Ferill 655. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1033  —  655. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um fullgildingu V. viðauka við samning um verndun Norðaustur-Atlantshafsins, um verndun og varðveislu vistkerfa og líffræðilegrar fjölbreytni hafsvæðisins.

(Lögð fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd V. viðauka við samning um verndun Norðaustur-Atlantshafsins, um verndun og varðveislu vistkerfa og líffræðilegrar fjölbreytni hafsvæðisins, og 3. viðbæti við samninginn sem gerðir voru í Sintra 23. júlí 1998.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á V. viðauka við samning frá 22. september 1992 um verndun Norðaustur-Atlantshafsins, um verndun og varðveislu vistkerfa og líffræðilegrar fjölbreytni hafsvæðisins, og 3. viðbæti við samninginn sem gerðir voru í Sintra í Portúgal 23. júlí 1998. Viðaukinn og viðbætirinn eru prentaðir sem fylgiskjal I með tillögu þessari.
    Samningur um verndun Norðaustur-Atlantshafsins (hér eftir nefndur OSPAR-samningurinn), sem gerður var í París 22. september 1992, var fullgiltur af Íslands hálfu 2. júní 1997, en Alþingi hafði með ályktun 7. maí sama ár heimilað fullgildingu samningsins, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 15/1997. OSPAR-samningurinn, sem kom í stað Óslóarsamnings um varnir gegn mengun sjávar vegna losunar úrgangsefna frá skipum og flugvélum frá 15. febrúar 1972 og Parísarsamnings um varnir gegn mengun sjávar frá landstöðvum frá 4. júní 1974, öðlaðist gildi 25. mars 1998.
    OSPAR-samningurinn hefur það að markmiði, eins og heiti hans ber með sér, að vernda umhverfi Norðaustur-Atlantshafsins. Um er að ræða rammasamning sem skiptist upphaflega í meginhluta, fjóra viðauka og tvo viðbæta. Meginhlutinn hefur að geyma almenn ákvæði en í viðaukunum eru settar reglur um mengun frá landstöðvum, mengun af völdum varps eða brennslu, mengun frá uppsprettum á hafi og mat á ástandi hafsins. Viðbætarnir eru tæknilegs eðlis. Uppbygging samningsins miðast við að hann sé sveigjanlegur og geti, með ákveðnum takmörkunum, rúmað ný svið sem ekki voru fyrirséð þegar samningurinn var gerður.
    Eitt af þeim málum sem athyglin hefur beinst að á vettvangi OSPAR á undanförnum árum er vernd tegunda og búsvæða á hafsvæði því sem OSPAR-samningurinn nær yfir. Hafa bæði almenningur og stjórnvöld í löndum, sem liggja að Norðursjó og eru einnig aðilar að OSPAR, haft verulegar áhyggjur af þróun þessara mála. Á fundi ráðherra umhverfismála þessara landa, sem haldinn var í Esbjerg 1996, var samþykkt að ganga til samninga um sameiginlegar aðgerðir um vernd tegunda og búsvæða. Á þeim fundi kom einnig fram vilji til þess að heppilegast væri að marka viðfangsefninu stað í nýjum viðauka við OSPAR-samninginn.
    Aðildarríki OSPAR-samningsins, sem eiga ekki land að Norðursjó, töldu í upphafi að tæpast væri ástæða til að gera slíkan viðauka við samninginn, enda lytu fjölmargir alþjóðasamningar að fiskveiðistjórnun og vernd einstakra tegunda á hafsvæði OSPAR-samningsins. Ísland og Noregur lögðu áherslu á að nýr viðauki mætti ekki á nokkurn hátt ná til nýtingar lifandi auðlinda hafsins, enda félli hún utan gildissviðs OSPAR-samningsins. Í næstsíðustu málsgrein í inngangsorðum samningsins viðurkenna aðildarríki hans að málum er varða stjórnun fiskveiða sé best stýrt með alþjóðlegum og svæðisbundnum samningum sem sérstaklega fjalla um slík mál.
    Samningaviðræður um efni V. viðauka reyndust mjög erfiðar og tímafrekar og tóku fulltrúar utanríkisráðuneytisins og sjávarútvegsráðuneytisins þátt í þeim fyrir Íslands hönd, auk fulltrúa Hollustuverndar ríkisins. Loks náðist samkomulag um texta viðaukans sem fulltrúar Íslands töldu ásættanlegt. Tvennt skiptir mestu máli í því sambandi. Í fyrsta lagi segir í 1. mgr. 4. gr. viðaukans að í samræmi við næstsíðustu málsgrein í inngangsorðum samningsins skuli ekki samþykkja neina áætlun eða aðgerð samkvæmt viðaukanum um mál er varða stjórnun fiskveiða. Telji nefndin, sem starfar samkvæmt samningnum, hins vegar að aðgerð sé æskileg í tengslum við slíkt mál skuli hún vekja athygli viðkomandi lögbærs yfirvalds eða alþjóðastofnunar á því máli. Sé aðgerð sem heyrir undir valdsvið nefndarinnar æskileg til viðbótar eða til að styðja við aðgerð viðkomandi yfirvalda eða stofnana skuli nefndin leita eftir samstarfi við þessa aðila.
    Í öðru lagi var samhliða hinum nýja viðauka gert samkomulag þar sem m.a. var viðurkennt að hugtakið „stjórnun fiskveiða“, að því er OSPAR-samninginn varðar, næði til stjórnunar veiða á sjávarspendýrum. Samkomulag þetta, sem var mjög mikilvægt að mati fulltrúa Íslands og Noregs, er prentað sem fylgiskjal II með þingsályktunartillögu þessari.
    Hinn nýi viðauki við OSPAR-samninginn, um verndun og varðveislu vistkerfa og líffræðilegrar fjölbreytni hafsvæðisins, var samþykktur á fundi ráðherra aðildarríkja samningsins í Sintra í Portúgal 23. júlí 1998. Kjarni V. viðauka kemur fram í 2. gr. hans þar sem segir að aðildarríki OSPAR-samningsins skuli a) grípa til nauðsynlegra aðgerða til að vernda og varðveita vistkerfi og líffræðilega fjölbreytni hafsvæðis samningsins og, þegar raunhæft er, endurheimta hafsvæði sem orðið hafa fyrir skaðlegum áhrifum, og b) vinna í sameiningu að samþykkt áætlana og aðgerða sem þjóna þeim tilgangi að stjórna mannlegum athöfnum sem skilgreindar eru í viðmiðunum í 3. viðbæti. Samkvæmt 3. gr. viðaukans skal það m.a. vera hlutverk nefndarinnar, sem starfar á grundvelli samningsins, að gera áætlanir og leggja til aðgerðir í því skyni að hafa stjórn á mannlegum athöfnum sem skilgreindar eru í viðmiðunum í 3. viðbæti.
    Með hinum nýja viðauka eru verndaraðgerðir tengdar við varnir gegn mengun sjávar, eftir því sem við á. Gera má ráð fyrir að starf OSPAR samkvæmt þessum viðauka móti mjög aðgerðir til verndunar vistkerfa og líffræðilegrar fjölbreytni og að athygli manna muni beinast að því að samþætta varnir gegn mengun sjávar og varnir gegn álagi á umhverfi sjávar af annars konar völdum.
    V. viðauki við OSPAR-samninginn um verndun og varðveislu vistkerfa og líffræðilegrar fjölbreytni hafsvæðisins og 3. viðbætir við samninginn öðluðust gildi 30. ágúst 2000 þegar sjö samningsaðilar, Finnland, Spánn, Sviss, Lúxemborg, Evrópubandalagið, Bretland og Danmörk, höfðu fullgilt þá. Svíþjóð fullgilti viðaukann og viðbætinn 5. september 2000.


Fylgiskjal I.


V. VIÐAUKI
við samning um verndun Norðaustur- Atlantshafsins.

Um verndun og varðveislu vistkerfa og líffræðilegrar fjölbreytni hafsvæðisins.



1. gr.

    Í þessum viðauka og í 3. viðbæti er merking hugtakanna „líffræðileg fjölbreytni“, „vistkerfi“ og „búsvæði“ sú sama og í samningnum um líffræðilega fjölbreytni frá 5. júní 1992.

2. gr.

    Þegar samningsaðilar standa við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum um að grípa, hver fyrir sig og sameiginlega, til nauðsynlegra aðgerða til að vernda hafsvæðið gegn skaðlegum áhrifum af mannlegum athöfnum í því skyni að standa vörð um heilsu manna, varðveita vistkerfi hafsins og, þegar raunhæft er, endurheimta hafsvæði sem orðið hafa fyrir skaðlegum áhrifum, svo og þegar samningsaðilar standa við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum um líffræðilega fjölbreytni frá 5. júní 1992 um að þróa stefnu, áform eða áætlanir um verndun og sjálfbæra nýtingu á líffræðilegri fjölbreytni, skulu þeir:
     a)      grípa til nauðsynlegra aðgerða til að vernda og varðveita vistkerfi og líffræðilega fjölbreytni hafsvæðisins og, þegar raunhæft er, endurheimta hafsvæði sem orðið hafa fyrir skaðlegum áhrifum; og
     b)      vinna í sameiningu að samþykkt áætlana og aðgerða sem þjóna þeim tilgangi að stjórna mannlegum athöfnum sem skilgreindar eru í viðmiðunum í 3. viðbæti.

3. gr.

1.     Að því er varðar þennan viðauka skal það meðal annars vera hlutverk nefndarinnar:
     a)      að gera áætlanir og leggja til aðgerðir í því skyni að hafa stjórn á mannlegum athöfnum sem skilgreindar eru í viðmiðunum í 3. viðbæti;
     b)      og í því augnamiði:
         i.        safna upplýsingum og endurskoða upplýsingar um slíkar athafnir og áhrif þeirra á vistkerfi og líffræðilega fjölbreytni;
         ii.    þróa aðferðir, sem samrýmast þjóðarétti, til að koma í framkvæmd aðgerðum til verndar, varðveislu eða endurheimtar, eða varúðarráðstöfunum í tengslum við sérstök svæði eða staði eða í tengslum við sérstakar tegundir eða búsvæði;
         iii.    hafa í huga sjónarmið innlendrar stefnu og leiðbeininga um sjálfbæra nýtingu á þáttum líffræðilegrar fjölbreytni á hafsvæðinu, með tilliti til áhrifa þeirra á svæði og svæðishluta innan hafsvæðisins, sbr. þó 4. gr. þessa viðauka;
         iv.    stuðla að því að aðferðum er byggjast á heildstæðu mati á vistkerfi sé beitt, sbr. þó 4. gr. þessa viðauka;
     c)      og í því augnamiði einnig að taka til greina áætlanir og aðgerðir sem samningsaðilar samþykkja í því skyni að vernda og varðveita vistkerfi á hafsvæðum sem þeir hafa fullveldisrétt eða lögsögu yfir.
2.     Þegar slíkar áætlanir og aðgerðir eru samþykktar skal íhuga gaumgæfilega hvort einhver sérstök áætlun eða aðgerð skuli taka til alls hafsvæðisins eða einungis tiltekins hluta þess.


4. gr.

1.     Í samræmi við næstsíðustu málsgrein í inngangsorðum samningsins skal samkvæmt þessum viðauka ekki samþykkja neina áætlun eða aðgerð um mál er varða stjórnun fiskveiða. Telji nefndin hins vegar að aðgerð sé æskileg í tengslum við slíkt mál skal hún vekja athygli viðkomandi lögbærs yfirvalds eða alþjóðastofnunar á því máli. Ef aðgerð sem heyrir undir valdsvið nefndarinnar er æskileg til viðbótar eða til að styðja við aðgerð viðkomandi yfirvalda eða stofnana skal nefndin leita eftir samstarfi við þessa aðila.

2.     Ef nefndin telur að aðgerð samkvæmt þessum viðauka sé æskileg í tengslum við mál er varðar sjóflutninga skal hún vekja athygli Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar á því máli. Samningsaðilar sem eru aðilar að Alþjóðasiglingamálastofnuninni skulu leita eftir samstarfi á vettvangi þeirrar stofnunar í því skyni að fá fram viðeigandi viðbrögð, þar með talið, eftir því sem við á, samþykki þeirrar stofnunar fyrir svæðisbundinni eða staðbundinni aðgerð, enda sé höfð hliðsjón af þeim leiðbeiningarreglum sem stofnunin hefur sett um tilnefningu sérstakra svæða, auðkenningu svæða sem eru sérstaklega viðkvæm eða önnur mál.

3. VIÐBÆTIR

Viðmið til skilgreiningar á mannlegum athöfnum að því er varðar V. viðauka.


1.     Viðmiðin sem ber að nota til að skilgreina mannlegar athafnir að því er varðar V. viðauka, að teknu tilliti til mismunandi aðstæðna á svæðum, eru sem hér segir:
     a.      hve umfangsmiklar og öflugar þær mannlegu athafnir eru sem eru til umfjöllunar og hversu lengi þær vara;
     b.      hvaða skaðleg áhrif, raunveruleg og hugsanleg, þessar mannlegu athafnir hafa á tilteknar tegundir, samfélög og búsvæði;
     c.      hvaða skaðleg áhrif, raunveruleg og hugsanleg, þessar mannlegu athafnir hafa á tiltekin vistfræðileg ferli;
     d.      hvort þessi áhrif eru óafturkræf eða hve lengi þau vara.
2.     Ekki er víst að þessi viðmið séu tæmandi eða öll jafnmikilvæg við umfjöllun um einstakar athafnir.


ANNEX V
to the Convention for the Protection of the Marine Environment of the North-East Atlantic

On the Protection and Conservation of the Ecosystems and Biological Diversity of the Maritime Area


Article 1

    For the purposes of this Annex and of Appendix 3 the definitions of “biological diversity”, “ecosystem” and “habitat” are those contained in the Convention on Biological Diversity of 5 June 1992.

Article 2

    In fulfilling their obligation under the Convention to take, individually and jointly, the necessary measures to protect the maritime area against the adverse effects of human activities so as to safeguard human health and to conserve marine ecosystems and, when practicable, restore marine areas which have been adversely affected, as well as their obligation under the Convention on Biological Diversity of 5 June 1992 to develop strategies, plans or programmes for the conservation and sustainable use of biological diversity, Contracting Parties shall:


     a.      take the necessary measures to protect and conserve the ecosystems and the biological diversity of the maritime area, and to restore, where practicable, marine areas which have been adversely affected; and
     b.      cooperate in adopting programmes and measures for those purposes for the control of the human activities identified by the application of the criteria in Appendix 3.

Article 3

1.     For the purposes of this Annex, it shall inter alia be the duty of the Commission:
     a.      to draw up programmes and measures for the control of the human activities identified by the application of the criteria in Appendix 3;

     b.      in doing so:
         i.    to collect and review information on such activities and their effects on ecosystems and biological diversity;
         ii.    to develop means, consistent with international law, for instituting protective, conservation, restorative or precautionary measures related to specific areas or sites or related to particular species or habitats;

         iii.    subject to Article 4 of this Annex, to consider aspects of national strategies and guidelines on the sustainable use of components of biological diversity of the maritime area as they affect the various regions and sub-regions of that area;
         iv.    subject to Article 4 of this Annex, to aim for the application of an integrated ecosystem approach;
     c.      also in doing so, to take account of programmes and measures adopted by Contracting Parties for the protection and conservation of ecosystems within waters under their sovereignty or jurisdiction.
2.     In the adoption of such programmes and measures, due consideration shall be given to the question whether any particular programme or measure should apply to all, or a specified part, of the maritime area.

Article 4

1.     In accordance with the penultimate recital of the Convention, no programme or measure concerning a question relating to the management of fisheries shall be adopted under this Annex. However where the Commission considers that action is desirable in relation to such a question, it shall draw that question to the attention of the authority or international body competent for that question. Where action within the competence of the Commission is desirable to complement or support action by those authorities or bodies, the Commission shall endeavour to cooperate with them.
2.     Where the Commission considers that action under this Annex is desirable in relation to a question concerning maritime transport, it shall draw that question to the attention of the International Maritime Organisation. The Contracting Parties who are members of the International Maritime Organisation shall endeavour to cooperate within that Organisation in order to achieve an appropriate response, including in relevant cases that Organisation's agreement to regional or local action, taking account of any guidelines developed by that Organisation on the designation of special areas, the identification of particularly sensitive areas or other matters.

APPENDIX 3

Criteria for Identifying Human Activities for the Purpose of Annex V


1.     The criteria to be used, taking into account regional differences, for identifying human activities for the purposes of Annex V are:

     a.      the extent, intensity and duration of the human activity under consideration;

     b.      actual and potential adverse effects of the human activity on specific species, communities and habitats;
     c.      actual and potential adverse effects of the human activity on specific ecological processes;
     d.      irreversibility or durability of these effects.

2.     These criteria are not necessarily exhaustive or of equal importance for the consideration of a particular activity.

Fylgiskjal II.


OSPAR-samkomulag um merkingu tiltekinna hugtaka í V. viðauka við OSPAR-samninginn frá 1992, um verndun og varðveislu vistkerfa og líffræðilegrar fjölbreytni hafsvæðisins.



    OSPAR hefur samþykkt að tilvísanir til „mála er varða stjórnun fiskveiða“ í V. viðauka við OSPAR- samninginn frá 1992, um verndun og varðveislu vistkerfa og líffræðilegrar fjölbreytni hafsvæðisins, séu tilvísanir til mála er kunna m.a. að kalla á aðgerðir samkvæmt:

     a.      gerningum þar sem sameiginleg fiskveiðistefna Evrópubandalagsins er sett fram;
     b.      gerningum sem fela í sér samsvarandi löggjöf samningsaðila sem ekki eiga aðild að Evrópusambandinu;
     c.      gerningum sem fela í sér samsvarandi löggjöf sem í gildi er í Færeyjum, á Grænlandi, Ermarsundseyjum og Mön; eða
     d.      stofnsamningum Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðistofnunarinnar og Norður-Atlantshafslaxa-verndunarstofnunarinnar,
hvort sem ráðist hefur verið í slíkar aðgerðir eður ei.
    Til að taka af allan vafa nær stjórnun fiskveiða, að því er OSPAR-samninginn varðar, til stjórnunar veiða á sjávarspendýrum.

OSPAR Agreement on the meaning of certain concepts in Annex V to the 1992 OSPAR Convention on the Protection and Conservation of the Ecosystems and Biological Diversity of the Maritime Area


    OSPAR agreed that references in Annex V to the 1992 OSPAR Convention on the Protection and Conservation of the Ecosystems and Biological Diversity of the Maritime Area to “questions relating to the management of fisheries” are references to the questions on which action can be taken under such instruments as those constituting:
     a.      the Common Fisheries Policy of the European Community;
     b.      the corresponding legislation of Contracting Parties which are not Member States of the European Union;
     c.      the corresponding legislation in force in the Faroe Islands, Greenland, the Channel Islands and the Isle of Man; or
     d.      the North East Atlantic Fisheries Commission and the North Atlantic Salmon Commission

whether or not such action has been taken.
    For the avoidance of doubt, in the context of the OSPAR Convention, the management of fisheries includes the management of marine mammals.