Ferill 639. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1016  —  639. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 4/2001, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 4/2001 frá 31. janúar 2001, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/26/EB frá 16. maí 2000, um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um ábyrgðartryggingu vegna notkunar vélknúinna ökutækja og um breytingar á tilskipunum ráðsins 73/239/EBE og 88/357/EBE (Fjórða tilskipun um ökutækjatryggingar).

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 4/2001 frá 31. janúar 2001, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/26/EB frá 16. maí 2000, um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um ábyrgðartryggingu vegna notkunar vélknúinna ökutækja og um breytingar á tilskipunum ráðsins 73/239/EBE og 88/357/EBE (Fjórða tilskipun um ökutækjatryggingar).
    Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES- nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirrar tilskipunar sem hér um ræðir og nauðsynlegum lagabreytingum til innleiðingar hennar í íslenskan rétt. Gerð þessi felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir eru prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum eða bókunum við EES-samninginn eru þjóðréttarsamningar. Samkvæmt samningnum er ekki gert ráð fyrir því að í ákvörðunum sé kveðið á um að gildistaka þeirra gagnvart aðildarríkjunum sé háð staðfestingu þeirra heima fyrir. Þær verða með öðrum orðum skuldbindandi fyrir aðildarríkin um leið og þær hafa verið teknar nema eitthvert aðildarríkjanna beiti heimild í 103. gr. EES- samningsins til að gera fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Hafa ríkin sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Með þessu er vísað til nauðsynlegs atbeina þjóðþinga aðildarríkjanna og af hálfu Íslands hefur fyrirvara þessum því einungis verið beitt þegar ljóst er að ákvörðun kallar á lagabreytingar. Almennt hefur ekki verið leitað sérstaks samþykkis Alþingis áður en stjórnskipulegum fyrirvara er aflétt heldur látið við það sitja að Alþingi hafi samþykkt nauðsynlegar lagabreytingar vegna innleiðingar ákvarðana. Þetta felur í sér nokkurt frávik frá almennri meðferð vegna staðfestingar þjóðréttarsamninga þar sem atbeina Alþingis er krafist en á sér skýringar í sérstöðu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar meðal þjóðréttarsamninga. Hins vegar hafa nokkrir ókostir fylgt þessu fyrirkomulagi. Má þar helst nefna annars vegar að nokkuð mismunandi er með hvaða hætti það hefur komið fram í lagafrumvörpum hvernig þau tengjast tilteknum ákvörðunum sameiginlegu EES- nefndarinnar og hins vegar að með þessari aðferð hefur skort á að Alþingi hafi verið gefinn kostur á að taka beina afstöðu til staðfestingar einstakra ákvarðana nefndarinnar. Í vissum tilvikum hafa ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar kveðið á um að bætt sé við EES- samninginn tiltekinni EB-gerð sem ekki öðlast gildi innan Evrópusambandsins fyrr en einhverjum missirum eða jafnvel árum seinna. Samkvæmt EES-samningnum er Ísland skuldbundið til að taka endanlega afstöðu til þess hvort slík gerð verði hluti samningsins innan sex mánaða frá töku ákvörðunarinnar í sameiginlegu EES-nefndinni en hefur sama svigrúm og önnur aðildarríki samningsins til að innleiða viðkomandi gerð í landsrétt. Fram að þessu hefði eina leiðin verið sú að setja lög til innleiðingar þessara gerða innan sex mánaða frestsins en þau lög hefðu þá að sjálfsögðu ekki þurft að taka gildi fyrr en á ætluðum gildistökudegi gerðarinnar. Þetta er mjög óheppileg leið þar sem við undirbúning slíkrar lagasetningar er oft og tíðum horft til fordæma erlendis frá en þar er að jafnaði ekki hugað að slíkri lagasetningu fyrr en nær dregur gildistöku viðkomandi gerðar. Að þessari leið slepptri er eina leiðin til að virða samningsskuldbindingar Íslands að leita sérstaks samþykkis Alþingis í formi þingsályktunar.
    Að öllu þessu virtu hefur almenn meðferð þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem Ísland hefur gert stjórnskipulegan fyrirvara verið færð til samræmis við meðferð þjóðréttarsamninga. Í því felst að almennt er leitað sérstaklega eftir samþykki Alþingis til staðfestingar sérhverri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem stjórnskipulegur fyrirvari hefur verið gerður við. Slíks samþykkis er leitað í formi þingsályktunar en viðeigandi ráðuneyti munu samhliða undirbúa nauðsynleg frumvörp til lagabreytinga. Jafnframt hefur þeirri föstu vinnureglu verið komið á, með vísan til 24. gr. laga um þingsköp Alþingis, að haft verði samráð við utanríkismálanefnd um efni þessara ákvarðana meðan þær eru á undirbúningsstigi.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/26/EB frá 16. maí 2000, um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um ábyrgðartryggingu vegna notkunar vélknúinna ökutækja og um breytingar á tilskipunum ráðsins 73/239/EBE og 88/357/EBE (Fjórða tilskipun um ökutækjatryggingar).
    Tilgangur tilskipunarinnar er að setja sérákvæði vegna tjónþola sem á rétt á skaðabótum, vegna atviks í öðru aðildarríki en því þar sem hann býr, af völdum ökutækis sem vátryggt er og skráð í aðildarríki.
    Aðildarríkjum er ætlað að tryggja að tjónþoli geti höfðað mál beint á hendur því vátryggingafélagi sem vátryggt hefur þann sem ábyrgð ber.
    Vátryggingafélag sem annast ökutækjatryggingar skal tilnefna fulltrúa til að annast tjónauppgjör í öðrum aðildarríkjum en þar sem það hefur fengið starfsleyfi. Fulltrúinn skal hafa aðsetur í því aðildarríki þar sem hann er tilnefndur. Fulltrúi má starfa fyrir fleiri en eitt vátryggingafélag. Fulltrúi skal hafa umboð til að koma fram gagnvart tjónþola og ganga frá bótakröfu hans. Tilnefning fulltrúa kemur ekki í veg fyrir að tjónþoli eða vátryggingafélag tjónþola reki mál beint gegn tjónvaldi eða vátryggingafélagi hans. Ríkjunum er ætlað að tryggja með viðeigandi viðurlögum að vátryggingafélag/tjónafulltrúi leggi, innan þriggja mánaða frá framlagningu bótakröfu, fram rökstutt bótatilboð eða rökstutt svar við kröfum sem annaðhvort er hafnað eða ekki liggja ljósar fyrir.
    Aðildarríkjum er ætlað að sjá um að í hverju landi sé til upplýsingaskrifstofa sem, í því skyni að tjónþoli geti leitað bóta, hafi upplýsingar um skráningarnúmer ökutækja, númer vátryggingarskírteina, vátryggingafélög, ökutæki sem eru undanþegin vátryggingarskyldu og hver annist uppgjör tjóna vegna þeirra o.fl., eða sjái um söfnun og miðlun slíkra upplýsinga, og aðstoði þá sem eiga rétt til þess við að fá aðgang að upplýsingum.
    Þá skal í hverju aðildarríki vera tjónakröfuskrifstofa sem tjónþolar geta lagt fram kröfu hjá ef tjónakröfu er ekki sinnt innan þriggja mánaða eða ef tjónafulltrúi hefur ekki verið tilnefndur. Tjónaskrifstofur aðildarríkjanna skulu gera með sér samning um starfsemi þeirra, skyldur og endurgreiðslu.
    Loks er sérákvæði um tjón vegna óþekktra ökutækja og þegar ekki er unnt að tilgreina vátryggingafélag.
    Fyrri tilskipanir á þessu sviði hafa verið teknar upp í EES-samninginn.
    Aðildarríkjunum er ætlað að setja viðeigandi löggjöf um þetta efni fyrir 20. júlí 2002 er komi til framkvæmda fyrir 20. janúar 2003. Tjónaskrifstofum skal komið á fót fyrir 20. janúar 2002 og þær eiga að hafa gert með sér samkomulag fyrir 20. júlí 2002.
    Unnið er að undirbúningi nauðsynlegra lagabreytinga vegna þessa í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu en nauðsynlegt reynist að gera breytingar á umferðarlögum.


Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 4/2001

frá 31. janúar 2001

um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eins og hann var aðlagaður með bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir samningurinn, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

     1)      IX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 117/1999 frá 30. september 1999( 1 ).

     2)      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/26/EB frá 16. maí 2000 um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um ábyrgðartryggingu vegna notkunar vélknúinna ökutækja og um breytingar á tilskipunum ráðsins 73/239/EBE og 88/357/EBE (Fjórða tilskipun um ökutækjatryggingar)( 2 ) skal felld inn í samninginn.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.

Eftirfarandi breytingar eru gerðar á IX. viðauka við samninginn.

     1.      Eftirfarandi liður komi aftan við 10. lið (þriðja tilskipun ráðsins 90/232/EBE).

        „10a.     32000 L 0026: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/26/EB frá 16. maí 2000 um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um ábyrgðartryggingu vegna notkunar vélknúinna ökutækja og um breytingar á tilskipunum ráðsins 73/239/EBE og 88/357/EBE (Fjórða tilskipun um ökutækjatryggingar) (Stjtíð. EB L 181, 20.7.2000, bls. 65).“

     2.      Eftirfarandi undirliður bætist við í 2. lið (fyrsta tilskipun ráðsins 73/239/EBE) og 7. lið (tilskipun ráðsins 88/357/EBE):

        „-          32000 L 0026: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/26/EB frá 16. maí 2000 Stjtíð. EB L 181, 20.7.2000, bls. 65).“

2. gr.

Texti tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2000/26/EB á íslensku og norsku, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna, telst fullgiltur.

3. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 26. janúar 2001, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi verið sendar sameiginlegu EES-nefndinni( * ).

4. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild og EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna.

Gjört í Brussel 31. janúar 2001.


                                        Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
                                       Formaður

                                       P. Westerlund


                                       Ritarar
                                       sameiginlegu EES-nefndarinnar

                                       P. K. Mannes     M. Brinkmann




Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2000/26/EB frá 16. maí 2000

um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um ábyrgðartryggingu vegna notkunar vélknúinna ökutækja og um breytingar á tilskipunum ráðsins 73/239/EBE og 88/357/EBE

(Fjórða tilskipun um ökutækjatryggingar)


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,

með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 2. mgr. 47. gr. og 95. gr.,

með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),

með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( 2 ),

í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 3 ), á grundvelli sameiginlegs texta sáttanefndarinnar frá 7. apríl 2000,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

     1)      Eins og sakir standa er misræmi á milli ákvæða laga og stjórnsýslufyrirmæla í aðildarríkjunum um ábyrgðartryggingu vegna notkunar vélknúinna ökutækja og þetta misræmi er hindrun í vegi frjálsra fólksflutninga og frjálsrar tryggingaþjónustustarfsemi.

     2)      Nauðsynlegt er því að samræma þessi ákvæði til að innri markaðurinn geti starfað snurðulaust.

     3)      Í tilskipun 72/166/EBE ( 4 ) samþykkti ráðið ákvæði um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um ábyrgðartryggingu vegna notkunar vélknúinna ökutækja og til að kveða á um skyldu til að viðhalda vátryggingu gagnvart slíkri ábyrgð.

     4)      Í tilskipun 88/357/EBE ( 5 ) samþykkti ráðið ákvæði um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum á sviði frumtrygginga, annarra en líftrygginga, og um að greiða fyrir því að réttur til að stunda þjónustustarfsemi sé nýttur.

     5)      Fyrirkomulagið með skrifstofur vegna græna skírteinisins tryggir að skjótt tjónsuppgjör geti farið fram í landi tjónþola jafnvel þótt hinn aðilinn sé frá öðru landi í Evrópu.

     6)      Fyrirkomulagið með skrifstofur vegna græna skírteinisins leysir ekki allan vanda tjónþola sem þarf að gera kröfu í öðru landi á hendur aðila sem er búsettur þar og á hendur vátryggingafélagi með starfsleyfi þar (erlent réttarkerfi, erlent tungumál, framandi málsmeðferð við tjónsuppgjör og oft óviðunandi tafir á tjónsuppgjöri).

     7)      Í ályktun sinni frá 26. október 1995 um tjónsuppgjör vegna umferðarslysa sem verða utan heimalands kröfuhafa ( 6 ) fór Evrópuþingið þess á leit við framkvæmdastjórnina, í samræmi við 2. mgr. 192. gr. sáttmálans, að hún legði fram tillögu að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins til að leysa þennan vanda.

     8)      Tímabært er að bæta við þær ráðstafanir sem komið var á með tilskipunum 72/166/EBE, 84/5/EBE ( 1 ) og 90/232/EBE ( 2 ) til að tryggja að tjónþolar, sem hafa orðið fyrir tjóni vegna slysa sem vélknúin ökutæki valda, sitji við sama borð án tillits til þess hvar innan bandalagsins slysin verða. Ýmsu er ábótavant að því er varðar tjónsuppgjör vegna slysa, sem falla undir gildissvið þessarar tilskipunar, sem eiga sér stað í öðru ríki en því þar sem tjónþoli hefur búsetu.

     9)      Beiting þessarar tilskipunar við slys sem eiga sér stað í þriðju löndum þar sem fyrirkomulagið um notkun græna skírteinisins gildir og sem hafa áhrif á tjónþola sem eru búsettir innan bandalagsins og þar sem vélknúin ökutæki koma við sögu sem eru tryggð og að öllu jöfnu staðsett í aðildarríki, felur ekki í sér þá landfræðilegu útvíkkun á lögboðinni ökutækjatryggingarvernd sem kveðið er á um í 2. mgr. 3. gr. tilskipunar 72/166/EBE.

     10)      Þetta felur í sér að tjónþoli öðlast rétt til að beina kröfu sinn beint til vátryggingafélags aðilans sem ber ábyrgð á slysinu.

     11)      Viðunandi lausn fyrir tjónþola sem verða fyrir tjóni vegna slysa, sem vélknúin ökutæki valda og sem falla undir gildissvið þessarar tilskipunar og verða í öðru ríki en þar sem þeir eru búsettir, gæti verið að mega gera kröfu í aðildarríkinu, þar sem þeir hafa búsetu, á hendur tjónsuppgjörsfulltrúa sem er tilnefndur þar af vátryggingafélagi aðilans, sem ber ábyrgð á slysinu.

     12)      Þessi lausn fæli í sér að farið yrði með tjón, sem tjónþolar verða fyrir utan aðildarríkisins þar sem þeir hafa búsetu, eftir málsmeðferð sem þeim er kunn.

     13)      Það fyrirkomulag að hafa tjónsuppgjörsfulltrúa í aðildarríkinu þar sem tjónþoli hefur búsetu hefur hvorki áhrif á það hvaða efnisrétti skuli beita í hverju einstöku tilviki né á lögsögu.
     14)      Það að sá, sem orðið hefur fyrir tjóni, skuli eiga rétt til að beina kröfu sinni beint til vátryggingafélags er rökrétt viðbót við að tilnefna slíka fulltrúa og bætir auk þess lagalega stöðu tjónþola að því er varðar slys af völdum vélknúinna ökutækja sem eiga sér stað utan aðildarríkisins þar sem aðilinn er búsettur.

     15)      Í því skyni að bæta úr téðum atriðum, sem ábótavant er, skal kveða á um að aðildarríkið, þar sem vátryggingafélagið hefur starfsleyfi, krefjist þess að félagið tilnefni tjónsuppgjörsfulltrúa sem búsettir eru, eða hafa staðfestu, í hinum aðildarríkjunum og skulu þeir safna öllum nauðsynlegum upplýsingum í tengslum við kröfur vegna slíkra slysa og gera viðeigandi ráðstafanir til að gera upp kröfur fyrir hönd vátryggingafélagsins og á kostnað þess, þar á meðal greiða skaðabætur. Tjónsuppgjörsfulltrúar skulu hafa umboð til að koma fram fyrir hönd vátryggingafélagsins gagnvart fólki sem orðið hefur fyrir tjóni vegna slíkra slysa, auk þess að koma fram fyrir hönd þess frammi fyrir innlendum yfirvöldum, þar á meðal dómstólum þegar þess gerist þörf, svo fremi það samræmist reglum alþjóðlegs einkamálaréttar um val á lögsögu.

     16)      Starfsemi tjónsuppgjörsfulltrúa er ekki nægilegur grundvöllur fyrir því að valin sé lögsaga dómstóla í aðildarríkinu, þar sem tjónþoli er búsettur, ef reglur alþjóðlegs einkamálaréttar um val á lögsögu kveða ekki á um það.

     17)      Tilnefning fulltrúa sem annast uppgjör bótakrafna skal vera eitt af skilyrðunum fyrir því að hefja og stunda vátryggingastarfsemi þá sem talin er upp í 10. flokki A-liðar í viðaukanum við tilskipun 73/239/EBE ( 3 ), að undanskilinni ábyrgð vegna flutninga. Þetta skilyrði skal því uppfyllt með einu opinberu leyfi sem gefið er út af yfirvöldum í aðildarríkinu þar sem vátryggingafélagið hefur aðalskrifstofu, eins og tiltekið er í II. bálki tilskipunar 92/49/EBE ( 4 ). Þetta skilyrði skal einnig gilda um vátryggingafélög sem hafa aðalskrifstofu utan bandalagsins og hafa tryggt sér leyfi sem heimilar þeim að hefja vátryggingastarfsemi í aðildarríki bandalagsins. Af þessum sökum skal tilskipun 73/239/EBE breytt og bætt við hana.

     18)      Auk þess að tryggja að vátryggingafélagið hafi fulltrúa í ríkinu þar sem tjónþoli er búsettur, er rétt að tryggja tjónþola þann rétt að krafan verði gerð upp eins skjótt og auðið er. Því er nauðsynlegt, ef vátryggingafélagið eða fulltrúi þess skyldu bregðast þeirri skyldu sinni að bjóða skaðabætur innan viðunandi frests, að í landslögum séu viðeigandi skilvirk og kerfisbundin stjórnsýsluviðurlög, fjárhagsleg eða jafngild, svo sem fyrirmæli ásamt stjórnsýslusektum, reglubundin skýrslugjöf til eftirlitsyfirvalda, vettvangseftirlit, birting í innlendu lögbirtingablaði og í dagblöðum, afturköllun á starfsemi félagsins (bann við gerð nýrra samninga í tiltekinn tíma), tilnefning sérstaks fulltrúa eftirlitsyfirvalda sem hefur eftirlit með því að rekstur sé í samræmi við vátryggingalög, afturköllun starfsleyfis eða viðurlög gagnvart stjórnendum og forstöðumönnum. Þetta skal ekki hafa áhrif á beitingu neinna annarra ráðstafana, einkum og sér í lagi samkvæmt eftirlitslögum, sem kunna að teljast við hæfi. Til þess að vátryggingafélagið geti boðið bætur byggðar á rökstuðningi innan tilskilins frests er það þó skilyrði að ekki leiki vafi á bótaábyrgð og tjóninu sem orðið er. Rökstutt boð um skaðabætur skal vera skriflegt og í því tíundaður grundvöllur mats á bótaábyrgð og tjóni.

     19)      Auk þessara viðurlaga er rétt að kveða á um að vextir skuli greiðast ofan á bótafjárhæð sem vátryggingafélag býður eða dómstóll dæmir tjónþola, hafi bætur ekki verið boðnar innan tilskilins frests. Ef innlendar reglur aðildarríkja taka til kröfu um dráttarvexti er heimilt að beita þessu ákvæði með tilvísun til þeirra reglna.

     20)      Tjónþolar, sem hafa orðið fyrir tjóni í slysi sem hlýst af notkun vélknúinna ökutækja, eiga stundum erfitt með að fá gefið upp nafn vátryggingafélagsins sem viðkomandi ökutæki eru ábyrgðartryggð hjá.
     21)      Aðildarríki skulu koma á fót upplýsingamiðstöðvum í þágu slíkra aðila til að tryggja að slíkar upplýsingar séu veittar eins skjótt og auðið er. Í þessum upplýsingamiðstöðvum skulu tjónþolar einnig geta nálgast upplýsingar um tjónsuppgjörsfulltrúa. Nauðsynlegt er að slíkar miðstöðvar hafi með sér samstarf og veiti skjót svör við beiðnum um upplýsingar um tjónsuppgjörsfulltrúa frá miðstöðvum í öðrum aðildarríkjum. Rétt er að slíkar miðstöðvar safni upplýsingum um það hvenær tryggingavernd rennur út í raun en ekki um það hvenær upprunalegum gildistíma tryggingaskírteinisins lýkur ef samninginn má endurnýja með því að segja honum ekki upp.

     22)      Setja skal sérákvæði um ökutæki (svo sem ökutæki í eigu hins opinbera eða hers) sem undanþágur frá ábyrgðartryggingarskyldu gilda um.

     23)      Ef lögmætir hagsmunir tjónþola felast í því að honum sé tilkynnt um deili á eiganda ökutækisins, þeim sem ekur því að jafnaði eða skráðum umráðamanni þess, svo sem ef hann getur einungis fengið bætur frá þessum mönnum vegna þess að ökutækið er ekki tryggt á viðeigandi hátt eða ef tjón nemur meiru en vátryggingarfjárhæð, ber einnig að veita þessar upplýsingar.

     24)      Tilteknar upplýsingar, svo sem nafn og heimilisfang eigandans eða þess sem ekur ökutækinu að jafnaði og númer vátryggingarskírteinis eða skráningarnúmer ökutækisins, eru persónuupplýsingar í skilningi tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 95/46/EB frá 24. október 1995 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga ( 1 ). Vinnsla slíkra gagna, með skírskotun til þessarar tilskipunar, verður því að vera í samræmi við innlendar ráðstafanir sem gerðar eru samkvæmt tilskipun 95/46/EB. Nafn og heimilisfang þess sem ekur ökutækinu að jafnaði skal því einungis látið uppi að kveðið sé á um slíkt í landslögum.

     25)      Nauðsynlegt er að tjónþoli geti leitað til tjónsuppgjörsstofnunar ef vátryggingafélagið hefur ekki tilnefnt fulltrúa eða er augljóslega að tefja uppgjör kröfu eða ef ekki eru vituð deili á vátryggingafélagi til þess að tryggja að tjónþoli verði ekki af þeim bótum sem hann á rétt á. Íhlutun tjónsuppgjörsstofnunar skal takmarkast við örfá, einstök tilvik þar sem vátryggingafélag hefur ekki uppfyllt skyldur sínar þrátt fyrir letjandi áhrif hugsanlegrar viðurlagaálagningar.

     26)      Hlutverk tjónsuppgjörsstofnunar er einungis að gera upp bótakröfur vegna hvers kyns tjóns sem tjónþoli verður fyrir þegar ekki leikur vafi á ábyrgð og því verður tjónsuppgjörsstofnun að takmarka starfsemi sína við að ganga úr skugga um að bætur hafi verið boðnar innan þeirra tímamarka og í samræmi við málsmeðferð sem mælt hefur verið fyrir um, án þess að meta málsatvik.

     27)      Lögpersónur, sem samkvæmt lögum ganga inn í kröfu tjónþola gegn þeim sem ber ábyrgð á slysinu eða vátryggingafélagi hans (svo sem, til dæmis, önnur vátryggingafélög eða tryggingastofnanir), skulu ekki eiga rétt á að gera samsvarandi kröfu á tjónsuppgjörsstofnun.

     28)      Tjónsuppgjörsstofnun skal eiga rétt á kröfuhafaskiptum að því marki sem hann hefur bætt tjónþola tjónið. Til að auðvelda tjónsuppgjörsstofnun að framfylgja kröfu sinni á hendur vátryggingafélagi, sem hefur ekki tilnefnt tjónsuppgjörsfulltrúa eða er augljóslega að tefja uppgjör kröfu, skal sá aðili sem greiðir bætur í ríki tjónþola sjálfkrafa öðlast endurkröfurétt með yfirfærslu réttinda tjónþola til tilsvarandi aðila í ríkinu þar sem vátryggingafélagið hefur aðsetur. Síðarnefndur aðili er í bestri aðstöðu til að höfða mál vegna endurkröfu á hendur vátryggingafélaginu.

     29)      Jafnvel þótt aðildarríkin geti séð til þess að krafa á hendur tjónsuppgjörsstofnun sé til vara skal ekki skylda tjónþola til að leggja fram kröfu á hendur þeim sem ber ábyrgð á slysinu áður en hann gerir kröfu á hendur tjónsuppgjörsstofnun. Staða tjónþola í slíku tilviki skal ekki vera lakari en þegar um er að ræða kröfu gegn ábyrgðarsjóði samkvæmt 4. mgr. 1. gr. tilskipunar 84/5/EBE.

     30)      Þetta kerfi má gera starfhæft með samningi milli tjónsuppgjörsstofnana, sem aðildarríkin koma á fót eða samþykkja, sem skilgreinir starfsemi þeirra og skyldur og málsmeðferð við endurgreiðslu.

     31)      Ef ómögulegt reynist að finna vátryggjanda ökutækisins skulu gerðar ráðstafanir til þess að sá sem að lokum á að reiða fram fjárhæðina sem tjónþoli fær í skaðabætur, sé ábyrgðarsjóðurinn sem kveðið er á um í 4. mgr. 1. gr. tilskipunar 84/5/EBE í aðildarríkinu þar sem hið ótryggða ökutæki, sem olli slysinu, er að öllu jöfnu staðsett. Ef ómögulegt reynist að staðfesta um hvaða ökutæki er að ræða skulu gerðar ráðstafanir til þess að sá sem að lokum á að reiða fram fjárhæðina sé ábyrgðarsjóðurinn sem kveðið er á um í 4. mgr. 1. gr. tilskipunar 84/5/EBE í aðildarríkinu þar sem slysið átti sér stað.

SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.

Gildissvið

1.     Markmiðið með þessari tilskipun er að mæla fyrir um sérákvæði sem gilda um tjónþola sem eiga rétt á skaðabótum vegna hvers kyns tjóns sem þeir verða fyrir í slysum, sem eiga sér stað í öðru aðildarríki en því þar sem tjónþoli er búsettur, og hljótast af notkun ökutækja sem eru tryggð og að öllu jöfnu staðsett í aðildarríki.

Með fyrirvara um löggjöf þriðju landa um skaðabótaábyrgð og alþjóðlegan einkamálarétt skal þessi tilskipun einnig gilda um tjónþola sem eru búsettir í aðildarríki og eiga rétt á bótum vegna hvers kyns tjóns af völdum slysa sem eiga sér stað í þriðju löndum þar sem landsskrifstofur bifreiðatrygginga, sem eru skilgreindar í 3. mgr. 1. gr. tilskipunar 72/166/EBE, hafa gerst aðilar að fyrirkomulaginu um notkun græna skírteinisins ef slík slys hljótast af notkun ökutækja sem eru tryggð, og að jafnaði staðsett, í aðildarríki.

2.     Ákvæði 4. og 6. gr. skulu aðeins gilda þegar um er að ræða slys sem hlýst af notkun ökutækis

a)      sem er vátryggt hjá starfsstöð í öðru aðildarríki en því ríki þar sem tjónþoli er búsettur, og

b)      sem er að jafnaði staðsett í öðru aðildarríki en því ríki þar sem tjónþoli er búsettur.

3.     Ákvæði 7. gr. skulu einnig gilda um slys af völdum ökutækja frá þriðju löndum sem falla undir 6. og 7. gr. tilskipunar 72/166/EBE.

2. gr.

Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

a)      „vátryggingafélag“: félag sem fengið hefur starfsleyfi yfirvalda í samræmi við 6. gr. eða 2. mgr. 23. gr. tilskipunar 73/239/EBE;

b)      „starfsstöð“: aðalskrifstofa, útibú eða umboð vátryggingafélags, eins og skilgreint er í c-lið 2. gr. tilskipunar 88/357/EBE;

c)      „ökutæki“: ökutæki eins og það er skilgreint í 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 72/166/EBE;

d)      „tjónþoli“: tjónþoli eins og hann er skilgreindur í 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 72/166/EBE;

e)      „aðildarríkið þar sem ökutækið er að öllu jöfnu staðsett“: landsvæðið þar sem ökutækið er að öllu jöfnu staðsett eins og það er skilgreint í 4. mgr. 1. gr. tilskipunar 72/166/EBE.

3. gr.

Réttur til að beina kröfu beint til vátryggingafélags

Sérhvert aðildarríki skal tryggja að tjónþolar þeir, sem um getur í 1. gr., sem hafa orðið fyrir slysi í skilningi þess ákvæðis, eigi rétt á að beina kröfu sinni beint til vátryggingafélagsins sem aðilinn, sem ber ábyrgð á slysinu, er ábyrgðartryggður hjá.

4. gr.

Tjónsuppgjörsfulltrúar

1.     Sérhvert aðildarríki skal gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að öll vátryggingafélög, sem tryggja gegn áhættu sem flokkast í 10. flokk í A-lið viðaukans við tilskipun 73/239/EBE, annarri en ábyrgð vegna flutninga, tilnefni tjónsuppgjörsfulltrúa í sérhverju aðildarríki öðru en því þar sem þau hafa fengið starfsleyfi yfirvalda. Tjónsuppgjörsfulltrúi skal fara með kröfur og uppgjör vegna tjóna af völdum slysa í þeim tilvikum sem um getur í 1. gr. Tjónsuppgjörsfulltrúi skal vera búsettur eða hafa staðfestu í aðildarríkinu þar sem hann hefur verið tilnefndur.

2.     Val á tjónsuppgjörsfulltrúa skal vera ákvörðun vátryggingafélagsins. Aðildarríkjunum er óheimilt að takmarka þetta val.

3.     Tjónsuppgjörsfulltrúi getur unnið fyrir eitt eða fleiri vátryggingafélög.

4.     Tjónsuppgjörsfulltrúi skal, í tengslum við slíkar kröfur, safna öllum nauðsynlegum upplýsingum er varða tjónauppgjör og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að semja um þær. Sú krafa að tilnefndur sé tjónsuppgjörsfulltrúi skal ekki fyrirbyggja rétt tjónþola eða vátryggingafélags hans til að hefja málssókn beint gegn þeim sem var valdur að slysinu eða vátryggingafélagi hans.

5.     Tjónsuppgjörsfulltrúar skulu hafa umboð til að koma fram fyrir hönd vátryggingafélagsins gagnvart tjónþolum í þeim tilvikum sem um getur í 1. gr. og bæta kröfur þeirra að fullu. Þeir verða að vera færir um að kanna mál á opinberu tungumáli eða -málum aðildarríkisins þar sem tjónþoli er búsettur.

6.     Aðildarríkin skulu gera það að skyldu, og styðja með viðeigandi, árangursríkum og kerfisbundnum stjórnsýsluviðurlögum, fjárhagslegum eða samsvarandi, að innan þriggja mánaða frá þeim degi þegar tjónþoli gerir bótakröfu, annað hvort beint á vátryggingafélag þess sem olli slysinu eða tjónsuppgjörsfulltrúa þess,

a)      sé þess krafist að vátryggingafélag þess sem olli slysinu eða tjónsuppgjörsfulltrúi þess bjóði bætur og rökstyðji þær í tilvikum þar sem ekki ríkir ágreiningur um bótaábyrgð og tjón hefur verið metið, eða

b)      þess sé krafist að vátryggingafélag sem bótakröfu er beint til eða tjónsuppgjörsfulltrúi þess gefi rökstutt svar við þeim atriðum sem tiltekin eru í kröfunni í tilvikum þar sem bótaábyrgð er hafnað eða ekki hefur verið skorið úr um hana eða ef tjón hefur ekki verið metið að fullu.

Aðildarríkin skulu setja ákvæði til að tryggja að þegar bætur eru ekki boðnar innan þriggja mánaða frestsins skuli vextir greiðast ofan á bótafjárhæðina sem vátryggingafélag býður eða dómstóll dæmir tjónþola.

7.     Framkvæmdastjórnin skal gefa Evrópuþinginu og ráðinu skýrslu um framkvæmd fyrstu undirgreinar 4. mgr. og um skilvirkni þess ákvæðis sem og um samræmi innlendra viðurlagaákvæða fyrir 20. janúar 2006 og leggja fram tillögur ef nauðsyn ber til.

8.     Tilnefning tjónsuppgjörsfulltrúa skal ekki í sjálfu sér teljast opnun útibús, í skilningi b-liðar 1. gr. tilskipunar 92/49/EBE og tjónsuppgjörsfulltrúi skal ekki talinn vera starfsstöð í skilningi c-liðar 2. gr. tilskipunar 88/357/EBE né starfsstöð í skilningi Brussel-samningsins frá 27. september 1968 um dómsvald og um viðurkenningu dóma í einkamálum ( 1 ).

5. gr.

Upplýsingamiðstöðvar

1.     Í því skyni að gera tjónþola kleift að fara fram á bætur skal sérhvert aðildarríki koma á fót eða samþykkja upplýsingamiðstöð sem:

a)      halda skal skrá um:

    1.    skráningarnúmer vélknúinna ökutækja sem eru að öllu jöfnu staðsett á yfirráðasvæði viðkomandi ríkis;

    2.    (i)    númer vátryggingaskírteina sem taka til notkunar þessara ökutækja að því er varðar áhættu sem flokkast í 10. flokk í A-lið viðaukans við tilskipun 73/239/EBE, aðra en ábyrgð vegna flutninga, og, ef gildistími vátryggingaskírteinis er útrunninn, einnig daginn sem vátryggingarvernd rennur út;

              (ii)    númer græna skírteinisins eða landamæravátryggingaskírteinis ef annað þessara skjala gildir um ökutækið, svo framarlega sem það nýtur undanþágunnar sem kveðið er á um í b-lið 4. gr. tilskipunar 72/166/EBE;

    3.    þau vátryggingafélög sem notkun ökutækja er tryggð hjá að því er varðar áhættu sem flokkast í 10. flokk í A-lið viðaukans við tilskipun 73/239/EBE, aðra en ábyrgð vegna flutninga, og tjónsuppgjörsfulltrúar sem tilnefndir eru af slíkum vátryggingafélögum í samræmi við 4. gr., en nöfn þeirra skulu tilkynnt upplýsingamiðstöðinni í samræmi við 2. mgr. þessarar greinar;

    4.    skrá um ökutæki sem í hverju aðildarríki njóta undanþágu frá kröfu um ábyrgðartryggingarvernd í samræmi við a- og b-lið 4. gr. tilskipunar 72/166/EBE;

    5.    þegar um er að ræða ökutæki sem kveðið er á um í 4-lið:

              (i)    nafn yfirvalds eða stofnunar sem tilnefnd er í samræmi við aðra undirgrein a-liðar 4. gr. tilskipunar 72/166/EBE til að annast bótagreiðslur til tjónþola í tilvikum þar sem málsmeðferðin, sem kveðið er á um í fyrsta undirlið 2. mgr. 2. gr. tilskipunar 72/166/EBE, á ekki við ef ökutækið nýtur undanþágunnar sem kveðið er á um í a-lið 4. gr. tilskipunar 72/166/EBE;

              (ii)    nafn stofnunar sem ábyrgist ökutækið í aðildarríkinu þar sem það er að öllu jöfnu staðsett ef ökutækið nýtur undanþágunnar sem kveðið er á um í b-lið 4. gr. tilskipunar 72/166/EBE;

b)      eða samræma söfnun og miðlun þessara upplýsinga;

c)      og aðstoða bótakröfuhafa við að fá aðgang að upplýsingunum sem fjallað er um í 1.-5. lið a-liðar.

Upplýsingar samkvæmt 1.-3. lið a-liðar skal geyma í sjö ár eftir að skráning ökutækisins eða gildistími vátryggingasamningsins rennur út.

2.     Vátryggingafélög, sem um getur í 3. lið a-liðar í 1. mgr., skulu tilkynna upplýsingamiðstöðvum í öllum aðildarríkjunum nafn og heimilisfang þess tjónsuppgjörsfulltrúa sem þau hafa tilnefnt, samkvæmt 4. gr., í hverju aðildarríki.

3.     Aðildarríkin skulu tryggja að í sjö ár eftir slysið eigi tjónþoli rétt á því að upplýsingamiðstöðin í aðildarríkinu þar sem hann er búsettur, í aðildarríkinu þar sem ökutækið er að öllu jöfnu staðsett eða í aðildarríkinu þar sem slysið átti sér stað, láti honum í té, án tafar, eftirtaldar upplýsingar:

a)      nafn og heimilisfang vátryggingafélagsins;

b)      númerið á vátryggingaskírteininu; og

c)      nafn og heimilisfang tjónsuppgjörsfulltrúa vátryggingafélagsins í ríkinu þar sem tjónþoli er búsettur.

Upplýsingamiðstöðvar skulu hafa með sér samvinnu.

4.     Upplýsingamiðstöðin skal láta tjónþola í té nafn og heimilisfang eiganda ökutækisins, þess sem ekur því að jafnaði eða skráðs umráðamanns þess ef lögmætir hagsmunir tjónþola felast í því að hann fái þessar upplýsingar. Að því er varðar þetta ákvæði skal upplýsingamiðstöðin einkum snúa sér:

a)      til vátryggingafélagsins, eða

b)      til skráningarskrifstofu ökutækja.

Njóti ökutækið undanþágunnar, sem kveðið er á um í a-lið 4. gr. tilskipunar 72/166/EBE, skal upplýsingamiðstöðin tilkynna tjónþola um nafn þess yfirvalds eða stofnunar sem tilnefnd er í samræmi við aðra undirgrein a-liðar 4. gr. þeirrar tilskipunar til að annast bótagreiðslur til tjónþola í þeim tilvikum þar sem málsmeðferðin, sem kveðið er á um í fyrsta undirlið 2. mgr. 2. gr. í þeirri tilskipun, gildir ekki.

Ef ökutækið nýtur undanþágunnar, sem kveðið er á um í b-lið 4. gr. tilskipunar 72/166/EBE, skal upplýsingamiðstöðin tilkynna tjónþola nafn stofnunarinnar sem ábyrgist ökutækið í landinu þar sem það er að öllu jöfnu staðsett.

5.     Sú vinnsla persónuupplýsinga, sem um getur í málsgreinunum hér að framan, skal fara fram í samræmi við innlendar ráðstafanir sem gerðar eru í samræmi við tilskipun 95/46/EB.

6. gr.

Tjónsuppgjörsstofnun

1.     Sérhvert aðildarríki skal koma á eða samþykkja tjónsuppgjörsstofnun sem annast bótagreiðslur til tjónþola í þeim tilvikum sem um getur í 1. gr.

Slíkir tjónþolar geta gert kröfu á tjónsuppgjörsstofnun í aðildarríkinu þar sem þeir eru búsettir:

a)      ef vátryggingafélag eða tjónsuppgjörsfulltrúi þess hefur ekki látið í té rökstutt svar við þeim atriðum sem koma fram í kröfu innan þriggja mánaða frá þeim degi sem tjónþoli gerði bótakröfu á hendur vátryggingafélaginu sem ökutækið, sem olli slysinu, var tryggt hjá eða á hendur tjónsuppgjörsfulltrúa þess; eða

b)      ef vátryggingafélag hefur ekki tilnefnt tjónsuppgjörsfulltrúa í ríkinu þar sem tjónþoli er búsettur í samræmi við 1. mgr. 4. gr. Í því tilviki geta tjónþolar ekki gert kröfu á hendur tjónsuppgjörsstofnun ef þeir hafa gert bótakröfu beint á hendur vátryggingafélaginu þar sem ökutækið, sem olli slysinu, var tryggt og hafa fengið rökstutt svar innan þriggja mánaða frá því að krafan var gerð.

Tjónþolar geta hins vegar ekki gert kröfu á tjónsuppgjörsstofnun hafi þeir hafið málsókn beint á hendur vátryggingafélaginu.

Tjónsuppgjörsstofnunin skal grípa til aðgerða innan tveggja mánaða frá þeim degi sem tjónþoli gerir bótakröfu á hendur henni en hún skal hætta aðgerðum ef vátryggingafélagið, eða tjónsuppgjörsfulltrúi þess, sendir í kjölfarið rökstutt svar við kröfunni.

Tjónsuppgjörsstofnunin skal þegar í stað tilkynna:

a)      vátryggingafélagi ökutækisins sem olli slysinu eða tjónsuppgjörsfulltrúa þess;

b)      tjónsuppgjörsstofnun í aðildarríkinu þar sem vátryggingafélagið, sem gaf út vátryggingaskírteinið, hefur staðfestu;

c)      þeim sem var valdur að slysinu, ef vitað er,

að hún hafi móttekið kröfu frá tjónþola og að hún muni svara kröfunni innan tveggja mánaða frá því að hún var gerð.

Ákvæði þetta skerðir hvorki rétt aðildarríkis til að meta hvort bætur þessarar stofnunar teljast fullnaðarbætur eða ekki né til að setja ákvæði um tjónsuppgjör milli þess aðila og þess eða þeirra sem voru valdir að slysinu og annarra vátryggjenda eða tryggingastofnana á vegum hins opinbera sem eiga að greiða tjónþola bætur vegna sama slyss. Aðildarríki mega þó ekki veita tjónsuppgjörsstofnun heimild til þess að setja nein skilyrði fyrir greiðslu bóta, önnur en þau sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun, svo sem að tjónþoli sýni fram á að sá sem ber skaðabótaábyrgð sé ófær um eða neiti að bæta tjónið.

2.     Tjónsuppgjörsstofnunin, sem bætt hefur tjónþola tjónið í ríkinu þar sem hann er búsettur, skal eiga rétt á að krefjast endurgreiðslu á fjárhæðinni, sem greidd var í bætur, frá tjónsuppgjörsstofnun í aðildarríkinu þar sem vátryggingafélagið, sem gaf út vátryggingaskírteinið, hefur staðfestu.

Réttindi tjónþola gagnvart þeim sem var valdur að slysinu eða vátryggingafélagi hans skulu þá færast yfir til síðarnefndrar tjónsuppgjörsstofnunar að því marki sem tjónsuppgjörsstofnunin í aðildarríkinu þar sem tjónþoli er búsettur hefur bætt tjónið sem um ræðir. Sérhverju aðildarríki ber skylda til að viðurkenna slík kröfuhafaskipti eins og kveðið er á um þau í hinum aðildarríkjunum.

3.     Ákvæði þessarar greinar skulu koma til framkvæmda:

a)      eftir að samningur hefur verið gerður milli tjónsuppgjörsstofnananna, sem komið er á eða sem aðildarríkin samþykkja, um störf þeirra og skyldur og málsmeðferð um endurgreiðslu;

b)      frá og með þeim degi sem framkvæmdastjórnin ákveður, eftir að hún hefur, í nánu samstarfi við aðildarríkin, gengið úr skugga um að slíkur samningur hafi verið gerður.

Framkvæmdastjórnin skal gefa Evrópuþinginu og ráðinu skýrslu um framkvæmd þessarar greinar og um áhrif hennar fyrir 20. júlí 2005 og leggja fram tillögur ef nauðsyn ber til.

7. gr.

Ef ómögulegt reynist að staðfesta um hvaða ökutæki er að ræða eða ef ómögulegt reynist, innan tveggja mánaða frá slysinu, að finna vátryggingafélagið, getur tjónþoli sótt um bætur frá tjónsuppgjörsstofnun í aðildarríkinu þar sem hann er búsettur. Tjón skal bætt í samræmi við 1. gr. tilskipunar 84/5/EBE. Tjónsuppgjörsstofnunin skal þá eiga kröfu, með þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 6. gr. þessarar tilskipunar:

a)      ef ekki er unnt að staðfesta um hvaða vátryggingafélag er að ræða: á hendur ábyrgðarsjóðnum, sem kveðið er á um í 4. mgr. 1. gr. tilskipunar 84/5/EBE, í aðildarríkinu þar sem ökutækið er að öllu jöfnu staðsett;

b)      ef um er að ræða óþekkt ökutæki: á hendur ábyrgðarsjóðnum í aðildarríkinu þar sem slysið átti sér stað;

c)      ef um er að ræða ökutæki frá þriðja landi: á hendur ábyrgðarsjóðnum í aðildarríkinu þar sem slysið átti sér stað.

8. gr.

Tilskipun 73/239/EBE er breytt sem hér segir:

a)      Í 1. mgr. 8. gr. bætist eftirfarandi liður við:

    „f)    tilkynni nafn og heimilisfang tjónsuppgjörsfulltrúa sem tilnefndur er í hverju aðildarríki öðru en því þar sem sótt er um starfsleyfið, ef áhættan sem tryggt er gegn flokkast í 10. flokk í A-lið viðaukans, að undanskilinni ábyrgð vegna flutninga.“

b)      Í 2. mgr. 23. gr. bætist eftirfarandi liður við:

    „h)    tilkynni nafn og heimilisfang tjónsuppgjörsfulltrúa sem tilnefndur er í hverju aðildarríki öðru en því þar sem sótt er um starfsleyfið, ef áhættan sem tryggt er gegn flokkast í 10. flokk í A-lið viðaukans, að undanskilinni ábyrgð vegna flutninga.“

9. gr.

Tilskipun 88/357/EBE er breytt sem hér segir:

Í 4. mgr. 12. gr. a bætist eftirfarandi undirgrein við:

    „Ef vátryggingafélag hefur ekki tilnefnt fulltrúa geta aðildarríkin samþykkt að tjónsuppgjörsfulltrúi, sem tilnefndur er í samræmi við 4. gr. tilskipunar 2000/26/EB(*) annist störf fulltrúans sem tilnefndur er samkvæmt þessari málsgrein.
    (*)    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/26/EB frá 16. maí 2000 um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um ábyrgðartryggingu vegna notkunar vélknúinna ökutækja og um breytingar á tilskipunum ráðsins 73/239/EBE og 88/357/EBE (Stjtíð. EB L 181, 20.7.2000, bls. 65).“

10. gr.

Framkvæmd

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja og birta fyrir 20. júlí 2002 nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.

Þau skulu beita þessum ákvæðum fyrir 20. janúar 2003.

2.     Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær verða birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

3.     Með fyrirvara um 1. mgr. skulu aðildarríkin koma á fót eða samþykkja tjónsuppgjörsstofnun í samræmi við 1. mgr. 6. gr. fyrir 20. janúar 2002. Ef tjónsuppgjörsstofnanir hafa ekki gert samning í samræmi við 3. mgr. 6. gr. fyrir 20. júlí 2002 skal framkvæmdastjórnin koma með tillögu um ráðstafanir til að tryggja að ákvæði 6. og 7. gr. komi til framkvæmda fyrir 20. janúar 2003.

4.     Aðildarríkin mega, í samræmi við sáttmálann, viðhalda eða samþykkja ákvæði sem eru hagstæðari fyrir tjónþola en ákvæðin sem nauðsynleg eru til að fara að tilskipun þessari.

5.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem samþykkt verða um málefni sem tilskipun þessi nær til.

11. gr.

Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

12. gr.

Viðurlög

Aðildarríkin skulu samþykkja viðurlög vegna brota á innlendum ákvæðum sem þau samþykkja til framkvæmdar þessari tilskipun og gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að þessum viðurlögum sé beitt. Viðurlögin skulu vera árangursrík, í réttu hlutfalli við brot og letjandi. Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni þessi ákvæði eigi síðar en 20. júlí 2002 og breytingar, sem kunna að verða gerðar á þeim, eins fljótt og unnt er.

13. gr.

Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.


Gjört í Brussel 16. maí 2000.

     Fyrir hönd Evrópuþingsins,     Fyrir hönd ráðsins,

    Nicole FONTAINE     Manuel CARRILHO

    forseti.     forseti.


..............


Neðanmálsgrein: 1
(1) Stjtíð. EB L 325, 21.12.2000, bls. 32 og EES-viðbætir við Stjtíð. EB nr. 60, 21.12.2000, bls. 420.
Neðanmálsgrein: 2
(2) Stjtíð. EB L 181, 20.7.2000, bls. 65.
Neðanmálsgrein: 3
(*) Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. EB C 343, 13.11.1997, bls. 11 og Stjtíð. EB C 171, 18.6.1999, bls. 4.
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Stjtíð. EB C 157, 25.5.1998, bls. 6.
Neðanmálsgrein: 6
(3)    Álit Evrópuþingsins frá 16. júlí 1998 (Stjtíð. EB C 292, 21.9.1998, bls. 123), staðfest 27. október 1999, sameiginleg afstaða ráðsins frá 21. maí 1999 (Stjtíð. EB C 232, 13.8.1999, bls. 8) og ákvörðun Evrópuþingsins frá 15. desember 1999 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB). Ákvörðun ráðsins frá 2. maí 2000 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB) og ákvörðun Evrópuþingsins frá 16. maí 2000.
Neðanmálsgrein: 7
(4)    Stjtíð. EB L 103, 2.5.1972, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 84/5/EBE (Stjtíð. EB L 8, 11.1.1984, bls. 17).
Neðanmálsgrein: 8
(5)    Stjtíð. EB L 172, 4.7.1988, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 92/49/EBE (Stjtíð. EB L 228, 11.8.1992, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 9
(6)    Stjtíð. EB C 308, 20.11.1995, bls. 108.
Neðanmálsgrein: 10
(1)    Önnur tilskipun ráðsins (84/5/EBE) frá 30. desember 1983 um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um ábyrgðartryggingu vegna notkunar á vélknúnum ökutækjum (Stjtíð. EB L 8, 11.1.1984, bls. 17). Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 90/232/EBE (Stjtíð. EB L 129, 19.5.1990, bls. 33).
Neðanmálsgrein: 11
(2)    Þriðja tilskipun ráðsins (90/232/EBE) frá 14. maí 1990 um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um ábyrgðartryggingu vegna notkunar á vélknúnum ökutækjum (Stjtíð. EB L 129, 19.5.1990, bls. 33).
Neðanmálsgrein: 12
(3)    Fyrsta tilskipun ráðsins (73/239/EBE) frá 24. júlí 1973 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum til að hefja og reka starfsemi á sviði frumtrygginga annarra en líftrygginga (Stjtíð. EB L 228, 16.8.1973, bls. 3). Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 95/26/EB (Stjtíð. EB L 168, 18.7.1995, bls. 7).
Neðanmálsgrein: 13
(4)    Tilskipun ráðsins (92/49/EBE) frá 18. júní 1992 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum varðandi frumtryggingar, aðrar en líftryggingar, og um breytingu á tilskipunum 73/239/EBE og 88/357/EBE (þriðja tilskipun um skaðatryggingar) (Stjtíð. EB L 228, 11.8.1992, bls. 1). Tilskipuninni var breytt með tilskipun 95/26/EB (Stjtíð. EB L 168, 18.7.1995, bls. 7).
Neðanmálsgrein: 14
(1)    Stjtíð. EB, L 281, 23.11.1995, bls. 31.
Neðanmálsgrein: 15
(1)    Stjtíð. EB C 27, 26.1.1998, bls. 1 (samsteypt skjal).