Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 973, 126. löggjafarþing 510. mál: kísilgúrverksmiðja við Mývatn (sala á eignarhlut ríkisins).
Lög nr. 15 2. apríl 2001.

Lög um breytingu á lögum nr. 80/1966, um kísilgúrverksmiðju við Mývatn, með síðari breytingum.


1. gr.

     Í stað 1.–11. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:
     Iðnaðarráðherra er heimilt að selja 51% eignarhlut íslenska ríkisins í Kísiliðjunni hf. við Mývatn. Söluandvirðið skal renna til atvinnuuppbyggingar í þeim sveitarfélögum sem eiga verulegra hagsmuna að gæta vegna starfsemi kísilgúrverksmiðjunnar, samkvæmt nánari ákvörðun ríkisstjórnar.

2. gr.

     12. gr. laganna, sem verður 2. gr., orðast svo:
     Starfræktur skal sérstakur sjóður, Kísilgúrsjóður, sem hafi það hlutverk að kosta undirbúning aðgerða til þess að efla atvinnulíf í þeim sveitarfélögum sem nú eiga verulegra hagsmuna að gæta vegna starfsemi kísilgúrverksmiðjunnar.
     Ráðstöfunarfé sjóðsins skal vera:
  1. 20% af námagjaldi kísilgúrverksmiðjunnar árið 2001.
  2. 68% af námagjaldi verksmiðjunnar frá og með árinu 2002 og þar til kísilgúrvinnslu er hætt.
  3. Framlag á fjárlögum samkvæmt ákvörðun Alþingis hverju sinni.
  4. Aðrar tekjur.

     Stjórn sjóðsins skal skipuð einum fulltrúa Skútustaðahrepps, einum fulltrúa Húsavíkurbæjar, einum fulltrúa samgönguráðherra, einum fulltrúa umhverfisráðherra og einum fulltrúa iðnaðarráðherra sem jafnframt skal vera formaður stjórnarinnar.
     Iðnaðarráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um sjóð þennan.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 28. mars 2001.