Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1277, 126. löggjafarþing 453. mál: framsal sakamanna (Schengen-samstarfið).
Lög nr. 45 19. maí 2001.

Lög um breyting á lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13 17. apríl 1984, með síðari breytingum.


1. gr.

     Á eftir 23. gr. laganna koma tvær nýjar greinar er orðast svo:
     
     a. (23. gr. a.)
     Heimilt er stjórnvöldum að semja um að yfirvald í erlendu ríki megi senda einstaklingi hér á landi í pósti tilkynningu eða málsskjöl vegna rannsóknar eða meðferðar sakamáls.
     Nú er ástæða til að ætla að viðtakandi skilji ekki tungumálið sem skjal er ritað á og skal þá þýða skjalið eða meginefni þess á íslensku eða annað tungumál sem erlendu yfirvaldi er kunnugt um að viðtakandi skilur.
     Með tilkynningum eða málsskjölum skulu fylgja upplýsingar um að móttakandi geti fengið upplýsingar um réttindi sín og skyldur er leiðir af skjalinu hjá yfirvaldinu sem gaf það út eða öðrum yfirvöldum í viðkomandi ríki. Um slíkar leiðbeiningar gilda ákvæði 2. mgr.
     
     b. (23. gr. b.)
     Nú tekur erlendur opinber starfsmaður þátt í rannsókn eða meðferð opinbers máls hér á landi og gilda þá um hann ákvæði XII. og XIV. kafla almennra hegningarlaga eftir því sem við getur átt.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 11. maí 2001.