Ferill 519. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 815  —  519. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA og EES fyrir árið 2000.

I. Inngangur.
    Þingmannanefnd Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) var stofnuð árið 1977 og hafði það hlutverk að vera ráðgefandi fyrir ráðherraráð EFTA. Umsvif og starfsemi nefndarinnar urðu meiri þegar samningar hófust um Evrópska efnahagssvæðið (EES) árið 1989 og mikilvægi hennar jókst enn þegar EES-samningurinn tók gildi 1. janúar 1994, en fulltrúar úr nefndinni skipa EFTA-hluta sameiginlegu þingmannanefndar EES. Aðild að EFTA eiga nú Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss og sitja þjóðkjörnir fulltrúar þessara ríkja í þingmannanefnd EFTA. Þar sem Svisslendingar ákváðu að standa fyrir utan EES varð þingmannanefnd EFTA með gildistöku EES-samningsins að formi til tvískipt, þ.e. annars vegar upphaflega nefndin, nú með fjórum fyrrgreindum aðildarríkjum, og hins vegar nefnd ríkjanna þriggja sem mynda EFTA-hluta EES. Nefndin fundar þó ávallt í einu lagi og sitja því Svisslendingar sem áheyrnarfulltrúar þegar tekin eru fyrir málefni sem eingöngu varða EES-hluta nefndarinnar. Sviss á einnig áheyrnaraðild að fundum þingmannanefndar EES. Til einföldunar verður í frásögnum hér á eftir talað um fundi þingmannanefndar EFTA þótt í raun hafi þá bæði eldri EFTA- nefndin og EES-hluti þingmannanefndar EFTA setið saman á fundi.
    Þingmannanefnd EFTA heldur fundi fjórum til fimm sinnum á ári, en fundar jafnframt tvisvar á ári með ráðherraráði EFTA. Nefndin fjallar um starfsemi EFTA, gerð og framkvæmd fríverslunarsamninga, málefni EES og Evrópusambandsins (ESB) og efnahags- og viðskiptamál almennt. Alþingi á fimm fulltrúa í þingmannanefnd EFTA, eins og önnur aðildarríki. Þingmannanefnd EFTA á einnig samstarf við ríki sem EFTA hefur gert fríverslunar- eða samstarfssamninga við (t.d. ríki á Miðjarðarhafssvæðinu, í Mið- og Austur-Evrópu og í Ameríku). Þessi þáttur í starfi EFTA eykst stöðugt og eru fríverslunarsamningar við fleiri lönd og svæði í bígerð.
    Á milli funda hittist framkvæmdastjórn þingmannanefndarinnar en hún undirbýr starf nefndarinnar, hefur umsjón með verkefnum og gefur álit á fjárhagsáætlun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), auk þess sem hún fjallar um aðkallandi mál. Í framkvæmdastjórn mega sitja tveir fulltrúar frá hverju EFTA-landi, en einungis annar þeirra hefur atkvæðisrétt á fundum. Í Íslandsdeildinni hefur, auk formanns, einn fulltrúi stjórnarandstöðu sótt fundi framkvæmdastjórnarinnar.
    Þingmannanefnd EFTA vann ötullega að því, í samvinnu við Evrópuþingið, að í samningnum um EES væri gert ráð fyrir sameiginlegri þingmannanefnd (95. gr. samningsins). Í sameiginlegu þingmannanefnd EES eru nú 24 þingmenn, tólf frá Evrópuþinginu og tólf frá EES-aðildarríkjum EFTA. Af þessum tólf fulltrúum á Ísland fjóra, Noregur sex og Liechtenstein tvo. Sameiginlega þingmannanefndin á að fylgjast með framkvæmd og þróun EES- samningsins og gefa álit sitt á EES-málum. Nefndin fundar tvisvar á ári en framkvæmdastjórn hennar hittist á milli funda. Í framkvæmdastjórninni sitja sex fulltrúar, einn frá hverju EES-aðildarríki EFTA og þrír frá Evrópuþinginu. EFTA-hluti sameiginlegu þingmannanefndar EES og Evrópuþingið skiptast á um formennsku í nefndinni milli ára. Þegar í upphafi hafði sameiginlega þingmannanefnd EES frumkvæði að því að semja skýrslur um málefni sem hún vildi skoða sérstaklega og hafa þær skýrslur svo verið ræddar á fundum nefndarinnar. Fyrir hverja skýrslugerð eru tilnefndir tveir framsögumenn (rapporteurs), einn úr hópi EFTA-þingmanna og einn úr hópi Evrópuþingmanna, og leggja þeir jafnframt fram drög að ályktunum. Þær eru bornar undir atkvæði, sem og einstakar málsgreinar eða breytingartillögur við þær, að því gefnu að a.m.k. fjórðungur hvorra tveggja þingmanna Evrópuþingsins og fulltrúa EFTA-ríkjanna séu viðstaddir. Einstakar málsgreinar eða breytingartillögur eru samþykktar með einföldum meiri hluta en atkvæði tveggja þriðju hluta viðstaddra þarf síðan til að samþykkja ályktunina í heild sinni. Ályktanir sem samþykktar eru á grundvelli þessara skýrslna eru síðan sendar til ráðherraráðs EES, sameiginlegu EES-nefndarinnar, þinga EFTA-EES-ríkja, Evrópuþingsins og utanríkisviðskiptanefndar þess, sem og Evrópunefnda þjóðþinga ESB. Bæði ráðherraráðið og sameiginlega EES-nefndin gera athugasemdir við ályktanir þingmannanefndarinnar á næsta fundi hennar og síðan eftir þörfum. Þingmannanefndin heldur skrá yfir allar tillögur sem fram koma í ályktunum hennar og er sú skrá birt árlega sem fylgiskjal með skýrslu um ársskýrslu sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þannig getur þingmannanefndin fylgst með því hver þróun hefur orðið í þeim málum sem hún hefur tekið fyrir og tekið aftur upp mál þar sem hún telur að framþróunin sé ófullnægjandi. Með því að taka skipulega fyrir skýrt afmörkuð málefni hefur þingmannanefnd EES möguleika til áhrifa á þróun EES-samningsins. EFTA-hluti þingmannanefndar EES hefur líka fjallað um áhrif þjóðþinga EFTA-ríkjanna á samninginn og lagasetningu í tengslum við hann.
    Venja er að Íslandsdeildin fundi með Evrópunefnd (eða samsvarandi nefnd) þess ríkis sem næst tekur við forustu innan ESB, en skipt er um forusturíki á sex mánaða fresti.

II. Skipan Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA.
    Árið 2000 skipuðu Íslandsdeildina Vilhjálmur Egilsson, formaður, þingflokki sjálfstæðismanna, Kristinn H. Gunnarsson, varaformaður, þingflokki framsóknarmanna, Össur Skarphéðinsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, þingflokki sjálfstæðismanna, og Ögmundur Jónasson, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Varamenn voru Gunnar Birgisson, þingflokki sjálfstæðismanna, Bryndís Hlöðversdóttir, þingflokki Samfylkingar, Katrín Fjeldsted, þingflokki sjálfstæðismanna, Jón Kristjánsson, þingflokki framsóknarmanna, og Kolbrún Halldórsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Fulltrúar Íslandsdeildarinnar í framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA voru Vilhjálmur Egilsson og Össur Skarphéðinsson. Fulltrúi Íslandsdeildarinnar í framkvæmdastjórn þingmannanefndar EES var Vilhjálmur Egilsson.
    Ritari Íslandsdeildarinnar árið 2000 var Jóhanna Helga Halldórsdóttir.

III. Starfsemi þingmannanefndar EFTA og þingmannanefndar EES á árinu 2000.
    Nefndirnar hafa undanfarin ár lagt megináherslu á að fylgjast sem best með framkvæmd EES-samningsins. Nefndirnar leita upplýsinga hjá ráðherraráði EFTA og EES og embættismönnum stofnana EFTA og ESB og koma skoðunum og áherslum þingmanna á framfæri við þessa aðila.
    Starfsemi nefndanna var með reglulegum hætti á árinu 2000. Þingmannanefnd EES hélt tvo fundi og þingmannanefnd EFTA hélt fjóra fundi auk tveggja funda með ráðherraráði EFTA.
    Árið 2000 fylgdist þingmannanefnd EFTA grannt með þróun mála við stækkun ESB, vinnu við uppfærslu Stokkhólmssáttmálans sem stefnt er að að taki gildi um leið og tvíhliða samningar Sviss og ESB, væntanlega nú í sumar. Nefndin ræddi m.a. um fríverslunarsamskipti EFTA við ýmis þriðju ríki og áætlun ESB sem samþykkt var í Lissabon í mars 2000. Áætlun þessari er ætlað að tryggja samkeppnishæfni ESB í efnahagsumhverfi framtíðarinnar. Þingmannanefnd EES ræddi einnig þróunina í ESB og áhrif hennar á EES-samninginn.
    Fimm skýrslur voru teknar til umfjöllunar á fundum þingmannanefndar EES á árinu og voru samþykktar ályktanir á grundvelli þeirra. Skýrslunar fjölluðu um framkvæmd EES- samningsins á árinu 1999, einsleitni innan EES, dóms- og innanríkismál og EES, rafræn viðskipti og EES-löggjöf, og þátttöku EFTA í rammaáætlunum ESB.
    Íslandsdeildin var virk í starfi nefndanna á árinu. Hún átti tvo framsögumenn af fimm sem EFTA-hluti þingmannanefndar EES tilnefndi út af skýrslum ársins, þá Kristin H. Gunnarsson, sem var annar höfunda skýrslu um einsleitni í EES, og Vilhjálm Egilsson, sem var annar höfunda skýrslu um rafræn viðskipti og EES-löggjöf.
    Sendinefnd á vegum þingmannanefndar EFTA fór til Marokkós til að funda með þarlendum þingmönnum. Fundurinn var haldinn í tengslum við fund sameiginlegrar nefndar EFTA og Marokkós þar sem farið var yfir fríverslunarsamskipti þessara aðila. Fulltrúi Íslandsdeildar í þeirri heimsókn var Vilhjálmur Egilsson.
    Loks ber að geta funda sem Íslandsdeildin átti á árinu með fulltrúum þjóðþinga þeirra ríkja sem næst tóku við forsæti innan ráðherraráðs ESB. Íslandsdeildin hefur haldið slíka fundi í tengslum við fundi þingmannanefndar EFTA. Þar kynnir Íslandsdeildin málefni EFTA og EES og útskýrir hvernig ýmsar ákvarðanir ESB hafi bein og/eða óbein áhrif á EES, jafnframt því að fá upplýsingar um helstu áhersluatriði viðkomandi ríkja í forsætistíð þeirra. Nefndin hélt fund með fulltrúum Evrópunefndar franska þingsins í París 3. júní og með fulltrúum Evrópunefndar sænska þingsins í Stokkhólmi 29. nóvember, en Frakkar tóku við forsæti í ráðherraráði ESB 1. júlí 2000 og Svíar í ársbyrjun 2001.

IV. Mikilvæg málefni í EFTA- og EES-samstarfi.
    EES-samningurinn er í stöðugri þróun og í hverjum mánuði bætast við nýjar ákvarðanir, breytingar og viðbætur. ESB er einnig í stöðugri þróun og miklar breytingar hafa orðið á Rómarsamningnum (stofnsáttmála ESB) bæði með ríkjaráðstefnunni í Maastricht og Amsterdam og nú síðast í Nice. Margar þessara breytinga verða ekki hluti af EES-samningnum en hafa óneitanlega áhrif á framkvæmd hans og geta leitt til að ósamræmi skapast við túlkun reglna innan ESB annars vegar og EFTA-EES hins vegar og þannig haft áhrif á einsleitni á Evrópska efnahagssvæðinu. Aukin völd Evrópuþingsins í ákvörðunarferli ESB hafa áhrif á EES-samstarfið en EFTA-EES-ríkin hafa hins vegar engin stofnanatengsl við þingið þar sem samskipti EFTA og ESB eru nánast eingöngu í gegnum framkvæmdastjórn ESB, eins og mælt er fyrir um í EES-samningnum. Aukin samvinna ESB-ríkja á sviði dóms- og innanríkismála og á sviði öryggis- og varnarmála fellur einnig utan EES-samningsins. Útgáfa sameiginlegs gjaldmiðils, evrunnar, mun hafa mikil áhrif á viðskipti Íslands þar sem þau ellefu ESB-ríki sem taka þátt í henni eru mikilvæg viðskiptaríki Íslands.

Stækkun ESB.
    Stækkun ESB, sem nú er í undirbúningi, krefst mikilla breytinga innan ESB og mun án efa hafa áhrif á samstarfið innan EES. Hvert nýtt ESB-ríki verður einnig aðili að EES-samningnum. Þrettán ríki hafa verið formlega viðurkennd sem umsóknarríki. Mikilvægt er að EFTA-EES-ríkin fylgist vel með samningaviðræðunum, sérstaklega þegar samið verður um aðlögunartíma ríkjanna í einstökum málum þar sem aðlaga þarf EES-samninginn að þessum undanþágum. Þingmannanefnd EFTA hefur fylgst náið með framvindu þessara samninga og eru þeir til umfjöllunar á flestum fundum þingmannanefnda EFTA og EES. Þingmannanefnd EFTA, sem og Íslandsdeildin, hefur ítrekað minnt á mikilvægi þess að EFTA-EES-ríkin séu upplýst um gang samningaviðræðna og séu höfð með í ráðum þegar samið verður um aðlögunartíma umsóknarríkjanna.

Samskipti EFTA við þriðju ríki.
    Samskipti við þriðju ríki eru ekki hluti af EES-samningnum. Hins vegar hefur stefna EFTA verið sú að gera fríverslunarsamninga við sömu ríki og ESB hefur samið við og koma þannig í veg fyrir mismunun af hálfu þessara ríkja gagnvart fyrirtækjum í EFTA-ríkjunum. Í byrjun gerði EFTA fjölda samninga við Mið- og Austur-Evrópuríki og svo Miðjarðarhafsríki. Nú beinir EFTA athygli sinni vestur um haf og lauk nýlega viðræðum um fríverslunarsamning við Mexíkó. Sá samningur mun gefa EFTA-ríkjunum sama aðgang að mörkuðum í Mexíkó og ESB-ríki, Bandaríkin og Kanada hafa. Viðræðum um fríverslunarsamning við Kanada er nánast að ljúka. EFTA hefur áhuga á að semja við fleiri ríki, t.d. Chile, Suður- Afríku og Suður-Kóreu. Íslandsdeildin hefur bent á nauðsyn þess að uppfæra fríverslunarsamninga sem EFTA hefur gert og tryggja viðhald þeirra. EFTA-skrifstofan hefur greint frá því að uppfærsla fríverslunarsamninga verði eitt af forgangsverkefnum EFTA á árinu 2001.

COSAC.
    Þingmannanefnd EFTA hefur lengi haft áhuga á að taka þátt í fundum COSAC, sem er nefnd skipuð fulltrúum úr Evrópunefndum þjóðþinga ESB. EFTA-EES-ríkin taka yfir um 80% af allri ESB-löggjöf og vilja þar af leiðandi styrkja lýðræðislegt eftirlit við samningu og ákvörðun laganna. Fundir eru tvisvar á ári og þar gefst þjóðkjörnum fulltrúum ríkjanna tækifæri til að ræða saman um Evrópumál og skiptast á hugmyndum. Samkvæmt reglum COSAC er heimilt að bjóða þingmönnum EFTA-ríkjanna á fundi sem sérstökum gestum þegar á dagskránni eru málefni sem tengjast EES. Þingmannanefnd EFTA fylgist grannt með starfi COSAC.

Bókun 3 við EES-samninginn.
    Viðræður EFTA og ESB um bókun 3 við EES-samninginn, um unnar landbúnaðarvörur, hefur tekið mörg ár. Í lok ársins 1999 lágu loks fyrir drög að nýrri ákvörðun um bókun 3 sem send voru til framkvæmdastjórnar ESB. Ákvörðunin var stöðvuð þar vegna andstöðu Svía sem vilja ná betri samningum við Norðmenn. Þetta olli miklum vonbrigðum og samningaviðræður standa enn yfir. Íslandsdeildin hefur tekið þetta margoft upp á fundum sínum með þingmannanefnd EES og einnig með Evrópunefndum ESB-ríkjanna, nú síðast á fundi sínum með Evrópunefnd sænska þingsins.

V. Helstu verkefni þingmannanefndar EFTA á árinu 2001.
    Þingmannanefndin mun fylgjast náið með þróuninni innan ESB, sérstaklega stækkun þess. Einnig mun nefndin fygjast grannt með framkvæmd Lissabon-áætlunar ESB og aðgerðum EFTA-EES-ríkjanna til að tengjast henni. Settur hefur verið á fót sérstakur vinnuhópur, skipaður aðilum frá EFTA-EES-ríkjunum, sem mun skoða hvernig EFTA-ríkin geta brugðist við þessari áætlun.
    Þingmannanefnd EFTA boðar til ráðstefnu í Ósló 13.–15. nóvember nk. þar sem rætt verður um stækkun ESB. Ráðgert er að bjóða fulltrúum frá þeim 13 ríkjum sem sótt hafa um aðild að ESB, auk fulltrúa frá væntanlegum umsóknarríkjum ESB, Makedóníu, Króatíu, Albaníu, Júgóslavíu og Úkraínu. Markmiðið með ráðstefnunni er að kynna EES-samninginn fyrir fulltrúum þessara ríkja sem verða aðilar að EES með inngöngu sinni í ESB.
    Að lokum má geta þess að Vilhjálmur Egilsson, formaður Íslandsdeildarinnar, var kjörinn formaður þingmannanefndar EFTA og þingmannanefndar EES fyrir árið 2001.


Alþingi, 16. febr. 2001.


Vilhjálmur Egilsson,

form.

Kristinn H. Gunnarsson,

varaform.

Ögmundur Jónasson.


Össur Skarphéðinsson.

Þorgerður K. Gunnarsdóttir.