Ferill 446. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 712  —  446. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 97/2000, um breytingar á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 97/2000, um breytingar á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun ráðsins nr. 1999/63/EB frá 21. júní 1999, um samning um skipulag á vinnutíma sjómanna á kaupskipum milli Samtaka skipaeigenda í Evrópubandalaginu (ECSA) og Samtaka félaga flutningaverkamanna í Evrópusambandinu (FST).

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 97/2000, um breytingar á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn frá 2. maí 1992. Sú gerð sem hér um ræðir er tilskipun ráðsins nr. 1999/63/EB frá 21. júní 1999, um samning um skipulag á vinnutíma sjómanna á kaupskipum milli Samtaka skipaeigenda í Evrópubandalaginu (ECSA) og Samtaka félaga flutningaverkamanna í Evrópusambandinu (FST).
    Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögunni er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirrar tilskipunar sem hér um ræðir og nauðsynlegum lagabreytingum til að innleiða hana í íslenskan rétt. Gerð þessi felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES- samningnum felast.
    Sú málsmeðferð sem hér um ræðir er sú sama og viðhöfð var í tengslum við alls 19 ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar er eins var ástatt um en þingsályktunartillaga þess efnis var flutt og afgreidd á 125. löggjafarþingi (587. mál). Í athugasemdum með þeirri tillögu var skýrt frá því að framvegis yrði það verklag viðhaft að flytja sérstakar þingsályktunartillögur um ákvarðanir sem samþykktar væru af sameiginlegu EES-nefndinni með fyrirvara skv. 103. gr. EES-samningsins. Var fyrsta þingsályktunartillagan samkvæmt þessu breytta ferli lögð fram á yfirstandandi þingi og samþykkt (312. mál).
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum eða bókunum við EES-samninginn eru þjóðréttarsamningar. Samkvæmt samningnum er ekki gert ráð fyrir því að í ákvörðunum sé kveðið á um að gildistaka þeirra gagnvart aðildarríkjunum sé háð staðfestingu þeirra heima fyrir. Þær verða með öðrum orðum skuldbindandi fyrir aðildarríkin um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert aðildarríkjanna beiti heimild í 103. gr. EES- samningsins til að gera fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Hafa ríkin sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Með þessu er vísað til nauðsynlegs atbeina þjóðþinga aðildarríkjanna og af hálfu Íslands hefur fyrirvara þessum því einungis verið beitt þegar ljóst er að ákvörðun kallar á lagabreytingar. Almennt hefur ekki verið leitað sérstaks samþykkis Alþingis áður en stjórnskipulegum fyrirvara er aflétt heldur látið nægja að Alþingi samþykki nauðsynlegar lagabreytingar vegna innleiðingar ákvarðana. Þetta felur í sér nokkurt frávik frá almennri meðferð vegna staðfestingar þjóðréttarsamninga þar sem atbeina Alþingis er krafist en á sér skýringar í sérstöðu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar meðal þjóðréttarsamninga. Hins vegar hafa nokkrir ókostir fylgt þessu fyrirkomulagi. Má þar helst nefna annars vegar að nokkuð mismunandi er með hvaða hætti það hefur komið fram í lagafrumvörpum hvernig þau tengjast tilteknum ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar og hins vegar að með þessari aðferð hefur skort á að Alþingi hafi verið gefinn kostur á að taka beina afstöðu til staðfestingar einstakra ákvarðana nefndarinnar. Í vissum tilvikum hafa ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar kveðið á um að bætt sé við EES-samninginn tiltekinni EB-gerð sem ekki öðlast gildi innan Evrópusambandsins fyrr en nokkrum missirum eða jafnvel árum seinna. Samkvæmt EES-samningnum er Ísland skuldbundið til að taka endanlega afstöðu til þess hvort slík gerð verður hluti samningsins innan sex mánaða frá töku ákvörðunarinnar í sameiginlegu EES-nefndinni en hefur sama svigrúm og önnur aðildarríki samningsins til að innleiða viðkomandi gerð í landsrétt. Fram að þessu hefði eina leiðin verið sú að setja lög til innleiðingar þessara gerða innan sex mánaða frestsins en þau lög hefðu þá að sjálfsögðu ekki þurft að taka gildi fyrr en á ætluðum gildistökudegi gerðarinnar. Þetta er mjög óheppileg leið þar sem við undirbúning slíkrar lagasetningar er oft og tíðum horft til fordæma erlendis frá en þar er að jafnaði ekki hugað að slíkri lagasetningu fyrr en nær dregur gildistöku viðkomandi gerðar. Að þessari leið slepptri er eina leiðin til að virða samningsskuldbindingar Íslands að leita sérstaks samþykkis Alþingis í formi þingsályktunar.
    Að öllu þessu virtu hefur meðferð þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem Ísland hefur gert stjórnskipulegan fyrirvara verið færð til samræmis við meðferð þjóðréttarsamninga. Í því felst að almennt er leitað sérstaklega eftir samþykki Alþingis til staðfestingar sérhverri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem stjórnskipulegur fyrirvari hefur verið gerður við. Slíks samþykkis er leitað í formi þingsályktunar en viðeigandi ráðuneyti munu samhliða undirbúa nauðsynleg frumvörp til lagabreytinga. Jafnframt hefur þeirri föstu vinnureglu verið komið á, með vísan til 24. gr. laga um þingsköp Alþingis, að haft er samráð við utanríkismálanefnd um efni þessara ákvarðana meðan þær eru á undirbúningsstigi.

3. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 97/2000, um tilskipun ráðsins 1999/63/EB frá 21. júní 1999, um samning um skipulag á vinnutíma sjómanna á kaupskipum milli Samtaka skipaeigenda í Evrópubandalaginu (ECSA) og Samtaka félaga flutningaverkamanna í Evrópusambandinu (FST).
    Með tilskipuninni er hrint í framkvæmd samningi um skipulag vinnutíma á farskipum sem gerður var 30. september 1998 á milli Evrópusamtaka atvinnurekenda og launafólks á þessu sviði. Settar eru lágmarksreglur um skipulag vinnutíma á farskipum en þessi hópur hefur hingað til verið undanþeginn vinnutímaákvæðum ESB. Þannig eru ekki ákvæði um vinnutíma á farskipum í tilskipun ráðsins 93/104/EB um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma eins og henni var breytt með tilskipun 2000/34/EB frá 22. júní 2000. Þess má geta að með síðargreindu tilskipuninni voru hópar sem áður höfðu verið undanþegnir tilskipun 93/104/EB færðir undir gildissvið hennar, að farmönnum undanskildum.
    Verði tilskipunin felld inn í EES-samninginn þarf að koma til breyting á sjómannalögum, nr. 35/1985. Umrædd tilskipun kveður á um að lágmarksaldur sjómanna á farskipum verði 16 ár en í 2. mgr. 8. gr. sjómannalaga, nr. 35/1985, er kveðið á um 15 ára lágmarksaldur sjómanna. Þá kveður tilskipunin á um að næturvinna sé bönnuð þeim sem eru yngri en 18 ára og starfa á farskipum. Jafnframt þarf að endurskoða ákvæði 64. og 65. gr. sömu laga sem fjalla um hvíldartíma sjómanna. Unnið er að undirbúningi nauðsynlegra lagabreytinga vegna þessa í samgönguráðuneytinu.
    Samkvæmt tilskipuninni er gert ráð fyrir því að efni hennar verði komið til framkvæmda á EES-svæðinu eigi síðar en 30. júní 2002.


Fylgiskjal I.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 97/2000

frá 27. október 2000

um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eins og hann var aðlagaður með bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir samningurinn, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)      XVIII. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 43/2000 frá 19. maí 2000( 1 ).
2)      Tilskipun ráðsins 1999/63/EB frá 21. júní 1999 um samning um skipulag á vinnutíma sjómanna á kaupskipum milli Samtaka skipaeigenda í Evrópubandalaginu (ECSA) og Samtaka félaga flutningaverkamanna í Evrópusambandinu (FST)( 2 ), eins og hún var leiðrétt með Stjtíð. EB L 244, 16.9.1999, bls. 64, skal felld inn í samninginn.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.

Eftirfarandi liður komi aftan við lið 32a (tilskipun ráðsins 1999/70/EB) í XVIII. viðauka við samninginn:

„32b.     399 L 0063: Tilskipun ráðsins 1999/63/EB frá 21. júní 1999 um samning um skipulag á vinnutíma sjómanna á kaupskipum milli Samtaka skipaeigenda í Evrópubandalaginu (ECSA) og Samtaka félaga flutningaverkamanna í Evrópusambandinu (FST) (Stjtíð. EB L 167, 2.7.1999, bls. 33), eins og hún var leiðrétt með Stjtíð. EB L 244, 16.9.1999, bls. 64.“

2. gr.

Texti tilskipunar ráðsins 1999/63/EB, eins og hún var leiðrétt með Stjtíð. EB L 244, 16.9.1999, bls. 64, á íslensku og norsku, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna, telst fullgiltur.

3. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi þann 28. október 2000, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi verið sendar sameiginlegu EES-nefndinni( * ).

4. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild og EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna.

Gjört í Brussel 27. október 2000.

     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður

    G. S. Gunnarsson

    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar

    P. K. Mannes     E. Gerner
Fylgiskjal II.


TILSKIPUN RÁÐSINS 1999/63/EB

frá 21. júní 1999

um samning um skipulag á vinnutíma sjómanna á kaupskipum milli Samtaka skipaeigenda í Evrópubandalaginu (ECSA) og Samtaka félaga flutningaverkamanna í Evrópusambandinu (FST)

RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HEFUR,

með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 2. mgr. 139. gr.,

með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)      Eftir gildistöku Amsterdam-sáttmálans hefur ákvæðum samningsins um félagsmálastefnu, sem fylgir bókun nr. 14 um félagsmálastefnuna sem aftur fylgir stofnsáttmála Evrópubandalagsins eins og honum var breytt með Maastricht-sáttmálanum, verið bætt við 136.–139. gr. stofnsáttmála Evrópubandalagsins.

2)      Vinnuveitendur og launamenn („aðilar vinnumarkaðarins“), geta, í samræmi við 2. mgr. 139. gr. sáttmálans, farið sameiginlega fram á að samningar sem gerðir eru á vettvangi bandalagsins séu framkvæmdir með ákvörðun ráðsins að tillögu framkvæmdastjórnarinnar.

3)      Ráðið hefur samþykkt tilskipun 93/104/EB frá 23. nóvember 1993 um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma ( 1 ). Sjóflutningar voru eitt þeirra athafnasviða sem féllu utan við gildissvið þeirrar tilskipunar.

4)      Tillit skal tekið til viðeigandi samninga Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um skipulag vinnutíma, einkum þeirra er varða vinnutíma sjómanna.

5)      Framkvæmdastjórnin hefur, í samræmi við 2. mgr. 3. gr. samningsins um félagsmálastefnu, haft samráð við vinnuveitendur og launamenn um hugsanlega stefnu um bandalagsaðgerðir í þeim geirum og þeirri starfsemi sem fellur utan gildissviðs tilskipunar 93/104/EB.

6)      Að þessu samráði loknu áleit framkvæmdastjórnin að bandalagsaðgerðir á þessu sviði væru æskilegar og hafði aftur samráð við vinnuveitendur og launþega í bandalaginu um efni fyrirhugaðrar tillögu í samræmi við 3. mgr. 3. gr. téðs samnings.

7)      Samtök skipaeigenda í Evrópubandalaginu (ECSA) og Samtök félaga flutningaverkamanna í Evrópusambandinu (FST) gerðu framkvæmdastjórninni grein fyrir áhuga sínum á að hefja samningaviðræður í samræmi við 4. gr. samningsins um félagsmálastefnu.

8)      Þann 30. september 1998 gerðu téð samtök með sér samning um vinnutíma sjómanna. Í þeim samningi er sett fram sameiginleg beiðni til framkvæmdastjórnarinnar um að hrinda samningnum í framkvæmd með ákvörðun ráðsins að tillögu framkvæmdastjórnarinnar í samræmi við 2. mgr. 4. gr. samningsins um félagsmálastefnu.

9)      Í ályktun sinni frá 6. desember 1994 um tiltekin sjónarhorn vegna félagsmálastefnu Evrópusambandsins: framlag til efnahagslegrar og félagslegrar samleitni í sambandinu ( 2 ) hvatti ráðið vinnuveitendur og launþega til að nota tækifærið og ganga til samninga þar eð þeir væru alla jafna sá aðili sem þekkir best til félagslegra vandamála og hver staðan er í þeim efnum.

10)      Samningurinn gildir um sjómenn á öllum hafskipum, jafnt í eigu hins opinbera sem í einkaeign sem eru skráð á yfirráðasvæði aðildarríkis og eru að jafnaði starfrækt sem kaupskip.

11)      Í skilningi 249. gr. sáttmálans er tilskipun viðeigandi gerningur til framkvæmdar samningnum. Hún setur aðildarríkjunum ramma hvað varðar þær niðurstöður sem eiga að fást en þó eiga innlend yfirvöld rétt til að ákveða form og aðferðir.

12)      Í samræmi við dreifræðisregluna og meðalhófsregluna eins og segir í 5. gr. sáttmálans verður markmiðum þessarar tilskipunar ekki nægilega vel náð af aðildarríkjunum og verður þeim því betur náð á vettvangi bandalagsins. Þessi tilskipun gengur ekki lengra en nauðsynlegt er til að ná fram þessum markmiðum.

13)      Samkvæmt tilskipuninni geta aðildarríkin sjálf skilgreint hugtök, sem notuð eru í samningnum og eru ekki sérstaklega skilgreind þar, í samræmi við landslög og venjur eins og venjan er í öðrum tilskipunum um félagsmálastefnu þar sem svipuð hugtök eru notuð, að því tilskildu að skilgreiningarnar séu í samræmi við inntak samningsins.

14)      Framkvæmdastjórnin hefur samið drög að tilskipun í samræmi við orðsendingu sína frá 20. maí 1998 um aðlögun og kynningu skoðanaskipta um félagsmál í bandalaginu, að teknu tilliti til stöðu undirritunaraðila og lögmætis hvers ákvæðis samningsins.

15)      Í samræmi við orðsendingu sína frá 14. desember 1993 um beitingu samningsins um félagsmálastefnu hefur framkvæmdastjórnin gert Evrópuþinginu og efnahags- og félagsmálanefndinni viðvart með því að senda þeim texta tillögu sinnar að tilskipun sem inniheldur samninginn.

16)      Framkvæmd samningsins stuðlar að því að markmiðum 136. gr. sáttmálans verði náð.

SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.

Tilgangurinn með þessari tilskipun er að setja í gildi samninginn um skipulag vinnutíma sjómanna sem gerður var 30. september 1998 milli samtaka vinnuveitenda og launþega á sviði sjóflutninga (ECSA og FST) eins og fram kemur í viðaukanum við þessa tilskipun.

2. gr.

Lágmarkskröfur

1.      Aðildarríkin mega viðhalda eða taka upp hagstæðari ákvæði en þau sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun.

2.      Framkvæmd þessarar tilskipunar skal ekki við neinar aðstæður fela í sér nægilegar ástæður til að réttlæta skerðingu almennrar vinnuverndar starfsmanna á þeim sviðum sem þessi tilskipun tekur til. Þetta skal þó ekki hafa áhrif á rétt aðildarríkjanna og/eða vinnuveitenda og launamanna til að setja, með tilliti til breyttra aðstæðna, önnur laga- eftirlits- eða samningsákvæði en þau sem gilda við samþykkt þessarar tilskipunar, að því tilskildu að þeim lágmarkskröfum sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun sé ætíð fullnægt.

3. gr.

Lögleiðing

1.      Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari fyrir 30. júní 2002, eða sjá til þess að í síðasta lagi þann dag hafi vinnuveitendur og launamenn með samningi gert nauðsynlegar ráðstafanir enda er aðildarríkjunum skylt að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til vera ávallt í aðstöðu til að ábyrgjast þær niðurstöður sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.

2.      Þegar aðildarríkin samþykkja ákvæðin sem um getur í fyrstu málsgrein, skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

4. gr.

Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Lúxemborg 21. júní 1999.

    Fyrir hönd ráðsins,
    L. SCHOMERUS
     forseti.

VIÐAUKI

EVRÓPUSAMNINGUR

um skipulag á vinnutíma sjómanna

        
Með hliðsjón af samningnum um félagsmálastefnu sem fylgir bókun um félagsmálastefnu sem aftur fylgir stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 4. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 4. gr.

         og að teknu tilliti til eftirfarandi:

        Í 2. mgr. 4. gr. samningsins um félagsmálastefnu er kveðið á um að samninga, sem gerðir eru á evrópskum vettvangi, megi framkvæma, fari undirritunaraðilar sameiginlega fram á það, með ákvörðun ráðsins að tillögu framkvæmdastjórnarinnar.

        Leggja undirritunaraðilar hér með fram slíka beiðni.

        HAFA UNDIRRITUNARAÐILAR SAMÞYKKT EFTIRFARANDI:

1. gr.

1.      Samningurinn gildir um sjómenn á öllum hafskipum, jafnt í eigu hins opinbera sem í einkaeign sem eru skráð á yfirráðasvæði aðildarríkis og eru að jafnaði starfrækt sem kaupskip. Að því er þennan samning varðar skal skip sem er skráð í tveimur ríkjum teljast skráð í fánaríkinu.

2.      Þegar vafi leikur á hvort skip sé hafskip eða skip sem notað er í atvinnuskyni skal lögbært yfirvald í aðildarríki útkljá slík vafaatriði með hliðsjón af markmiðum þessa samnings. Hafa ber samráð við samtök skipaeigenda og sjómanna.

2. gr.

Í þessum samningi er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

a)      „vinnutími“: sá tími sem sjómanni er skylt að vinna um borð;

b)      „hvíldartími“: sá tími sem ekki telst til vinnutíma; þetta hugtak tekur ekki til þess þegar stutt hlé er gert á vinnu;

c)      „sjómaður“: sérhver einstaklingur sem ráðinn er til starfa á hafskipi sem samningur þessi gildir um;

d)      „skipseigandi“: eigandi skips eða hver sú stofnun eða einstaklingur, t.d. framkvæmdastjóri eða miðlari þurrleiguskipa (skipa án áhafna), er hefur tekið á sig ábyrgð á rekstri skipsins fyrir hönd eiganda skipsins, og sem hefur með því að takast þessa ábyrgð á hendur gengist við öllum skyldum og þeirri ábyrgð sem því fylgir.

3. gr.

Innan þeirra marka sem sett eru í 5. gr. skal annaðhvort takmarka vinnutímann við hámarksfjölda klukkustunda sem ekki má fara yfir á fyrirfram tilteknu tímabili, eða setja lágmark á hvíldartímann sem veittur er á tilteknu tímabili.

4. gr.

Með fyrirvara um 5. gr. er venjulegur vinnutími sjómanna, að meginreglu til, byggður á átta stunda vinnudegi og einum frídegi í viku og fríi á lögboðnum frídögum. Aðildarríkin geta ákveðið að leyfa eða skrá kjarasamninga þar sem ákvæði um venjulegan vinnutíma sjómanna eru hagstæðari en þau sem sett eru í þessum staðli.

5. gr.

1.      Mörk vinnu- eða hvíldartíma skulu vera annaðhvort:

    a)    hámarksvinnutími, sem ekki skal vera lengri en:

              i)    fjórtán klukkustundir á hverju 24 klukkustunda tímabili, og

              ii)    72 klukkustundir á hverju sjö daga tímabili;
    eða

    b)    lágmarkshvíldartími, sem ekki skal vera skemmri en:

              i)    tíu klukkustundir á hverju 24 klukkustunda tímabili; og

              ii)    72 klukkustundir á hverju sjö daga tímabili.

2.      Hvíldartíma má ekki skipta upp í meira en tvo hluta og skal annar hvor hluti hvíldartímans vera að minnsta kosti sex klukkustundir og ekki skulu líða meira en 14 klukkustundir á milli tveggja hvíldartíma.

3.      Nafnakall, eldvarnar- og björgunaræfingar, sem mælt er fyrir um í innlendum lögum og reglugerðum og í alþjóðlegum samningum, skulu fara fram með þeim hætti að hvíldartími raskist eins lítið og hægt er og þannig að þær valdi ekki þreytu.

4.      Þegar sjómaður er á bakvakt, t.d. þegar vélarúm er ómannað, skal hann ef venjulegum hvíldartíma er raskað með útkalli fá samfellda viðbótarhvíld í staðinn.

5.      Ef hvorki kjarasamningar né gerðardómsúrskurður eru fyrir hendi eða ef lögbært yfirvald telur að ákvæði kjarasamnings eða gerðardómsúrskurðar séu ófullnægjandi, getur lögbært yfirvald, með tilliti til 3. og 4. gr., sett ákvæði til að tryggja að viðkomandi sjómenn fái næga hvíld.

6.      Með tilliti til meginreglna um verndun heilsu og öryggis starfsmanna geta verið í gildi í aðildarríkjunum innlend lög, reglur eða ráðstafanir sem gera lögbæru yfirvaldi kleift að leyfa eða skrá kjarasamninga sem veita undanþágur frá þeim takmörkunum sem 1. og 2. gr. setja. Slíkar undanþágur skulu fylgja stöðlum eins og mögulegt er en geta tekið mið af örari eða lengri fríum eða veitt uppbótarfrí fyrir sjómenn sem vinna á vöktum eða sjómenn sem vinna um borð í skipum sem eru í stuttum ferðum.

7.      Á aðgengilegum stað skal vera tafla sem hefur að geyma upplýsingar um skipulag vinnutíma um borð og þar sem birt er að minnsta kosti fyrir hverja stöðu:

     a)      áætlun um vinnuskyldu á sjó og í höfnum, og
     b)      hámarksvinnutími eða lágmarkshvíldartími sem krafist er í lögum, reglum eða kjarasamningum sem í gildi eru í aðildarríkjunum.

8.      Taflan, sem um getur í 7. gr., skal gefin út á stöðluðu eyðublaði á því tungumáli eða þeim tungumálum sem notað er/ notuð eru við vinnu um borð og á ensku.

6. gr.

Enginn sjómaður undir 18 ára aldri skal vinna að nóttu til. Að því er þessa grein varðar er „nótt“ tímabil sem varir í a.m.k. níu samfelldar klukkustundir, þar með talið tímabilið frá miðnætti til klukkan fimm að morgni. Ekki er nauðsynlegt að beita þessu ákvæði ef það hindrar menntun og þjálfun ungra sjómanna frá 16 til 18 ára að því er varðar fyrirframákveðin verkefni og áætlanir.

7. gr.

1.      Skipstjóri á skipi getur krafist þess að sjómaður vinni þá tíma sem nauðsynlegir eru vegna öryggis skipsins á þeirri stundu, skipverja um borð eða farms eða til að veita aðstoð öðrum skipum eða skipverjum í nauð á hafi úti.

2.      Í samræmi við 1. gr. getur skipstjóri vikið frá skipulagi vinnu- eða hvíldartíma og krafist þess að sjómaður vinni þann tíma sem nauðsynlegur er þar til ástandið er orðið eðlilegt aftur.

3.      Skipstjóri skal tryggja eins fljótt og auðið er eftir að ástandið er orðið eðlilegt aftur að sjómaður, sem hefur sinnt störfum í fyrirfram ákveðnum hvíldartíma sínum, fái næga hvíld.

8. gr.

1.      Færa skal skrá yfir daglegan vinnutíma sjómanna eða daglegan hvíldartíma þeirra til að hægt sé að fylgjast með því að farið sé að ákvæðum 5. gr. Sjómaðurinn skal fá afrit af þeim skráningum sem varða hann og skulu þær áritaðar af skipstjóranum, eða öðrum þeim sem skipstjórinn hefur veitt til þess umboð, og sjómanninum.

2.      Ákvarða skal tilhögun varðveislu slíkra gagna um borð, þar með talið hversu oft skuli skrá upplýsingarnar. Eyðublað um skráningu vinnutíma sjómanna eða hvíldartíma þeirra skal hannað í samræmi við alþjóðlegar viðmiðunarreglur, ef til eru. Eyðublaðið skal vera á tungumálunum sem tilgreind eru í 8. mgr. 5. gr.

3.      Afrit af viðeigandi ákvæðum landslaga, er varða þennan samning, og af viðeigandi kjarasamningum skulu geymd um borð og skal áhöfnin hafa greiðan aðgang að þeim.

9. gr.

Skrárnar sem um getur í 8. gr. skulu athugaðar og áritaðar með vissu millibili í því skyni að hafa eftirlit með því að ákvæðum þessa samnings um vinnutíma eða hvíldartíma sé framfylgt.

10. gr.

1.      Þegar reglur um mönnun eru ákveðnar, viðurkenndar eða þeim breytt er nauðsynlegt að taka mið af þörfinni til að forðast eða draga úr, að svo miklu leyti sem unnt er, óhóflegum vinnutíma, og til að tryggja fullnægjandi hvíld og draga úr hættu á ofþreytu.

2.      Ef fram kemur í skránum eða öðrum gögnum að ákvæði um vinnutíma eða hvíldartíma hafi verið brotin skal gera ráðstafanir, þar með talið, ef nauðsyn krefur, breytingar á mönnun skipsins, til að koma í veg fyrir frekari brot í framtíðinni.

3.      Öll skip sem samningur þessi tekur til skulu mönnuð á fullnægjandi, öruggan og skilvirkan hátt í samræmi við öryggisskírteini um lágmarksmönnun eða sambærilegt skírteini gefið út af lögbæru yfirvaldi.

11. gr.

Enginn undir 16 ára aldri skal vinna um borð í skipi.

12. gr.

Eigandi skipsins skal útvega skipstjóranum nauðsynleg gögn til að fullnægja þeim skyldum sem þessi samningur hefur í för með sér, þar með talin gögn um rétta mönnun skipsins. Skipstjórinn skal gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að farið sé að kröfum þessa samnings um vinnutíma og hvíldartíma sjómanna.

13. gr.

1.      Allir sjómenn skulu hafa vottorð um að þeir séu færir um að inna af hendi það starf sem þeir munu gegna á sjó.

    Ákveða skal, að höfðu samráði við eigendur skipsins sem um ræðir og viðkomandi samtök sjómanna, hvernig heilbrigðiseftirliti skuli hagað og hvaða upplýsingar skuli koma fram á læknisvottorðinu.

    Allir sjómenn skulu fara reglulega í læknisskoðun. Vaktmenn, sem eiga við heilsuvandamál að stríða og læknir hefur staðfest að séu til komin vegna næturvinnu, skulu, alltaf þegar þess er nokkur kostur, færðir til í starfi þannig að þeir stundi dagvinnu sem hentar þeim.

2.      Heilbrigðiseftirlitið, sem um getur í 1. mgr., skal vera ókeypis og er læknirinn bundinn þagnarskyldu. Slík heilbrigðisskoðun má fara fram innan ramma innlends heilbrigðiskerfis.

14. gr.

Eigendur skips skulu veita lögbæru innlendu yfirvaldi upplýsingar um vaktmenn og aðra næturvinnumenn sé þess óskað.

15. gr.

Sjómenn skulu njóta öryggis og heilsuverndar í samræmi við starf sitt. Samsvarandi verndar- og forvarnarþjónusta eða aðstaða sem þjónar slíkum tilgangi skal vera til staðar vegna öryggis og heilsu sjómanna sem vinna dag- eða næturvinnu.

16. gr.

Allir sjómenn skulu eiga rétt á að minnsta kosti fjögurra vikna árlegu orlofi á launum, eða hlutfalli þar af fyrir starfstíma sem er skemmri en ár, í samræmi við viðmiðunarreglur um rétt til, og veitingu slíks orlofs sem mælt er fyrir um í landslögum og/eða samkvæmt venju.

Greiðsla má ekki koma í stað árlegs lágmarksorlofs á launum, nema þegar um starfslok er að ræða.

    Brussel 30. september 1998.

        Samtök félaga flutningaverkamanna í
            Evrópusambandinu (FST)


    Samtök skipaeigenda í Evrópubandalaginu
        (ECSA)
Fylgiskjal III.


LEIÐRÉTTING

Leiðrétting á tilskipun ráðsins 1999/63/EB frá 21. júní 1999 um samning um skipulag á
vinnutíma sjómanna á kaupskipum milli Samtaka skipaeigenda í Evrópubandalaginu
(ECSA) og Samtaka félaga flutningaverkamanna í Evrópusambandinu (FST)


(Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna L 167 frá 2. júlí 1999)


Í ii-lið b-liðar í 1. mgr. 5. gr. í viðaukanum á bls. 35:

skal setja:             „ii) 77 klukkustundir á hverju sjö daga tímabili.“
í stað:                     „ii) 72 klukkustundir á hverju sjö daga tímabili.“
Neðanmálsgrein: 1
(1) Stjtíð. EB L 147, 13.7.2000, bls. 54 og EES-viðbætir við Stjtíð. EB nr. 32, 13.7.2000, bls. 3.
Neðanmálsgrein: 2
(2) Stjtíð. EB L 167, 2.7.1999, bls. 33.
Neðanmálsgrein: 3
(*) Stjórnskipuleg skilyrði tilgreind.
Neðanmálsgrein: 4
(1) Stjtíð. EB L 307, 13.12.1993, bls. 18.
Neðanmálsgrein: 5
(2) Stjtíð. EB C 368, 23.12.1994, bls. 6.