í eiga sæti einn fulltrúi frá ríkisstjórn hvers aðildarríkis.
    Það aðildarríki sem er í forsæti í ráði Evrópubandalaganna skal veita nefndinni forstöðu.
    Framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins getur tekið þátt í umræðum nefndarinnar og starfshópa þeirra sem fjallað er um í 4. mgr.
2.      Að beiðni eins eða fleiri aðildarríkja skal nefndin fjalla um öll almenn atriði varðandi framkvæmd eða túlkun samnings þessa.
    Nefndin skal ákvarða þær ráðstafanir sem fjallað er um í 6. mgr. 11. gr. og 2. mgr. 13. gr., og veita heimildir skv. 2. mgr. 17. gr.
    Nefndin skal samþykkja ákvarðanir um endurskoðun eða breytingar á samningi þessum skv. 16. og 17. gr.
3.      Nefndin skal taka ákvarðanir sínar samhljóða, nema þegar hún starfar skv. 2. mgr. 17. gr., en þá skulu ákvarðanir hennar teknar með tveimur þriðju hlutum atkvæða nefndarmanna.
4.      Nefndin skal setja sér starfsreglur, og getur hún sett á fót starfshópa.
    Skrifstofa ráðs Evrópubandalaganna skal annast skrifstofuhald fyrir nefndina og starfshópa hennar.

19. gr.

    Hvað konungsríkið Danmörk snertir skulu ákvæði samnings þessa ekki gilda um Færeyjar og Grænland nema konungsríkið Danmörk gefi yfirlýsingu um það. Slíka yfirlýsingu má hvenær sem er gefa með orðsendingu til ríkisstjórnar Írlands, sem skal tilkynna öðrum aðildarríkjum um hana.
    Hvað snertir lýðveldið Frakkland skulu ákvæði samnings þessa aðeins gilda á evrópsku yfirráðasvæði þess.
    Hvað snertir konungsríkið Holland skulu ákvæði samnings þessa aðeins gilda á evrópsku yfirráðasvæði þess.
    Hvað snertir Sameinaða konungsríkið skulu ákvæði samnings þessa aðeins gilda í Sameinaða konungsríkinu Stóra Bretlandi og Norður-Írlandi. Þau skulu ekki gilda á landsvæðum í Evrópu, sem Sameinaða konungsríkið hefur fyrirsvar fyrir á sviði utanríkismála, nema Sameinaða konungsríkið gefi yfirlýsingu um það. Slíka yfirlýsingu má hvenær sem er gefa með orðsendingu til ríkisstjórnar Írlands, sem skal tilkynna öðrum aðildarríkjum um hana.

20. gr.

    Enga fyrirvara má gera við samning þennan.

21. gr.

1.      Hverju því ríki, sem gerist aðili að Evrópubandalögunum, er heimil aðild að samningi þessum. Aðildarskjöl skulu afhent ríkisstjórn Írlands til varðveislu.
2.      Gagnvart hverju því ríki sem gerist aðili að samningi þessum skal hann öðlast gildi á fyrsta degi þriðja mánaðar eftir að aðildarskjal þess hefur verið afhent.

22. gr.

1.      Samningur þessi er háður fullgildingu, viðurkenningu eða samþykkt. Fullgildingar-, viðurkenningar- eða samþykktarskjöl skulu afhent ríkisstjórn Írlands til varðveislu.
2.      Ríkisstjórn Írlands skal tilkynna ríkisstjórnum annarra aðildarríkja um afhendingar fullgildingar-, viðurkenningar- og samþykktarskjala.
3.      Samningur þessi skal öðlast gildi á fyrsta degi þriðja mánaðar eftir að síðasta fullgildingar-, viðurkenningar- eða samþykktarskjal undirritunarríkis er afhent.
    Ríki það sem fullgildingar-, viðurkenningar- og samþykktarskjöl eru lögð fram við skal tilkynna aðildarríkjunum um gildistökudag samnings þessa.

    Til staðfestingar þessu hafa undirritaðir umboðsmenn undirritað þennan samning.
    Gjört í Dyflinni fimmtánda júní nítján hundruð og níutíu í einu frumriti á dönsku, ensku, frönsku hollensku, grísku, írsku, ítölsku, portúgölsku, spænsku og þýsku tungumáli og eru textarnir jafngildir og skulu varðveittir í skjalasafni írsku ríkisstjórnarinnar sem skal senda staðfest endurrit til hvers annars aðildarríkis.



Fylgiskjal III.


ÁKVÖRÐUN nr. 1/97
frá 9. september 1997
nefndarinnar sem komið var á fót skv. 18. gr. Dyflinnarsamningsins frá 15. júní 1990, varðandi ákvæði um framkvæmd samningsins

(97/662/SAR)


NEFNDIN, sem komið var á fót skv. 18. gr. samningsins um það hvaða ríki beri ábyrgð á meðferð beiðna um hæli sem lagðar eru fram í einhverju aðildarríkja Evrópubandalaganna, sem undirritaður var í Dyflinni 15. júní 1990 ( 5 ),

MEÐ HLIÐSJÓN AF 6. mgr. 11. gr., 2. mgr. 13. gr. og 1. og 2. mgr. 18. gr. þess samnings,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

Nauðsynlegt er að samþykkja ákvæði til að tryggja skilvirka framkvæmd samningsins eftir gildistöku hans 1. september 1997.

HEFUR ÁKVEÐIÐ OG STAÐFEST EFTIRFARANDI:

1. gr.

Nema kveðið sé á um annað eiga tilvísanir í greinar og tölusettar og ótölusettar málsgreinar í þessari ákvörðun við samninginn um það hvaða ríki beri ábyrgð á meðferð beiðna um hæli sem lagðar eru fram í einhverju aðildarríkja Evrópubandalaganna (hér á eftir nefndur „samningurinn“).

I. KAFLI

ALMENNAR VIÐMIÐUNARREGLUR UM FRAMKVÆMD SAMNINGSINS

2. gr.

Beiðni um hæli lögð fram

1.     Litið er svo á að beiðni um hæli hafi verið lögð fram þegar yfirvöld viðkomandi aðildarríkis hafa eitthvað skriflegt þess efnis, annaðhvort eyðublað, sem beiðandi leggur fram, eða opinbera yfirlýsingu frá yfirvöldunum.

2.     Þegar ekki er um skriflega beiðni að ræða verður tíminn frá því að efnisleg yfirlýsing er gefin þar til opinber yfirlýsing er lögð fram að vera eins stuttur og unnt er.

3. gr.

Svar við beiðni um að beiðandi verði tekinn í umsjá

Svar við beiðni um að taka yfir umsjá með beiðanda, með það í huga að fresta því að ákvæðið um þriggja mánaða frestinn, sem mælt er fyrir um í 4. mgr. 11. gr., komi til framkvæmda, skal vera skrifleg orðsending.

4. gr.

Frestur til að svara beiðni um að beiðandi verði tekinn í umsjá

1.     Aðildarríkið, sem beiðni um að taka beiðanda í umsjá er beint til, ætti að leggja sig fram um að svara beiðninni innan eins mánaðar frá þeim degi sem tekið var við henni.

2.     Þegar um sérstaklega erfið tilvik er að ræða getur aðildarríkið, sem beiðni er beint til, einnig gefið bráðabirgðasvar áður en eins mánaðar fresturinn er liðinn þar sem greint er frá því hve langan frest það þurfi til að gefa ákveðið svar. Síðari fresturinn ætti að vera eins stuttur og unnt er og má í engu tilviki vera lengri en þrír mánuðir frá þeim degi að telja sem tekið var við beiðninni eins og tilgreint er í 4. mgr. 11. gr.

3.     Ef neikvætt svar er veitt innan eins mánaðar hefur aðildarríkið, sem leggur fram beiðni, enn þann kost, innan eins mánaðar frá þeim degi að telja sem það fær hið neikvæða svar, að andæfa svarinu ef, eftir daginn sem beiðnin var lögð fram, athygli þess hefur varið vakin á nýjum og mikilvægum upplýsingum sem sýna að aðildarríkið, sem beiðni er beint til, beri ábyrgð. Aðildarríkið, sem beiðni er beint til, verður að svara eins fljótt og unnt er.

4.     Nefndin, sem komið var á fót skv. 18. gr., skal að ári liðnu meta hver áhrif þessa ákvæðis hafa orðið í reynd. Þá verður og tekið til athugunar hvort einn mánuður geti verið hámarksfrestur.

5. gr.

Flýtimeðferð

Þegar beiðni um hæli er lögð fram í aðildarríki, eftir að leyfi til komu eða dvalar hefur verið synjað, handtaka hefur átt sér stað á grundvelli ólöglegrar dvalar eða tilkynnt hefur verið um ráðstöfun um brottflutning eða hún komið til framkvæmda, skal aðildarríkið tafarlaust tilkynna það aðildarríkinu sem ætlað er að beri ábyrgð; í tilkynningunni skal tilgreina ástæður að lögum og í reynd fyrir nauðsyn þess að svara skjótt og svarfrestinn sem gefinn er. Síðarnefnda aðildarríkið skal leitast við að gefa svar innan tilgreinds frests. Ef það er ekki unnt skal það tilkynna aðildarríkinu, sem leggur fram beiðni, um það eins fljótt og unnt er.

6. gr.

Þegar ekki er unnt að svara beiðni um að taka aftur við beiðanda innan átta daga frestsins

1.     Það kemur skýrt fram í b-lið 1. mgr. 13. gr. samningsins að aðildarríkin eru skuldbundin til að svara beiðni um taka aftur við beiðanda innan átta daga frá því að hún er lögð fram.

2.     Í undantekningartilvikum geta aðildarríki gefið, innan átta daga frestsins, bráðabirgðasvar þar sem tilgreindur er sá frestur sem þau taka sér til að gefa endanlegt svar. Síðarnefndi fresturinn verður að vera eins stuttur og unnt er og má í engum tilvikum vera lengri en einn mánuður frá þeim degi að telja sem bráðabirgðasvarið var sent.

3.     Ef aðildarríkið, sem beiðni er beint til, svarar ekki:

.      innan átta daga frestsins sem tilgreindur er í 1. mgr.,

.      innan eins mánaðar frestsins sem tilgreindur er í 2. mgr.,
skal litið svo á að það hafi samþykkt að taka aftur við beiðanda um hæli.

7. gr.

Ráðstafanir til að vísa útlendingi brott

Aðildarríkið, sem ber ábyrgð á meðferð beiðninnar, verður að leggja fram sönnunargögn um að útlendingnum hafi í raun verið vísað brott af yfirráðasvæði aðildarríkjanna. Því er um að ræða raunverulega brottvísun og skyldu sem varðar niðurstöðuna frekar en ætlunina sem þýðir í raun að í þessum tilvikum ber aðildarríkinu að leggja fram skrifleg sönnunargögn.

8. gr.

Brottför af yfirráðasvæði aðildarríkjanna

1.     Ef beiðandi um hæli leggur sjálfur fram sönnunargögn um að hann hafi dvalið utan yfirráðasvæðis aðildarríkjanna lengur en þrjá mánuði getur aðildarríkið, sem er annað í röðinni, sannprófað þær upplýsingar með því að hafa, ef nauðsynlegt er, samband við það þriðja land sem beiðandi segist hafa búið í þennan tíma.

2.     Í öðrum tilvikum verður aðildarríkið, þar sem upphaflega beiðnin var lögð fram, að leggja fram sönnunargögn, einkum um brottfarardag og ákvörðunarstað hælisbeiðanda. Vegna samstarfs aðildarríkjanna er aðildarríkið, þar sem beiðnin, sem er önnur í röðinni, var lögð fram, best fært um að nefna daginn þegar beiðandi um hæli kom aftur inn á yfirráðasvæði þess.

9. gr.

Undantekningar þegar beiðandi um hæli hefur vegabréfsáritun

1.     Í 2. mgr. 5. gr. er kveðið á um þrjú mismunandi tilvik þar sem aðildarríki ber ekki lengur ábyrgð á meðferð beiðni um hæli jafnvel þó að beiðandi um hæli hafi gilda vegabréfsáritun sem það ríki gefur út.

2.     Fyrsta undantekningin (a-liður) varðar vegabréfsáritun sem er gefin út með leyfi annars aðildarríkis; almenna reglan er sú að aðildarríki skuli sanna að það sé undantekningartilvik sem það skírskotar til.

3.     Önnur undantekningin (b-liður) á við þær aðstæður þegar beiðni er lögð fram í aðildarríki þar sem beiðandi fellur ekki undir kvöð um vegabréfsáritun; það er ekki þörf á að leita sannana þar sem vandamálið er ekki fyrir hendi.

4.     Þriðja undantekningin (c-liður) á við tilvik þegar beiðandi um hæli hefur vegabréfsáritun til gegnumfarar sem sendiráðs- eða kjörræðisyfirvöld aðildarríkisins, sem er lokaákvörðunarstaður, veita skriflega heimild til að gefa út; sönnunarbyrðin skiptir ekki máli í þessu tilviki þar sem fyrir liggur skrifleg staðfesting þess efnis að vegabréfsáritun til gegnumfarar hafi verið gefin út.

10. gr.

Ákvörðun um hvaða ríki beri ábyrgð þegar beiðandi hefur nokkur dvalarleyfi eða vegabréfsáritanir

Í því tilviki að beiðandi hafi nokkur dvalarleyfi eða vegabréfsáritanir sem mismunandi aðildarríki hafa gefið út (einkum og sér í lagi þegar c-liður 3. mgr. 5. gr. á við) þarf ekki sannanir til að ákvarða hvaða ríki beri ábyrgð þar sem upplýsingarnar, sem skipta máli, koma fram í komuskjalinu sem beiðandi um hæli leggur fram.

11. gr.

Ákvörðun um fresti og komu til ríkis í raun

1.     Að því er varðar ákvörðun um fresti er dagurinn, þegar dvalarleyfi eða vegabréfsáritanir renna út, reiknaður frá þeim degi sem beiðni um hæli er lögð fram.

2.     Auk þess er ekki nauðsynlegt að kanna hvenær dvalarleyfi eða vegabréfsáritanir renna út ef þessar upplýsingar eru fyrir hendi í skjölum beiðanda um hæli.

3.     Að því er varðar sönnun fyrir því að einstaklingur hafi í raun komið inn í aðildarríki skal greina á milli eftirfarandi tilvika:

.      ef beiðandi um hæli hefur í raun komið inn í aðildarríki er unnt að leggja fram sönnun með því að fá upplýsingar hjá aðildarríkinu þar sem beiðni um hæli var lögð fram,

.      ef beiðandi um hæli er ekki farinn af yfirráðasvæði aðildarríkjanna skal aðildarríkið, sem gaf út hið útrunna dvalarleyfi eða vegabréfsáritun, leggja fram umbeðnar upplýsingar,

.      ef beiðandi um hæli leggur sjálfur fram upplýsingar um að hann hafi farið af yfirráðasvæði aðildarríkjanna skal aðildarríkið, þar sem önnur beiðnin var lögð fram, kanna hvort þær upplýsingar eru réttar.

Þessar reglur eiga, að því er varðar komu í raun, við báðar undirgreinar 4. mgr. 5. gr.

12. gr.

Ólöglegar ferðir yfir landamæri inn í aðildarríki

1.     Taka skal til meðferðar sönnun fyrir því að beiðandi um hæli hafi farið ólöglega yfir landamæri aðildarríkis (fyrsta undirgrein 6. gr.) þegar gerð hefur verið skrá um sönnunargögn.

2.     Sönnun fyrir því að aðildarríki beri ekki lengur ábyrgð, þegar beiðandi um hæli leggur fram beiðni í aðildarríkinu þar sem hann hefur dvalist í sex mánuði (sbr. aðra undirgrein 6. gr.), skal fyrst og fremst lögð fram af aðildarríkinu sem skírskotar til þessarar undantekningar í anda samstarfs milli viðkomandi tveggja aðildarríkja.

3.     Ef beiðandi um hæli heldur því fram að hann hafi dvalist í aðildarríki lengur en sex mánuði ber því aðildarríki að kanna hvort þær upplýsingar séu réttar. Með fyrstu upplýsingunum til hins aðildarríkisins, sem málið varðar, skulu í öllum tilvikum fylgja upplýsingar frá beiðanda um hæli sem unnt er að nota síðar sem mótrök.

13. gr.

Formlegar reglur sem gilda um samþykki beiðanda um hæli

1.     Samþykki skal vera skriflegt.

2.     Meginreglan er sú að beiðandi verður að veita samþykki sitt þegar aðildarríkið, sem lýsir því yfir að það beri ábyrgð á meðferð beiðninnar, hefur lagt fram beiðni um upplýsingaskipti.

3.     Beiðandi um hæli verður í öllum tilvikum að vita hvaða upplýsingar hann hefur samþykkt.

4.     Samþykkið varðar ástæðurnar sem beiðandi um hæli gefur, og, ef við á, ástæðurnar fyrir ákvörðuninni sem tekin er í hans tilviki.

14. gr.

Málsmeðferð við tilkynningu

1.     Í upplýsingaskiptakerfinu skulu einnig vera upplýsingar um málsmeðferð við tilkynningu. Samkvæmt henni skal senda tilkynningu:

.      skriflega eins fljótt og unnt er,

.      með þeim tæknilegu aðferðum sem eru fyrir hendi,

.      til þeirra aðildarríkja, sem lýsa því yfir að þau beri ábyrgð á meðferð beiðni um hæli.

2.     Þessi tilkynning, sem á að koma í veg fyrir að málsmeðferð verði hafin í tveimur aðildarríkjum samtímis, gildir um 4. mgr. 3. gr. og 12. gr.

3.     Ef framkvæmd ákvörðunar um hvaða ríki beri ábyrgð er frestað skal tilkynna frestun þannig að aðildarríkin fái allar upplýsingar. Það er mjög gagnlegt fyrir aðildarríkið, þar sem beiðni var lögð fram, að fá upplýsingar um að beiðandi um hæli verði ekki fluttur á meðan beðið er ákvörðunar í máli hans hjá hinu aðildarríkinu.

15. gr.

Samræmt eyðublað vegna ákvörðunar um hvaða ríki beri ábyrgð

Sýnishorn af samræmdu eyðublaði vegna ákvörðunar um hvaða ríki beri ábyrgð á meðferð beiðni um hæli er að finna í I. viðauka við þessa ákvörðun.

II. KAFLI

ÚTREIKNINGUR FRESTA INNAN RAMMA SAMNINGSINS

16. gr.

Almennt ákvæði

Að því er varðar útreikning fresta, sem um getur í samningnum, ber að taka með laugardaga, sunnudaga og almenna frídaga.

17. gr.

Viðbótarákvæði

Að því er varðar útreikning fresta, sem kveðið er á um í 4. mgr. 11. gr. og b-lið 1. mgr. 13. gr., skulu eftirfarandi reglur einnig gilda:

.      fresturinn hefst daginn eftir að tekið er við beiðninni,

.      lokadagur frests er eindagi svarsendingar.

III. KAFLI

FLUTNINGUR BEIÐENDA UM HÆLI

18. gr.

Inngangsákvæði

1.     Í 7. mgr. 3. gr. og 4., 5., 6., 7. og 8. gr. er mælt fyrir um aðstæður þar sem meðferð beiðni um hæli, sem lögð er fram í aðildarríki (hér á eftir nefnt „fyrsta aðildarríkið“), flyst til annars aðildarríkis (hér á eftir nefnt „annað aðildarríkið“).

2.     Í 10. gr. (a-, c-, d- og e-lið 1. mgr.), 11. gr. (5. mgr.) og 13. gr. (b-lið 1. mgr.) er mælt fyrir um skuldbindingar og fresti varðandi umsjá eða endurviðtöku beiðanda frá fyrsta til annars aðildarríkisins.

Hugtakið „flutningur“ er notað í þessum kafla bæði fyrir umsjá og endurviðtöku.

3.     Mælt er fyrir um tilhögun flutnings beiðanda í 20., 21. og 22. gr. þessarar ákvörðunar.

19. gr.

Tilkynning til beiðanda um hæli

Þegar beiðni skv. 11. og 13. gr. er send til annars aðildarríkis um að taka beiðanda í sína umsjá eða taka aftur við honum skal fyrsta aðildarríkið upplýsa beiðanda, eins fljótt og unnt er, um það og tilkynna honum hvernig beiðninni er svarað. Þegar meðferð beiðni flyst til annars aðildarríkisins skal tekið fram í tilkynningunni að beiðandinn verði fluttur til þess aðildarríkis skv. 5. mgr. 11. gr. og b-lið 1. mgr. 13. gr. og með fyrirvara um innlend lög og málsmeðferðarreglur sem máli skipta. Sé um að ræða flutning eins og lýst er í a- og b-lið 1. mgr. 20. gr. þessarar ákvörðunar skal tekið fram í tilkynningunni hvenær og hvar beiðandi skal gefa sig fram í aðildarríkinu sem er annað í röðinni.

20. gr.

Flutningur beiðanda um hæli

1.     Þegar samþykkt hefur verið að beiðandi skuli fluttur til annars aðildarríkisins er fyrsta aðildarríkið skuldbundið til að tryggja, eins og unnt er, að beiðandi víki sér ekki undan flutningnum. Í því augnamiði mun fyrsta aðildarríkið ákvarða, eftir aðstæðum í hverju tilviki og í samræmi við innlend lög og málsmeðferðarreglur, hvernig flutningur beiðanda eigi að fara fram. Annaðhvort:

a)    getur flutningur verið að hans eigin frumkvæði, innan tiltekins frests; eða

b)    beiðandi getur komið í fylgd embættismanns frá fyrsta aðildarríkinu.

2.     Flutningi beiðanda telst lokið annaðhvort þegar beiðandinn hefur gefið sig fram við yfirvöld annars aðildarríkisins, sem tilgreint er í tilkynningunni sem hann fékk, ef flutningur fer fram skv. a-lið 1. mgr., eða verið tekinn í vörslu þar til bærra yfirvalda annars aðildarríkisins ef flutningur fer fram skv. b-lið 1. mgr.

3.     Ef flutningur fer fram skv. a-lið 1. mgr. hér að framan skal annað aðildarríkið tilkynna það til fyrsta aðildarríkisins, eins fljótt og unnt er, eftir að flutningnum er lokið, eða ef beiðandi hefur ekki gefið sig fram innan tilgreinds frests.

21. gr.

Frestir vegna flutnings beiðanda um hæli

1.     Í 5. mgr. 11. gr. og b-lið 1. mgr. 13. gr. er kveðið á um að flutningnum sé lokið innan eins mánaðar frá því að annað aðildarríkið tekur yfir meðferð beiðni um hæli. Aðildarríkin skulu leggja sig fram um að halda sig við þessi tímamörk þegar flutningur fer fram skv. b-lið 1. mgr. 20. gr. þessarar ákvörðunar.

2.     Ef undirbúinn hefur verið flutningur skv. a-lið 1. mgr. 20. gr. þessarar ákvörðunar en honum er ekki lokið vegna skorts á samstarfsvilja beiðandans getur annað aðildarríkið hafið meðferð beiðninnar með þeim upplýsingum sem það hefur aðgang að þegar frestirnir, sem tilgreindir eru í 5. mgr. 11. gr. og b-lið 1. mgr. 13. gr., renna út.

3.     Ef beiðni er hafnað skal annað aðildarríkið bera áfram ábyrgð á endurviðtöku beiðanda skv. ákvæðum e-liðar 1. mgr. 10. gr., nema ákvæði 2., 3. eða 4. mgr. 10. gr. eigi við.

4.     Ef verður að fresta flutningi beiðanda um hæli vegna sérstakra aðstæðna, s.s. veikinda, meðgöngu, gæsluvarðhalds o.s.frv., og því ekki unnt að koma flutningnum við innan hins venjubundna eins mánaðar frests skulu hlutaðeigandi aðildarríki í hverju einstöku tilviki hafa tilhlýðilegt samráð sín á milli um hversu langur frestur skuli veittur til flutningsins.

5.     Ef beiðandi um hæli víkur sér undan flutningi svo að ekki verður af honum skiptir það ekki máli að því er snertir ábyrgð hvort beiðandi hvarf fyrir eða eftir að aðildarríkið, sem ber ábyrgð, samþykkir ábyrgð formlega. Ef beiðandi um hæli finnst síðar skulu hlutaðeigandi aðildarríki hafa tilhlýðilegt samráð sín á milli í hverju einstöku tilviki um hversu langur frestur skuli veittur til flutningsins.

6.     Hlutaðeigandi aðildarríki verða að upplýsa hvort annað, eins fljótt og unnt er, fái þau vitneskju um að annað hvort þeirra tilvika, sem um getur í 4. eða 5. mgr., hafi komið upp. Í báðum framangreindum tilvikum skal aðildarríkið, sem ber ábyrgð á meðferð beiðni um hæli samkvæmt samningnum, bera áfram ábyrgð á umsjá eða endurviðtöku beiðanda, sbr. þó 2., 3. og 4. mgr. 10. gr.

22. gr.

Ferðabréf vegna flutnings beiðenda

Sýnishorn af ferðabréfi vegna flutnings beiðenda um hæli er gefið í II. viðauka við þessa ákvörðun.

IV. KAFLI

SÖNNUNARGÖGN INNAN RAMMA SAMNINGSINS

23. gr.

Meginreglur um öflun sönnunargagna

1.     Sá háttur, sem hafður er á við notkun sönnunargagna til að ákvarða hvaða ríki beri ábyrgð á meðferð beiðni um hæli, er grundvallaratriði við framkvæmd samningsins.

2.     Meginreglan er sú að ákvörðun um ábyrgð á meðferð beiðni um hæli skuli tekin á grundvelli eins fárra sönnunargagna og unnt er.

3.     Ef gerðar væru miklar kröfur til öflunar sönnunargagna myndi málsmeðferð til ákvörðunar um ábyrgð á meðferð beiðni um hæli að lokum taka lengri tíma en meðferð sjálfrar hælisbeiðninnar. Í því tilviki myndi samningurinn bregðast algerlega hlutverki sínu og þar væri jafnvel unnið gegn einu markmiða hans þar sem tafirnar myndu leiða til þess að nýr hópur „flóttamanna á hringsóli“ yrði til, þ.e. beiðendur um hæli sem hefðu lagt fram beiðnir sem ekki væri unnt að taka til meðferðar fyrr en málsmeðferðinni, sem mælt er fyrir um í samningnum, væri lokið.

4.     Ef reglur um sönnunargögn væru of strangar myndu aðildarríkin ekki fallast á að fara með beiðni og samningnum yrði aðeins beitt í fáum tilvikum á meðan þeim aðildarríkjum, sem eiga miklar innlendar skrár, væri refsað þar sem auðveldara væri að sanna ábyrgð þeirra.

5.     Aðildarríki ætti einnig að vera undir það búið að taka á sig ábyrgð á meðferð beiðni um hæli á grundvelli vísbendinga þegar það kemur í ljós við heildarskoðun á stöðu beiðanda um hæli að viðkomandi aðildarríki beri að öllum líkindum ábyrgðina.

6.     Aðildarríkin ættu sameiginlega að athuga í anda sannrar samvinnu á grundvelli allra sönnunargagna sem þau hafa aðgang að, þ. á m. yfirlýsinga beiðanda um hæli, hvort unnt sé að taka rökrétta ákvörðun um hvaða aðildarríki beri ábyrgð.

7.     Skrár A og B, sem um getur í 24. og 25. gr. þessarar ákvörðunar, eru unnar á grundvelli þessara atriða.

24. gr.

Almennar athugasemdir um skrár A og B

1.     Talið var nauðsynlegt að taka saman tvær skrár um sönnunargögn: sannanir í skrá A og vísbendingar í skrá B.

Þessar skrár fylgja með í III. viðauka við þessa ákvörðun.

2.     Í skrá A koma fram sannanir sem skera endanlega úr um ábyrgð samkvæmt samningnum nema gagnsannanir séu lagðar fram (t.d. um að skjöl séu ekki ósvikin).

3.     Skrá B er ekki tæmandi og nær yfir sönnunargögn sem eru vísbendingar sem hægt er að nota innan ramma samningsins. Þetta eru sönnunargögn sem hafa leiðbeinandi gildi. Vísbending, eins og í skrá B, getur nægt til að taka ákvörðun um ábyrgð en það fer eftir sönnunargildi í hverju tilviki. Hún er í eðli sínu hrekjanleg.

4.     Þessar skrár má endurskoða með hliðsjón af fenginni reynslu.

5.     Þó skal bent á að sönnunargildi þessara atriða getur verið mismikið og fer það eftir aðstæðum í hverju tilviki. Flokkun í sannanir og vísbendingar miðast við hvað það er sem sanna skal Fingraför geta t.d. verið sönnun um veru beiðanda um hæli í aðildarríki en eingöngu vísbending um að beiðandi um hæli hafi komið inn í bandalagið á tilteknum ytri landamærum.

6.     Þessi aðgreining er ástæða þess að nauðsynlegt er að taka saman tvær aðskildar skrár, aðra yfir sannanir (skrá A) og hina yfir vísbendingar (skrá B), fyrir hvert atriði sem sanna skal samkvæmt samningnum; í III. viðauka eru sönnunargögn sundurliðuð samkvæmt þeim atriðum sem sanna skal.

7.     Á sama hátt er sönnunargildi opinberra skjala ekki alltaf hið sama frá einu aðildarríki til annars. Sama skjalið getur verið gefið út í mismunandi tilgangi eða af mismunandi yfirvöldum eftir því hvaða aðildarríki á í hlut.

25. gr.

Sönnunargildi atriða í skrám A og B

Meta skal sönnunargildi atriða í skrám A og B í samræmi við eftirfarandi:

1.     Skrá A

    Sannanir í skrá A skera endanlega úr um ábyrgð aðildarríkis á meðferð beiðni um hæli nema gagnsönnun sé lögð fram (t.d. um að skjal sé falsað).

    Í þessu augnamiði munu aðildarríkin leggja fram dæmi um mismunandi gerðir opinberra skjala miðað við skiptinguna í skrá A. Sýnishorn hinna ýmsu skjala verða gefin út í sameiginlegri handbók um beitingu Dyflinnarsamningsins. Það mun leiða til aukinnar skilvirkni og hjálpa yfirvöldum að þekkja öll fölsuð skjöl sem beiðendur um hæli leggja fram. Nokkur þeirra sönnunargagna, sem tilgreind eru í skrá A, eru bestu skjölin sem unnt er að nota til beitingar 4. gr. og 1., 2., 3. og 4. mgr. 5. gr.

2.     Skrá B

    Í skrá B eru vísbendingar þar sem sönnunargildi við ákvörðun um ábyrgð á meðferð beiðni um hæli verður metið í hverju tilviki fyrir sig.

    Þessar vísbendingar geta verið afar gagnlegar í reynd. Þær geta þó ekki, óháð því hversu margar þær eru, verið sönnunargögn af sama toga og þau sem mælt er fyrir um í skrá A til ákvörðunar um ábyrgð aðildarríkis.

    Þó að ekki sé um sannanir að ræða er engu að síður unnt að nota þessi atriði til að ákveða hvaða aðildarríki sé rétt að kalla til ábyrgðar í skilningi samningsins.

26. gr.

Afleiðingar ákvörðunar um ábyrgð

1.     Hlutaðeigandi aðildarríki skal leita í hinum ýmsu skrám til að athuga hvort það beri ábyrgð.

2.     Ef fleiri en eitt aðildarríki ber ábyrgð skal aðildarríkið, sem fær fyrst beiðni um hæli, ganga úr skugga um hvort þeirra beri meiri ábyrgð samkvæmt samningnum í samræmi við meginregluna sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 3. gr. þar sem viðmiðunum um ábyrgð er beitt í þeirri röð sem þær eru tilgreindar.

3.     Þessi aðferð ætti að koma í veg fyrir að beiðendum um hæli sé vísað frá einu ríki til annars sem flækir málsmeðferðina og veldur töf.

4.     Ef beiðandi um hæli hefur farið í gegnum nokkur aðildarríki áður en hann leggur fram beiðni í því síðasta skal ríkið, sem beiðni er beint til, ekki einfaldlega gera ráð fyrir því að ríkið, sem beiðandinn fór síðast í gegnum, beri ábyrgðina.

5.     Ef sérstakar ástæður eru til að ætla að fleiri en eitt ríki beri ábyrgð á meðferð beiðni ber ríkinu, þar sem beiðnin er lögð fram, að reyna að ganga úr skugga um hvert hlutaðeigandi aðildarríkja eigi að taka beiðnina um hæli til meðferðar með hliðsjón af röð viðmiðana vegna ákvörðunar um ábyrgð sem mælt er fyrir um í samningnum.

27. gr.

Samþykki fyrir ábyrgð á grundvelli yfirlýsingar beiðanda um hæli

Með fyrirvara um ákvæði þessa kafla varðandi sönnunargögn má samþykkja í einstökum tilvikum ábyrgð á meðferð beiðni um hæli á grundvelli yfirlýsingar beiðanda um hæli sem er sjálfri sér samkvæm, nægilega nákvæm og unnt er að sannreyna.

V. KAFLI

SKIPTI Á UPPLÝSINGUM

28. gr.

Tölulegar upplýsingar og persónuupplýsingar


1.     Aðildarríkin skulu skiptast á tölulegum upplýsingum á þriggja mánaða fresti varðandi framkvæmd samningsins í reynd og nota til þess töflurnar sem fylgja með í IV. viðauka.

2.     Aðildarríki, sem beiðni skv. 15. gr. er beint til, skulu leggja sig fram um að svara beiðninni tafarlaust, ef unnt er, og innan eins mánaðar að minnsta kosti.

LOKAÁKVÆÐI

29. gr.

Gildistaka

Ákvörðun þessi öðlast gildi frá og með deginum í dag.

Hún kemur til framkvæmda 1. september 1997.

Gjört í Brussel 9. september 1997.


     Fyrir hönd nefndarinnar,
    M. FISCHBACH,
     formaður.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


III. VIÐAUKI

SKRÁ A

A. SÖNNUNARGÖGN


I.     Ákvörðun um hvaða ríki beri ábyrgð á meðferð beiðni um hæli

1.      Lögleg búseta aðstandanda, sem hefur viðurkennda stöðu flóttamanns, í aðildarríki (4. gr.)
     Sannanir
       –      skrifleg staðfesting hins aðildarríkisins á upplýsingum,
       –      útprent úr skrám,
       –      dvalarleyfi gefið út handa einstaklingi sem hefur stöðu flóttamanns,
       –      sannanir um skyldleika ef þær eru fyrir hendi,
       –      samþykki viðkomandi einstaklinga,

2.      Gild dvalarleyfi (1. og 3. mgr. 5. gr.) eða dvalarleyfi sem hafa runnið út á síðustu tveimur árum (og gildistökudagur) (3. mgr. 5. gr.)
    Sannanir
       –      dvalarleyfi,
       –      útprent úr skrá yfir útlendinga eða samsvarandi skrám,
       –      skýrslur eða staðfesting frá aðildarríkinu sem gaf dvalarleyfið út.

3.      Gildar vegabréfsáritanir (2. og 3. mgr. 5. gr.) og vegabréfsáritanir sem hafa runnið út á síðustu sex mánuðum (og gildistökudagur) (4. mgr. 5. gr.)
     Sannanir
       –      útgefnar vegabréfsáritanir (gildar eða útrunnar, eftir því sem við á),
       –      útprent úr skrá yfir útlendinga eða samsvarandi skrám,
       –      skýrslur eða staðfesting frá aðildarríkinu sem gaf vegabréfsáritunina út,

4.      Ólögleg koma (1. mgr. 6. gr.) og lögleg koma inn yfir ytri landamæri (1. mgr. 7. gr.)
     Sannanir
       –      komustimpill í frumfölsuðu eða breytingarfölsuðu vegabréfi,
       –      brottfararstimpill frá landi sem á landamæri að aðildarríki með hliðsjón af ferðaleið hælisbeiðanda og hvaða dag farið var yfir landamærin,
       –      farmiði sem er fullnaðarstaðfesting á komu inn yfir ytri landamæri,
       –      komustimpill eða samsvarandi áritun í vegabréfi.

5.      Brottför af yfirráðasvæði aðildarríkjanna (7. mgr. 3. gr.)
     Sannanir
       –      brottfararstimpill,
       –      útprent úr skrám þriðja ríkis (sönnun fyrir dvöl),
       –      farmiði sem er fullnaðarstaðfesting á komu inn yfir ytri landamæri,
       –      skýrsla eða staðfesting frá aðildarríkinu þar sem hælisbeiðandi fór af yfirráðasvæði aðildarríkjanna,
       –      stimpill frá þriðja landi sem á landamæri að aðildarríki með hliðsjón af ferðaleið hælisbeiðanda og hvaða dag farið var yfir landamærin.

6.      Dvöl í aðildarríki, sem beiðni er beint til, í sex mánuði hið minnsta áður en beiðni er lögð fram (2. mgr. 6. gr.)
     Sannanir
    Opinberar sannanir sem sýna, í samræmi við innlend lög, að útlendingur hefur dvalist í aðildarríkinu í sex mánuði hið minnsta áður en beiðni er lögð fram.

7.      Hvenær beiðni um hæli er lögð fram (8. gr.)
     Sannanir
       –      eyðublað sem hælisbeiðandi leggur fram,
       –      opinber skýrsla yfirvalda,
       –      fingraför sem tekin eru í tengslum við beiðni um hæli,
       –      útprent úr viðeigandi skrám og gagnasöfnum,
       –      skrifleg skýrsla yfirvalda til staðfestingar á því að beiðni hafi verið lögð fram.

II.    Skuldbinding aðildarríkisins sem ber ábyrgð á meðferð beiðni um hæli að heimila aftur komu eða endurviðtöku hælisbeiðanda

1.      Málsmeðferð þegar beiðni um hæli er til meðferðar eða var lögð fram áður (c-, d- og e-liðir 1. mgr. 10. gr.)
     Sannanir
       –      eyðublað sem hælisbeiðandi fyllir út,
       –      opinber skýrsla yfirvalda,
       –      fingraför sem tekin eru í tengslum við beiðni um hæli,
       –      útprent úr viðeigandi skrám og gagnasöfnum,
       –      skrifleg skýrsla yfirvalda til staðfestingar á því að beiðni hafi verið lögð fram.

2.      Brottför af yfirráðasvæði aðildarríkjanna (3. mgr. 10. gr.)
     Sannanir
       –      brottfararstimpill,
       –      útprent úr skrám þriðja ríkis (sönnun fyrir dvöl),
       –      brottfararstimpill frá landi sem á landamæri að aðildarríki með hliðsjón af ferðaleið hælisbeiðanda og hvaða dag farið var yfir landamærin,
       –      skriflegt vottorð yfirvalda um að útlendingnum hafi í raun verið vísað brott.

3.      Brottvísun af yfirráðasvæði aðildarríkjanna (4. mgr. 10. gr.)
     Sannanir
       –      skrifleg sönnun yfirvalda að útlendingnum hafi í raun verið vísað brott,
       –      brottfararstimpill,
       –      staðfesting á upplýsingum um að brottvísun frá þriðja landi hafi átt sér stað.

SKRÁ B

B. VÍSBENDINGAR


I.    Ákvörðun um hvaða ríki beri ábyrgð á meðferð beiðni um hæli

1.      Lögleg búseta aðstandanda sem hefur viðurkennda stöðu flóttamanns í aðildarríki (4. gr.)
     Vísbendingar ( 6 )
       –      upplýsingar frá hælisbeiðanda,
       –      skýrslur eða staðfesting á upplýsingum frá alþjóðastofnunum, s.s. flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna.

2.      Gild dvalarleyfi (1. og 3. mgr. 5. gr.) eða dvalarleyfi sem hafa runnið út á síðustu tveimur árum (og gildistökudagur) (4. mgr. 5. gr.)
     Vísbendingar
       –      yfirlýsing hælisbeiðanda,
       –      skýrslur eða staðfesting á upplýsingum frá alþjóðastofnunum, s.s. flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna,
       –      skýrslur eða staðfesting frá aðildarríkinu sem gaf dvalarleyfið ekki út,
       –      skýrslur eða staðfesting á upplýsingum frá aðstandendum, ferðafélögum o.s.frv.

3.      Gildar vegabréfsáritanir (2. og 3. mgr. 5. gr.) og vegabréfsáritanir sem hafa runnið út á síðustu sex mánuðum (og gildistökudagur) (4. mgr. 5. gr.)
     Vísbendingar
       –      yfirlýsing hælisbeiðanda,
       –      skýrslur eða staðfesting á upplýsingum frá alþjóðastofnunum, s.s. flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna,
       –      skýrslur eða staðfesting frá aðildarríkinu sem gaf dvalarleyfið ekki út,
       –      skýrslur eða staðfesting á upplýsingum frá aðstandendum, ferðafélögum o.s.frv.

4.      Ólögleg koma (1. mgr. 6. gr.) og lögleg koma inn yfir ytri landamæri (1. mgr. 7. gr.)
     Vísbendingar
       –      yfirlýsingar hælisbeiðanda,
       –      skýrslur eða staðfesting á upplýsingum frá alþjóðastofnunum, s.s. flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna,
       –      skýrslur eða staðfesting á upplýsingum frá öðru aðildarríki eða þriðja landi,
       –      skýrslur eða staðfesting á upplýsingum frá aðstandendum, ferðafélögum o.s.frv.
       –      fingraför, nema í tilvikum þar sem yfirvöldin tóku fingraför þegar útlendingurinn fór yfir ytri landamærin.
        Í slíkum tilvikum eru þau sannanir eins og þær eru skilgreindar í skrá A,
       –      farmiðar,
       –      hótelreikningar,
       –      aðgangsskírteini fyrir opinberar stofnanir eða einkastofnanir í aðildarríkjunum,
       –      spjald þar sem skráð er viðtal hjá lækni, tannlækni o.s.frv.,
       –      upplýsingar þar sem kemur fram að hælisbeiðandi hefur verið á vegum fólkssmyglara eða ferðaskrifstofu,
       –      o.s.frv.

5.      Brottför af yfirráðasvæði aðildarríkjanna (7. mgr. 3. gr.)
     Vísbendingar
       –      yfirlýsingar hælisbeiðanda,
       –      skýrslur eða staðfesting á upplýsingum frá alþjóðastofnunum, s.s. flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna,
       –      skýrslur eða staðfesting á upplýsingum frá öðru aðildarríki,
       –      viðvíkjandi 7. mgr. 3. gr. og 3. mgr. 10. gr.: brottfararstimpill þegar viðkomandi hælisbeiðandi hefur ekki komið á yfirráðasvæði aðildarríkjanna í þrjá mánuði hið minnsta,
       –      skýrslur eða staðfesting á upplýsingum frá aðstandendum, ferðafélögum o.s.frv.,
       –      fingraför, nema í tilvikum þar sem yfirvöldin tóku fingraför þegar útlendingurinn fór yfir ytri landamærin.
        Í slíkum tilvikum eru þau sannanir eins og þær eru skilgreindar í skrá A,
       –      farmiðar,
       –      hótelreikningar,
       –      spjald þar sem skráð er viðtal hjá lækni, tannlækni o.s.frv.,
       –      upplýsingar þar sem kemur fram að hælisbeiðandi hefur verið á vegum fólkssmyglara eða ferðaskrifstofu,
       –      o.s.frv.

6.      Dvöl í aðildarríki, sem beiðni er beint til, í sex mánuði hið minnsta áður en beiðni er lögð fram (önnur undirgrein 6. gr.)
     Vísbendingar
       –      yfirlýsingar hælisbeiðanda,
       –      skýrslur eða staðfesting á upplýsingum frá alþjóðastofnunum, s.s. flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna,
       –      skýrslur eða staðfesting á upplýsingum frá aðstandendum, ferðafélögum o.s.frv.,
       –      yfirlýsing sem gefin er út handa útlendingum sem leyfist dvöl,
       –      fingraför, nema í tilvikum þar sem yfirvöldin tóku fingraför þegar útlendingurinn fór yfir ytri landamærin.
        Í slíkum tilvikum eru þau sannanir eins og þær eru skilgreindar í skrá A,
       –      farmiðar,
       –      hótelreikningar,
       –      spjald þar sem skráð er viðtal hjá lækni, tannlækni o.s.frv.,
       –      upplýsingar sem sýna að hælisbeiðandi hefur verið á vegum fólkssmyglara eða ferðaskrifstofu,
       –      o.s.frv.

7.      Hvenær beiðni um hæli er lögð fram (8. gr.)
     Vísbendingar
       –      yfirlýsingar hælisbeiðanda,
       –      skýrslur eða staðfesting á upplýsingum frá alþjóðastofnunum, s.s. flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna,
       –      skýrslur eða staðfesting á upplýsingum frá aðstandendum, ferðafélögum o.s.frv.,
       –      skýrslur eða staðfesting á upplýsingum frá öðru aðildarríki.

II.    Skuldbinding aðildarríkisins, sem ber ábyrgð á meðferð beiðni um hæli, að heimila aftur komu eða endurviðtöku hælisbeiðanda

1.      Málsmeðferð þegar beiðni um hæli er til meðferðar eða var lögð fram áður (c-, og d-liðir 1. mgr. og 3. mgr. 10. gr.)
     Vísbendingar
       –      yfirlýsingar hælisbeiðanda,
       –      skýrslur eða staðfesting á upplýsingum frá alþjóðastofnunum, s.s. flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna,
       –      skýrslur eða staðfesting á upplýsingum frá öðru aðildarríki.

2.      Brottför af yfirráðasvæði aðildarríkjanna (3. mgr. 10. gr.)
     Vísbendingar
       –      yfirlýsingar hælisbeiðanda,
       –      skýrslur eða staðfesting á upplýsingum frá alþjóðastofnunum, s.s. flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna,
       –      skýrslur eða staðfesting á upplýsingum frá öðru aðildarríki,
       –      brottfararstimpill þegar viðkomandi hælisbeiðandi hefur ekki komið á yfirráðasvæði aðildarríkjanna í þrjá mánuði hið minnsta,
       –      skýrslur eða staðfesting á upplýsingum frá aðstandendum, ferðafélögum o.s.frv.,
       –      fingraför, nema í tilvikum þar sem yfirvöldin tóku fingraför þegar útlendingurinn fór yfir ytri landamærin.
        Í slíkum tilvikum eru þau sannanir eins og þær eru skilgreindar í skrá A,
       –      farmiðar,
       –      hótelreikningar,
       –      spjald þar sem skráð er viðtal hjá lækni, tannlækni o.s.frv.,
       –      upplýsingar þar sem kemur fram að hælisbeiðandi hefur verið á vegum fólkssmyglara eða ferðaskrifstofu,
       –      o.s.frv.

3.      Brottvísun af yfirráðasvæði aðildarríkjanna (4. mgr. 10. gr.)
     Vísbendingar
       –      yfirlýsingar beiðanda um hæli
       –      skýrslur eða staðfesting á upplýsingum frá alþjóðastofnunum, s.s. flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna
       –      brottfararstimpill þegar viðkomandi hælisbeiðandi hefur ekki komið á yfirráðasvæði aðildarríkjanna í þrjá mánuði hið minnsta,
       –      skýrslur eða staðfesting á upplýsingum frá aðstandendum, ferðafélögum o.s.frv.
       –      fingraför, nema í tilvikum þar sem yfirvöldin tóku fingraför þegar útlendingurinn fór yfir ytri landamærin.
        Í slíkum tilvikum eru þau sannanir eins og þær eru skilgreindar í skrá A
       –      farmiðar
       –      hótelreikningar
       –      spjald þar sem skráð er viðtal hjá lækni, tannlækni o.s.frv.
       –      upplýsingar þar sem kemur fram að hælisbeiðandi hefur verið á vegum fólkssmyglara eða ferðaskrifstofu
       –      o.s.frv.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal IV.


ÁKVÖRÐUN nr. 1/98
frá 30. júní 1998
nefndarinnar sem komið var á fót skv. 18. gr. Dyflinnarsamningsins frá 15. júní 1990,
varðandi ákvæði um framkvæmd samningsins

(98/451/SAR)


NEFNDIN, sem komið var á fót skv. 18. gr. samningsins um það hvaða ríki beri ábyrgð á meðferð beiðna um hæli sem lagðar eru fram í einhverju aðildarríkja Evrópubandalaganna, sem undirritaður var í Dyflinni 15. júní 1990 ( 7 ) (hér á eftir nefnd „nefndin“ og „samningurinn“),

MEÐ HLIÐSJÓN af 1. og 2. mgr. 18. gr. samningsins,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

Nauðsynlegt er að bæta við ákvörðun nefndarinnar nr. 1/97 frá 9. september 1997 varðandi ákvæði um framkvæmd samningsins til þess að tryggja skilvirka framkvæmd hans ( 8 ).

Einkum er brýnt að skýra á hvern hátt upplýsingar um hvaða leið beiðendur um hæli koma inn í Evrópusambandið þegar ákvarðað er hvaða ríki beri ábyrgð samkvæmt samningnum.

Skipti aðildarríkjanna á upplýsingum um fingraför, í samræmi við innlend lög þeirra, er hentug leið til að staðfesta um hvaða mann er að ræða og hvaða aðildarríki telst vera komuríki hans inn í Evrópusambandið til að styrkja framkvæmd samningsins.

Vel þróað, raunhæft samstarf milli aðildarríkjanna myndi auðvelda framkvæmd samningsins.

HEFUR ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.

Upplýsingar um hvaða leið beiðendur um hæli koma inn í Evrópusambandið

1.      Með fyrirvara um 2. mgr. skulu viðkomandi aðildarríki, þegar þau leggja fram eða taka til meðferðar beiðnir skv. 11. gr. samningsins, vera undir það búin í sameiningu að taka tillit til, ef við á, upplýsinga frá áreiðanlegum heimildum, sem unnt er að staðfesta, um hvaða leið beiðendur um hæli koma inn í Evrópusambandið.

2.      Litið er svo á að upplýsingarnar, sem um getur í 1. mgr., séu ekki fullnægjandi í sjálfu sér til að ákvarða ábyrgð og valdsvið aðildarríkis samkvæmt samningnum en þær geta komið að gagni við að meta aðrar vísbendingar sem varða einstaka beiðendur um hæli.

3.      Aðildarríkin skulu tryggja að upplýsingar, sem fást um hvaða leið beiðendur um hæli koma inn í Evrópusambandið, liggi þegar fyrir handa embættismönnum sem bera ábyrgð á að leggja fram beiðnir og taka þær til meðferðar skv. 11. gr. samningsins.

2. gr.

Skipti á fingraförum skv. 15. gr. samningsins

1.      Með fyrirvara um ákvæði í samningnum eða aðrar ákvarðanir nefndarinnar getur hvert aðildarríki beðið um upplýsingar um fingraför skv. 2. mgr. 15. gr. samningsins frá öðru aðildarríki þegar ástæður eru til þess í samræmi við markmiðin sem koma fram í 1. mgr. 15. gr. hans.

2.      Þegar veittar eru upplýsingar um fingraför sem svar við beiðni sem lögð er fram skv. 1. mgr. skal það gert með fyrirvara um innlend lög aðildarríkisins, sem beiðni er beint til, og meginreglur um vernd upplýsinga sem gilda í Evrópusambandinu.

3. gr.

Beiðnir um yfirtöku ábyrgðar

Í beiðnum skv. 11. gr. samningsins skulu koma fram allar fyrirliggjandi upplýsingar sem aðildarríkið, sem leggur fram beiðni, hefur aðgang að og eru nauðsynlegar til þess að taka ákvörðun um ábyrgð á meðferð beiðni um hæli.

4. gr.

Tengsl og samstarf

1.      Hvert aðildarríki skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja, einkum með heimsóknum, ef því verður við komið, að embættismenn þess eigi ávallt náið samstarf við embættismenn annarra aðildarríkja sem bera ábyrgð á verkefnum, sem tengjast samningnum, og sem þeir eiga veruleg samskipti við.

2.      Hverju aðildarríki ber, þegar það er unnt og slíkt er hagur beggja aðila, að skiptast á tengifulltrúum við önnur aðildarríki með það í huga að bæta samskiptin.

3.      Aðalskrifstofa ráðs Evrópusambandsins skal taka saman handbók fyrir þá sem vinna samkvæmt samningnum, dreifa henni, uppfæra og bæta við hana. Í handbókinni skulu vera þær upplýsingar sem gætu gagnast þeim sem vinna samkvæmt samningnum. Efni hennar skal endurskoðað reglulega.

5. gr.

Gildistaka

Ákvörðun þessi öðlast gildi daginn sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

Gjört í Brussel 30. júní 1998.

    Fyrir hönd nefndarinnar,
    
J. STRAW,
     formaður.

Fylgiskjal V.


REGLUGERÐ RÁÐSINS (EB) nr. 2725/2000
frá 11. desember 2000
um stofnun „Eurodac“ til að bera saman fingraför í því skyni að stuðla að skilvirkri
beitingu Dyflinnarsamningsins


RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS,

með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum a-lið 1. mgr. 63. gr.,

með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti Evrópuþingsins ( 9 ),

og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)        Aðildarríkin hafa fullgilt Genfarsamninginn frá 28. júlí 1951 um réttarstöðu flóttamanna, eins og honum var breytt með New York-bókuninni frá 31. janúar 1967.

2)        Aðildarríkin hafa gert með sér samning um hvaða ríki beri ábyrgð á meðferð beiðna um hæli sem lagðar eru fram í einhverju aðildarríkja Evrópubandalaganna sem undirritaður var í Dyflinni 15. júní 1990 (hér á eftir nefndur „Dyflinnarsamningurinn“) ( 10 ).

3)        Við beitingu Dyflinnarsamningsins er nauðsynlegt að staðfesta hverjir beiðendur um hæli eru svo og menn sem eru handteknir í tengslum við ólöglega för yfir ytri landamæri bandalagsins. Það er einnig æskilegt í því skyni að stuðla að skilvirkri beitingu Dyflinnarsamningsins, einkum c- og e-liðar 1. mgr. 10. gr., að heimila hverju aðildarríki að athuga hvort útlendingur, sem dvelur ólöglega á yfirráðasvæði þess, hafi beðið um hæli í öðru aðildarríki.

4)        Fingraför eru mikilvægur þáttur í því að staðfesta með nákvæmum hætti hverjir þessir menn eru. Nauðsynlegt er að koma upp kerfi til þess að bera saman fingrafaraupplýsingar um þá.

5)        Í þessu augnamiði er það nauðsynlegt að koma upp kerfi, Eurodac-kerfinu, sem samanstendur af miðlægri einingu sem verður komið á fót á vegum framkvæmdastjórnarinnar og þar sem starfrækt verður tölvuvætt miðlægt gagnasafn með fingrafaraupplýsingum, svo og búnaði til rafrænna sendinga milli aðildarríkjanna og miðlæga gagnasafnsins.

6)        Einnig er nauðsynlegt að gera þá kröfu til aðildarríkjanna að það taki tafarlaust fingraför af öllum sem biðja um hæli og öllum útlendingum sem eru handteknir í tengslum við ólöglega för yfir ytri landamæri aðildarríkis hafi þeir náð 14 ára aldri.

7)        Nauðsyn ber til að mæla fyrir um nákvæmar reglur um sendingu slíkra fingrafaraupplýsinga í miðlægu eininguna, um skráningu slíkra fingrafaraupplýsinga og annarra upplýsinga, sem máli skipta, í miðlæga gagnasafnið, geymslu þeirra, samanburð við aðrar fingrafaraupplýsingar, sendingu niðurstaðna þess samanburðar og hvernig aðgangi að skráðum upplýsingum er læst og þeim eytt. Þessar reglur geta verið mismunandi og ættu að vera aðlagaðar sérstaklega að stöðu mismunandi hópa útlendinga.

8)        Útlendingar, sem hafa beðið um hæli í aðildarríki, geta átt þess kost í mörg ár að biðja um hæli í öðru aðildarríki. Þess vegna ætti sá tími, sem fingrafaraupplýsingar eru geymdar í miðlægu einingunni, að vera talsvert langur. Að því gefnu að flestir útlendingar, sem hafa dvalist í bandalaginu í allmörg ár, hafi fengið búsetuheimild eða jafnvel ríkisborgararétt í aðildarríki eftir þann tíma, ættu tíu ár að teljast hæfilegur tími til að geyma fingrafaraupplýsingar.

9)        Geymslutíminn ætti að vera styttri við tilteknar sérstakar aðstæður þar sem engin þörf er á því að geyma fingrafaraupplýsingar í svo langan tíma. Fingrafaraupplýsingum ætti að eyða um leið og útlendingur fær ríkisborgararétt í aðildarríki.

10)    Nauðsyn ber til að mæla nákvæmlega fyrir um þá ábyrgð sem framkvæmdastjórnin ber að því er varðar miðlægu eininguna og sem aðildarríkin bera að því er varðar notkun upplýsinga, öryggi gagna, aðgang að og leiðréttingu skráðra upplýsinga.

11)    Þar sem bótaábyrgð bandalagsins utan samninga í tengslum við rekstur Eurodac-kerfisins mun ákvarðast af viðeigandi ákvæðum sáttmálans ber nauðsyn til þess að mæla fyrir um sérstakar reglur um bótaábyrgð aðildarríkjanna utan samninga í tengslum við rekstur kerfisins.

12)    Í samræmi við dreifræðisregluna, eins og hún er sett fram í 5. gr. sáttmálans, geta aðildarríkin, eðli málsins samkvæmt, ekki náð markmiði þeirra ráðstafana sem mælt er með, þ.e. að koma á laggirnar á vegum framkvæmdastjórnarinnar kerfi til að bera saman fingrafaraupplýsingar í því skyni að auðvelda framkvæmd stefnu bandalagsins í málum er varða hæli, og það er því frekar á færi bandalagsins. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í téðri grein, nær reglugerð þessi ekki lengra en nauðsynlegt er til að ná þessu markmiði.

13)    Þar sem aðildarríkin eru ein ábyrg fyrir því að skilgreina og flokka niðurstöður samanburðar sem miðlæga einingin sendir, svo og að læsa upplýsingum um fólk sem er viðurkennt og fær að koma sem flóttamenn og þar sem sú ábyrgð varðar hið sérstaklega viðkvæma svið um meðferð persónuupplýsinga og gæti haft áhrif á frelsi einstaklinga hefur ráðið sérstakar ástæður til þess að áskilja sér rétt til að beita tilteknu framkvæmdarvaldi sem varðar sérstaklega samþykkt ráðstafana sem tryggja öryggi og áreiðanleika þessara upplýsinga.

14)    Ráðstafanirnar, sem eru nauðsynlegar vegna framkvæmdar annarra ráðstafana þessarar reglugerðar, ber að samþykkja í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 þar sem mælt er fyrir um málsmeðferð um beitingu framkvæmdarvalds sem framkvæmdastjórninni er veitt 11 .

15)    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/46/EB frá 24. október 1995 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga gildir um vinnslu persónuupplýsinga 12 hjá aðildarríkjunum innan Eurodac-kerfisins.

16)    Skv. 286. gr. sáttmálans gildir tilskipun 95/46/EB einnig um stofnanir og starfseiningar bandalagsins. Þar sem miðlægu einingunni verður komið á fót á vegum framkvæmdastjórnarinnar mun tilskipunin gilda um vinnslu persónuupplýsinga hjá þeirri einingu.

17)    Meginreglurnar, sem mælt er fyrir um í tilskipun 95/46/EB um verndun réttinda og frelsis einstaklinga, einkum réttinn til einkalífs, í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga, ætti að auka við eða skýra, einkum að því er varðar tiltekin svið.

18)    Það er við hæfi að hafa eftirlit með og meta nothæfi Eurodac-kerfisins.

19)    Aðildarríkjunum ber að sjá fyrir kerfi viðurlaga til að refsa fyrir notkun upplýsinga, sem eru skráðar í miðlæga gagnasafnið, sem fer í bága við tilgang Eurodac-kerfisins.

20)    Breska konungsríkið og Írland hafa, í samræmi við 3. gr. bókunarinnar um stöðu Breska konungsríkisins og Írlands sem fylgir með sem viðauki við sáttmálann um Evrópusambandið og stofnsáttmála Evrópubandalagsins, vakið athygli á þeirri ósk að taka þátt í samþykkt og beitingu þessarar reglugerðar.

21)    Danmörk tekur, í samræmi við 1. og 2. gr. bókunarinnar um stöðu Danmerkur sem fylgir með sem viðauki við framangreinda sáttmála, ekki þátt í samþykkt þessarar reglugerðar og er því ekki bundin af eða háð beitingu hennar.

22)    Rétt er að takmarka gildissvæði þessarar reglugerðar þannig að það svari til gildissvæðis Dyflinnarsamningsins.

23)    Reglugerð þessi skal vera lagalegur grundvöllur fyrir þau framkvæmdarákvæði sem þörf er á til að koma upp nauðsynlegum tæknibúnaði hjá aðildarríkjunum og framkvæmdastjórninni, með það í huga að flýta fyrir beitingu hennar. Framkvæmdastjórnin skal sjá um að sannreyna að þessi skilyrði séu uppfyllt.

HEFUR SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:

I. KAFLI

ALMENN ÁKVÆÐI

1. gr.

Tilgangurinn með Eurodac-kerfinu

1.      Kerfi, sem nefnist Eurodac-kerfið, er hér með komið á fót og er tilgangurinn sá að aðstoða við að ákvarða hvaða ríki beri ábyrgð, samkvæmt Dyflinnarsamningnum, á meðferð beiðni um hæli sem lögð er fram í aðildarríki og að auðvelda að öðru leyti beitingu Dyflinnarsamningsins samkvæmt þeim skilyrðum sem sett eru í þessari reglugerð.

2.      Eurodac-kerfið skal samanstanda af:

  a)      miðlægu einingunni sem um getur í 3. gr.;
  b)      tölvutæku miðlægu gagnasafni þar sem upplýsingarnar, sem um getur í 5. gr. (1. mgr.), 8. gr. (2. mgr.) og 11. gr. (2. mgr.), eru unnar í þeim tilgangi að bera saman fingrafaraupplýsingar um beiðendur um hæli og þá hópa útlendinga sem um getur í 1. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 11. gr.;

  c)      aðferðum við sendingu upplýsinga milli aðildarríkjanna og miðlæga gagnasafnsins.

Reglurnar um Eurodac-kerfið skulu einnig gilda um aðgerðir sem aðildarríkin framkvæma frá því að upplýsingar eru sendar til miðlægu einingarinnar þar til niðurstöður samanburðarins eru nýttar.

3.      Með fyrirvara um notkun aðildarríkis, sem er upprunaríki, á upplýsingum, sem eru ætlaðar í Eurodac-kerfið, í gagnasöfnum, sem komið er á fót samkvæmt lögum þess ríkis, er vinnsla fingrafaraupplýsinga og annarra persónuupplýsinga í Eurodac-kerfinu aðeins heimil í þeim tilgangi sem kveðið er á um í 1. mgr. 15. gr. Dyflinnarsamningsins.

2. gr.

Skilgreiningar

1.      Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

  a)      „Dyflinnarsamningurinn“: samningurinn um það hvaða ríki beri ábyrgð á meðferð beiðna um hæli sem lagðar eru fram í einhverju aðildarríkja Evrópubandalaganna, sem undirritaður var í Dyflinni 15. júní 1990;

  b)      „beiðandi um hæli“: útlendingur sem hefur sjálfur, eða annar fyrir hans hönd, lagt fram beiðni um hæli;

  c)      „aðildarríki sem er upprunaríki“:

                  i)      að því er varðar beiðanda um hæli, aðildarríkið sem sendir persónuupplýsingarnar til miðlægu einingarinnar og fær niðurstöðu samanburðarins;

                  ii)      að því er varðar mann sem 8. gr. tekur til, aðildarríkið sem sendir persónuupplýsingarnar til miðlægu einingarinnar;

                  iii)      að því er varðar mann sem 11. gr. tekur til, aðildarríkið sem sendir persónuupplýsingarnar til miðlægu einingarinnar og fær niðurstöðu samanburðarins;

  d)      „flóttamaður“: maður sem hefur viðurkennda stöðu flóttamanns í samræmi við Genfarsamninginn frá 28. júlí 1951 um réttarstöðu flóttamanna, eins og honum var breytt með New York-bókuninni frá 31. janúar 1967;

  e)      „jákvæð niðurstaða“: samsvörun eða samsvaranir koma fram í miðlægu einingunni milli fingrafaraupplýsinga, sem eru skráðar í gagnasafnið, og þeirra sem aðildarríki sendir að því er varðar tiltekinn mann, sbr. þó þá kröfu að aðildarríkin skuli tafarlaust kanna niðurstöðu samanburðar skv. 6. mgr.

2.      Merking hugtakanna, sem eru skilgreind í 2. gr. tilskipunar 95/46/EB, skal vera hin sama í þessari reglugerð.

3.      Merking hugtakanna, sem eru skilgreind í 1. gr. Dyflinnarsamningsins, skal vera hin sama í þessari reglugerð, nema annað sé tekið fram.

3. gr.

Miðlæg eining

1.      Miðlægri einingu er hér með komið á fót á vegum framkvæmdastjórnarinnar sem skal bera ábyrgð á rekstri miðlæga gagnasafnsins, sem um getur í b- lið 2. mgr. 1. gr., fyrir hönd aðildarríkjanna. Í miðlægu einingunni skal vera tölvuvætt kerfi til greiningar fingrafara.

2.      Upplýsingar um beiðendur um hæli, menn, sem 8. gr. tekur til, og menn, sem 11. gr. tekur til, sem unnar eru í miðlægu einingunni, skulu unnar fyrir hönd aðildarríkisins sem er upprunaríki samkvæmt þeim skilyrðum sem sett eru í þessari reglugerð.

3.      Miðlæga einingin skal ársfjórðungslega taka saman tölulegar upplýsingar um starfsemi sína þar sem fram kemur:

  a)      hver er fjöldi gagnamengja sem eru send um beiðendur um hæli og menn sem um getur í 1. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 11. gr.;

  b)      hver er fjöldi jákvæðra niðurstaðna að því er varðar beiðendur um hæli sem hafa lagt fram beiðni um hæli í öðru aðildarríki;

  c)      hver er fjöldi jákvæðra niðurstaðna að því er varðar menn sem um getur í 1. mgr. 8. gr. og hafa síðar lagt fram beiðni um hæli;

  d)      hver er fjöldi jákvæðra niðurstaðna að því er varðar menn sem um getur í 1. mgr. 11. gr. og hafa áður lagt fram beiðni um hæli í öðru aðildarríki;

  e)      hver er fjöldi fingrafaraupplýsinga sem miðlæga einingin þurfti að biðja aðildarríkin, sem eru upprunaríki, um að senda aftur vegna þess að upprunalegu fingrafaraupplýsingarnar, sem sendar voru, hentuðu ekki til samanburðar í tölvuvædda kerfinu til greiningar fingrafara.

Í lok hvers árs skal setja fram tölulegar upplýsingar frá hverjum ársfjórðungi sem teknar hafa verið saman frá því að starfræksla Eurodac-kerfisins hófst, þ.m.t. upplýsingar um fjölda þeirra manna sem jákvæðar niðurstöður hafa verið skráðar um samkvæmt b-, c- og d-lið.

Tölulegu upplýsingarnar skulu sundurliðaðar fyrir hvert aðildarríki.

4.      Samkvæmt málsmeðferðinni, sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 23. gr., má fela miðlægu einingunni að vinna önnur tiltekin töluleg verkefni á grundvelli upplýsinganna sem miðlæga einingin vinnur.

II. KAFLI

BEIÐENDUR UM HÆLI

4. gr.

Söfnun, sending og samanburður fingrafara

1.      Hvert aðildarríki skal tafarlaust taka fingraför af öllum fingrum sérhvers beiðanda um hæli sem hefur náð 14 ára aldri og senda upplýsingarnar, sem um getur í a- til f-liðum 1. mgr. 5. gr., þegar í stað til miðlægu einingarinnar. Málsmeðferð við töku fingrafara skal ákveðin í samræmi við innlenda venju hlutaðeigandi aðildarríkis og í samræmi við þær öryggisráðstafanir sem mælt er fyrir um í Evrópusáttmálanum um mannréttindi og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

2.      Miðlæga einingin skal tafarlaust skrá þær upplýsingar, sem um getur í 1. mgr. 5. gr., í miðlæga gagnasafnið; að öðrum kosti skal aðildarríki, sem er upprunaríki, skrá þær milliliðalaust að því tilskildu að tæknileg skilyrði til þess hafi verið uppfyllt.

3.      Fingrafaraupplýsingar í skilningi b-liðar 1. mgr. 5. gr., sem aðildarríki sendir, skal miðlæga einingin bera saman við fingrafaraupplýsingar sem hin aðildarríkin hafa sent og eru þegar geymd í miðlæga gagnasafninu.

4.      Miðlæga einingin skal tryggja, að beiðni aðildarríkis, að samanburður, sem um getur í 3. mgr., nái yfir fingrafaraupplýsingar, sem það aðildarríki hefur áður sent, auk upplýsinga frá hinum aðildarríkjunum.

5.      Miðlæga einingin skal þegar í stað senda aðildarríkinu, sem er upprunaríki, jákvæðar eða neikvæðar niðurstöður samanburðarins. Ef niðurstaðan er jákvæð skal það, að því er varðar öll gagnamengi sem samsvara jákvæðu niðurstöðunni, senda upplýsingarnar sem um getur í 1. mgr. 5. gr.; þó skal ekki senda upplýsingarnar, sem um getur í b-lið 1. mgr. 5. gr., nema þær hafi leitt til jákvæðrar niðurstöðu.

Heimilt er að senda aðildarríkinu, sem er upprunaríki, milliliðalaust niðurstöðu samanburðarins ef tæknileg skilyrði til þess hafa verið uppfyllt.

6.      Í aðildarríkinu, sem er upprunaríki, skal tafarlaust kanna niðurstöðu samanburðarins. Lokasanngreiningu skal aðildarríkið, sem er upprunaríki, annast í samvinnu við hlutaðeigandi aðildarríki skv. 15. gr. Dyflinnarsamningsins.

Upplýsingum frá miðlægu einingunni, sem varða aðrar upplýsingar sem reynast óáreiðanlegar, skal eytt eða þær eyðilagðar um leið og í ljós kemur að síðarnefndu upplýsingarnar eru óáreiðanlegar.

7.      Framkvæmdarákvæðin, þar sem mælt er fyrir um málsmeðferðina sem er nauðsynleg vegna beitingar 1. til 6. mgr., skulu samþykkt í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 22. gr.

5. gr.

Skráning upplýsinga

1.      Í miðlæga gagnasafnið skal eingöngu skrá eftirfarandi upplýsingar:

  a)      aðildarríki sem er upprunaríki, stað og dagsetningu beiðni um hæli,

  b)      fingrafaraupplýsingar,

  c)      kyn,

  d)      tilvísunarnúmer sem aðildarríki, sem er upprunaríki, notar,

  e)      dagsetningu fingrafaratöku,

  f)      dagsetningu sendingar upplýsinga til miðlægu einingarinnar,

  g)      dagsetningu færslu upplýsinga í miðlæga gagnasafnið,

  h)      hver eða hverjir taka við upplýsingunum sem sendar eru og dagsetningu sendingar eða dagsetningar sendinga.

2.      Þegar upplýsingarnar hafa verið skráðar í miðlæga gagnasafnið skal miðlæga einingin eyðileggja miðlana sem voru notaðir til sendingar upplýsinganna, nema aðildarríkið, sem er upprunaríki, hafi óskað eftir að fá þá aftur.

6. gr.

Geymsla upplýsinga

Hvert gagnamengi, sem um getur í 1. mgr. 5. gr., skal geymt í miðlæga gagnasafninu í tíu ár frá þeim degi sem fingraförin voru tekin.

Að þeim tíma liðnum skal miðlæga einingin eyða upplýsingunum sjálfvirkt úr miðlæga gagnasafninu.

7. gr.

Upplýsingum eytt fyrir tímann

Upplýsingum um menn, sem hafa fengið ríkisborgararétt í einhverju aðildarríkjanna áður en tíminn, sem um getur í 6. gr., er liðinn, skal eytt úr miðlæga gagnasafninu í samræmi við 3. mgr. 15. gr. um leið og aðildarríkið, sem er upprunaríki, fær vitneskju um að maðurinn hafi fengið slíkan ríkisborgararétt.

III. KAFLI

ÚTLENDINGAR SEM ERU HANDTEKNIR Í TENGSLUM VIÐ ÓLÖGLEGA FÖR YFIR YTRI LANDAMÆRIN

8. gr.

Söfnun og sending fingrafaraupplýsinga

1.      Hvert aðildarríki skal, í samræmi við þær öryggisráðstafanir sem mælt er fyrir um í Evrópusáttmálanum um mannréttindi og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, taka þegar í stað fingraför af öllum fingrum sérhvers útlendings sem hefur náð 14 ára aldri og þar til bær eftirlitsyfirvöld handtaka í tengslum við ólöglega för á landi, sjó eða í lofti yfir landamæri þess aðildarríkis eftir að hafa komið frá þriðja landi og sem er ekki vísað til baka.

2.      Hlutaðeigandi aðildarríki skal þegar í stað senda miðlægu einingunni eftirfarandi upplýsingar sem varða hvern þann útlending sem um getur í 1. mgr. og er ekki vísað til baka:

  a)      aðildarríkið sem er upprunaríki, hvar og hvenær viðkomandi var handtekinn,
  b)      fingrafaraupplýsingar,

  c)      kyn,

  d)      tilvísunarnúmer sem aðildarríki, sem er upprunaríki, notar,

  e)      hvenær fingraför voru tekin,

  f)      hvenær upplýsingar voru sendar til miðlægu einingarinnar.

9. gr.

Skráning upplýsinga

1.      Upplýsingarnar, sem um getur í g-lið 1. mgr. 5. gr. og í 2. mgr. 8. gr., skulu skráðar í miðlæga gagnasafnið.

Með fyrirvara um 3. mgr. 3. gr. skal skrá upplýsingar, sem eru sendar til miðlægu einingarinnar skv. 2. mgr. 8. gr., í þeim tilgangi einum að bera þær saman við upplýsingar um beiðendur um hæli sem verða sendar síðar til miðlægu einingarinnar.

Miðlæga einingin skal ekki bera upplýsingar, sem eru sendar til hennar skv. 2. mgr. 8. gr., saman við upplýsingar sem hafa áður verið skráðar í miðlæga gagnasafnið né heldur við upplýsingar sem verða sendar síðar til miðlægu einingarinnar skv. 2. mgr. 8. gr.

2.      Beita skal málsmeðferðinni, sem kveðið er á um í 4. gr. (öðrum málslið 1. mgr.), 4. gr. (2. mgr.) og 5. gr. (2. mgr.), svo og ákvæðunum sem mælt er fyrir um í 7. mgr. 4. gr. Að því er varðar samanburð upplýsinga um beiðendur um hæli, sem eru sendar síðar til miðlægu einingarinnar, við þær upplýsingar, sem um getur í 1. mgr., skal beita málsmeðferðinni sem kveðið er á um í 3., 5. og 6. mgr. 4. gr.

10. gr.

Geymsla upplýsinga

1.      Hvert gagnamengi, sem um getur í 1. mgr. 8. gr., skal geymt í miðlæga gagnasafninu í tvö ár frá þeim degi sem fingraför útlendingsins voru tekin. Að þeim tíma liðnum skal miðlæga einingin eyða upplýsingunum sjálfvirkt úr miðlæga gagnasafninu.

2.      Upplýsingum um útlending, sem um getur í 1. mgr. 8. gr., skal eytt úr miðlæga gagnasafninu í samræmi við 3. mgr. 15. gr. um leið og aðildarríkið, sem er upprunaríki, verður þess vart áður en þau tvö ár, sem tilgreind eru í 1. mgr., eru liðin að einhverjar eftirfarandi aðstæðna eiga við:

  a)      útlendingurinn hefur fengið dvalarleyfi,

  b)      útlendingurinn er farinn af yfirráðasvæði aðildarríkjanna,

  c)      útlendingurinn hefur fengið ríkisborgararétt í einhverju aðildarríkjanna.

IV. KAFLI

ÚTLENDINGAR SEM DVELJA ÓLÖGLEGA Í AÐILDARRÍKI

11. gr.

Samanburður fingrafaraupplýsinga

1.      Með það í huga að kanna hvort útlendingur, sem dvelur ólöglega á yfirráðasvæði aðildarríkis, hafi áður lagt fram beiðni um hæli í öðru aðildarríki, getur hvert aðildarríki sent miðlægu einingunni allar fingrafaraupplýsingar varðandi fingraför sem það hefur tekið af öllum slíkum útlendingum sem hafa náð 14 ára aldri, ásamt tilvísunarnúmeri sem viðkomandi aðildarríki notar.

Yfirleitt er ástæða til að kanna hvort útlendingur hafi áður lagt fram beiðni um hæli í öðru aðildarríki ef:

  a)      útlendingurinn lýsir því yfir að hann hafi lagt fram beiðni um hæli án þess að tilgreina í hvaða aðildarríki beiðnin var lögð fram;

  b)      útlendingurinn biður ekki um hæli en neitar að láta senda sig til baka til upprunalandsins af þeirri ástæðu að þar væri hann í hættu, eða

  c)      útlendingurinn reynir með öðrum hætti að koma í veg fyrir brottflutning með því að neita samvinnu við að fá staðfest hver hann er, einkum með því að framvísa engum eða fölsuðum persónuskilríkjum.

2.      Taki aðildarríki þátt í málsmeðferðinni sem um getur í 1. mgr. skulu þau senda miðlægu einingunni fingrafaraupplýsingar varðandi alla fingur eða a.m.k. báða vísifingur og, ef þá vantar, för af öllum öðrum fingrum útlendings sem um getur í 1. mgr.

3.      Fingrafaraupplýsingar um útlending, sem um getur í 1. mgr., skal senda miðlægu einingunni eingöngu í þeim tilgangi að bera þær saman við fingrafaraupplýsingar um þá beiðendur um hæli sem hin aðildarríkin hafa sent og eru þegar geymd í miðlæga gagnasafninu.

Fingrafaraupplýsingar um slíka útlendinga skal ekki skrá í miðlæga gagnasafnið né heldur bera þær saman við upplýsingarnar sem sendar eru til miðlægu einingarinnar skv. 2. mgr. 8. gr.

4.      Að því er varðar samanburð fingrafaraupplýsinga, sem eru sendar samkvæmt þessari grein, við þær fingrafaraupplýsingar um beiðendur um hæli sem önnur aðildarríki senda og eru þegar geymdar í miðlægu einingunni skal málsmeðferðinni sem kveðið er á um í 3., 5. og 6. mgr. 4. gr., beitt svo og ákvæðunum sem mælt er fyrir um í 7. mgr. 4. gr.

5.      Þegar aðildarríkið, sem er upprunaríki, hefur fengið sendar niðurstöður samanburðarins skal miðlæga einingin tafarlaust:

  a)      eyða fingrafaraupplýsingum og öðrum upplýsingum sem hafa verið sendar skv. 1. mgr., og

  b)      eyðileggja miðlana sem aðildarríkið, sem er upprunaríki, notaði til að senda upplýsingarnar til miðlægu einingarinnar, nema það hafi óskað þess að fá þá aftur.

V. KAFLI

VIÐURKENNDIR FLÓTTAMENN

12. gr.

Upplýsingum læst

1.      Upplýsingum, sem varða beiðanda um hæli sem hefur verið skráður skv. 2. mgr. 4. gr., skal læst í miðlæga gagnasafninu ef sá maður er viðurkenndur og hefur fengið að koma sem flóttamaður inn í aðildarríki. Miðlæga einingin skal annast læsinguna samkvæmt fyrirmælum aðildarríkisins sem er upprunaríki.

Á meðan ákvörðun skv. 2. mgr. hefur ekki verið samþykkt skal ekki senda jákvæðar niðurstöður varðandi menn sem hafa verið viðurkenndir og fengið að koma sem flóttamenn inn í aðildarríki. Miðlæga einingin skal endursenda aðildarríkinu, sem leggur fram beiðni, neikvæða niðurstöðu.

2.      Fimm árum eftir að starfræksla Eurodac-kerfisins hefst og á grundvelli áreiðanlegra tölulegra upplýsinga, sem miðlæga einingin hefur tekið saman um menn sem hafa lagt fram beiðni um hæli í aðildarríki eftir að hafa verið viðurkenndir og fengið að koma sem flóttamenn inn í annað aðildarríki, skal taka ákvörðun, í samræmi við viðeigandi ákvæði sáttmálans, hvort upplýsingar um menn, sem hafa verið viðurkenndir og fengið að koma sem flóttamenn inn í aðildarríki, skuli:

  a)      geymdar í samræmi við 6. gr. vegna samanburðarins sem kveðið er á um í 3. mgr. 4. gr.; eða

  b)      þeim eytt fyrir tímann jafnskjótt og maðurinn hefur verið viðurkenndur og fengið að koma sem flóttamaður.

3.      Í því tilviki, sem um getur í a-lið 2. mgr., skal aflæsa upplýsingunum sem var læst skv. 1. mgr. og ekki lengur beita málsmeðferðinni sem um getur í 1. mgr.

4.      Í því tilviki, sem um getur í b-lið 2. gr.:

  a)      skal miðlæga einingin eyða tafarlaust upplýsingum sem hefur verið læst í samræmi við 1. mgr.; og

  b)      eyða skal upplýsingum um menn sem hafa síðar verið viðurkenndir og fengið að koma sem flóttamenn, í samræmi við 3. mgr. 15. gr., um leið og aðildarríki, sem er upprunaríki, fær vitneskju um að maðurinn hafi verið viðurkenndur og fengið að koma sem flóttamaður inn í aðildarríki.

5.      Framkvæmdarákvæði um þá málsmeðferð við læsingu upplýsinga, sem um getur í 1. mgr., og samantekt þeirra tölulegu upplýsinga, sem um getur í 2. mgr., skulu samþykkt í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 22. gr.

VI. KAFLI

NOTKUN OG VERND UPPLÝSINGA, ÖRYGGI OG BÓTAÁBYRGÐ

13. gr.

Ábyrgð á notkun upplýsinga

1.      Aðildarríki, sem er upprunaríki, skal bera ábyrgð á að tryggja að:

  a)      fingraför séu tekin á lögmætan hátt;

  b)      fingrafaraupplýsingar og aðrar upplýsingar, sem um getur í 5. gr. (1. mgr.), 8. gr. (2. mgr.) og 11. gr. (2. mgr.), séu sendar með lögmætum hætti til miðlægu einingarinnar;

  c)      upplýsingar séu réttar og uppfærðar þegar þær eru sendar til miðlægu einingarinnar;

  d)      upplýsingar í miðlæga gagnasafninu séu skráðar, geymdar, leiðréttar og þeim eytt með lögmætum hætti, sbr. þó ábyrgð framkvæmdastjórnarinnar;

  e)      niðurstöður samanburðar fingrafaraupplýsinga, sem miðlæga einingin sendir, séu notaðar með lögmætum hætti.

2.      Í samræmi við 14. gr. skal aðildarríkið, sem er upprunaríki, tryggja öryggi upplýsinganna sem um getur í 1. mgr. áður en og á meðan þær eru sendar til miðlægu einingarinnar svo og öryggi þeirra upplýsinga sem það tekur við frá miðlægu einingunni.

3.      Aðildarríki, sem er upprunaríki, skal bera ábyrgð á lokasanngreiningu upplýsinganna skv. 6. mgr. 4. gr.

4.      Framkvæmdastjórnin skal tryggja að miðlæga einingin sé starfrækt í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar og framkvæmdarákvæði hennar. Einkum skal framkvæmdastjórnin:

  a)      samþykkja ráðstafanir sem tryggja að starfsmenn miðlægu einingarinnar noti þær upplýsingar, sem eru skráðar í miðlæga gagnasafnið, eingöngu í samræmi við tilgang Eurodac-kerfisins eins og mælt er fyrir um í 1. mgr. 1. gr.;

  b)      tryggja að starfsmenn miðlægu einingarinnar verði við öllum beiðnum frá aðildarríkjunum sem lagðar eru fram samkvæmt þessari reglugerð og varða skráningu, samanburð, leiðréttingu og eyðingu upplýsinga sem þau bera ábyrgð á;

  c)      gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi miðlægu einingarinnar í samræmi við 14. gr.;

  d)      tryggja að eingöngu menn, sem hafa heimild til að starfa í miðlægu einingunni, hafi aðgang að upplýsingum sem skráðar eru í miðlæga gagnasafnið, sbr. þó 20. gr. og heimildir óháðu eftirlitsstofnunarinnar sem verður komið á fót skv. 2. mgr. 286. gr. sáttmálans.

Framkvæmdastjórnin skal tilkynna Evrópuþinginu og ráðinu um þær ráðstafanir sem hún gerir samkvæmt fyrstu undirgrein.

14. gr.

Öryggi

1.      Aðildarríki, sem er upprunaríki, skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að:

  a)      koma í veg fyrir að menn, sem hafa ekki til þess heimild, fái aðgang að innlendum mannvirkjum þar sem aðildarríkið hefur starfsemi sína í samræmi við markmið Eurodac-kerfisins (eftirlit við inngang að mannvirkjum);

  b)      koma í veg fyrir að menn, sem hafa ekki til þess heimild, geti lesið, afritað, breytt eða eytt upplýsingum og gagnamiðlum í Eurodac-kerfinu (eftirlit með gagnamiðlum);
  c)      tryggja að það sé unnt að kanna og staðfesta eftir á hvaða upplýsingar hafi verið skráðar í Eurodac- kerfið, hvenær og hver hafi skráð þær (eftirlit með skráningu upplýsinga);

  d)      koma í veg fyrir að hægt sé að skrá upplýsingar í Eurodac-kerfið án heimildar og breyta eða eyða án heimildar upplýsingum sem skráðar eru í Eurodac-kerfinu (eftirlit með færslu upplýsinga);

  e)      tryggja við notkun Eurodac-kerfisins að menn, sem hafa til þess heimild, hafi eingöngu aðgang að upplýsingum sem heimildin nær til (eftirlit með aðgangi);

  f)      tryggja að hægt sé að kanna og staðfesta til hvaða yfirvalda unnt er að senda upplýsingar, sem eru skráðar í Eurodac-kerfið, með búnaði til gagnaflutnings (eftirlit með sendingum);

  g)      hindra að hægt sé án heimildar að lesa, afrita, breyta eða eyða upplýsingum bæði við milliliðalausa sendingu upplýsinga til eða frá miðlæga gagnasafninu og við flutning gagnamiðla til eða frá miðlægu einingunni (eftirlit með flutningi).

2.      Að því er varðar starfsemi miðlægu einingarinnar skal framkvæmdastjórnin bera ábyrgð á að beita þeim ráðstöfunum sem kveðið er á um í 1. mgr.

15. gr.

Aðgangur að upplýsingum, skráðum í Eurodac- kerfinu, leiðrétting þeirra og eyðing

1.      Aðildarríki, sem er upprunaríki, skal hafa aðgang að upplýsingum sem það hefur sent og sem eru skráðar í miðlæga gagnasafnið í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar.

Ekkert aðildarríki má leita í upplýsingum sem annað aðildarríki hefur sent né heldur taka við slíkum upplýsingum, að undanskildum upplýsingum sem eru niðurstaða samanburðar sem um getur í 5. mgr. 4. gr.

2.      Hvert aðildarríki skal tilgreina þau yfirvöld aðildarríkjanna sem hafa, skv. 1. mgr., aðgang að upplýsingum sem eru skráðar í miðlæga gagnasafnið. Hvert aðildarríki skal senda framkvæmdastjórninni skrá yfir þessi yfirvöld.

3.      Eingöngu aðildarríkið, sem er upprunaríki, skal eiga rétt á að breyta upplýsingum sem það hefur sent til miðlægu einingarinnar með því að leiðrétta eða bæta við þessar upplýsingar eða eyða þeim, sbr. þó þegar upplýsingum er eytt skv. 6. gr., 10. gr. (1. mgr.) eða 12. gr. (a-lið 4. mgr.).

Ef aðildarríki, sem er upprunaríki, skráir upplýsingar milliliðalaust í miðlæga gagnasafnið er því heimilt að breyta eða eyða upplýsingunum milliliðalaust.

Ef aðildarríki, sem er upprunaríki, skráir upplýsingar ekki milliliðalaust í miðlæga gagnasafnið skal miðlæga einingin breyta eða eyða upplýsingunum að beiðni þess aðildarríkis.

4.      Ef aðildarríki eða miðlæga einingin hefur ástæðu til að ætla að upplýsingar, sem skráðar eru í miðlæga gagnasafnið, séu í raun rangar skal það/hún tilkynna það aðildarríkinu sem er upprunaríki eins fljótt og unnt er.

Ef aðildarríki hefur ástæðu til að ætla að upplýsingar hafi verið skráðar í miðlæga gagnasafnið í andstöðu við þessa reglugerð skal það tilkynna það aðildarríkinu sem er upprunaríki eins fljótt og unnt er. Síðarnefnda ríkið skal athuga viðkomandi upplýsingar og breyta þeim eða eyða án tafar ef það er nauðsynlegt.

5.      Miðlæga einingin skal ekki senda yfirvöldum þriðja lands upplýsingar eða veita þeim aðgang að upplýsingum sem eru skráðar í miðlæga gagnasafnið, nema hún hafi sérstaka heimild til þess innan ramma bandalagssamnings um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli.

16. gr.

Skráning miðlægu einingarinnar

1.      Miðlæga einingin skal halda skrár yfir alla vinnslu upplýsinga í miðlægu einingunni. Í þessum skrám skal koma fram tilgangur aðgangs, dagsetning og tími, upplýsingar sem voru sendar, upplýsingar sem voru notaðar vegna fyrirspurnar, heiti þeirrar starfseiningar sem lætur upplýsingar í té eða leitar eftir þeim og nöfn þeirra manna sem bera ábyrgð á því.

2.      Þessar skrár má eingöngu nota til að hafa eftirlit með því, með hliðsjón af verndun upplýsinga, hvort heimilt sé að meðhöndla upplýsingarnar og til að tryggja öryggi upplýsinga skv. 14. gr. Gerðar skulu viðeigandi ráðstafanir til að verjast óheimilum aðgangi að skránum og skal þeim eytt að ári liðnu ef þeirra er ekki þörf vegna eftirlitsmeðferðar sem þegar er hafin.

17. gr.

Bótaábyrgð

1.      Sérhver maður eða aðildarríki, sem hefur beðið tjón af völdum ólögmætrar meðferðar eða annars verknaðar sem er í andstöðu við ákvæðin sem mælt er fyrir um í þessari reglugerð, skal eiga rétt á að fá skaðabætur frá aðildarríkinu sem ber ábyrgð á tjóninu. Ríkið skal undanþegið bótaábyrgð, að fullu eða að hluta til, ef það getur fært sönnur á að það beri ekki ábyrgð á atburðinum sem olli tjóninu.

2.      Ef aðildarríki stendur ekki við skuldbindingar sínar samkvæmt þessari reglugerð og það veldur tjóni á miðlæga gagnasafninu skal það aðildarríki bera ábyrgð á því tjóni, svo framarlega sem framkvæmdastjórnin hafi ekki gert réttmætar ráðstafanir til að koma í veg fyrir tjónið eða takmarka afleiðingar þess.

3.      Með bótakröfur á hendur aðildarríki vegna tjóns, sem um getur í 1. og 2. mgr., skal fara að ákvæðum innlendra laga aðildarríkisins sem er varnaraðili.

18. gr.

Réttur þess sem upplýsingarnar fjalla um

1.      Aðildarríkið, sem er upprunaríki, skal tilkynna manni, sem þessi reglugerð tekur til, um eftirfarandi:

  a)      hver ber ábyrgð á skráningunni og hver fulltrúi hans er ef við á;

  b)      tilganginn með vinnslu upplýsinganna í Eurodac- kerfinu;
  c)      hverjir fá upplýsingarnar;

  d)      að því er varðar mann sem 4. eða 8. gr. tekur til, að skylda er að taka fingraför hans;

  e)      réttinn til að fá aðgang að og leiðréttingu á upplýsingunum sem varða hann.

Að því er varðar mann, sem 4. eða 8. gr. tekur til, skal veita upplýsingarnar, sem um getur í fyrstu undirgrein, þegar fingraför hans eru tekin.

Að því er varðar mann, sem 11. gr. tekur til, skal veita upplýsingarnar, sem um getur í fyrstu undirgrein, eigi síðar en þegar upplýsingarnar um þann mann eru sendar til miðlægu einingarinnar. Þessi skylda á ekki við ef það kemur í ljós að ekki er unnt að veita þessar upplýsingar eða að það hefði í för með sér óeðlilega mikla vinnu.

2.      Í hverju aðildarríki er þeim mönnum, sem upplýsingarnar varða, heimilt, í samræmi við lög, reglur og málsmeðferð þess ríkis, að neyta réttar síns sem kveðið er á um í 12. gr. tilskipunar 95/46/EB.

Með fyrirvara um þá skyldu að veita aðrar upplýsingar í samræmi við a-lið 12. gr. tilskipunar 95/46/EB skal maðurinn, sem upplýsingarnar varða, eiga rétt á að fá tilkynningu um þær upplýsingar sem eru skráðar í miðlæga gagnasafnið um hann og hvaða aðildarríki sendi þær til miðlægu einingarinnar. Einungis aðildarríki getur veitt slíkan aðgang að upplýsingum.

3.      Í hverju aðildarríki getur hver sem er farið fram á að upplýsingar, sem eru rangar, séu leiðréttar eða að upplýsingum, sem hafa verið skráðar með ólögmætum hætti, sé eytt. Aðildarríkið, sem sendi upplýsingarnar, skal leiðrétta þær eða eyða þeim án mikilla tafa í samræmi við lög, reglur og málsmeðferð í því ríki.

4.      Sé rétturinn til leiðréttingar og eyðingar nýttur í öðru aðildarríki en því eða þeim aðildarríkjum sem sendu upplýsingarnar skulu yfirvöld þess aðildarríkis hafa samband við yfirvöld viðkomandi aðildarríkis eða aðildarríkja svo að síðarnefndu yfirvöldin geti kannað hvort upplýsingarnar séu réttar og hvort þær hafi verið sendar og skráðar í miðlæga gagnasafnið með lögmætum hætti.

5.      Komi í ljós að upplýsingar, sem skráðar eru í miðlæga gagnasafnið, séu í raun rangar eða hafi verið skráðar með ólögmætum hætti skal aðildarríkið, sem sendi þær, leiðrétta eða eyða upplýsingunum í samræmi við 3. mgr. 15. gr. Það aðildarríki skal greina þeim manni, sem upplýsingarnar varða, skriflega og án mikilla tafa frá því að það hafi gert ráðstafanir til að leiðrétta eða eyða upplýsingum sem varða hann.

6.      Samþykki aðildarríkið, sem sendi upplýsingarnar, ekki að upplýsingar, sem skráðar eru í miðlæga gagnasafnið, séu í raun rangar eða hafi verið skráðar með ólögmætum hætti skal það skýra það skriflega og án mikilla tafa fyrir þeim manni, sem upplýsingarnar varða, hvers vegna það sé ekki reiðubúið til að leiðrétta eða eyða upplýsingunum.

Aðildarríkið skal einnig veita þeim manni, sem upplýsingarnar varða, upplýsingar um hvaða leið hann geti farið ef hann sættir sig ekki við þær skýringar sem gefnar eru. Þar með skulu fylgja upplýsingar um hvernig á að höfða mál eða, ef við á, leggja fram kæru til þar til bærra yfirvalda eða dómstóla í því aðildarríki og um fjárhagsaðstoð eða aðra aðstoð sem tiltæk er í samræmi við lög, reglur og málsmeðferð í því aðildarríki.

7.      Í öllum beiðnum skv. 2. og 3. mgr. skulu vera þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að staðfesta hver sá er sem upplýsingarnar varða, þar með talin fingraför. Þessar upplýsingar skal eingöngu nota til að heimila nýtingu réttarins sem um getur í 2. og 3. mgr. og þær skulu eyðilagðar umsvifalaust eftir á.

8.      Þar til bær yfirvöld aðildarríkjanna skulu vinna náið saman að því að framfylgja þeim rétti sem mælt er fyrir um í 3., 4. og 5. mgr.

9.      Í hverju aðildarríki skal innlenda eftirlitsstofnunin aðstoða þann mann, sem upplýsingarnar varða, við að neyta réttar síns í samræmi við 4. mgr. 28. gr. tilskipunar 95/46/EB.

10.      Innlenda eftirlitsstofnunin í aðildarríkinu sem sendi upplýsingarnar og innlenda eftirlitsstofnunin í því aðildarríki þar sem maðurinn, sem upplýsingarnar varða, er staddur skulu aðstoða hann og, sé þess óskað, leiðbeina honum við að nýta sér rétt sinn á leiðréttingu eða eyðingu upplýsinga. Báðar innlendu eftirlitsstofnanirnar skulu vinna saman í þessu skyni. Beiðnum um aðstoð af þessu tagi má beina til innlendu eftirlitsstofnunarinnar í því aðildarríki þar sem maðurinn, sem upplýsingarnar varða, er staddur og skal hún senda beiðnirnar til stofnunarinnar í því aðildarríki sem sendi upplýsingarnar. Maðurinn, sem upplýsingarnar varða, má einnig beina beiðni um aðstoð og leiðbeiningar til sameiginlegu eftirlitsstofnunarinnar sem komið er á fót með 20. gr.

11.      Í hverju aðildarríki má, í samræmi við lög, reglur og málsmeðferð í því ríki, hver sem er höfða mál eða, ef við á, leggja fram kæru til þar til bærra yfirvalda eða dómstóla ríkisins hafi honum verið meinað að nýta sér aðgangsréttinn sem kveðið er á um í 2. mgr.

12.      Hver sem er getur, í samræmi við lög, reglur og málsmeðferð í aðildarríkinu sem sendi upplýsingarnar, höfðað mál eða, ef við á, lagt fram kæru til þar til bærra yfirvalda eða dómstóla í því ríki varðandi upplýsingarnar sem varða hann og eru skráðar í miðlæga gagnasafnið til þess að ná fram rétti sínum skv. 3. mgr. Innlenda eftirlitsstofnunin er skyldug til að aðstoða manninn, sem upplýsingarnar varða, og, sé þess óskað, leiðbeina honum í samræmi við 10. mgr. á meðan á málsmeðferð stendur.

19. gr.

Innlend eftirlitsstofnun

1.      Hvert aðildarríki skal sjá um að innlenda eftirlitsstofnunin eða -stofnanirnar sem tilnefnd(ar) eru skv. 1. mgr. 28. gr. tilskipunar 95/46/EB, annist sjálfstætt eftirlit í samræmi við viðeigandi innlend lög, með því hvort vinnsla viðkomandi aðildarríkis á persónuupplýsingum sé með lögmætum hætti, þar með talin sending þeirra til miðlægu einingarinnar.

2.      Hvert aðildarríki skal tryggja að innlenda eftirlitsstofnunin hafi aðgang að ráðgjöf manna sem búa yfir nægilegri þekkingu á fingrafaraupplýsingum.

20. gr.

Sameiginlega eftirlitsstofnunin

1.      Óháðri sameiginlegri eftirlitsstofnun skal komið á fót með mest tveimur fulltrúum frá eftirlitsstofnunum hvers aðildarríkis. Hver sendinefnd hefur eitt atkvæði.

2.      Sameiginlega eftirlitsstofnunin skal hafa eftirlit með starfsemi miðlægu einingarinnar til að tryggja að réttur þeirra manna, sem upplýsingarnar varða, sé virtur við vinnslu eða notkun þeirra upplýsinga sem geymdar eru í miðlægu einingunni. Auk þess skal hún hafa eftirlit með því að miðlæga einingin sendi persónuupplýsingar með lögmætum hætti til aðildarríkjanna.

3.      Það er verkefni sameiginlegu eftirlitsstofnunarinnar að kanna vandamál varðandi framkvæmd í tengslum við starfrækslu Eurodac-kerfisins, að kanna erfiðleika sem geta komið upp við eftirlit innlendu eftirlitsstofnananna og vinna tillögur að sameiginlegum lausnum á vandamálum sem upp hafa komið.

4.      Innlendu eftirlitsstofnanirnar skulu styðja sameiginlegu eftirlitsstofnunina ötullega í störfum hennar.

5.      Sameiginlega eftirlitsstofnunin skal hafa aðgang að ráðgjöf manna sem búa yfir nægilegri þekkingu á fingrafaraupplýsingum.

6.      Framkvæmdastjórnin skal aðstoða sameiginlegu eftirlitsstofnunina við að sinna verkefnum sínum. Einkum skal hún veita upplýsingar, sem sameiginlega eftirlitsstofnunin óskar eftir, veita henni aðgang að öllum skjölum og málaskrám, svo og aðgang að þeim upplýsingum sem geymdar eru í kerfinu og heimila henni aðgang að öllum vinnusvæðum hvenær sem er.

7.      Sameiginlega eftirlitsstofnunin setur sér starfsreglur með samhljóða samþykki. Hún skal njóta aðstoðar skrifstofu en verkefni hennar verða skilgreind í starfsreglunum.

8.      Skýrslur, sem sameiginlega eftirlitsstofnunin vinnur, skulu birtar opinberlega og sendar þeim stofnunum sem taka við skýrslum frá innlendu eftirlitsstofnununum, svo og Evrópuþinginu, ráðinu og framkvæmdastjórninni til upplýsingar. Auk þess getur sameiginlega eftirlitsstofnunin, hvenær sem er, sent Evrópuþinginu, ráðinu og framkvæmdastjórninni athugasemdir eða tillögur til umbóta varðandi verkefni sín.

9.      Þeir sem starfa við sameiginlegu eftirlitsstofnunina skulu í störfum sínum ekki taka við fyrirmælum frá neinni ríkisstjórn eða stofnun.

10.      Hafa skal samráð við sameiginlegu eftirlitsstofnunina um þann hluta draga að fjárhagsáætlun fyrir rekstur miðlægrar einingar Eurodac-kerfisins sem varðar eftirlitsstofnunina. Álit hennar skal fylgja viðkomandi drögum að fjárhagsáætlun sem viðauki.

11.      Sameiginlega eftirlitsstofnunin verður lögð niður þegar óháðu eftirlitsstofnuninni, sem um getur í 2. mgr. 286. gr. sáttmálans, verður komið á fót. Óháða eftirlitsstofnunin skal koma í stað sameiginlegu eftirlitsstofnunarinnar og hafa það valdsvið sem henni er falið í krafti gerðarinnar þar sem þeirri stofnun er komið á fót.

VII. KAFLI

LOKAÁKVÆÐI

21. gr.

Kostnaður

1.      Kostnaður í tengslum við stofnun og rekstur miðlægu einingarinnar skal færður á fjárhagsáætlun Evrópusambandsins.

2.      Kostnað vegna innlendra eininga og kostnað vegna tengingar þeirra við miðlæga gagnasafnið skal hvert aðildarríki bera.

3.      Kostnað við sendingu upplýsinga frá aðildarríkinu, sem er upprunaríki, og sendingu niðurstaðna samanburðarins til þess aðildarríkis skal viðkomandi ríki bera.

22. gr.

Framkvæmdarákvæði

1.      Ráðið skal samþykkja með þeim meirihluta, sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 205. gr. sáttmálans, þau framkvæmdarákvæði sem nauðsynleg eru til að:

–    mæla fyrir um málsmeðferðina sem um getur í 7. mgr. 4. gr.,

–    mæla fyrir um málsmeðferð við læsingu upplýsinga sem um getur í 1. mgr. 12. gr.,

–    vinna þær tölulegu upplýsingar sem um getur í 2. mgr. 12. gr.

Ef þessi framkvæmdarákvæði hafa áhrif á rekstrarkostnað sem aðildarríkin þurfa að bera skal ráðið taka ákvörðun með samhljóða samþykki.

2.      Ráðstafanirnar, sem um getur í 4. mgr. 3. gr., skulu samþykktar í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 23. gr.

23. gr.

Nefndin

1.      Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar nefndar.

2.      Þegar vísað er til þessarar málsgreinar skal beitt 5. og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB.

Tímabilið, sem mælt er fyrir um í 6. mgr. 5. gr. ákvörðunar 1999/468/EB, skal vera þrír mánuðir.

3.      Nefndin setur sér starfsreglur.

24. gr.

Ársskýrsla: Eftirlit og mat

1.      Framkvæmdastjórnin skal senda Evrópuþinginu og ráðinu ársskýrslu um starfsemi miðlægu einingarinnar. Í ársskýrslunni skulu vera upplýsingar um stjórnun og afköst Eurodac-kerfisins miðaðar við magnvísibreytur sem voru skilgreindar fyrir fram fyrir þau markmið sem um getur í 2. mgr.

2.      Framkvæmdastjórnin skal tryggja að kerfi séu til staðar til að hafa eftirlit með starfsemi miðlægu einingarinnar með tilliti til markmiða í því er lýtur að afköstum, kostnaðarhagkvæmni og gæðum þjónustunnar.

3.      Framkvæmdastjórnin skal með jöfnu millibili meta starfsemi miðlægu einingarinnar til þess að ganga úr skugga um hvort markmiðum hennar að því er varðar kostnaðarhagkvæmni hefur verið náð og með það í huga að setja fram viðmiðunarreglur til að auka skilvirkni í rekstri í framtíðinni.

4.      Einu ári eftir að starfræksla Eurodac-kerfisins hefst skal framkvæmdastjórnin leggja fram matsskýrslu um miðlægu eininguna þar sem eftirspurn í reynd er borin saman við áætlaða eftirspurn og um atriði varðandi rekstur og stjórnsýslu í ljósi reynslunnar með það í huga að skilgreina úrbætur í rekstri til skemmri tíma sem til greina koma.

5.      Þremur árum eftir að starfræksla Eurodac-kerfisins hefst og á sex ára fresti þaðan í frá skal framkvæmdastjórnin leggja fram heildarmat á Eurodac- kerfinu þar sem hún ber saman árangurinn, sem náðst hefur, við markmiðin og metur hvort þær meginreglur, sem lagðar eru til grundvallar, eigi áfram við og tekur afstöðu til þeirra þátta sem gætu haft áhrif á starfsemina í framtíðinni.

25. gr.

Viðurlög

Aðildarríkin skulu tryggja að notkun upplýsinga, sem skráðar eru í miðlæga gagnasafnið, í andstöðu við tilgang Eurodac-kerfisins, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 1. gr., varði viðeigandi viðurlögum.

26. gr.

Gildissvæði

Ákvæði þessarar reglugerðar taka ekki til yfirráðasvæða þar sem Dyflinnarsamningurinn gildir ekki.

27. gr.

Gildistaka og gildissvið

1.      Reglugerð þessi öðlast gildi daginn sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

2.      Reglugerð þessari skal beitt og starfræksla Eurodac-kerfisins hefjast frá og með þeim degi sem framkvæmdastjórnin tilkynnir með birtingu í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna að eftirfarandi skilyrði hafi verið uppfyllt:

  a)      hvert aðildarríki hefur tilkynnt framkvæmdastjórninni að það hafi gert nauðsynlegar tæknilegar ráðstafanir til að senda upplýsingar til miðlægu einingarinnar í samræmi við framkvæmdarákvæðin skv. 7. mgr. 4. gr. og farið að framkvæmdarákvæðunum skv. 5. mgr. 12. gr.; og

  b)      framkvæmdastjórnin hefur gert nauðsynlegar tæknilegar ráðstafanir til að miðlæga einingin geti hafið starfsemi í samræmi við framkvæmdarákvæðin skv. 7. mgr. 4. gr. og 5. mgr. 12. gr.

Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar í samræmi við stofnsáttmála Evrópubandalagsins.

Gjört í Brussel 11. desember 2000.

     Fyrir hönd ráðsins,
    H. VÉDRINE,
     forseti.
Neðanmálsgrein: 1
1 Stjtíð. EB C 254, 19.8.1997, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 2
2 Stjtíð. EB L 176, 10.7.1999, bls. 36.
Neðanmálsgrein: 3
3 Stjtíð. EB L 281, 23.11.1995, bls. 31.
Neðanmálsgrein: 4
4 Stjtíð. EB L 316, 15.12.2000, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 5
(5) Stjtíð. EB C 254, 19. 8. 1997, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 6
(6) Þessari vísbendingu verður alltaf að fylgja sönnun eins og þær eru skilgreindar í skrá A.
Neðanmálsgrein: 7
(7) Stjtíð. EB C 254, 19. 8. 1997, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 8
(8) Stjtíð. EB L 281, 14. 10. 1997, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 9
9 Stjtíð. EB C 189, 7. 7. 2000, bls. 105 og bls. 227 og álit sem var skilað 21. september 2000 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindunum).
Neðanmálsgrein: 10
10 Stjtíð. EB C 254, 19. 8. 1997, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 11
11 Stjtíð. EB L 184, 17. 7. 1999, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 12
12 Stjtíð. EB L 281, 23. 11. 1995, bls. 31.