Ferill 658. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1036  —  658. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aðild að Genfarsamningi um breytingu á Haagsamningnum um alþjóðlega skráningu hönnunar á sviði iðnaðar.

(Lögð fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



    Alþingi ályktar að heimila að Ísland gerist aðili að Genfarsamningi um breytingu á Haagsamningnum um alþjóðlega skráningu hönnunar á sviði iðnaðar sem gerður var í Genf 2. júlí 1999.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til þess að Ísland gerist aðili að Genfarsamningi frá 2. júlí 1999 um breytingu á Haagsamningnum um alþjóðlega skráningu hönnunar á sviði iðnaðar. Samningurinn er prentaður sem fylgiskjal með tillögunni.
    Haagsamningurinn um alþjóðlega skráningu hönnunar á sviði iðnaðar er frá 6. nóvember 1925. Samningurinn hefur verið endurskoðaður með samningum sem undirritaðir voru í London 1934 og Haag 1960, viðbótarsamningum frá Mónakó 1961 og Stokkhólmi 1967 og nú síðast með Genfarsamningnum frá 2. júlí 1999. Saman mynda þessir samningar svokallað Haagsamband. Genfarsamningurinn hefur enn ekki öðlast gildi.
    Tilgangur Genfarsamningsins er að gera fleirum kleift að gerast aðilar að Haagsambandinu, að viðhalda einfaldleika kerfisins og gera það meira aðlaðandi fyrir umsækjendur um skráningu hönnunar. Alþjóðahugverkastofnunin (WIPO) í Genf hefur yfirumsjón með þessu alþjóðlega skráningarkerfi og heldur alþjóðlega hönnunarskrá.
    Genfarsamningurinn gerir íbúum í aðildarríkjum hans kleift að sækja um skráningu hönnunar í öllum aðildarríkjum samningsins með einni umsókn. Unnt er að sækja um alþjóðlega skráningu beint til Alþjóðahugverkastofnunarinnar eða hjá einkaleyfaskrifstofu hvers ríkis. Skráning alþjóðlegrar hönnunar hefur sömu réttaráhrif og hefði hún verið lögð beint inn hjá aðildarríki sem landsbundin umsókn. Skráningaryfirvöld í hverju aðildarríki geta hafnað skráningu hönnunar á grundvelli þeirra laga sem gilda í hverju landi fyrir sig.
    Hið alþjóðlega skráningarkerfi gerir umsækjanda um skráningu hönnunar mögulegt að öðlast vernd í tilteknum fjölda landa með því að leggja inn eina umsókn, á einu tungumáli og gegn greiðslu einfalds gjalds. Skráningarkerfið er bæði einfalt og hagkvæmt og mun án efa verða hvatning fyrir íslenska hönnuði sem óska jöfnum höndum eftir vernd hér á landi og á alþjóðlegum vettvangi. Einnig mun kerfið tvímælalaust hafa í för með sér fjölgun erlendra hönnunarskráninga hér á landi. Aðild að samningnum hefur ekki í för með sér kostnað fyrir aðildarríki hans þar eð allur kostnaður er greiddur með umsóknar- og endurnýjunargjöldum.
    Genfarsamningnum um breytingu á Haagsamningnum um alþjóðlega skráningu hönnunar á sviði iðnaðar svipar um margt til bókunar við Madrídarsamninginn um alþjóðlega skráningu merkja sem öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 15. apríl 1997.
    Í X. kafla frumvarps til laga um hönnunarrétt, sem iðnaðarráðherra hefur lagt fram á yfirstandandi þingi, er fjallað um alþjóðlega skráningu hönnunar. Þar er skilgreint hvað átt sé við með alþjóðlegri skráningu hönnunar og kveðið á um meðferð alþjóðlegrar skráningar hér á landi. Í 60. gr. frumvarpsins er sérákvæði um gildistöku X. kafla. Ákvæði kaflans öðlast ekki gildi fyrr en við birtingu auglýsingar um að Ísland hafi gerst aðili að Genfarsamningnum. Með frumvarpinu skapast skilyrði til að standa við skuldbindingar sem aðildarríki gangast undir samkvæmt samningnum.



Fylgiskjal.


GENFARSAMNINGUR UM BREYTINGU Á HAAGSAMNINGNUM UM ALÞJÓÐLEGA SKRÁNINGU HÖNNUNAR Á SVIÐI IÐNAÐAR

INNGANGSÁKVÆÐI

1. gr.

Stytting heita.

Í samningi þessum eru merkingar sem hér segir:
i)    „Haagsamningurinn“ merkir Haagsamninginn um alþjóðlega skrásetningu hönnunar á sviði iðnaðar, hér eftir gefið nýja heitið Haagsamningurinn um alþjóðlega skráningu hönnunar á sviði iðnaðar;

ii)    „samningur þessi“ merkir Haagsamninginn eins og honum hefur verið breytt með samningi þessum;
iii)    „reglugerð“ merkir reglugerð samkvæmt samningi þessum;
iv)    „kveðið á um“ merkir kveðið á um í reglugerðinni;
v)    „Parísarsamningurinn“ merkir Parísarsamninginn um vernd eignarréttar á sviði iðnaðar sem undirritaður var í París 20. mars 1883, eins og hann hefur verið endurskoðaður og honum breytt;
vi)    „alþjóðleg skráning“ merkir alþjóðlega skráningu hönnunar á sviði iðnaðar sem framkvæmd er samkvæmt samningi þessum;
vii)    „alþjóðleg umsókn“ merkir umsókn um alþjóðlega skráningu;
viii)    „alþjóðaskrá“ merkir opinbera söfnun gagna vegna alþjóðlegrar skráningar sem alþjóðaskrifstofan annast og samningur þessi eða reglugerðin krefjast eða heimila, án tillits til þess hvaða miðill er notaður til vistunar slíkra gagna;

ix)    „aðili“ merkir einstakling eða lögaðila;

x)    „umsækjandi“ merkir þann aðila sem skráður er fyrir alþjóðlegri umsókn;
xi)    „eigandi“ merkir þann aðila sem skráður er fyrir alþjóðlegri skráningu í alþjóðaskránni;

xii)    „milliríkjastofnun“ merkir milliríkjastofnun sem gerst getur aðili að samningi þessum í samræmi við ii-lið 1. mgr. 27. gr.;

xiii)    „samningsaðili“ merkir ríki eða milliríkjastofnun sem er aðili að samningi þessum;

xiv)    „samningsaðili umsækjanda“ merkir samningsaðila, eða einn af samningsaðilunum, sem veitir umsækjandanum rétt til þess að leggja inn alþjóðlega umsókn með því að fullnægja, með tilliti til þess samningsaðila, a.m.k. einu af skilyrðum þeim sem tilgreind eru í 3. gr.; þegar um er að ræða tvo eða fleiri samningsaðila sem veitt geta umsækjandanum rétt skv. 3. gr. til að leggja fram alþjóðlega umsókn merkir „samningsaðili umsækjanda“ þann aðila meðal samningsaðilanna sem vísað er til sem slíks í alþjóðlegu umsókninni;


xv)    „landsvæði samningsaðila“ merkir, þegar samningsaðilinn er ríki, landsvæði þess ríkis og, þegar samningsaðili er milliríkjastofnun, landsvæðið þar sem stofnsamningur milliríkjastofnunarinnar gildir;


xvi)    „skrifstofa“ merkir umboðsstofu sem samningsaðili hefur falið að veita hönnun á sviði iðnaðar vernd er gildir á landsvæði viðkomandi samningsaðila;
xvii)    „rannsóknarstofa“ merkir skrifstofu sem hefur það hlutverk að rannsaka af sjálfsdáðum umsóknir sem lagðar eru inn hjá henni til verndar hönnun á sviði iðnaðar, a.m.k. í því skyni að ákvarða hvort hönnun á sviði iðnaðar fullnægir skilyrðinu um nýnæmi;
xviii)    „tilnefning“ merkir beiðni um að alþjóðleg skráning gildi hjá samningsaðila; það merkir einnig færslu þessarar beiðnar í alþjóðaskrána;
xix)    „tilnefndur samningsaðili“ og „tilnefnd skrifstofa“ merkja samningsaðila og skrifstofu samningsaðilans, eftir því sem við á, sem tilnefning gildir um;
xx)    „samningurinn frá 1934“ merkir þann samning um breytingu á Haagsamningnum sem undirritaður var í London 2. júní 1934;
xxi)    „samningurinn frá 1960“ merkir þann samning um breytingu á Haagsamningnum sem undirritaður var í Haag 28. nóvember 1960;
xxii)    „viðbótarsamningurinn frá 1961“ merkir samninginn sem undirritaður var í Mónakó 18. nóvember 1961 og kemur til viðbótar samningnum frá 1934;
xxiii)    „viðaukasamningurinn frá 1967“ merkir viðaukasamninginn um breytingu á Haagsamningnum sem undirritaður var í Stokkhólmi 14. júlí 1967, með breytingum;
xxiv)    „samband“ merkir Haagsambandið, sem stofnað var með Haagsamningnum frá 6. nóvember 1925 og viðhaldið með samningunum frá 1934 og 1960, viðbótarsamningnum frá 1961, viðaukasamningnum frá 1967 og samningi þessum;
xxv)    „þing“ merkir þingið sem vísað er til í a-lið 1. mgr. 21. gr., eða stofnun sem kemur í stað þess þings;
xxvi)    „stofnun“ merkir Alþjóðahugverkastofnunina;
xxvii)    „aðalframkvæmdastjóri“ merkir aðalframkvæmdastjóra stofnunarinnar;
xxviii)    „alþjóðaskrifstofa“ merkir alþjóðaskrifstofu stofnunarinnar;
xxix)    „fullgildingarskjal“ skal túlkað þannig að það taki einnig til skjala um staðfestingu eða samþykkt.

2. gr.

Gildissvið annarrar verndar á grundvelli laga samningsaðila og vissra alþjóðasamninga.


1.    [Lög samningsaðila og vissir alþjóðasamningar]

    Ákvæði samnings þessa skulu ekki hafa áhrif á það þegar meiri vernd er beitt samkvæmt lögum samningsaðila, né skulu þau á nokkurn hátt hafa áhrif á vernd þá sem veitt er listaverkum og nytjalist með alþjóðlegum höfundaréttarsamningum, eða á vernd þá sem veitt er hönnun á sviði iðnaðar á grundvelli samningsins um hugverkarétt í viðskiptum sem er viðauki við samninginn um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.


2.    [Skylda til að hlíta Parísarsamningnum]

    Hver samningsaðili skal hlíta ákvæðum Parísarsamningsins sem varða hönnun á sviði iðnaðar.


I. KAFLI

ALÞJÓÐLEG UMSÓKN OG ALÞJÓÐLEG SKRÁNING

3. gr.

Réttur til að leggja inn alþjóðlega umsókn.

Sérhver einstaklingur skal hafa rétt til þess að leggja inn alþjóðlega umsókn, enda sé hann ríkisborgari ríkis sem er samningsaðili, ríkisborgari ríkis í milliríkjastofnun sem er samningsaðili ellegar eigi hann lögheimili, hafi fasta búsetu eða eigi raunverulegt og virkt iðnaðar- eða verslunarfyrirtæki á landsvæði samningsaðila.

4. gr.


Meðferð innlagningar á alþjóðlegri umsókn.

1.    [Bein eða óbein innlagning]
    a)    Alþjóðlega umsókn má leggja inn að vali umsækjanda annaðhvort beint á alþjóðaskrifstofuna eða fyrir milligöngu skrifstofu samningsaðila umsækjanda.
    b)    Þrátt fyrir a-lið getur sérhver samningsaðili með skriflegri yfirlýsingu tilkynnt aðalframkvæmdastjóranum að ekki megi leggja inn alþjóðlegar umsóknir á skrifstofu samningsaðilans.
2.    [Yfirfærslugjald vegna óbeinnar innlagningar]
    Skrifstofa samningsaðila getur í eigin þágu krafist yfirfærslugjalds af umsækjanda vegna alþjóðlegrar umsóknar sem lögð er inn hjá henni.


5. gr.

Efni alþjóðlegrar umsóknar.

1.    [Skylduefni alþjóðlegu umsóknarinnar]

    Alþjóðlega umsóknin skal vera á því tungumáli sem kveðið er á um, eða einu af þeim tungumálum sem kveðið er á um, og í henni skulu felast eða henni skulu fylgja:
         i)    beiðni um alþjóðlega skráningu samkvæmt samningi þessum;
         ii)    gögn þau sem kveðið er á um varðandi umsækjandann;
         iii)    tilskilinn fjöldi eintaka af endurgerð eða ýmsum ólíkum endurgerðum, að vali umsækjanda, af þeirri hönnun á sviði iðnaðar sem er efni alþjóðlegu umsóknarinnar, kynnt á þann hátt sem kveðið er á um; ef hins vegar er um að ræða tvívíddarhönnun á sviði iðnaðar og farið er fram á frestun birtingar skv. 5. mgr. getur tilskilinn fjöldi sýnishorna af hönnun á sviði iðnaðar þó fylgt alþjóðlegu umsókninni og komið í stað endurgerða;



         iv)    vísbending um vöruna eða vörurnar sem mynda hönnun á sviði iðnaðar eða tengjast notkun hönnunar á sviði iðnaðar eins og kveðið er á um;

         v)    vísbending um tilnefnda samningsaðila;

         vi)    gjöldin sem kveðið er á um;
         vii)    sérhver önnur atriði sem kveðið er á um.
2.    [Annað skylduefni alþjóðlegu umsóknarinnar]

    a)    Sérhver samningsaðili, sem hefur skrifstofu sem er rannsóknarstofa og þar sem lög hans krefjast þess, við aðild hans að samningi þessum, að í umsókn um veitingu verndar á hönnun á sviði iðnaðar sé að finna einhver þeirra atriða sem tilgreind eru í b-lið til þess að umsóknin hljóti umsóknardag samkvæmt þeim lögum, getur með skriflegri yfirlýsingu tilkynnt aðalframkvæmdastjóranum um þessi atriði.
    b)    Atriði þau sem tilkynna má skv. a-lið eru eins og hér segir:
         i)    vísbendingar um hver sé höfundur þeirrar hönnunar á sviði iðnaðar sem er efni þeirrar umsóknar;
         ii)    stutt lýsing á endurgerðinni eða þáttum þeim er einkenna þá hönnun á sviði iðnaðar sem er efni þeirrar umsóknar;

         iii)    krafa.
    c)    Þegar í alþjóðlegu umsókninni felst tilnefning á samningsaðila sem staðið hefur að tilkynningu skv. a-lið skal í umsókninni einnig vera, á þann hátt sem kveðið er á um, sérhvert það atriði sem var efni þeirrar tilkynningar.

3.    [Annað hugsanlegt efni í alþjóðlegu umsókninni]

    Alþjóðlega umsóknin getur falið í sér eða henni geta fylgt önnur atriði sem tilgreind eru í reglugerðinni.
4.    [Margs konar hönnun á sviði iðnaðar í sömu alþjóðlegu umsókninni]
    Með fyrirvara um skilyrði þau sem kveðið kann að vera á um getur alþjóðleg umsókn falið í sér tvær eða fleiri tegundir hönnunar á sviði iðnaðar.
5.    [Beiðni um frestun birtingar]
    Beiðni um frestun birtingar getur verið í alþjóðlegu umsókninni.

6. gr.

Forgangsréttur.

1.    [Krafa um forgangsrétt]
    a)    Í alþjóðlegu umsókninni getur falist yfirlýsing um kröfu skv. 4. gr. Parísarsamningsins til forgangsréttar til handa einni eða fleiri fyrri umsóknum er lagðar hafa verið inn í einhverju landi eða fyrir hönd einhvers lands sem er aðili að þeim samningi eða Alþjóðaviðskiptastofnuninni.
    b)    Í reglugerðinni getur verið kveðið á um að gefa megi út yfirlýsingu skv. a-lið þegar alþjóðlega umsóknin hefur verið lögð inn. Í slíku tilviki skal reglugerðin kveða á um hvenær slík yfirlýsing skuli gefin út í síðasta lagi.

2.    [Alþjóðleg umsókn notuð sem grundvöllur að forgangsréttarkröfu]
    Alþjóðlega umsóknin skal, frá þeim degi er hún er lögð inn og hver svo sem örlög hennar kunna að verða, jafngilda venjulegri innlagningu umsóknar í skilningi 4. gr. Parísarsamningsins.

7. gr.

Tilnefningargjöld.

1.    [Tilskilið tilnefningargjald]
    Tilskilin gjöld skulu fela í sér tilnefningargjald fyrir hvern tilnefndan samningsaðila, sbr. þó 2. mgr.
2.    [Sérstakt tilnefningargjald]
    Sérhver samningsaðili með skrifstofu sem er rannsóknarstofa og sérhver samningsaðili sem er milliríkjastofnun geta með skriflegri yfirlýsingu tilkynnt aðalframkvæmdastjóranum að í tengslum við alþjóðlega umsókn þar sem samningsaðilinn er tilnefndur og í tengslum við endurnýjun á alþjóðlegri umsókn sem rekja má til slíkrar alþjóðlegrar umsóknar skuli í staðinn fyrir tilskilið tilnefningargjald skv. 1. mgr. koma sérstakt tilnefningargjald en fjárhæð þess skal tilgreind í yfirlýsingunni og má breyta henni í síðari yfirlýsingum. Framangreindur samningsaðili getur ákvarðað umrædda fjárhæð fyrir upphafstíma verndar og hvert endurnýjunartímabil eða fyrir hámarkstíma verndar sem viðkomandi samningsaðili heimilar. Fjárhæðin má hins vegar ekki vera hærri en jafnvirði fjárhæðar þeirrar sem skrifstofa þessa samningsaðila ætti rétt á að fá greidda af hálfu umsækjanda fyrir veitta vernd á samsvarandi tíma vegna sama fjölda hönnunar á sviði iðnaðar, enda lækki þessi fjárhæð vegna sparnaðar sem alþjóðlega meðferðin hefur í för með sér.


3.    [Sending tilnefningargjalda]
    Tilnefningargjöld skv. 1. og 2. mgr. skal alþjóðaskrifstofan senda samningsaðilunum sem gjöld þessi voru greidd fyrir.


8. gr.

Leiðrétting á misfellum.

1.    [Rannsókn á alþjóðlegu umsókninni]
    Ef alþjóðaskrifstofan kemst að þeirri niðurstöðu að alþjóðlega umsóknin fullnægi ekki, við móttöku af hálfu skrifstofunnar, kröfum samnings þessa og reglugerðarinnar skal hún bjóða umsækjandanum að gera nauðsynlegar leiðréttingar innan tilskilins frests.
2.    [Misfellur ekki leiðréttar]
    a)    Ef umsækjandinn þiggur ekki boðið áður en tilskilinn frestur er liðinn skal alþjóðlega umsóknin talin afskrifuð, sbr. þó b-lið.

    b)    Ef umsækjandinn þiggur ekki boðið innan tilskilins frests þegar um misfellur er að ræða er tengjast 2. mgr. 5. gr. eða sérstakri kröfu sem samningsaðili hefur tilkynnt aðalframkvæmdastjóranum samkvæmt reglugerðinni skal talið að í alþjóðlegu umsókninni felist ekki tilnefning þess samningsaðila.



9. gr.

Umsóknardagur alþjóðlegrar umsóknar.

1.    [Bein innlagning alþjóðlegrar umsóknar]
    Þegar alþjóðlega umsóknin er lögð beint inn til alþjóðaskrifstofunnar skal umsóknardagurinn vera sá dagur er alþjóðaskrifstofunni berst umsóknin, sbr. þó 3. mgr.

2.    [Óbein innlagning alþjóðlegrar umsóknar]
    Þegar alþjóðlega umsóknin er lögð inn fyrir milligöngu skrifstofu samningsaðila umsækjandans skal umsóknardagur ákvarðaður eins og kveðið er á um.
3.    [Alþjóðleg umsókn með ákveðnum misfellum]

    Þegar þær misfellur eru á alþjóðlegu umsókninni á móttökudegi hennar á alþjóðaskrifstofunni sem kveðið er á um að séu misfellur sem hafa í för með sér frestun á umsóknardegi alþjóðlegu umsóknarinnar skal umsóknardagur vera sá dagur er leiðrétting á slíkum misfellum berst alþjóðaskrifstofunni.


10. gr.

Alþjóðleg skráning, dagsetning alþjóðlegrar skráningar, birting og trúnaðareintök af alþjóðlegri skráningu.


1.    [Alþjóðleg skráning]
    Alþjóðaskrifstofan skal skrá hverja hönnun á sviði iðnaðar sem er efni alþjóðlegrar umsóknar þegar við móttöku á skrifstofunni eða, þegar boðið er upp á að gera leiðréttingar skv. 8. gr., þegar við móttöku nauðsynlegra leiðréttinga. Skráningin skal fara fram hvort sem birtingu er frestað skv. 11. gr. eða ekki.

2.    [Dagsetning alþjóðlegu skráningarinnar]
    a)    Dagsetning alþjóðlegu skráningarinnar skal vera umsóknardagur hennar, sbr. þó b-lið.

    b)    Þegar misfellur, sem tengjast 2. mgr. 5. gr., eru á alþjóðlegu umsókninni á þeim degi er hún berst alþjóðaskrifstofunni skal skráningardagur alþjóðlegu skráningarinnar vera sá dagur er leiðrétting á slíkum misfellum berst skrifstofunni eða umsóknardagur alþjóðlegu umsóknarinnar, hvor sem er síðar.


3.    [Birting]
    a)    Alþjóðaskrifstofan skal birta alþjóðlegu skráninguna. Allir samningsaðilar skulu meta slíka birtingu sem fullnægjandi kynningu og ekki má krefjast neinnar annarrar kynningar af eiganda.

    b)    Alþjóðaskrifstofan skal senda eintak af birtingu alþjóðlegu skráningarinnar til allra tilnefndra skrifstofa.
4.    [Trúnaðargæsla fyrir birtingu]

    Alþjóðaskrifstofan skal gæta trúnaðar um hverja alþjóðlega umsókn og hverja alþjóðlega skráningu fram að birtingu, sbr. þó 5. mgr. þessarar greinar og b-lið 4. mgr. 11. gr.
5.    [Trúnaðareintök]
    a)    Alþjóðaskrifstofan skal þegar að lokinni skráningu senda afrit af alþjóðlegu skráningunni, ásamt öllum viðeigandi yfirlýsingum, skjölum eða sýnishornum sem fylgja alþjóðlegu umsókninni, til hverrar skrifstofu sem tilkynnt hefur alþjóðaskrifstofunni að hún óski þess að fá slíkt afrit afhent og hefur verið tilnefnd í alþjóðlegu umsókninni.

    b)    Skrifstofan skal, fram að þeim tíma er alþjóðaskrifstofan birtir alþjóðlegu skráninguna, gæta trúnaðar um hverja alþjóðlega skráningu sem henni hefur borist eintak af frá alþjóðaskrifstofunni og getur hún einungis notað umrætt eintak í því skyni að rannsaka alþjóðlegu skráninguna og umsóknir um vernd hönnunar á sviði iðnaðar sem lagðar hafa verið inn hjá samningsaðilanum eða fyrir hann þar sem skrifstofan er bær. Sérstaklega er henni óheimilt að upplýsa nokkurn einstakling utan skrifstofunnar, annan en eiganda alþjóðlegu skráningarinnar, um efni nokkurrar slíkrar alþjóðlegrar skráningar, nema vegna máls fyrir stjórnvaldi eða dómstóli út af ágreiningi um rétt til þess að leggja inn alþjóðlegu umsóknina er alþjóðlega skráningin byggist á. Í slíku máli fyrir stjórnvaldi eða dómstóli er einungis heimilt að upplýsa málsaðila í trúnaði um efni alþjóðlegu skráningarinnar en þeir skulu skuldbundnir til að virða trúnaðinn um það sem þeim hefur verið skýrt frá.



11. gr.

Frestun birtingar.

1.    [Lagaákvæði samningsaðila um frestun birtingar]

    a)    Þar sem lög samningsaðila kveða á um frestun birtingar á hönnun á sviði iðnaðar um tíma sem er skemmri en tilskilinn frestur skal sá samningsaðili tilkynna aðalframkvæmdastjóranum með skriflegri yfirlýsingu um leyfilega tímalengd frestunar.

    b)    Þegar lög samningsaðila kveða ekki á um frestun birtingar á hönnun á sviði iðnaðar skal sá samningsaðili tilkynna aðalframkvæmdastjóranum um þá staðreynd með skriflegri yfirlýsingu.
2.    [Frestun birtingar]
    Þegar alþjóðlega umsóknin inniheldur beiðni um frestun birtingar skal birting fara fram:

         i)    þegar enginn af þeim samningsaðilum sem tilnefndir eru í alþjóðlegu umsókninni hefur gefið út yfirlýsingu skv. 1. mgr., er tilskilinn frestur rennur út, eða

         ii)    þegar einhver af þeim samningsaðilum sem tilnefndir eru í alþjóðlegu umsókninni hefur gefið út yfirlýsingu skv. a-lið 1. mgr., við lok þess frests sem tilkynntur er í slíkri yfirlýsingu eða, þegar fleiri en einn slíkur samningsaðili er tilnefndur, við lok skemmsta frests sem tilkynntur er í yfirlýsingum þeirra.

3.    [Meðferð beiðna um frestun birtingar þegar frestun er óheimil samkvæmt gildandi lögum]

    Þegar beðið hefur verið um frestun birtingar og einhver þeirra samningsaðila sem tilnefndir eru í alþjóðlegu umsókninni hefur gefið út yfirlýsingu skv. b-lið 1. mgr. er þessi frestun birtingar óheimil samkvæmt lögum samningsaðilans:
         i)    alþjóðaskrifstofan skal tilkynna umsækjanda slíkt, sbr. þó ii-lið; ef umsækjandi dregur ekki tilnefningu umrædds samningsaðila til baka innan tilskilins frests með skriflegri tilkynningu til alþjóðaskrifstofunnar skal hún virða að vettugi beiðnina um frestun birtingar;


         ii)    þegar alþjóðlegu umsókninni fylgdu sýnishorn af hönnun á sviði iðnaðar í stað endurgerðar hönnunarinnar skal alþjóðaskrifstofan virða tilnefningu umrædds samningsaðila að vettugi og ber að tilkynna umsækjandanum slíkt.


4.    [Beiðni um birtingu fyrr eða sérstakan aðgang að alþjóðlegu skráningunni]
    a)    Meðan frestur skv. 2. mgr. varir getur eigandi hvenær sem er farið fram á birtingu á einni eða fleiri tegundum hönnunar á sviði iðnaðar sem er efni alþjóðlegu skráningarinnar en í því tilviki skal fresturinn vegna slíkrar hönnunar teljast hafa runnið út á þeim degi er alþjóðaskrifstofunni berst beiðnin.


    b)    Eigandi getur einnig, hvenær sem er meðan frestur skv. 2. mgr. varir, beðið alþjóðaskrifstofuna að útvega þriðja aðila, sem tilgreindur skal af eiganda, útdrátt úr, eða heimila þessum aðila aðgang að, einhverjum eða öllum tegundum hönnunarinnar sem er efni alþjóðlegu skráningarinnar.

5.    [Höfnun og takmörkun]
    a)    Ef eigandi, á einhverjum tíma meðan frestur skv. 2. mgr. varir, hafnar alþjóðlegu skráningunni, hvað snertir alla tilnefnda samningsaðila, skal ekki birta hönnun, eina eða fleiri, sem er efni alþjóðlegu skráningarinnar.


    b)    Ef eigandi, á einhverjum tíma meðan frestur skv. 2. mgr. varir, takmarkar alþjóðlegu skráninguna, hvað alla tilnefnda samningsaðila snertir, við eina hönnun eða fleiri á sviði iðnaðar sem er efni alþjóðlegu skráningarinnar skal önnur hönnun, sem er efni alþjóðlegu skráningarinnar, ekki birt.


6.    [Birting og útvegun endurgerða]
    a)    Þegar gildandi frestur samkvæmt ákvæðum þessarar greinar rennur út skal alþjóðaskrifstofan birta alþjóðlegu skráninguna enda séu tilskilin gjöld greidd. Ef slík tilskilin gjöld eru ekki greidd skal alþjóðlegu skráningunni hafnað og birting hennar ekki fara fram.


    b)    Þegar alþjóðlegu umsókninni fylgdi eitt eða fleiri sýnishorn af hönnun á sviði iðnaðar skv. iii-lið 1. mgr. 5. gr. skal eigandi innan tilskilins frests leggja fram tilskilinn fjölda eintaka af endurgerð hverrar hönnunar á sviði iðnaðar sem er efni umsóknar hans hjá alþjóðaskrifstofunni. Ef eigandinn gerir það ekki skal alþjóðlegu umsókninni hafnað og birting ekki fara fram.



12. gr.

Synjun.

1.    [Réttur til synjunar]
    Skrifstofa sérhvers tilnefnds samningsaðila getur synjað áhrifum alþjóðlegu skráningarinnar að nokkru eða öllu leyti á landsvæði samningsaðilans þegar skilyrðum fyrir veitingu verndar samkvæmt lögum samningsaðilans er ekki fullnægt með tilliti til einhverrar eða sérhverrar þeirrar hönnunar á sviði iðnaðar sem er efni alþjóðlegrar skráningar; þó getur engin skrifstofa að nokkru eða öllu leyti synjað áhrifum alþjóðlegrar skráningar af þeirri ástæðu að samkvæmt lögum hlutaðeigandi samningsaðila hafi ekki verið fullnægt skilyrðum þeim um form og efni alþjóðlegu umsóknarinnar sem tilgreind eru í samningi þessum eða reglugerðinni, eða koma þeim til viðbótar eða eru frábrugðin þeim.

2.    [Tilkynning um synjun]
    a)    Skrifstofan skal tilkynna alþjóðaskrifstofunni um synjun á áhrifum alþjóðlegrar skráningar innan tilskilins frests.


    b)    Í sérhverri tilkynningu um synjun skal tilgreina allar ástæður fyrir synjuninni.
3.    [Sending tilkynningar um synjun; úrræði]

    a)    Alþjóðaskrifstofan skal án tafar senda eiganda skráningar eintak af tilkynningunni um synjun.
    b)    Eigandi skal njóta sömu úrræða og ef hönnun á sviði iðnaðar, sem er efni alþjóðlegu skráningarinnar, hefði verið efni umsóknar um veitingu verndar samkvæmt þeim lögum sem skrifstofan sem tilkynnti um synjunina fer eftir. Slík úrræði skulu að minnsta kosti felast í möguleikanum á endurmati, endurupptöku eða áfrýjun synjunarinnar.

4.    [Afturköllun synjunar]
    Skrifstofan sem tilkynnir um synjun getur hvenær sem er afturkallað hana að nokkru eða öllu leyti.


13. gr.

Sérstakar kröfur um samstæða hönnun.

1.    [Tilkynning um sérstakar kröfur]
    Sérhver samningsaðili þar sem lög krefjast þess, þegar hann verður aðili að samningi þessum, að hönnun, sem er efni einnar og sömu umsóknar, fari eftir kröfu um samstæða hönnun, samstæða framleiðslu eða samstæða notkun, eða tilheyri sömu samstæðu eða samsetningu hluta, eða að einungis megi gera kröfu til einnar, sjálfstæðrar og aðskilinnar hönnunar í einni umsókn, getur tilkynnt aðalframkvæmdastjóranum slíkt með skriflegri yfirlýsingu. Hins vegar skal engin slík yfirlýsing hafa áhrif á rétt umsækjandans til þess að steypa minnst tvenns konar hönnun á sviði iðnaðar saman í eina alþjóðlega umsókn skv. 4. mgr. 5. gr. jafnvel þótt samningsaðilinn, sem gefið hefur út yfirlýsinguna, sé tilnefndur í umsókninni.
2.    [Áhrif yfirlýsingar]
    Sérhver slík yfirlýsing skal gera skrifstofu samningsaðilans sem gaf hana út kleift að synja áhrifum alþjóðlegu skráningarinnar skv. 1. mgr. 12. gr. uns orðið verður við kröfunni sem samningsaðilinn tilkynnti um.

3.    [Frekari gjöld sem greiða skal við skiptingu alþjóðlegrar skráningar]
    Þegar alþjóðlegri skráningu er skipt gagnvart viðkomandi skrifstofu í kjölfar tilkynningar um synjun skv. 2. mgr. í því skyni að vinna bug á ástæðunni fyrir synjun sem skráð er í tilkynningunni skal skrifstofunni heimilt að krefjast gjalds vegna hverrar frekari alþjóðlegrar umsóknar sem nauðsynleg hefði orðið til þess að komast hjá synjunarástæðu þessari.


14. gr.

Áhrif alþjóðlegrar skráningar.

1.    [Áhrif sem umsókn samkvæmt gildandi lögum]
    Alþjóðlega skráningin skal frá dagsetningu hennar hafa a.m.k. sömu áhrif hjá hverjum tilnefndum samningsaðila og almenn innlögð umsókn um veitingu verndar á hönnun á sviði iðnaðar samkvæmt lögum þess samningsaðila.

2.    [Áhrif sem veiting verndar samkvæmt gildandi lögum]
    a)    Hjá sérhverjum tilnefndum samningsaðila, þar sem skrifstofan hefur ekki kunngert synjun skv. 12. gr., skal alþjóðlega skráningin hafa sömu áhrif og veiting verndar á hönnun á sviði iðnaðar samkvæmt lögum þess samningsaðila í síðasta lagi frá þeim degi er fresturinn rennur út sem skrifstofunni var veittur til að tilkynna um synjun eða, þegar samningsaðili hefur gefið út hliðstæða yfirlýsingu samkvæmt reglugerðinni, í síðasta lagi frá þeim degi sem tilgreindur er í þeirri yfirlýsingu.

    b)    Þegar skrifstofa tilnefnds samningsaðila hefur tilkynnt um synjun og hefur síðar að nokkru eða öllu leyti afturkallað þá synjun skal alþjóðlega skráningin, að svo miklu leyti sem synjunin er afturkölluð, hafa sömu áhrif hjá þeim samningsaðila og veiting verndar á hönnun á sviði iðnaðar samkvæmt lögum samningsaðilans í síðasta lagi frá þeim degi er synjunin var afturkölluð.

    c)    Áhrif sem veitt eru alþjóðlegri skráningu samkvæmt þessari málsgrein skulu gilda um eina hönnun eða fleiri á sviði iðnaðar, sem er efni þeirrar skráningar eins og hún var þegar hún barst tilnefndu skrifstofunni frá alþjóðaskrifstofunni eða, þar sem við á, eins og henni var breytt við málsmeðferð hjá þeirri skrifstofu.
3.    [Yfirlýsing um áhrif tilnefningar samningsaðila umsækjanda]
    a)    Sérhver samningsaðili með skrifstofu sem er rannsóknarstofa getur með skriflegri yfirlýsingu tilkynnt aðalframkvæmdastjóranum að í þeim tilvikum sem hann er samningsaðili umsækjandans skuli tilnefning þess samningsaðila í alþjóðlegri skráningu ekki hafa nokkur áhrif.
    b)    Þegar samningsaðili, sem gefið hefur út yfirlýsingu skv. a-lið, er tilgreindur í alþjóðlegri umsókn bæði sem samningsaðili umsækjanda og tilnefndur samningsaðili skal alþjóðaskrifstofan virða tilnefningu þess samningsaðila að vettugi.


15. gr.

Ógilding.

1.    [Krafa um tækifæri til varnar]
    Þar til bær yfirvöld tilnefnds samningsaðila mega ekki úrskurða um ógildingu á áhrifum alþjóðlegu skráningarinnar að nokkru eða öllu leyti á landsvæði þess samningsaðila, nema eiganda hafi með góðum fyrirvara verið gefið tækifæri til þess að verja réttindi sín.

2.    [Tilkynning um ógildingu]
    Skrifstofa samningsaðila á landsvæði því sem áhrif alþjóðlegu skráningarinnar hafa verið ógilt á skal, þegar hún verður áskynja um ógildinguna, tilkynna alþjóðaskrifstofunni um hana.


16. gr.

Skráning á breytingum og öðrum málefnum varðandi alþjóðlegar skráningar.

1.    [Skráning á breytingum og öðrum málefnum]
    Alþjóðaskrifstofan skal eins og kveðið er á um skrásetja í alþjóðaskrána:
         i)    sérhver eigendaskipti á alþjóðlegu skráningunni varðandi einhvern eða alla tilnefnda samningsaðila og einhverja eða sérhverja hönnun á sviði iðnaðar sem er efni alþjóðlegu skráningarinnar, svo framarlega sem nýja eigandanum er heimilt að leggja inn alþjóðlega umsókn skv. 3. gr.,

         ii)    sérhverja breytingu á nafni eða heimilisfangi eiganda,
         iii)    skipun umboðsmanns umsækjanda eða eiganda og sérhverjar aðrar staðreyndir sem máli skipta um slíkan umboðsmann,

         iv)    sérhverja höfnun eiganda á alþjóðlegu skráningunni með tilliti til einhvers eða allra tilnefndra samningsaðila,

         v)    sérhverjar takmarkanir eiganda á alþjóðlegu skráningunni, með tilliti til einhvers eða allra tilnefndra samningsaðila, við einhverja eða sérhverja hönnun á sviði iðnaðar sem er efni alþjóðlegu skráningarinnar,
         vi)    sérhverja ógildingu þar til bærra yfirvalda tilnefnds samningsaðila á áhrifum alþjóðlegu skráningarinnar á landsvæði þess samningsaðila varðandi einhverja eða sérhverja hönnun á sviði iðnaðar sem er efni alþjóðlegu skráningarinnar,


         vii)    sérhverjar aðrar staðreyndir sem máli skipta og tilgreindar eru í reglugerðinni varðandi réttindi til einhverrar eða sérhverrar hönnunar á sviði iðnaðar sem er efni alþjóðlegu skráningarinnar.
2.    [Áhrif skrásetningar í alþjóðaskrána]
    Sérhver skrásetning skv. i-, ii-, iv-, v-, vi- og vii- liðum 1. mgr. skal hafa sömu áhrif og hún hefði haft með skráningu í skrá skrifstofu sérhvers hlutaðeigandi samningsaðila en samningsaðili getur þó með skriflegri yfirlýsingu tilkynnt aðalframkvæmdastjóranum að skrásetning skv. i-lið 1. mgr. skuli ekki hafa þau áhrif hjá þeim samningsaðila fyrr en skrifstofu samningsaðilans hafa borist yfirlýsingar eða skjöl sem tilgreind eru í yfirlýsingunni.

3.    [Gjöld]
    Krefjast má gjalds fyrir sérhverja skrásetningu skv. 1. mgr.
4.    [Birting]
    Alþjóðaskrifstofan skal birta tilkynningar um sérhverja skrásetningu skv. 1. mgr. Hún skal senda eintak af birtingu tilkynningarinnar til skrifstofa allra hlutaðeigandi samningsaðila.


17. gr.

Upphafstímabil og endurnýjun alþjóðlegrar skráningar og lengd verndar.

1.    [Upphafstímabil alþjóðlegu skráningarinnar]
    Upphafstímabil alþjóðlegu skráningarinnar skal vera fimm ár frá dagsetningu alþjóðlegu skráningarinnar.
2.    [Endurnýjun alþjóðlegu skráningarinnar]
    Alþjóðlegu skráninguna má endurnýja önnur fimm ár til viðbótar samkvæmt tilskilinni meðferð gegn greiðslu gjalda þeirra sem kveðið er á um.
3.    [Lengd verndar hjá tilnefndum samningsaðilum]

    a)    Að því tilskildu að alþjóðlega skráningin sé endurnýjuð og með fyrirvara um b-lið skal lengd verndar hjá hverjum tilnefndum samningsaðila vera 15 ár frá dagsetningu alþjóðlegu skráningarinnar.

    b)    Þegar lög tilnefnds samningsaðila kveða á um lengri vernd en 15 ár á hönnun á sviði iðnaðar þar sem vernd hefur verið veitt samkvæmt þeim lögum skal lengd verndar, að því tilskildu að alþjóðlega skráningin sé endurnýjuð, vera hin sama og sú sem lög þess samningsaðila kveða á um.

    c)    Sérhver samningsaðili skal með skriflegri yfirlýsingu tilkynna aðalframkvæmdastjóranum um hámarkstíma verndar samkvæmt lögum sínum.
4.    [Möguleiki á takmarkaðri endurnýjun]
    Endurnýjun alþjóðlegrar skráningar má framkvæma fyrir einhvern eða alla tilnefnda samningsaðila og fyrir einhverja eða sérhverja hönnun á sviði iðnaðar sem er efni alþjóðlegu skráningarinnar.
5.    [Skrásetning og birting endurnýjunar]
    Alþjóðaskrifstofan skal skrásetja endurnýjanir í alþjóðaskránni og birta tilkynningu þess efnis. Hún skal senda eintak af birtingu tilkynningarinnar til skrifstofa allra hlutaðeigandi samningsaðila.


18. gr.

Upplýsingar um birtar alþjóðlegar skráningar.


1.    [Aðgangur að upplýsingum]
    Alþjóðaskrifstofan skal útvega öllum sem um það sækja og greitt hafa tilskilið gjald útdrætti úr alþjóðaskránni, eða upplýsingar um efni skrárinnar, að því er snertir alþjóðlegar skráningar sem birtar hafa verið.

2.    [Undantekning frá löggildingu]
    Útdrættir úr alþjóðaskránni, sem lagðir eru fram af hálfu alþjóðaskrifstofunnar, skulu undanþegnir skilyrðum um löggildingu hjá hverjum einstökum samningsaðila.

II. KAFLI

STJÓRNUNARÁKVÆÐI

19. gr.

Sameiginleg skrifstofa nokkurra ríkja.

1.    [Tilkynning um sameiginlega skrifstofu]
    Ef ríki sem áforma aðild að samningi þessum, eða ríki sem eru aðilar að samningi þessum, eru sammála um að hrinda í framkvæmd samræmingu á landslögum sínum um hönnun á sviði iðnaðar geta þau tilkynnt aðalframkvæmdastjóranum:
         i)    að sameiginleg skrifstofa skuli koma í staðinn fyrir landsskrifstofu hjá hverju þeirra, og
         ii)    að öll landsvæði þeirra hvers um sig þar sem hin samræmda löggjöf skal gilda skuli talin einn samningsaðili hvað snertir beitingu 1. gr., 3.–18. gr. og 31. gr. samnings þessa.

2.    [Tímasetning tilkynningar]
    Tilkynningar skv. 1. mgr. skulu:

         i)    ríki sem áforma að gerast aðilar að samningi þessum gefa út þegar lögð eru fram skjöl skv. 2. mgr. 27. gr.;

         ii)    aðildarríki að samningi þessum gefa út hvenær sem er eftir að samræming á landslögum hefur verið hrundið í framkvæmd.
3.    [Dagsetning gildistöku tilkynningarinnar].
    Tilkynning skv. 1. og 2. mgr. skal öðlast gildi:

         i)    þegar ríki sem áforma að gerast aðilar að samningi þessum verða bundin af honum;

         ii)    að því er varðar ríki sem eru aðilar að samningi þessum, þremur mánuðum eftir dagsetningu tilkynningar þar að lútandi frá aðalframkvæmdastjóranum til hinna samningsaðilanna, eða síðar eins og gefið er til kynna í tilkynningunni.

20. gr.

Aðild að Haagsambandinu.

Samningsaðilar skulu vera aðilar að sama sambandi og ríkin sem eru aðilar að samningunum frá 1934 eða 1960.

21. gr.

Þing.

1.    [Skipan]
    a)    Samningsaðilar skulu vera aðilar að sama þingi og ríkin sem bundin eru af 2. gr. viðaukasamningsins frá 1967.

    b)    Hver aðili að þinginu skal hafa einn fulltrúa á þinginu en honum til aðstoðar mega vera varafulltrúar, ráðgjafar og sérfræðingar og má hver fulltrúi aðeins hafa umboð fyrir einn samningsaðila.
    c)    Aðilar að sambandinu sem ekki eru aðilar að þinginu geta sótt þingfundi sem áheyrnarfulltrúar.
2.    [Störf]
    a)    Þingið skal:
         i)    fást við öll málefni varðandi viðgang og þróun sambandsins og framkvæmd samnings þessa;

         ii)    neyta þeirra réttinda og vinna þau störf sem því eru sérstaklega veitt eða falin samkvæmt samningi þessum eða viðaukasamningnum frá 1967;
         iii)    gefa aðalframkvæmdastjóranum fyrirmæli varðandi undirbúning að ráðstefnum um endurskoðun og ákveða boðun til sérhverrar ráðstefnu af þeim toga;
         iv)    breyta reglugerðinni;
         v)    endurskoða og samþykkja skýrslur og athafnir aðalframkvæmdastjórans varðandi sambandið og gefa honum öll nauðsynleg fyrirmæli varðandi málefni á valdsviði sambandsins;

         vi)    ákvarða framkvæmdaáætlun og samþykkja tveggja ára fjárhagsáætlun sambandsins, svo og samþykkja reikninga þess;
         vii)    samþykkja fjármálareglugerð sambandsins;
         viii)    skipa þær nefndir og starfshópa sem það álítur við hæfi til þess að ná markmiðum sambandsins;
         ix)    ákvarða hvaða ríki, milliríkjastofnanir og frjáls félagasamtök geti sótt fundi þess sem áheyrnarfulltrúar, sbr. þó c-lið 1. mgr.;

         x)    gera sérhverjar aðrar viðeigandi ráðstafanir í því skyni að efla markmið sambandsins og sinna sérhverri annarri starfsemi sem viðeigandi er samkvæmt samningi þessum.
    b)    Varðandi málefni sem eru einnig áhugaverð fyrir önnur sambönd sem stofnunin stjórnar skal þingið taka ákvarðanir sínar eftir að hafa hlustað á ráðgjöf samræmingarnefndar stofnunarinnar.

3.    [Ályktunarhæfi]
    a)    Þingið telst ályktunarhæft að því er atkvæðagreiðslu um tiltekið mál varðar ef helmingur þeirra aðila að þinginu, sem eru ríki og hafa atkvæðisrétt um málefnið, eru viðstaddir.
    b)    Þrátt fyrir ákvæði a-liðar getur þingið, ef þingfund sækja aðilar að þinginu, sem eru ríki er hafa rétt til að greiða atkvæði um tiltekið málefni og þingfulltrúar þeirra eru mættir, en tala þingaðila er lægri en nemur helmingi þingaðila en jafnhá eða hærri en nemur einum þriðja af tölu þingaðila sem eru ríki og hafa rétt til að greiða atkvæði um málefni þetta, tekið ákvarðanir, en að undanteknum ákvörðunum um þingsköp skulu allar þessar ákvarðanir því aðeins öðlast gildi að fullnægt sé skilyrðum þeim sem tilgreind verða hér á eftir. Alþjóðaskrifstofan skal koma framangreindum ákvörðunum til aðila þingsins sem eru ríki sem hafa rétt til að greiða atkvæði um tilgreint málefni en áttu ekki fulltrúa á þingfundi og skal bjóða þeim að greiða, innan þriggja mánaða frá dagsetningu tilkynningarinnar, skriflega atkvæði eða sitja hjá. Ef tala þeirra aðila sem að liðnum fresti þessum hafa greitt atkvæði á þennan hátt eða setið hjá nær þeim fjölda aðila er á vantaði til þess að fundurinn væri ályktunarhæfur skulu slíkar ákvarðanir öðlast gildi, að því tilskildu að nauðsynlegur meiri hluti sé enn fyrir hendi.


4.    [Ákvarðanataka á þinginu]
    a)    Þingið skal leitast við að taka ákvarðanir sínar samhljóða.
    b)    Þegar ekki er unnt að taka ákvörðun samhljóða skal viðkomandi mál afgreitt með atkvæðagreiðslu. Í slíku tilviki:
         i)    skal sérhver samningsaðili sem er ríki hafa eitt atkvæði og aðeins greiða atkvæði í eigin nafni, og
         ii)    getur sérhver samningsaðili sem er milliríkjastofnun greitt atkvæði í stað aðildarríkja sinna með atkvæðafjölda sem samsvarar tölu aðildarríkja hennar sem eru aðilar að samningi þessum og skal engin slík milliríkjastofnun taka þátt í atkvæðagreiðslunni ef eitthvert aðildarríkja stofnunarinnar beitir atkvæðisrétti sínum og öfugt.

    c)    Um málefni er varða einungis ríki sem bundin eru af 2. gr. viðaukasamningsins frá 1967 skulu samningsaðilar sem eru ekki bundnir af þessari grein ekki hafa atkvæðisrétt, en hins vegar skulu einungis hinir síðarnefndu hafa atkvæðisrétt um málefni er varða einungis samningsaðila.
5.    [Meiri hluti]
    a)    Til ákvarðana þingsins þarf tvo þriðju greiddra atkvæða, sbr. þó 2. mgr. 24. gr. og 2. mgr. 26. gr.
    b)    Hjáseta skal ekki talin sem atkvæði.
6.    [Fundir]
    a)    Þingið skal koma saman einu sinni annað hvert almanaksár til venjulegs fundar samkvæmt boðun aðalframkvæmdastjórans og, ef ekki eru óvenjulegar kringumstæður fyrir hendi, á sama tíma og sama stað og allsherjarþing stofnunarinnar.

    b)    Þingið skal koma saman til aukafunda þegar aðalframkvæmdastjórinn boðar þingið, annaðhvort að ósk eins fjórða þingaðila eða að eigin frumkvæði.

    c)    Aðalframkvæmdastjórinn skal undirbúa dagskrá hvers fundar.
7.    [Þingsköp]
    Þingið skal setja sér eigin þingsköp.


22. gr.

Alþjóðaskrifstofa.

1.    [Stjórnunarstörf]
    a)    Alþjóðaskrifstofan skal inna af hendi alþjóðlega skráningu og tengd störf, svo og öll önnur stjórnunarstörf varðandi sambandið.

    b)    Sér í lagi skal alþjóðaskrifstofan undirbúa fundina og sjá þinginu og þeim sérfræðinganefndum og vinnuhópum sem þingið kann að skipa fyrir skrifstofuþjónustu.

2.    [Aðalframkvæmdastjóri]
    Aðalframkvæmdastjórinn skal vera æðsti stjórnandi sambandsins og koma fram fyrir þess hönd.
3.    [Fundir aðrir en þingfundir]
    Aðalframkvæmdastjórinn skal kalla saman sérhverja nefnd og vinnuhóp sem þingið skipar og alla aðra fundi er fjalla um málefni sem skipta sambandið máli.
4.    [Hlutverk alþjóðaskrifstofunnar á þingi og öðrum fundum]
    a)    Aðalframkvæmdastjórinn og einstaklingar tilnefndir af honum skulu, án atkvæðisréttar, taka þátt í öllum fundum þingsins, nefnda og vinnuhópa sem þingið hefur skipað og öðrum fundum sem aðalframkvæmdastjórinn boðar til á vegum sambandsins.

    b)    Aðalframkvæmdastjórinn eða einhver úr starfsliðinu sem tilnefndur er af aðalframkvæmdastjóranum skal samkvæmt embættisskyldu gegna embætti ritara þingsins og nefnda, vinnuhópa og annarra funda sem tilgreindir eru í a-lið.
5.    [Ráðstefnur]
    a)    Alþjóðaskrifstofan skal, í samræmi við fyrirmæli þingsins, sinna undirbúningi fyrir endurskoðunarráðstefnur.

    b)    Alþjóðaskrifstofan getur við umræddan undirbúning haft samráð við milliríkjastofnanir og alþjóðleg og innlend frjáls félagasamtök.


    c)    Aðalframkvæmdastjórinn og einstaklingar tilnefndir af honum skulu, án atkvæðisréttar, taka þátt í umræðum á endurskoðunarráðstefnum.
6.    [Önnur störf]
    Alþjóðaskrifstofan skal inna af hendi öll önnur störf sem henni eru falin varðandi samning þennan.

23. gr.

Fjármál.

1.    [Fjárhagsáætlun]
    a)    Sambandið skal gera fjárhagsáætlun.
    b)    Fjárhagsáætlun sambandsins skal innihalda yfirlit um tekjur og gjöld fyrir sambandið og framlag þess til fjárhagsáætlunar um sameiginleg útgjöld sambandanna sem stofnunin stjórnar.
    c)    Útgjöld sem ekki er unnt að eigna sambandinu einu heldur einnig einu eða fleiri samböndum öðrum sem stofnunin stjórnar skulu talin sameiginleg útgjöld sambandanna. Hlutdeild sambandsins í slíkum sameiginlegum útgjöldum skal vera í hlutfalli við hagsmuni sambandsins í þeim.
2.    [Samræming við fjárhagsáætlanir annarra sambanda]
    Fjárhagsáætlun sambandsins skal gerð með tilhlýðilegu tilliti til krafna um samræmingu við fjárhagsáætlanir annarra sambanda sem stofnunin stjórnar.
3.    [Úrræði til að fjármagna fjárhagsáætlun]
    Fjárhagsáætlun sambandsins skal fjármögnuð með eftirtöldum úrræðum:
         i)    gjöldum tengdum alþjóðlegri skráningu;

         ii)    gjöldum fyrir aðra þjónustu sem alþjóðaskrifstofan innir af hendi til sambandsins;

         iii)    sölu á eða greiðslum fyrir rit alþjóðaskrifstofunnar varðandi sambandið;

         iv)    gjöfum, ánöfnunum og fjárframlögum;
         v)    leigu, vöxtum og ýmsum öðrum tekjum.

4.    [Ákvörðun gjalda; fjárhæð fjárhagsáætlunar]

    a)    Fjárhæð gjalda skv. i-lið 3. mgr. skal að tillögu aðalframkvæmdastjórans ákvörðuð af þinginu. Gjöld skv. ii-lið 3. mgr. skulu ákvörðuð af aðalframkvæmdastjóranum og skal beitt tímabundið með fyrirvara um samþykki þingsins á næsta fundi þess.

    b)    Fjárhæð gjalda skv. i-lið 3. mgr. skal ákvörðuð þannig að tekjur sambandsins af gjöldum og öðrum tekjulindum skuli a.m.k. nægja til þess að greiða allan kostnað alþjóðaskrifstofunnar vegna sambandsins.

    c)    Ef fjárhagsáætlunin er ekki samþykkt fyrir byrjun nýs fjárhagsárs skal hún vera á sama þrepi og fjárhagsáætlun undanfarandi árs eins og kveðið er á um í fjármálareglugerðinni.

5.    [Rekstrarfjársjóður]
    Sambandið skal hafa rekstrarfjársjóð sem skal myndaður af tekjum umfram skuldir og skal beita eingreiðslu frá sérhverjum aðila sambandsins ef þetta umframfé hrekkur ekki til. Ef sjóðurinn reynist ekki nægur skal þingið ákveða að efla hann. Þingið skal að tillögu aðalframkvæmdastjórans ákveða hlutfallið og greiðsluskilmála.

6.    [Lán frá gistiríkinu]
    a)    Í aðalstöðvasamningi sem gerður er við gistiríkið þar sem aðalstöðvar stofnunarinnar eru skal vera ákvæði þess efnis að hlutaðeigandi ríki skuli veita lán hvenær sem rekstrarfjársjóður reynist ekki nægur. Í hverju tilviki skal kveðið á um fjárhæð slíkra lána og skilmála um veitingu þeirra í sérsamningum milli viðkomandi ríkis og stofnunarinnar.


    b)    Ríkið sem vísað er til í a-lið og stofnunin skulu hvort um sig eiga rétt til þess að segja upp kvöðinni um lánveitingar með skriflegri tilkynningu. Uppsögnin skal öðlast gildi að þremur árum liðnum frá lokum þess árs er hún var tilkynnt.
7.    [Endurskoðun reikninga]
    Endurskoðun reikninga skal framkvæmd af hálfu eins eða fleiri ríkja sem eru aðilar að sambandinu eða af utanaðkomandi endurskoðendum, eins og kveðið er á um í fjármálareglugerðinni. Þeir skulu tilnefndir af þinginu með samþykki þeirra.

24. gr.

Reglugerð.

1.    [Viðfangsefni]
    Í reglugerðinni skal kveða nánar á um framkvæmd samnings þessa. Þar skal einkum kveða á um:
         i)    málefni sem samningur þessi kveður beinlínis á um að mælt skuli fyrir um;
         ii)    fleiri nauðsynleg eða gagnleg atriði við framkvæmd ákvæða samnings þessa;

         iii)    sérhver stjórnunarskilyrði, málefni eða málsmeðferð.
2.    [Breytingar á vissum ákvæðum reglugerðarinnar]

    a)    Í reglugerðinni má taka sérstaklega fram að vissum ákvæðum hennar megi einungis breyta með einróma samþykki eða einungis með fjórum fimmtu hlutum atkvæða.
    b)    Til ákvörðunar um að krafan um einróma samþykki eða fjóra fimmtu hluta atkvæða gildi ekki lengur varðandi breytingu á ákvæði reglugerðarinnar í framtíðinni skal krafist einróma samþykkis.
    c)    Til ákvörðunar um að krafan um einróma samþykki eða fjóra fimmtu hluta atkvæða gildi í framtíðinni um breytingu á ákvæði reglugerðarinnar skal krafist fjögurra fimmtu hluta atkvæða.

3.    [Ósamræmi milli samnings þessa og reglugerðarinnar]
    Ef um er að ræða ósamræmi milli ákvæða samnings þessa og ákvæða reglugerðarinnar skulu hin fyrrnefndu ganga framar.

III. KAFLI

ENDURSKOÐUN OG BREYTING

25. gr.

Endurskoðun samnings þessa.

1.    [Endurskoðunarráðstefnur]
    Ráðstefna samningsaðila getur endurskoðað samning þennan.
2.    [Endurskoðun eða breyting á vissum greinum]
    Ákvæðum 21., 22., 23. og 26. gr. má breyta annaðhvort á endurskoðunarráðstefnu eða þinginu samkvæmt ákvæðum 26. gr.

26. gr.

Breytingar þingsins á vissum greinum.

1.    [Tillögur um breytingu]
    a)    Sérhver samningsaðili eða aðalframkvæmdastjórinn má leggja fram tillögur um breytingar af hálfu þingsins á 21., 22. og 23. gr. ásamt þessari grein.
    b)    Slíkar tillögur skal aðalframkvæmdastjórinn senda samningsaðilum a.m.k. sex mánuðum áður en þær koma til umfjöllunar þingsins.

2.    [Meiri hluti]
    Til þess að samþykkja breytingar á greinunum sem vísað er til í 1. mgr. þarf þrjá fjórðu hluta atkvæða, að því undanskildu að til breytinga á 21. gr. eða þessari málsgrein þarf fjóra fimmtu hluta atkvæða.
3.    [Gildistaka]
    a)    Sérhverjar breytingar á þeim greinum sem vísað er til í 1. mgr. skulu, nema þar sem b-liður á við, öðlast gildi einum mánuði eftir að skriflegar tilkynningar, sem gefnar hafa verið um staðfestingu samkvæmt stjórnskipulegri meðferð hvers fyrir sig, hafa borist aðalframkvæmdastjóra frá þremur fjórðu hlutum þeirra samningsaðila sem voru aðilar að þinginu og áttu rétt til að greiða atkvæði um breytinguna þegar hún hlaut samþykki.

    b)    Sérhver breyting á 3. eða 4. mgr. 21. gr. eða þessum lið skal ekki öðlast gildi ef einhver samningsaðila tilkynnir aðalframkvæmdastjóranum, innan sex mánaða frá því að þingið samþykkti slíka breytingu, að hann fallist ekki á hana.
    c)    Sérhver breyting sem öðlast gildi í samræmi við ákvæði þessarar málsgreinar skal skuldbinda öll ríkin og milliríkjastofnanir sem eru samningsaðilar á þeim tíma er breytingin öðlast gildi eða gerast samningsaðilar síðar.



IV. KAFLI

LOKAÁKVÆÐI

27. gr.

Aðild að samningi þessum.

1.    [Aðildarhæfi]
    Með fyrirvara um 2. og 3. mgr. og 28. gr.:
         i)    getur sérhvert ríki, sem er aðili að stofnuninni, undirritað samning þennan og gerst aðili að honum;
         ii)    getur sérhver milliríkjastofnun, sem rekur skrifstofu þar sem unnt er að öðlast vernd á hönnun á sviði iðnaðar sem gildir á landsvæðinu þar sem stofnsamningur milliríkjastofnunarinnar gildir, undirritað samning þennan og gerst aðili að honum, að því tilskildu að a.m.k. eitt af aðildarríkjum milliríkjastofnunarinnar sé aðili að stofnuninni og slík skrifstofa sé ekki háð tilkynningu skv. 19. gr.



2.    [Fullgilding eða aðild]
    Sérhvert ríki eða milliríkjastofnun sem vísað er til í 1. mgr. getur afhent til vörslu:
         i)    skjal um fullgildingu ef það hefur undirritað samning þennan, eða
         ii)    skjal um aðild ef það hefur ekki undirritað samning þennan.
3.    [Virk dagsetning afhendingar]
    a)    Með fyrirvara um b–d-lið skal virk dagsetning afhendingar fullgildingar- eða aðildarskjals til vörslu vera dagurinn þegar skjalið er afhent til vörslu.
    b)    Virk dagsetning afhendingar til vörslu á fullgildingar- eða aðildarskjali ríkis, þar sem einungis er unnt að fá vernd á hönnun á sviði iðnaðar fyrir milligöngu skrifstofu milliríkjastofnunar sem það ríki er aðili að, skal vera dagurinn þegar skjal milliríkjastofnunarinnar er afhent til vörslu ef sá dagur er síðar en dagurinn þegar skjal framangreinds ríkis var afhent til vörslu.


    c)    Virk dagsetning afhendingar til vörslu á fullgildingar- eða aðildarskjali er geymir tilkynningu skv. 19. gr., eða hún fylgir skjalinu, skal vera dagurinn þegar afhent er til vörslu hið síðasta af skjölum aðildarríkjanna sem eru í þeim hópi ríkja er hafa staðið að fyrrgreindri tilkynningu.
    d)    Sérhvert fullgildingar- eða aðildarskjal getur innihaldið, eða því getur fylgt, yfirlýsing sem gerir það að skilyrði fyrir því að það sé talið hafa verið afhent til vörslu að einnig sé afhent til vörslu skjal eins annars ríkis eða einnar milliríkjastofnunar, eða skjöl frá tveimur öðrum ríkjum, eða skjöl eins annars ríkis og einnar milliríkjastofnunar sem tilgreind er með nafni og getur gerst aðili að samningi þessum. Skjalið sem geymir slíka yfirlýsingu eða hún fylgir skal talið hafa verið afhent til vörslu þann dag er skilyrðinu er fullnægt sem tilgreint er í yfirlýsingunni. Hins vegar þegar skjal sem tilgreint er í sjálfri yfirlýsingunni geymir, eða því fylgir, yfirlýsing af umræddum toga skal skjalið talið afhent til vörslu þann dag er skilyrðinu er fullnægt sem tilgreint er í seinni yfirlýsingunni.



    e)    Sérhverja yfirlýsingu sem gefin er út skv. d-lið má afturkalla hvenær sem er, annaðhvort í heild sinni eða að hluta. Slík afturköllun verður virk sama dag og tilkynning um afturköllun berst aðalframkvæmdastjóranum.


28. gr.

Virk dagsetning gildistöku fullgildingar og aðildar.

1.    [Skjöl sem taka skal tillit til]
    Samkvæmt þessari grein skal einungis taka tillit til fullgildingar- eða aðildarskjala sem ríki eða milliríkjastofnanir skv. 1. mgr. 27. gr. afhenda til vörslu og þar sem dagsetning skv. 3. mgr. 27. gr. er virk.

2.    [Gildistaka samnings þessa]
    Samningur þessi öðlast gildi þremur mánuðum eftir að sex ríki hafa afhent fullgildingar- eða aðildarskjöl sín til vörslu, að því tilskildu að samkvæmt nýjustu árlegu hagskýrslu sem alþjóðaskrifstofan tekur saman fullnægi a.m.k. þrjú þessara ríkja a.m.k. öðru eftirfarandi skilyrða:

         i)    a.m.k. 3.000 umsóknir um vernd á hönnun á sviði iðnaðar hafi verið lagðar inn hjá hlutaðeigandi ríki eða fyrir það, eða
         ii)    a.m.k. 1.000 umsóknir um vernd á hönnun á sviði iðnaðar hafi verið lagðar inn hjá hlutaðeigandi ríki eða fyrir það af hálfu íbúa í öðrum ríkjum en því.

3.    [Gildistaka fullgildingar og aðildar]

    a)    Sérhvert ríki eða milliríkjastofnun, sem afhent hefur til vörslu fullgildingar- eða aðildarskjal sitt þremur mánuðum fyrir gildistöku samnings þessa eða fyrr, skal bundið af samningi þessum á gildistökudegi hans.

    b)    Sérhvert annað ríki eða milliríkjastofnun skal bundin af samningi þessum að liðnum þremur mánuðum frá þeim degi er það afhenti til vörslu fullgildingar- eða aðildarskjal sitt eða frá síðari degi sem tilgreindur er í því skjali.


29. gr.

Bann við fyrirvörum.

    Enga fyrirvara má gera við samning þennan.

30. gr.

Yfirlýsingar af hálfu samningsaðila.

1.    [Hvenær gefa má út yfirlýsingar]
    Sérhverjar yfirlýsingar skv. b-lið 1. mgr. 4. gr., a- lið 2. mgr. 5. gr., 2. mgr. 7. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 13. gr., 3. mgr. 14. gr., 2. mgr. 16. gr. eða c- lið 3. mgr. 17. gr. má gefa út:
         i)    þegar afhent er til vörslu skjal skv. 2. mgr. 27. gr. sem verður þá virkt þann dag er ríkið eða milliríkjastofnunin verður bundin af samningi þessum eftir að hafa gefið út yfirlýsinguna, eða


         ii)    þegar afhent hefur verið til vörslu skjal skv. 2. mgr. 27. gr. sem verður þá virkt að liðnum þremur mánuðum frá þeim degi er það berst í hendur aðalframkvæmdastjóranum, eða frá síðari degi sem tilgreindur er í yfirlýsingunni, en skal einungis gilda með tilliti til alþjóðlegra skráninga með sama eða seinni skráningardag en virk dagsetning yfirlýsingarinnar.

2.    [Yfirlýsingar af hálfu ríkja með sameiginlega skrifstofu]
    Þrátt fyrir 1. mgr. skal sérhver yfirlýsing samkvæmt þeirri málsgrein, sem gefin er út af hálfu ríkis sem hefur ásamt öðru ríki eða ríkjum tilkynnt aðalframkvæmdastjóranum skv. 1. mgr. 19. gr. að sameiginleg skrifstofa komi í stað landsskrifstofa þeirra, aðeins verða virk ef hitt ríkið eða hin ríkin gefa samsvarandi yfirlýsingu eða yfirlýsingar.

3.    [Afturköllun yfirlýsinga]
    Sérhverja yfirlýsingu skv. 1. mgr. má afturkalla hvenær sem er með tilkynningu sem stíluð skal á aðalframkvæmdastjórann. Slík afturköllun skal öðlast gildi að liðnum þremur mánuðum frá degi þeim er aðalframkvæmdastjóranum hefur borist tilkynningin eða frá síðari degi sem tilgreindur er í tilkynningunni. Þar sem yfirlýsing er gefin út skv. 2. mgr. 7. gr. skal afturköllunin ekki hafa áhrif á alþjóðlegar umsóknir sem lagðar hafa verið inn fyrir gildistöku framangreindrar afturköllunar.

31. gr.

Gildissvið samninganna frá 1934 og 1960.

1.    [Samskipti ríkja sem eru bæði aðilar að samningi þessum og samningnum frá 1934 eða 1960]
    Einungis samningur þessi skal gilda um gagnkvæm samskipti ríkja sem eru bæði aðilar að samningi þessum og samningnum frá 1934 eða 1960. Hins vegar skulu þessi ríki í gagnkvæmum samskiptum sínum beita samningnum frá 1934 eða samningnum frá 1960, eftir því sem við á, um hönnun á sviði iðnaðar sem lögð hefur verið inn hjá alþjóðaskrifstofunni fyrir þann dag er samningur þessi öðlast gildi varðandi gagnkvæm samskipti þeirra.
2.    [Samskipti milli ríkja sem eru bæði aðilar að samningi þessum og samningnum frá 1934 eða 1960, svo og ríkja sem eru aðilar að samningnum frá 1934 eða 1960 en ekki samningi þessum]
    a)    Sérhvert ríki, sem er bæði aðili að samningi þessum og samningnum frá 1934, skal halda áfram að beita samningnum frá 1934 í samskiptum sínum við ríki sem er aðili að samningnum frá 1934 en ekki að samningnum frá 1960 eða samningi þessum.
    b)    Sérhvert ríki, sem er bæði aðili að samningi þessum og samningnum frá 1960, skal halda áfram að beita samningnum frá 1960 í samskiptum sínum við ríki sem eru aðilar að samningnum frá 1960 en ekki að samningi þessum.

32. gr.

Uppsögn samnings þessa.

1.    [Tilkynning]
    Sérhver samningsaðili getur sagt samningi þessum upp með tilkynningu til aðalframkvæmdastjórans.
2.    [Virk dagsetning]
    Uppsögn skal öðlast gildi einu ári eftir þann dag er aðalframkvæmdastjóranum hefur borist tilkynningin eða á síðari degi sem tilgreindur er í tilkynningunni. Hún skal ekki hafa áhrif á beitingu samnings þessa um alþjóðlega umsókn sem bíður afgreiðslu og alþjóðlega skráningu sem við gildistöku uppsagnarinnar er í gildi gagnvart þeim samningsaðila er að uppsögn stendur.


33. gr.

Tungumál samnings þessa; undirritun.

1.    [Frumtextar; opinberir textar]
    a)    Samningur þessi skal undirritaður í einu frumriti á arabísku, ensku, frönsku, kínversku, rússnesku og spænsku og skulu allir textarnir jafngildir.
    b)    Aðalframkvæmdastjórinn skal, að höfðu samráði við ríkisstjórnir sem eiga hagsmuna að gæta, ganga frá opinberum textum á þeim tungumálum öðrum sem þingið kann að kveða á um.
2.    [Frestur til undirritunar]
    Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar í aðalstöðvum stofnunarinnar um eins árs skeið eftir samþykkt hans.

34. gr.

Vörsluaðili.

    Aðalframkvæmdastjórinn skal vera vörsluaðili samnings þessa.

GENEVA ACT OF THE HAGUE AGREEMENT CONCERNING THE INTERNATIONAL REGISTRATION OF INDUSTRIAL DESIGNS

INTRODUCTORY PROVISIONS

Article 1

Abbreviated Expressions

For the purposes of this Act:
(i)    “the Hague Agreement” means the Hague Agreement Concerning the International Deposit of Industrial Designs, henceforth renamed the Hague Agreement Concerning the International Registration of Industrial Designs;
(ii)    “this Act” means the Hague Agreement as established by the present Act;

(iii)    “Regulations” means the Regulations under this Act;
(iv)    “prescribed” means prescribed in the Regulations;
(v)    “Paris Convention” means the Paris Convention for the Protection of Industrial Property, signed at Paris on March 20, 1883, as revised and amended;

(vi)    “international registration” means the international registration of an industrial design effected according to this Act;
(vii)    “international application” means an application for international registration;
(viii)    “International Register” means the official collection of data concerning international registrations maintained by the International Bureau, which data this Act or the Regulations require or permit to be recorded, regardless of the medium in which such data are stored;
(ix)    “person” means a natural person or a legal entity;
(x)    “applicant” means the person in whose name an international application is filed;
(xi)    “holder” means the person in whose name an international registration is recorded in the International Register;
(xii)    “intergovernmental organization” means an intergovernmental organization eligible to become party to this Act in accordance with Article 27(1)(ii);
(xiii)    “Contracting Party” means any State or intergovernmental organization party to this Act;
(xiv)    “applicant's Contracting Party” means the Contracting Party or one of the Contracting Parties from which the applicant derives its entitlement to file an international application by virtue of satisfying, in relation to that Contracting Party, at least one of the conditions specified in Article 3; where there are two or more Contracting Parties from which the applicant may, under Article 3, derive its entitlement to file an international application, “applicant's Contracting Party” means the one which, among those Contracting Parties, is indicated as such in the international application;
(xv)    “territory of a Contracting Party” means, where the Contracting Party is a State, the territory of that State and, where the Contracting Party is an intergovernmental organization, the territory in which the constituent treaty of that intergovernmental organization applies;
(xvi)    “Office” means the agency entrusted by a Contracting Party with the grant of protection for industrial designs with effect in the territory of that Contracting Party;
(xvii)    “Examining Office” means an Office which ex officio examines applications filed with it for the protection of industrial designs at least to determine whether the industrial designs satisfy the condition of novelty;

(xviii)    “designation” means a request that an international registration have effect in a Contracting Party; it also means the recording, in the International Register, of that request;
(xix)    “designated Contracting Party” and “designated Office” means the Contracting Party and the Office of the Contracting Party, respectively, to which a designation applies;
(xx)    “1934 Act” means the Act signed at London on June 2, 1934, of the Hague Agreement;

(xxi)    “1960 Act” means the Act signed at The Hague on November 28, 1960, of the Hague Agreement;
(xxii)    “1961 Additional Act” means the Act signed at Monaco on November 18, 1961, additional to the 1934 Act;

(xxiii)    “Complementary Act of 1967” means the Complementary Act signed at Stockholm on July 14, 1967, as amended, of the Hague Agreement;
(xxiv)    “Union” means the Hague Union established by the Hague Agreement of November 6, 1925, and maintained by the 1934 and 1960 Acts, the 1961 Additional Act, the Complementary Act of 1967 and this Act;

(xxv)    “Assembly” means the Assembly referred to in Article 21(1)(a) or any body replacing that Assembly;
(xxvi)    “Organization” means the World Intellectual Property Organization;
(xxvii)    “Director General” means the Director General of the Organization;
(xxviii)    “International Bureau” means the International Bureau of the Organization;
(xxix)    “instrument of ratification” shall be construed as including instruments of acceptance or approval.

Article 2

Applicability of Other Protection Accorded by Laws of Contracting Parties and by Certain International Treaties

(1)    [Laws of Contracting Parties and Certain International Treaties]
    The provisions of this Act shall not affect the application of any greater protection which may be accorded by the law of a Contracting Party, nor shall they affect in any way the protection accorded to works of art and works of applied art by international copyright treaties and conventions, or the protection accorded to industrial designs under the Agreement on Trade-Related Aspects of Intellectual Property Rights annexed to the Agreement Establishing the World Trade Organization.
(2)    [Obligation to Comply with the Paris Convention]
    Each Contracting Party shall comply with the provisions of the Paris Convention which concern industrial designs.

CHAPTER I

INTERNATIONAL APPLICATION AND INTERNATIONAL REGISTRATION

Article 3

Entitlement to File an International Application

Any person that is a national of a State that is a Contracting Party or of a State member of an intergovernmental organization that is a Contracting Party, or that has a domicile, a habitual residence or a real and effective industrial or commercial establishment in the territory of a Contracting Party, shall be entitled to file an international application.

Article 4

Procedure for Filing the International Application

(1)    [Direct or Indirect Filing]
    (a)    The international application may be filed, at the option of the applicant, either directly with the International Bureau or through the Office of the applicant's Contracting Party.
    (b)    Notwithstanding subparagraph (a), any Contracting Party may, in a declaration, notify the Director General that international applications may not be filed through its Office.

(2)    [Transmittal Fee in Case of Indirect Filing]
    The Office of any Contracting Party may require that the applicant pay a transmittal fee to it, for its own benefit, in respect of any international application filed through it.

Article 5

Contents of the International Application

(1)    [Mandatory Contents of the International Application]
    The international application shall be in the prescribed language or one of the prescribed languages and shall contain or be accompanied by

         (i)    a request for international registration under this Act;
         (ii)    the prescribed data concerning the applicant;
         (iii)    the prescribed number of copies of a reproduction or, at the choice of the applicant, of several different reproductions of the industrial design that is the subject of the international application, presented in the prescribed manner; however, where the industrial design is two-dimensional and a request for deferment of publication is made in accordance with paragraph (5), the international application may, instead of containing reproductions, be accompanied by the prescribed number of specimens of the industrial design;
         (iv)    an indication of the product or products which constitute the industrial design or in relation to which the industrial design is to be used, as prescribed;
         (v)    an indication of the designated Contracting Parties;
         (vi)    the prescribed fees;
         (vii)    any other prescribed particulars.
(2)    [Additional Mandatory Contents of the International Application]
    (a)    Any Contracting Party whose Office is an Examining Office and whose law, at the time it becomes party to this Act, requires that an application for the grant of protection to an industrial design contain any of the elements specified in subparagraph (b) in order for that application to be accorded a filing date under that law may, in a declaration, notify the Director General of those elements.
    (b)    The elements that may be notified pursuant to subparagraph (a) are the following:
         (i)    indications concerning the identity of the creator of the industrial design that is the subject of that application;
         (ii)    a brief description of the reproduction or of the characteristic features of the industrial design that is the subject of that application;
         (iii)    a claim.
    (c)    Where the international application contains the designation of a Contracting Party that has made a notification under subparagraph (a), it shall also contain, in the prescribed manner, any element that was the subject of that notification.
(3)    [Other Possible Contents of the International Application]
    The international application may contain or be accompanied by such other elements as are specified in the Regulations.
(4)    [Several Industrial Designs in the Same International Application]
    Subject to such conditions as may be prescribed, an international application may include two or more industrial designs.
(5)    [Request for Deferred Publication]
    The international application may contain a request for deferment of publication.

Article 6

Priority

(1)    [Claiming of Priority]
    (a)    The international application may contain a declaration claiming, under Article 4 of the Paris Convention, the priority of one or more earlier applications filed in or for any country party to that Convention or any Member of the World Trade Organization.

    (b)    The Regulations may provide that the declaration referred to in subparagraph (a) may be made after the filing of the international application. In such case, the Regulations shall prescribe the latest time by which such declaration may be made.
(2)    [International Application Serving as a Basis for Claiming Priority]
    The international application shall, as from its filing date and whatever may be its subsequent fate, be equivalent to a regular filing within the meaning of Article 4 of the Paris Convention.

Article 7

Designation Fees

(1)    [Prescribed Designation Fee]
    The prescribed fees shall include, subject to paragraph (2), a designation fee for each designated Contracting Party.
(2)    [Individual Designation Fee]
    Any Contracting Party whose Office is an Examining Office and any Contracting Party that is an intergovernmental organization may, in a declaration, notify the Director General that, in connection with any international application in which it is designated, and in connection with the renewal of any international registration resulting from such an international application, the prescribed designation fee referred to in paragraph (1) shall be replaced by an individual designation fee, whose amount shall be indicated in the declaration and can be changed in further declarations. The said amount may be fixed by the said Contracting Party for the initial term of protection and for each term of renewal or for the maximum period of protection allowed by the Contracting Party concerned. However, it may not be higher than the equivalent of the amount which the Office of that Contracting Party would be entitled to receive from an applicant for a grant of protection for an equivalent period to the same number of industrial designs, that amount being diminished by the savings resulting from the international procedure.
(3)    [Transfer of Designation Fees]
    The designation fees referred to in paragraphs (1) and (2) shall be transferred by the International Bureau to the Contracting Parties in respect of which those fees were paid.

Article 8

Correction of Irregularities

(1)    [Examination of the International Application]
    If the International Bureau finds that the international application does not, at the time of its receipt by the International Bureau, fulfill the requirements of this Act and the Regulations, it shall invite the applicant to make the required corrections within the prescribed time limit.
(2)    [Irregularities Not Corrected]
    (a)    If the applicant does not comply with the invitation within the prescribed time limit, the international application shall, subject to subparagraph (b), be considered abandoned.
    (b)    In the case of an irregularity which relates to Article 5(2) or to a special requirement notified to the Director General by a Contracting Party in accordance with the Regulations, if the applicant does not comply with the invitation within the prescribed time limit, the international application shall be deemed not to contain the designation of that Contracting Party.

Article 9

Filing Date of the International Application

(1)    [International Application Filed Directly]
    Where the international application is filed directly with the International Bureau, the filing date shall, subject to paragraph (3), be the date on which the International Bureau receives the international application.
(2)    [International Application Filed Indirectly]
    Where the international application is filed through the Office of the applicant's Contracting Party, the filing date shall be determined as prescribed.
(3)    [International Application with Certain Irregularities]
    Where the international application has, on the date on which it is received by the International Bureau, an irregularity which is prescribed as an irregularity entailing a postponement of the filing date of the international application, the filing date shall be the date on which the correction of such irregularity is received by the International Bureau.

Article 10

International Registration, Date of the International Registration, Publication and Confidential Copies of the International Registration

(1)    [International Registration]
    The International Bureau shall register each industrial design that is the subject of an international application immediately upon receipt by it of the international application or, where corrections are invited under Article 8, immediately upon receipt of the required corrections. The registration shall be effected whether or not publication is deferred under Article 11.
(2)    [Date of the International Registration]
    (a)    Subject to subparagraph (b), the date of the international registration shall be the filing date of the international application.
    (b)    Where the international application has, on the date on which it is received by the International Bureau, an irregularity which relates to Article 5(2) , the date of the international registration shall be the date on which the correction of such irregularity is received by the International Bureau or the filing date of the international application, whichever is the later.
(3)    [Publication]
    (a)    The international registration shall be published by the International Bureau. Such publication shall be deemed in all Contracting Parties to be sufficient publicity, and no other publicity may be required of the holder.
    (b)    The International Bureau shall send a copy of the publication of the international registration to each designated Office.
(4)    [Maintenance of Confidentiality Before Publication]
    Subject to paragraph (5) and Article 11(4)(b), the International Bureau shall keep in confidence each international application and each international registration until publication.
(5)    [Confidential Copies]
    (a)    The International Bureau shall, immediately after registration has been effected, send a copy of the international registration, along with any relevant statement, document or specimen accompanying the international application, to each Office that has notified the International Bureau that it wishes to receive such a copy and has been designated in the international application.
    (b)    The Office shall, until publication of the international registration by the International Bureau, keep in confidence each international registration of which a copy has been sent to it by the International Bureau and may use the said copy only for the purpose of the examination of the international registration and of applications for the protection of industrial designs filed in or for the Contracting Party for which the Office is competent. In particular, it may not divulge the contents of any such international registration to any person outside the Office other than the holder of that international registration, except for the purposes of an administrative or legal proceeding involving a conflict over entitlement to file the international application on which the international registration is based. In the case of such an administrative or legal proceeding, the contents of the international registration may only be disclosed in confidence to the parties involved in the proceeding who shall be bound to respect the confidentiality of the disclosure.

Article 11

Deferment of Publication

(1)    [Provisions of Laws of Contracting Parties Concerning Deferment of Publication]
    (a)    Where the law of a Contracting Party provides for the deferment of the publication of an industrial design for a period which is less than the prescribed period, that Contracting Party shall, in a declaration, notify the Director General of the allowable period of deferment.
    (b)    Where the law of a Contracting Party does not provide for the deferment of the publication of an industrial design, the Contracting Party shall, in a declaration, notify the Director General of that fact.
(2)    [Deferment of Publication]
    Where the international application contains a request for deferment of publication, the publication shall take place,
         (i)    where none of the Contracting Parties designated in the international application has made a declaration under paragraph (1), at the expiry of the prescribed period or,
         (ii)    where any of the Contracting Parties designated in the international application has made a declaration under paragraph (1)(a), at the expiry of the period notified in such declaration or, where there is more than one such designated Contracting Party, at the expiry of the shortest period notified in their declarations.
(3)    [Treatment of Requests for Deferment Where Deferment Is Not Possible Under Applicable Law]
    Where deferment of publication has been requested and any of the Contracting Parties designated in the international application has made a declaration under paragraph (1)(b) that deferment of publication is not possible under its law,
         (i)    subject to item (ii), the International Bureau shall notify the applicant accordingly; if, within the prescribed period, the applicant does not, by notice in writing to the International Bureau, withdraw the designation of the said Contracting Party, the International Bureau shall disregard the request for deferment of publication;
         (ii)    where, instead of containing reproductions of the industrial design, the international application was accompanied by specimens of the industrial design, the International Bureau shall disregard the designation of the said Contracting Party and shall notify the applicant accordingly.
(4)    [Request for Earlier Publication or for Special Access to the International Registration]
    (a)    At any time during the period of deferment applicable under paragraph (2), the holder may request publication of any or all of the industrial designs that are the subject of the international registration, in which case the period of deferment in respect of such industrial design or designs shall be considered to have expired on the date of receipt of such request by the International Bureau.
    (b)    The holder may also, at any time during the period of deferment applicable under paragraph (2), request the International Bureau to provide a third party specified by the holder with an extract from, or to allow such a party access to, any or all of the industrial designs that are the subject of the international registration.
(5)    [Renunciation and Limitation]
    (a)    If, at any time during the period of deferment applicable under paragraph (2), the holder renounces the international registration in respect of all the designated Contracting Parties, the industrial design or designs that are the subject of the international registration shall not be published.
    (b)    If, at any time during the period of deferment applicable under paragraph (2), the holder limits the international registration, in respect of all of the designated Contracting Parties, to one or some of the industrial designs that are the subject of the international registration, the other industrial design or designs that are the subject of the international registration shall not be published.
(6)    [Publication and Furnishing of Reproductions]
    (a)    At the expiration of any period of deferment applicable under the provisions of this Article, the International Bureau shall, subject to the payment of the prescribed fees, publish the international registration. If such fees are not paid as prescribed, the international registration shall be canceled and publication shall not take place.
    (b)    Where the international application was accompanied by one or more specimens of the industrial design in accordance with Article 5(1)(iii), the holder shall submit the prescribed number of copies of a reproduction of each industrial design that is the subject of that application to the International Bureau within the prescribed time limit. To the extent that the holder does not do so, the international registration shall be canceled and publication shall not take place.

Article 12

Refusal

(1)    [Right to Refuse]
    The Office of any designated Contracting Party may, where the conditions for the grant of protection under the law of that Contracting Party are not met in respect of any or all of the industrial designs that are the subject of an international registration, refuse the effects, in part or in whole, of the international registration in the territory of the said Contracting Party, provided that no Office may refuse the effects, in part or in whole, of any international registration on the ground that requirements relating to the form or contents of the international application that are provided for in this Act or the Regulations or are additional to, or different from, those requirements have not been satisfied under the law of the Contracting Party concerned.
(2)    [Notification of Refusal]
    (a)    The refusal of the effects of an international registration shall be communicated by the Office to the International Bureau in a notification of refusal within the prescribed period.
    (b)    Any notification of refusal shall state all the grounds on which the refusal is based.
(3)    [Transmission of Notification of Refusal; Remedies]
    (a)    The International Bureau shall, without delay, transmit a copy of the notification of refusal to the holder.
    (b)    The holder shall enjoy the same remedies as if any industrial design that is the subject of the international registration had been the subject of an application for the grant of protection under the law applicable to the Office that communicated the refusal. Such remedies shall at least consist of the possibility of a re-examination or a review of the refusal or an appeal against the refusal.
(4)    [Withdrawal of Refusal]
    Any refusal may be withdrawn, in part or in whole, at any time by the Office that communicated it.

Article 13

Special Requirements Concerning Unity of Design

(1)    [Notification of Special Requirements]
    Any Contracting Party whose law, at the time it becomes party to this Act, requires that designs that are the subject of the same application conform to a requirement of unity of design, unity of production or unity of use, or belong to the same set or composition of items, or that only one independent and distinct design may be claimed in a single application, may, in a declaration, notify the Director General accordingly. However, no such declaration shall affect the right of an applicant to include two or more industrial designs in an international application in accordance with Article 5(4), even if the application designates the Contracting Party that has made the declaration.
(2)    [Effect of Declaration]
    Any such declaration shall enable the Office of the Contracting Party that has made it to refuse the effects of the international registration pursuant to Article 12(1) pending compliance with the requirement notified by that Contracting Party.
(3)    [Further Fees Payable on Division of Registration]
    Where, following a notification of refusal in accordance with paragraph (2), an international registration is divided before the Office concerned in order to overcome a ground of refusal stated in the notification, that Office shall be entitled to charge a fee in respect of each additional international application that would have been necessary in order to avoid that ground of refusal.

Article 14

Effects of the International Registration

(1)    [Effect as Application Under Applicable Law]
    The international registration shall, from the date of the international registration, have at least the same effect in each designated Contracting Party as a regularly-filed application for the grant of protection of the industrial design under the law of that Contracting Party.
(2)    [Effect as Grant of Protection Under Applicable Law]
    (a)    In each designated Contracting Party the Office of which has not communicated a refusal in accordance with Article 12, the international registration shall have the same effect as a grant of protection for the industrial design under the law of that Contracting Party at the latest from the date of expiration of the period allowed for it to communicate a refusal or, where a Contracting Party has made a corresponding declaration under the Regulations, at the latest at the time specified in that declaration.
    (b)    Where the Office of a designated Contracting Party has communicated a refusal and has subsequently withdrawn, in part or in whole, that refusal, the international registration shall, to the extent that the refusal is withdrawn, have the same effect in that Contracting Party as a grant of protection for the industrial design under the law of the said Contracting Party at the latest from the date on which the refusal was withdrawn.
    (c)    The effect given to the international registration under this paragraph shall apply to the industrial design or designs that are the subject of that registration as received from the International Bureau by the designated Office or, where applicable, as amended in the procedure before that Office.
(3)    [Declaration Concerning Effect of Designation of Applicant's Contracting Party]
    (a)    Any Contracting Party whose Office is an Examining Office may, in a declaration, notify the Director General that, where it is the applicant's Contracting Party, the designation of that Contracting Party in an international registration shall have no effect.

    (b)    Where a Contracting Party having made the declaration referred to in subparagraph (a) is indicated in an international application both as the applicant's Contracting Party and as a designated Contracting Party, the International Bureau shall disregard the designation of that Contracting Party.

Article 15

Invalidation

(1)    [Requirement of Opportunity of Defense]
    Invalidation, by the competent authorities of a designated Contracting Party, of the effects, in part or in whole, in the territory of that Contracting Party, of the international registration may not be pronounced without the holder having, in good time, been afforded the opportunity of defending his rights.
(2)    [Notification of Invalidation]
    The Office of the Contracting Party in whose territory the effects of the international registration have been invalidated shall, where it is aware of the invalidation, notify it to the International Bureau.

Article 16

Recording of Changes and Other Matters Concerning International Registrations

(1)    [Recording of Changes and Other Matters]
    The International Bureau shall, as prescribed, record in the International Register
         (i)    any change in ownership of the international registration, in respect of any or all of the designated Contracting Parties and in respect of any or all of the industrial designs that are the subject of the international registration, provided that the new owner is entitled to file an international application under Article 3,
         (ii)    any change in the name or address of the holder,
         (iii)    the appointment of a representative of the applicant or holder and any other relevant fact concerning such representative,
         (iv)    any renunciation, by the holder, of the international registration, in respect of any or all of the designated Contracting Parties,
         (v)    any limitation, by the holder, of the international registration, in respect of any or all of the designated Contracting Parties, to one or some of the industrial designs that are the subject of the international registration,
         (vi)    any invalidation, by the competent authorities of a designated Contracting Party, of the effects, in the territory of that Contracting Party, of the international registration in respect of any or all of the industrial designs that are the subject of the international registration,
         (vii)    any other relevant fact, identified in the Regulations, concerning the rights in any or all of the industrial designs that are the subject of the international registration.
(2)    [Effect of Recording in International Register]
    Any recording referred to in items (i), (ii), (iv), (v), (vi) and (vii) of paragraph (1) shall have the same effect as if it had been made in the Register of the Office of each of the Contracting Parties concerned, except that a Contracting Party may, in a declaration, notify the Director General that a recording referred to in item (i) of paragraph (1) shall not have that effect in that Contracting Party until the Office of that Contracting Party has received the statements or documents specified in that declaration.
(3)    [Fees]
    Any recording made under paragraph (1) may be subject to the payment of a fee.
(4)    [Publication]
    The International Bureau shall publish a notice concerning any recording made under paragraph (1). It shall send a copy of the publication of the notice to the Office of each of the Contracting Parties concerned.

Article 17

Initial Term and Renewal of the International Registration and Duration of Protection

(1)    [Initial Term of the International Registration]
    The international registration shall be effected for an initial term of five years counted from the date of the international registration.
(2)    [Renewal of the International Registration]
    The international registration may be renewed for additional terms of five years, in accordance with the prescribed procedure and subject to the payment of the prescribed fees.
(3)    [Duration of Protection in Designated Contracting Parties]
    (a)    Provided that the international registration is renewed, and subject to subparagraph (b), the duration of protection shall, in each of the designated Contracting Parties, be 15 years counted from the date of the international registration.
    (b)    Where the law of a designated Contracting Party provides for a duration of protection of more than 15 years for an industrial design for which protection has been granted under that law, the duration of protection shall, provided that the international registration is renewed, be the same as that provided for by the law of that Contracting Party.
    (c)    Each Contracting Party shall, in a declaration, notify the Director General of the maximum duration of protection provided for by its law.
(4)    [Possibility of Limited Renewal]
    The renewal of the international registration may be effected for any or all of the designated Contracting Parties and for any or all of the industrial designs that are the subject of the international registration.
(5)    [Recording and Publication of Renewal]
    The International Bureau shall record renewals in the International Register and publish a notice to that effect. It shall send a copy of the publication of the notice to the Office of each of the Contracting Parties concerned.

Article 18

Information Concerning Published International Registrations

(1)    [Access to Information]
    The International Bureau shall supply to any person applying therefor, upon the payment of the prescribed fee, extracts from the International Register, or information concerning the contents of the International Register, in respect of any published international registration.
(2)    [Exemption from Legalization]
    Extracts from the International Register supplied by the International Bureau shall be exempt from any requirement of legalization in each Contracting Party.

CHAPTER II

ADMINISTRATIVE PROVISIONS

Article 19

Common Office of Several States

(1)    [Notification of Common Office]
    If several States intending to become party to this Act have effected, or if several States party to this Act agree to effect, the unification of their domestic legislation on industrial designs, they may notify the Director General
         (i)    that a common Office shall be substituted for the national Office of each of them, and
         (ii)    that the whole of their respective territories to which the unified legislation applies shall be deemed to be a single Contracting Party for the purposes of the application of Articles 1, 3 to 18 and 31 of this Act.
(2)    [Time at Which Notification Is to Be Made]
    The notification referred to in paragraph (1) shall be made,
         (i)    in the case of States intending to become party to this Act, at the time of the deposit of the instruments referred to in Article 27(2);
         (ii)    in the case of States party to this Act, at any time after the unification of their domestic legislation has been effected.
(3)    [Date of Entry into Effect of the Notification]
    The notification referred to in paragraphs (1) and (2) shall take effect,
         (i)    in the case of States intending to become party to this Act, at the time such States become bound by this Act;
         (ii)    in the case of States party to this Act, three months after the date of the communication thereof by the Director General to the other Contracting Parties or at any later date indicated in the notification.

Article 20

Membership of the Hague Union

The Contracting Parties shall be members of the same Union as the States party to the 1934 Act or the 1960 Act.

Article 21

Assembly

(1)    [Composition]
    (a)    The Contracting Parties shall be members of the same Assembly as the States bound by Article 2 of the Complementary Act of 1967.
    (b)    Each member of the Assembly shall be represented in the Assembly by one delegate, who may be assisted by alternate delegates, advisors and experts, and each delegate may represent only one Contracting Party.
    (c)    Members of the Union that are not members of the Assembly shall be admitted to the meetings of the Assembly as observers.
(2)    [Tasks]
    (a)    The Assembly shall
         (i)    deal with all matters concerning the maintenance and development of the Union and the implementation of this Act;
         (ii)    exercise such rights and perform such tasks as are specifically conferred upon it or assigned to it under this Act or the Complementary Act of 1967;
         (iii)    give directions to the Director General concerning the preparations for conferences of revision and decide the convocation of any such conference;
         (iv)    amend the Regulations;
         (v)    review and approve the reports and activities of the Director General concerning the Union, and give the Director General all necessary instructions concerning matters within the competence of the Union;
         (vi)    determine the program and adopt the biennial budget of the Union, and approve its final accounts;

         (vii)    adopt the financial regulations of the Union;
         (viii)    establish such committees and working groups as it deems appropriate to achieve the objectives of the Union;
         (ix)    subject to paragraph (1)(c), determine which States, intergovernmental organizations and non-governmental organizations shall be admitted to its meetings as observers;
         (x)    take any other appropriate action to further the objectives of the Union and perform any other functions as are appropriate under this Act.

    (b)    With respect to matters which are also of interest to other Unions administered by the Organization, the Assembly shall make its decisions after having heard the advice of the Coordination Committee of the Organization.
(3)    [Quorum]
    (a)    One-half of the members of the Assembly which are States and have the right to vote on a given matter shall constitute a quorum for the purposes of the vote on that matter.
    (b)    Notwithstanding the provisions of subparagraph (a), if, in any session, the number of the members of the Assembly which are States, have the right to vote on a given matter and are represented is less than one-half but equal to or more than one-third of the members of the Assembly which are States and have the right to vote on that matter, the Assembly may make decisions but, with the exception of decisions concerning its own procedure, all such decisions shall take effect only if the conditions set forth hereinafter are fulfilled. The International Bureau shall communicate the said decisions to the members of the Assembly which are States, have the right to vote on the said matter and were not represented and shall invite them to express in writing their vote or abstention within a period of three months from the date of the communication. If, at the expiration of this period, the number of such members having thus expressed their vote or abstention attains the number of the members which was lacking for attaining the quorum in the session itself, such decisions shall take effect provided that at the same time the required majority still obtains.
(4)    [Taking Decisions in the Assembly]
    (a)    The Assembly shall endeavor to take its decisions by consensus.
    (b)    Where a decision cannot be arrived at by consensus, the matter at issue shall be decided by voting. In such a case,
         (i)    each Contracting Party that is a State shall have one vote and shall vote only in its own name, and
         (ii)    any Contracting Party that is an intergovernmental organization may vote, in place of its Member States, with a number of votes equal to the number of its Member States which are party to this Act, and no such intergovernmental organization shall participate in the vote if any one of its Member States exercises its right to vote, and vice versa.
    (c)    On matters concerning only States that are bound by Article 2 of the Complementary Act of 1967, Contracting Parties that are not bound by the said Article shall not have the right to vote, whereas, on matters concerning only Contracting Parties, only the latter shall have the right to vote.
(5)    [Majorities]
    (a)    Subject to Articles 24(2) and 26(2), the decisions of the Assembly shall require two- thirds of the votes cast.
    (b)    Abstentions shall not be considered as votes.
(6)    [Sessions]
    (a)    The Assembly shall meet once in every second calendar year in ordinary session upon convocation by the Director General and, in the absence of exceptional circumstances, during the same period and at the same place as the General Assembly of the Organization.
    (b)    The Assembly shall meet in extraordinary session upon convocation by the Director General, either at the request of one-fourth of the members of the Assembly or on the Director General's own initiative.
    (c)    The agenda of each session shall be prepared by the Director General.
(7)    [Rules of Procedure]
    The Assembly shall adopt its own rules of procedure.

Article 22

International Bureau

(1)    [Administrative Tasks]
    (a)    International registration and related duties, as well as all other administrative tasks concerning the Union, shall be performed by the International Bureau.
    (b)    In particular, the International Bureau shall prepare the meetings and provide the secretariat of the Assembly and of such committees of experts and working groups as may be established by the Assembly.
(2)    [Director General]
    The Director General shall be the chief executive of the Union and shall represent the Union.
(3)    [Meetings Other than Sessions of the Assembly]
    The Director General shall convene any committee and working group established by the Assembly and all other meetings dealing with matters of concern to the Union.
(4)    [Role of the International Bureau in the Assembly and Other Meetings]
    (a)    The Director General and persons designated by the Director General shall participate, without the right to vote, in all meetings of the Assembly, the committees and working groups established by the Assembly, and any other meetings convened by the Director General under the aegis of the Union.
    (b)    The Director General or a staff member designated by the Director General shall be ex officio secretary of the Assembly, and of the committees, working groups and other meetings referred to in subparagraph (a).

(5)    [Conferences]
    (a)    The International Bureau shall, in accordance with the directions of the Assembly, make the preparations for any revision conferences.
    (b)    The International Bureau may consult with intergovernmental organizations and international and national non-governmental organizations concerning the said preparations.
    (c)    The Director General and persons designated by the Director General shall take part, without the right to vote, in the discussions at revision conferences.
(6)    [Other Tasks]
    The International Bureau shall carry out any other tasks assigned to it in relation to this Act.


Article 23

Finances

(1)    [Budget]
    (a)    The Union shall have a budget.
    (b)    The budget of the Union shall include the income and expenses proper to the Union and its contribution to the budget of expenses common to the Unions administered by the Organization.
    (c)    Expenses not attributable exclusively to the Union but also to one or more other Unions administered by the Organization shall be considered to be expenses common to the Unions. The share of the Union in such common expenses shall be in proportion to the interest the Union has in them.
(2)    [Coordination with Budgets of Other Unions]

    The budget of the Union shall be established with due regard to the requirements of coordination with the budgets of the other Unions administered by the Organization.
(3)    [Sources of Financing of the Budget]
    The budget of the Union shall be financed from the following sources:
         (i)    fees relating to international registrations;
         (ii)    charges due for other services rendered by the International Bureau in relation to the Union;
         (iii)    sale of, or royalties on, the publications of the International Bureau concerning the Union;
         (iv)    gifts, bequests and subventions;
         (v)    rents, interests and other miscellaneous income.
(4)    [Fixing of Fees and Charges; Level of the Budget]
    (a)    The amounts of the fees referred to in paragraph (3)(i) shall be fixed by the Assembly on the proposal of the Director General. Charges referred to in paragraph 3(ii) shall be established by the Director General and shall be provisionally applied subject to approval by the Assembly at its next session.
    (b)    The amounts of the fees referred to in paragraph (3)(i) shall be so fixed that the revenues of the Union from fees and other sources shall be at least sufficient to cover all the expenses of the International Bureau concerning the Union.
    (c)    If the budget is not adopted before the beginning of a new financial period, it shall be at the same level as the budget of the previous year, as provided in the financial regulations.
(5)    [Working Capital Fund]
    The Union shall have a working capital fund which shall be constituted by the excess receipts and, if such excess does not suffice, by a single payment made by each member of the Union. If the fund becomes insufficient, the Assembly shall decide to increase it. The proportion and the terms of payment shall be fixed by the Assembly on the proposal of the Director General.
(6)    [Advances by Host State]
    (a)    In the headquarters agreement concluded with the State on the territory of which the Organization has its headquarters, it shall be provided that, whenever the working capital fund is insufficient, such State shall grant advances. The amount of those advances and the conditions on which they are granted shall be the subject of separate agreements, in each case, between such State and the Organization.
    (b)    The State referred to in subparagraph (a) and the Organization shall each have the right to denounce the obligation to grant advances, by written notification. Denunciation shall take effect three years after the end of the year in which it has been notified.
(7)    [Auditing of Accounts]
    The auditing of the accounts shall be effected by one or more of the States members of the Union or by external auditors, as provided in the financial regulations. They shall be designated, with their agreement, by the Assembly.

Article 24

Regulations

(1)    [Subject Matter]
    The Regulations shall govern the details of the implementation of this Act. They shall, in particular, include provisions concerning
         (i)    matters which this Act expressly provides are to be prescribed;
         (ii)    further details concerning, or any details useful in the implementation of, the provisions of this Act;
         (iii)    any administrative requirements, matters or procedures.
(2)    [Amendment of Certain Provisions of the Regulations]
    (a)    The Regulations may specify that certain provisions of the Regulations may be amended only by unanimity or only by a four-fifths majority.
    (b)    In order for the requirement of unanimity or a four-fifths majority no longer to apply in the future to the amendment of a provision of the Regulations, unanimity shall be required.
    (c)    In order for the requirement of unanimity or a four-fifths majority to apply in the future to the amendment of a provision of the Regulations, a four-fifths majority shall be required.
(3)    [Conflict Between This Act and the Regulations]
    In the case of conflict between the provisions of this Act and those of the Regulations, the former shall prevail.

CHAPTER III

REVISION AND AMENDMENT

Article 25

Revision of This Act

(1)    [Revision Conferences]
    This Act may be revised by a conference of the Contracting Parties.
(2)    [Revision or Amendment of Certain Articles]
    Articles 21, 22, 23 and 26 may be amended either by a revision conference or by the Assembly according to the provisions of Article 26.

Article 26

Amendment of Certain Articles by the Assembly

(1)    [Proposals for Amendment]
    (a)    Proposals for the amendment by the Assembly of Articles 21, 22, 23 and this Article may be initiated by any Contracting Party or by the Director General.
    (b)    Such proposals shall be communicated by the Director General to the Contracting Parties at least six months in advance of their consideration by the Assembly.
(2)    [Majorities]
    Adoption of any amendment to the Articles referred to in paragraph (1) shall require a three- fourths majority, except that adoption of any amendment to Article 21 or to the present paragraph shall require a four-fifths majority.
(3)    [Entry into Force]
    (a)    Except where subparagraph (b) applies, any amendment to the Articles referred to in paragraph (1) shall enter into force one month after written notifications of acceptance, effected in accordance with their respective constitutional processes, have been received by the Director General from three- fourths of those Contracting Parties which, at the time the amendment was adopted, were members of the Assembly and had the right to vote on that amendment.
    (b)    Any amendment to Article 21(3) or (4) or to this subparagraph shall not enter into force if, within six months of its adoption by the Assembly, any Contracting Party notifies the Director General that it does not accept such amendment.
    (c)    Any amendment which enters into force in accordance with the provisions of this paragraph shall bind all the States and intergovernmental organizations which are Contracting Parties at the time the amendment enters into force, or which become Contracting Parties at a subsequent date.

CHAPTER IV

FINAL PROVISIONS

Article 27

Becoming Party to This Act

(1)    [Eligibility]
    Subject to paragraphs (2) and (3) and Article 28,
         (i)    any State member of the Organization may sign and become party to this Act;

         (ii)    any intergovernmental organization which maintains an Office in which protection of industrial designs may be obtained with effect in the territory in which the constituting treaty of the intergovernmental organization applies may sign and become party to this Act, provided that at least one of the member States of the intergovernmental organization is a member of the Organization and provided that such Office is not the subject of a notification under Article 19.
(2)    [Ratification or Accession]
    Any State or intergovernmental organization referred to in paragraph (1) may deposit
         (i)    an instrument of ratification if it has signed this Act, or
         (ii)    an instrument of accession if it has not signed this Act.
(3)    [Effective Date of Deposit]
    (a)    Subject to subparagraphs (b) to (d), the effective date of the deposit of an instrument of ratification or accession shall be the date on which that instrument is deposited.
    (b)    The effective date of the deposit of the instrument of ratification or accession of any State in respect of which protection of industrial designs may be obtained only through the Office maintained by an intergovernmental organization of which that State is a member shall be the date on which the instrument of that intergovernmental organization is deposited if that date is later than the date on which the instrument of the said State has been deposited.
    (c)    The effective date of the deposit of any instrument of ratification or accession containing or accompanied by the notification referred to in Article 19 shall be the date on which the last of the instruments of the States members of the group of States having made the said notification is deposited.
    (d)    Any instrument of ratification or accession of a State may contain or be accompanied by a declaration making it a condition to its being considered as deposited that the instrument of one other State or one intergovernmental organization, or the instruments of two other States, or the instruments of one other State and one intergovernmental organization, specified by name and eligible to become party to this Act, is or are also deposited. The instrument containing or accompanied by such a declaration shall be considered to have been deposited on the day on which the condition indicated in the declaration is fulfilled. However, when an instrument specified in the declaration itself contains, or is itself accompanied by, a declaration of the said kind, that instrument shall be considered as deposited on the day on which the condition specified in the latter declaration is fulfilled.
    (e)    Any declaration made under paragraph (d) may be withdrawn, in its entirety or in part, at any time. Any such withdrawal shall become effective on the date on which the notification of withdrawal is received by the Director General.

Article 28

Effective Date of Ratifications and Accessions


(1)    [Instruments to Be Taken into Consideration]
    For the purposes of this Article, only instruments of ratification or accession that are deposited by States or intergovernmental organizations referred to in Article 27(1) and that have an effective date according to Article 27(3) shall be taken into consideration.
(2)    [Entry into Force of This Act]
    This Act shall enter into force three months after six States have deposited their instruments of ratification or accession, provided that, according to the most recent annual statistics collected by the International Bureau, at least three of those States fulfill at least one of the following conditions:
         (i)    at least 3,000 applications for the protection of industrial designs have been filed in or for the State concerned, or
         (ii)    at least 1,000 applications for the protection of industrial designs have been filed in or for the State concerned by residents of States other than that State.
(3)    [Entry into Force of Ratifications and Accessions]
    (a)    Any State or intergovernmental organization that has deposited its instrument of ratification or accession three months or more before the date of entry into force of this Act shall become bound by this Act on the date of entry into force of this Act.
    (b)    Any other State or intergovernmental organization shall become bound by this Act three months after the date on which it has deposited its instrument of ratification or accession or at any later date indicated in that instrument.

Article 29

Prohibition of Reservations

    No reservations to this Act are permitted.

Article 30

Declarations Made by Contracting Parties

(1)    [Time at Which Declarations May Be Made]
    Any declaration under Articles 4(1)(b), 5(2)(a), 7(2), 11(1), 13(1), 14(3), 16(2) or 17(3)(c) may be made

         (i)    at the time of the deposit of an instrument referred to in Article 27(2), in which case it shall become effective on the date on which the State or intergovernmental organization having made the declaration becomes bound by this Act, or
         (ii)    after the deposit of an instrument referred to in Article 27(2), in which case it shall become effective three months after the date of its receipt by the Director General or at any later date indicated in the declaration but shall apply only in respect of any international registration whose date of international registration is the same as, or is later than, the effective date of the declaration.
(2)    [Declarations by States Having a Common Office]
    Notwithstanding paragraph (1), any declaration referred to in that paragraph that has been made by a State which has, with another State or other States, notified the Director General under Article 19(1) of the substitution of a common Office for their national Offices shall become effective only if that other State or those other States makes or make a corresponding declaration or corresponding declarations.
(3)    [Withdrawal of Declarations]
    Any declaration referred to in paragraph (1) may be withdrawn at any time by notification addressed to the Director General. Such withdrawal shall take effect three months after the date on which the Director General has received the notification or at any later date indicated in the notification. In the case of a declaration made under Article 7(2), the withdrawal shall not affect international applications filed prior to the coming into effect of the said withdrawal.


Article 31

Applicability of the 1934 and 1960 Acts

(1)    [Relations Between States Party to Both This Act and the 1934 or 1960 Acts]
    This Act alone shall be applicable as regards the mutual relations of States party to both this Act and the 1934 Act or the 1960 Act. However, such States shall, in their mutual relations, apply the 1934 Act or the 1960 Act, as the case may be, to industrial designs deposited at the International Bureau prior to the date on which this Act becomes applicable as regards their mutual relations.

(2)    [Relations Between States Party to Both This Act and the 1934 or 1960 Acts and States Party to the 1934 or 1960 Acts Without Being Party to This Act]
    (a)    Any State that is party to both this Act and the 1934 Act shall continue to apply the 1934 Act in its relations with States that are party to the 1934 Act without being party to the 1960 Act or this Act.

    (b)    Any State that is party to both this Act and the 1960 Act shall continue to apply the 1960 Act in its relations with States that are party to the 1960 Act without being party to this Act.


Article 32

Denunciation of This Act

(1)    [Notification]
    Any Contracting Party may denounce this Act by notification addressed to the Director General.
(2)    [Effective Date]
    Denunciation shall take effect one year after the date on which the Director General has received the notification or at any later date indicated in the notification. It shall not affect the application of this Act to any international application pending and any international registration in force in respect of the denouncing Contracting Party at the time of the coming into effect of the denunciation.

Article 33

Languages of This Act; Signature

(1)    [Original Texts; Official Texts]
    (a)    This Act shall be signed in a single original in the English, Arabic, Chinese, French, Russian and Spanish languages, all texts being equally authentic.
    (b)    Official texts shall be established by the Director General, after consultation with the interested Governments, in such other languages as the Assembly may designate.

(2)    [Time Limit for Signature]
    This Act shall remain open for signature at the headquarters of the Organization for one year after its adoption.

Article 34

Depositary

    The Director General shall be the depositary of this Act.