Reiknilíkan fyrir framhaldsskóla

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 15:35:51 (5885)

2002-03-11 15:35:51# 127. lþ. 94.1 fundur 393#B reiknilíkan fyrir framhaldsskóla# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[15:35]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir fyrirspurnina. Vandi framhaldsskólanna er vissulega bundinn reiknilíkaninu að hluta til en að öðru leyti eru vandkvæði í ákveðnum framhaldsskólum sem ekki verða beinlínis tengd reiknilíkaninu.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að fyrstu gagnrýnisraddir sem beindust að reiknilíkaninu voru frá smáum skólum. Fyrir sennilega tveimur árum var gerð athugun á þessu. Sú athugun leiddi til þess að sérstök jöfnunarframlög komu til hinna smærri skóla, þá var miðað við 300 ársnemendur, og bætti sú breyting á líkaninu mjög verulega stöðu þessara fámennu skóla.

Inni í þessu reiknilíkani eru enn einhverjir veikleikar sem við þurfum að leiðrétta og í ráðuneytinu hefur farið fram athugun á þessu. Þeirri athugun er lokið og nú koma til framkvæmda breytingar í fjárlögum sem rekja má beint til þessarar endurskoðunar. Engu að síður eru enn eftir vandamál í sambandi við reiknilíkanið sem á eftir að skoða nánar í ráðuneytinu. Ég vil samt taka mjög skýrt fram vegna þessarar fyrirspurnar að það að setja upp reiknilíkan og miða greiðslu við það tel ég að hafi verið mjög skynsamleg ráðstöfun og hafi ýtt undir aðhald og festu í rekstri framhaldsskólanna.