Samþjöppun fyrirtækja á matvælamarkaði og hækkun vöruverðs

Mánudaginn 28. janúar 2002, kl. 15:31:46 (3612)

2002-01-28 15:31:46# 127. lþ. 61.1 fundur 272#B samþjöppun fyrirtækja á matvælamarkaði og hækkun vöruverðs# (óundirbúin fsp.), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 127. lþ.

[15:31]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi skýru svör. Hæstv. ráðherra tók af tvímæli um að hún er þeirrar skoðunar að ef þörf krefur, þá eigi Samkeppnisstofnun að vera fært að skipta upp þessum stóru markaðskeðjum ef það þjónar hagsmunum neytenda. Mér finnst því að komin sé almenn samstaða á þinginu um að þetta er vopn sem kann að vera nauðsynlegt að grípa til og þá finnst mér auðvitað einboðið, herra forseti, að hæstv. ráðherra sem fer með samkeppnismálin undirbúi lagafrv. til þess að gera þetta.

Ég er auðvitað sammála henni um að það á ekki bara að láta þetta ná til matvælamarkaðarins heldur annarra greina líka. Ég vísa til þess, herra forseti, og spyr hæstv. ráðherra hvort hún telji ekki að sú skýrsla sem Samkeppnisstofnun birti á síðasta vori þar sem gerð var úttekt á álagningu milli 1996 og ársins 2000 gefi fullt tilefni til þess að veita Samkeppnisstofnun þessar heimildir. Þar kom einfaldlega í ljós að álagning hækkaði verulega á þessu árabili og langt umfram verðbólgu.