Afréttamálefni, fjallskil o.fl.

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 15:03:35 (6037)

2002-03-12 15:03:35# 127. lþ. 95.11 fundur 593. mál: #A afréttamálefni, fjallskil o.fl.# (ítala o.fl.) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[15:03]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú svo með marga hv. þm. að þó að þeir þekki lífið þá þekkja þeir ekki sálina í sauðkindinni svo vel og átta sig ekki á öllum þeim möguleikum sem hægt er að fara í til þess að fást við hana.

Hv. þm. spyr hér eftir félagslegum aðgerðum, ræðir mikið um girðingar o.s.frv. Ég fór í síðustu viku, og þá var hv. þm. í salnum, t.d. yfir þá aðferð sem beitt hefur verið víða, að reka ekki fé á ákveðin svæði í afréttum sem eru rýr og þess vegna varðandi sum þau svæði að setja ekki á undan þeim ám sem þangað fara. Ég minnist á Þjórsárverin kæru í þessum efnum þar sem fyrir eitthvað um 20--25 árum gengu kannski nokkur hundruð sauðkindur hvert sumar en nú má telja þær á fingrum annarrar handar því að menn fóru í félagslegar aðgerðir en ekki í þá girðingarvinnu sem menn virðast alltaf horfa á.

Ég get nefnt það hv. þm. til upplýsingar um sauðkindina að henni er ekið inn á fjall á vörubílnum þar sem henni er sleppt að vori og oft mætir hún þar einn góðan veðurdag að hausti eins og hún sé að fara til kirkju og vill heim. Svona er gáfnafar þessarar einstöku skepnu merkilegt.

Hv. þm. kemur inn á mörg fleiri atriði í sínu máli sem hafa má í huga. En ég vil vekja athygli á því að leiðirnar að markinu geta verið margar og af því að hv. þm. er félagslega sinnaður þá eru þessar félagslegu leiðir svo margvíslegar. Landgræðslustjóri var með mér á fjölmennum sauðfjárbændafundi á Hvolsvelli og upplýsti að hið góða tíðarfar og minnkandi beit hefði gert það að verkum að afréttum hefur farið verulega fram á síðustu tíu árum. Þetta vildi ég láta koma fram við þessa umræðu.