Ferill 640. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1017  —  640. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 44/2001, um breytingar á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 44/2001 frá 30. mars 2001, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/28/EB frá 18. september 2000, um breytingu á tilskipun 2000/12/EB um stofnun og rekstur lánastofnana.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 44/2001 frá 30. mars 2001, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/28/EB frá 18. september 2000, um breytingu á tilskipun 2000/12/EB um stofnun og rekstur lánastofnana.
    Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES- nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirrar tilskipunar sem hér um ræðir. Gerð þessi felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir eru prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum eða bókunum við EES-samninginn eru þjóðréttarsamningar. Samkvæmt samningnum er ekki gert ráð fyrir því að í ákvörðunum sé kveðið á um að gildistaka þeirra gagnvart aðildarríkjunum sé háð staðfestingu þeirra heima fyrir. Þær verða með öðrum orðum skuldbindandi fyrir aðildarríkin um leið og þær hafa verið teknar nema eitthvert aðildarríkjanna beiti heimild í 103. gr. EES- samningsins til að gera fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Hafa ríkin sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Með þessu er vísað til nauðsynlegs atbeina þjóðþinga aðildarríkjanna og af hálfu Íslands hefur fyrirvara þessum því einungis verið beitt þegar ljóst er að ákvörðun kallar á lagabreytingar. Almennt hefur ekki verið leitað sérstaks samþykkis Alþingis áður en stjórnskipulegum fyrirvara er aflétt heldur látið við það sitja að Alþingi hafi samþykkt nauðsynlegar lagabreytingar vegna innleiðingar ákvarðana. Þetta felur í sér nokkurt frávik frá almennri meðferð vegna staðfestingar þjóðréttarsamninga þar sem atbeina Alþingis er krafist en á sér skýringar í sérstöðu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar meðal þjóðréttarsamninga. Hins vegar hafa nokkrir ókostir fylgt þessu fyrirkomulagi. Má þar helst nefna annars vegar að nokkuð mismunandi er með hvaða hætti það hefur komið fram í lagafrumvörpum hvernig þau tengjast tilteknum ákvörðunum sameiginlegu EES- nefndarinnar og hins vegar að með þessari aðferð hefur skort á að Alþingi hafi verið gefinn kostur á að taka beina afstöðu til staðfestingar einstakra ákvarðana nefndarinnar. Í vissum tilvikum hafa ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar kveðið á um að bætt sé við EES- samninginn tiltekinni EB-gerð sem ekki öðlast gildi innan Evrópusambandsins fyrr en einhverjum missirum eða jafnvel árum seinna. Samkvæmt EES-samningnum er Ísland skuldbundið til að taka endanlega afstöðu til þess hvort slík gerð verði hluti samningsins innan sex mánaða frá töku ákvörðunarinnar í sameiginlegu EES-nefndinni en hefur sama svigrúm og önnur aðildarríki samningsins til að innleiða viðkomandi gerð í landsrétt. Fram að þessu hefði eina leiðin verið sú að setja lög til innleiðingar þessara gerða innan sex mánaða frestsins en þau lög hefðu þá að sjálfsögðu ekki þurft að taka gildi fyrr en á ætluðum gildistökudegi gerðarinnar. Þetta er mjög óheppileg leið þar sem við undirbúning slíkrar lagasetningar er oft og tíðum horft til fordæma erlendis frá en þar er að jafnaði ekki hugað að slíkri lagasetningu fyrr en nær dregur gildistöku viðkomandi gerðar. Að þessari leið slepptri er eina leiðin til að virða samningsskuldbindingar Íslands að leita sérstaks samþykkis Alþingis í formi þingsályktunar.
    Að öllu þessu virtu hefur almenn meðferð þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem Ísland hefur gert stjórnskipulegan fyrirvara verið færð til samræmis við meðferð þjóðréttarsamninga. Í því felst að almennt er leitað sérstaklega eftir samþykki Alþingis til staðfestingar sérhverri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem stjórnskipulegur fyrirvari hefur verið gerður við. Slíks samþykkis er leitað í formi þingsályktunar en viðeigandi ráðuneyti munu samhliða undirbúa nauðsynleg frumvörp til lagabreytinga. Jafnframt hefur þeirri föstu vinnureglu verið komið á, með vísan til 24. gr. laga um þingsköp Alþingis, að haft verði samráð við utanríkismálanefnd um efni þessara ákvarðana meðan þær eru á undirbúningsstigi.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/28/EB frá 18. september 2000, um breytingu á tilskipun 2000/12/EB um stofnun og rekstur lánastofnana.
    Tilskipunin fjallar um rafeyrisfyrirtæki og mælir fyrir um að slík fyrirtæki skuli skilgreind sem lánastofnanir. Þetta gerir það að verkum að rafeyrisfyrirtæki getur stundað starfsemi hvar sem er innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Að öðru leyti er nauðsynlegt að horfa á tilskipunina með hliðsjón af tilskipun um rafeyrisfyrirtæki, nr. 2000/46/EB.
    Unnið er að undirbúningi nauðsynlegra lagabreytinga vegna þessa í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu en sérstök nefnd sem vinnur að gerð frumvarps um fjármálafyrirtæki mun gera tillögur um hvernig tilskipunin verður tekin upp í íslenskan rétt. Samkvæmt tilskipuninni er gert ráð fyrir að efni hennar komi til framkvæmda á Evrópska efnahagssvæðinu eigi síðar en 27. apríl 2002.



Fylgiskjal I.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 44/2001

frá 30. mars 2001

um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eins og hann var aðlagaður með bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir samningurinn, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

     1)      IX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 15/2001 frá 28. febrúar 2000( 1 ).

     2)      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/28/EB frá 18. september 2000 um breytingu á tilskipun 2000/12/EB um stofnun og rekstur lánastofnana( 2 ) skal felld inn í samninginn.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.

Eftirfarandi undirliður bætist við á undan aðlögunartextanum í 14. lið (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/12/EB) í IX. viðauka við samninginn:

„-          32000 L 0028: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/28/EB frá 18. september 2000 um breytingu á tilskipun 2000/12/EB um stofnun og rekstur lánastofnana (Stjtíð. EB L 275, 27.10.2000, bls. 37).“

2. gr.

Texti tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2000/28/EB á íslensku og norsku, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna, telst fullgiltur.

3. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 31. mars 2001, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi verið sendar sameiginlegu EES-nefndinni( * ).

4. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild og EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna.

Gjört í Brussel 30. mars 2001.

                                        Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
                                       Formaður

                                       P. Westerlund


                                       Ritarar
                                       sameiginlegu EES-nefndarinnar

                                       P. K. Mannes     M. Brinkmann

Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2000/28/EB

frá 18. september 2000

um breytingu á tilskipun 2000/12/EB um stofnun og rekstur lánastofnana


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,

með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum fyrsta og þriðja málsl. 2. mgr. 47. gr.,

með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),

með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( 2 ),

með hliðsjón af áliti Seðlabanka Evrópu ( 3 ),

í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 4 ),

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

     1)      Í samræmi við markmið sáttmálans ber að vinna að samræmdri þróun í starfsemi lánastofnana í bandalaginu, einkum að því er varðar útgáfu rafeyris.

     2)      Tilteknar stofnanir takmarka starfsemi sína í meginatriðum við útgáfu rafeyris. Til að komast hjá röskun á samkeppni milli þeirra sem gefa út rafeyri, jafnvel í tengslum við beitingu ráðstafana er varða peningastefnu, er æskilegt að þessar stofnanir séu felldar undir gildissvið tilskipunar 2000/12/EB ( 5 ), samanber þó viðeigandi sérákvæði þar sem tekið er tillit til sérkenna þeirra.

     3)      Það er því ráðlegt að rýmka skilgreininguna á lánastofnunum, sem kveðið er á um í 1. gr. tilskipunar 2000/12/EB, þannig að hún nái til þessara stofnana.

     4)      Í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/46/ EB frá 18. september um stofnun og rekstur rafeyrisstofnana og eftirlit með þeim ( 6 ) eru rafeyrisstofnanir skilgreindar.

     5)      Rafeyrir skal vera innleysanlegur til að handhafar hans hafi trú á honum.

SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.

Tilskipun 2000/12/EB er breytt sem hér segir:

1.    Í stað fyrsta undirliðar 1. liðar 1. gr. komi eftirfarandi texti:

    „1.     „Lánastofnun“:

         a)        fyrirtæki með starfsemi sem felst í að taka á móti innlánum eða öðru fé frá almenningi til endurgreiðslu og veita lán fyrir eigin reikning; eða

         b)        rafeyrisstofnun í skilningi tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2000/46/EB frá 18. september um stofnun og rekstur rafeyrisstofnana og eftirlit með þeim ( * ),
( * )     Stjtíð. EB L 275, 27.10.2000, bls. 39.“

2.     Eftirfarandi grein bætist við V. bálk:

     „33. gr. a

    Ákvæði 3. gr. tilskipunar 2000/46/EB skulu gilda um lánastofnanir.“

2. gr.

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 27. apríl 2002. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.

Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þau verða birt opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

3. gr.

Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

4. gr.

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Brussel 18. september 2000.

     Fyrir hönd Evrópuþingsins,     Fyrir hönd ráðsins,

    N. FONTAINE     H.VÉDRINE

     forseti.     forseti.
Neðanmálsgrein: 1
(1) Hefur enn ekki verið birt.
Neðanmálsgrein: 2
(2) Stjtíð. EB L 275, 27.10.2000, bls. 37.
Neðanmálsgrein: 3
(*) Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. EB C 317, 15.10.1998, bls. 12.
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Stjtíð. EB C 101, 12.4.1999, bls. 64.
Neðanmálsgrein: 6
(3)    Stjtíð. EB C 189, 6.7.1999, bls. 7.
Neðanmálsgrein: 7
(4)    Álit Evrópuþingsins frá 15. apríl 1999 (Stjtíð. EB C 219, 30.7.1999, bls. 421), staðfest 27. október 1999, sameiginleg afstaða ráðsins frá 29. nóvember 1999 (Stjtíð. EB C 26, 28.1.2000, bls. 12) og ákvörðun Evrópuþingsins frá 11. apríl 2000 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB).
Neðanmálsgrein: 8
(5)    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/12/EB frá 20. mars 2000 um stofnun og rekstur lánastofnana (Stjtíð. EB L 126, 26.5.2000, bls.1).
Neðanmálsgrein: 9
(6)    Stjtíð. EB L 275, 27.10.2000, bls. 39.