Kosningar til sveitarstjórna

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 14:37:52 (7014)

2002-04-05 14:37:52# 127. lþ. 112.1 fundur 550. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (erlendir ríkisborgarar o.fl.) frv. 27/2002, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 127. lþ.

[14:37]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. e., Halldór Blöndal, er vel að sér í sögunni. Ég ætla mér ekki að fara út í þá sálma. Ég held að hann sé samt sammála mér um að víkingarnir komu frá Norðurlöndum og voru þeir fyrstu sem komu hingað til landsins. Að því leytinu til höfum við blóðtengsl í þá áttina, sennilega meiri en nokkurn tíma til Skotlands og Englands þó að þaðan komi eflaust, samkvæmt nýjustu kenningum Íslenskrar erfðagreiningar, heilmikið af blóði okkar frá Bretum.

Ástæða þess að ég kom hér upp, herra forseti, var sú að hv. þm. talaði um að það ætti ekki að gilda nein hipsumhapsregla í þessum efnum. Með hipsumhaps leit ég svo á að hv. þm. meinti að ekki ætti að gilda nein önnur regla um Norðurlandabúa en aðra Evrópubúa. Ég tel að full ástæða sé til að mismunandi reglur gildi um þetta tvennt.