Ferill 642. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1019  —  642. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 47/2001, um breytingu á XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 47/2001 frá 30. mars 2001, um breytingu á XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2887/2000 frá 18. desember 2000, um opinn aðgang að heimtaugum.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 47/2001 frá 30. mars 2001, um breytingu á XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og að fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2887/2000 frá 18. desember 2000, um opinn aðgang að heimtaugum.
    Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES- nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirrar gerðar sem hér um ræðir. Gerð þessi felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir eru prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum eða bókunum við EES-samninginn eru þjóðréttarsamningar. Samkvæmt samningnum er ekki gert ráð fyrir því að í ákvörðunum sé kveðið á um að gildistaka þeirra gagnvart aðildarríkjunum sé háð staðfestingu þeirra heima fyrir. Þær verða með öðrum orðum skuldbindandi fyrir aðildarríkin um leið og þær hafa verið teknar nema eitthvert aðildarríkjanna beiti heimild í 103. gr. EES- samningsins til að gera fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Hafa ríkin sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Með þessu er vísað til nauðsynlegs atbeina þjóðþinga aðildarríkjanna og af hálfu Íslands hefur fyrirvara þessum því einungis verið beitt þegar ljóst er að ákvörðun kallar á lagabreytingar. Almennt hefur ekki verið leitað sérstaks samþykkis Alþingis áður en stjórnskipulegum fyrirvara er aflétt heldur látið við það sitja að Alþingi hafi samþykkt nauðsynlegar lagabreytingar vegna innleiðingar ákvarðana. Þetta felur í sér nokkurt frávik frá almennri meðferð vegna staðfestingar þjóðréttarsamninga þar sem atbeina Alþingis er krafist en á sér skýringar í sérstöðu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar meðal þjóðréttarsamninga. Hins vegar hafa nokkrir ókostir fylgt þessu fyrirkomulagi. Má þar helst nefna annars vegar að nokkuð mismunandi er með hvaða hætti það hefur komið fram í lagafrumvörpum hvernig þau tengjast tilteknum ákvörðunum sameiginlegu EES- nefndarinnar og hins vegar að með þessari aðferð hefur skort á að Alþingi hafi verið gefinn kostur á að taka beina afstöðu til staðfestingar einstakra ákvarðana nefndarinnar. Í vissum tilvikum hafa ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar kveðið á um að bætt sé við EES- samninginn tiltekinni EB-gerð sem ekki öðlast gildi innan Evrópusambandsins fyrr en einhverjum missirum eða jafnvel árum seinna. Samkvæmt EES-samningnum er Ísland skuldbundið til að taka endanlega afstöðu til þess hvort slík gerð verði hluti samningsins innan sex mánaða frá töku ákvörðunarinnar í sameiginlegu EES-nefndinni en hefur sama svigrúm og önnur aðildarríki samningsins til að innleiða viðkomandi gerð í landsrétt. Fram að þessu hefði eina leiðin verið sú að setja lög til innleiðingar þessara gerða innan sex mánaða frestsins en þau lög hefðu þá að sjálfsögðu ekki þurft að taka gildi fyrr en á ætluðum gildistökudegi gerðarinnar. Þetta er mjög óheppileg leið þar sem við undirbúning slíkrar lagasetningar er oft og tíðum horft til fordæma erlendis frá en þar er að jafnaði ekki hugað að slíkri lagasetningu fyrr en nær dregur gildistöku viðkomandi gerðar. Að þessari leið slepptri er eina leiðin til að virða samningsskuldbindingar Íslands að leita sérstaks samþykkis Alþingis í formi þingsályktunar.
    Að öllu þessu virtu hefur almenn meðferð þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem Ísland hefur gert stjórnskipulegan fyrirvara verið færð til samræmis við meðferð þjóðréttarsamninga. Í því felst að almennt er leitað sérstaklega eftir samþykki Alþingis til staðfestingar sérhverri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem stjórnskipulegur fyrirvari hefur verið gerður við. Slíks samþykkis er leitað í formi þingsályktunar en viðeigandi ráðuneyti munu samhliða undirbúa nauðsynleg frumvörp til lagabreytinga. Jafnframt hefur þeirri föstu vinnureglu verið komið á, með vísan til 24. gr. laga um þingsköp Alþingis, að haft verði samráð við utanríkismálanefnd um efni þessara ákvarðana meðan þær eru á undirbúningsstigi.

3. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2887/2000 frá 18. desember 2000, um opinn aðgang að heimtaugum.
    Reglugerðin hefur það markmið að efla framboð og samkeppni fyrir alla fjarskiptaþjónustu, þar á meðal breiðbandsmargmiðlun og háhraða Internet.
    Í fyrsta lagi kemur fram að markmið reglugerðarinnar er að efla samkeppni enn frekar og örva tækniframfarir í heimtaugarnetum með því að setja samræmd skilyrði fyrir aðgangi að heimtaug og viðeigandi aðstöðu rekstrarleyfishafa með umtalsverða markaðshlutdeild.
    Í öðru lagi kemur fram að fjarskiptafyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild eiga að birta viðmiðunartilboð fyrir 31. desember 2000 þar sem fram komi hvers kyns aðgang þau veiti með hliðsjón af viðauka reglugerðarinnar.
    Í þriðja lagi er fjarskiptastofnunum heimilað að grípa inn í samningagerð fjarskiptafyrirtækja að eigin frumkvæði að vissum skilyrðum uppfylltum
    Í fjórða lagi kemur fram að þegar nægileg samkeppni hafi náðst á heimtaugarmarkaði skuli fjarskiptastofnun létta framangreindri kvöð um aðgang að heimtaug á kostnaðargrundvelli af fjarskiptafyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild.
    Í viðauka er skilgreint hvaða lágmarksatriði verða að vera í viðmiðunartilboði fjarskiptafyrirtækis með umtalsverða markaðshlutdeild. Að öðru leyti fer um málsmeðferð og skilmála samtengingar samkvæmt tilskipunum um fjarskipti, einkum samtengingartilskipunarinnar 97/33/EB.


Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 47/2001

frá 30. mars 2001

um breytingu á XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eins og hann var aðlagaður með bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir samningurinn, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

     1)      XI. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 17/2001 frá 28. febrúar 2001( 1 ).

     2)      Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2887/2000 frá 18. desember 2000 um opinn aðgang að heimtaugum( 2 ) skal felld inn í samninginn.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.

Eftirfarandi liður komi aftan við lið 5cd (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 128/1999/EB) í XI. viðauka við samninginn:

„5ce.     32000 R 2887: Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2887/2000 frá 18. desember 2000 um opinn aðgang að heimtaugum (Stjtíð. EB L 336, 30.12.2000, bls. 4).“

2. gr.

Texti reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2887/2000 á íslensku og norsku, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna, telst fullgiltur.

3. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 31. mars 2001, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi verið sendar sameiginlegu EES-nefndinni( * ).

4. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild og EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna.

Gjört í Brussel 30. mars 2001.

                                        Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
                                       Formaður

                                       P. Westerlund


                                       Ritarar
                                       sameiginlegu EES-nefndarinnar

                                       P. K. Mannes     M. Brinkmann




Fylgiskjal II.



Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2887/2000

frá 18. desember 2000

um opinn aðgang að heimtaugum (Texti sem varðar EES)


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,

með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 95. gr.,

með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,

með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar( 1 ),

í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 2 ),

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

     1)      Í niðurstöðum fundar leiðtogaráðsins í Lissabon frá 23. og 24. mars 2000 kemur fram að fyrirtæki og borgarar þurfi að hafa aðgang að ódýrum samskiptakerfum á heimsmælikvarða og umfangsmikilli þjónustu svo að vaxtar- og starfsmöguleikar í stafrænu hagkerfi, sem grundvallast á þekkingu, verði nýttir að fullu í Evrópu. Leitað er til aðildarríkjanna og framkvæmdastjórnarinnar til að vinna að því að koma á aukinni samkeppni í staðaraðgangsnetum fyrir lok ársins 2000 og opna aðgang að heimtaugum í þeim tilgangi að ná fram verulegri lækkun kostnaðar við notkun á Netinu. Fundur leiðtogaráðsins í Feira 20. júní 2000 ljáði tillögunni um aðgerðaráætlunina „e-Evrópa“ fylgi, en í henni er gert grein fyrir að opinn aðgangur að heimtaugum hafi bráðabirgðaforgang.

     2)      Opinn aðgangur að heimtaugum ætti að koma til fyllingar ákvæðum sem fyrir eru í lögum bandalagsins og tryggja altæka þjónustu og viðráðanlegt gjald fyrir aðgang fyrir alla borgara með því að auka samkeppni, tryggja arðsemi og sé til sem mestra hagsbóta fyrir notendur.

     3)      „Heimtaug“ er símalína sem gerð er úr tveimur samtvinnuðum vírum í fasta almenna símnetkerfinu sem tengir nettengipunktinn hjá símnotandanum við aðaltengigrind eða sambærilegan búnað. Eins og fram kemur í fimmtu skýrslu framkvæmdastjórnarinnar um framkvæmd lagabálksins um fjarskipti er staðaraðgangsnetið sá geiri sem gefinn hefur verið frjáls á fjarskiptamarkaðinum sem er síst samkeppnishæfur. Nýir aðilar hafa ekki annað umfangsmikið netgrunnvirki og geta ekki, með venjulegri tækni náð þeirri stærðarhagkvæmni eða útbreiðslu sem fyrirtæki með sterka markaðsstöðu í föstum almennum símanetum hafa. Ástæðan er sú að þessi fyrirtæki komu upp málmgrunnvirkjum fyrir staðaraðgang á töluvert löngum tíma þar sem þau nutu verndar einkaréttar og var kleift að fjármagna kostnaðinn við fjárfestinguna með einokunarleigutekjum.

     4)      Í ályktun Evrópuþingsins frá 13. júní 2000 um orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar í endurskoðaðri orðsendingu frá 1999 er lögð áhersla á mikilvægi þess að í þessum geira fái að þróast grunnvirki sem stuðlar að auknum rafrænum fjarskiptum og rafrænni verslun ásamt mikilvægi þess að þeim sé stjórnað með vöxt þeirra í huga. Þar er bent á að aðgangur að heimtaugum varðar nú aðallega málmgrunnvirki yfirburðafyrirtækis og ef fjárfest er í öðrum grunnvirkjum verður það að tryggja sanngjarnan hagnaðarhlut þar sem það gæti greitt fyrir útbreiðslu á þessum grunnvirkjum á svæðum þar sem þau eru lítið útbreidd.

     5)      Veiting aðgangs að nýjum heimtaugum með mikla ljósleiðaragetu beint til stærstu viðskiptavina er sérstakur markaður sem er að þróast við samkeppnisskilyrði með nýjum fjárfestingum. Þessi reglugerð gildir þess vegna um aðgang að málmheimtaugum án þess að hafa áhrif á innlendar skuldbindingar hvað varðar aðrar gerðir staðaraðgangs að grunnvirkjum.

     6)      Það væri ekki fjárhagslega hagkvæmt fyrir nýja aðila að koma upp öðru heilu, nákvæmlega eins málmgrunnvirki fyrir staðaraðgang innan hæfilegra tímamarka. Önnur grunnvirki, svo sem kapalsjónvarp, gervihnöttur, þráðlausar heimtaugar hafa almennt ekki sama nýtanleika eða sömu heildarútbreiðslu fyrst um sinn, þótt aðstæður í aðildarríkjum kunni að vera mismunandi.

     7)      Opinn aðgangur að heimtaugum gerir nýjum aðilum kleift að keppa við tilkynnta rekstraraðila og bjóða gagnaflutningsþjónustu á miklum bitahraða með samfelldum Netaðgangi og fyrir margmiðlunarnotkun sem byggist á stafrænni áskriftarlínutækni (DSL) ásamt talsímaþjónustu. Réttmæt beiðni um opinn aðgang gefur til kynna að aðgangurinn sé nauðsynlegur til að hægt sé að veita rétthafa þjónustu, og að höfnun beiðninnar hindraði, takmarkaði eða raskaði samkeppni í þessum geira.

     8)      Í þessari reglugerð er eingöngu tilkynntum rekstraraðilum sem viðkomandi innlend eftirlitsyfirvöld hafa, í samræmi við viðeigandi ákvæði bandalagsins, tilkynnt að hafa sterka markaðsstöðu (hér á eftir nefndir „tilkynntir rekstraraðilar“), veittur opinn aðgangur að málmheimtaugum. Aðildarríkin hafa þegar tilkynnt framkvæmdastjórninni um heiti þeirra rekstraraðila fastra almennra símanetkerfa sem eru með sterka markaðsstöðu í 1. hluta I. viðauka tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 97/33/EB frá 30. júní 1997 um samtengingu í fjarskiptum með tilliti til altækrar þjónustu og rekstrarsamhæfi með því að beita meginreglum um frjálsan aðgang að netum (ONP) ( 1 ), og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/10/EB frá 26. febrúar 1998 um frjálsan aðgang að netum (ONP) fyrir talsímaþjónustu og altæka fjarskiptaþjónustu í samkeppnisumhverfi ( 2 ).

     9)      Ekki er hægt að krefjast þess að tilkynntur rekstraraðili veiti aðgang sem hann hefur ekki vald til að veita, til dæmis þegar framkvæmd beiðninnar yrði til þess að brotið væri á lagalegum rétti sjálfstæðs þriðja aðila. Sú skuldbinding að veita opinn aðgang að heimtaug felur ekki í sér að tilkynntir rekstraraðilar verði að setja sérstaklega upp algjörlega nýtt grunnvirki fyrir staðarnet til að uppfylla kröfur þess sem nýtur góðs af því.

     10)      Jafnvel þótt viðskiptaviðræður sé æskileg aðferð til að ná samkomulagi um tæknileg atriði og verðlagningu varðandi aðgang að heimtaugum sýnir reynslan að í flestum tilvikum eru regluleg afskipti nauðsynleg í ljósi ójafnrar samningsstöðu nýju aðilanna og tilkynntu rekstaraðilanna, auk þess að ekki eru aðrir kostir í boði. Við vissar aðstæður geta innlend eftirlitsyfirvöld, samkvæmt lögum bandalagsins, gripið inn í að eigin frumkvæði til að tryggja sanngjarna samkeppni, arðsemi og að sé til sem mestra hagsbóta fyrir notendur. Ef tilkynnti rekstraraðilinn virðir ekki afgreiðslufrestinn ætti notandinn að eiga rétt á bótum.

     11)      Reglur um kostnað og verðlagningu á heimtaugum og skyldum búnaði ættu að vera gagnsæjar, án mismununar og hlutlægar til að tryggja að sanngirni sé viðhöfð. Reglur um verðlagningu ættu að tryggja að sá sem veitir aðgang að heimtaugum geti greitt viðeigandi kostnað hvað þetta varðar og fengið sanngjarnan hagnaðarhlut að auki til að tryggja langtímaþróun og endurnýjun á staðaraðgangsgrunnvirki. Reglur um verðlagningu á heimtaugum ættu að stuðla að sanngjarnri og lífvænlegri samkeppni, með tilliti til þess hver þörfin á fjárfestingu í öðrum grunnvirkjum er og tryggja að engin röskun verði á samkeppni, einkum engin bjögun á réttum hlutföllum milli heildsöluverðs og verðs á smásöluþjónustu tilkynnts rekstraraðila vegna óeðlilega lágrar álagningar. Þess vegna er talið mikilvægt að hafa samráð við samkeppnisyfirvöld.

     12)      Tilkynntir rekstraraðilar ættu að veita þriðja aðila upplýsingar og opinn aðgang með sömu skilyrðum og af sömu gæðum og væri um eigin þjónustu að ræða eða þjónustu við systurfyrirtæki. Í þessu augnamiði mundi birting tilkynnts rekstraraðila á fullnægjandi viðmiðunarútboði á opnum aðgangi að heimtaug, innan skammra tímamarka og helst á Netinu, og undir stjórn innlenda eftirlitsyfirvaldsins, stuðla að því að gagnsæ markaðsskilyrði án mismununar sköpuðust.

     13)      Í tilmælum framkvæmdastjórnarinnar 2000/417/ EB frá 25. maí 2000 um opinn aðgang að heimtaugum, sem auðveldar samkeppni á öllum sviðum þjónustu vegna rafrænna fjarskipta, þar með talið margmiðlunar á breiðbandi og háhraðaneti ( 1 ), og í orðsendingu sinni frá 26. apríl 2000 ( 2 ) lagði framkvæmdastjórnin fram nákvæmar leiðbeiningar innlendum eftirlitsyfirvöldum til aðstoðar við sanngjarna stjórnun á mismunandi tegundum af opnum aðgangi að heimtaugum.

     14)      Í samræmi við dreifræðisregluna eins og hún er sett fram í 5. gr. sáttmálans geta aðildarríkin ekki náð því markmiði að fá samræmdan ramma yfir opinn aðgang að heimtauginni til að skapa samkeppnisgrundvöll á ódýrum, fjarskiptagrunnvirkjum á heimsmælikvarða og umfangsmikilli þjónustu fyrir öll fyrirtæki og borgara í bandalaginu á öruggan, samræmdan og fljótlegan hátt og verður því betur náð fram á vettvangi bandalagsins. Í samræmi við hlutfallsregluna eins og hún er sett fram í þessari grein ganga ákvæði reglugerðarinnar ekki lengra en nauðsynlegt er í þessu augnamiði. Þau eru samþykkt án þess að hafa áhrif á innlend ákvæði og eru í samræmi við lög bandalagsins þar sem settar eru fram ítarlegri ráðstafanir, til dæmis um sýndarstaðsetningu.


     15)      Þessi reglugerð er til fyllingar lagaramma fyrir fjarskipti, einkum tilskipanir 97/33/EB og 98/10/EB. Í nýja lagarammanum fyrir rafræn fjarskipti ættu að felast viðeigandi ákvæði sem koma í stað þessarar reglugerðar.

SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:

1. gr.

Markmið og gildissvið

1.     Markmiðið með þessari reglugerð er að auka samkeppni og hvetja til tækninýsköpunar á markaðinum fyrir staðaraðgang með því að setja samræmd skilyrði fyrir opinn aðgang að heimtaugum til að stuðla að samkeppni á víðtæku sviði þjónustu er varðar rafræn fjarskipti.

2.     Þessi reglugerð skal gilda um opinn aðgang að heimtaugum og skyldum búnaði tilkynntra rekstraraðila eins og skilgreint er í a-lið 2. gr.

3.     Þessi reglugerð skal gilda með fyrirvara um þær skuldbindingar að tilkynntir rekstraraðilar fylgi jafnræðisreglunni þegar þeir nota fasta almenna símanetið í þeim tilgangi að veita þriðju aðilum háhraðaaðgang og gagnaflutningaþjónustu á sama hátt og um eigin þjónustu væri að ræða eða þjónustu sem þeir veita systurfyrirtækjum sínum í samræmi við ákvæði bandalagsins.

4.     Þessi reglugerð hefur ekki áhrif á rétt aðildarríkja til að viðhalda ráðstöfunum eða taka þær upp í samræmi við lög bandalagsins, en í þeim felast ítarlegri ákvæði en þau sem sett eru í þessari reglugerð og/eða falla ekki undir þessa reglugerð, meðal annars með tilliti til annars konar aðgangs að staðargrunnvirkjum.

2. gr.

Skilgreiningar

Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

     a)      „tilkynntur rekstraraðili“ er rekstraraðili fastra almennra símaneta sem hefur verið tilnefndur af innlendu eftirlitsyfirvaldi með sterka markaðsstöðu hvað varðar framboð á föstum almennum símanetum og þjónustu eins og tilgreint er í 1. hluta I. viðauka tilskipunar 97/33/EB eða tilskipunar 98/10/EB;

     b)      „rétthafi“ er þriðji aðili sem er viðurkenndur í samræmi við tilskipun 97/13/EB ( 3 ) eða hefur rétt til að veita fjarskiptaþjónustu samkvæmt innlendum lögum og uppfyllir skilyrði fyrir opinn aðgang að heimtaugum;

     c)      „heimtaug“ er símalína sem gerð er úr tveimur samtvinnuðum vírum og tengir saman nettengipunkt hjá símnotanda við aðaltengigrind eða sambærilegan búnað í fasta almenna símanetkerfinu;

     d)      „heimtaugargrein“ er hluti af heimtaug sem tengir nettengipunktinn hjá símnotanda við tengigrind eða sérstaka millitengingu í fasta almenna símanetkerfinu;

     e)      „opinn aðgangur að heimtaug“ er bæði fullur aðgangur að heimtauginni og samnýttur aðgangur að henni; í því felst ekki breytt eignarhald á heimtauginni;

     f)      „ótakmarkaður opinn aðgangur að heimtaug“ er þegar veittur er aðgangur að heimtaug eða heimtaugargrein tilkynnts rekstraraðila með notkunarheimild á heildartíðnisviði samtvinnuðu víranna;

     g)      „samnýttur aðgangur að heimtaug“ er þegar veittur er aðgangur að heimtaug eða heimtaugargrein tilkynnts rekstraraðila með notkunarheimild fyrir samtvinnaða víra á tíðnisviði sem ekki er fyrir raddflutning; tilkynnti rekstraraðilinn notar áfram heimtaugina til að geta veitt almenningi símaþjónustu;

     h)      „sameiginleg staðsetning“ er veiting aðgangs að svæði og tækniþjónustu sem nauðsynleg er til að koma viðeigandi búnaði rétthafa fyrir með góðu móti og tengja hann, eins og fram kemur í B-lið viðaukans;

     i)      „skyldur búnaður“ er búnaður sem tengist því að veita opinn aðgang að heimtaug, einkum sameiginlega staðsetningu, kapaltengingar og viðeigandi upplýsingatæknikerfi, og er nauðsynlegt fyrir þann sem nýtur aðgangsins að veitt sé þjónusta á sanngjörnum samkeppnisgrundvelli.

3. gr.

Opinn aðgangur

1.     Tilkynntir rekstaraðilar skulu birta, og uppfæra, viðmiðunarútboð á opnum aðgangi að heimtaugum sínum og skyldum búnaði frá 31. desember 2000 og skulu felast í því að minnsta kosti þau atriði sem skráð eru í viðaukann. Útboðið skal vera nægilega opið svo að rétthafi þurfi ekki að greiða fyrir netþætti eða búnað sem ekki er þörf á þegar þeir fá þjónustu, í því skal einnig vera lýsing á efnisþáttum útboðsins, tengdum skilmálum og skilyrðum, þar með talið gjald.

2.     Tilkynntir rekstraraðilar skulu frá 31. desember 2000 verða við réttmætum beiðnum frá þeim sem njóta opins aðgangs að heimtaugum þeirra og skyldum búnaði, um gagnsæ og sanngjörn skilyrði og án mismununar. Beiðnum skal aðeins hafnað ef höfnunin byggist á hlutlægum viðmiðunum eða þeirri nauðsyn að viðhalda heildstæði netsins eða af tæknilegum ástæðum. Ef aðgangi er hafnað getur sá aðili sem hafnað er lagt málið til meðferðar til lausnar deilumála sem vísað er til í 5. mgr. 4. gr. Tilkynntir rekstraraðilar skulu veita rétthöfum sambærilega þjónustu og væri um eigin þjónustu að ræða eða þjónustu sem þeir veita systurfyrirtækjum sínum, með sömu skilyrðum og innan sömu tímamarka.

3.     Með fyrrivara um 4. mgr. 4. gr. skulu tilkynntir rekstraraðilar setja upp verð fyrir opinn aðgang að heimtaugum og skyldum búnaði á grundvelli kostnaðartengingar.

4. gr.

Eftirlit innlenda eftirlitsyfirvaldsins

1.     Innlenda eftirlitsyfirvaldið skal sjá til þess að gjaldskráin fyrir opinn aðgang að heimtaugum stuðli að sanngjarnri og lífvænlegri samkeppni.

2.     Innlenda eftirlitsyfirvaldið skal hafa heimild til:

     a)      að gera breytingar á viðmiðunarútboði fyrir opinn aðgang að heimtaugum og skyldum búnaði, einnig verðbreytingar þar sem ástæða er til; og

     b)      að krefjast þess að tilkynntir rekstraraðilar láti í té upplýsingar er varða framkvæmd þessarar reglugerðar.

3.     Innlenda eftirlitsyfirvaldið getur, þegar ástæða er til, gripið inn í að eigin frumkvæði í þeim tilgangi að tryggja jafnræði, sanngjarna samkeppni, arðsemi og sé til sem mestra hagsbóta fyrir notendur.

4.     Þegar innlenda eftirlitsyfirvaldið ákvarðar að staðaraðgangsmarkaðurinn sé nægilega samkeppnishæfur skal það losa tilkynntu rekstraraðilana undan skuldbindingunni sem mælt er fyrir um í 3. mgr. 3. gr. um verðlagningu sem grundvallast á kostnaðartengingu.

5.     Deilumál milli fyrirtækja um málefni sem þessi reglugerð tekur til skulu falla undir innlenda málsmeðferð við lausn deilumála sem ákveðin er í samræmi við tilskipun 97/33/EB og skulu þau tekin til meðferðar á skjótan, sanngjarnan og gagnsæjan hátt.

5. gr.

Gildistaka

Reglugerð þessi öðlast gildi á þriðja degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.

Gjört í Brussel 18. desember 2000.

     Fyrir hönd Evrópuþingsins,     Fyrir hönd ráðsins,

    N. Fontaine     D. Voynet

     forseti.     forseti.

VIÐAUKI

SKRÁ UM ÞAU ATRIÐI SEM AÐ LÁGMARKI SKULU VERA Í VIÐMIÐUNARÚTBOÐI FYRIR OPINN AÐGANG AÐ HEIMTAUGUM SEM TILKYNNTIR REKSTRARAÐILAR SKULU BIRTA


A.     Skilyrði fyrir opnum aðgangi að heimtaugum

    1.     Hlutar netsins sem aðgangur er boðinn að og ná einkum til eftirfarandi þátta:

              a)     aðgangur að heimtaugum,

              b)    aðgangur að heimtaugum með tíðnisvið sem ekki er fyrir raddflutning, ef um samnýttan aðgang að heimtaugum er að ræða.

    2.    Upplýsingar um staðsetningu aðgangs ( 1 ), hvar heimtaugar eru fáanlegar í tilteknum hlutum aðgangsnetsins.

    3.    Tæknileg skilyrði tengd aðgangi og notkun heimtaugar, þar með taldir tæknilegir eiginleikar samtvinnuðu víranna í heimtaugunum.

    4.     Framkvæmd á pöntunum og veitingum, notkunartakmarkanir.

B.     Þjónusta vegna sameiginlegrar staðsetningar

    1.     Upplýsingar um viðkomandi staði tilkynntra rekstraraðila ( 1).

    2.    Valkostir um sameiginlega staðsetningu á stöðum sem tilgreindir eru í 1. lið (þar með talin náttúrleg staðsetning og, þar sem við á, fjarstaðsetning og sýndarstaðsetning).

    3.     Eiginleikar búnaðar: takmarkanir, ef einhverjar eru, á búnaði sem hægt er að raða niður.

    4.     Öryggisatriði: tilkynntir rekstraraðilar gera ráðstafanir til að tryggja öryggi staðsetninga sinna.

    5.     Aðgangsskilyrði fyrir starfsmenn rekstraraðila sem eiga í samkeppni.

    6.     Öryggisstaðlar.

    7.     Reglur fyrir úthlutun rýmis þar sem rými fyrir sameiginlega staðsetningu er takmarkað.

    8.    Skilyrði fyrir rétthafa til að skoða staðsetningu þar sem náttúrleg staðsetning er fyrir hendi, eða staði þar sem beiðni um sameiginlega staðsetningu hefur verið hafnað vegna skorts á flutningsgetu.

C.     Upplýsingakerfi

    Skilyrði fyrir aðgangi að rekstrarstuðningskerfi tilkynnts rekstraraðila, upplýsingakerfi eða gagnagrunnum fyrir forpantanir, veitingum, pöntunum, beiðnum um viðhald og viðgerðir og gerð fylgireikninga.

D.     Afgreiðsluskilyrði

    1.    Frestur til að svara beiðnum um afgreiðslu á þjónustu og búnaði; þjónustusamningar, gera ráðstafanir vegna bilana, aðferðir til fara aftur á venjulegt þjónustustig og færibreytur um gæði þjónustunnar.

    2.    Stöðluð samningsskilyrði, þar með talið, ef við á, bætur veittar ef afgreiðslufresturinn er ekki virtur;

    3.    Verð eða verðlagningarreglur fyrir hvert einkenni, hlutverk og búnað sem skráð er hér að ofan.



..............


Neðanmálsgrein: 1
(1) Hefur enn ekki verið birt.
Neðanmálsgrein: 2
(2) Stjtíð. EB L 336, 30.12.2000, bls. 4.
Neðanmálsgrein: 3
(*) Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Áliti var skilað 19. október 2000 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB).
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Álit Evrópuþingsins frá 26. október 2000 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB) og ákvörðun ráðsins frá 5. desember 2000.
Neðanmálsgrein: 6
(1)    Stjtíð. EB L 199, 26.7.1997, bls. 32. Tilskipuninni var breytt með tilskipun 98/61/EB (Stjtíð. EB L 268, 3.10.1998, bls. 37).
Neðanmálsgrein: 7
(2)    Stjtíð. EB L 101, 1.4.1998, bls. 24.
Neðanmálsgrein: 8
(1)    Stjtíð. EB L 156, 29.6.2000, bls. 44.
Neðanmálsgrein: 9
(2)    Stjtíð. EB C 272, 23.9.2000, bls. 55.
Neðanmálsgrein: 10
(3)    Í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/13/EB frá 10. apríl 1997 um sameiginlegan ramma fyrir almennar heimildir og rekstrarleyfi á sviði fjarskiptaþjónustu (Stjtíð. EB L 117, 7.5.1997, bls. 15).
Neðanmálsgrein: 11
(1)    Takmarka má aðgang að þessum upplýsingum við hagsmunaaðila til að tryggja almannaöryggi.