Afréttamálefni, fjallskil o.fl.

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 15:09:41 (6040)

2002-03-12 15:09:41# 127. lþ. 95.11 fundur 593. mál: #A afréttamálefni, fjallskil o.fl.# (ítala o.fl.) frv., KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[15:09]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Ég vona að staðhæfingar hæstv. landbrh. og hv. þm. Drífu Hjartardóttur um að gróðurfar sé í betra horfi nú en var séu réttar og ég gleðst yfir því. Það sést t.d. þegar maður lítur á sumar hlíðar að það er rétt vegna þess að veðurfar hefur lagast mikið undanfarin ár. Það skiptir máli. Hins vegar hafa menn verið með sérstakt átak, talað um mikinn uppblástur, fok og að gróður hafi líka átt undir högg að sækja. Til þess er nú verið að setja lög um Landgræðsluna. Það er verið að reyna að efla hana vegna þess að við eigum í varnarbaráttu. Ég hef skilið það svo. Ef ástandið er orðið svona gott og verður sífellt betra og betra þá gleðst ég yfir því, herra forseti. En mjög mikið var rætt um það á sínum tíma hvað sauðfé færi illa með landið. Það sem ég vil helst vekja athygli á í þessari umræðu er að það var ekki eingöngu sauðfé sem gekk illa um landið, þ.e. að það sé ekki eina orsökin fyrir því að landið á undir högg að sækja hvað varðar gróðurfar. Það var ég helst að leggja áherslu á í þessari umræðu. Ég vildi ekki endilega vera með einhver áfellisorð, hvorki yfir landbrh. né öðrum.