Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1508, 126. löggjafarþing 389. mál: lax- og silungsveiði (rekstrarleyfi, gjaldtaka, fiskeldisnefnd o.fl).
Lög nr. 83 31. maí 2001.

Lög um breyting á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
  1. Við bætast eftirfarandi orðskýringar í réttri stafrófsröð:
  2.       Erfðablöndun: Æxlun fiska milli stofna. Afkvæmi þeirra verða þá blönduð að erfðum. Til dæmis æxlun fisks sem sloppið hefur úr eldi með náttúrulegum, villtum laxi.
          Heilsárseldi: Hefðbundið laxeldi í sjókvíum frá 50 gramma göngustærð upp í markaðsstærð.
          Kynbætur: Markvisst val með tilliti til ákveðinna arfgengra eiginleika. Slíkir eiginleikar geta verið mikill vaxtarhraði eða síðkynþroski. Til undaneldis eru valdir fiskar sem sýna ákjósanlega eiginleika umfram aðra fiska í stofninum. Slíku vali er viðhaldið og það aukið með vali í hverri kynslóð.
          Skiptieldi: Eldi á laxi í strandeldi upp í 500–1.000 grömm og framhaldseldi í sjókvíum upp í markaðsstærð.
          Villtur fiskstofn: Hópur fiska sömu tegundar sem hrygnir á sama stað og á sama tíma en hrygnir ekki í neinum mæli með öðrum slíkum hópum.
          Örmerkingar: Merkingar á laxi með örsmáum málmflísum í trjónuna.
  3. Orðskýringin „Villtur laxastofn“ orðast svo:
  4.       Villtur laxastofn: Hópur laxa sem hrygnir á sama stað og á sama tíma en hrygnir ekki í neinum mæli með öðrum slíkum hópum.


2. gr.

     3. mgr. 15. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

     62. gr. laganna orðast svo:
     1. Til fiskeldis og hafbeitar þarf rekstrarleyfi veiðimálastjóra að fenginni umsögn dýralæknis fisksjúkdóma, fisksjúkdómanefndar og veiðimálanefndar. Veiðimálastjóri skal einnig leita umsagnar Veiðimálastofnunar um hvort náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu starfssvæði fiskeldis- eða hafbeitarstöðvar gefi tilefni til hættu á erfðablöndun og/eða neikvæðum vistfræðilegum áhrifum.
     2. Umsókn um rekstrarleyfi til fiskeldis eða hafbeitar skal vera skrifleg og skulu þar koma fram upplýsingar um m.a. eignaraðild að fiskeldis- eða hafbeitarstöð, fagþekkingu umsækjanda, stærð stöðvar, framleiðslumagn, eldistegundir, eldisaðferðir, matsskyldu framkvæmdar samkvæmt lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, starfsleyfi samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, o.fl. Umsókn skulu fylgja skilríki um afnot lands, vatns og sjávar, áætlun um fjármögnun mannvirkja og annars búnaðar, rekstraráætlun, leyfi til mannvirkjagerðar, leyfi til starfsemi samkvæmt ákvæðum annarra laga sem varða slíkan atvinnurekstur svo og önnur gögn sem veiðimálastjóri óskar eftir að lögð verði fram.
     3. Við meðferð umsóknar um rekstrarleyfi til fiskeldis eða hafbeitar skal veiðimálastjóri leggja mat á sjúkdómstengda og vistfræðilega þætti sem kunna að fylgja starfsemi fiskeldis- eða hafbeitarstöðvar. Veiti fyrirliggjandi gögn ekki nægilegar upplýsingar til að leggja mat á þá getur veiðimálastjóri lagt fyrir umsækjanda að láta í té frekari upplýsingar áður en rekstrarleyfi er veitt, þar á meðal að framkvæma á eigin kostnað rannsóknir á hvort fyrirhuguð starfsemi fiskeldis- eða hafbeitarstöðvar feli í sér aukna hættu á fisksjúkdómum og/eða óæskilegri blöndun fiskstofna, svo sem merkingar á fiski, samantekt á veðurfars- og haffræðilegum upplýsingum, samantekt á öðrum hagsmunum í veiðimálum og fiskeldi á svæðinu, mat á stöðu fiskstofna í helstu ám á svæðinu og mat á fari laxfiska í nágrenni fyrirhugaðrar eldisstöðvar.
     4. Ef umsókn og önnur gögn eru fullnægjandi að mati veiðimálastjóra gefur hann út rekstrarleyfi til fimm ára. Í rekstrarleyfi skulu vera ákvæði um stærð fiskeldis- eða hafbeitarstöðvar, hvort um sé að ræða seiðaeldi, hafbeit, strandeldi, skiptieldi eða heilsárseldi, leyfilegar tegundir í eldi, leyfilegt framleiðslumagn, hámark sleppinga á seiðum í hafbeit og skyldu fiskeldis- eða hafbeitarstöðvar til að annast vöktun og rannsóknir á nánasta umhverfi sínu. Jafnframt skulu í rekstrarleyfi vera ákvæði um varúðarráðstafanir til að koma í veg fyrir að fiskur sleppi vegna eldis eða flutnings á fiski og áætlun um aðgerðir til að endurheimta fisk sem sleppur. Veiðimálastjóri getur ákveðið að gefa út rekstrarleyfi til skemmri tíma og/eða takmarka stærð eða framleiðslumagn fiskeldis- eða hafbeitarstöðvar og hámark sleppinga á seiðum í hafbeit. Einnig getur veiðimálastjóri bundið rekstrarleyfi tilteknum skilyrðum, m.a. um að leyfishafi framkvæmi á eigin kostnað rannsóknir á hvort starfsemi fiskeldis- eða hafbeitarstöðvar hafi í för með sér aukna hættu á fisksjúkdómum, sníkjudýrum og/eða óæskilegri blöndun fiskstofna, svo sem merkingar á fiski, samantekt á veðurfars- og haffræðilegum upplýsingum, samantekt á öðrum hagsmunum í veiðimálum og fiskeldi á svæðinu, mat á stöðu fiskstofna í helstu ám á svæðinu, mat á fari laxfiska í nágrenni fyrirhugaðrar eldisstöðvar, mat á fari eldisfiska með kerfisbundnum merkingum og sleppingum á eldisfiski, vöktun á nærliggjandi ám og vöktun á kynþroska og heilbrigði fiska í eldi. Óheimilt er að gefa út rekstrarleyfi fyrr en ákvörðun um matsskyldu eða úrskurður um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir, sbr. lög nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, eftir því sem við á. Ákvörðun um rekstrarleyfi skal vera í samræmi við úrskurð um mat á umhverfisáhrifum. Enn fremur er óheimilt að gefa út rekstrarleyfi fyrr en starfsleyfi liggur fyrir samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.
     5. Rekstrarleyfi tekur fyrst gildi þegar dýralæknir fisksjúkdóma og veiðimálastjóri hafa gert úttekt á fiskeldis- eða hafbeitarstöð.
     6. Ef breytingar verða á eldistegundum og/eða framleiðslumagni getur veiðimálastjóri fellt rekstrarleyfi úr gildi.
     7. Framsal, leiga og veðsetning á rekstrarleyfi til fiskeldis- eða hafbeitar er óheimil.
     8. Fiskeldis- og hafbeitarstöðvum er óheimilt að hefja starfsemi eða flytja eldisfisk eða seiði í fiskeldis- eða hafbeitarstöð fyrr en rekstrarleyfi er fengið.
     9. Veiðimálastjóri getur afturkallað rekstrarleyfi samkvæmt lögum þessum ef leyfishafi eða starfsmenn hans brjóta gegn ákvæðum laganna eða stjórnvaldsfyrirmælum sem sett eru á grundvelli þeirra, skilyrðum leyfis er ekki fullnægt, leyfishafi verður ófær um að reka fiskeldisstöð eða ef eldisfiskur sleppur ítrekað frá fiskeldisstöð. Brjóti leyfishafi gegn ákvæðum laga þessara eða hlíti ekki þeim skilyrðum sem sett eru í rekstrarleyfi skal veiðimálastjóri veita honum skriflega viðvörun og hæfilegan frest til úrbóta. Sinni leyfishafi ekki slíkri viðvörun skal afturkalla rekstrarleyfi. Sé um ásetning eða stórkostlegt gáleysi að ræða getur veiðimálastjóri afturkallað rekstrarleyfi án undanfarandi viðvörunar eða frests til úrbóta.

4. gr.

     72. gr. laganna orðast svo:
     1. Fiskeldisstöð sem missir út eldisfisk er heimil, þrátt fyrir friðun á villtum fiski á svæðinu, veiði innan 200 metra frá stöðinni, enda sé það utan netlaga og veiðimálastjóra hafi verið tilkynnt um það. Heimild þessi takmarkast við þrjá sólarhringa frá því að fiskur slapp út ef þetta gerist á göngutíma laxfiska og skal framkvæmd í samráði við fulltrúa veiðimálastjóra.
     2. Ef fiskeldisstöð hefur ekki byrjað veiði skv. 1. mgr. innan 12 klukkustunda eftir að hún missir út eldisfisk getur veiðimálastjóri gefið út almenna heimild til veiði á svæðinu með sömu skilyrðum og fram koma í 1. mgr.
     3. Leyfishafa rekstrarleyfis er skylt að tilkynna embætti veiðimálastjóra ef fiskeldisstöð missir út eldisfisk.

5. gr.

     Á eftir 73. gr. laganna koma fjórar nýjar greinar og breytist greinatala samkvæmt því. Hinar nýju greinar orðast svo:
     
     a. (74. gr.)
     Ef fiskeldis- eða hafbeitarstöð hefur ekki hafið starfsemi að því marki sem gert var ráð fyrir í rekstraráætlun innan 12 mánaða frá útgáfu rekstrarleyfis er veiðimálastjóra heimilt að fella rekstrarleyfi úr gildi. Ef rekstraráætlun er ekki fylgt eftir þann tíma er veiðimálastjóra einnig heimilt að fella rekstrarleyfi úr gildi.
     
     b. (75. gr.)
     1. Kynbættan eldislax er eingöngu heimilt að nýta til fiskeldis og óheimilt er að sleppa honum í fiskrækt eða hafbeit. Veiðimálastjóri getur veitt rannsóknaraðila undanþágu til sleppitilrauna í smáum stíl að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar.
     2. Flutningur eldistegunda sem ekki eru tilgreindar í rekstrarleyfi milli fiskeldis- og hafbeitarstöðva, svo og flutningur og sleppingar lifandi fisks og frjóvgaðra hrogna milli ótengdra vatnasvæða, er óheimill.
     3. Veiðimálastjóri getur veitt undanþágu til flutnings á eldistegundum sem ekki eru tilgreindar í rekstrarleyfi milli fiskeldis- og hafbeitarstöðva svo og til flutnings á lifandi fiski og frjóvguðum hrognum milli ótengdra vatnasvæða að fenginni umsögn dýralæknis fisksjúkdóma og fisksjúkdómanefndar. Veiðimálastjóri skal leita umsagnar Veiðimálastofnunar um hvort náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu starfssvæði fiskeldis- eða hafbeitarstöðvar eða vatnasvæði gefa tilefni til aukinnar hættu á erfðablöndun og/eða neikvæðum vistfræðilegum áhrifum.
     
     c. (76. gr.)
     Innflutningur á notuðum eldisbúnaði er óheimill.
     
     d. (77. gr.)
     Landbúnaðarráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa kafla með reglugerðum og öðrum stjórnvaldsreglum, m.a. um útgáfu rekstrarleyfa, örmerkingar á hluta af eða öllum laxaseiðum í kvíaeldi, fóðurnotkun, endurnýjun eldisbúnaðar, úttekt á fiskeldis- og hafbeitarstöðvum, eftirlit með starfsemi fiskeldis- og hafbeitarstöðva, flutning eldistegunda milli fiskeldis- og hafbeitarstöðva, flutning fisks og frjóvgaðra hrogna milli ótengdra vatnasvæða o.fl. Landbúnaðarráðherra getur einnig að fenginni umsögn dýralæknis fisksjúkdóma, veiðimálanefndar, veiðimálastjóra og Veiðimálastofnunar takmarkað eða bannað fiskeldi, hafbeit eða ákveðnar eldisaðferðir í einstaka fjörðum, flóum eða landsvæðum sem teljast sérlega viðkvæm gagnvart slíkri starfsemi. Til grundvallar ákvörðun ráðherra skal taka mið af því að markmið ákvæðisins er að vernda og hlífa villtum laxfiskastofnum við erfðablöndun, fisksjúkdómum og neikvæðum vistfræðiáhrifum. Skal þá m.a. litið til staðsetningar eldisstöðva, stærðar þeirra, fjarlægðar þeirra frá veiðiám og veiðiverðmæti innan svæðisins, þ.e. fjarðar eða flóa. Jafnframt skal litið til þess hvort svæði til fiskeldis séu staðsett í farleiðum lax og silungs og hvort straumar geti leitt sleppifisk í ár. Jafnframt skal landbúnaðarráðherra ákvarða svæðaskiptingu fiskeldis samkvæmt lögum þessum meðfram strönd landsins utan netlaga og heildarframleiðslu á hverju svæði.

6. gr.

     85. gr. laganna, er verður 89. gr., orðast svo:
     1. Landbúnaðarráðherra hefur yfirstjórn allra fiskeldis- og veiðimála samkvæmt lögum þessum.
     2. Til aðstoðar landbúnaðarráðherra um stjórn fiskeldis- og veiðimála eru fiskeldisnefnd, veiðimálanefnd og veiðimálastjóri.

7. gr.

     Á eftir 88. gr. laganna kemur ný grein er verður 93. gr. og breytist greinatala samkvæmt því. Greinin verður svohljóðandi:
     1. Í fiskeldisnefnd eiga sæti fjórir menn. Landbúnaðarráðherra skipar nefndina til fjögurra ára í senn, einn án tilnefningar, einn samkvæmt tilnefningu sjávarútvegsráðherra, einn samkvæmt tilnefningu Hafrannsóknastofnunarinnar og einn samkvæmt tilnefningu Veiðimálastofnunar. Ráðherra skipar formann nefndarinnar. Varamenn skal skipa með sama hætti og aðalmenn.
     2. Fiskeldisnefnd skal vera til ráðgjafar og stefnumótunar um fiskeldi bæði á landi og í sjó og fara með þau mál sem henni eru falin samkvæmt lögum.

8. gr.

     1. mgr. 89. gr. laganna, sem verður 94. gr., orðast svo:
     1. Í veiðimálanefnd eiga sæti sex menn. Ráðherra skipar nefndina til fjögurra ára í senn, einn án tilnefningar, tvo samkvæmt tilnefningu Landssambands fiskeldis- og hafbeitarstöðva, einn samkvæmt tilnefningu Landssambands stangaveiðifélaga og tvo samkvæmt tilnefningu Landssambands veiðifélaga. Ráðherra skipar formann nefndarinnar og skal atkvæði hans ráða úrslitum ef atkvæði falla jöfn. Nú tilnefnir einhver framangreindra aðila eigi mann í veiðimálanefnd og skipar þá ráðherra í nefndina í hans stað. Varamenn skal skipa með sama hætti.

9. gr.

     Á eftir 91. gr. laganna kemur ný grein sem verður 97. gr. og breytist greinatala samkvæmt því:
     1. Veiðimálastjóri skal hafa eftirlit með fiskeldis- og hafbeitarstöðvum samkvæmt lögum þessum. Eftirlitið skal ná til rekstrarlegra og fiskeldislegra þátta í starfsemi stöðvanna og að skilyrði í rekstrarleyfi séu haldin. Skulu fiskeldis- og hafbeitarstöðvar færa dagbók varðandi starfsemina samkvæmt reglugerð sem landbúnaðarráðherra setur. Eftirlitsaðilum skal ætíð vera heimill aðgangur að eldisstöð og dagbók hennar. Forsvarsmönnum fiskeldis- og hafbeitarstöðva er skylt að veita veiðimálastjóra og eftirlitsaðilum hans allar þær upplýsingar og þá aðstoð sem nauðsynleg er við framkvæmd eftirlits og skoðunar.
     2. Veiðimálastjóra er heimilt að fela aðilum sem hlotið hafa faggildingu samkvæmt lögum nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu, að annast framkvæmd eftirlitsins samkvæmt sérstökum samningi. Eftirlitið skal framkvæmt á vegum veiðimálastjóra og eftir þeim reglum sem hann setur.
     3. Veiðimálastjóri skal fylgjast með starfi faggiltra eftirlitsaðila og sannreyna að þeir ræki skyldur sínar á fullnægjandi hátt, enda skulu þeir veita veiðimálastjóra upplýsingar um starfsemi og ástand fiskeldis- og hafbeitarstöðva á þann hátt sem hann ákveður. Veiðimálastjóri og faggiltir eftirlitsaðilar skulu bundnir þagnarskyldu um upplýsingar sem þeir fá við framkvæmd eftirlits.
     4. Verði misbrestur á að faggiltir eftirlitsaðilar ræki skyldur sínar samkvæmt samningi, vanræki þeir upplýsingaskyldu sína eða gefi rangar upplýsingar getur veiðimálastjóri sagt upp samningi við þá um framkvæmd eftirlits.
     5. Fyrir eftirlit veiðimálastjóra eða faggiltra eftirlitsaðila skulu fiskeldis- og hafbeitarstöðvar greiða árlegt eftirlitsgjald sem miðast við raunkostnað við eftirlitið samkvæmt gjaldskrá sem landbúnaðarráðherra staðfestir.
     6. Eftirlitsgjald skal innheimt með einni greiðslu á ári eigi síðar en 1. nóvember ár hvert. Veiðimálastjóri skal annast innheimtu eftirlitsgjaldsins. Ef eftirlitsgjald er ekki greitt á eindaga reiknast hæstu lögleyfðir dráttarvextir af fjárhæð þess frá gjalddaga til greiðsludags. Eftirlitsgjald má innheimta með fjárnámi.

10. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á tilvísunum í lögunum:
  1. Í stað „95. og 97. gr.“ í 3. mgr. 3. gr. kemur: 101. og 103. gr.
  2. Í stað „94. og 96. gr.“ í 5. mgr. 14. gr. kemur: 101. og 103. gr.
  3. Í stað „94. gr.“ í 6. mgr. 14. gr. kemur: 101. gr.
  4. Í stað „94. og 96. gr.“ í 7. mgr. 14. gr. kemur: 101. og 103. gr.
  5. Í stað „94. gr.“ í 4. mgr. 16. gr. kemur: 101. gr.
  6. Í stað „94. gr.“ í 17. gr. kemur: 101. gr.
  7. Í stað „94. gr.“ í 20. gr. kemur: 101. gr.
  8. Í stað „94. gr.“ í 5. mgr. 30. gr. kemur: 101. gr.
  9. Í stað „95. gr.“ hvarvetna í 2. mgr. 50. gr. kemur: 101. gr.
  10. Í stað „94. gr.“ í 2. mgr. 59. gr. kemur: 101. gr.
  11. Í stað „75. og 76. gr.“ í 1. mgr. 77. gr., sem verður 81. gr., kemur: 79. og 80. gr.
  12. Í stað „83. gr.“ í 1. mgr. 84. gr., sem verður 88. gr., kemur: 87. gr.
  13. Í stað „93. gr.“ í 94. gr., sem verður 100. gr., kemur: 99. gr.
  14. Í stað „95. gr.“ í 96. gr., sem verður 102. gr., kemur: 101. gr.
  15. Í stað „98. gr.“ í 99. gr., sem verður 105. gr., kemur: 104. gr.
  16. Í stað „100. gr.“ í 101. gr., sem verður 107. gr., kemur: 106. gr.


11. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Ákvæði laga þessara skulu gilda um veitingu allra rekstrarleyfa sem verða gefin út eftir gildistöku laganna.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Fiskeldis- og hafbeitarstöðvar sem eru í rekstri við gildistöku laga þessara skulu endurnýja rekstrarleyfi sín innan árs frá gildistöku þeirra.

II.
     Fiskeldis- og hafbeitarstöðvar sem starfað hafa á grundvelli starfsleyfis samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, skulu sækja um rekstrarleyfi samkvæmt lögum þessum innan árs frá gildistöku.

Samþykkt á Alþingi 20. maí 2001.