Þjóðgarður norðan Vatnajökuls

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 15:13:57 (5870)

2002-03-11 15:13:57# 127. lþ. 94.1 fundur 390#B þjóðgarður norðan Vatnajökuls# (óundirbúin fsp.), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[15:13]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég er sammála hæstv. umhvrh. að heimamenn eiga í ríkari mæli að koma að stjórnun þjóðgarða. Ég skil hins vegar núverandi lög um náttúruvernd með þeim hætti að breyta þurfi um til þess að hægt sé að gera slíkt. Ef yrði af slíkum þjóðgarði sem við höfum verið að ræða, þá mundi hann tengjast átta sveitarfélögum. Það yrði aðkoma í hann úr fjórum kjördæmum og þess vegna yrði það nokkurt verk að reyna að ráða til lykta hvernig ætti að fara með stjórn hans. Ég tel að það ætti að gera með íbúaþingi en það er ný aðferð sem hefur rutt sér til rúms til að komast að niðurstöðu í flóknum málum sem varða fólk af stóru svæði þannig að ég held að þetta sé eitt af því sem við hljótum að velta fyrir okkur.

Það skiptir hins vegar máli að stefnumótun liggi fyrir. Hæstv. ráðherra talaði um það áðan að setja þyrfti nefnd í málið, m.a. með aðkomu heimamanna og ég spyr því hæstv. ráðherra: Hvenær verður sú nefnd sett upp og hverjir munu aðrir eiga aðild að henni?