Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 416, 116. löggjafarþing 7. mál: vog, mál og faggilding (heildarlög).
Lög nr. 100 16. desember 1992.

Lög um vog, mál og faggildingu.


I. KAFLI
Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

     Lög þessi gilda um vog og mál, faggildingu og löggildingu mælitækja og vigtarmanna innan íslenskrar efnahagslögsögu.

2. gr.

     Í lögum þessum hafa eftirfarandi orð merkingu sem hér greinir:
      Eftirlit merkir athugun á vöru, þjónustu, hönnun vöru, ferli eða verksmiðju til að ákvarða samræmi þeirra við tilteknar kröfur eða almennar kröfur og skal þá byggt á faglegum úrskurði.
      Faggilding merkir aðferð sem þar til bær aðili beitir til að veita formlega viðurkenningu á því að aðili sé hæfur til að vinna tiltekin verkefni.
      Kvörðun merkir röð aðgerða sem staðfesta við tilgreindar aðstæður sambandið milli gilda sem mælitæki eða mælibúnaður sýnir eða gilda sem áþreifanlegur mælikvarði táknar og tilsvarandi þekktra gilda þess sem mælt er.
      Landsmæligrunnur merkir opinbera viðmiðun allra annarra mæligrunna í landinu.
      Löggilding merkir aðgerð til að tryggja og staðfesta að mælitæki og vigtarmenn fullnægi í einu og öllu kröfum laga og reglugerða.
      Mæligrunnur merkir áþreifanlegan mælikvarða, mælitæki eða mælibúnað til þess að skilgreina, raungera, varðveita eða birta einingu eða gildi eðlisfræðistærðar til þess að flytja þessa einingu eða stærð yfir á önnur mælitæki með samanburði.
      Prófun merkir tæknilega framkvæmd sem felur í sér ákvörðun á einu eða fleiri einkennum tiltekinnar vöru, ferils eða þjónustu samkvæmt fyrir fram tilgreindum verklagsreglum.
      Tilnefndur aðili merkir prófunarstofu, vottunarstofu eða eftirlitsaðila sem stjórnvöld tilnefna til að annast yfirumsjón með samræmismati samkvæmt tilskipunum Evrópubandalagsins (EB) og samkomulagi aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) um gagnkvæma viðurkenningu á niðurstöðum prófana og staðfestingum á samræmi frá 15. júní 1988 (Tampere-samkomulaginu).
      Vottun merkir aðferð sem þriðji aðili beitir til að veita formlega staðfestingu á því að vara, ferli eða þjónusta sé í samræmi við tilgreindar kröfur.

II. KAFLI
Mælieiningar og landsmæligrunnar.

3. gr.

     Á Íslandi skal nota alþjóðlega einingakerfið sem skilgreint er af Alþjóðastofnuninni fyrir vog og mál.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur ráðherra heimilað að notaðar séu mælieiningar utan alþjóðlega einingakerfisins. Þær skulu þó ávallt hafa viðmiðun í alþjóðlega einingakerfinu.
     Mælieiningar samkvæmt þessari grein nefnast lögformlegar mælieiningar.

4. gr.

     Í landinu skulu vera til nauðsynlegir landsmæligrunnar. Þeir skulu eiga ætt sína að rekja til alþjóðlegra frummæligrunna eins og þeir eru skilgreindir af Alþjóðastofnuninni fyrir vog og mál. Landsmæligrunnarnir skulu vera grundvöllur allra annarra mæligrunna hér á landi og kvörðunarvottorða.

III. KAFLI
Löggilding mælitækja.

5. gr.

     Skylt er að löggilda öll mælitæki sem notuð eru hér á landi til að mæla stærðir sem hafa áhrif á verð eða afgjald í hvers konar viðskiptum með vöru og þjónustu og skatt- og gjaldstofna.
     Ráðherra setur í reglugerð nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar, þar á meðal um reglubundna endurlöggildingu mælitækja. Í þeim er m.a. heimilt að undanþiggja tilteknar gerðir mælitækja ýtrustu kröfum um löggildingarhæfni. Slík mælitæki skulu þó háð eftirliti Löggildingarstofunnar.
     Löggildingarstofan sker úr um hvort mælitæki séu löggildingarskyld. Úrskurði hennar má þó vísa til ráðherra til endanlegrar ákvörðunar, enda sé það gert innan fjögurra vikna frá því að Löggildingarstofan kvað upp úrskurð sinn.

6. gr.

     Löggildingar- og eftirlitsskyld mælitæki skulu ávallt uppfylla þær mælitæknilegu kröfur sem til þeirra eru gerðar. Tækjunum skal þannig fyrir komið að hvorki umhverfi þeirra, uppsetning né aðbúnaður hindri notkun, prófun eða stillingu tækjanna. Sé þess ekki gætt má banna notkun þeirra.

7. gr.

     Hvarvetna þar sem viðskipti fara fram og hönd selur hendi og í því sambandi notuð löggildingar- eða eftirlitsskyld mælitæki skal þannig um búið að viðskiptavinurinn sjái greinilega þegar mæling fer fram og geti lesið mæliniðurstöður fyrirhafnarlaust.

8. gr.

     Löggildingar- og eftirlitsskyld mælitæki skulu vera staðsett með þeim hætti og vera í slíku ástandi að viðskiptavinurinn geti borið traust til þeirra niðurstaðna sem tækin sýna. Merkingar og ástand mælitækja og aukabúnaðar þeirra skulu ávallt vera í fullkomnu lagi.

9. gr.

     Aukabúnaður, sem tengdur er löggildingarskyldu mælitæki, skal sýna sömu mæliniðurstöðu og tækið sjálft.
     Tenging hvers kyns aukabúnaðar við löggildingarskylt mælitæki, sem dregið getur úr nákvæmni þess eða búnaðarins sjálfs, er með öllu óheimil.

10. gr.

     Eigendum eða vörslumönnum löggildingar- og eftirlitsskyldra mælitækja ber að sjá til þess að tækin sæti reglubundnu eftirliti og uppfylli þær kröfur sem til þeirra eru gerðar í lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
     Nú uppfyllir löggildingar- eða eftirlitsskylt mælitæki ekki þær kröfur sem til þess eru gerðar og skal notkun þess þá bönnuð. Heimilt er Löggildingarstofunni að loka með innsigli löggildingar- eða eftirlitsskyldum mælitækjum sem notkun hefur verið bönnuð á og hafa á brott með sér slík tæki eða hluta úr þeim ef vafi leikur á að settum reglum sé fullnægt.
     Óheimilt er að nota löggildingar- og eftirlitsskyld mælitæki nema þau beri gilt auðkenni þar að lútandi.

IV. KAFLI
Faggilding.

11. gr.

     Löggildingarstofan annast faggildingu fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Allir, sem þess óska, skulu geta látið faggilda starfsemi sína, enda uppfylli þeir þær kröfur sem settar eru, sbr. 12. gr.
     Nú er gerð krafa um faggildingu stofnana og fyrirtækja, sem framkvæma lögbundnar prófanir eða eftirlit eða votta að vara, ferli eða þjónusta, svo og hæfni og þekking starfsmanna, uppfylli lögbundnar kröfur og skal þá slíkri kröfu fullnægt af Löggildingarstofunni eða hliðstæðum stofnunum í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Ráðherra getur í reglugerð heimilað að faggilding frá stofnunum í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins gildi hér á landi.
     Löggildingarstofan metur tilnefnda aðila, sbr. 2. gr.
     Löggildingarstofan annast hér á landi málefni sem lúta að alþjóðlegum verklagsreglum á prófunarstofum í efnafræði.

12. gr.

     Ráðherra er heimilt að ákveða í reglugerð forsendur faggildingar skv. 11. gr. enda séu þær í samræmi við hliðstæðar forsendur í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Í reglugerðinni skal telja upp þá staðla sem byggt skal á og birta meginreglur og sérreglur um faggildingu, vottun, prófun og eftirlit, svo og reglur um brottfall faggildingar á slíkri starfsemi.

13. gr.

     Nú synjar Löggildingarstofan umsókn um faggildingu og skal synjunin þá rökstudd skriflega. Synjun má skjóta til sérstakrar úrskurðarnefndar. Hún skal skipuð einum fulltrúa hvors málsaðila og fulltrúa ráðuneytisins sem jafnframt er oddamaður.

V. KAFLI
Löggildingarstofan.

14. gr.

     Löggildingarstofan er sjálfstæð ríkisstofnun er lýtur yfirstjórn viðskiptaráðuneytis.

15. gr.

     Hlutverk Löggildingarstofunnar er að:
  1. löggilda mælitæki, hafa eftirlit með mælitækjum, löggilda vigtarmenn og sjá að öðru leyti um að lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim sé framfylgt,
  2. annast öflun, varðveislu og viðhald landsmæligrunna,
  3. annast kvörðun mæligrunna og mælitækja og útgáfu vottorða þar að lútandi,
  4. stunda faggildingu,
  5. veita stjórnvöldum og öðrum ráðgjöf um faggildingu og mælifræðileg málefni og stuðla að útbreiðslu þekkingar hér á landi á þeim sviðum,
  6. vera í fyrirsvari fyrir Íslands hönd í alþjóðlegu samstarfi um mælifræðileg málefni og á sviði faggildingar,
  7. hafa samstarf við aðra aðila sem fást við verkefni á sviði mælifræði og faggildingar.

     Ráðherra getur enn fremur falið Löggildingarstofunni að sjá um kennslu vigtarmanna og annast rannsóknir á sviði mælifræði.

16. gr.

     Ráðherra getur að tillögu Löggildingarstofunnar og að höfðu samráði við samtök atvinnulífsins, eftirlitsstofnanir og samtök neytenda ákveðið að komið skuli á fót eftirliti með mælitækjum á sviðum sem ekki falla undir 5. gr. þar sem þess er talin þörf vegna einstakra atvinnugreina eða hagsmuna neytenda, svo og vegna aðstæðna er varða umhverfisvernd og heilbrigði eða öryggi almennings.

17. gr.

     Löggildingarstofan skal, þar sem aðstæður mæla með, með samningi fela aðilum, sem þess óska og hafa sérþekkingu og nauðsynlega hæfni, að leysa verkefni sem henni eru falin samkvæmt lögum þessum.

18. gr.

     Löggildingarstofan innheimtir gjöld fyrir þjónustu sína samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur. Við ákvörðun um gjaldskrá skal við það miðað að tekjur stofnunarinnar standi undir útgjöldum hennar.
     Þess skal ávallt gætt að tekjum Löggildingarstofunnar af löggildingu mælitækja og annarri lögbundinni starfsemi sé ekki varið til að standa straum af kostnaði við þjónustu sem öðrum aðilum er einnig heimilt að veita.

VI. KAFLI
Löggiltir vigtarmenn.

19. gr.

     Vigtarmenn skulu hafa löggildingu Löggildingarstofunnar sem gefur út skírteini þeim til handa. Ráðherra setur þeim erindisbréf.
     Löggiltir vigtarmenn geta menn orðið uppfylli þeir eftirtalin skilyrði:
  1. eru búsettir hér á landi,
  2. eru fullra tuttugu ára,
  3. eru sjálfráða og fjárráða,
  4. hafa sótt námskeið og staðist prófkröfur í námskeiðslok.

     Í reglugerð skal kveðið á um prófkröfur skv. 4. tölul. 1. mgr.
     Synja má manni um löggildingu ef 68. gr. almennra hegningarlaga á við um hagi hans.
     Löggilding vigtarmanns gildir í allt að fimm ár en heimilt er að ákveða styttri gildistíma í einstökum tilfellum samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur.
     Heimilt er að binda löggildingu vigtarmanns við tiltekinn eða tiltekna vinnustaði. Enn fremur má undanþiggja ákveðna vinnustaði. Löggildingarstofan getur kveðið á um að störf hjá tilteknum vinnuveitendum séu ósamrýmanleg störfum löggiltra vigtarmanna.

20. gr.

     Vottorð löggilts vigtarmanns er full sönnun um þyngd þess sem vegið var og hvað var vegið. Ráðherra getur í reglugerð tilgreint að ákveðin störf skuli unnin af löggiltum vigtarmönnum.

VII. KAFLI
Ýmis ákvæði.

21. gr.

     Brot gegn lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim varða fésektum, varðhaldi eða fangelsi allt að fjórum árum ef sakir eru miklar. Dæma má fésekt jafnframt refsivist ef skilyrði 49. gr. almennra hegningarlaga eru fyrir hendi.
     Sá sem gefur aðilum, sem annast framkvæmd laga þessara, rangar skýrslur skal sæta refsingu skv. XV. kafla almennra hegningarlaga.
     Sektir samkvæmt lögum þessum má gera jafnt lögaðila sem einstaklingi. Lögaðila má ákvarða sekt án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á starfsmann lögaðilans. Hafi starfsmaður lögaðilans framið brot á lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim má einnig gera lögaðilanum sekt og sviptingu starfsréttinda, enda sé brotið drýgt til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hefur notið hagnaðar af brotinu. Lögaðili ber ábyrgð á greiðslu sektar sem starfsmaður hans er dæmdur til að greiða vegna brota á lögum þessum, enda séu brot tengd starfi hans hjá lögaðilanum.
     Dæma má upptöku eigna skv. 69. gr. almennra hegningarlaga í máli er rís vegna brota á lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim.

22. gr.

     Viðskiptaráðherra fer með framkvæmd laga þessara. Hann getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd þeirra.

23. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1993. Jafnframt falla úr gildi eftirfarandi lög:
      Lög nr. 13 4. júní 1924, um mælitæki og vogaráhöld.
      Lög nr. 33 16. nóvember 1907, um metramæli og vog.
     Tilskipun nr. 1 13. mars 1925, um mælitæki og vogaráhöld.
      Lög nr. 60 3. nóvember 1915, um löggilta vigtarmenn.
      Lög nr. 36 19. maí 1930, um vigt á síld.
      Lög nr. 21 22. mars 1949, um sölu á steinolíu, hráolíu, bensíni og smurningsolíu.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Þrátt fyrir ákvæði 19. gr. skulu löggildingar, sem veittar hafa verið vigtarmönnum af lögreglustjórum skv. 1. gr. laga nr. 60/1915, halda gildi sínu uns þeim er breytt eða þær eru afturkallaðar samkvæmt ákvæðum þessara laga, þó ekki lengur en til 1. janúar 1998.

II.
     Þrátt fyrir ákvæði 23. gr. öðlast ákvæði 2. mgr. 11. gr. ekki gildi fyrr en 1. janúar 1996.

Samþykkt á Alþingi 4. desember 1992.