Samþjöppun fyrirtækja á matvælamarkaði og hækkun vöruverðs

Mánudaginn 28. janúar 2002, kl. 15:27:40 (3610)

2002-01-28 15:27:40# 127. lþ. 61.1 fundur 272#B samþjöppun fyrirtækja á matvælamarkaði og hækkun vöruverðs# (óundirbúin fsp.), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 127. lþ.

[15:27]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Miklar umræður hafa átt sér stað um verðlagsmál og sér í lagi hækkun á matvælaverði. Morgunblaðið hefur t.d. flutt fregnir af því að einir tólf flokkar varnings hafi hækkað um 20--38%, sem er langt umfram gengislækkun og verðbólgu. Verkalýðshreyfingin hefur farið hamförmum gegn þessu, herra forseti, og hún hefur náð þeim árangri að stór fyrirtæki hafa lækkað verð sitt og við stjórnmálamenn höfum heldur ekki látið okkar eftir liggja.

Herra forseti. Spjótin beinast samt sem áður að samþjöppun á matvælamarkaði og fákeppni sem hefur hlotist af henni. Þetta hefur leitt til þess, herra forseti, að fram hafa komið upplýsingar sem benda til þess að í skjóli þessarar samþjöppunar, þessarar fákeppni, hafi stór fyrirtæki á matvælamarkaði notfært sér markaðsráðandi stöðu sína til þess að hækka álagningu úr hófi fram.

Minn stjórnmálaflokkur, Samfylkingin, hefur ákaflega skýra stefnu í þessu máli. Á landsfundi sínum sagði hún að ef ekki væru önnur úrræði þá ætti að heimila Samkeppnisstofnun að skipta slíkum fyrirtækjum upp, ef það þjónaði hagsmunum neytenda.

Ég spurði hæstv. forsrh. hvort hann væri sammála þessu og hann kvað já við.

Ég vil nú spyrja hæstv. viðskrh. sem jafnframt er ráðherra samkeppnismála og neytendamála, hvort hún sé ekki sammála hæstv. forsrh. um þetta efni og hvort hún hafi í kjölfar ummæla hans hafið vinnu í ráðuneyti sínu til þess að leggja fram lagabreytingar sem eru nauðsynlegar til þess að Samkeppnisstofnun geti gripið til þessa í þágu neytenda.